Hæstiréttur íslands

Mál nr. 706/2016

Þrotabú Tryggva Péturssonar (Guðmundur Kristjánsson hrl.)
gegn
Ársæli Valfells (Reimar Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Skuldabréf
  • Málamyndagerningur

Reifun

Þrotabú T kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu þess um breytingu á frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs fasteignar í eigu T. Krafðist þrotabúið þess að frumvarpinu yrði breytt á þá leið að ekkert kæmi í hlut Á vegna nánar tilgreinds skuldabréfs sem T hafði gefið út, en krafan var á því reist að um málamyndagerning hefði verið að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekkert væri komið fram í málinu um að Á hefði átt fjárkröfu á T þegar umrætt skuldabréf hefði verið afhent og hefði hinn fyrrnefndi ekki lagt fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að hann hefði afhent T tíu milljónir króna. Þá hefði Á og T ekki borið saman um tengsl sín og frásögn þeirra af atvikum um sumt verið óskýr. Að teknu tilliti til þessa, og m.a. þar sem Á hefði verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu T, var talið að Á yrði að bera hallann af sönnunarskorti um atvik, enda stæði honum nær að færa sönnur á að raunveruleg krafa byggi að baki bréfinu en þrotabúinu að sanna hið gagnstæða. Var krafa þrotabúsins því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Eftir ákvörðun Hæstaréttar lagði sóknaraðili fram málskostnaðartryggingu 7. nóvember 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um breytingu á frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar að Birkihlíð 42 í Reykjavík, með fastanúmerið 203-2920. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að fyrrgreindu frumvarpi verði breytt á þá leið að ekkert komi í hlut varnaraðila vegna skuldabréfs dagsetts 12. ágúst 2012, sem er á 4. veðrétti eignarinnar, en til vara að þeirri ráðstöfun sem falist hafi í útgáfu skuldabréfsins verði rift og að fjárhæðin renni óskipt til sín. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Tildrög máls þessa eru þau að 12. ágúst 2012 gaf Tryggvi Pétursson út veðskuldabréf til handhafa að fjárhæð 25.000.000 krónur. Var bréfið bundið vísitölu neysluverðs og fastir vextir 7% sem reiknast skyldu frá 1. september 2012. Gjalddagar voru alls 40, á sex mánaða fresti og sá fyrsti 1. janúar 2013. Til tryggingar greiðslu samkvæmt bréfinu var fasteign Tryggva og Þóru Margrétar Pálsdóttur að Birkihlíð 42, Reykjavík, sett að veði og var bréfið á 4. veðrétti. Er óumdeilt að Tryggvi afhenti bréfið varnaraðila. Ekkert mun hins vegar hafa verið greitt af því og liggur fyrir að þegar bú Tryggva var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2014 höfðu hvorki innheimtuseðlar né greiðsluáskoranir verið sendar af hálfu varnaraðila. Ennfremur að hann lýsti ekki kröfu vegna bréfsins á hendur sóknaraðila.

Við nauðungarsölu fyrrgreindrar fasteignar hjá sýslumanni 23. nóvember 2015 krafðist varnaraðili að sér yrði úthlutað 38.789.757 krónum af söluverði fasteignarinnar vegna fyrrgreinds veðskuldabréfs. Var hann jafnframt hæstbjóðandi í eignina. Samkvæmt frumvarpi sýslumanns til úthlutunar söluverðs hennar 18. janúar 2016 fengust greiddar að fullu kröfur á 1., 2., og 3. veðrétti, en upp í kröfu varnaraðila á 4. veðrétti voru greiddar 14.551.642 krónur. Sóknaraðili mótmælti kröfu varnaraðila, meðal annars með þeim rökum að þar sem engin skuld stæði að baki veðskuldabréfinu hefði verið um málamyndagerning að ræða. Hinn 11. mars 2016 tók sýslumaður ákvörðun um að fyrrgreint frumvarp til úthlutunar skyldi standa óbreytt. Þeirri ákvörðun var skotið til héraðsdóms 1. apríl 2016.

II

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lýtur ágreiningur málsins einkum að því hvort útgáfa fyrrgreinds veðskuldabréfs til varnaraðila hafi falið í sér málamyndagerning. Sóknaraðili byggir á því að engin raunveruleg fjárkrafa standi að baki bréfinu, enda liggi ekki fyrir gögn sem staðfesti fjármunatilfærslu milli Tryggva Péturssonar og varnaraðila. Þá hafi skuldarinnar hvergi verið getið í skattframtölum Tryggva. Hafi skuldabréfið verið útbúið í þeim tilgangi að skjóta eign undan gjaldþroti, en kröfu samkvæmt því ekki verið lýst á hendur sóknaraðila. Varnaraðili byggir á hinn bóginn á því að hann hafi greitt fyrir veðskuldabréfið, meðal annars með því að greiða tvo reikninga erlendrar lögmannsstofu fyrir Tryggva og 10.000.000 krónur í reiðufé. Þessu til stuðnings hefur varnaraðili lagt fram tvær kvittanir 14. mars 2013 þar sem fram kemur að hann hafi greitt Lutgen Assoices í Lúxemborg 2.759.296 krónur með símgreiðslu vegna Tryggva.

Bæði varnaraðili og Tryggvi gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Bar varnaraðili að tengsl sín við Tryggva væru eiginlega engin og hann einungis þekkt hann lítillega. Tryggvi hefði komið að máli við sig síðsumars eða haustið 2012 vegna fjárhagsvanda og þurft á reiðufé að halda. Í byrjun árs 2013 hafi hann keypt af honum skuldabréfið fyrir „eitthvað á milli 13 til 14 milljónir“ krónur. Hefði  Tryggvi útbúið bréfið og annast um þinglýsingu þess, án síns atbeina. Inntur eftir hvernig greiðsla fyrir skuldabréfið hefði farið fram svaraði varnaraðili að hann hefði greitt ,,lögfræðireikninga fyrir Tryggva að hans beiðni og svo ... fékk hann afhentar um það bil 10 milljónir í lögeyri.“ Hefði sú greiðsla átt sér stað við afhendingu bréfsins. Þá kvaðst varnaraðili hafa vitað af fjárhagslegum vandræðum Tryggva og að ,,það væru einhverjir kröfuhafar að sækja að honum og þetta væru einhver slagsmál fyrir einhverjum dómstólum í útlöndum, Bandaríkjunum og Lúxemborg, sem gerðu það að verkum að hann bað mig að greiða þessa lögfræðireikninga úti í Lúx, sem ég og gerði.“ Á hinn bóginn hefði Tryggvi ekki greitt af skuldabréfinu, enda ekki verið við því að búast strax, en um hafi verið að ræða kröfu tryggða með veði. Tryggvi bar á þann veg að hann hefði þekkt varnaraðila í ,,allmörg ár … Ég hef aðgang að sumarbústað á Þingvöllum … Ársæll er með bústað þar næst frá mér ... Ég er búinn að þekkja hann nokkuð lengi, þannig, þetta er svona kjaftað við girðinguna.“ Kvaðst Tryggvi hafa lent í fjárhagsvandræðum, en hann hefði verið atvinnulaus og vantað peninga þar sem hann hefði nýlega keypt fasteignina að Birkihlíð 42 auk þess að hafa verið í málaferlum erlendis. Vegna þessa hefðu hann og varnaraðili komið sér saman um útgáfu veðskuldabréfsins gegn því að hann fengi 10.000.000 krónur í reiðufé og varnaraðili myndi borga „reikninga“. Lýsti hann því að þeir varnaraðili hefðu átt samtal um þetta sumarið 2012, en viðskipti þeirra orðið í byrjun árs 2013.

III

Í máli þessu heldur sóknaraðili því fram að engin raunveruleg fjárkrafa sé að baki veðskuldabréfinu sem Tryggvi Pétursson gaf út. Hafi það verið gefið út í þeim tilgangi einum að skjóta fasteign Tryggva undan gjaldþrotaskiptum og sé því um að ræða málamyndagerning sem líta beri framhjá við úthlutun söluandvirðis eignarinnar, enda hafi þetta gerst skömmu áður en bú hans var tekið til skipta.

Ef frá er talinn framburður þeirra tveggja, varnaraðila og Tryggva fyrir héraðsdómi, er ekkert komið fram í málinu um að sá fyrrnefndi hafi átt fjárkröfu á hendur þeim síðarnefnda þegar veðskuldabréfið var afhent honum. Bar þeim tveimur ekki að öllu leyti saman um tengsl sín og að auki var frásögn þeirra af atvikum um sumt óskýr. Einu gögnin sem varnaraðili hefur lagt fram um að hann hafi innt af hendi einhverjar greiðslur í þágu Tryggva eru áðurgreindar kvittanir um greiðslu á skuld hans við erlenda lögmannsstofu að fjárhæð 2.759.296 krónur sem átti sér stað 14. mars 2013 eða nokkru eftir að bréfið var að sögn varnaraðila afhent honum og um sex mánuðum eftir útgáfu þess. Hins vegar hefur varnaraðili ekki lagt fram nein skjöl eða önnur gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að hann hafi afhent Tryggva 10.000.000 krónur sem greiðslu fyrir skuldabréfið, svo sem gögn um úttekt fjárins af eigin reikningi eða innborgun á reikning í eigu Tryggva. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að varnaraðili hafi talið umrædda verðbréfaeign fram til skatts. Að teknu tilliti til allra málsatvika, þar á meðal að varnaraðila var samkvæmt aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kunnugt um bága fjárhagsstöðu Tryggva um það leyti sem hann fékk skuldabréfið afhent og hann gerði ekki neinn reka að innheimtu kröfunnar fyrr en með kröfu sinni um greiðslu af söluandvirði fasteignarinnar, verður hann að bera hallann af framangreindum sönnunarskorti, enda stendur honum nær að færa sönnur á að raunveruleg krafa búi að baki bréfinu en sóknaraðila að sanna hið gagnstæða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 311/2003 sem birtur er í dómasafni það ár, bls. 2939. Verður aðalkrafa sóknaraðila því tekin til greina. 

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Frumvarpi sýslumanns að úthlutunargerð söluandvirðis fasteignarinnar Birkihlíð 42, Reykjavík, fastanúmer 203-2920, skal breytt á þann veg að ekki kemur til úthlutunar af söluverðinu upp í kröfu varnaraðila, Ársæls Valfells, á 4. veðrétti eignarinnar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, þrotabúi Tryggva Péturssonar, samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2016.

                Máli þessu var skotið til dómsins 1. apríl 2016.  Deilt er um úthlutun söluandvirðis fasteignarinnar Birkihlíðar 42, sem seld var nauðungarsölu 23. nóvember 2015.  Nauðungarsalan fór fram að kröfu Lífsverks lífeyrissjóðs, Orkuveitu Reykjavíkur – vatns- og fráveitu sf. og Reykjavíkurborgar.  Gerðarþolar voru Tryggvi Pétursson og Þóra Margrét Pálsdóttir.  Bú Tryggva var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 7. febrúar 2014 og er skiptum ekki lokið. 

                Sóknaraðili málsins er þrotabú Tryggva Péturssonar, Birkihlíð 42, Reykjavík.  Varnaraðilar eru Ársæll Valfells, Gunnarsbraut 5, Reykjavík og Þóra Margrét Pálsdóttir, Birkihlíð 42, Reykjavík.  Kröfur eru ekki gerðar beint á hendur varnaraðila Þóru, en aðild hennar er nauðsynleg þar sem hún kann að hafa beina hagsmuni af niðurstöðu málsins.  Aðrir aðilar nauðungarsölunnar hafa hins vegar ekki hagsmuna að gæta hér. 

                Sóknaraðili krefst þess að hnekkt verði þeirri ákvörðun sýslumannsins á höfuð­borgarsvæðinu að úthluta til varnaraðila Ársæls Valfells 14.551.642 krónum af sölu­verði fasteignarinnar og að úthlutun verði breytt þannig að ekkert komi í hlut varnar­aðila en að fjárhæðin renni óskipt til þrotabúsins.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila Ársæls Valfells. 

                Varnaraðili Ársæll Valfells krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað. 

                Varnaraðili Þóra Margrét Pálsdóttir sótti ekki þing. 

                Meðferð nauðungarsölumálsins hófst með fyrirtöku hjá sýslumanni 20. ágúst 2015.  Nauðungarsala fór fram þann 23. nóvember 2015 og varð varnaraðili Ársæll Valfells hæstbjóðandi.  Samkvæmt frumvarpi að úthlutun greiðast veðkröfur á 1., 2. og 3. veðrétti að fullu, auk sölulauna og lögveðskrafna.  Upp í kröfu varnaraðila á 4. veðrétti greiðast 14.551.642 krónur.  Hann hafði lýst kröfu að fjárhæð samtals 38.789.757 krónur, en hún var fyrst sett fram við sýslumann er nauðungarsalan fór fram 23. nóvember. 

                Krafa varnaraðila Ársæls byggist á veðskuldabréfi dags. 12. ágúst 2012, út­gefnu af þrotamanni og árituðu um samþykki til veðsetningar af varnaraðila Þóru Margréti.  Bréfið var að höfuðstól 25.000.000, verðtryggt og gefið út til handhafa. 

                Engin gögn hafa verið lögð fram um innheimtu umrædds skuldabréfs, ekki innheimtuseðlar, greiðsluáskoranir eða annað.  Eina skjalið sem lagt hefur verið fram, auk skuldabréfsins sjálfs, er kröfulýsing lögmanns. 

                Á umrædda fasteign var þann 25. apríl 2012 þinglýst kvöð um að eignarhald Tryggva Péturssonar á eigninni skyldi verða í fimm ár frá 28. mars 2012.  Yrði brotið gegn kvöðinni skyldi Seðlabanka Íslands heimilt að leysa til sín 9,44% af eigninni endurgjaldslaust. 

                Tryggvi Pétursson var leiddur sem vitni við aðalmeðferð málsins og varnar­aðili Ársæll gaf aðilaskýrslu.  Tryggvi sagði að hann hefði þekkt varnaraðila Ársæl um nokkurra ára skeið.  Hann hefði selt honum þetta bréf.  Ársæll hefði borgað um tíu milljónir í reiðufé og greitt að auki nokkra reikninga frá lögfræðistofum fyrir sig.  Þetta hefðu verið eðlileg viðskipti. 

                Ársæll Valfells sagði að hann hefði eiginlega engin tengsl við Tryggva Pétursson, hann þekkti hann lítillega.  Síðsumars eða um haustið 2012 hefði Tryggvi komið að máli við sig og boðið sér skuldabréf til sölu.  Það hafi orðið úr að hann keypti af honum bréf í ársbyrjun 2013.  Tryggvi hefði útbúið bréfið og komið með það.  Hefði þá verið búið að þinglýsa bréfinu.  Hann hefði borgað á milli 13 og 14 milljónir fyrir bréfið.  Hann hefði borgað um tíu milljónir í reiðufé og greitt reikninga fyrir Tryggva. 

                Varnaraðili lagði fram gögn sem sýna að hann greiddi í mars 2013 10.000 evra reikning lögmannsstofu í Lúxemborg, sem stílaður var á Tryggva Pétursson. 

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að umrætt skuldabréf sé málamyndagerningur, engin skuld standi á bak við það.  Bendir hann á að skuldarinnar hafi ekki verið getið í skatt­framtali Tryggva og engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti fjármunatilfærslu milli aðila.  Skuldabréfið hafi verið útbúið til að skjóta eign undan gjaldþroti.  Telur sóknaraðili að úthlutun til varnaraðila Ársæls gangi gegn öllum góðum gildum og almennu velsæmi. 

                Sóknaraðili byggir á því að Tryggva hafi verið óheimilt að veðsetja eignina, vegna kvaðar sem hvíldi á henni.  Tryggvi hafi brotið vísvitandi gegn þessu banni með útgáfu veðskuldabréfsins.  Veðsetningin hafi því ekkert gildi, hún sé marklaus og ekki verði úthlutað samkvæmt henni til varnaraðila. 

                Loks byggir sóknaraðili á því að um sé að ræða riftanlega ráðstöfun þrota­manns samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.  Vísar hann til 131. og 141. gr. laganna.  Annað hvort hafi hér verið um að ræða gjöf til varnaraðila eða ótil­hlýðilega ráðstöfun, nema hvort tveggja sé.  Hafi varnaraðila mátt vera þetta ljóst.  Vísar sóknaraðili jafnframt til 137. gr. og 142. og 143. gr. laganna. 

                Málsástæður og lagarök varnaraðila Ársæls Valfells

                Varnaraðili mótmælir því að málsástæður sóknaraðila komist að í málinu.  Vísar hann til XVII. kafla laga um meðferð einkamála sem takmarki þær varnir sem hafa megi uppi.  Sóknaraðili geti ekki sniðgengið reglur XVII. kafla með því að skjóta ágreiningnum til dómstóla eftir reglum laga nr. 90/1991. 

                Varnaraðili mótmælir því að skuldabréfið hafi verið málamyndagerningur.  Hann hafi greitt fyrir bréfið, m.a. með því að greiða reikning lögmannsstofu fyrir Tryggva Pétursson.  Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á sóknaraðila. 

                Varnaraðili byggir á því að kvöð sú sem hvíldi á fasteigninni leiði ekki til þess að veðsetningin sé marklaus.  Ljóst sé af efni kvaðarinnar hverjar afleiðingar brot gegn henni hafi.  Það heimili Seðlabankanum að innleysa hluta af eigninni, en hafi ekki aðrar afleiðingar. 

                Varnaraðili byggir á því að ekki sé hægt að koma að í þessu máli kröfu um riftun samkvæmt 131. eða 141. gr. gjaldþrotalaga.  Þá hafi ekki verið leyst úr þessari kröfu hjá sýslumanni.  Hann mótmælir því að í útgáfu skuldabréfsins hafi falist gjöf eða ótilhlýðileg ráðstöfun.  Þá sé riftunarkrafan sett fram of seint, sbr. 148. gr. gjald­þrotalaga. 

                Niðurstaða

                Máli þessu er skotið til dómsins samkvæmt heimild í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu.  Um málsmeðferð gilda ákvæði XIII. kafla laganna.  Þar er ekki lögfest nein takmörkun á því hvaða málsástæður verða hafðar uppi, hvort sem er til sóknar eða varnar.  Tilvísun 2. mgr. 77. gr. til almennra reglna laga um meðferð einkamála felur heldur ekki í sér tilvísun til XVII. kafla þeirra laga.  Verður því að leysa úr öllum málsástæðum sóknaraðila. 

                Sóknaraðili byggir á því að útgáfa eða afhending umrædds veðskuldabréfs til varnaraðila Ársæls hafi verið til málamynda.  Sönnunarbyrði um þetta hvílir á sóknar­aðila og hann hefur ekki með neinum sönnunargögnum fært fram sönnun fyrir þessum staðhæfingum sínum.  Eru þær ósannaðar.  Ósannað er að skuldabréfið hafi verið út­búið til að skjóta eignum undan gjaldþroti og verður því ekki fallist á að úthlutun til varnaraðila gangi gegn öllum góðum gildum og almennu velsæmi. 

                Tryggvi Pétursson gekkst undir kvöð um að ráðstafa ekki fasteigninni með tilteknum hætti.  Hann gekkst undir þessa kvöð gagnvart Seðlabanka Íslands og í henni felst ekki almennt bann.  Getur þrotabúið ekki byggt á því að útgáfa veðskulda­bréfsins hafi verið óheimil og því marklaus. 

                Kröfulýsing varnaraðila Ársæls í nauðungarsöluandvirðið var lögð fram hjá sýslumanni 23. nóvember 2015.  Fyrst þá var skiptastjóra unnt að hafa uppi kröfu um riftun ráðstöfunar samkvæmt XX. kafla gjaldþrotalaga.  Skiptastjóri mótmælti út­hlutun til varnaraðila hjá sýslumanni og skaut málinu til héraðsdóms 1. apríl 2016.  Var frestur 1. mgr. 148. gr. ekki úti þegar það var gert.  Verður því að leysa úr þessari málsástæðu sóknaraðila. 

                Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að skuldabréfið hafi verið til málamynda í þeim tilgangi að skjóta eignum undan gjaldþroti.  Sóknar­aðili hefur ekki sýnt fram á nein önnur atvik sem leiða ættu til þess að rifta bæri afhendingu eigna til varnaraðila Ársæls.  Verður þessum málsástæðum sóknaraðila hafnað. 

                Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á neina af málsástæðum sóknaraðila.  Verður kröfum hans því öllum hafnað.  Verður í samræmi við þá niðurstöðu að dæma hann til að greiða varnaraðila Ársæli Valfells 450.000 krónur í málskostnað.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Kröfum sóknaraðila, þrotabús Tryggva Péturssonar, um breytingu á frumvarpi til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar Birkihlíðar 42, er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Ársæli Valfells, 450.000 krónur í málskostnað.  Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.