Hæstiréttur íslands
Mál nr. 748/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Ráðningarsamningur
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 5. desember 2013. |
|
Nr. 748/2013. |
Guðmundur Halldór Torfason (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Ráðningarsamningur. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa G var viðurkennd við slit G hf. með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. G hóf störf hjá G hf. í ágúst 2006 en þeir gerðu síðan samkomulag 17. október 2007 um að auk fastra launa fengi G greiðslu í samræmi við árangurstengt launakerfi, að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. G taldi sig hafa staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt samkomulaginu og því bæri honum kaupaukagreiðsla úr hendi G hf. að fjárhæð 5.000.000 krónur. Í málinu var réttmæti kröfu G og fjárhæð hennar óumdeild en ágreiningur aðila laut að því hvar skipa skyldi henni í réttindaröð við slit G hf. Taldi G greiðsluna vera forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem hún hafi verið hluti af launum og tengdist vinnuframlagi hans fyrir G hf. Bankinn taldi greiðsluna ekki hafa verið tengda sérstöku vinnuframlagi G heldur árangri hans í starfi. Hún hafi verið umfram þær greiðslur sem hann hafi fengið fyrir vinnu í þágu G hf. og félli því ekki undir áðurnefnt ákvæði 112. gr. laganna. Héraðsdómur taldi G ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að kaupaukinn hafi verið háður sérstakri vinnuskyldu af hans hálfu. Kaupaukinn gæti því ekki talist endurgjald fyrir vinnu í þjónustu G hf. í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1191 eins og það lagaákvæði hefði verið túlkað í dómaframkvæmd. Voru því ekki taldar forsendur til að skipa kröfu G í réttindaröð sem forgangskröfu, en fallist á að hún skyldi flokkast sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2013, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 5.603.291 króna var viðurkennd við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa sín á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2008 til 22. maí 2009 verði viðurkennd við slit varnaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur því krafa hans um málskostnað í héraði ekki komið frekar til álita.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðmundur Halldór Torfason, greiði varnaraðila, Glitni hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2013.
Mál þetta var þingfest 13. apríl 2012 og tekið til úrskurðar 10. október 2013. Sóknaraðili er Guðmundur Torfason, Kvistalandi 11, Reykjavík, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans til slitastjórnar varnaraðila, dagsett 17. nóvember 2009, að fjárhæð 5.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú afstaða hans að samþykkja kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.603.291 króna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að frekari kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Málavextir eru þeir að sóknaraðili var ráðinn til starfa hjá varnaraðila í ágúst 2006, fyrst í þeirri deild er bar heitið „Eignastýring einstaklinga“. Hinn 1. október 2007 hóf hann störf hjá Einkabankaþjónustu varnaraðila. Hinn 17. október 2007 gerðu aðilar samkomulag um að sóknaraðila yrðu greidd föst laun og laun í samræmi við árangurstengt launakerfi. Samningstími við Glitni var frá 1. október 2007 til 1. október 2008. Í samkomulagi aðila kemur fram að árangurstenging sé miðuð við árangur við að ná inn nýju fé í stýringu og sé greidd bónusgreiðsla í lok tólf mánaða tímabilsins. Var gengið út frá því að sóknaraðili næði ákveðnum skilgreindum markmiðum á fyrsta árinu í starfi til þess að hann gæti að þeim tíma liðnum gengið inn í launakerfi Einkabankaþjónustunnar. Í samkomulaginu er tiltekið hver markmið fyrsta ársins ættu að vera til að sóknaraðili nyti þeirra launakjara sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Þá er því lýst að við hvern einn heilan milljarð, sem sóknaraðili næði inn í stýringu á árinu, fengi hann greidda eina milljón króna í kaupauka í lok tímabilsins. Eins og áður segir hafi sóknaraðili átt að ganga inn í launakerfi Einkabankaþjónustunnar eftir fyrsta árið og þiggja laun eins og aðrir sérfræðingar/ viðskiptastjórar í deildinni. Í greinargerð sóknaraðila er því haldið fram að þegar starfsárinu hafi lokið hafi komið í ljós að sóknaraðili fullnægði að öllu leyti ákvæðum samkomulagsins til kaupaukagreiðslna. Við það að skipta um starf innan bankans hafi hins vegar ekki orðið breyting á heildarlaunum sóknaraðila heldur hafi hann haldið áfram að fá föst laun að fjárhæð um 570.000 krónur á mánuði.
Fyrir liggur að samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Hinn 15. október 2008 var Nýi Glitnir banki hf. (nú Íslandsbanki hf.) stofnaður um innlenda bankastarfsemi varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa hluta af starfsemi varnaraðila til nýs banka sem stofnaður hafði verið og var að fullu í eigu íslenska ríkisins. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009. Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009. Áður en sá tími var á enda, 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt lögum nr. 44/2009, en viðkomandi lagareglur er nú að finna í XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þ.á m. um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna varnaraðila, 25. maí 2009, og birtist hún fyrst í Lögbirtingarblaðinu, 26. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur var ákveðinn sex mánuðir og lauk honum því 26. nóvember 2009.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi lýst kröfu við slitameðferð Glitnis banka hf., með kröfulýsingu, dagsettri 17. nóvember 2009, sem móttekin var af slitastjórn bankans, 19. nóvember 2009, samtals að fjárhæð 6.147.000 krónum. Lýst krafa sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu sundurliðist með eftirfarandi hætti:
|
Tegund kröfu |
Heildarfjárhæð |
Lýst rétthæð |
|
Bónus |
5.000.000 kr. |
112. gr. gþl. |
|
Mótframlag í grunnsjóð 6% |
300.000 kr. |
112. gr. gþl. |
|
Mótframlag í séreign 2% |
100.000 kr. |
112. gr. gþl. |
|
Dráttarvextir |
747.000 kr. |
112. gr. gþl. |
|
Heildarfjárhæð: |
6.147.000 kr. |
|
Varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi, dagsettu 4. desember 2009. Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu slitastjórnar Glitnis banka hf. á kröfuhafafundi, 17. desember 2009. Fundur til að reyna að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. var haldinn 1. febrúar 2012. Varnaraðili samþykkir kröfu sóknaraðila að fjárhæð 5.603.291 krónu sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samþykkt krafa varnaraðila sundurliðast með eftirfarandi hætti:
|
Tegund kröfu |
Heildarfjárhæð-samþykkt |
Samþykkt rétthæð |
|
Bónus |
5.000.000 kr. |
113. gr. gþl. |
|
Dráttarvextir |
603.291 kr. |
113. gr. gþl. |
|
Heildarfjárhæð: |
5.603.291 kr. |
|
Þar sem ekki var unnt að leysa ágreining um kröfuna ákvað slitastjórn Glitnis hf. að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Við aðalmeðferð málsins, 10. október sl., var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila að hann lækkaði fjárhæð kröfu sinnar úr 5.400.000 krónum í 5.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, í samræmi við þá fjárhæð sem varnaraðili hafði samþykkt í greinargerð sinni sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Eins og áður greinir samþykkir varnaraðili að greiða sóknaraðila dráttarvexti að fjárhæð 603.291 krónu. Er krafa sóknaraðila því að fjárhæð 5.603.291 króna og telst nú óumdeild.
II
Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi að ári liðnu náð öllum þeim markmiðum er fram komi í samkomulagi aðila frá 17. október 2007 og því hafi verið ákveðið að hann fengi greiddar fimm milljónir króna, 1. október 2008, þar sem hann hafi náð rúmum fimm milljörðum í stýringu á samningstímanum. Sóknaraðili vísar í því sambandi til framlagðar yfirlýsingar yfirmanns hans, Jóhanns Ómarssonar en hann hafi ráðið sóknaraðila til starfans og samið við hann um launakjör hans í nýju starfi innan bankans. Þar staðfesti Jóhann að sóknaraðili hafi uppfyllt samkomulagið og innt af hendi þá vinnu sem þar sé gerð krafa um. Árangur hafi náðst á samningstímabilinu og kaupauki hafi verið reiknaður miðað við 1. október 2008, til útgreiðslu, 1. nóvember 2008. Verði að telja að þær eignir sem sóknaraðili hafi náð inn á tímanum hafi flust yfir til nýs banka og verið metnar þar til verðmæta. Sé í þessu sambandi einnig vísað til framlagðra tölvupósta milli sóknaraðila og Jóhanns og Jóhanns og starfsmannahalds Glitnis banka þar sem Jóhann tilkynni starfsmannahaldinu um uppsafnaðan rétt sóknaraðila til greiðslu á fimm milljónum króna. Þá sé vísað til framlagðra tölvupósta sem sýni samskipti sóknaraðila við Ragnar Torfa Geirsson í starfsmannahaldi varnaraðila. Aðspurður um greiðsluna til sóknaraðila svari Ragnar að óheimilt sé að greiða inn á skuldbindingar sem hafi orðið til eftir 1. október en hann hafi skráð „þessa stöðu sem ógreidd laun í bókhaldinu“. Í tölvupósti, dagsettum 31. október 2008, lýsi Ragnar því einnig hvenær hann hafi fengið fyrirmælin um greiðsluna frá Jóhanni. Hann segi þar m.a.: „Læt fylgja með beiðnina sem Jói sendi mér. Eins og sést þá barst þetta mér þann 7. október kl 17:53. Á þeim tíma var ég ekki í aðstöðu til að greiða neitt, þar sem gjaldkerakerfin loka kl. 17. Um kl. 22 þennan sama dag tók FME yfir bankann. Frá þeim tímapunkti var mér óheimilt að greiða nokkuð af þessu tagi án beinna fyrirmæla skilanefndar“.
Þá vísar sóknaraðili til framlagðs lista yfir þær fjárhæðir sem sóknaraðili náði inn til stýringar á því ári sem samningurinn hafi tekið til. Nemi þær fjárhæðir samtals um 5,9 milljörðum króna og marki þann stofn sem kröfufjárhæðin, fimm milljónir króna, sé fundin út frá. Sóknaraðili byggir á því að við gerð samningsins um kaupaukann hafi jafnframt verið samið um að föst mánaðarlaun hans yrðu áfram þau sömu og í fyrra starfi þrátt fyrir að um umfangsmeira starf væri að ræða. Hann hafi talið það í lagi þar sem hann hafi litið svo á að um tækifæri fyrir sig væri að ræða og skref upp á við stöðulega séð. Vonin um hækkuð laun kæmi ekki fram fyrr en að liðnu einu ári. Föstu launin hafi verið 570 þúsund krónur á mánuði, sem hafi ekki verið há laun miðað við laun margra annarra starfsmanna í bankanum með viðskiptafræðimenntun. Sóknaraðili byggir á því að kaupaukagreiðslur til hans hafi átt að taka mið af hans persónulega árangri og verið bundnar alveg sjálfstætt við vinnuframlag hans en ekki annarra. Hafi útreikningur á kaupauka til hans alfarið tekið mið af þeim fjárhæðum sem hann sjálfur hafi fengið til stýringar. Hafi kaupaukinn átt að hífa launin eitthvað upp og reyndist eftir árið hafa bætt mánaðarlaunin um 417 þúsund krónur og hafi laun sóknaraðila á mánuði á samningsárinu þá samtals numið 987 þúsund krónum. Hins vegar sé til þess að líta að fyrirfram hafi það ekkert verið gefið að sóknaraðili næði þeim markmiðum sem samkomulagið gerði ráð fyrir og þá hefðu launin ekkert breyst. Sóknaraðili vísar varðandi laun starfsmanna Glitnis á þessum tíma til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi strax gert athugasemdir við það að hann hafi ekki fengið samþykkta fjárhæð greidda eftir fall varnaraðila. Komi slíkar athugasemdir fram á framlögðum tölvupóstum. Í því sambandi sé einnig til þess vísað að sóknaraðili hafi fljótt á eftir átt fund með skilanefnd og sent henni ítarlegan tölvupóst. Þá hafi starfsmanna- og stéttarfélagið strax gengist í að fá skilanefndina til að viðurkenna sjónarmið sóknaraðila en án árangurs.
Verði ekki fallist á að launakrafa sóknaraðila sé forgangskrafa skv. 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 sé byggt á því til vara að krafan sé almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili vísar, kröfum sínum til stuðnings, til meginreglna skaðabótaréttar um skaðabætur innan samninga, samningalaga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega til 1. mgr. 112. gr., 113. gr. og 129. gr. þeirra laga. Hvað varði málskostnað sé vísað til 130 laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
III
Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni mótmæla málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Sóknaraðili haldi því fram að varnaraðila beri að greiða honum umrædda kaupaukagreiðslu að fjárhæð 5.000.000 króna sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem greiðslan sé hluti af launum og að hún tengist vinnuframlagi sóknaraðila fyrir varnaraðila. Varnaraðili fellst ekki á rök sóknaraðila um að kaupaukagreiðslan sé launagreiðsla skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu komi fram að forgangskröfur séu „kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamannsins enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag.” Með ákvæði þessu, sem skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð, sé vikið frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti og beri því að skýra ákvæðið þröngt. Í dómaframkvæmd hafi mótast sú regla um skýringu inntaks 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um laun og annað endurgjald fyrir vinnu, að slík laun eða endurgjald þurfi að eiga rætur sínar að rekja til vinnu í þjónustu þrotamanns.
Sóknaraðili hafi fengið greidd laun fyrir öll störf sín í þágu varnaraðila. Umrædd bónusgreiðsla hafi verið umfram þær greiðslur sem sóknaraðili hafi fengið fyrir vinnu í þágu varnaraðila. Kaupaukagreiðslan sé ekki tengd vinnuframlagi af hálfu sóknaraðila. Gögn málsins geymi engin ákvæði um vinnu varnaraðila í þágu sóknaraðila sem endurgjald fyrir umrædda kaupaukagreiðslu heldur hafi greiðslan einungis verið tengd árangri hans í starfi. Varnaraðili hafi ekki fært fram nein gögn til sönnunar á því hvaða auka vinnu sóknaraðili átti að inna af hendi fyrir varnaraðila í stað greiðslunnar. Væri slíkt til staðar beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 2003 á bls. 2950 (Þrotabú Brims gegn Rafni F. Johnson) sé tekið fram að greiðslur sem byggi á starfslokasamningi njóti ekki forgangs þar sem ekkert vinnuframlag komi í stað greiðslu. Niðurstaða Hæstaréttar byggi á því að 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé undantekningarregla um jafnræði kröfuhafa og beri að skýra þröngt. Hæstiréttur ítreki afstöðu sína í máli frá 13. ágúst 2010 nr. 378/2010 (Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. gegn Flemming Bendsen) þar sem gengið hafði verið frá því í samningi milli sóknaraðila og varnaraðila að varnaraðili hafi átt að fá ákveðna greiðslu fyrir ráðgjöf. Hæstiréttur féllst á að varnaraðili ætti rétt á lokagreiðslu samningsins. Dómurinn féllst hins vegar ekki á að krafa nyti forgangs skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ekki lágu fyrir gögn í málinu sem sýndu fram á að greiðslur samkvæmt samningi hafi verið laun eða annað endurgjald fyrir vinnu né heldur að krafist hafi verið vinnuframlags af hálfu varnaraðila. Þá vísar varnaraðili sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 3. nóvember 2001 í máli nr. 566/2011, Sigmundur Ellingbo gegn Landsbanka Íslands hf. en þar segi í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti „Þar sem greiðsla kaupaukans var því óháð að sóknaraðili innti af hendi frekari vinnu en samið var um í ráðningarsamningi, þykir ekki unnt að líta svo á að krafa hans um greiðslu kaupaaukans falli undir laun eða endurgjald fyrir vinnu, í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.“
Sóknaraðili vísar til tölvupósta frá yfirmanni sínum þar sem staðfest sé að frammistaða sóknaraðila hafi verið í samræmi við kaupaaukasamninginn og að hann ætti rétt á kaupaukagreiðslu upp á fimm milljónir króna samkvæmt honum. Varnaraðili mótmælir því að þetta gefi vísbendingu um að laun hafi verið að ræða skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. heldur sé aðeins staðfesting á því að sóknaraðili hafi fullnægt þeim skilyrðum sem greiðsla kaupaaukans var komin undir. Vísar varnaraðili til Hæstaréttardóms frá 2. mars. 2012, Glitnir hf. gegn Sigurgeiri Erni Jónssyni í máli nr. 85/2012, þar sem kaupaaukagreiðsla, sem byggði á frammistöðu í vinnu, hafi verið samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Í fyrrnefndum dómi segi: „Föst umsamin grunnlaun varnaraðila, 250.000 bandaríkjadalir á ári að frádregnum sköttum, voru tengd vinnuframlagi hans og hefur sóknaraðili þegar greitt varnaraðila þann hluta fastra launa sem er fyrir tímabilið frá 1. júní til loka október 2008. Réttur varnaraðila til kaupaukans fyrir árið 2008 var hins vegar samkvæmt orðalagi ráðningarsamningsins án áskilnaðar um vinnuframlag. Til grundvallar kaupauka vegna fyrsta árs varnaraðila í starfi virðast einkum hafa legið væntingar forstjóra sóknaraðila um frammistöðu varnaraðila við úrlausn aðkallandi verkefna sem tengdust fjármögnun bankans og mikilvægi varnaraðila sem starfsmanns í ljósi þekkingar hans og reynslu af sambærilegum verkefnum í starfi hjá fyrri vinnuveitanda.“ Í ljósi ofangreindra dóma sé ljóst að eitt af skilyrðum fyrir því að krafa sem byggi á samningi milli launþega og vinnuveitanda verði talin laun í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé vinnuframlag launþega. Sé ekki krafist vinnuframlags af hálfu launþega fyrir vinnuveitanda teljist krafa almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Varnaraðili mótmælir þeim fullyrðingum sóknaraðila að fallast eigi á að krafa sóknaraðila sé forgangskrafa þar sem mánaðarlaun hans hafi verið mjög lág og að umþrætt krafa hafi átt að vera til að bæta það upp. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram neinar sannanir til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni auk þess sem það hefði þá verið eðlilegt að það kæmi fram í samningi um kaupaukagreiðslu að þetta væri hluti af mánaðarlaunum sóknaraðila en einungis greitt ef ákveðnum skilyrðum væri fullnægt.
Varnaraðili mótmælir einnig þeim fullyrðingum sóknaraðila að krafan skuli teljast forgangskrafa þar sem sóknaraðili hafi gert athugsemdir við að greiðslan hafi ekki verið greidd eftir skipun skilanefndar eða 7. október 2008 og síðar. Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hafi Fjármálaeftirlitið, 7. október 2008, tekið yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vikið stjórn hans frá og sett yfir hann skilanefnd. Bankanum hafi eftir það verið veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 24. nóvember sama ár. Á þessum tíma hafi varnaraðili verið ógjaldfær auk þess sem að ef þessi tiltekna greiðsla hefði verið greidd út eftir skipun skilanefndar hefði öðrum kröfuhöfum verið mismunað þar sem þeir fengu ekki sínar kröfur greiddar á sama tíma.
Þá gefi ekkert til kynna að greiðsla þessi verði skert með frádrætti vegna launatengdra gjalda eða staðgreiðslu opinberra gjalda. Þegar af þessum ástæðum verði þessari kröfu sóknaraðila ekki skipað í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og telst hún því til almennra krafna eftir 113. gr. sömu laga.
Varnaraðili vísar til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og meginreglna gjaldþrota- og samningaréttar. Kröfu um málskostnað styðji varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988.
IV
Í máli þessu er réttmæti kröfu sóknaraðila sem og fjárhæð hennar óumdeild. Ágreiningur aðila lýtur eingöngu að því hvar skipa skuli henni í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila.
Fyrir liggur að sóknaraðili var ráðinn til varnaraðila í lok júní 2006 sem starfsmaður Eignastýringar einstaklinga. Í október 2007 flutti hann sig um set innan bankans og hóf störf hjá Einkabankaþjónustu varnaraðila. Ljóst er að föst laun sóknaraðila breyttust ekki við þetta og héldust 570.000 krónur á mánuði, eins og fram kemur í ráðningarsamningi aðila frá 30. júní 2006. Í sama samningi segir í lið 4, sem ber yfirskriftina „Laun og hlunnindi“, að viðbótarsamningur verði gerður um árangurstengingu starfsmanns. Hinn 17. október 2007 gerði varnaraðili samkomulag um árangurstengt launakerfi við sóknaraðila sem undirritað var af sóknaraðila og Jóhanni Ómarssyni, þáverandi forstöðumanni Einkabankaþjónustu varnaraðila. Í samkomulaginu kemur fram að sóknaraðili muni starfa sem fjármálaráðgjafi í Einkabankaþjónustu og sé hann ráðinn á kjörum sem séu árangurstengd og tímabundin. Árangurstengingin sé miðuð við árangur við að ná inn nýju fé í stýringu og sé greidd kaupaukagreiðsla í lok tólf mánaða tímabilsins sem taki mið af varanlegum stofnum í einkabankaþjónustu. Þá er því lýst að kaupaukagreiðslan hlaupi á hverjum milljarði sem náist inn í stýringu og nemi hún einni milljón króna fyrir hvern milljarð. Í samkomulaginu eru ennfremur tilgreind ákveðin markmið fyrsta árs sóknaraðila í starfinu. Markmiðin fólust meðal annars í að rækta viðskiptasambönd og tengsl við efnamikla viðskiptamenn í því skyni að fá fjármuni þeirra til stýringar og fjármálaviðskipti þeirra og að ná eins miklu nýju fé í stýringu og mögulegt væri á samningstímanum og ekki minna en tvo milljarða.
Sóknaraðili, Guðmundur Torfason, gaf skýrslu fyrir dóminum. Aðspurður kvaðst hann hafa borið töluvert meiri ábyrgð eftir að hann flutti sig yfir í Einkabankaþjónustu varnaraðila. Vinnan hafi verið meiri og oft utan hefðbundins vinnutíma. Þá liggur fyrir yfirlýsing Jóhanns Ómarssonar, dagsett 10. mars 2012, þar sem staðfest er að sóknaraðili hafi innt af hendi þá vinnu sem getið er um í samningnum og að hann hafi uppfyllt samninginn á þann hátt sem getið sé um. Sóknaraðili hafi náð þeim árangri á tímabilinu sem markmiðin kváðu á um og kaupauki hafi því verið reiknaður samkvæmt samningsákvæðum miðað við 1. október 2008. Staðfesti Jóhann þetta í skýrslutöku fyrir dóminum.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi staðið við sínar skuldbindingar samkvæmt samkomulaginu frá 17. október 2007 og lagt af hendi vinnu til að uppfylla þau markmið sem samkomulagið tiltaki. Krafa sóknaraðila um greiðslu sé því launakrafa í skilningi 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili mótmælir því ekki að sóknaraðili hafi unnið mikið og umfram venjulegan vinnutíma. Hann hafnar því hins vegar að sú umfram vinna hafi verið skilyrði fyrir kaupaukagreiðslu sóknaraðila. Byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila um kaupaukagreiðslu falli ekki undir launahugtak 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem greiðslan sé ekki tengd sérstöku vinnuframlagi af hálfu sóknaraðila.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjaldþrotaskipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Ákvæði þetta skipar vissum kröfum framar í réttindaröð og víkur þar með frá grundvallarreglu laganna um jafnræði lánardrottna við gjaldþrotaskipti. Af fjölmörgum dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á túlkun ákvæðisins, meðal annars í máli nr. 566/2011 frá 3. nóvember 2011 og í máli nr. 85/2012 frá 2. mars 2012, má ráða að umrætt lagaákvæði verði ekki skýrt á rýmri veg en leiði af orðanna hljóðan. Jafnframt þyki orðalag þess ótvírætt benda til þess að réttur til launa og annars endurgjalds þurfi að eiga rætur að rekja til vinnu. Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi þurft að inna af hendi mikla vinnu til að fullnægja þeim markmiðum, sem fram komi í samkomulagi aðila frá 17. október 2007 og að litið hafi verið svo á að það vinnuframlag sóknaraðila næði bæði til mánaðarlegra fastra launa auk kaupaukagreiðslunnar, sem kveðið væri á um í samkomulaginu. Verður ekki fallist á þetta með sóknaraðila. Þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að kaupaukinn, sem óumdeilt er að sóknaraðili eigi rétt á, hafi verið háður sérstakri vinnuskyldu af hálfu sóknaraðila. Hvorki framlögð gögn um laun annarra samstarfsmanna sóknaraðila né sú staðreynd, að sóknaraðili hækkaði í föstum mánaðarlegum launum við fall varnaraðila, breyta þeirri niðurstöðu. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar verður ekki talið sýnt að umræddur kaupauki geti talist endurgjald fyrir vinnu í þjónustu varnaraðila í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og það lagaákvæði hefur verið túlkað í dómaframkvæmd. Eru þegar af þeim ástæðum ekki forsendur til að skipa kröfu sóknaraðila í réttindaröð sem forgangskröfu en fallist á að hún skuli að réttu flokkast sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Með hliðsjón af því að varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila með öllu í upphafi og viðurkenndi hana fyrst sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í greinargerð sinni, sem dagsett er 21. september 2012 og var lögð fram í þinghaldi sama dag, þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Guðmundar Halldórs Torfasonar, að fjárhæð 5.603.291 króna er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila Glitnis hf.
Málskostnaður fellur niður.