Hæstiréttur íslands

Mál nr. 191/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárslit milli hjóna
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Mánudaginn 28

 

Þriðjudaginn 29. apríl 2008.

Nr. 191/2008.

M

(Marteinn Másson hrl.)

gegn

K

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

M og K fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng árið 2003 og gerðu af því tilefni með sér fjárskiptasamning. Talið var að réttaráhrif þess skilnaðar hefðu fallið niður þar sem þau hefðu tekið upp sambúð að nýju. M og K fengu aftur skilnað að borði og sæng árið 2006. Var talið að við fjárslit vegna síðari skilnaðarins skyldi á grundvelli 111. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna sbr. 1. mgr. 104. gr. sömu laga, að því er varðaði lán sem K hafði tekið í tengslum við hinn fyrri fjárskiptasamning og upplýst var að hún hefði greitt til M. Á þessum grundvelli var talið að K gæti fengið fasteign búsins og bifreið sér útlagða gegn nánar tiltekinni greiðslu.

                       

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2008, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum varðandi opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að beita eigi helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 við fjárslit aðila vegna skilnaðar þeirra, að viðurkennt verði að við fjárslitin verði miðað við þær eignir og skuldir sem til staðar hafi verið við framlagningu beiðni varnaraðila um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík 15. febrúar 2006, að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að krefja varnaraðila um húsaleigu frá samvistarslitum þeirra í desember 2005 vegna veru hennar í íbúð þeirra hjóna, og að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 19.675.366 krónur vegna fjárslita þeirra, gegn því að sóknaraðili aflýsi tilgreindu tryggingarbréfi að fjárhæð 5.000.000 krónur, með veðrétti í fasteign aðila að A í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Kröfu sóknaraðila um greiðslu húsaleigu úr hendi varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Sóknaraðili gerir hins vegar ekki kröfu um að frávísunarkvæði hins kærða úrskurðar verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka þessa kröfu til efnismeðferðar heldur krefst hann efnisúrlausnar um hana fyrir Hæstarétti. Slík kröfugerð fær ekki staðist og verður kröfunni því vísað frá Hæstarétti af sjálfsdáðum.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á varakröfu varnaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli málsaðila skyldi vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga með nánar tilgreindum hætti, sbr. 1. mgr. 104. gr. sömu laga. Var þá meðal annars horft til fjárskiptasamnings sem aðilar höfðu gert vegna fyrri skilnaðar þeirra, en ekki hafði verið að fullu efndur, þegar þau tóku upp samvistir að nýju. Þessi niðurstaða héraðsdómara og röksemdir fyrir henni fá stoð í 111. gr. sömu laga.

Líta verður svo á að meginforsenda niðurstöðu hins kærða úrskurðar sé að varnaraðili fái útlagðar nánar tilgreindar eignir búsins gegn greiðslu þeirrar fjárhæðar sem þar var ákveðin og með þeirri greiðslu verði lokið fjárskiptum milli málsaðila. Þess er getið stuttlega í hinum kærða úrskurði að sóknaraðili hafi samþykkt að umræddar eignir komi í hlut varnaraðila gegn greiðslu og verður ekki séð að þessi fullyrðing héraðsdómara sæti andmælum af hálfu aðila. Þó verður ekki séð að tekin hafi verið afstaða til útlagningar eigna þessara á skiptafundi, þannig að bindandi sé fyrir báða aðila, og er því ekki unnt að mæla fyrir um slíka útlagningu í máli þessu. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað í héraði verður staðfest, en sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila, M, um greiðslu húsaleigu úr hendi varnaraðila, K.

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar þeirra skal við það miðað að varnaraðili geti fengið sér útlagt við skiptin fasteign þeirra að A í Reykjavík og bifreiðina B, gegn greiðslu 13.751.423 króna. Sóknaraðili skal þá aflýsa tryggingarbréfi á 5. veðrétti í framangreindri fasteign.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2008.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 25. júlí 2006, var ákveðið að opinber skipti færu fram til fjárslita á milli málsaðila. Með bréfi skipta­stjóra, mótteknu 19. febrúar 2007, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 2. mars 2007 og tekið til úrskurðar 13. febrúar sl.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila, M, eru:

1.                Að viðurkennt verði að beita eigi helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við fjárslit aðila vegna skilnaðar þeirra.

2.                Að viðurkennt verði að við fjárslitin verði miðað við þær eignir og skuldir sem til staðar voru við framlagningu beiðni varnaraðila um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 15. febrúar 2006.

3.                Að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að krefja varnaraðila um húsaleigu frá samvistarslitum þeirra í desember 2005, vegna veru hennar í íbúð þeirra hjóna.

4.                Að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila 20 milljónir króna vegna fjárslita þeirra, eða hærri eða lægri upphæð eftir því sem uppreiknuð staða eigna og skulda segir til um.

5.                Að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað fyrir rekstur og flutning máls þessa, þar með talinn matskostnað.

Endanlegar dómkröfur varnaraðila, K, eru aðallega að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og viðurkennt að skilnaðarsamningur aðila, dags. 30. apríl 2003, verði að fullu efndur af varnaraðila með greiðslu á kr. 4.743.736,- til sóknaraðila til lúkningar fjárslitum þeirra gegn því að sóknaraðili aflýsi tryggingarbréfi á 5. veðrétti við Sparisjóðs vélstjóra af fasteigninni A í Reykjavík (...). Til vara krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að varnaraðila beri ekki að greiða sóknaraðila hærri fjárhæð en kr. 13.751.423,- til lúkn­ingar fjárslitum þeirra gegn því að sóknaraðili aflýsi tryggingarbréfi á 5. veð­rétti við Sparisjóð vélstjóra af fasteigninni A í Reykjavík (...).

Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar.

I.

Málsaðilar hófu sambúð 1984 og gengu í hjónaband á árinu 1996. Saman eiga þau 5 börn. Sóknaraðili er vélstjóri að mennt og hefur stundað sjómennsku um alllangt skeið. Hann kveðst að jafnaði hafa verið mjög tekjuhár, en vegna tveggja vinnuslysa er hann lenti í á árunum 1991 og 1996 hafi starfsgeta hans skerst töluvert. Varnaraðili kveður sóknaraðila einnig hafa unnið sem launþega í landi og hafa auk þess braskað með ýmislegt, m.a. stofnað fyrirtæki. Þannig hafi hann átt aðild að C ehf., sem flutti inn [...]. Félagið hafi orðið gjaldþrota 2005.

Varnaraðili kveðst meðfram barneignum og barnauppeldi, sem mikill tími hafi eðli­lega farið í, hafa starfað úti við og/eða verið dagmóðir. Hún hafi farið í nám og tekið kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands [...]. Námið hafi hún fjármagnað með náms­lánum frá LÍN og þannig lagt fram fé til framfærslu barnanna, ásamt barna­bótum. Hún hafi ein greitt afborganir af námsláninu. Frá 1996 að skilnaði 2003 hafi hún starfað við kennslu.

Aðilar fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng þann 7. maí 2003.

Samkvæmt skilnaðarsamningi aðila, dags. 30. apríl 2003, kom íbúðin í húsinu nr. [...] við A í Reykjavík í hlut konunnar. Skyldi hún yfirtaka áhvílandi veð­skuldir aðrar en skuld á 4. veðrétti að fjárhæð kr. 5.000.000, sem maðurinn yfirtók. Fyrir hlut mannsins í fasteigninni átti hún að greiða kr. 9.219.420. Til að standa sókn­ar­aðila skil á kaupverðinu tók varnaraðili í júlí 2003 hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði, að fjárhæð kr. 5.467.113. Kveður varnaraðili upphæðina hafa gengið óskerta til sókn­ar­aðila sem hafi varið henni til persónulegra þarfa, þ.e. til áhættureksturs einka­hluta­félags síns C. Eftirstöðvar kaupverðsins, kr. 3.752.307, hafi sókn­araðili ekki viljað fá greiddar af einhverjum ástæðum. Með afsali, dags. 2. maí 2003, hafi sóknaraðili afsalað henni 50% eignarhluta sínum í íbúðinni að A og hún þá orðið 100% eign hennar. Hún hafi ein greitt afborganir, vexti og verðbætur af húsbréfaláninu allar götur frá því í júlí 2003.

Með afsali, dagsettu 29. desember 2003, afsalaði varnaraðili sóknaraðila 50% íbúð­arinnar að A. Afsal þetta var móttekið til þinglýsingar 5. desember 2005. Kveður varnaraðili sóknaraðila hafa með blekkingum fengið hana til að undir­rita afsalið. Athugun hennar hafi leitt í ljós að þegar afsalið til hennar fyrir íbúðinni var útbúið í apríl 2003, af þáverandi lögmanni sóknaraðila, D hdl., hafi sóknaraðili látið lögmanninn útbúa eitt eintakið sem afsal hennar til sóknaraðila fyrir 50% af eigninni. Þannig hafi einni setningu í einu skjali af mörgum, sem öll virtust eins að efni, verið snúið við.

Sóknaraðili kveður aðila hafa, þrátt fyrir skilnaðinn, búið saman til hausts 2003. Þau hafi síðan tekið upp samvistir vorið 2004 sem staðið hafi nær óslitið frá þeim tíma til 25. nóvember 2005. Sóknaraðili kveðst hafa flutt af sameiginlegu heimili þeirra, A, Reykjavík, þann 15. desember 2005.

Varnaraðili kveður bresti löngum hafa verið í sambandinu, ekki síst vegna mis­notkunar sóknaraðila á áfengi. Það hafi ekki reynst neitt áhlaupaverk fyrir hana að fara fram á skilnað og standa í slíku með svo stórt heimili. Þá hafi skilnaður dregist vegna þess að oft hafi orðið hlé á vandamálum tengdum áfengisnotkun sóknaraðila vegna þess að hann var oft langdvölum á sjó.

Veturinn 2002-2003 hafi verið sérlega erfiður og henni þá orðið ljóst að eitt­hvað þyrfti að gera í málunum. Hún hafi þurft að fara af heimilinu með börnin í lok nóvember 2002 yfir helgi vegna ofbeldis sóknaraðila og áfengisneyslu. Í desember 2002 hafi sóknaraðili pantað tíma hjá sýslumanni vegna skilnaðar að borði og sæng en síðan afpantað. Í ársbyrjun 2003 hafi sóknaraðili klippt í sundur debetkort hennar, sem tengt var launareikningi hans, og þar með lokað á öll fjármálatengsl við hana. Þar með hafi aðilar í raun slitið fjárfélagi sínu og frá þeim tíma hafi hún staðið að mestu ein að rekstri heimilisins.     

Skilnaðarmál aðila hafi loks verið tekið fyrir hjá sýslumanni 30. apríl 2003. Leyfi til skilnaðar að borði og sæng hafi verið gefið út af sýslumanninum í Reykjavík þann 7. maí 2003. Þrátt fyrir skilnaðinn hafi sóknaraðili ekki flutt út af heimilinu fyrr en nokkru síðar. Sóknaraðili hafi frá 1. maí 2003 greitt meðlag og menntunarframlag með börnunum fimm. Vorið 2003 hafi verið ferming og stúdentsútskrift hjá tveimur barn­anna og hafi hún borið af því mestan kostnað þar sem hún hafði ekki aðgang að laun­um sóknaraðila.

Sumarið 2004 hafi sóknaraðili pressað verulega á hana um að þau hæfu sam­búð á ný og hún látið undan þeim þrýstingi í lok júní 2004.  Sóknaraðili hafi eftir sem áður átt lögheimili að E, þangað sem hann hafði flutt lögheimili sitt við skiln­aðinn 2003. Þrátt fyrir tilraunir aðila til samvista hafi sóknaraðili haldið áfram að greiða meðlag með börnum aðila. Þá hafi hann í raun lagt lítið sem ekkert til heimilis­haldsins. Hún hafi ekki fengið aðgang að launum sóknaraðila og haldið áfram að greiða ein af öllum lánum, fasteignagjöld, allar tryggingar, þungaskatt af bíl, rafmagn, hita, síma, sjónvarp, blað og flest það sem fylgi heimilishaldi. Sóknaraðili hafi þó oft verslað í matinn, borgað kostnað vegna bifreiðar o.fl. Þá hafi sóknaraðili einn vetur greitt helmingshlut í tómstundum yngstu barnanna.

Allar tilraunir aðila til að endurvekja samvistir hafi reynst henni erfiðar og ekki síður börnunum. Í júní 2005 hafi orðið afar erfið uppákoma á heimilinu vegna skap­ofsa og drykkju sóknaraðila eins og lögregluskýrslur séu til vitnis um. Þá hafi hún flutt aftur út af heimilinu með börnin og ekki komið til baka fyrr en sóknaraðili var fluttur út. Nokkurn tíma hafi tekið að koma íbúðinni í íbúðarhæft ástand að nýju eftir dvöl sóknaraðila þar. Ekki hafi liðið á löngu þar til sóknaraðili þrýsti aftur á um að fá að flytja heim. Það hafi hún aftur látið eftir sóknaraðila í því skyni að sameina fjöl­skyld­una og vinna í málunum.

Þegar áðurnefnd sambúðartilraun hafi staðið yfir hafi sóknaraðili fallið á áfengis­bindindinu en það að sóknaraðili héldi bindindi hafi ávallt verið forsenda af hennar hálfu fyrir áframhaldandi sambúð. Vegna þess hafi sóknaraðila og eldri syni aðila lent saman í nóvember 2005 og hafi sonurinn kært sóknaraðila til lögreglu fyrir líkams­árás. Málið hafi verið látið niður falla en heimilið sé þó á skrá hjá Barnavernd Reykja­víkur sem heimili þar sem ofbeldi hefur farið fram. Enn og aftur hafi hún og börnin flutt út af heimilinu og í þetta sinn til lengri tíma. Hún hafi áttað sig á að ástandið var að eyðileggja alla og fyrst og fremst börnin. Hún hafi tekið á leigu húsnæði í um þrjár vikur og samið um það við sóknaraðila að hann flytti út af heimil­inu. Þá hafi verið um það samið að hann léti bifreiðina af hendi enda hafi hún verið á hennar nafni og átt að koma í hennar hlut samkvæmt skilnaðarsamningi aðila.

Hún hafi flutt með börnin á heimili þeirra að A um miðjan desember 2005 og hafi þau búið þar síðan. Þá þegar hafi hún hafist handa við að fá lög­skilnað frá sóknaraðila. Þegar sóknaraðili hafi ekki mætt hjá sýslumanni 3. janúar 2006 hafi henni orðið ljóst að sóknaraðili kysi að draga málið á langinn.

Varnaraðili sótti um leyfi til lögskilnaðar við sóknaraðila þann 15. febrúar 2006 á grundvelli skilnaðarleyfisins frá 2003, en til vara um leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Sóknaraðili hafnaði aðalkröfu varnaraðila um lögskilnað á þeim grundvelli að réttaráhrif hjúskapar þeirra hefðu raknað við að nýju við sambúð þeirra. Sókn­ar­aðili samþykkti hins vegar kröfuna um skilnað að borði og sæng. Fengu aðilar leyfi til skilnaðar að borði og sæng þann 7. maí 2003.

Málsaðilar leituðust við að ná samkomulagi um fjárslit vegna skilnaðarins vorið 2006. Það tókst ekki og þann 20. júní 2006 fór varnaraðili fram á opinber skipti til fjárslita. Með úrskurði uppkveðnum 25. júlí 2006 var ákveðið að opinber skipti til fjár­slita færu fram á milli þeirra. Ekki tókst að leysa ágreining aðila fyrir milligöngu skipta­stjóra.

Sóknaraðili telur eftirgreindar eignir koma til skipta. Íbúð að A, Reykjavík. Bifreiðina B, árg. 1998. Innbú.

Skuldir eru við Íbúðalánasjóð, Lífeyrissjóðs sjómanna, Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins og Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Hinn 4. maí 2007 voru þeir Jón G. Briem hrl. og Franz Jezorski hdl. dóm­kvaddir til að meta verð íbúðarinnar að A, Reykjavík. Niðurstaða þeirra, dags 13. júlí 2007, er að eðlilegt og sanngjarnt verð fasteignarinnar ásamt öllu því sem henni fylgir og fylgja ber, miðað við staðgreiðslu, sé krónur 43.900.000.

Með yfirmatsbeiðni, dags. 28. september 2007, fór lögmaður sóknaraðila þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn til að meta gang­verð íbúðarinnar að A, Reykjavík. Yfirmatsgerð matsmannanna, Péturs Péturssonar, löggilts fasteignasala, Brynjólfs Jónssonar, löggilts fasteignasala og Ingólfs Gissurarsonar, löggilts fasteignasala, er dagsett 13. nóvember 2007. Niður­staða matsmannanna er að söluverðmæti eignarinnar sé kr. 46.000.000. 

Þá liggur frammi í málinu mat Björgvins Björgvinssonar, löggilts fasteignasala og leigumiðlara, dags. 4. desember 2007, sem sóknaraðili aflaði, en samkvæmt því stað­festir hann að leiguverð fyrir íbúð ásamt bílskúr, samtals 230 fm, á svæði [...] í Reykjavík, hafi á árinu 2006 verið kr. 140.000 til 160.000 krónur á mánuði og 170.000 til 190.000 á mánuði árið 2007. Mismunur á leiguverði ráðist af ástandi eignar, frá því að vera sæmileg og til þess að vera í góðu standi.

Þá liggur einnig fyrir mat Þórhalls Björnssonar löggilts leigumiðlara, sem sókn­araðili aflaði, dags. 17.12.2007. Mat hans er að hugsanlegt leiguverð íbúðarinnar gæti verið á bilinu 200-240 þúsund krónur. Árið 2006 séu líklegar tölur 170-220 þúsund krónur.            

Þá liggur frammi í málinu kauptilboð frá Heklu í bifreiðina B upp á kr. 362.000 sem gildir til 13. febrúar 2008.

II.

Sóknaraðili byggir á að skilnaður þeirra hjóna, á árinu 2003, hafi verið til mála­mynda, enda hafi sambúð þeirra varað með litlum hléum til loka nóvember 2005. Réttar­áhrif skilnaðarleyfisins frá 2003 hafi því verið fallið niður, sbr. 35. gr. hjú­skap­ar­laga nr. 31/1993. Skilnaðarmál aðila hafi fyrst verið tekið fyrir hjá sýslumanni þann 15. febrúar 2006 og sé sú dagsetning til viðmiðunar varðandi þær eignir og skuldir sem komi til skipta. Tryggingarbréfi Sparisjóðs vélstjóra, að fjárhæð 5 milljónir króna, muni sóknaraðili aflýsa eigi síðar en við greiðslu varnaraðila til hans, en engin krafa sé á bak við bréfíð.

Við skiptin skuli miða við helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 109. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Miðað við yfirmat á verðmæti fast­eign­arinnar, kr. 46.000.000, og verðmæti bifreiðarinnar, kr. 1.050.000, séu heild­ar­eignir búsins kr. 47.050.000. Að frádregnum áhvílandi skuldum kr. 11.649.269 sé helm­ingur af skírri hjúskapareign hvors hjóna um sig kr. 17.700.366.

Krefst sóknaraðili að varnaraðili greiði sér þá fjárhæð við fjárslitin. Hefur sóknar­aðili fyrir sitt leyti þá fallist á að varnaraðili fái íbúðina og bifreiðina í sinn hlut gegn greiðslunni.

 Sóknaraðili hafi flutt úr íbúð þeirra hjóna þann 15. desember 2005. Varnaraðili hafi búið í íbúðinni frá þeim tíma, en sóknaraðili framan af verið í húsnæðishraki og síðan þurft að leigja sér dýrt húsnæði.  Varnaraðila verði því gert að greiða honum hæfi­lega húsaleigu vegna búsetu hennar í íbúðinni frá því hann flutti þaðan út og til greiðslu­dags. Taka beri tillit til þess að samkvæmt upplýsingum varnaraðila nemi kostn­aður við rekstur íbúðarinnar, þ.e. rekstur og afborganir, um kr. 1.037.646 á ári eða 86.470 á mánuði. Kostnaðurinn sem leggist á hvort hjóna sé þannig 43.235 krónur á mánuði.

Við munnlegan málflutning kom fram að sóknaraðili krefðist þess að varnaraðili greiddi honum kr. 79.000 í 25 mánuði í húsaleigu eða kr. 1.975.000. Er krafan byggð á meðaltals leigu samkvæmt mati Þórhalls Björnssonar, löggilts leigu­miðlara, að frádreginni kostnaðarhlutdeild sóknaraðila í rekstri fasteignarinnar.

Miðað við uppreiknaða stöðu sé endanlega dómkrafa sóknaraðila þannig kr. 19.675.366 (17.700.366 +1.975.000).

Sóknaraðili styður kröfur sínar m.a. við ákvæði laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, einkum 104., 109., 112. og 122. gr. laganna. Einnig styður sókn­ar­aðili kröfur sínar við ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 35. gr., 99.-101. og 103. gr. laganna.

III

Varnaraðili byggir á að sambúð aðila hafi lokið í aprílmánuði 2003 og leyfi til skiln­aðar að borði og sæng hafi verið gefið út 7. maí 2003. Fyrir liggi að á þeim tíma hafi legið fyrir fullgildur og endanlegur samningur aðila um skilnaðarkjör, sem bæði sókn­araðili og varnaraðili hafi farið eftir og efnt að því frátöldu að varnaraðili standi í skuld við sóknaraðila með eftirstöðvar samningsgreiðslu aðila samkvæmt 5. gr. samn­ingsins. Sú skuld, kr. 3.752.307,- sé einvörðungu til komin vegna þess að sóknaraðili hafi neitað að taka við frekari greiðslu og verið ósáttur við hlutskipti sitt. Varnaraðili viður­kenni þannig skuld við sóknaraðila kr. 3.752.307 á verðlagi í apríl 2003 en fram­reiknað miðað við vísitölu neysluverðs nú kr. 4.743.736.

Fyrir liggi óumdeilt að sóknaraðili hafi efnt samninginn í einu og öllu m.a. með greiðslu meðlags og menntunarframlaga vegna barna aðila. Varnaraðili hafi ein séð um rekstur heimilisins frá byrjun árs 2003 til þessa dags, þó með mjög óverulegu fjár­framlagi sóknaraðila, sem þó sé að mestu samkvæmt samningi aðila. Varnaraðili hafi þannig staðið straum af öllum útgjöldum vegna fasteignar búsins, allt frá árs­byrjun 2003 þegar sóknaraðili sleit fjárfélagi aðila. Þrátt fyrir að aðilar hafi reynt sam­vistir á ný í tví- eða þrígang, eftir útgáfu skilnaðarleyfisins, leiði það ekki til þess að rétt­aráhrif skilnaðarins falli niður enda verði sá skilningur ekki leiddur af 35. gr. hjú­skap­arlaga nr. 31/1993. Þvert á mót sé þar að finna skýr ákvæði um að réttaráhrif skiln­aðar falli ekki niður þótt hjón taki síðar upp sambúð ef um sé að ræða skamm­vinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju.

Varnaraðili hafni því alfarið að skilnaður aðila á árinu 2003 hafi verið til mála­mynda. Þá hafni varnaraðili því alfarið að viðmiðunardagur skipta sé 15. febrúar 2006, enda hafi skilnaðarmál aðila fyrst verið tekið fyrir hjá sýslumanni í aprílmánuði 2003. Varnaraðili hafi á árinu 2003 verið beitt blekkingum til að undirrita ódags. afsal fyrir 50% eignarhluta hennar í fasteigninni A til sóknaraðila, skjal sem sóknaraðili dagsetti síðar, eða 29. desember 2003 og framvísaði til þinglýsingar í byrjun desember 2005, þegar að þrengdi í lífi sóknaraðila og honum varð fullljóst að ítrekaðar tilraunir hans og þrýstingur á varnaraðila til samvista var endanlega runninn út í sandinn.

Áhvílandi skuldir sem komi til frádráttar markaðsverði eignar búsins séu lán Íbúða­lánasjóðs á 1. veðrétti kr. 2.500.000 og lán við Lífeyrissjóð sjómanna á 2. veð­rétti kr. 300.000. Yfirtaka varnaraðila á tilgreindu láni á 1. veðrétti vegna skilnaðarins 2003 hafi þegar verið samþykkt af Íbúðalánasjóði. Aðrar áhvílandi veðskuldir séu per­sónu­legar skuldir varnaraðila, þ.e. lán frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, kr. 351.000, og við Lánasjóð íslenskra námsmanna, kr. 2.070.543. Samtals kr. 5.221.543. Þá liggi fyrir að bifreiðin B sé eign varnaraðila samkvæmt skilnaðarsamningi aðila frá 30. apríl 2003 og geti því ekki komið til skipta nú. Um það vitni einnig skrif­leg staðfesting sóknaraðila sjálfs dags. 28. nóvember 2005.

Varnaraðili byggir á að eina tilboðið sem komið hafi í eignina sé upp á kr. 42.500.000 og það sé því eina raunhæfa viðmiðunarverðið. Þá sé söluverðmæti eign­ar­innar kr. 46.000.000 samkvæmt mati yfirmatsmannanna Péturs Péturssonar, löggilts fast­eignasala, Brynjólfs Jónssonar, löggilts fasteignasala og Ingólfs Gissurarsonar, lög­gilts fasteignasala, frá 13. nóvember 2007.

Miðað við að verðmæti fasteignarinnar sé kr. 42.500.000 sé hrein eign að frá­dregnum áhvílandi sameiginlegum skuldum, samtals kr. 5.221.543, samtals kr. 37.640.457. Skír hjúskapareign hvors um sig sé kr. 18.820.229. Verðmæti inn­borg­unar varnaraðila til sóknaraðila samkvæmt samningi sé nú, framreiknuð samkvæmt vísi­tölu neysluverðs, kr. 6.818.805. Ógreiddar eftirstöðvar varnaraðila nemi samkvæmt þessu kr. 12.001.423.

Að teknu tilliti til hækkunar á markaðsverðmæti fasteignar búsins samkvæmt yfir­matinu 13. nóvember 2007 (kr. 46.000.000) sé hrein eign til skipta að frádregnum áhvíl­andi sameiginlegum skuldum, samtals kr. 5.221.543, samtals kr. 41.140.457. Skír hjú­skapareign hvors um sig sé kr. 20.570.229. Verðmæti innborgunar varnaraðila til sókn­araðila samkvæmt samningi sé nú, framreiknuð samkvæmt vísitölu neysluverðs, kr. 6.818.805. Ógreiddar eftirstöðvar varnaraðila nemi samkvæmt þessu kr. 13.751.423 sem sé hámark varakröfu varnaraðila.

Varnaraðili byggir á að henni beri ekki að greiða sóknaraðila húsaleigu þar sem hún hafi orðið löglegur eigandi fasteignarinnar samkvæmt afsali frá sóknaraðila dags. 2. maí 2003. Blekkingar sóknaraðila í garð varnaraðila breyti engu þar um.

Krafa sóknaraðila um húsaleigu sé að auki miðuð við óheyrilega háa mán­að­ar­leigu húsnæðis og sé með öllu órökstudd og því ódómhæf. Sóknaraðili hafi af ein­hverjum ástæðum ekki lagt fram neinn kostnað af leigu íbúðarhúsnæðis. Varnaraðili hafi á hinn bóginn lagt fram ítarlegar upplýsingar um kostnað við rekstur fasteignar bús­ins á umliðnum mánuðum. Sá kostnaður nemi liðlega kr. 600.000 fyrir 12 mánaða tíma­bil. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að varnaraðila beri að greiða sókn­ar­aðila einhverja húsaleigu sé þess krafist að allar slíkar greiðslur verði látnar mæta sjálf­sagðri kostnaðarhlutdeild sóknaraðila í rekstri fasteignarinnar á sama tíma, þannig að hvorugur aðili eigi rétt á greiðslu.

Varnaraðili styður kröfur sínar við ákvæði hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 35. gr. og 99.-103. gr. laganna. Þá er vísað til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

IV

Fyrir liggur að málsaðilar fengu skilnað að borði og sæng 7. maí 2003 og gerðu af því tilefni fjárskiptasamning þar sem m.a. var kveðið á um að varnaraðili keypti hlut sóknaraðila í íbúðinni að A í Reykjavík og greiddi sóknaraðila fyrir hann kr. 9.219.420.

Samkvæmt 35. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 falla réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng niður ef makar halda áfram sambúð umfram stuttan tíma sem sann­gjarnt er að ætla þeim, einkum vegna búferlaflutninga og öflunar nýs húsnæðis. Þá falla réttaráhrifin einnig niður ef hjón taka síðar upp sambúð nema um sé að ræða skamm­vinna tilraun til að endurvekja samvistir á ný.

Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki hafa flutt út strax eftir skilnaðinn að borði og sæng í maí 2003. Það hafi hann ekki gert fyrr en skömmu síðar. Sóknaraðili kveðst hins vegar ekki hafa flutt út fyrr en um haustið. Þá liggur fyrir að aðilar tóku upp sam­búð aftur á árinu 2004. Kveður sóknaraðili það hafa verið um vorið en varnaraðili kveður það hafa verið í lok júní. Sóknaraðili kveður sambúðina síðan hafa staðið nær óslitið til 25. nóvember 2005. Varnaraðili kveður upp úr sambúðinni hafa slitnað tíma­bundið í júní 2005 og endanlega í nóvember s.á.

Aðila greinir samkvæmt framangreindu á um hvenær sóknaraðili flutti út af heim­ilinu í kjölfar skilnaðar þeirra í maí 2003. Verður því ekki talið að réttaráhrif skiln­aðarins hafi fallið niður vegna áframhaldandi sambúðar aðila. Hins vegar liggur fyrir, samkvæmt því sem að framan er rakið, að aðilar tóku upp sambúð um mitt ár 2004 sem stóð að mestu óslitin til nóvember 2005. Er umrædd sambúð svo löng, þó að hlé hafi orðið á henni, að hún telst meira en skammvinn tilraun til að endurvekja sam­vistir á ný.  Samkvæmt því verður að telja að réttaráhrif skilnaðar aðila hafi fallið niður, sbr. 35. gr. hjúskaparlaga.

Í skilnaðarsamningi aðila var m.a. kveðið á um íbúð á 1. hæð í húsinu nr. [...] við A kæmi í hlut varnaraðila og að hún greiddi sóknaraðila fyrir hans hlut í fast­eigninni kr. 9.219.420. Til að standa sóknaraðila skil á kaupverðinu tók varnaraðili í júlí 2003 lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð kr. 5.467.113. Kveðst varnaraðili ein hafa greitt afborganir, vexti og verðbætur af húsbréfaláninu allar götur síðan. Kveður varn­ar­aðili upphæðina hafa gengið óskerta til sóknaraðila sem hafi varið henni til per­sónu­legra þarfa. Eftirstöðvar kaupverðsins, kr. 3.752.307, hafi sóknaraðili ekki viljað fá greiddar. Fyrir liggur að með afsali dags. 2. maí 2003 afsalað sóknaraðili varnaraðila 50% eignarhluta sínum í íbúðinni að A og var hún þá orðið 100% eign hennar.

Sóknaraðili heldur því fram að skilnaðurinn að borði og sæng hafi verið til mála­mynda. Hann hafi á þessum tíma staðið í áhættusömum rekstri og því hafi þau ákveðið að skilja. Liður í því hafi verið að varnaraðili yrði ein þinglesinn eigandi íbúð­arinnar. Sala á eignarhluta hans í íbúðinni hafi því verið til málamynda enda hafi, um leið og hann afsalaði varnaraðila eignarhluta sínum í íbúðinni, verið gengið frá afsali varnaraðila á eignarhlutanum aftur til hans.

             Lögmaður sóknaraðila kveður sóknaraðila hafa rætt um það að afsala varn­ar­aðila eignarhluta sínum í fasteigninni til að koma í veg fyrir að skuldheimtumenn gengju að eigninni. Kveðst lögmaðurinn hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að slíkt héldi ekki vegna riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga. Hann telji því að sala sóknaraðila til varnaraðila hafi verið raunveruleg.

Fyrir liggur að með afsali dagsettu 29. nóvember 2003 afsalaði varnaraðili sókn­araðila 50% eignarhluta í íbúðinni að A. Afsal þetta var afhent til þing­lýsingar 5. desember 2005. Heldur varnaraðili því fram að hún hafi verið blekkt til að undir­rita afsalið þegar hún undirritaði afsalið frá 2. maí 2003 þegar hún keypti hlut sóknar­aðila í eigninni.

Lögmaður sóknaraðila kveðst hafa útbúið afsalið fyrir eignarhluta sóknaraðila til varnaraðila en kannast ekki við afsalið frá varnaraðila til sóknaraðila. Það líti þó út eins og það stafi frá honum. Hann hafi mögulega sent sóknaraðila afsalið frá sóknar­aðila til varnaraðila á diskettu eða með tölvupósti. Fyrir liggur að vottarnir voru ekki við­staddir undirritun skjalsins.

Í máli þessu verður ekki úr því leyst hvort varnaraðili hafi verið beitt blekk­ingum er hún undirritaði afsalið til sóknaraðila. Verður því við úrlausn málsins við það að miða, í samræmi við þinglýstar heimildir, að aðilar hafi verið sameigendur að fast­eigninni A, Reykjavík, þegar varnaraðili sótti um skilnað þann 15. febrúar 2006.

Er því til úrlausnar hvort skilyrði séu til að víkja frá helmingaskipta reglu 103. gr. laga nr. 31/1993 við skiptin á milli aðila hvað varðar fasteignina A, Reykjavík. En auk fasteignarinnar deila aðilar um bifreiðina B. Hefur sókn­ar­aðili samþykkt að eignir þessar komi í hlut varnaraðila gegn greiðslu.

Fyrir liggur að sóknaraðili fékk eftir að aðilar skildu að borði og sæng, eða í júlí 2003, greiddar kr. 5.467.113 vegna kaupa varnaraðila á eignarhluta hans í íbúðinni að A. Greiðsluna fjármagnaði varnaraðili með láni frá Íbúðalánasjóði með veði í íbúðinni sem hún hefur ein greitt af alla tíð síðan. Óumdeilt er að greiðslan var lögð inn á reikning sóknaraðila og að hann ráðstafaði fénu til greiðslu skulda fyrirtækis síns.

Sóknaraðili hefur, frá skilnaði aðila í maí 2003, greitt meðlög og mennt­un­ar­fram­lög með börnum sínum. Þá þykir ekki annað liggja fyrir en að varnaraðili hafi að megin­stefnu til frá sama tíma staðið ein straum af rekstarkostnaði heimilisins þ.á m. ein greitt afborganir áhvílandi lána, fasteignagjöld, allar tryggingar, þungaskatt af bif­reið, rafmagn, hita, síma sjónvarp, blað og flest það sem fylgir heimilishaldi.  Verður því ekki séð að með aðilum hafi tekist fjárhagsleg samstaða, eftir skilnaðinn að borði og sæng 7. maí 2003, þó að þau hafi tekið upp sambúð á ný.

Meginskilyrði 104. gr. laga nr. 31/1993 fyrir því að heimilt sé að víkja frá helm­inga­skiptareglu 103. gr. laganna er að það sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að skipti verði bersýnilega ósanngjörn.

Með hliðsjón af því sem hér að framan er rakið er það álit dómsins að það væri ber­sýnilega ósanngjarnt ef ekki yrði við skiptin tekið tillit til þeirrar greiðslu er varn­ar­aðili innti af hendi til kaupa á eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni á árinu 2003 enda hefur hún ein greitt af láni því sem hún tók til að fjármagna greiðsluna.

Í ljósi þessa þykja vera uppfyllt skilyrði 104. gr. laga nr. 31/1991 til að víkja frá helmingaskiptum þannig að tekið verði tillit til þessa við skiptin á milli aðila. Að öðru leyti fari um skiptin samkvæmt því sem segir í 103. gr. laganna. Við skiptin þykir rétt að leggja verðmat yfirmatsmannanna á fasteigninni, kr. 46.000.000, og verðmat bif­reiðarinnar B, kr. 362.000, til grundvallar.

             Að teknu tilliti til þessa og í samræmi við útreikning varakröfu varnaraðila, sem ekki hefur verið mótmælt tölulega, er það niðurstaða dómsins að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila kr. 13.751.423,- til lúkningar fjárslitum þeirra gegn því að sókn­ar­aðili aflýsi tryggingarbréfi á 5. veðrétti við Sparisjóðs vélstjóra af fasteigninni A í Reykjavík (010101).

Krafa sóknaraðila um að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að krefja varnar­aðila um húsaleigu uppfyllir ekki skilyrði d. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála og verður henni þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili greiði sóknaraðila 13.751.423 krónur til lúkningar fjárslitum þeirra gegn því að sóknaraðili aflýsi tryggingarbréfi á 5. veðrétti við Sparisjóð vélstjóra af fast­eigninni A í Reykjavík.

Kröfu sóknaraðila, um að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að krefja varn­araðila um húsaleigu frá samvistarslitum þeirra í desember 2005, vegna veru hennar í íbúð þeirra hjóna, er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.