Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-106
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattur
- Tekjuskattur
- Endurákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 19. júlí 2022 leitar Eimskipafélag Íslands hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 286/2021: Eimskipafélag Íslands hf. gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði til áfrýjunar séu uppfyllt.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta gegn gagnaðila og krafðist þess aðallega að ógiltir yrðu úrskurður yfirskattanefndar og úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda leyfisbeiðanda fyrir gjaldárin 2014 og 2015 vegna óbeins eignarhalds félagsins á lögaðilum í ríkjunum Antígva og Barbúda. Til vara krafðist leyfisbeiðandi tilgreindra breytinga á framangreindum úrskurðum auk þess að fellt yrði niður 25% álag sem ríkisskattstjóri bætti við skattstofna leyfisbeiðanda gjaldárið 2014. Að því frágengnu var þess krafist að álagið yrði fellt niður. Þá var í öllum tilvikum gerð krafa um endurgreiðslu fjármuna úr hendi gagnaðila með tilgreindum vöxtum.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að framangreindir lögaðilar á Antígva og Barbúda hefðu verið skráðir í lágskattaríki í skilningi 2. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og væru CFC-félög í skilningi reglugerðar nr. 1102/2013. Tók Landsréttur fram að svo unnt væri að leggja til grundvallar að ekki væri um eignatekjur að ræða í skilningi 1. töluliðar 4. mgr. 57. gr. a laga nr. 90/2003 þyrfti eðli máls samkvæmt að sýna fram á að tekjurnar stöfuðu af raunverulegri atvinnustarfsemi. Að virtum þeim atriðum sem fram kæmu í 6. gr. reglugerðar nr. 1102/2013 og sem líta skyldi til við mat á því hvort því skilyrði væri fullnægt taldi Landsréttur að fallast yrði á það með héraðsdómi að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að svo væri. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur um annað en málskostnað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun á svonefndum CFC-reglum 57. gr. a. laga nr. 90/2003. Mikilvægt sé að Hæstiréttur setji fordæmi um hvernig líta skuli á skattlagningu félaga sem heyra undir fjölþjóðlegar félagasamstæður í tilvikum sem þessum. Þá sé mikilvægt að rétturinn skýri hugtakið „eignatekjur“ í skilningi 1. töluliðar 4. mgr. 57. gr. a. laga nr. 90/2003. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, meðal annars um túlkun framangreinds ákvæðis laga nr. 90/2003.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.