Hæstiréttur íslands
Mál nr. 553/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 25. október 2006. |
|
Nr. 553/2006. |
Lögreglustjórinn í Keflavík(Júlíus Kristinn Magnússon fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 17. nóvember 2006 en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 19. október 2006. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2006, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 25. september 2006 í málinu nr. 508/2006, kemur fram að varnaraðili hafi verið handtekinn 19. sama mánaðar grunaður um að hafa átt aðild að þjófnaði í umdæmi lögreglustjórans á Selfossi. Þá er þess getið í úrskurðinum að varnaraðili hafi verið handtekinn á ný aðfaranótt 21. sama mánaðar þar sem hann og félagar hans voru á bifreið, sem tekin hafði verið í heimildarleysi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað líði rannsókn þessara mála. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 21. september 2006. Af gögnum málsins verður ráðið að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið allmörg hegningarlagabrot, sem fangelsisrefsing er lögð við. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. október 2006.
Lögreglustjórinn í Kelflavík hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, með lögheimili að [...] en án fasts samastaðar, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 föstudaginn 14. nóvember nk. á meðan mál hans eru til rannsóknar og eftir atvikum þar til dómur gengur í málum hans.
Krafan er reist á ákvæðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði kretst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að kærði er grunaður um að hafa framið fjölda hegningarlagabrota á þessu ári og séu mál þessi nú til rannsóknar hjá lögreglu í Keflavík og á Selfossi. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness þann 21. september sl. til föstudagsins 20.október nk. kl. 16 á grundvelli c. liðar 1mgr. 103.gr. laga um meðferði opinberra mála í máli nr. R-168/2006. Á sama tíma hafi A [kt.], úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 20. október nk. kl. 16, en þeir séu grunaðir um að hafa einir, í félagi, eða með öðrum, staðið að margs konar afbrotum í júlí, ágúst og september á þessu ári, svo sem þjófnaði, nytjastuldi, fjársvikum, eignaspjöllum og umferðarlagabrotum og hafi reynst nauðsynlegt að fá þá úrskurðaða í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1 .mgr. 103.gr. laga um meðferð opinberra mála því þeir linntu ekki afbrotum.
Kærðu, X og A, hafi verið í einangrun í Fangelsinu á Litla-Hrauni, en þeir hafi verið grunaðir um íkveikju þann 15. október sl. í fangelsinu, en lögreglan á Selfossi hafi það mál nú til rannsóknar.
Samkvæmt meðfylgjandi greinargerð Jóhannesar Jenssonar, aðstoðaryfir-lögregluþjóns, hafi lögreglan unnið látlaust að rannsókn mála sem þeir eru grunaðir um að tengjast. Þegar rannsókn málanna sé lokið verða þau send ákæruvaldinu til athugunar sbr. 112.gr. laga um meðferð opinberra mála og reynt að ljúka afgreiðslu málanna þar sem allra fyrst.
Lögreglan telji X vera vanaafbrotamann sem þurfi að stöðva til að hægt sé að afgreiða mál hans með lögreglurannsókn, ákærumeðferð og væntanlegri dómsmeðferð. Verði hann látinn laus, megi búast við því að hann taki þegar upp fyrri iðju.
Þegar virt er hve tíð brot þau eru, sem kærði X og A eru grunaðir um í júlí, ágúst og september, má fallast á að veruleg hætta sé á því að þeir haldi áfram brotastarfsemi ef þeir verða frjálsir ferða sinna og því sé nauðsynlegt að þeir sæti gæsluvarðhaldi meðan mál þeirra eru til lykta leidd. Hins vegar verður og að líta til þess að mörg þessara brota eru smávægileg og sök um sum þeirra játuð. Flest þeirra eru framin í júlí og ágúst s.l. og því hefur unnist tími til að rannsaka þau að einhverju leyti áður en kærði X var úrskurðaður í gæsluvarðhald 24. september s.l. Mál þessi eru flest á lokastigi rannsóknar og verður að ætla að unnt sé að ljúka rannsókninni og gefa út ákæru í málinu innan fárra daga og þykir því mega fallast á rök kærða um að umkrafinn gæsluvarðhaldstími verði styttur nokkuð og er kærði X með vísan til c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember nk. kl. 16:00.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. nóvember nk. kl. 16:00.