Hæstiréttur íslands

Mál nr. 746/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Skuldajöfnuður


Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 746/2014

ALMC hf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldajöfnuður. 

Aðilar málsins deildu um það hvort A hf. væri bundinn gagnvart L hf. af skuldajafnaðaryfirlýsingu sem hann gaf árið 2011 í tengslum við aðfararbeiðni L hf. og náði meðal annars til kröfu sem A hf. lýsti við slit L hf. árið 2012. A hf. hélt því fram að hann væri ekki bundinn af yfirlýsingunni þar sem L hf. hefði á sínum tíma hafnað skuldajöfnuðinum og A hf. ekki fylgt honum eftir og þar af leiðandi hafi umræddur skuldajöfnuður ekki verið framkvæmdur. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans í Hæstarétti, var talið að  A hf. hefði ekki með skýrum og afdráttarlausum hætti afturkallað yfirlýsinguna, en ekki nægði að breyta kröfugerð og málsástæðum sínum í aðfararmálinu. Þá hefði einnig verið brýn ástæða til þess að falla frá umræddri yfirlýsingu í kröfulýsingu A hf. við slit L hf. í ljósi fyrri samskipta aðila og reglna um ríkt skuldbindingargildi slíkra yfirlýsinga. Þá var ekki talið að ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. stæðu því í vegi að hinn umdeildi skuldajöfnuður gæti að réttu farið fram. Með vísan til framangreinds voru kröfur A hf. sem hann lýsti við slit L hf. hafnað.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri  kæru sem barst héraðsdómi 17. nóvember 2014 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2014, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfur sem sóknaraðili hafði lýst við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði viðurkenndar kröfur hans, annars vegar að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund sem njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, og hins vegar skaðabótakrafa að fjárhæð 938.014 sterlingspund sem njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í kæru sóknaraðila voru hafðar uppi dómkröfur og því lýst að hann yndi ekki niðurstöðu hins kærða úrskurðar og leitaði endurskoðunar á honum. Þá sagði í kæru að um málavexti, málsástæður og lagarök vísað sóknaraðili til greinargerðar sinnar til héraðsdóms en á sömu málsástæðum væri byggt hér fyrir dómi. Að þessu gættu fullnægði kæran nægjanlega áskilnaði 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því verður kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti hafnað.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, ALMC hf., greiði varnaraðila, LBI hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2014.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 2. júlí 2013, sem móttekið var 16. sama mánaðar. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var tekið til úrskurðar fimmtudaginn 11. september sl.

                Sóknaraðili er ALMC hf., Borgartúni 25, Reykjavík, en varnaraðili er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að við slit varnaraðila, LBI hf., verði viðurkennd krafa hans að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund (GBP) ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.745,55 GBP frá 31.10.2008, af 10.874,55 GBP frá 31.10.2008, af 2.355,60 GBP frá 28.11.2008, af 9.326,66, GBP frá 28.11.2008, af 4.018,60 GBP frá 30.01.2009, af 15.911,03 GBP frá 30.01.2009, af 1.144,43 GBP frá 27.02.2009, af 4.531,18 GBP frá 27.02.2009, af 1.245,96 GBP frá 31.03.2009, af 4.933,20 GBP frá 31.03.2009, af 5.196,31 GBP frá 30.04.2009, af 3.624,41 GBP frá 31.07.2009, af 14.350,29 GBP frá 31.07.2009, af 6.488,20 GBP frá 29.01.2010, af 25.689,04 GBP frá 29.01.2010, af 824,87 GBP frá 26.02.2010, af 3.265,94 GBP frá 26.02.2010, af 979,84 GBP frá 31.03.2010, af 3.879,51 GBP frá 31.03.2010, af 893,55 GBP frá 30.04.2010, af 3.537,88 GBP frá 30.04.2010, af 76.596,60 GBP frá 28.05.2010, af 276,69 GBP frá 01.06.2010, af 18.511,85 GBP frá 04.06.2010, af 14.769,09 GBP frá 30.07.2010, af 671.377,17 GBP frá 06.08.2010, af 3.180,69 GBP frá 31.08.2010, af 1.556,73 GBP frá 31.08.2010, af 2.979,72 GBP frá 30.09.2010, af 1.458,36 GBP frá 30.09.2010, af 4.289,76 GBP frá 29.10.2010, af 3.178,37 GBP frá 30.11.2010, af 1.555,59 GBP frá 30.11.2010, af 4.596,04 GBP frá 30.12.2010, af 8.971,84 GBP frá 31.03.2011,af 4.391,09 GBP frá 31.03.2011, af 3.962,81 GBP frá 28.04.2011, af 4.673,79 GBP frá 31.05.2011, af 258,71 GBP frá 23.06.2011 og af 1.184.889,39 GBP frá 30.06.2011, Í hverju tilviki til greiðsludags, og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara að dráttarvaxtakrafa njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. mgr. 110. gr. sömu laga. 

                Til vara krefst sóknaraðili þess að við slit varnaraðila, LBI hf., verði viðurkenndar kröfur hans, annars vegar að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund (GBP) og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og hins vegar skaðabótakrafa að fjárhæð 938.014 sterlingspund (GBP) og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga. 

                Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða 25,5% virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

                Varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð og hét áður Landsbanki Íslands hf. en nú LBI hf. Mál þetta er ágreiningsmál við þá slitameðferð. Sóknaraðili, sem nú heitir ALMC hf., hét áður Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf. og er fjármálafyrirtæki sem sætti slitameðferð sem lauk með nauðasamningi félagsins við lánardrottna, sem staðfestur var og hlaut endanlegt gildi í ágúst 2010.

                Á árinu 2004 gerðu málsaðilar, sem þá voru starfandi fjármálafyrirtæki, með sér rammasamkomulag um þátttöku sóknaraðila í fjárfestingum varnaraðila á Evrópskum markaði. Á grundvelli þess rammasamnings gerðu aðilar með sér samkomulag 9. september 2005 um aðild sóknaraðila að fjárfestingu varnaraðila í sambankaláni til Speedy 1 Ltd., sem er félag skráð í London í Bretlandi. Er í samkomulaginu kveðið á um kaupverð og skyldur samningsaðila og er m.a. kveðið á um að varnaraðili skuldbindi sig til að greiða sóknaraðila vexti og afborganir í réttu hlutfalli við hlutdeild hans í láninu jafnóðum og þær berist frá lántaka.

                Í málinu liggur fyrir að greiðslur bárust varnaraðila vegna afborgana af umræddum lánshluta á tímabilinu 31. október 2008 og allt þar til lántaki gerði lánið upp að fullu með greiðslu 1.184.889,39 sterlingspunda 30. júní 2011. Hafði varnaraðili þá móttekið greiðslur vegna fyrrnefndrar hlutdeildar sóknaraðila í umræddu láni alls að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund og er óumdeilt að með því hafi umrædd krafa verið greidd að fullu. Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki hafa upplýst hann um að hann hafi móttekið umræddar greiðslur á þessu tímabili fyrr en með afstöðubréfi 27. júlí 2012 í kjölfar kröfulýsingar sóknaraðila 2. maí sama ár.

                Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 44/2009, sem gildi tóku 22. apríl 2009, var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og markar gildistökudagur framangreindra laga upphaf hennar. Um slitameðferð fjármálafyrirtækja gilda að meginstefnu ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. október 2009.

                Sóknaraðili lýsti kröfu þeirri sem mál þetta snýst um fyrir slitastjórn varnaraðila með kröfulýsingu 2. maí 2012. Taldi sóknaraðili að krafan næmi samtals að höfuðstól 1.980.724 sterlingspundum en með nánar greindum dráttarvöxtum næmi krafan samtals 2.939.191 sterlingspundi. Auk þessa krafðist sóknaraðili 690.250 króna vegna kostnaðar við kröfulýsingu. Hann féll síðar frá þeirri kröfu og þykir ekki ástæða til að tíunda hana frekar. Krafðist sóknaraðili þess aðallega að krafa hans nyti stöðu sértökukröfu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara að krafan teldist búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. sömu laga. Til stuðnings því að krafan skyldi njóta rétthæðar samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu vísaði sóknaraðili til dóms Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 411/2011: Landsbanki Íslands hf. gegn Landsvaka hf. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 27. júlí 2012 féllst varnaraðili á að krafa sóknaraðila væri sambærileg þeirri sem um var fjallað í framangreindum Hæstaréttardómi og upplýsti jafnframt að varnaraðili hefði móttekið fullar efndir umræddrar kröfu samtals 2.137.291,89 sterlingspund. Kom því fram að slitastjórn teldi kröfu að framangreindri fjárhæð réttmæta og að henni bæri að skipa í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn hafnaði slitastjórn kröfunni á þeim grunni að hún teldist greidd með yfirlýsingu sóknaraðila um skuldajöfnuð sem gefin  hafi verið 1. júlí 2011. Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar en ekki tókst að leysa umræddan ágreining á jöfnunarfundum og málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar héraðsdóms.

                Ekki er hér fyrir dómi ágreiningur milli aðila um fjárhæð höfuðstóls kröfu sóknaraðila og að hún njóti að réttu stöðu í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Lýtur ágreiningur aðila annars vegar að því hvort krafa þessi teljist greidd með yfirlýsingu um skuldajöfnuð sem sóknaraðili gaf 1. júlí 2011. Einnig deila aðilar um hvort varnaraðila beri einnig að greiða nánar tilgreinda dráttarvexti af kröfunni eða skaðabætur sem sóknaraðili hefur reiknað með hliðsjón af dráttarvöxtum.

                Varnaraðili málsins lýsti kröfum við slitameðferð sóknaraðila. Ágreiningur varð um sumar þeirra og var hann leiddur til lykta með dómi Hæstaréttar 24. maí 2011 í máli nr. 77/2011. Með þeim dómi var fallist á að varnaraðili ætti kröfur á hendur sóknaraðila en ekki er nauðsynlegt að tíunda efni þeirra nánar hér. Með bréfi  9. júní 2011 skoraði varnaraðili á sóknaraðila að efna kröfur í samræmi við niðurstöðu dómsins og ákvæði nauðasamnings sóknaraðila sem fyrr er getið um. Var einnig gerð krafa um efndir á öðrum óumdeildum kröfum á hendur varnaraðila og tekið tillit til skuldajafnaðar sem heimilaður hafði verið samkvæmt dóminum, sem og annarra nánar greindra atriða sem leiddu til lækkunar kröfunnar. Þá sendi varnaraðili aðfararbeiðni til sýslumannsins í Reykjavík 30. júní 2011 þar sem krafist var aðfarar fyrir umræddum kröfum, samtals að fjárhæð 179.296.784 evrur. Með  bréfi 1. júlí 2011 lýsti sóknaraðili yfir skuldajöfnuði við kröfur varnaraðila og gerði grein fyrir kröfum sem hann taldi sig eiga á hendur varnaraðila m.a. þeirri kröfu sem hér eru um rætt og hann kvað vera að fjárhæð 3.183.317 evrur. Hafnaði hann greiðslukröfu varnaraðila með vísan til þess að kröfur hans á hendur varnaraðila næmu samtals hærri fjárhæð en þeim 179.296.784 evrum sem varnaraðili krefðist efnda á. Aðfararbeiðni var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni 27. júlí 2011 og mun sóknaraðili hafa lagt fram við fyrirtökuna bréf dagsett þann dag þar sem hann mótmælir framgangi gerðarinnar og ítrekar yfirlýsingu sína um skuldajöfnuð. Við fyrirtöku hjá sýslumanni 1. desember sama ár kynnti sýslumaður þá ákvörðun sína að stöðva framgang gerðarinnar. Var þar bókað eftir varnaraðila að hann bæri þá ákvörðun undir héraðsdóm. Gerði hann það með bréfi 22. desember 2011. Varnaraðili lagði fram greinargerð í málinu 2. mars 2012, en hann taldist sóknaraðili þess máls, og féllst ekki á skuldajöfnuð þann er sóknaraðili hafði lýst yfir 1. júlí 2011. Í greinargerð sóknaraðila, sem hann lagði fram 25. maí 2012 sem varnaraðili umrædds máls, krafðist hann þess aðallega að kröfum sóknaraðila yrði hafnað en til vara að krafa sóknaraðila sætti lækkun. Einnig krafðist hann þess að viðurkenndur yrði réttur hans til að skuldajafna 92.128 sterlingspundum, 2.939.191 sterlingspundi og 690.250 krónum. Við munnlegan málflutning skýrði lögmaður sóknaraðila það svo að umrædd viðurkenningarkrafa hefði verið gerð til öryggis til að tryggja rétt til skuldajafnaðar en að í greinargerðinni hafi skýrlega verið fallið frá yfirlýsingu um skuldajöfnuð gagnvart umræddri kröfu. Aðilar gerðu með sér samkomulag 30. janúar 2013 sem meðal annars fól í sér að sóknaraðili féll frá nefndri viðurkenningarkröfu í ofangreindu ágreiningsmáli og aðilar sammæltust um að úr ágreiningi vegna þeirrar kröfu yrði leyst við slitameðferð varnaraðila, eftir atvikum með vísun málsins til héraðsdóms til úrlausnar. Með dómi Hæstaréttar 7. maí 2013 var leyst úr þeim ágreiningi sem uppi hafði verið í ágreiningsmáli aðila um aðfarargerð, að frátalinni þeirri kröfu sem sóknaraðili hafði samkvæmt framansögðu fallið frá í samræmi við samkomulag aðila. Var ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðfarargerðina felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að framkvæma gerðina í samræmi við kröfur varnaraðila að frádregnum 133.396.143 evrum miðað við gengi 22. apríl 2009. Sú fjárhæð sem eftir stóð mun þá hafa verið 179.296.784 að frádregnum 133.396.143 evrum sem gera 45.900.641 evra.

II

                Í greinargerð sóknaraðila er vísað til þess að varnaraðili hafi staðfest, sbr. bréf hans 27. júlí 2012, að hafa veitt viðtöku á tímabilinu 30. október 2008 til 30. júní 2011 alls 2.137.291,89 sterlingspundum fyrir hönd varnaraðila, á grundvelli samnings um aðild að fjárfestingu dags. 9. september 2005 og rammasamkomulags dags. 25. maí 2004. Varnaraðili hafi einnig fallist á að sóknaraðili hafi, samkvæmt nefndum samningum, verið eigandi hlutar í hlutdeildum varnaraðila í sambankaláni til Speedy 1 Limited og að þessir samningar málsaðila hafi verið sambærilegir þeim sem fjallað hafi verið um í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 441/2011. Á sama hátt og í því máli teljist sóknaraðili vera eigandi fjárgreiðslna sem varnaraðili hafi móttekið fyrir hans hönd. Þessum fjárgreiðslum hafi varnaraðili ekki skilað til sóknaraðila. Ágreiningslaust sé með aðilum að umræddar greiðslur skuli njóta stöðu í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, sbr. nánar forsendur fyrrnefnds dóms Hæstaréttar.

                Ágreiningur málsaðila sé einskorðaður við hvort sóknaraðili hafi ráðstafað kröfu sinni með skuldajöfnuði þannig að það bindi hann gagnvart varnaraðila, og að höfnun varnaraðila sé réttmæt á þeim grundvelli. Því til viðbótar séu úrlausnarefni varðandi vexti/skaðabætur og kostnað.

                Sóknaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði með bréfi til varnaraðila 1. júlí 2011, en hann hafi hafnaði yfirlýsingunni. Varnaraðili hafi krafist aðfarar til fullnustu á kröfu sinni að fjárhæð 173.296.784 evrur eða 50.716.563.405 krónur, án tillits til nokkurs skuldajafnaðar, sbr. aðfararbeiðni hans dags. 30. júní 2011 og endurrit úr gerðarbók sýslumanns 27. júlí 2011 og 1. desember 2011. Þá hafi varnaraðili borið ákvörðun sýslumanns um stöðvun aðfarargerðar á grundvelli beiðni hans undir héraðsdóm.

                Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa ítrekað lýst yfir í orði og verki, að hann hafnaði og mótmælti skuldajöfnuði þeim sem sóknaraðili lýsti yfir 1. júlí 2011. Komi þetta að hans mati m.a. fram í bréfi varnaraðili til héraðsdóms 22. desember 2011 þar sem borin hafi verið undir dóminn ákvörðun sýslumanns um að fresta aðfarargerð þeirri sem varnaraðili hafi óskað eftir að færi fram til fullnustu á kröfum hans á hendur sóknaraðila. Slíkum röksemdum hafi einnig verið haldið fram í greinargerð varnaraðila til héraðsdóms í því máli. Hann hafi knúið á um aðför án tillits til nokkurs skuldajafnaðar. Sóknaraðili hafi ekki fylgt skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 1. júlí 2011 eftir, sbr. greinargerð hans til héraðsdóms í ágreiningsmáli um aðfarargerðina, dags. 25. maí 2012. Með því í fyrsta lagi að varnaraðili hafi hafnað téðum skuldajöfnuði og í öðru lagi að sóknaraðili hafi ekki fylgt skuldajafnaðaryfirlýsingunni eftir, hafi skuldajöfnuður ekki orðið bindandi fyrir sóknaraðila og hann hafi því ekki verið framkvæmdur.

                Sóknaraðili kveðst ennfremur vísa til 28. gr. laga nr. 21/1991, en þar séu taldar upp í sex töluliðum kröfur á hendur skuldara, sem nauðasamningur hafi ekki áhrif á. Í 5. tölulið séu taldar upp kröfur sem yrði fullnægt með skuldajöfnuði ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila frá 1. júlí 2011, sem varnaraðili byggi nú á, hafi ekki verið í samræmi við þetta ákvæði – hann hafi ekki uppfyllt skilyrði 100. gr. laganna. Með því að fallast á skuldajöfnuð væri þannig raskað innbyrðis stöðu kröfuhafa við nauðasamning sóknaraðila, sem mælt sé fyrir um í ákvæðum laganna nr. 21/1991 – varnaraðili myndi auðgast á kostnað annarra kröfuhafa. Lagaskilyrði skuldajafnaðar séu ekki uppfyllt.

                Að síðustu vísi sóknaraðili til þess að þá er skuldajöfnuði hafi verið lýst yfir hafi krafan sem mál þetta snúist um verið óvís, þar sem sóknaraðili hafi búið yfir afar takmörkuðum upplýsingum um atvik sem máli hafi skipt um kröfuna. Hann hafi ekki haft neinar upplýsingar um afdrif lána til Speedy 1 Limited, hvort af þeim hefði verið greitt o.s.frv. Varnaraðili hafi þverskallast við að veita sóknaraðila umbeðnar upplýsingar, eins og glöggt komi fram í samskiptum málsaðila um kröfuna. Eigi það meðal annars við um greiðslur sem varnaraðili hafi þá móttekið fyrir hönd sóknaraðila án þess að upplýsa hann neitt um það. Með því hafi varnaraðili brotið gegn sjálfsögðum skyldum sínum, sbr. ákvæði 1. gr. rammasamkomulagsins og 3. gr. samningsins um aðild að fjárfestingu. Bréf sóknaraðila 1. júlí 2011 hafi ekki verið reist á fullnægjandi upplýsingum um atvik að baki kröfunni, og í ljósi undanfarandi samskipta hafi varnaraðila mátt vera það ljóst.

                Verði gegn væntingum sóknaraðila komist að niðurstöðu um að skuldajöfnuður hafi orðið bindandi þrátt fyrir viðbrögð varnaraðila og samskipti í framhaldi, vegna bréfsins 1. júlí 2011, þá byggi sóknaraðili á að fella bæri þann skuldajöfnuð úr gildi á grundvelli 30., 33. og/eða 36. gr. laga nr. 7/1936 af ástæðum sem hér hafi verið raktar, sbr. einnig atriði sem nánari grein sé gerð fyrir í útlistun aðalkröfu og varakröfu hér síðar.

                Höfuðstóll aðalkröfu sóknaraðila, 2.137.291,89 sterlingspund, sé jafn samtölu greiðslna, sem varnaraðili hafi veitt móttöku fyrir hönd sóknaraðila og sé ekki um hann deilt í málinu.

                Krafa um dráttarvexti sé gerð með stoð í ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist sé dráttarvaxta af fjárhæðum, sem varnaraðili hafi móttekið frá og með móttökudegi hverju sinni, eins og fram komi í gögnum sem stafi frá varnaraðila og liggi fyrir í málinu. Sóknaraðili vísi sérstaklega til þess að samkvæmt 3. gr. samnings um aðild að fjárfestingu hafi varnaraðili verið skuldbundinn til þess að greiða sóknaraðila vexti og afborganir jafnóðum og þær hafi borist frá lántaka. Sóknaraðili telji jafnframt að þessi skylda leiði af almennum reglum og eðli máls.

                Verði talið að ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi ekki við beint, þá krefjist sóknaraðili þess að ákvæðunum verði beitt með lögjöfnun. Dráttarvextir samkvæmt lögunum séu lögákveðnar skaðabætur vegna dráttar á að inna greiðslur af hendi á réttum tíma. Sóknaraðili telji að eins og atvikum sé hér háttað sé aðstaðan eðlislík og að undirstöðurök lagaákvæðanna um dráttarvexti eigi við á nákvæmlega sama hátt.

                Til öryggis sé gerð varakrafa um að vaxtakrafan njóti rétthæðar skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, verði ekki fallist á að hún falli undir 109. gr. sömu laga. Um nánari rök vísist til útlistunar varakröfu hér á eftir.

                Varakrafa sé gerð til öryggis, verði ekki fallist á málsútlistun sóknaraðila hvað varði dráttarvexti. Varakrafan sé tvíþætt. Annars vegar sé krafist viðurkenningar á kröfu sóknaraðila að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund. Þetta sé hluti af aðalkröfu og vísist til málsástæðna hér að framan. Hins vegar sé krafist viðurkenningar á skaðabótakröfu sóknaraðila að fjárhæð 938.014 sterlingspund og að um rétthæð þeirrar kröfu fari samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Þar undir falli kröfur sem orðið hafi til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um töku búsins til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið baki öðrum. Sóknaraðili byggi á að í þessu tilliti eigi ákvæðið við á sama hátt, þar sem skilanefnd hafi verið skipuð yfir varnaraðila og stöðu hans megi jafna til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, sbr. forsendur í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 441/2011 og í máli nr. 356/2013. Athugist að óverulegur hluti höfuðstóls hafi verið greiddur varnaraðila áður en eiginleg slitameðferð varnaraðila hafi byrjað 22. apríl 2009, en eftir það tímamark eigi lagaákvæðið ótvírætt við, sbr. tilvísunarákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009.

                Sóknaraðili byggi skaðabótakröfu sína á atvikum, sem lýst hafi verið hér að framan. Varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni með því að halda eftir greiðslum, sem hann hafi móttekið fyrir hans hönd og hvorki skilaði né upplýst um. Hafi þetta verið brýnt brot á skyldum hans samkvæmt samningum aðila, auk þess sem telja verði að umboðsmaður, sem taki við fjárgreiðslum fyrir hönd umbjóðanda, beri almenna skyldu til þess bæði að láta umbjóðandann vita, og skila honum fjárgreiðslunum, án ástæðulauss dráttar. Sérstaklega eigi þetta við í þessu tilviki, þar sem skyldan samkvæmt samningunum sé skýr, og þar sem sóknaraðili hafi spurt varnaraðila sérstaklega um málið. Einnig sé til þess að líta að varnaraðili sé, eða a.m.k. hafi verið þar til nýlega, fjármálafyrirtæki, sem beri ríkar skyldur gagnvart viðskiptamönnum sínum og hafi á að skipa færum sérfræðingum. Verði að meta það varnaraðila til sakar, ásetnings eða grófrar vanrækslu að hafa ekkert gert hvað þetta varði svo árum skipti, en njóta ávaxtanna sjálfur.

                Telja verði að með þessari málsmeðferð hafi sóknaraðili orðið fyrir tjóni, með því að fara á mis við rétt skil á fjárgreiðslunum. Hann eigi rétt á að fá tjón þetta bætt samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Fjárhæð bótakröfu sóknaraðila svari til dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá og með móttökudegi varnaraðila á greiðslum hverju sinni til og með dagsins í dag. Sé byggt á að dráttarvextir, eins og þeir séu ákveðnir af Seðlabanka Íslands hf. samkvæmt lögunum, séu í eðli sínu lögákveðnar bætur fyrir að fara á mis við rétt skil á peningagreiðslum, en fordæmi fyrir þessari aðferð við ákvörðun skaðabóta sé að finna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 213/2010.

                Kveðst sóknaraðili leggja fram útreikning á kröfunni miðað við þessar forsendur og að í henni séu innbyggðar varakröfur um lægri fjárhæð, komist dómurinn að því að miða beri bætur annaðhvort við lægri vexti, eða aðrar dagsetningar heldur en útreikningur sóknaraðila miðist við.

                Sóknaraðili kveður kröfu sína um málskostnað gerða með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um að tekið verði tillit til skyldu varnaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé skaðleysiskrafa, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins.

III

                Í greinargerð varnaraðila er til þess vísað að af hans hálfu sé fallist á að krafa sóknaraðila byggi á sambærilegum grunni og um var fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 441/2011. Sé ekki ágreiningur í málinu um að sóknaraðili eigi kröfu að þeim höfuðstól sem hann krefst, 2.137.291,89 sterlingspund, og að krafa hans hefði að réttu notið stöðu í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 hefði ekki komið til greiðslu hennar með skuldajöfnuði 1. júlí 2011. Nemi framangreind fjárkrafa samtölu greiðslna sem varnaraðli tók á móti frá Speedy 1 Ltd. á tímabilinu frá 31. október 2008 og fram að lokagreiðslu 30. júní 2011.

                Varnaraðili kveðst byggja á að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila 1. júlí 2011 hafi falið í sér ákvöð og loforð sem bindi málsaðila. Í tilkynningu varnaraðila til sóknaraðila hafi varnaraðili fallist á þá ráðstöfun sóknaraðila sem yfirlýsingin hafi borið með sér, þó þannig að til uppgjörs kæmi 2.137.291,89 sterlingspund auk vaxta og kostnaðar að því marki sem fallist yrði á slíkt fyrir dómi. Varnaraðili telji ekki lagastoð fyrir aðal- og varakröfu sóknaraðila um greiðslu dráttarvaxta eða skaðabóta af höfuðstólsfjárhæð kröfunnar. Með vísan til þessa hafni varnaraðili kröfu sóknaraðila enda verði að líta svo á að lögvarin krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila hafi verið að fullu efnd með þeirri ráðstöfun sem falist hafi í fyrrnefndri yfirlýsingu sóknaraðila.

                Snúi ágreiningur aðila þannig annars vegar að því hvort höfuðstólsfjárhæð kröfu sóknaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði sem sóknaraðili hafi lýst yfir 1. júlí 2011. Hins vegar snúi ágreiningur aðila að vaxta- og skaðabótakröfum sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst byggja á því að með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 1. júlí 2011 hafi sóknaraðili ráðstafað eign sinni að höfuðstólsfjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund til greiðslu inn á skuld sóknaraðila við varnaraðila. Samkvæmt því hafi skuldbinding varnaraðila gagnvart sóknaraðila vegna sakarefnis þessa máls verið efnd að fullu og telur varnaraðili að sóknaraðili sé bundinn af þeirri skuldajafnaðaryfirlýsingu sem fram hafi komið í umræddu bréfi.

                Í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til þess að varnaraðili hafi hafnað tilgreindum skuldajöfnuði og að sóknaraðili hafi ekki fylgt skuldajafnaðaryfirlýsingunni eftir. Hafi skuldajöfnuður því ekki orðið bindandi fyrir sóknaraðila og hann ekki framkvæmdur. Varnaraðili mótmæli þessum málatilbúnaði sóknaraðila og vísi til eftirfarandi málsástæðna kröfum sínum til stuðnings.

                Í fyrsta lagi kveðst hann benda á að samkvæmt almennum meginreglum kröfu- og samningaréttar hafi skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila frá 1. júlí 2011 haft bæði verkanir sem ákvöð og sem loforð. Yfirlýsingin hafi þannig verið ákvöð að því leyti að hún hafi orðið bindandi fyrir varnaraðila við móttöku hennar 1. júlí 2011. Á hinn bóginn hafi yfirlýsingin haft verkan sem loforð í tilviki sóknaraðila þar sem hún hafi falið í sér skuldbindingu af hans hálfu. Í samræmi við framangreint hafi skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila verið bindandi fyrir báða málsaðila og hafi hún þegar orðið virk við móttöku varnaraðila á yfirlýsingunni.

                Fyrir liggi að skuldajafnaðaryfirlýsingin hafi ekki verið afturkölluð áður eða samtímis því að hún hafi verið komin til vitundar varnaraðila, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sé yfirlýsingin því bindandi fyrir sóknaraðila enda hafi hún ekki verið gerð óvirk í samræmi við framangreint lagaákvæði áður en hún hafi komið til vitundar varnaraðila.

                Í samræmi við almennar meginreglur kröfu- og samningaréttar hafi skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila leitt til brotfalls kröfu- og eignaréttinda aðila að því marki sem fjárhæð gagnkröfu sóknaraðila hafi verið lögmæt. Varnaraðili hafi því ekki getað hafnað yfirlýsingunni þannig að réttaráhrif hefði að lögum. Enn síður hafi verið nauðsynlegt fyrir varnaraðila að samþykkja yfirlýsinguna með formlegum hætti.

                Í öðru lagi sé á það bent að aðfararmáli milli aðila hafi verið markaður farvegur með aðfararbeiðni varnaraðila sem móttekin hafi verið hjá sýslumanninum í Reykjavík 30. júní 2011. Sóknaraðili hafi á þeim tíma ekki lýst yfir skuldajöfnuði vegna hinnar umþrættu kröfu í málinu. Eðli málsins samkvæmt hafi því ekki verið tekið tillit til skuldajafnaðaryfirlýsingar sóknaraðila í aðfararbeiðni varnaraðila. Sé á það bent að áður en aðfararbeiðnin hafi verið lögð inn til sýslumannsins Reykjavík hafi varnaraðili skorað á sóknaraðila að greiða nánar tilgreindar kröfur samkvæmt nauðasamningi sóknaraðila, sbr. bréf þess efnis 9. júní 2011. Sóknaraðili hafi ekki svarað þeirri kröfu innan tilskilins tímafrests.

                Í samræmi við framangreint sé því mótmælt sem greini í málatilbúnaði sóknaraðila um að í aðfararbeiðni varnaraðila hafi falist höfnun á skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila enda hafi yfirlýsingin ekki komið fram á þeim tíma.

                Í þriðja lagi sé á það bent að sóknaraðili hafi ítrekað skuldajafnaðaryfirlýsingu sína í bréflegum mótmælum sem hann hafi lagt fram við fyrirtöku aðfararmálsins hjá sýslumanninum í Reykjavík 27. júlí 2011. Hafi mótmælin lotið að því að varnaraðili hefði þegar fengið fullar efndir samkvæmt nauðasamningi samkvæmt skuldajöfnuði yfirlýstum af hálfu sóknaraðila. Sé því þannig sérstaklega mótmælt að sóknaraðili hafi ekki fylgt skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 1. júlí 2011 eftir. Því sé einnig mótmælt að varnaraðili hafi ítrekað lýst yfir að hann hafnaði téðum skuldajöfnuði og að sóknaraðili sé af þeirri ástæðu ekki bundinn af skuldajafnaðaryfirlýsingunni. Um þetta efni sé í málatilbúnaði sóknaraðila vísað til bréfs varnaraðila til héraðsdóms 22. desember 2011 þar sem borin hafi verið undir dóminn ákvörðun sýslumanns frá 1. þess mánaðar um að stöðva framgang aðfarargerðar sem og til greinargerðar varnaraðila í málinu sem hafði málsnúmerið Y-7/2011 fyrir héraðsdómi.

                Eins og að framan greini hafi aðfararmálinu verið markaður farvegur í aðfararbeiðni sem hafi verið afhent sýslumanninum í Reykjavíkur áður en til skuldajafnaðaryfirlýsingar sóknaraðila hafi komið. Eins og skýrt komi fram í greinargerð varnaraðila í tilgreindu héraðsdómsmáli, og sóknaraðili taki orðrétt upp í greinargerð sinni, hafi mótmæli varnaraðila aðeins lotið að fjárhæð gagnkröfu sóknaraðila og þar með hvaða fjárhæð væri tæk til skuldajafnaðar. Hafi mótmælin þannig í engu lotið að gildi skuldajafnaðaryfirlýsingar sóknaraðila.

                Sé í því samhengi vísað til þess að í yfirlýsingu sóknaraðila frá 1. júlí 2011 hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði að fjárhæð 3.173.317 evrur vegna þeirrar kröfu sem til úrlausnar sé í máli þessu og hafi sú yfirlýsing verið ítrekuð í framlögðum mótmælum sóknaraðila 27. sama mánaðar. Eins og að framan greini telji varnaraðili að aðeins 2.137.291,89 sterlingspund hafi verið tæk til skuldajöfnunar vegna tilgreindrar gagnkröfu sóknaraðila. Hafi mótmæli varnaraðili við meðferð aðfararmálsins þannig lotið að fjárhæð þess skuldajafnaðar sem sóknaraðili hafi lýst yfir en ekki að gildi hans að öðru leyti.

                Í fjórða lagi sé því mótmælt að sóknaraðili sé ekki bundinn af skuldajöfnuðinum með vísan til þess að hann hafi ekki fylgt yfirlýsingunni eftir í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur í ágreiningsmáli um aðfarargerðina. Eins og áður sé lýst hafi skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila ekki verið afturkölluð áður en hún hafi komið til vitundar varnaraðila. Hafi hin ætlaða síðbúna afturköllun yfirlýsingarinnar því engin réttaráhrif að lögum. Þá sé á það bent að sóknaraðili hafi haft uppi kröfu um viðurkenningu á rétti til skuldajafnaðar í tilgreindri greinargerð vegna þeirrar kröfu sem hér sé til umfjöllunar.

                Í fimmta lagi sé á það bent að sóknaraðili hafi ekki efnt skyldur sínar samkvæmt nauðasamningi gagnvart varnaraðila eins og skuldajöfnuður hafi ekki farið fram. Þvert á móti hafi greiðslur sóknaraðila til varnaraðila samkvæmt nauðasamningi miðað við að skuldajöfnuður hafi verið framkvæmdur. Sé um þetta efni vísað til samkomulags aðila frá 30. janúar 2013 sem liggi fyrir í málinu.

                Í samræmi við allt framangreint sé því mótmælt að skuldajöfnuður hafi ekki orðið bindandi fyrir sóknaraðila þar sem hann hafi ekki verið framkvæmdur vegna ætlaðra mótmæla varnaraðila og þar sem sóknaraðili hafi ekki fylgt skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 1. júlí 2011 eftir.

                Varnaraðili mótmæli málsástæðum sóknaraðila sem byggi á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 en í tilgreindu ákvæði séu taldar upp í sex töluliðum kröfur á hendur skuldara sem nauðasamningur hafi ekki áhrif á. Byggi sóknaraðili á að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við 5. tölulið ákvæðisins þar sem skuldajöfnuður hefði ekki uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili byggi á að sóknaraðili sé bundinn af skuldajafnaðaryfirlýsingunni. Fyrir hönd sóknaraðila hafi ritað undir yfirlýsinguna lögmennirnir Birna Hlín Káradóttir, Hörður Felix Harðarson og Ragnar Halldór Hall en hinir tveir síðastnefndu hafi verið skipaðir í slitastjórn sóknaraðila af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. maí 2009. Hafi tilgreindir aðilar því haft fullt umboð til að gefa út þá skuldajafnaðaryfirlýsingu sem mál þetta varði og ráðstafa með því sakarefninu. Þá sé á það bent að Hörður Felix Harðarson hafi undirritað fyrir hönd sóknaraðila mótmælabréf gegn aðfararbeiðni varnaraðila, 27. júlí 2011, þar sem skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila hafi verið ítrekuð.

                Vísar varnaraðili um þetta efni jafnframt til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Þá sé á það bent að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands verði riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum sem gerðar hafi verið af eða á ábyrgð slitastjórnar sóknaraðila. Í samræmi við framangreint sé sóknaraðili bundinn af skuldajafnaðaryfirlýsingunni frá 1. júlí 2011 sem þar til bærir aðilar hafi undirritað fyrir hönd hans.

                Auk framangreinds þá sé tilgreindri málsástæðu jafnframt mótmælt sem vanreifaðri enda sé engar útlistanir á skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991 að finna í málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti. Að öðru leyti byggi varnaraðili á að lagaskilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt í málinu. 

                Eins og áður greini hafi slitameðferð bæði sóknaraðila og varnaraðila byrjað 22. apríl 2009. Þetta hafi meðal annars falið í sér að 100. gr. laga nr. 21/1991 gilti um heimild kröfuhafa til skuldajöfnunar. Samkvæmt nefndri lagagrein geti hver sá sem skuldar þrotabúi (hér fjármálafyrirtæki í slitum) dregið það frá sem hann á hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið ef lánardrottinn hafi eignast kröfuna áður en þrír mánuðir hafi verið til frestdags enda hafi krafa þrotabúsins (hér fjármálafyrirtæki í slitum) orðið til fyrir frestdag. Frestdagur í slitameðferð sóknaraðila sé 9. mars 2009 og frestdagur í slitameðferð varnaraðila sé 15. nóvember 2008. Að mati varnaraðila geti ekki í því tilviki sem hér sé til úrlausnar orðið ágreiningur um að uppfyllt séu framangreind skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991.

                Verði litið svo á að sóknaraðili sé ekki bundinn af skuldajafnaðaryfirlýsingu sinni byggi varnaraðili á því að samt sem áður beri að hafna kröfu sóknaraðila þar sem uppfyllt séu öll skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Í því tilviki sé á því byggt að varnaraðila sé heimilt að efna skuldbindingu gagnvart sóknaraðila vegna Speedy 1 Ltd. með skuldajöfnuði við eftirstöðvar viðurkenndra gagnkrafna varnaraðila samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 77/2011.

                Varnaraðili mótmæli þeirri málsástæðu sem greini í málatilbúnaði sóknaraðila um að þegar skuldajöfnuði hafi verið lýst yfir 1. júlí 2011 hafi krafan sem mál þetta snúist um verið „óvís“ þar sem sóknaraðili hafi búið yfir afar takmörkuðum upplýsingum um atvik sem máli hafi skipt um kröfuna.

                Varnaraðili mótmæli því að krafa sóknaraðila hafi verið óviss þann 1. júlí 2011. Vísi varnaraðili um það efni til fylgiskjals með bréfi varnaraðila til sóknaraðila 27. júlí 2012 þar sem fram komi að varnaraðili hafi móttekið samtals 2.137.291,89 sterlingspund vegna lánshluta sóknaraðila á tímabilinu frá 31. október 2008 og fram að lokagreiðslu sem greidd hafi verið 30. júní 2011. Hafi gagnkrafa sóknaraðila því ekki verið óvís þegar sóknaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði 1. júlí 2011.

                Þá sé á það bent að samkvæmt almennum meginreglum kröfu- og samningaréttar sé það ekki skilyrði skuldajafnaðar að gagnkrafa sé skýr eða ótvíræð. Sóknaraðili hafi lýst yfir skuldajöfnuði vegna þeirrar kröfu sem mál þetta taki til. Sé nú ágreiningslaust milli aðila að höfuðstóll kröfunnar sé að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund og sé á því byggt af hálfu varnaraðila að sú fjárhæð sé tæk til skuldajafnaðar í samræmi við yfirlýsingu sóknaraðila. Þar sem enginn ágreiningur sé á milli aðila um höfuðstólsfjárhæð kröfunnar og að hún sé gild að öðru leyti sé því mótmælt að málsástæða sóknaraðila um að krafan hafi verið óviss þann 1. júlí 2011 hafi nokkra þýðingu við úrlausn sakarefnisins.

                Þá mótmæli varnaraðili málsástæðu sóknaraðila um að fella beri skuldajöfnuð úr gildi á grundvelli 30., 33. og/eða 36. gr. laga nr. 7/1936. Byggi varnaraðili á að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila frá 1. júlí 2011 hafi verið bindandi fyrir sóknaraðila og að ekki sé grundvöllur til að víkja þeirri yfirlýsingu til hliðar á grundvelli tilgreindra ógildingarreglna laga nr. 7/1936. Þar sem engar frekari útlistanir sé að finna í málatilbúnaði sóknaraðila fyrir tilgreindri málsástæðu mótmæli varnaraðili henni sem vanreifaðri. Að öðru leyti sé vísað til þess sem að framan sé rakið um skuldbindingargildi yfirlýsingarinnar.

                Í samræmi við allt framangreint sé á því byggt að með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 1. júlí 2011 hafi sóknaraðili ráðstafað eign sinni að höfuðstólsfjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund til greiðslu inn á skuld sóknaraðila við varnaraðila. Samkvæmt því hafi skuldbinding varnaraðila gagnvart sóknaraðila vegna sakarefnis þessa máls verið efnd að fullu með þeirri ráðstöfun sem falist hafi í skuldajafnaðaryfirlýsingunni. Beri því að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

                Verði ekki fallist á höfnun krafna sóknaraðila vegna skuldajafnaðar, sbr. það sem að framan sé rakið, þá sé ekki ágreiningur um að fyrrgreind höfuðstólsfjárhæð kröfu sóknaraðila njóti stöðu sértökukröfu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Ágreiningur sé hins vegar um vaxta- og skaðabótakröfur sóknaraðila.

                Varðandi höfnun aðalkröfu sóknaraðila byggir varnaraðili einkum á því á að samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2001 gildi þau lög aðeins um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og taki því ekki til kröfu um afhendingu á peningaeign samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því geti krafa sóknaraðila ekki borið vexti samkvæmt lögum nr. 38/2001. Þá sé á því byggt að ekki séu skilyrði til að beita lögum nr. 38/2001 með lögjöfnun. Mótmæli varnaraðili því að peningaeign sóknaraðila hafi borið dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 í vörslu varnaraðila. Þá mótmæli varnaraðili því sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem nemi ígildi dráttarvaxta þar sem afhending fjármuna hafi ekki farið fram, sbr. varakröfu í aðalkröfu sóknaraðila.

                Þá sé á það bent að skýr dómafordæmi Hæstaréttar liggi fyrir vegna þessa sakarefnis. Sé um það efni annars vegar vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 17/2013, Kaupþing hf. gegn The Bank of Tokyo-Mitsubishi UFS Ltd. og hins vegar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 72/2014, Glitnir hf. gegn LBI hf.

                Í samræmi við framangreint sé gerð krafa um að aðalkröfu sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 verði hafnað.

                Í varakröfu sóknaraðila sé auk kröfu um viðurkenningu höfuðstólsfjárhæðar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 krafist viðurkenningar á skaðabótakröfu sóknaraðila að fjárhæð 938.014 sterlingspund samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili kveðst mótmæla tilgreindri varakröfu sóknaraðila og krefst þess að henni verði hafnað. Varnaraðili vísi um þetta efni til þeirra málsástæðna sem greini í umfjöllun um aðalkröfu sóknaraðila að framan.

                Auk framangreinds byggi varnaraðili á því að enga lagastoð sé að finna fyrir kröfugerð sóknaraðila um skaðabætur sem nemi fjárhæð dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Beri að hafna kröfunni þegar á þeim grundvelli.

                Þá sé á það bent að eins og kröfugerð sóknaraðila sé háttað að þá virðist á því byggt að aðilinn hafi orðið fyrir tjóni sem nemi ígildi dráttarvaxta og að varnaraðili hafi getað ávaxtað peningaeign sóknaraðila á dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001. Mótmæli varnaraðili því með öllu sem ósönnuðu að peningaeign sóknaraðila hafi borið dráttarvexti hjá varnaraðila og að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem nemi ígildi þeirra þar sem afhending peningaeigna hafi ekki farið fram. Hvorki sé að finna lagastoð fyrir kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti né nokkur sönnunargögn sem sýnt geti fram á ætlað tjón aðilans. Fái sóknaraðili ekki breytt gildissviði laga nr. 38/2001 með því einu að breyta heiti dráttarvaxta samkvæmt lögunum í skaðabætur sem nemi fjárhæð dráttarvaxta í kröfugerð sinni.

                Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé gerð krafa um að varakröfu sóknaraðila um skaðabætur að fjárhæð 938.014 sterlingspund verði hafnað.

                Í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til þess að í varakröfu sóknaraðila séu innbyggðar varakröfur um lægri fjárhæð verði komist að þeirri niðurstöðu að miða beri bætur annaðhvort við lægri vexti eða aðrar dagsetningar heldur en útreikningur sóknaraðila miðist við. Varnaraðili mótmæli tilgreindum kröfum enda séu engar útlistanir eða málsástæður að baki hinum innbyggðu varakröfum að finna í málatilbúnaði sóknaraðila. Að öðru leyti sé vísað til þess sem að framan sé rakið vegna aðal- og varakröfu sóknaraðila um dráttarvexti og skaðabætur af höfuðstólsfjárhæð kröfu sóknaraðila.

                Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísi varnaraðili til almennra meginreglna kröfu- og samningaréttar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

IV

                Í máli þessu deila aðilar í fyrsta lagi um það hvort sóknaraðili sé bundinn gagnvart varnaraðila af skuldajafnaðaryfirlýsingu sem hann gaf 1. júlí 2011 og náði m.a. til þeirrar kröfu sem um er fjallað í máli þessu. Í málinu liggja fyrir gögn er varða ágreining aðila um aðfararbeiðni varnaraðila gagnvart sóknaraðila þar sem hann krafðist fullnustu krafna sem hann hafði lýst við slitameðferð sóknaraðila og höfðu m.a. verið staðfestar í dómi Hæstaréttar 23. maí 2011 í máli nr. 77/2011. Er aðfararbeiðni dagsett 30. júní 2011, eða degi fyrr en yfirlýsing sóknaraðila um skuldajöfnuð, en fyrir liggur að sú yfirlýsing var gefin til andsvara við bréfi varnaraðila 9. júní sama ár þar sem skorað var á sóknaraðila að efna umræddar kröfur í samræmi við staðfestan nauðasamning. Af gögnum má ráða að varnaraðili féllst ekki á skuldajafnaðaryfirlýsingu sóknaraðila undir rekstri aðfararmálsins en með samkomulagi aðila 30. janúar 2013 er mælt fyrir um að ágreiningur um þá kröfu sem hér er deilt um yrði leiddur til lykta í ágreiningsmáli við slitameðferð varnaraðila en ekki í aðfararmálinu. Á sama hátt bera skjöl málsins með sér að sóknaraðili hafi haldið til streitu kröfu sinni um skuldajöfnuð allt þar til hann lagði fram greinargerð sína í málinu fyrir héraðsdómi 25. maí 2012. Gerir hann þar grein fyrir því að hann hafi 2. dag sama mánaðar lýst kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila og að hann krefjist þess þar að krafan njóti stöðu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 sem sértökukrafa. Getur hann þess að verði krafa hans viðurkennd með þessa rétthæð beri varnaraðila að greiða hana í peningum. Kjósi hann því að draga kröfuna ekki frá þeim kröfum sem varnaraðili krefjist aðfarar fyrir, en hafi til öryggis uppi kröfu um að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna umræddum fjárhæðum. Kröfulýsing sú sem vitnað er til er sú sem hér er til meðferðar. Eins og fyrr er komið fram hafnaði slitastjórn varnaraðila kröfunni á þeirri forsendu að hún hefði verið greidd með skuldajafnaðaryfirlýsingu 1. júlí 2011.

                Í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 er m.a. kveðið á um að sá sem halda vilji uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra. Frá þessari reglu eru tilteknar undantekningar sem ekki eiga við hér. Kröfu þeirri sem hér er um fjallað var lýst fyrir slitastjórn varnaraðila 2. maí 2012. Þar sem slitastjórn viðurkenndi að krafa þessi nyti stöðu eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 komst hún að við slitin þó komið væri fram yfir kröfulýsingarfrest, sbr. 4. tl. 118. gr. sömu laga. Varnaraðili viðurkenndi að krafan næmi 2.137.291,89 sterlingspundum en hafnaði henni þar sem hann taldi að hún hefði verið greidd með yfirlýsingu sóknaraðila um skuldajöfnuð 1. júlí 2011. Bréf slitastjórnar sem kynnti framangreinda niðurstöðu er frá 27. júlí 2012 og með bréfinu fylgdu einnig upplýsingar um að varnaraðili hefði móttekið fullar efndir vegna umræddra kröfuréttinda í eigu sóknaraðila frá Speedy 1 Ltd. og sundurliðun þess hvenær hver einstök greiðsla hafi borist. Sóknaraðili kveður þetta hafa verið fyrstu upplýsingar sem hann hafi fengið frá varnaraðila um afdrif kröfunnar.

                Sóknaraðili mótmælir því ekki að hann hafi lýst yfir skuldajöfnuði vegna umræddrar kröfu á umræddum degi, en byggir á að hann sé ekki bundinn við þá yfirlýsingu þar sem varnaraðili hafi hafnað skuldajöfnuðinum og sóknaraðili hafi ekki fylgt honum eftir. Byggir hann því á því að umræddur skuldajöfnuður hafi ekki verið framkvæmdur.

                Ekki er um það deilt í þessu máli, enda í samræmi við skýra réttarframkvæmd, að yfirlýsing um skuldajöfnuð bindur þann sem hana gefur og einnig þann sem henni er beint að eftir að hún er komin til hans. Felur hún því bæði í sér loforð og ákvöð. Vilji sá sem slíka yfirlýsingu gefur afturkalla hana þarf slík afturköllun að vera komin til móttakanda áður eða samtímis að skuldajafnaðaryfirlýsingin er komin til vitundar hans, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Séu skilyrði að öðru leyti uppfyllt getur móttakandi yfirlýsingarinnar ekki hafnað henni, en ekki er nauðsynlegt að hann samþykki hana. Það er og mat dómsins að fallast beri á þá röksemd sóknaraðila að ef viðtakandi skuldajafnaðaryfirlýsingar hafnar henni eigi gagnaðili kost á að falla frá yfirlýsingu sinni með þeim réttaráhrifum að sá sem hafnaði yfirlýsingunni geti ekki síðar byggt á henni rétt. Það er á hinn bóginn mat dómsins að slíka afturköllun skuldajafnaðaryfirlýsingar þyrfti að framkvæma með skýrum og afdráttarlausum hætti. Ekki er um það deilt í málinu að sóknaraðili gaf yfirlýsingu um skuldajöfnuð 1. júlí 2011. Þá liggur og fyrir að mati dómsins að varnaraðili lýsti því yfir að hann féllist ekki á þann skuldajöfnuð, en ekki þykir hér skipta máli nákvæmlega á hvaða forsendum það var gert. Við þær aðstæður hefði sóknaraðila verið heimilt, sbr. það sem að framan greinir, að falla frá yfirlýsingu sinni um skuldajöfnuð. Það er mat dómsins að fallast verði á með varnaraðila að þetta hafi sóknaraðili ekki gert með þeim hætti að hann teljist með því hafa afturkallað yfirlýsingu sína um skuldajöfnuð. Hefði sóknaraðili þurft að lýsa því afdráttarlaust yfir að hann félli frá umræddri yfirlýsingu, en ekki nægir í þessu sambandi að mati dómsins að breyta kröfugerð og málsástæðum sínum í því aðfararmáli sem oftlega hefur verið vitnað hér til. Þá er og ekki vikið að því í kröfulýsingu sóknaraðila að hann hygðist falla frá umræddri skuldajafnaðaryfirlýsingu, en telja verður að brýn ástæða hefði verið til þess í ljósi fyrri samskipta aðila og fyrrnefndra reglna um ríkt skuldbindingargildi slíkra yfirlýsinga.

                Að framangreindum röksemdum frágengnum byggir sóknaraðili á því að 5. tl. 28. gr. laga nr. 21/1991 standi því í vegi að hinn umdeildi skuldajöfnuður geti að réttu farið fram. Á þetta verður ekki fallist. Sú krafa sem hér er fjallað um er krafa sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila, en varnaraðili hefur ekki gert nauðasamning við lánardrottna sína. Á hinn bóginn þarf hinn umdeildi skuldajöfnuður að standast skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Í því lagaákvæði greinir m.a. að hver sá sem skuldi þrotabúinu geti dregið það frá sem hann eigi hjá því, hvernig sem skuld og gagnkröfu sé varið, ef lánardrottinn hafi eignast kröfuna áður en þrír mánuðir hafi verið til frestdags, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Frestdagur við slit varnaraðila er 15. nóvember 2009. Umrædd krafa byggir á 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 þar sem kveðið er á um að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skuli með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið eigi ekki tilkall til. Við munnlegan málflutning vísaði lögmaður sóknaraðila til þess að krafa hans hefði stofnast þegar greiðslur hafi verið inntar af hendi til varnaraðila og því sé ekki uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 um að sóknaraðili hafi eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Þessu mótmælir varnaraðila bæði á þeim grunni að málsástæðan sé of seint fram komin og eins að krafan hafi stofnast við kaup sóknaraðila á hlutdeild í sambankaláni af varnaraðila. Að mati dómsins þarf að hafa hér í huga að krafa á grundvelli 1. mgr. 109. gr. er krafa um afhendingu eignar. Réttindi þessi urðu eign sóknaraðila við sölu varnaraðila til hans á árinu 2005 og hefði sóknaraðili átt sama rétt til afhendingar réttindanna þótt eiginlegur skuldari hefði ekkert greitt. Varð krafan sóknaraðila á hendur varnaraðila því ekki til við móttöku hins síðarnefnda á greiðslum í eigu sóknaraðila samkvæmt umræddum samningi. Þegar af framangreindum ástæðum stendur 100. gr. laga nr. 21/1991 því ekki í vegi að fallist verði á umræddan skuldajöfnuð. Þá er ekki unnt að fallast á að fyrrnefnt lagaákvæði, eins og það er orðað, standi því í vegi að peningaeign sóknaraðila í vörslum varnaraðila verði að réttu nýtt til skuldajafnaðar. Þá eru ekki efni til að fallast á að krafa sóknaraðila hafi verið óvís eða atvik verið sóknaraðila ókunn með þeim hætti að áhrif gæti haft á gildi yfirlýsingar hans um skuldajöfnuð. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er fallist á með varnaraðila að framangreind krafa sóknaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði 1. júlí 2011 að fjárhæð 2.137.291,89 sterlingspund.

                Með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2013 í máli nr. 17/2013 er ekki unnt að fallast á að krafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 geti borið dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sóknaraðili hefur ekki rökstutt kröfu sína um skaðabætur með þeim hætti að unnt sé að átta sig á hverrar fjárhæðar hann krefjist miðað við að höfuðstóll kröfunnar hafi verið greiddur að fullu 1. júlí 2011. Verður að hafna kröfunni þegar af þeim ástæðum.

                Með vísan til alls sem að framan er rakið er kröfum sóknaraðila hafnað.

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gísli Guðni Hall hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Sölvi Davíðsson hdl. vegna Kristins Bjarnasonar hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Framangreindum kröfum sóknaraðila, ALMC hf., sem hann lýsti við slitameðferð varnaraðila, LBI hf., er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.