Hæstiréttur íslands

Mál nr. 334/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. ágúst 2005:

Nr. 334/2005.

Bjarni Reykjalín

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Akureyrarbæ

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

B krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að hann væri enn deildarstjóri umhverfisdeildar og skipulags- og byggingafulltrúi hjá A, auk þess sem hann krafðist þess að A yrði gert að greiða sér miskabætur. Með úrskurði héraðsdóms var fyrri kröfu sóknaraðila vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ágreiningur aðila í málinu lyti að því hvort ráðningarsamband væri enn til staðar milli aðilanna. Yrði hvorki fallist á með A að fyrrgreind krafa B væri svo vanreifuð að vísa bæri henni frá dómi né að kröfugerð B væri í andstöðu við ákvæði 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júlí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2005, um að vísa frá dómi hluta af máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gerir sóknaraðili þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að hann sé enn deildarstjóri umhverfisdeildar og skipulags- og byggingafulltrúi hjá varnaraðila, auk þess sem hann krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér miskabætur. Með úrskurði héraðsdóms var fyrri kröfu sóknaraðila vísað frá dómi.

Í máli þessu heldur sóknaraðili því fram að ráðningarsamningur aðila sé enn í fullu gildi þar sem hvorki hann né varnaraðili hafi sagt honum upp. Þar sem enginn starfslokasamningur hafi verið gerður sé sóknaraðili að þiggja laun samkvæmt gildandi ráðningarsamningi en ekki starfslokasamningi. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að sóknaraðili hafi sagt upp störfum hjá honum og kominn hafi verið á samningur um lok þeirra. Byggir hann einkum á því að samkomulag um starfslok feli í raun í sér uppsögn, þannig að ekki sé nauðsynlegt að tilkynna sérstaklega um hana skriflega.

Samkvæmt framangreindu lýtur ágreiningur aðila í máli þessu að því hvort ráðningarsamband sé enn til staðar milli þeirra. Verður hvorki fallist á með varnaraðila að fyrrgreind krafa sóknaraðila sé svo vanreifuð að vísa beri henni frá dómi né að kröfugerð sóknaraðila sé í andstöðu við ákvæði 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Akureyrarbær, greiði sóknaraðila, Bjarna Reykjalín, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2005.

Mál þetta hefur Bjarni Reykjalín, Furulundi 19, Akureyri, höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með stefnu áritaðri um birtingu þann 9. júní 2005 og þingfestri sama dag gegn Akureyrarbæ, Geislagötu 9, Akureyri.

Eru dómkröfur stefnanda þær:

1.          Að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé enn deildarstjóri umhverfis/skipulags- og byggingafulltrúi hjá stefnda.

2           Að stefndi greiði stefnanda kr. 1.000.000- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá þingfestingardegi málsins til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Stefnda krefst þess aðallega að viðurkenningarkröfu stefnanda um að hann sé enn deildarstjóri umhverfis/skipulags- og byggingafulltrúi verði vísað frá dómi og að stefnda verði sýknað af miskabótakröfu stefnanda.

Til vara krefst stefnda sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefnda málskostnaðar bæði í aðal- og varakröfu sinni.

Hinn 6. júlí s.l. var málið tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda að loknum munnlegum málflutningi.

Krefst stefnandi þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og tekið verði tilliti til málskostnaðar hans vegna þessa þáttar í efnisdómi í málinu.

I.

Helstu málsatvik eru þau að stefnandi var ráðinn deildarstjóri umhverfisdeildar og skipulags- og byggingafulltrúi stefnda 1. september árið 2000, en á þeim tíma átti stefnandi hlut í Teiknistofunni Formi ehf.

Í ársbyrjun árið 2005 kom í ljós að stefnandi var skráður stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Teiknistofunnar Forms ehf. hjá Fyrirtækjaskrá.  Stefnda taldi þessi störf stefnanda hjá Teiknistofunni Formi ehf. ekki samrýmast starfi hans hjá stefnda, þar sem inn á borð hjá stefnanda hefðu komið og kæmu fjölmörg mál til afgreiðslu frá téðu fyrirtæki án þess að stefnandi teldi sig vanhæfan til afgreiðslu þeirra eða upplýsti að svo kynni að vera.  Sama taldi stefnda gilda um aðkomu stefnanda að fasteignafélaginu Hym, sem hann ætti hlut í.

Fóru fram allmiklar viðræður og bréfaskriftir á milli fyrirsvarsmanna stefnda og stefnanda og lögmanns hans vegna máls þessa, sem nánar er lýst í málsskjölum. M.a. kemur fram í skjölum málsins að unnið var að gerð starfslokasamnings milli aðila þar sem gert var ráð fyrir að stefnandi léti af störfum og fengi greidd laun í 6 mánuði frá því hann hætti störfum.

Hinn 29. apríl 2005 barst bæjarstjóra stefnda svofellt tölvubréf frá þáverandi lögmanni stefnanda, Gylfa Thorlacius hrl.: „Ég ræddi við Bjarna Reykjalín í framhaldi af samtali okkar, hann mun undirrita uppsagnarbréf nú þegar.  Starfslok í samræmi við samkomulag okkar, 6 mánuði, auk þess orlofs sem hann á þegar inni, miðað við að gengið verði frá starfslokasamningi strax eftir helgi.“

Stefnda telur  að með framangreindu bréfi hafi komist á samningur um starfslok stefnanda og í starfslokasamningnum felist uppsögn hans á starfi sínu.

Stefnandi undirritaði hvorki uppsagnarbréf né starfslokasamning í samræmi við framangreint bréf lögmanns hans.  Kveðst hann hafa hætt við þau áform.

Á fundi umhverfisráðs stefnda 4. maí 2005 var samþykkt að ráðið liti svo á að stefnandi hefði  sagt upp starfi sínu með bindandi hætti 29. apríl 2005 og samningur um starfslok hans komist á.

II.

Stefnda byggir frávísunarkröfu sína á 24. og 25.gr. laga nr. 91/1991.

Telur stefnda að ráðningarsamningur aðila sé niður fallin með uppsögn stefnanda á honum og byggist réttarsamband aðila nú á starfslokasamningi þeirra.  Krafa stefnanda sé því í raun krafa um að hann verði dæmdur í starfið aftur. Samkvæmt grundvallarreglum íslensks réttar sé ekki unnt að skylda atvinnurekanda til að taka í þjónustu sína starfsmann sem hefur sagt upp starfi eða hefur verið sagt upp, jafnvel þótt ólöglega hafi verið staðið að uppsögn.  Sakarefnið eigi því ekki  undir dómstóla, sbr. 1. mg. 24. gr. laga nr. 91/1991 og beri samkvæmt þeirri lagagrein að vísa málinu frá dómi.

Þá byggir stefnandi á því  að krafan sé ekki sett fram með þeim hætti sem gerð sé krafa um í einkamálalögunum. Stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfu sína. Hann setji  kröfu sína fram án þess að sakarefnið varði tiltekin réttindi sem hann telji sig eiga.  Krafan feli ekki annað í sér en beiðni um lögfræðilega álitsgerð.  Sé hún því hvorki í samræmi við 1. né 2. mgr. 25. gr. einkamálalaganna. Beri einnig að vísa kröfunni frá dómi af þeim sökum.

III.

Stefnandi mótmælir því að krafan sé ekki í samræmi við 24. og 25. gr. einkamálalaganna eins og stefnda heldur fram.  Lítur hann svo á að ráðningarsamningur aðila sé ennþá í gildi þar sem hvorugur samningsaðila hafi sagt honum upp.  Því sé ekki um að ræða kröfu um að stefnanda verði dæmt starf sem hann gegni ekki lengur. Í raun sé krafan um að viðurkenn verði að ráðningarsamningnum hafi ekki verið sagt upp og hann sé því ennþá í gildi. Krafan sé því í fullu samræmi við 1. mgr. 24. gr. einkamálalaganna.

Þá mótmælir stefnandi því að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af að fá dóm um kröfu sína. Honum sé af stefnda meinað að gegna stöðunni og efna þannig ráðningarsamninginn af sinni hálfu. Hann mótmælir því alfarið að í gildi sé starfslokasamningur milli aðila.  Hann hafi   ekki undirritað samninginn og hann því ekki orðið að bindandi milli aðila.  Þá bendir stefnandi á að hann hafi einnig fjárhagslega hagsmuni af því að ráðningarsamningurinn sé ennþá í gildi þar sem tími sá er hann eigi rétt til launa samkvæmt samningnum sé sem lengstur.  Sé krafa hans því í fullu samræmi við 2. mgr. 25. gr. einkamálalaganna og fráleitt að hún brjóti í bága við 1. mgr. sömu lagagreinar.

Stefnandi leggur áherslu á að ágreiningur í málinu snúist um hvort ráðningarsamningur aðila sé ennþá í gildi.  Ekki sé hægt að taka afstöðu til frávísunarkröfu stefnda nema komast fyrst að niðurstöðu í þeim ágreiningi.  Þar sé hins vegar um efnisúrlausn að ræða sem ekki verði leyst úr í þessum þætti málsins.  Leiði framangreint til þess að eigi sé unnt að taka frávísunarkröfu stefnda til greina

IV.

Eins og málatilbúnaður stefnanda ber með sér beinist krafa hans í raun að því að dæmt verði að ráðningarsamningur hans við stefnda í heild sé ennþá í gildi þrátt fyrir atvik þau sem orðið hafa og stefnda skýrir sem uppsögn hans á samningnum.  Að mati dómsins er krafan þannig fram sett að viðurkenning hennar með dómi mundi ekki leiða til þess að efnisleg úrlausn fengist nema að hluta um álitaefni það er málsaðilar í reynd deila um.  Krafa stefnanda er því andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað.  Þykir þegar af þeirri ástæðu eigi unnt að leggja efnisdóm á málið.  Ber því að vísa málinu frá dómi.

Afstöðu til málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins verður tekin við efnisúrlausn um síðari hluta kröfu stefnanda en eigi dæmdur nú.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

Á l y k t a r o r ð :

Krafa stefnanda um „að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé enn deildarstjóri umhverfisdeildar/skipulags- og byggingafulltrúi hjá stefnda“ er vísað frá dómi.

Málskostnaður dæmist eigi.