Hæstiréttur íslands
Mál nr. 126/2013
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Húftrygging
- Bifreið
- Stórkostlegt gáleysi
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 126/2013.
|
Guðmundur Hjalti Sigurðsson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Húftrygging. Bifreiðar. Stórkostlegt gáleysi.
G krafði T hf. um vátryggingabætur úr húftryggingu bifreiðar hans sem varð fyrir algeru tjóni í umferðaróhappi. Laut ágreiningur aðila að því hvort G hefði brotið gegn skilmálum tryggingarinnar og þannig fyrirgert sér rétti til bóta. Með vísan til fyrirliggjandi skýrslu í sakamáli um ætlaðan ökuhraða G er óhappið varð og því mikla tjóni sem hlaust af árekstrinum var því slegið föstu að bifreið G hefði verið ekið allt of hratt miðað við aðstæður og andsætt 1. mgr. og a., b., c., d. og h. lið 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hefði G því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með akstrinum og brotið gegn skilmálum vátryggingarinnar. Var T hf. því sýknað af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2013. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.300.000 krónur, en til vara skaðabætur að álitum, í báðum tilvikum með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2009 til 1. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Aðfaranótt 26. júlí 2008 barst lögreglu tilkynning um árekstur sem orðið hafði er bifreið áfrýjanda IN 012, sem var á hægri akrein á leið austur Hringbraut, var ekið utan í leigubifreiðina PX 952, sem var ekið inn á Hringbraut frá Furumel. Bifreið áfrýjanda stöðvaðist um 70 metra frá þeim stað þar sem árekstur varð, eftir að hafa hafnað á steinsteyptum vegg við kjallaratröppur fjölbýlishúss við Hringbraut og brotið hann niður. Bifreiðinni MV 204 hafði verið ekið samhliða bifreið áfrýjanda á vinstri akrein frá gatnamótum Hofsvallagötu og Hringbrautar. Við árekstur bifreiðar áfrýjanda og leigubifreiðarinnar kastaðist bifreiðin MV 204 fyrst á ljósastaur og síðan á gangbrautarvita sem brotnaði við það. Bifreið áfrýjanda skemmdist verulega. Á vettvangi kvaðst áfrýjandi hafa ekið á 70 kílómetra hraða á klukkustund, en breytti þeim framburði sínum tvívegis hjá lögreglu og kvaðst þá hafa ekið á minni hraða. Í frumskýrslu lögreglu segir að yfirborð vegar hafi verið blautt og rigning hafi verið.
Ákæra á hendur áfrýjanda var gefin út 2. febrúar 2010 þar sem honum var gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni umrætt sinn ,,í hættulegu ástandi ... með að minnsta kosti 86 km hraða á klst., of hratt miðað við aðstæður og almenn hraðatakmörk, við gatnamót að gangbraut í þéttbýli ... þar sem hámarkshraði var 50 km...“ Með dómi í því máli 5. október 2010 var áfrýjandi sakfelldur fyrir of hraðan akstur og vanbúnað bifreiðarinnar, en dóminum þótti sannað að áfrýjandi hefði umrætt sinn ekið með fyrrgreindum hraða.
Við meðferð sakamálsins aflaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíltæknirannsóknar á ástandi bifreiðar áfrýjanda. Niðurstaða rannsóknarinnar, sem dagsett er 7. september 2008, var að ökutækið hefði verið í stórhættulegu ástandi vegna ástands hjólbarða, hemla, hjólabúnaðar og gírkasa. Þá var fenginn útreikningur Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands á ökuhraða bifreiðar áfrýjanda umrætt sinn. Var það niðurstaða Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors, sem gerði skýrslu 25. október 2008, um útreikning þennan, að líklegasti hraði bifreiðarinnar hafi verið 99 kílómetrar á klukkustund, mögulegur lágmarkshraði 86 kílómetrar en hámarkshraði 113 kílómetrar. Magnús kom fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins og skýrði niðurstöður sínar. Þar sagði hann alveg öruggt að hraði bifreiðar áfrýjanda hafi ekki verið lægri en sá sem hann hafi reiknað vegna þess að hann tæki alltaf öll vafaatriði til lækkunar. Í niðurstöðum rannsóknar hans kemur fram að í útreikningum sé ekki reiknað með hraðabreytingu vegna loftmótstöðu og því sé raunverulegur hraði meiri en útreiknaður hraði.
Ágreiningslaust er að bifreiðin IN 012 var tryggð húftryggingu hjá stefnda þann dag sem árekstur varð. Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu úr húftryggingu þessari.
II
Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga kemur fram að félagið losni úr ábyrgð í heild eða að hluta, ef vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, veldur vátryggingaratburði með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi. Við mat á ábyrgð félagsins skuli líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og atvika að öðru leyti. Í grein 11.2 í vátryggingarskilmálum húftryggingar stefndu segir að valdi vátryggður tjóni af ásetningi beri félagið enga ábyrgð á tjóninu og hafi hann valdið tjóninu af stórkostlegu gáleysi sé félagið laust úr ábyrgð í heild eða að hluta. Skilmálarnir eru þessu leyti samhljóða 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004.
Hámarkshraði á þeim stað sem fyrrgreindur árekstur varð er 50 kílómetrar á klukkustund, sbr. 1. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna skal ökuhraði jafnan miðaður við aðstæður með sérstöku tilliti til öryggis annarra. Þá skal ökumaður miða hraðann við gerð og ástand vegar, ástand ökutækis og hleðslu, svo og umferðaraðstæður að öðru leyti. Sérstök aðgæsluskylda hvílir á ökumanni að aka nægilega hægt við aðstæður í þéttbýli, við vegamót og í beygjum, þegar útsýn er takmörkuð vegna birtu eða veðurs, áður en komið er að gangbraut og þegar vegur er blautur eða háll, sbr. a., b., c., d. og h. liði 2. mgr. sömu lagagreinar. Fram er komið að þar sem áreksturinn varð eru gatnamót og gangbraut í næsta nágrenni við þau. Bifreið áfrýjanda var ekið í þéttbýli á fjölfarinni umferðargötu, á blautum vegi um nótt og í rigningu. Við áreksturinn hafnaði hún á kjallaratröppum fjölbýlishúss sem brotnuðu við það.
Eins og áður greinir var af hálfu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands gerður útreikningur á ætluðum ökuhraða bifreiðar áfrýjanda er árekstur varð. Áfrýjandi hefur mótmælt sönnunargildi skýrslunnar, sem gerð var að tilhlutan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar sakamáls sem höfðað var á hendur áfrýjanda eins og fyrr er rakið. Niðurstaða skýrslunnar um ætlaðan ökuhraða áfrýjanda var lögð til grundvallar í fyrrgreindu sakamáli og er ekkert fram komið í málinu sem hnekkir niðurstöðum hennar. Í ljósi þess og með hliðsjón af því mikla tjóni sem hlaust af árekstrinum og lýst hefur verið, verður því slegið föstu að bifreiðinni IN 012 hafi verið ekið allt of hratt miðað við aðstæður og andstætt tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga. Með akstrinum sýndi áfrýjandi af sér stórkostlegt gáleysi og hefur því fyrirgert rétti sínum til bóta úr húftryggingu stefnda. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Guðmundur Hjalti Sigurðsson, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 13. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðmundi Hjalta Sigurðssyni, Réttarheiði 1, Hveragerði á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 27. júní 2012.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.300.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júlí 2009 til 1. júní 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er gerð krafa um skaðabætur að álitum að mati réttarins. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu, er þess krafist til þrautavara, að málskostnaður verði látinn falla niður.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.
Málsatvik
Aðfaranótt laugardagsins 26. júlí 2008 var tveimur bílum ekið samhliða austur Hringbraut í Reykjavík frá götuljósunum við Hofsvallagötu. Stefnandi ók svörtum sportbíl af gerðinni Mitsubishi 3000 GT með fastanúmerið IN-012 eftir hægri akrein. Hinn bíllinn var blár af gerðinni Subaru Impreza með fastanúmerið MV-204 og var honum ekið eftir vinstri akrein. Þegar kom að gatnamótum Furumels rakst bíll stefnanda utan í leigubíl PX-924 sem þá hafði beygt af Furumel inn á Hringbraut. Við þetta missti stefnandi stjórn á bíl sínum, sem hélt áfram austur götuna þar til hann skreið upp á og yfir gangstétt við fjölbýlishúsið nr. 41, snerist þar í hálfhring, hafnaði á steyptum vegg við kjallaratröppur og braut hann niður.
Hinn 2. febrúar 2010 var ákæra gefin út á hendur stefnanda vegna umferðarlagabrots þessa og jafnframt vegna ásigkomulags bifreiðarinnar, sbr. málið nr. S-52/2010 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Með dómi í málinu var stefnanda gert að greiða 70.000 kr. í sekt en 6 daga fangelsi kæmi í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd innan 4 vikna frá dómsbirtingu. Þá var ákærði sviptur ökuréttindum í 3 mánuði frá dómsbirtingu.
Ökumaður MV 2004 Sigurður Karl Ottósson gerði kröfu á tryggingafélag sitt Sjóvá hf. um greiðslu úr húftryggingu þeirrar bifreiðar, sem félagið hafnaði m.a. með þeim rökum að ökumaður MV 2004 hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda óhappsins 26. júlí 2008 og þannig fyrirgert rétti sínum til bóta úr húftryggingunni. Skaut hann málinu þá til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem með úrskurði 5. ágúst 2009 féllst á sjónarmið tryggingafélagsins og hafnaði því að greiðsluskylda væri fyrir hendi.
Stefnandi tryggði bifreið sína húftryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Ekki er að sjá að stefnandi hafi gert formlega kröfu um bætur úr húftryggingu IN 012 á hendur stefnda, en einhver munnleg samskipti hafa átt sér stað milli aðila og í þeim mun stefndi hafa hafnað bótaskyldu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Í upphafi tekur stefnandi fram að synjun stefnda hafi verið á því að reist, að stefnandi hafi gerst brotlegur með stórkostlegum hætti hvoru tveggja við umferðarlög og almenn hegningarlög. Af niðurstöðu Héraðsdóms í málinu S-52/2010 sé hins vegar ljóst, að því hafi ekki verið til að dreifa og hafi forsendur þannig breyst mjög verulega stefnanda í hag.
Stefnandi reisir kröfur sínar um bætur á því að hann hafi orðið fyrir tjóni hinn 26. júlí 2008, sem sé bótaskylt af hálfu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., en bótaskylda sé reist á húftryggingu, sem stefnandi hafði tekið hjá stefnda og hafi verið í fullu gildi. Af hálfu stefnanda sé bent á að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu S-52/2010 hafi leitt í ljós, að ekki væru forsendur til þess að álykta að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til bóta úr tryggingu skv. samningi aðila. Ljóst sé að bilun, sem hafi verið í gírkassa bifreiðarinnar, leiði enn fremur rök að því að stefnandi hafi ekki ekið á þeim hraða, sem talinn sé með útreikningum skv. framlögðum gögnum um að stefnandi hafi ekið bifreið sinni á 86 km./klst. Í málinu séu lögð fram gögn sem eru greinargerð Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors vegna ökuhraða, svo og tölvuskeyti Magnúsar og fulltrúa ákæruvalds og tölvupóstur stefnanda til dómara í sakamálinu. Niðurstöðu greinargerðar Magnúsar sé mótmælt sem rangri en vísað sé til röksemda sem fram komi í framlögðum gögnum m.a. reist á þeim forsendum að höfundur greinargerðarinnar hafi aldrei prófað sams konar eða sambærilega bifreið og bifreið stefnanda eins og greinargerð MÞJ beri með sér. Umrædd greinargerð Magnúsar sé alls ekki byggð á aðstæðum á vettvangi, mælingu á ökutæki eða neinum staðreyndum og sé um hreina fabulasjon að ræða.
Óhjákvæmilegt sé að vekja athygli á því, að skömmu áður en árekstur varð hafi bifreiðin verið kyrrstæð á horni Hofsvallagötu og Hringbrautar og verði að telja ósannað og því mótmælt sem röngu að stefnandi hafi stundað kappakstur eða með einhverjum hætti gerst sekur um stórfellt gáleysi eða ásetning í umrætt sinn. Rétt sé að taka fram að engin slys hafi orðið á fólki í umrætt sinn.
Stefnandi bendir á að með miklum ákafa og einbeitni hafi tryggingarfélag bifreiðarinnar MV-204 og stefndi í máli þessu lagt kapp á að koma sök á ökumenn í málinu og leitt hjá sér þá staðreynd að ökumaður PX-952 hafi ekið í veg fyrir IN-012 eins og fyrir liggi í gögnum málsins. Engar kröfur hafi verið hafðar uppi eða meiningar vegna aksturslags umrædds bílstjóra en hann hafi þó upplýst sjálfur að hann hafi ekki séð ástæðu til þess að nema staðar og bíða við umrædd gatnamót, þar sem ótvíræð biðskylda hafi verið heldur ekið inn á Hringbraut og þá í veg fyrir umrædda bifreið stefnanda sem ekið hafi verið í fullum rétti eftir aðalbraut. Í máli þessu liggi fyrir að öll vettvangsrannsókn og athugun á vettvangi og aðstæðum hafi farið fram löngu eftir að umræddir atburðir gerðust. Beri skýrslur það með sér að vera reistar á ágiskunum og ályktunum en ekki staðreyndum á vettvangi og öðrum aðstæðum á þeim tíma er atburðir hafi gerst. Ósannað sé því að ljósmyndir af ummerkjum á vettvangi að svo löngum tíma liðnum tengist umræddu umferðaróhappi. Séu þau gögn því ekki tæk í máli þessu eða geti verið grundvöllur fyrir því að samningsbundin bótaskylda stefnda eigi að falla niður.
Í máli þessu liggi fyrir að tjón stefnanda sé bótaskylt úr húftryggingu ökutækisins IN-012. Ekki sé ágreiningur um að ökutækið hafi verið kaskótryggt í umrætt sinn og að um gilt vátryggingarskírteini hafi verið að ræða. Ekki verði séð, að stefnandi hafi með neinum hætti brotið gegn skilmálum tryggingar, sem ætlað sé að verja hinn vátryggða fyrir áföllum eins og hér hátti til. Ágreiningslaust sé að orsök slyssins verði ekki rakin til ásetnings stefnanda og niðurstaða héraðsdóms sýni með ótvíræðum hætti að ekki verði talið að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða af hálfu stefnanda í skilningi gr. 11.3 í vátryggingaskilmálum stefnda eða 27. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004. Ljóst sé að félagið geti ekki borið fyrir sig að vátryggður hafi valdið vátryggingaratburði ef háttsemi hans telst ekki ásetningur eða stórkostlegt gáleysi, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. Enn fremur blasi við að orsök slyssins verði ekki rakin til aksturslags stefnanda heldur til þess að bifreiðinni PX-952 hafi verið ekið fyrirvaralaust í veg fyrir hann með fyrrgreindum afleiðingum. Engar forsendur séu því til þess að hafna bótaskyldu úr umræddri tryggingu.
Stefnandi gerir kröfur um bætur úr húftryggingu bifreiðar sinnar en bifreiðin hafi verið metin af tryggingarfélaginu sjálfu og stefnanda skv. vátryggingarskírteini á 1.300.000 kr. og taki stefnukrafan mið af þeirri fjárhæð, enda hafi bifreiðin verið gjörónýt og um altjón að ræða eftir umrætt umferðaróhapp.
Af hálfu stefnanda sé vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar en stefnandi vísar til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 einkum III. kafla laganna og enn fremur til umfl. nr. 50/1987 og laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum III. kafla. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé eigi virðisaukaskattskyldur og beri nauðsyn til að fá dæmdan 25,5% vsk. á tildæmda þóknun með vísan til laga um virðisaukaskatts nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Óumdeilt sé að þegar óhappið átti sér stað, hafi verið í gildi húftrygging hjá stefnda, TM hf. vegna bifreiðarinnar IN 012. Hafi vátryggingarfjárhæðin verið að hámarki 1.300.000 kr. og kröfum vegna tryggingarinnar því réttilega beint gegn stefnda. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að þar sem hann hafi haft í gildi hjá stefnda húftryggingu fyrir bifreið sína IN 012 og að altjón hafi orðið á bifreiðinni í óhappinu 26. júlí 2008 beri hinu stefnda félagi að greiða honum vátryggingarfjárhæðina 1.300.000 kr.
Þessu hafnar stefndi og telur að fyrirliggjandi gögn sýni fram á það með óyggjandi hætti að stefnandi hafi í fyrsta lagi verið í kappakstri, í öðru lagi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og í þriðja lagi hafi bifreið hans ekki verið í lögmæltu ástandi í umrætt sinn. Með þessu hafi hann brotið gegn skilmálum þeim er um húftrygginguna hafi gilt með vísan til greina 11.1.b varðandi meintan kappakstur, 11.2 varðandi stórkostlegt gáleysi og 23.1 varðandi lögmæltan búnað bifreiðarinnar. Brot á þessum greinum skilmálanna, sem eigi stoð í lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, leiði hvert um sig til þess að bótaréttur falli niður. Þessu til stuðnings bendir stefndi á eftirfarandi atriði sem fram hafi komið við rannsókn lögreglu á atvikinu:
Í fyrstu bókun í tölvukerfi lögreglu um slysið eftir símtal við tilkynnanda þess segi m.a. svo: „tilkynnir um umferðaslys, heyrði fyrst mikil spyrnuhljóð og síðan hátt krasshljóð“ Þetta skýri það að frá upphafi hafi legið fyrir rökstuddur grunur um kappakstur eða ofsaakstur í aðdraganda slyssins. Vegna þessa hafi verið framkvæmd ítarleg rannsókn af hálfu rannsóknardeildar lögreglunnar, sem m.a. hafi falist í nákvæmri skoðun vettvangs ásamt skoðun ökutækja þeirra er hlut hafi átt að máli og hafi fjöldi ljósmynda verið tekinn í sambandi við það.
Aðilar hafi verið yfirheyrðir nokkrum sinnum og einnig hafi lögreglan leitað til utanaðkomandi aðila við rannsóknina, þeirra Snorra Konráðssonar, framkvæmdastjóra Gnostika ehf., vegna bíltæknirannsókna og Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors, sem hafi gert hraðaútreikninga vegna slyssins. Guðmundur Þ. Tómassonar rannsóknarlögreglumaður hafi stýrt rannsókninni af hálfu lögreglu og í niðurlagi rannsóknarinnar taki hann saman í stuttu máli þær ályktanir sem hann dragi af henni. Þar segir: „Ég tel að hraði bifreiðanna MV 204 og IN 012 hafi verið meiri en hægt var að sýna fram á með bíltæknirannsókn og hraðaútreikningum og því mun meiri en ökumenn bifreiðanna hafa viljað viðurkenna við skýrslutökur. Byggi ég ályktun mína á því að þar sem vettvangsrannsókn rannsóknardeildar umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fór ekki fram fyrr enn 7. ágúst (en upphaf málsins var aðfararnótt 26. júlí, eða 13 dögum fyrr) höfðu mikilvæg ummerki á vettvangi spillst eða afmáðst, s.s. skriðför og hemlaför á og við veg , sem hefðu haft veruleg áhrif á endanlega niðurstöðu hraðaútreiknings til hækkunar. Vettvangurinn var svo stór að ég tel ekki vafa leika á að bifreiðunum var ekið langt umfram lögleyfðan hámarkshraða áður en svona fór. Framburður ökumanna bifreiðanna MV 204 og IN 012 er ótrúverðugur hvað hraða varðar og málsatvik önnur, ber framburð þeirra ekki saman við gögn málsins.“
Til frekara áréttingar á sjónarmiðum sínum leggi stefndi áherslu á niðurstöðu Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í rannsókn á ökuhraða IN 012 í umrætt sinn. Rannsóknin sé dags. 25.10.2008 og séu niðurstöður prófessorsins þær að líklegasti hraði hafi verið 99 km/klst. eða tvöfaldur leyfilegur hámarksharði á slysstað, lægsti mögulegi hraði hafi verið 86 km/klst. og hæsti mögulegi hraði 113 km/klst.
Engin efni séu til annars en að byggja hér á niðurstöðum Magnúsar Þórs, enda hafi rannsóknir hans margoft verið lagðar til grundvallar við úrlausn dómsmála, m.a. í Hæstarétti. Þær séu fyrir löngu viðurkenndar sem traust og trúverðug sönnunargögn í málum af því tagi sem hér sé til skoðunar og athugasemdum stefnanda við rannsóknina í stefnunni sé mótmælt.
Í skýrslu Gnostika sem unnin hafi verið af Snorra Konráðssyni í september 2008 sé komist að þeirri niðurstöðu að ökutækið IN 012 hafi ekki verið í notkunarhæfu ástandi vegna ástands hjólbarða, hemla, hjólabúnaðar og gírkassa.
Í fyrrnefndum skilmálum nr. 230 um trygginguna, gr. 23.1, sé fjallað um skyldur vátryggjanda um að hafa ökutækið í lögmæltu ástandi, sé sú ekki raunin falli bótaréttur niður.
Bótaskyldu sé því einnig hafnað með vísan til ásigkomulags bifreiðarinnar á tjónsdegi.
Ítrekað skuli að stefnandi hafi gerst brotlegur við þrjú ákvæði skilmálanna, sem hvert um sig leiði til brottfalls bótaréttar, hvað þá þegar þau eru öll tekin saman.
Enn fremur sé vísað til álits Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í málinu nr. 222/2009 dags. 5. ágúst 2009, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að rekja megi umferðaóhapp máls þessa til stórkostlegs gáleysis ökumanna bifreiðanna A og B, þ.e. stefnanda og Sigurðar Karls Ottóssonar ökumanns MV 204 og bótaskyldu úr húftryggingu bifreiðarinnar MV 204 hafnað.
Ljóst megi vera að sama niðurstaða hefði orðið varðandi bifreið stefnanda hefði hún einnig verið til umfjöllunar hjá nefndinni. Niðurstaða Úrskurðarnefndarinnar hvað þetta álitaefni varði sé augljós stuðningur við sjónarmið stefnda í máli þessu. Skýrara geti þetta því tæpast verið.
Það sé niðurstaða sérfræðinga á þessu sviði eftir ítarlega rannsókn þar sem málið hafi verið skoðað frá öllum hliðum að um ofsaakstur hafi verið að ræða hjá ökumönnum MV 204 og IN 012 í umrætt sinn, þar sem stefnandi hafi ekið bifreið sinni á a.m.k. tvöföldum leyfilegum hámarkshraða á vettvangi og jafnvel meiri og ef það er ekki stórkostlegt gáleysi sé vandséð hvenær það teljist vera fyrir hendi.
Til frekari áréttingar vil vekur stefndi athygli á eftirfarandi staðreyndum í málinu.
Ljóst megi vera að ökumenn IN 012 og MV 204 hafi í engu skeytt um öryggi annarra vegfarenda, sem þarna kynnu að vera á ferð og það hafi ekki verið þeim að þakka að afleiðingar aksturslags þeirra urðu ekki mun alvarlegri en raun beri vitni.
Þar fyrir utan hafi verið myrkur og rigning, sem sé óhagstæð akstursskilyrði, en leyfður hámarkshraði miðast eins og kunnugt er við bestu akstursskilyrði sem augljóslega hafi ekki verið þarna. Rétt sé einnig að minna á að óhappið hafi orðið við gatnamót og merkta gangbraut og því enn meiri ástæða til þess að sýna varúð. Að auki liggi fyrir að báðir ökumenn sem þarna hafi átt hlut að máli séu síbrotamenn í umferðinni. Stefnandi hafi t.d. haustið 2008 verið kærður í 43 skipti fyrir 68 brot á umferðarlögum, þar af 13 sinnum vegna hraðaksturs.
Stefndi telur því nægilega í ljós leitt að um ofsaakstur hafi verið að ræða í umrætt sinn, ökumenn IN 012 og MV 204 hafi augljóslega verið í kappakstri og það sé hafið yfir allan vafa að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með aksturslagi sínu. Þar að auki hafi verið bifreið stefnanda verið vanbúin og stórhættuleg til aksturs, sem enn fremur sé fullgild ástæða til höfnunar bótaskyldu í málinu.
Um frekari röksemdir vísist til þess sem hér að framan hafi verið rakið og þá sérstaklega hinnar ítarlegu rannsóknar lögreglunnar sem fjöldi lögreglumanna og annarra fagmanna komu að, hraðarannsóknar Magnúsar Jónssonar prófessors, dags. 25. október 2008, og bíltæknirannsóknar Gnostika ehf., dags. í september 2008.
Allt það sem hér að framan sé rakið á að mati stefnda að leiða til þeirrar niðurstöðu að fallast beri á aðalkröfu hans um sýknu.
Stefndi gerir eftirfarandi athugasemdir við málatilbúnað stefnanda:
Stefnandi telur að niðurstaða í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 52/2010 eigi að leiða til þess að hafna beri sjónarmiðum stefnda um stórkostlegt gáleysi stefnanda í umrætt sinn. Ekki verði af málatilbúnaði hans ráðið hvernig hann komist að þeirri niðurstöðu og mótmælir stefndi sjónarmiðum hans þar að lútandi og bendir á því til stuðnings að í fyrsta lagi byggðist krafa ákæruvaldsins í málinu á lægsta hugsanlega hraða að mati Magnúsar Þórs, eða 86 km/klst., og í öðru lagi séu sönnunarkröfur í refsimálum strangari en í einkamálum og fordæmisgildi héraðsdóms í refsimáli því takmarkað í einkamáli. Þá telur dómurinn að niðurstöður hraðarannsóknar Magnúsar Þórs Jónssonar séu röklegar og því á þeim byggjandi og telur sannað að ökuhraðinn hafi verið 86 km/klst., en krafa ákæruvalds hafi miðast við þann hraða.
Mótmælum og athugasemdum stefnanda við rannsóknina sé með vísan til þessa vísað til föðurhúsanna.Vissulega hafi í máli 52/2010 verið sýknað varðandi ætlaðan vanbúnað bifreiðarinnar, en stefndi telur það ekki hafa fordæmisgildi í þessu máli vegna mismunandi sönnunarkrafna í refsi- og einkamálum svo sem minnst hafi verið á hér að framan.
Kjarni málsins sé sá að rannsókn hlutlauss aðila, sem ekki verður vefengd, hafi leitt í ljós verulegan vanbúnað bifreiðarinnar.
Að lokum tekur stefndi fram að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu en vaxta- og dráttarvaxtakröfu sé mótmælt, enda eigi hún ekki stoð í lögum.
Niðurstaða
Ágreiningslaust er að þegar óhappið átti sér stað, hinn 26. júlí 2008, var í gildi húftrygging hjá stefnda, vegna bifreiðarinnar IN 012 og hafi vátryggingarfjárhæðin verið að hámarki 1.300.000 kr. Stefnandi byggir kröfu sína um bætur á því að hann hafi orðið fyrir altjóni í umræddu óhappi sem sé bótaskylt af hálfu stefnda og sé bótaskyldan reist á húftryggingunni. Því hafnar stefndi og telur að með stórkostlegu gáleysi hafi stefnandi brotið gegn skilmálum húftryggingarinnar og því eigi að sýkna stefnda.
Í málinu liggja fyrir vátryggingarskilmálar, 230 kaskótygging ökutækja. Í 11. gr. þeirra er kveðið á um takmörkun á gildissviði vátryggingarinnar og ásetning og stórkostlegt gáleysi. Í gr. 11.1.b segir að félagið greiði ekki bætur þegar um sé að ræða kappakstur, aksturskeppni, reynsluakstur eða æfingar fyrir slíkan akstur nema um annað sé samið. Í gr. 11.2 er tekið fram að valdi vátryggður tjóni af ásetningi beri félagið enga ábyrgð á tjóninu. Hafi hann valdið tjóninu af stórkostlegu gáleysi sé félagið laust úr ábyrgð í heild eða að hluta til. Í gr. 23.1 kemur fram að vátryggðum sé skylt að gæta þess að ökutækið sé í lögmæltu ástandi. Sérstaklega beri að sjá um að öryggistæki séu í lagi.Vátryggingarskilmálar þessir eiga stoð í lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Í 1. mgr. 27. gr. laganna er kveðið á um að ef vátryggður hefur af ásetningi valdið því að vátryggingaratburður varð ber félagið ekki ábyrgð.
Ítarleg skýrsla liggur fyrir í málinu vegna óhappsins og er hún unnin af rannsóknardeild umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram að fyrsta bókun málsins í tölvukerfi lögreglu sem bókuð var af lögreglumanni á Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra eftir símtal við tilkynnanda hafi verið svohljóðandi „tilkynnir um umferðarslys, heyrði fyrst mikil spyrnu hljóð og síðan hátt „krasshljóð“. Í ályktun rannsakanda málsins kemur einnig fram að framburðir stefnanda svo og ökumanns bifreiðarinnar MV-204 hafi verið ótrúverðugir hvað hraða varðar og önnur málsatvik og beri framburði þeirra og gögnum málsins ekki saman.
Í málinu liggja einnig fyrir gögn er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aflaði við rannsókn málsins. Annars vegar er um að ræða útreikning Magnúsar Þórs Jónssonar prófessors í vélaverkfræði á hraða ökutækis stefnanda. Niðurstaða hans er sú að líklegasti hraði bifreiðar stefnanda hafi verið 99 km/klst. Mögulegi lágmarkshraði sé 86 km/klst. og mögulegi hámarkshraði sé 113 km/klst. Stefnandi hefur mótmælt því að hafa ekið svo hratt og eru mótmæli hans studd vitnisburði Sævars Pálmasonar fyrir dómi, en þeir munu þekkja hvor til annars úr „bílheimum“. Eins og mál þetta liggur fyrir eru engin efni til annars en að leggja útreikning Magnúsar Þórs Jónssonar til grundvallar í málinu enda hefur honum ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda. Þegar litið er til þessa mikla hraða bifreiðarinnar og þess að tilkynnt var í upphafi að spyrnuhljóð hafi heyrst rétt fyrir óhappið, er fallist á það með stefnda að um kappakstur hafi verið að ræða er óhappið átti sér stað.
Hins vegar aflaði lögreglan við rannsókn sína ítarlegrar skýrslu um bíltæknirannsókn á bifreið stefnanda sem unnin var í september 2008 af Snorra S. Konráðssyni. Í upphafi niðurstöðukafla rannsóknarinnar segir að bifreiðin hafi ekki verið í notkunarhæfu ástandi vegna ástands hjólbarða, hemla, hjólabúnaðar og gírkassa. Síðar í niðurstöðukaflanum er tekið fram að bifreiðin hafi verið í stórhættulegu ástandi vegna ásigkomulags hjólabarða, hemla, hjólabúnaðar og gírkassa. Óundirrituð skoðunarvottorð Frumherja hf., er stefnandi lagði fram í máli þessu, hnekkja ekki ítarlegri rannsókn Snorra S. Konráðssonar.
Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-52/2012 var stefnandi fundinn sekur um að hafa ekið á 86 km/klst. Hér er til þess að líta að um sakamál er að ræða og er ákæran miðuð við lægsta mögulegan hraða samkvæmt nefndri skýrslu Magnúsar Þórs Jónssonar. Skýrsla Magnúsar var lögð til grundvallar sekt stefnanda í opinbera málinu. Við aðalmeðferð máls þessa kvað Magnús Þór að stefnandi hefði verið á meiri hraða. Varðandi ástand bifreiðarinnar var komist að þeirri niðurstöðu í sakamálinu að bifreið stefnanda hefði verið vanbúin til aksturs, en stefnandi látinn njóta vafans af því hver væri rétt stærð hjólbarða. Í nefndum dómi segir: „Í ákærunni eru tilgreindir margvíslegir ágallar á búnaði bílsins, hjólbörðum, hemlum, hjólabúnaði, gírkassa svo og á hraðamæli bílsins. Verður að telja staðfest bíltæknirannsókn Snorra S. Konráðssonar leiði í ljós með óyggjandi hætti að bíll ákærða var í umrætt sinn vanbúinn til aksturs, eins og í ákæru segir, og að sá vanbúnaður sé á ábyrgð ákærða og varði við 59. gr. umferðarlaga auk tilfærðra ákvæða reglugerðar um gerð og búnað ökutækja. Þó er þess að gæta að ákærði hefur lagt fram gagn í málinu sem vekur óvissu um það hver sé rétt stærð hjólbarða fyrir bíl hans. Verður hann því sýknaður af því ákæruatriði.“
Með vísan til þess sem að framan greinir telur dómurinn ótvírætt að stefnandi geti ekki á rétt til bóta úr húftryggingu bifreiðarinnar. Stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi er óhappið átti sér stað og verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 kr.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Guðmundar Hjalta Sigurðssonar.
Stefnandi, Guðmundur Hjalti Sigurðsson, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 400.000 kr. í málskostnað.