Hæstiréttur íslands

Mál nr. 671/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 7. október 2015.

Nr. 671/2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi

(Jón Haukur Hauksson fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 3. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 14. október 2015 klukkan 17 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 3. október 2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur, eða til laugardagsins 17. október 2015, kl. 17:00. Þess er jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.             

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að til rannsóknar séu hjá lögreglunni á Vesturlandi atburðir sem gerst hafi í íbúð á efri hæð hússins nr. [...] við [...] á [...], síðdegis 2. október 2015. Hafi lögreglu borist skilaboð frá Neyðarlínu kl. 17:21 um meðvitundarleysi manns á [...]. Lög­reglu­menn hafi strax farið á vettvang og á leiðinni á vettvang hafi þeim borist frekari upplýsingar um að hugsanlega væri um hengingu að ræða. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi þar verið fyrir kærði og vitnið A, kt. [...]. Hafi vitnið A verið að beita hjartahnoði á brotaþola, B, kt. [...]. Brotaþoli hafi þá ekki verið með púls og ekki andað, verið blóðugur í andliti og byrjaður að blána. Hafi lögregla yfirtekið lífgunartilraunir.

Skömmu á eftir lögreglu hafi sjúkraflutnings­menn komið á vettvang og einnig vaktlæknir og hjúkrunarfræðingur og yfirtekið lífgunartilraunir. Hafi brotaþoli verið fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið á [...]. Þar hafi strax verið tekin ákvörðun um að flytja hann á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi með sjúkrabifreið þar sem hann liggi nú þungt haldinn.

Vitnið A hafi á vettvangi sagst hafa verið inni í herbergi sínu og hafa fyrr um daginn heyrt kærða og brotaþola rífast. Hefði vitnið farið á salernið um 30 mínútum áður en lögregla hefði verið kvödd á staðinn og þá heyrt í kærða og brotaþola. Þegar vitnið hefði heyrt að kærði fór út úr íbúðinni hefði það farið út úr herbergi sínu. Hefði vitnið sagst hafa heyrt í kærða vera að moka úti og þá farið að kanna með brotaþola og séð hann á grúfu í sófa í stofu íbúðarinnar. Hefði brotaþoli verið búinn að missa þvag og verið orðinn blár í framan. Vitnið hefði sagt að reim hefði verið utan um hálsinn á brotaþola og belti við hlið hans og að blóð hefði verið á beltinu. Reimin hefði verið bundin utan um háls brotaþola en ekki fest neins staðar. Hefði vitnið talið að reimin og beltið væru einhvers staðar í kringum sófann en hvorugt hefði fundist. Vitnið hefði einnig greint frá því að það hefði hringt í 112 og kallað eftir aðstoð sjúkra­flutninga­manna og lögreglu. Á meðan á símtalinu stóð hefði kærði komið inn aftur, tekið reimina sem áður hafi verið um háls brotaþola, brugðið henni um háls brotaþola og hert að. Vitnið hefði reynt að stöðva kærða, sem hefði látið af þessu þegar heyrðist í sírenum lögreglubifreiðar nálgast húsið.

Kærði hafi yfirgefið vettvang á meðan lögregla og sjúkralið hafi verið þar. Hann hafi síðan verið handtekinn skömmu eftir að brotaþoli hafi verið fluttur á sjúkrahús, nánar tiltekið við strætóbiðstöð við [...] á [...] kl. 18:01 og vistaður í fangaklefa á lögreglustöðinni á [...]. Kærði hafi verið áberandi ölvaður við handtöku og verið með rúmlega hálfa stóra flösku af Jägermeister áfengi. Við handtöku hefði kærði ítrekað að brotaþoli hefði tekið inn morfíntöflur sem kærði hefði átt og að brotaþoli hefði dáið.

Lögreglumenn, auk rannsóknarlögreglumanna frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgar­svæðinu, hafi hafið rannsókn á vettvangi á [...]. Við rannsókn þar á staðnum hafi fundist reim og belti í frystikistu í eldhúsi. Um hafi verið að ræða ljósa þykka reim og hvítt belti með svörtu mynstri. Sylgja, sem talin sé tilheyra beltinu, hafi fundist á gólfi í borðstofu og leðurfestingar fyrir sylgjuna hafi fundist í sófanum sem brotaþoli legið í þegar komið var á vettvang. Fyrr þennan sama dag hefði lögregla þurft að hafa afskipti af kærða vegna ölvunaróláta hans. Hann hefði þá verið klæddur í sömu föt og við handtökuna, utan þess sem að þá hafi hvítleit reim verið í peysu hans. Þegar reimin hafi fundist í frystikistunni hafi vantað málmhólk á annan enda hennar. Sambærilegur málmhólkur hafi fundist í fötum brotaþola, þegar hann hafi verið afklæddur á sjúkrahúsi.

Skýrsla hafi verið tekin af kærða á lögreglustöðinni á [...] 3. október 2015. Hafi skýrslutaka hafist kl 14:47 og henni lokið kl. 15:49. Viðstaddur skýrslutöku hafi verið Sigurður Freyr Sigurðsson hdl., verjandi kærða. Kærði hafi ekki tjáð sig mikið en fram hafi þó komið að hann neiti sök og telji sig hafa verið að reyna að bjarga lífi brotaþola.

Kærði, X, sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um tilraun til mann­dráps skv. 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins sé á frumstigi. Ekki hafi unnist tími til þess að gera allar þær ráðstafanir í þágu rannsóknarinnar sem til þurfi svo að sakargögn spillist ekki. Vettvangur á [...] sé innsiglaður. Tekin hafi verið sýni, bæði af vettvangi og af þeim sem þar hafi verið, auk blóðsýna, en ekki hafi unnist tími til að rannsaka þau. Yfirheyra þurfi nágranna og önnur hugsanleg vitni. Ljóst sé að það myndi skaði rann­sóknina mjög ef sakborningur gengi laus meðan rannsókn standi yfir. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu viðkvæma stigi málsins.

Með vísan til ofangreinds sé talið að fyrir hendi séu skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um rökstuddan grun um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggi við. Með tilliti til þess sem að framan greini, svo og vegna alvarleika hins kærða verknaðar, sé nauð­synlegt að krefjast gæsluvarðhalds yfir kærða. Auk þess krefjist rannsóknarhagsmunir þess að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á varðhaldi standi.

Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði framið verknað sem fangelsisrefsing liggi við með því að hafa brugðið ól um háls brotaþola og hert að, með þeim afleiðingum að brotaþoli liggur nú þungt haldinn og í lífshættu á sjúkrahúsi. Rannsókn málsins er á frumstigi og þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Jafnframt þykir nauðsynlegt af sömu ástæðu að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr.  sömu laga. Verður því fallist á kröfur lögreglu, en tímalengd gæsluvarðhaldsins markaður skemmri tími, eins og í úrskurðarorði greinir.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðahaldi til miðvikudagsins 14. október 2015, kl. 17.00. Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.