Hæstiréttur íslands
Mál nr. 107/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 29. febrúar 2008. |
|
Nr. 107/2008. |
Guðmundur Leó Guðmundsson(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Sakarefni. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
G höfðaði mál á hendur Í til viðurkenningar á að nánar tilgreind opinber gjöld væru fyrnd og að fella bæri gjöldin niður úr innheimtukerfi T. Taldist krafa G í endanlegri mynd nægilega skýr til að efnisdómur yrði á hana lagður og að G ætti lögvarða hagsmuni af úrlausn hennar, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Var frávísunarúrskurði héraðsdóms því hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 5. júlí 2007 til að fá viðurkennt með dómi að krafa um nánar tilgreind opinber gjöld frá árunum 1994 til 1999, samtals að fjárhæð 15.671.925 krónur, væri fyrnd og að stefnda yrði gert að fella gjöldin niður „úr innheimtukerfi Tollstjórans í Reykjavík“. Þegar varnaraðili lagði fram greinargerð um varnir sínar í héraði 27. nóvember 2007 hafði krafa um þessi gjöld verið afskrifuð að öðru leyti en því að eftir stóð skuld sóknaraðila vegna opinberra gjalda frá árinu 1994 að höfuðstól 196.670 krónur, sem varnaraðili taldi af nánar tilteknum ástæðum ekki vera fyrnda. Krafðist varnaraðili sýknu af kröfu sóknaraðila að þessu leyti. Í þinghaldi 21. desember 2007 gerði sóknaraðili þá breytingu á framangreindri kröfu sinni að hún tæki nú aðeins til þess að viðurkennt yrði að fyrnd væri krafa um opinber gjöld fyrir árið 1994, sem væri að fjárhæð 889.568 krónur miðað við stöðu hennar 11. desember 2007. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að þar sé um að ræða sömu gjöld og varnaraðili taldi samkvæmt áðursögðu ekki vera fyrnd. Málið var flutt í héraði að efni til við aðalmeðferð 5. febrúar 2008, en með hinum kærða úrskurði var því vísað frá dómi án kröfu.
Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fyrir héraðsdómi heldur hann fram að sóknaraðili standi enn í skuld vegna fyrrnefndra opinberra gjalda frá árinu 1994. Í ljósi þeirrar afstöðu varnaraðila eru engin efni til að álykta að hann muni ekki halda þessari kröfu upp á sóknaraðila, en að auki er til þess að líta að tollstjórinn í Reykjavík leitaði með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 26. febrúar 2007 eftir fjárnámi hjá sóknaraðila fyrir þessari skuld, sem virðist þó ekki enn hafa verið gert. Að þessu virtu eru engin efni til að fallast á með héraðsdómi að krafa sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til þess að dómur verði felldur á hana. Þótt sóknaraðili gæti haldið uppi andmælum vegna fyrningar, ef reynt yrði að gera fjárnám hjá honum vegna skuldarinnar og eftir atvikum leitað úrlausnar dómstóla um þá málsvörn eftir reglum laga nr. 90/1989 um aðför, girðir það ekki fyrir að hann taki sjálfur frumkvæði með máli þessu að því að fá leyst úr hvort skuldin sé fyrnd, en af því getur hann haft lögvarða hagsmuni án tillits til þess hvort tollstjóri fylgi eftir beiðni sinni um fjárnám. Á málatilbúnaði sóknaraðila eru ekki að öðru leyti þeir annmarkar að varðað geti frávísun málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Ákvörðun um málskostnað í héraði verður að bíða efnisdóms í málinu, en varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Guðmundi Leó Guðmundssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2008.
Mál þetta var flutt 5. febrúar sl. Það er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðmundi Leó Guðmundssyni, Njálsgötu 48a, Reykjavík á hendur fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, með stefnu birtri 5. júlí 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þær að krafa stefnda, samtals að fjárhæð 882.676 kr. miðað við 11. desember 2007 vegna opinberra gjalda fyrir árið 1994 með vöxtum og kostnaði á hendur stefnanda, verði dæmd fyrnd. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostaðar úr hans hendi.
Málavextir
Samkvæmt stöðuyfirliti frá Tollstjóranum í Reykjavík hinn 28. nóvember 2006 skuldaði stefnandi opinber gjöld, samtals að fjárhæð 14.053.849 kr. Voru gjöldin vegna áranna 1993 til 1999.
Með bréfi, dags. 29. desember 2006, óskaði stefnandi eftir því að skuld þessi yrði afskrifuð.
Með bréfi Tollstjórans í Reykjavík frá 12. janúar 2007 var fallist á að gjöld, að undanskilinni skuld vegna AB E 1994, væru fyrnd. Varðandi skuld AB E 1994 kom fram að fjárnám var gert í fasteign stefnanda 3. október 1994 og að stefnandi hafi greitt 294.000 kr. inn á kröfuna 6. mars 2003. Sú greiðsla hafi haft í för með sér sjálfstætt fyrningarrof á þeim gjöldum. Sú krafa væri því ófyrnd.
Hinn 5. júlí 2007 var stefnda birt stefna málsins. Aðalkrafan var viðurkenningarkrafa um að gjöld, samtals að fjárhæð 15.671.925 kr. miðað við 29. júní 2007, væru fyrnd.
Hinn 27. og 28. ágúst 2007 voru kröfur að fjárhæð um 15 millj. kr. afskrifaðar í tölvukerfi stefnda.
Stefnan, sem birt var 5. júlí 2007, var lögð fram í Héraðsdómi 6. september 2007.
Greinargerð stefnda var lögð fram 27. nóvember sl. Aðallega var krafist frávísunar málsins. Í fyrirtöku 21. desember sl. lækkaði stefnandi kröfu sína og stefndi féll frá frávísunarkröfu sinni.
Eftir stendur ágreiningur um það hvort gjöld vegna AB E 1994 séu fyrnd eða ekki. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að með honum og tollstjóra hafi tekist samkomulag um að skattaskuldir stefnanda yrðu afskrifaðar eftir 3. október 2006 en þá voru 4 ár liðin frá aðfarargerð nr. 011-2000-10530, þar sem gert hafði verið fjárnám fyrir eignarhluta stefnanda í Njálsgötu 48A, Reykjavík. Stefnandi telur að hinn 17. nóv. 2005 hafi munnlegt samkomulag verið gert við þáverandi yfirmann innheimtudeildar tollstjóra, um að allar skuldir stefnanda frá 1993 til 1999 yrðu afskrifaðar og felldar úr innheimtukerfinu eftir 3. okt. 2006, þar sem þá væru liðin 4 ár frá því að fjárnám átti sér stað (3. okt. 2002) og skuldir stefnanda því fyrndar. Þetta sagði yfirmaðurinn að hefði verið niðurstaðan af samtali hennar við tollstjóra. Var þessi ákvörðun rituð í minnisbanka stefnda um stefnanda en litið er á umrædda minnispunkta sem innanhúsplagg hjá stefnda og tollstjóra.
Þá bendir stefnandi á bréf stefnda, dags. 12. jan. 2007, þar sem fyrir liggur viðurkenning á því að kröfur tollstjóra vegna áranna 1993 1999 verði afskrifaðar á næstu dögum. Ekki hafði það átt sér stað við stefnugerð í lok júní 2007. Stefnandi tekur fram að tollstjóri hafi borið fyrir sig í sama bréfi að greitt hefði verið inn á kröfu stefnda vegna AB E 1994 og þ.a.l. væri hún ekki fyrnd. Þessu er harðlega andmælt. Krafa þessi var löngu fyrnd ásamt öðrum. Engar aðgerðir hafi átt sér stað síðan 3. okt. 2002 og er andlagið sem gert var fjárnám í ennþá óselt og engin tilraun verið gerð til þess að selja það síðan aðförin átti sér stað 3. okt. 2002.
Stefnandi telur að krafa stefnda hafi þá þegar verið fyrnd er greitt var inn á þinggjöld AB E 1994 hinn 6. mars 2003. Fyrnd krafa verði ekki vakin upp með því einu að borga inn á hana. Jafnvel þó haldið sé fram að greitt hafi verið sérstaklega inn á kröfuna frá 1994 hinn 6. mars 2003, þá hafi engar frekari aðgerðir átt sér stað af hálfu stefnda til að framfylgja rétti sínum. Rúmlega 4 ár séu liðin frá umræddri greiðslu og krafan því fyrnd.
Í annan stað mótmælir stefnandi því að greiðsla hans 6. mars 2003 að fjárhæð 300.000 kr. slíti fyrningu. Stefnda hafi borið skylda til að leiðbeina stefnanda, er hann innti greiðslu af hendi en hann er ólöglærður. Stefnda beri að færa sönnur á því að hann hafi gert stefnanda grein fyrir því að hann væri að greiða inn á fyrnda skuld. Skv. 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 verði stefnandi að hafa viðurkennt skuld sína með skriflegum hætti, t.d. með því að lofa borgun eða greiða vexti. Stefndi hafi með atferli sínu gerst sekur um misneytingu skv. 31. gr. samningalaga nr. 7/1936 og brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Um framangreint vísast til Hrd. 469/2003.
Um lagarök bendir stefnandi á 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðild stefnda en stefndi hefur ákvörðunarvald sem æðsti fyrirsvarsmaður tollstjórans í Reykjavík. Þá er byggt á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um rétt manna til að fá viðurkenningardóm um rétt sinn. Byggt er á 3. gr. og 6. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Þá styðst stefnandi við 31. gr. samningalaga nr. 7/1936, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Um málskostnað vísast til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til laga nr. 50/1988 um að stefnandi eigi að verða skaðlaus af málsókn þessari.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í upphafi tekur stefndi fram að í bréfi Tollstjórans í Reykjavík frá 12. janúar 2007 komi fram að þær kröfur sem stefnandi krefst viðurkenningardóms um í máli þessu séu fyrndar að undanskilinni skuld vegna AB E 1994. Í bréfinu kemur fram að þar tilgreindar kröfur að undanskilinni kröfu vegna AB E 1994 muni verða afskrifaðar á næstu dögum. Því lá yfirlýsing um fyrningu krafnanna fyrir löngu áður en til málsóknar þessarar kom og því er málsókn þessi vegna þeirra krafna sem viðurkenning í bréfi frá 12. janúar 2007 tók til, algerlega óþörf að mati stefnda. Hinar fyrndu kröfur voru afskrifaðar hinn 27. ágúst 2007 í hefðbundinni afskriftarvinnslu. Hinar fyrndu kröfur hafa verið afskrifaðar og felldar niður úr innheimtukerfi Tollstjórans í Reykjavík.
Krafa vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994 að höfuðstól 196.670 kr., merkt AB E 1994, er að mati stefnda ófyrnd að öllu leyti. Þannig eru höfuðstóll, vextir og kostnaður ófyrnd og er öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Álagning fór fram 1. ágúst 1994. Fyrningu var slitið með kröfulýsingu í þrotabú stefnanda 1997, sbr. m.a. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Aðfararbeiðni var móttekin hjá sýslumanninum í Reykjavík 3. júlí 2000 og því aftur rofin fyrning, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Fyrningu var enn slitið með fjárnámi sem gert var í eignarhluta stefnanda í Njálsgötu 48a, Reykjavík hinn 3. október 2002, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Fyrningu var enn slitið með nauðungarsölubeiðni á grundvelli fjárnáms í Njálsgötu 48a hinn 5. desember 2002, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991. Þá greiddi stefnandi inn á kröfuna 6. mars 2003 294.000 kr. sem ráðstafaðist inn á vexti og kostnað og viðurkenndi þar með skuld sína við kröfueiganda, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 og dóm Hæstaréttar nr. 299/2002. Þá var fyrningu enn slitið með aðfararbeiðni sem send var 26. febrúar 2007 og móttekin hjá sýslumanni 27. febrúar 2007, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989.
Stefndi mótmælir sem röngu og ósönnuðu að samkomulag hafi verið gert um að „umræddar skattskuldir“ yrðu afskrifaðar og felldar úr innheimtukerfinu eftir 3. október 2006 eða að þær væru fyrndar eins og stefnandi heldur fram í stefnu. Mótmælt er að loforð í þá veru hafi verið gefið. Mótmælt er fullyrðingum stefnanda um þetta. Mótmælt er frásögn í stefnu af efni meints samtals yfirmannsins við tollstjóra. Ekkert samkomulag hefur verið lagt fyrir dóminn til staðfestingar á því sem stefnandi heldur fram, en fyrir öllu sem hann heldur fram hefur stefnandi sönnunarbyrði. Stefndi leggur fram skjámynd úr vanskilareikningi stefnanda. Þar er að finna færsluna: „ATH. Umrædd ákvörðun GH var tekin í fullu samráði við Snorra Olsen, tollstjóra.“ Að mati stefnda tengist þessi færsla bókun um afturköllun fjárnáms. Þar að auki mótmælir stefndi því sem röngu og ósönnuðu að samkomulag hafi orðið um að fella niður skattaskuldir stefnanda vegna AB E 1994 vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994. Fyrir því hefur stefnandi sönnunarbyrði.
Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að í bréfi tollstjóra frá 12. janúar 2007 felist viðurkenning á því að allar kröfur tollstjóra vegna áranna 1993-1999 verði afskrifaðar. Sérstaklega er áréttað að í bréfi þessu kom skýrt fram að tollstjóri teldi kröfu AB E 1994 vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 1994 ekki fyrnda.
Stefndi mótmælir öllum ávirðingum í stefnu í garð embættis tollstjóra. Að auki er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnda hafi borið skylda til að leiðbeina stefnanda er hann innti greiðslu af hendi 6. mars 2003. Krafa stefnda á hendur stefnanda var þá í fullu gildi er hann greiddi inn á hana. Greiðsla rýfur fyrningu. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi gert athugasemdir við ráðstöfun á innborgun 6. mars 2003 fyrr en með stefnu í máli þessu. Hefur stefnandi sýnt af sér stórfellt tómlæti við að halda fram þessari málsástæðu gagnvart stefnda.
Því er harðlega mótmælt sem röngu að stefndi hafi gerst sekur um misneytingu, brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir öllum fullyrðingum sínum í málinu. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur málsins lýtur að álagningu gjalda fyrir árið 1994. Í stefnu málsins var dómkrafan orðuð svo að krafist var viðurkenningardóms á því að nánar tilgreind opinber gjöld stefnanda væru fyrnd. Í fyrirtöku málsins 21. desember sl. lækkaði stefnandi dómkröfur sínar og breytti á þá lund að nú krefst hann þess að opinber gjöld árisins 1994 verði dæmd fyrnd. Því liggur fyrir Héraðsdómi að dæma hvort skilyrðum þeim er koma fram í lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sé fullnægt eða ekki, án þess að fyrir liggi að stefndi hafi haldið kröfu þessari uppá stefnanda í málinu. Að mati dómsins er hér verið að gera kröfu um álit á lögfræðilegu efni sem er andstæð 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir liggur aðfararbeiðni tollstjórans í Reykjavík, dags. 26. febrúar 2007, þar sem tollstjórinn óskar eftir fjárnámi hjá stefnanda vegna nefndrar álagningar opinberra gjalda árið 1994. Í því máli getur stefnandi haldið uppi vörnum um fyrningu, ef honum sýnist svo. Þá verður að mati dómsins heldur ekki fram hjá því litið að grundvöllur málsins er ekki svo skýr sem skyldi og fullnægir að mati dómsins ekki skilyrðum 80. gr. d. og e. liðum laga nr. 91/1991. Hvorki eru dómkröfur né málsástæður settar fram á skýran og glöggan hátt. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 130. gr. eml. þykir rétt að málskostnaður falli niður og er þá haft í huga að tollstjórinn hófst ekki handa við afskriftir á skuldum stefnanda fyrr en í lok ágústmánaðar 2007, þ.e. eftir stefnubirtingu, þrátt fyrir yfirlýsingu hans 12. janúar 2007 um að tilgreindar kröfur yrðu afskrifaðar á „næstu dögum“.
Af hálfu stefnanda flutti málið Magnús B. Brynjólfsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐUR
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.