Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                        

Mánudaginn 1. mars 1999.

Nr. 80/1999.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi)

gegn

X

(Hilmar Magnússon hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.  A. og B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X, erlendur ríkisborgari búsettur á Íslandi, var grunaður um stórfelld brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa innleyst falsaða tékka og ráðstafað andvirði þeirra. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að skilyrðum samkvæmt a. og b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt  til að verða við kröfu um gæsluvarðhald. Krafa rannsóknara um að gæsluvarðhaldi yrði markaður lengri tími en ákveðinn var í héraði kom ekki til álita þar sem hann hafði ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila verði markaður tími til mánudagsins 8. mars nk. kl. 16.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en ekki kemur til álita krafa sóknaraðila, sem hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti, um að gæsluvarðhaldi verði markaður lengri tími en þar greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 1999.

Ár 1999, þriðjudaginn 23. febrúar, er á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dóm­húsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp þessi úrskurður um kröfu Ríkisögreglustjórans um að X, sem er nígerískur ríkisborgari verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.

Dómkröfur aðila og rökstuðningur.

Ríkislögreglustjórinn hefur krafist þess með vísan til a- og b-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 að kærða, X, nígerískum manni, sem handtekinn var kl. 15 í gær þegar hann hugðist fara af landi brott, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 14 daga, til kl. 16, mánudaginn 8. mars n.k. vegna gruns um brot gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19, 1940.  Ríkislögreglustjórinn kveður rannsókn málsins vera á frumstigi og sé hætta á því að kærði geti reynt að komast úr landi eða torvelda rannsókn í málinu með því að hafa áhrif á aðra eða skjóta undan gögnum.  Þá eigi eftir að afla gagna erlendis frá.

Kærði mótmælir kröfunni.  Hann segist sjálfur hafa orðið fyrir blekkingum og komið heiðarlega fram í öllu.   Þá hafi hann verið samvinnuþýður við lögregluna og  lögregluyfirvöld hafi vegabréf hans, þannig að í raun sé honum ómögulegt að komast úr landi.  Þá séu tvær vikur alltof rúmur tími og væri hægt að ljúka rann­sókninni á mun skemmri tíma en það.  Þá er lögð áhersla á það að gæsluvarðhald sé veru­leg skerðing á mannréttindum og því sé nauðsynlegt að hafa varð­haldstímann sem stystan.

Málavextir.

Kærði, sem er prókúruhafi fyrir Í ehf./I Ltd. innleysti tvo erlenda tékka á breska banka í Íslandsbanka hf., 10. og 19. þ.m.  Var andvirði tékkanna, 96.920 sterlingspund, lagt inn á gjaldeyrisreikning félagsins í Íslandsbanka.  Báðir þessir tékkar eru falsaðir samkvæmt upplýsingum hinna bresku banka.  Þá hafði kærði reynt að innleysa í Íslandsbanka hf. tékka á bandarískan banka að fjárhæð 100.000 dollara í byrjun mánaðarins en ekki tekist.  Bankinn tók að sér að innheimta tékkann fyrir kærða en samkvæmt upplýsingum frá hinum bandaríska banka er þessi tékki einnig falsaður.  Fyrir liggur að kærði hefur nú að undanförnu tekið út nærri alla innistæðu af gjaldeyrisreikningnum sem hann hefur ýmist látið renna um tékka­reikn­ing sinn í útibúi Íslandsbanka hf. í Keflavík eða þá reynt að fá hluta hennar símsendan til tveggja nafngreindra aðila í Bandaríkjunum.

Álit dómsins.

Telja verður að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði hafi framið stórfelld brot gegn fyrrgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og að hætta sé á því að hann reyni að koma sér úr landi eða hafa áhrif á málsrannsóknina.  Brot af þessu tagi geta varðað 8 ára fangelsisrefsingu.  Er því rétt með vísan til a- og b- liða 1. mgr. 103. gr. oml. að verða við kröfu Ríkislögreglustjórans og kveða á um það að kærði sæti gæslu­varðhaldi, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 4. mars n.k., kl. 16.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 4. mars 1999, kl. 16.