Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Einangrun
  • Kröfugerð


Miðvikudaginn 19. febrúar 2014.

Nr. 116/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Einangrun. Kröfugerð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Talin voru uppfyllt skilyrði fyrir því að X sætti gæsluvarðhaldi samkvæmt a. og c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en með vísan til 3. mgr. 103. gr. laganna var ekki fallist á kröfu L um að X sætti einangrun meðan á því stæði þar sem fullt tilefni hefði verið til að setja slíka kröfu fram skriflega um leið og kröfu um gæsluvarðhald en það hafði ekki verið gert.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. febrúar 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili meðal annars undir rökstuddum grun um brot gegn 244. gr., 254. gr., 259. gr. og 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en sú háttsemi getur varðað fangelsisrefsingu. Eru því uppfyllt skilyrði fyrir því að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið, auk þess sem rökstuddur grunur er um að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett í dómum vegna auðgunarbrota 21. febrúar og 19. júní 2012. Eru skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því einnig uppfyllt og fallist á að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og greinir í dómsorði.

Krafa sóknaraðila um að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur kom fyrst fram á dómþingi 14. febrúar 2014, er gæsluvarðhaldskrafan var tekin til úrskurðar. Samkvæmt 3. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 er heimild sóknaraðila til þess að breyta kröfu munnlega á dómþingi meðal annars háð því að ekki hafi gefist tilefni til þess fyrr. Af gögnum málsins verður ráðið að fullt tilefni hefði verið til þess að setja slíka kröfu fram skriflega um leið og kröfu um gæsluvarðhald. Þar sem það var ekki gert verður hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Eins og fram kemur í gögnum málsins leið röskur sólarhringur frá því að varnaraðili var handtekinn og þar til hann var leiddur fyrir dómara þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Fór þetta í bága við 94. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. febrúar 2014 klukkan 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. febrúar 2014, kl. 16.00 á grundvelli  a. og c.-liðar 1. mgr. 95. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögregla rannsaki nú eftirgreind mál og sé kærði undir  rökstuddum grun um auðgunarbrot og nytjatöku, sem hér greinir:

Í gær hafi kærði verið handtekinn grunaður um innbrot í [...] [...]:

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]

Í gær var kærði handtekinn grunaður um innbrot ásamt öðrum aðila. Kærði er grunaður um innbrot og þjófnað í [...] að [...] í Reykjavík, með því að hafa brotið rúðu og stolið 5 fartölvum og annað eins af spjaldtölvum. Á myndbandsupptökum sést bifreið sem svipar til bifreiðarinnar [...], en þeirri bifreið var stolið í gærmorgun ásamt annari bifreið [...]. Á myndbandsupptökum sjást tveir aðilar koma þýfi í bifreið sem svipar til [...]. Kærði neitar brotinu og hefur þýfið ekki fundist. Eftir er að tala frekar við kærða og meðkærða og endurheimta þýfið.  Kærði neitar brotinu.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...], þjófnaður og nytjastuldur, í gærmorgun var tilkynnt að lyklum og bifreiðinni [...] og [...], hefði verið stolið frá [...], [...] í Reykjavík, en samkvæmt myndbandsupptökum er kærði grunaður um þennan þjófnað ásamt öðrum aðila. Bifreiðin [...] fannst svo skammt frá vettvangi við [...]. Á myndbandsupptökum frá vettvangi og í [...] [...], virðist það sé um kærða að ræða. Bifreiðin [...] hefur ekki fundist. Kærði neitar brotinu. Eftir er að taka frekari skýrslu af meðkærðu.

Önnur mál sem kærði er undir rökstuddum grun:

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]

Þjófnaður og nytjastuldur

Kærði var handtekinn  15. janúar grunaður um að hafa stolið kveikjuáslyklum af [...] [...] í Reykjavík og eftir atvikum tekið nytjatöku  bifreiðina [...]. En þann 13. janúar var tilkynnt um þjófnað á lyklum og bifreiðinni [...]. Hafði bifreiðinni verið ekið utan í [...] og [...] sem voru á bifreiðastæði bílasölunnar.  Þegar afskipti voru höfð af kærða 15. jan við Nýbýlaveg  var bifreiðin á röngum skráningarnúmerunum [...]. Kærði hefur neitað brotinu og ekki gefið neinar skýringar á ferðum sínum á bifreiðinni og hinum röngu skráningarmerkjum.  

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]

Kærði er grunaður um innbrot og þjófnað aðfaranótt laugardagsins 11. janúar 2014 var tilkynnt um innbrot  í verslunina [...] að [...] í Reykjavík, þar sem stolið var tveimur tölvum, samtals að verðmæti kr. 450.000. Kærði er undir rökstuddum grun um innbrot, en á vettvangi sást ljósgrá [...] sem kærði hefur haft afnot af. Kærði hefur neitað ætluðu broti. Eftir er að taka frekari skýrslur af vitnum og kærða.

Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]

Fyrir tilraun til þjófnaður og hótun og eftir atvikum hylmingu. Aðfaranótt þriðjudagsins 31. desember 2013 barst lögreglu tilkynning um að farið hefði verið inn í húsnæði [...] að [...] í Reykjavík. Þar hafði aðili veist að öryggisverði með hamri, en farið af vettvangi á ljósgrárri [...] bifreið. Þar var m.a, tölvu stolið. Samkvæmt lýsingu öryggisvarðarins gat lýsingu átt við kærða. 14. janúar var farið í húsleit að [...], dvalarstað kærða þar sem talva úr innbrotinu fannst. Kærði hefur neitað brotinu og hafa verið á vettvangi. Við leit þann 15. janúar á dvalarstað fannst einnig kveikjuáslykill af bifreiðinni sem stolin hafið verið 24. des.

Mál nr. 007-2013-[...]

Fyrir hylmingu og eða þjófnað. Þann 6. desember stöðvaði lögregla bifreiðina [...], sem annar aðili ók, en í bifreiðinni fundust m.a. 2 spjaldtölvur,. Kærði neitar sök og kveðst ekkert hafa með þessar spjaldtölvur að gera. Telst þetta varða við 254. gr., almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940.

Mál nr. 007-2013-[...] og mál nr. 007-2013-[...]

Kærði er grunaður um þjófnað, nytjastuld, og umferðarlagabrot. Þann 18. desember var tilkynnt um harðan árekstur við Höfðabakka, en þar hafði [...]bifreið, [...] verið ekið aftan á [...]bifreið [...] en kærði  ók af vettvangi á bifreiðinni og skildi bifreiðina eftir við [...] [...], en þar sást aðili hlaupa frá bifreiðinni. [...]bifreiðin ([...]) var á stolnum númerum [...], en bifreiðinni og kveikjuáslyklnum hafði verið stolið 12. desember 2013, en þá hafði gluggi verið spenntur upp  og lyklum stolið og bifreiðinni. Númeraplötunum [...] hafði verið stolið af bifreið við [...] að [...] í Reykjavík 13. desember sl. Í [...]bifreiðinni fannst sími sem kærði er talin eiga og bendir rannsókn til þess. Kærði hefur neitað brotinu.  Telst þetta varða við 244. og gr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 10. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Mál nr. 007-2013-[...]

Fyrir þjófnað í félagi og eða  hylmingu, nytjastuld og skjalabrot. með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember sl. brotist inn í verslun [...] [...]og stolið myndavélum og linsum að verðmæti um 4 milljónir. Hluti þýfisins fannst í bakpoka eftir leit lögreglu að [...] að dvalarstað kærða og kærustu hans. Meðkærða kvað að kærði hefði komið um nóttina með ætlað þýfi. Bifreiðin [...] sem lögregla sá á myndavélum við [...] í [...] um nóttina fannst á stolnum númerum [...] [...] um kvöldið 21. nóv. sl. Bifreiðin [...] var tilkynnt stolin frá [...] þann 20. nóvember sl. og númeraplötur [...] sem fundust á bifreiðinni [...] hafði verið stolið frá [...], sömu nótt. Kærði neitar sök og hefur ekki getað gefið skýringar á ferðum sínum. Telst þetta varða við 244. gr., og  254. gr.   almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Mál nr. 007-2014-[...],

Tilraun til þjófnaðar og þjófnað 24. september í verslun [...] [...]. En þar sést kærði á myndbandsupptökum stela farsímum með því að klippa vír og stela símum. Lögregla telur að þetta sé kærði. Hann neitar brotinu. Telst þetta varða við 244. gr. alm. hgl.

Kærði er grunaður um nytjastuld og skjalabrot, sem hér greinir:

Mál nr. 007-2013-[...]

Fyrir nytjastuld og skjalabrot,  með því að hafa heimildarlaust tekið bifreiðina [...], ásamt öðrum aðila  frá bílasölu [...] í [...] við [...] þann 23. okt. 2013, en kærði  var handtekinn á bifreiðinni [...], [...] [...] þann 3. nóvember á bifreiðinni við verslunina [...] í [...] í Kópavogi ásamt meðkærða, en bifreiðin var á skráningarmerkinu [...], sem kærðu höfðu komist yfir. 

Mál nr. 007-2013-[...] ( -[...])

Skjalabrot 5. nóvember sl. með því að hafa sett skráningarmerkin [...] sem kærði hafði komist yfir á bifreiðina [...] [...] [...], sem var í eigu kærða, og ekið bifreiðinni sama dag þegar lögregla hafði afskipti af honum. Kærður var þjófnaður á skráningarmerkjunum [...] þann 3. nóv. sl. sbr. 007-2013-[...]. Telst þetta varða við 157. gr. alm. hgl.

Einnig er kærði grunaður um umferðarlagabrot, fíkniefna- og eða ölvunarakstur, sbr. mál nr. 007-2014-[...] og -[...], frá 10 og 12. feb. sl.  þar sem kærði er grunaður um akstur undir áhrifum, en kærði var þar stöðvaður af lögreglu í akstri.

Kærði er nú undir rökstuddum og sterkum grun um vegna brota á 244. gr., 254 157., og 259. gr. almennra hegningarlaga  og umferðarlögum einkum 1. mgr. 10. gr.  sbr. 1. mgr. 100 umferðarlaga nr. 50, 1987. Brotaferill kærða hefur verið samfelldur frá byrjun nóvember og fram til dagsins í dag, er kærði var handtekinn. Það virðist því vera að kærði framfleyti sér með afbrotum og fjármagni hugsanlega fíkniefnaneyslu.

                Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum, en kærði er nú í janúar 2014, undir sterkum grun um nokkur brot, þjófnaði, eftir atvikum hylmingu og nytjastuld er það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að geta lokið þessum málum á kærða. Lögregla og ákæruvald mun nú hraða málum hans og mun rannsókn ljúka á næstu dögum og ákæra verða gefin í framhaldinu. Kærði hefur nú rofið skilyrði tveggja dóma sem kærði hlaut 21. febrúar 2012 og 19. júní 2012, en þar hlaut kærði skilorðibundna fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot til tveggja ára.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Kærði kveður að hann hafi verið handtekinn kl. 14.41 í gær. Hann var færður í dómhús Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjargötu fyrir kl. 15.00. Aðstoðarsaksóknarði kveður að tafir hafi orðið vegna yfirheyrslur á öðrum aðilum í tengslum við málið svo og vegna umferðar. Þessi dráttur er aðfinnsluverður.

Kærði hlaut tvo dóma á árinu 2012, þ.e. [...]. febrúar 2012 og [...]. júní 2012. Um var að ræða skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot til tveggja ára. Brotaferill kærða hefur verið samfelldur frá byrjun nóvember sl. og fram til gærdagsins, er kærði var handtekinn. 

Með vísun til þess, sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla má að hann torveldi rannsókn málsins sbr. a- lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008. Þá er, með vísun til sömu gagna, einnig fallist á að ætla megi að hann haldi áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið.

Samkvæmt þessu er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt og er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá skal kærði sæta einangrun svo sem aðstoðarsaksóknari krafðist fyrir dómi og er vísað til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. febrúar 2014, kl. 16.00. Þá skal kærði sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.