Hæstiréttur íslands
Mál nr. 634/2014
Lykilorð
- Skaðabætur
- Slysatrygging
- Sjómaður
- Líkamstjón
- Vextir
- Fyrning
- Gjafsókn
Skaðabætur. Slysatrygging. Sjómenn. Líkamstjón. Vextir. Fyrning. Gjafsókn.
A höfðaði mál á hendur T hf. til greiðslu bóta vegna líkamstjóns sem hann hlaut við störf um borð í skuttogara í desember 2007. Hæstiréttur leysti úr ágreiningi um frádrátt vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og um vexti og dráttarvexti af skaðabótakröfunni. Talið var að T hf. hefði verið rétt að draga frá bótum A vegna slyssins 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og var T hf. að virtum útreikningi og útskýringum tryggingastærðfræðings á þeirri fjárhæð sem koma ætti til frádráttar á þeim grunni talinn hafa sýnt nægilega fram á réttmæti útreikningsins. Var T hf. því sýknaður af kröfu A um frekari bætur vegna varanlegrar örorku og miska af völdum slyssins. Við uppgjör bótanna á grundvelli yfirmatsgerðar hafði T hf. einungis greitt vexti af höfuðstól þeirra samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga og bar því við að krafa um eldri vexti væri fyrnd. Var T hf. sýknaður af kröfu um frekari vexti með skírskotun til fjögurra ára fyrningartíma samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sökum þess að fyrningu hefði fyrst verið slitið við málshöfðun í október 2012. Þá var upphafstími dráttarvaxta ákveðinn eftir almennri reglu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ágreiningur um bætur fyrir sjúkrakostnað A og annað fjártjón hans kom ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti, þar sem héraðsdómur hafði vísað þeim hluta kröfunnar frá dómi og A kærði ekki þá úrlausn sérstaklega.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson .
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 18.074.771 krónu með 4,5% ársvöxtum frá 12. desember 2007 til 23. júní 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda 15. apríl 2013 að fjárhæð 3.000.000 krónur, 6. desember sama ár að fjárhæð 12.136.202 krónur og 7. maí 2014 að fjárhæð 575.824 krónur. Þá krefst áfrýjandi hækkunar á dæmdum málskostnaði í héraði og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er sú sama og endanleg krafa hans á hendur stefnda í héraði, að teknu tilliti til fyrrgreindrar innborgunar 7. maí 2014. Með hinum áfrýjaða dómi var þeim hluta kröfunnar, sem laut að því að áfrýjanda yrðu ákveðnar bætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón að álitum, vísað frá héraðsdómi. Þar sem áfrýjandi hefur ekki kært þá úrlausn sérstaklega, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sætir hún ekki endurskoðun hér fyrir dómi.
Í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, sem í gildi var 12. desember 2007 þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu sem mál þetta snýst um, var svo um samið að útgerð skyldi tryggja hvern þann mann sem samningurinn næði til og slasaðist um borð í skipi í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Skyldu bætur úr vátryggingu þessari ákvarðast á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiddi það til hærri heildarbóta en samkvæmt áðurnefndri lagagrein. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að rétt hafi verið að draga frá bótum áfrýjanda vegna slyssins 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Fyrir héraðsdómi lagði stefndi fram útreikning tryggingastærðfræðings á þeirri fjárhæð sem koma ætti til frádráttar á þeim grunni. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi lagt fram nánari útskýringar tryggingastærðfræðingsins á forsendum útreikningsins og sýnt þar með nægilega fram á réttmæti hans. Að þessu virtu og með vísan til forsendna héraðsdóms um úrlausn á öðrum ágreiningsatriðum aðila í tengslum við frádrátt frá bótum til áfrýjanda verður staðfest sú niðurstaða að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda um frekari bætur vegna varanlegrar örorku og miska af völdum slyssins.
Við uppgjör á bótum til áfrýjanda 10. desember 2013 á grundvelli yfirmatsgerðar dómkvaddra manna greiddi stefndi einungis vexti af höfuðstól bótanna samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga frá 10. október 2008 þar sem hann taldi eldri vexti vera fyrnda. Sökum þess að vextir af höfuðstólnum fyrndust á fjórum árum samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og fyrningu var fyrst slitið þegar mál þetta var höfðað 10. október 2012 verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda um greiðslu frekari vaxta en dæmdir voru í héraði, þó þannig að upphafstími dráttarvaxta verður reiknaður frá síðastnefndum degi í samræmi við hina almennu reglu 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um málskostnað. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda í héraði er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 ber að ákveða í dómi fjárhæð þóknunar lögmanns gjafsóknarhafa, en að öðru leyti á ekki að taka þar afstöðu til þess hvað gjafsóknarhafa skuli greitt af kostnaði sínum af máli. Ákvæði héraðsdóms um þóknun lögmanns áfrýjanda verður látið standa óraskað, en um gjafsókn í héraði fer að öðru leyti samkvæmt því sem í dómsorði segir.
Samkvæmt öllu framansögðu verður sá hluti hins áfrýjaða dóms, sem til endurskoðunar er hér fyrir dómi, staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, A, dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 12.282.984 krónum frá 10. október 2012 til 15. apríl 2013 og af 9.282.984 krónum frá þeim degi til 6. desember sama ár, að frádregnum 4,5% ársvöxtum af kröfu áfrýjanda sem stefndi hefur greitt vegna sama tímabils.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans eins og hún var ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2014.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið að loknum endurflutningi 26. júní sl. er höfðað af A, […], gegn Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 10. október 2012.
Endalegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 18.074.771 kr. með 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 12. desember 2007 til 23. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda, 3.000.000 kr. þann 15. apríl 2013 og 12.136.202 kr. þann 6. desember 2013. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæðin [svo] beri dráttarvexti frá þingfestingardegi til greiðsludags, að frádregnum fyrrnefndum innborgunum. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið sé ekki gjafsóknarmál.
Endalegar kröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað
II.
Málavextir
Málavextir eru þeir að stefnandi varð hinn 12. desember 2007 fyrir slysi um borð í […] en hann starfaði þar sem […]. Útgerðarfélagið var tryggt hjá stefnda sem viðurkenndi bótaskyldu í málinu og var læknunum B og C falið að meta líkamstjón stefnanda með sameiginlegri beiðni beggja aðila. Í matsgerð þeirra frá 12. janúar 2009 var varanlegur miski stefnanda metinn 30 stig og varanleg örorka 55%. Á grundvelli matsgerðarinnar var tjón stefnanda gert upp í apríl 2009. Af hálfu þáverandi lögmanns stefnanda var gerður fyrirvari um rétt tjónþola til frekari bóta yrði varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Eftir að framangreint uppgjör hafði farið fram taldi stefnandi sig hafa orðið fyrir frekari tjóni vegna slyssins. Af því tilefni óskaði núverandi lögmaður hans eftir mati þar að lútandi frá sérfræðingunum D bæklunarlækni og E, sérfræðingi í líkamstjónarétti. Stefndi hafnaði aðkomu að endurmatinu. Í mati sérfræðinganna, frá 23. maí 2012, er varanlegur miski stefnanda metinn 45 stig og varanleg örorka 90%. Stefnandi krafði stefnda sama dag um frekari bætur á grundvelli matsins. Ekki liggja fyrir í málinu afgerandi svör frá stefnda vegna kröfunnar en hann fór hann fram á það 19. september 2012 að dómkvaddir yrðu sérfræðingar til að láta í té álit um varanlegar afleiðingar slyssins. Hinn 9. nóvember 2012 voru F bæklunarlæknir og G lektor dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Í millitíðinni höfðaði stefnandi mál þetta. Í mati hinna dómkvöddu matsmanna frá 8. apríl 2013 er varanlegur miski stefnanda metinn 35 stig og varanleg örorka 75%. Í kjölfarið greiddi stefndi stefnanda 3.000.000 kr. Stefnandi fór fram á að dómkvaddir yrðu þrír sérfræðingar til að framkvæma yfirmat og voru H bæklunarskurðlæknir, I lögfræðingur, og J prófessor dómkvaddir til starfans 5. júní 2013. Í mati þeirra frá 21. október 2013 er varanlegur miski stefnanda metinn 35 stig og varanleg örorka 80%. Í desember 2013 greiddi stefndi stefnanda bætur í samræmi við yfirmatið. Stefnandi tók við greiðslunni með fyrirvara um frádrátt vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, ársvaxta og dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Stefndi greiddi síðar stefnanda viðbótarvexti þar sem í ljós kom að ársvextir höfðu verið reiknaðir til of skamms tíma.
II.
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda sé óheimilt að draga frá skaðabótum greiðslur til stefnanda úr lífeyrissjóði. Vísar stefnandi til þess að krafa hans byggist á sérstökum tryggingasamningi stefnda og útgerðar þess skips sem stefnandi hafi unnið á er hafi slasaðist, svokallaðri sjómannatryggingu (slysatryggingu sjómanna skv. kjarasamningi 16. maí 2001). Tryggingin byggist á úrskurði gerðardóms, skv. 2. grein laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Ekki sé á því byggt að útgerðin hafi sýnt af sér sök og sé skaðabótaskyld gagnvart stefnanda, heldur á því, að um sé að ræða slysaáverka, sem hið stefnda tryggingafélag hafi skuldbundið sig til að bæta á grundvelli 172. greinar siglingalaga og ákvæðum almennra kjarasamninga sjómanna, samanber þann tryggingasamning sem gerður hafi verið samkvæmt ofangreindum gerðardómsúrskurði. Geti því ekki orðið um frekari frádrátt að ræða, enda hafi áætlaðar bætur samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga, þegar verið dregnar frá bótakröfum stefnanda. Ekki geti komið til endurskoðunar á þeirri bótaákvörðun nú, sbr. meginreglu 11. greinar skaðabótalaga, en enginn fyrirvari hafi verið gerður við uppgjörið að hálfu hins stefnda félags.
Stefnandi byggir einnig á því að hann eigi rétt á að fá bótakröfu óskerta, þar sem 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga eigi aðeins við „hreinar skaðabótakröfur“. Slíkt eigi ekki við í þessu tilviki, þar sem hér sé í raun um að ræða samningsbundnar bætur, sem séu framlenging af launþegatryggingunni svonefndu, sem stoð hafi í 172. grein siglingalaga og framangreindum úrskurði (víðtæk launþegatrygging) og um leið kjarasamningsbundin tryggingarréttindi. Byggi stefnandi á því að hið stefnda félag leggi á útgerðir í landinu iðgjöld, sem séu byggð á ákveðinni tjónareynslu, sem og alla starfandi sjómenn þeirra útgerða sem tryggja hjá félaginu, sem útgerðin haldi síðan eftir af hlut viðkomandi sjómanns og greiði til félagsins. Þar af leiðandi geti hið stefnda félag ekki knúið stefnanda til að krefja aðra aðila um þær tryggingabætur, sem félagið hafi sjálft tekið sér á hendur að greiða stefnanda samkvæmt kjarasamningi og álagningu iðgjalda. Gerður hafi verið sérstakur slysatryggingasamningur milli útgerðarinnar og hins stefnda tryggingarfélags, sem byggi á ákveðnum skilmálum tryggingarfélagsins. Ekki sé hefðbundið í slíkum samningum að fram komi að bætur til tjónþola séu takmarkaðar eða að fyrir hendi sé sérstök ábyrgðartakmörkun. Ábyrgðartakmörkun hins stefnda félags í formi frádráttar, skv. þágildandi 4. mgr. 5. greinar skaðabótalaga sé því óheimil. Túlka verði vátryggingasamninginn (skilmála tryggingarinnar) stefnanda í vil að þessu leyti, samanber lög nr. 14/1995, sbr. og 1. mgr. 36. greinar b, laga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Stefnandi vísar enn fremur til 122. greinar laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004, þar sem fram komi sú meginregla, að ekki megi lækka bætur til vátryggðs, með greiðslum til tjónþola úr öðrum tryggingum, samanber einnig 49. grein sömu laga og greinargerð með lögunum.
Stefnandi vísar til þess að þegar hafi verið dregnar frá þeim bótum sem hann hafi fengið framtíðarbætur frá lífeyrisjóðum, samkvæmt mati og útreikningi tryggingarstærðfræðings sem stefnandi hafi alltaf mótmælt sem röngum. Hið stefnda félag hafi sönnunarbyrði um allan hugsanlegan frádrátt frá bótakröfu stefnanda, samkvæmt grundvallarreglum um sönnun í skaðabótamálum.
Stefnandi byggir á því að með því að draga ætlaðar bætur stefnanda frá lífeyrissjóðum, í slíkum mæli sem gert sé, frá bótum fyrir varanlega örorku, sé verið að samsama bætur frá lífeyrissjóðunum við bætur frá tryggingarfélagi, sem sé óheimilt skv. grundvallarreglum vátryggingarréttar og lögum um vátryggingastarfsemi. Sé um það meðal annars vísað til 1. mgr. 5. greinar laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, sbr. nú lög nr. 56/2010. Ljóst sé að sú vátryggingaráhætta, sem hið stefnda tryggingarfélag hafi tekið að sér með álagningu iðgjalda á þá útgerð sem stefnandi vann hjá og stefnandi greiddi einnig, sé í raun ekki hjá viðkomandi vátryggingafélagi, þar sem tryggingarfélagið greiði aðeins hluta af bótum stefnanda fyrir varanlega örorku.
Stefnandi byggir enn fremur á því að bætur hans frá lífeyrissjóðum séu bætur vegna algerrar skerðingar á vinnugetu, en ekki vegna læknisfræðilegrar örorku. Þá byggir stefnandi á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um bætur samkvæmt almannatryggingalögum og eigi stefnandi ekki rétt á frekari bótum úr þeim ranni eða frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem læknisfræðileg örorka stefnanda nái ekki 50 stigum.
Stefnandi vísar til þess að hann hafi á sínum tíma tekið við bótum með öllum fyrirvara miðað við það sem síðar kæmi í ljós, varðandi miska og varanlega örorku. Byggir stefnandi, varðandi þessa málsástæðu, ekki á 11. grein skaðabótalaga, sem sé sérregla eins og staðfest hafi verið af Hæstarétti, heldur almennum reglum kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur sem og á þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hafi minna greitt en hann átti rétt á, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Til vara byggir stefnandi kröfu sína um frekari greiðslu úr hendi stefnda á 11. grein skaðabótalaga.
Endanleg dómkrafa stefnanda er um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 489.650 kr., bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 16.084.199 kr. og sjúkrakostnað og annað tjón að álitum að fjárhæð 1.500.000 kr. Samtölu þessa kveður stefnandi vera 18.074.771 kr. en rétt samtala er aðeins lægri eða 18.073.849 kr. Til frádráttar bótum dregur stefnandi innborganir stefnda, 3.000.000 kr. þann 15. apríl 2013 og 12.136.202 kr. þann 6. desember 2013.
Hvað varðar kröfu um dráttarvexti vísar stefnandi til þess að hann hafi sent stefnda kröfubréf á grundvelli sérfræðimatsgerðar 23. maí 2012. Sé því rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 23. júní sama ár, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til laga nr. 34/2001, sbr. úrskurð gerðardóms sbr. 2. gr. laga nr. 34/2001 frá 30. júní 2001. Þá vísar stefnandi til 172. gr. siglingalaga og þeirra kjarasamninga sem stefnandi er aðili að. Krafan um málskostnað er reist á 129. grein og 130. grein laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skuli m.a. draga frá skaðabótakröfu bætur frá Tryggingastofnun (sjúkratryggingar) og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skuli við útreikninginn miðað við 4,5% ársávöxtun. Þegar tjón stefnanda hafi verið gert upp árið 2009 hafi greiðslur frá Tryggingastofnun (sjúkratryggingar) og lífeyrissjóði verið dregnar frá eins og kveðið sé á um í skaðabótalögunum.
Stefndi hafnar greiðsluskyldu vegna útlagðs sjúkrakostnaðar o.fl. á þeim grunni að krafan sé með öllu órökstudd.
Við munnlegan málflutning vísaði stefndi til þess að vextir sem stefnandi krefst, til viðbótar þegar greiddum vöxtum, væru fyrndir. Þá taldi stefnandi ekki unnt að horfa til kröfu stefnanda frá 23. maí 2012, sem hafi byggst á matsgerð E og D frá sama degi, við ákvörðun um upphaf dráttarvaxta, þar sem stefnandi hafi aflað þeirrar matsgerðar einhliða. Þessum málsástæðum var ekki mótmælt af hálfu stefnanda sem of seint fram komnum.
Stefndi hafnar kröfu stefnanda um frekari lögmannsþóknun. Stefndi samþykkir hins vegar að greiða stefnanda útlagðan kostnað annan en kostnað við öflun framangreindrar matsgerðar.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um uppgjör vegna slyss sem stefnandi varð fyrir um borð í […], en hann starfaði þar sem […]. Áhöfn skipsins var á slysdegi slysatryggð hjá stefnda sem viðurkenndi bótaskyldu í málinu. Í matsgerð tveggja sérfræðinga frá 12. janúar 2009 var varanlegur miski stefnanda metinn 30 stig og varanleg örorka 55%. Stefnanda voru greiddar skaðabætur í samræmi við matið í apríl 2009. Stefnandi taldi sig hafa orðið fyrir frekara tjóni vegna slyssins og er í málavaxtalýsingu gerð grein fyrir framhaldi málsins og þeim matsgerðum sem aðilar hafa aflað, m.a. undir rekstri málsins, til sönnunar á frekari tjóni stefnanda. Á grundvelli matsgerðar dómkvaddra yfirmatsmanna, þar sem miski stefnanda var metinn 35 stig og varanleg örorka 80%, greiddi stefndi viðbótarbætur í desember 2013. Stefnandi tók við greiðslunni með fyrirvara um frádrátt vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, ársvaxta og dráttarvaxta, útlagðs kostnaðar og lögmannsþóknunar. Er ágreiningur um þessi atriði til úrlausnar í máli þessu. Stefndi greiddi síðar stefnanda frekari ársvexti en í framlögðu skjali kemur fram að þeir hafi verið vanreiknaðir.
Um frádrátt vegna greiðslna úr lífeyrissjóði
Við fyrra uppgjör bóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku sem, með hliðsjón af árslaunaviðmiði 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, reiknuðust 35.385.238 kr., voru dregnar frá 1.720.024 kr. vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóði hans. Byggðist fjárhæðin á útreikningi tryggingastærðfræðings frá 28. febrúar 2009. Fram kemur í forsendum fyrir niðurstöðu hans að reiknað sé eingreiðsluverðmæti bóta eftir stöðugleikadag miðað við að stefnandi haldi óbreyttum bótarétti til loka þriggja ára tímabils eftir slys en bætur falli niður eftir það. Eftir að matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna lá fyrir í október 2013 reiknaði tryggingastærðfræðingurinn, að beiðni stefnda, að nýju út umrætt eingreiðsluverðmæti. Í útreikningi tryggingastærðfræðingsins frá 16. nóvember 2013 kemur fram að fyrir liggi upplýsingar um að stefnandi hafi verið metinn til fullrar örorku hjá lífeyrissjóði til janúar 2012 en 50% eftir það. Þar sem stefnandi hafði til janúar 2012 fengið greiddar hærri bætur frá lífeyrissjóði en útreikningurinn frá 2009 gerði ráð fyrir hækkuðu reiknaðar eingreiðslur vegna þessa tímabils í hinum nýja útreikningi. Þannig voru reiknaðar eingreiðslur vegna 100% örorkulífeyris á tímabilinu janúar 2009 til janúar 2012 að fjárhæð 2.586.244 kr., þ.e. 866.200 kr. hærri. Þá bættist við 50% örorkulífeyrir frá febrúar 2012 út starfsævi stefnanda sem reiknaður var að andvirði samtals 3.495.234 kr. en eins og áður sagði var í fyrri útreikningum gert ráð fyrir að örorkulífeyrir félli niður eftir janúar 2012. Við greiðslu viðbótarbóta til stefnanda í desember 2013 fyrir varanlega örorku, sem reiknaðist 16.084.199 kr., dró stefndi því frá 4.361.454 kr. (866.200+3.495.234 kr.) vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris. Hins vegar bættust við greiðsluna 16.679 kr. vegna eingreiðslu örorkubóta frá Sjúkratryggingum Íslands en þær höfðu verið ofáætlaðar við fyrra uppgjör. Samtals greiddi stefndi því stefnanda, 6. desember 2013, 11.739.424 kr. fyrir varanlega örorku (16.084.199 kr.+16.679 kr.-4.361.454 kr.). Til frádráttar kom 3.000.000 kr. innborgun sem stefndi innti af hendi í apríl 2013.
Stefnandi vísar til þess að þar sem bótakrafa hans byggi á sérstakri slysatryggingu sjómanna hafi verið óheimilt að draga frá skaðabótakröfu hans fyrir varanlega örorku greiðslur sem hann kunni að eiga rétt á úr lífeyrissjóði. Að mati dómsins er ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þess efnis að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli m.a. dragast 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, fortakslaust hvað þetta varðar. Breytir engu þótt skaðabætur til stefnanda byggist á slysatryggingu sem vinnuveitandi hans bar að taka með vísan til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um uppgjör til stefnanda gilda ákvæði skaðabótalaga enda byggir hann kröfu sína að öðru leyti á ákvæðum laganna, m.a. hvað varðar árslaunaviðmið og ársvexti. Önnur rök, sem stefnandi hefur teflt fram því til stuðnings að umræddur frádráttur sé óheimill, eru haldlaus.Verður því fallist á það með stefnda að honum sé heimilt að draga eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá bótum til stefnanda.
Kemur þá til skoðunar hvort stefnda hafi verið heimilt, við greiðslu viðbótarbóta til stefnanda vegna varanlegrar örorku, að draga frá greiðslunni eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna samkvæmt hinum nýju útreikningum og þar með endurskoða fyrri frádrátt. Að mati dómsins verður með hliðsjón af þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svara raunverulegu tjóni hans, sem og þeirri meginreglu kröfuréttar að sá sem hefur ofgreitt fé eigi rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt er, að telja að stefnda hafi, eins og á stóð í máli þessu, verið þetta heimilt. Hafa verður í huga að endurútreikningarnir fóru fram vegna þess að stefnandi hafði sannanlega orðið fyrir meira tjóni en talið var er fyrra uppgjör fór fram og bætur til hans úr lífeyrissjóði hækkuðu eðli málsins samkvæmt í samræmi við það. Skiptir þá engu þótt stefndi hafi við fyrra uppgjör ekki gert fyrirvara um þetta atriði. Ekki er fallist á það með stefnanda að útreikningar tryggingastærðfræðingsins séu haldnir einhverjum þeim annmörkum sem leiða til þess að ekki sé unnt að leggja þá til grundvallar. Útreikningarnir byggja, samkvæmt því sem fram kemur í málinu, á gögnum sem stafa frá stefnanda sjálfum, m.a. rauntölum um greiðslur til hans úr lífeyrissjóði. Stefnandi krafðist þessi ekki að viðkomandi tryggingastærðfræðingur gæfi skýrslu fyrir dóminum til að gefa nánari skýringu á útreikningum né hefur stefnandi gert tilraun til að hrekja þá með því að óska eftir nýjum útreikningum.
Um annað fjártjón
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér að álitum 1.500.000 kr. vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns. Kröfuliður þessi er svo vanreifaður að dómur verður ekki á hann lagður. Verður honum vísað frá dómi.
Um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga
Um fyrningu vaxta gildir hinn almenni frestur 3. gr. laga nr. 20/2007 um fyrning kröfuréttinda og fyrnast þeir því á fjórum árum. Stefndi hefur lagt fram útreikninga, sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu stefnanda, þar sem fram kemur að stefndi hafi greitt ársvexti skv. 16. gr. skaðabótalaga í samræmi við framangreint og er því krafa stefnanda um frekari vexti fallin niður fyrir fyrningu. Verður stefndi því sýknaður af vaxtakröfu stefnanda.
Um dráttarvexti
Stefnandi krefst þess að upphaf dráttarvaxta miðist við 23. júní 2012. Vísar stefnandi til þess að þá hafi verið liðinn mánuður frá því að hann krafði stefnda um frekari bætur á grundvelli matsgerðar D og E. Eins og fram hefur komið aflaði stefnandi þessa mats einhliða. Í kröfubréfi stefnanda til stefnda frá 23. maí 2012 var ekki gert ráð fyrir frádrætti vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóði, líkt og skylda stendur til skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, né fylgdu bréfinu gögn til þess að stefnda væri unnt að láta reikna það út. Í dómkröfum stefnanda hefur heldur ekki verið gert ráð fyrir frádrættinum en skattframtöl og gögn frá lífeyrissjóði voru hins vegar lögð fram við þingfestingu málsins 23. október 2012. Þótt stefnandi hafi byggt upphaflegar dómkröfur sínar á einhliða mati þykir, með hliðsjón af framangreindu og meginreglu 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, rétt að upphaf dráttarvaxta reiknist 23. nóvember 2012, enda staðfesti matið að stefnandi hefði orðið fyrir frekara tjóni þótt það hafi þar verið metið meira en skv. yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda dráttavexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 12.282.984 kr. (489.560 v/varanlegs miska+11.739.424 kr. v/varanlegrar örorku) frá 23. nóvember 2012 til 15. apríl 2013, en af 9.282.984 kr. frá þeim degi til 6. desember 2013. Til frádráttar dráttarvöxtunum koma vextir sem stefndi hefur greitt samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga vegna sama tímabils.
Um málskostnað
Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu, sbr. gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins frá 3. janúar 2013.
Stefndi hefur fallist á að greiða útlagðan kostnað stefnanda, skv. framlögðum málskostnaðareikningi, annan en 316.488 kr. vegna matsgerðarinnar frá 23. maí 2012. Vísar stefndi til þess að stefnandi hafi aflað matsgerðarinnar einhliða og á eigin ábyrgð. Þó að matsgerðin hafi ekki verið lögð til grundvallar endanlegu uppgjöri skaðabóta þá var hún, eins og áður sagði, því til styrktar að stefnandi hefði orðið fyrir frekara tjóni vegna slyssins. Fyrir liggur að stefndi hafnaði með bréfi, frá 14. október 2011, kröfu stefnanda um að standa að endurmati á tjóni hans. Verður rökstuðningur stefnda sem fram kemur í bréfinu ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi talið að fyrirliggjandi læknisvottorð gæfu ekki til kynna versnun á heilsufari stefnanda, tengda slysinu. Með hliðsjón af framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða allan útlagðan kostnað stefnda en hann er samkvæmt framlögðum reikningum samtals 1.886.096 kr. Dómari tekur fram að útgjöld vegna öflunar skattframtala eru vanreiknuð í málskostnaðaryfirliti, þ.e. eru sögð 5.000 kr. en eru 6.000 kr. skv. fyrirliggjandi reikningum.
Stefndi greiddi stefnanda 510.595 kr. í innheimtuþóknun lögmanns, þ.m.t virðisaukaskatt við uppgjörið í desember 2013. Hafnar stefndi því að greiða frekari þóknun og vísar til þess að þegar tekið hafi verið tillit til fyrra uppgjörs hafi stefnandi fengið samtals 1.856.715 kr. í innheimtuþóknun til lögmanna. Af gögnum málsins má ráða að töluverð vinna hafi þegar verið innt af hendi í málinu af hálfu núverandi lögmanns stefnanda er uppgjörið fór fram í desember 2013 en þá hafði málið verið til meðferðar hér fyrir dóminum í rúmt ár. Telst lögmannsþóknun vegna vinnu við málið þar til framangreint uppgjör fór fram hæfilega ákveðin 850.000 kr. þ.m.t. virðisaukaskattur. Verður því stefndi dæmdur til að greiða mismuninn á því og innheimtuþóknun þeirri sem stefnanda var greidd í desember 2012, þ.e. 339.405 kr. Hins vegar hefur stefnandi, með niðurstöðu dóms þessa, tapað málinu að öllu verulegu leyti hvað varðar þá fyrirvara sem hann setti við uppgjörið, og verður stefndi því ekki dæmdur til greiðslu frekari lögmannsþóknunar honum til handa.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða samtals 2.225.501 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Þóknun lögmanns stefnanda vegna rekstur málsins eftir að framangreint uppgjör fór fram, þ.e. vegna aðalmeðferðar og undirbúnings hennar, telst hæfilega ákveðin 400.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur.
Með hliðsjón af framangreindu greiðist því gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 2.624.501 kr., sem er þóknun lögmanns stefnanda 739.405 kr., auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 1.886.096 kr., úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þormóður Skorri Steingrímsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur Kvaran hrl.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Kröfu stefnanda, A, um greiðslu sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns úr hendi stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., er vísað frá dómi.
Fallist er á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu úr hendi stefnda af 12.282.984 kr. frá 23. nóvember 2012 til 15. apríl 2013, en af 9.282.984 kr. frá þeim degi til 6. desember 2013. Til frádráttar dráttarvöxtunum koma 4,5% ársvextir sem stefndi hefur greitt stefnanda á sama tíma.
Stefndi greiði 2.225.501 kr. í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 2.625.501 kr., þ.m.t. þóknun lögmanns stefnanda 739.405 kr., greiðist úr ríkissjóði.