Hæstiréttur íslands
Mál nr. 167/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Fasteign
- Afnotaréttur
- Dánarbú
|
|
Fimmtudaginn 12. mars 2015. |
|
Nr. 167/2015.
|
Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Þorsteini Hjaltested og (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested (enginn) |
Kærumál. Þinglýsing. Fasteign. Afnotaréttur. Dánarbú.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem annars vegar var hafnað kröfu SKS og K, afkomenda SKL, um að fasteignin V yrði tilgreind í fasteignabók sem „jörðin“ V þannig að þinglýsingarvottorð tæki ótvírætt til jarðarinnar V og að eignarheimildir dánarbús SKL að jörðinni yrðu tilgreindar með vísan til heimildarskjala, það er annars vegar erfðaskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar í máli nr. 701/2012. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að í veðbókarvottorði sýslumanns kæmi fram að samkvæmt fasteignabók væri dánarbú SKL þinglýstur eigandi að V, sem væri „jörð“ með tilteknu fasteignanúmeri. Þá kæmi þar fram að eignarheimildir þinglýsta eigandans væru annars vegar „erfðaskiptayfirlýsing“ og hins vegar umræddur dómur Hæstaréttar. Samkvæmt því væri engan veginn séð hvað skorti á að færslur í fasteignabók væru í því horfi sem dómkrafa SKS og K hljóðaði á um. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfum þeirra að þessu leyti. Í úrskurði héraðsdóms var hins vegar fallist á kröfu SKS og K um að lagt yrði fyrir sýslumann að afmá úr fasteignabók skiptayfirlýsingu um réttindi Þ yfir fasteigninni V sem erfingjar M höfðu gert með sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í dómi réttarins í máli nr. 701/2012 hefði því verið slegið föstu að beinn eignaréttur að jörðinni V væri enn á hendi dánarbús SKL og að færslur í fasteignabók væru nú í samræmi við það. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 hefði jafnframt verið leyst úr því að sá beini eignaréttur gengi ekki erfðum við skipti á dánarbúi SKL eftir fyrirmælum erfðaskrár ME heldur eftir lögerfðareglum. Hins vegar leiddi af eldri dómum réttarins að um „umráð og afnot fasteignarinnar“ V, færi að SKL látnum eftir ákvæðum erfðaskrárinnar. Óumdeilt væri að eftir erfðaskránni ættu réttindin að M látnum að ganga til elsta sonar hans, Þ. Kom fram að þótt þessi aðilaskipti að umráðum og afnotum fasteignarinnar ættu sér stoð í erfðaskrá ME hefðu þeir, sem við réttindum hefðu tekið eftir lát SKL, fengið þau í hendur frá næsta forvera sínum en ekki frá ME. Til að koma fram aðilaskiptum að þessum réttindum eftir lát M hefði því verið óumflýjanlegt að gerð yrði umrædd skiptayfirlýsing. Að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 yrði að líta svo á að sú skiptayfirlýsing hefði eingöngu fært í hendur Þ réttindi til umráða og afnota fasteignarinnar V en ekki beinan eignarétt að henni. Þau réttindi fælu á hinn bóginn í sér afnotarétt að fasteign sem væri háður þinglýsingu samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 31. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hafnaði Hæstiréttur því kröfu SKS og K um að umrædd skiptayfirlýsing yrði afmáð úr fasteignabók.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. febrúar 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um atriði varðandi þinglýsingu réttinda yfir fasteigninni Vatnsenda í Kópavogi. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði ákvæði hins kærða úrskurðar um að lagt sé fyrir sýslumann að afmá úr fasteignabók skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000 um réttindi varnaraðilans Þorsteins Hjaltested yfir Vatnsenda, en tekin verði á hinn bóginn til greina krafa sóknaraðila um „að fasteignin Vatnsendi verði tilgreind í fasteignabók/þinglýsingarbók sem „jörðin Vatnsendi“ þannig að þinglýsingarvottorð taki ótvírætt til jarðarinnar Vatnsendi og að eignarheimildir dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested að Vatnsendajörðinni verði tilgreindar með vísan til heimildarskjala, þ.e. annars vegar til erfðaskrár/arfleiðsluskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar Íslands nr. 701/2012.“ Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðilum verði „auk embættis Sýslumannsins í Kópavogi (nú Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu)“ hverjum fyrir sig gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðilinn Þorsteinn Hjaltested kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 27. febrúar 2015. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur að öðru leyti en því að annars vegar verði hafnað kröfu sóknaraðila um að afmáð verði úr fasteignabók skiptayfirlýsing frá 21. nóvember 2000 og hins vegar hrundið ákvæði úrskurðarins um málskostnað milli sín og sóknaraðila, sem varnaraðilinn krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilinn dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sigríður Hjaltested og Markús Ívar Hjaltested, sem áttu aðild að málinu í héraði við hlið sóknaraðila, hafa hvorki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti né látið það á annan hátt til sín taka hér fyrir dómi.
Sýslumaðurinn í Kópavogi, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er nú kominn í stað fyrir, sbr. 2. gr. laga nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og ákvæði II til bráðabirgða við þau lög, hefur ekki átt aðild að máli þessu. Krafa sóknaraðila um málskostnað úr hendi sýslumanns kemur því ekki frekar til álita.
I
Svo sem nánar er rakið í dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 gerði Magnús Einarsson Hjaltested erfðaskrá 4. janúar 1938, þar sem hann arfleiddi Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested að öllum eignum sínum, þar með talinni jörðinni Vatnsenda, en í erfðaskránni voru jafnframt ákvæði um hvernig fara ætti með jörðina að Sigurði látnum. Eftir lát Magnúsar 31. október 1940 tók Sigurður jörðina að arfi og mun hann hafa þinglýst erfðaskránni sem eignarheimild að henni 9. janúar 1941. Sigurður lést 13. nóvember 1966 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967. Við skiptin reis ágreiningur um hvernig farið yrði með réttindi yfir Vatnsenda. Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var staðfestur úrskurður skiptaréttar Kópavogs 24. júlí 1967, þar sem kveðið var á um að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri „áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds“. Að gengnum þeim dómi voru Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested afhent á skiptafundi í dánarbúinu 7. maí 1968 „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ og var ákvörðun um það staðfest í dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.
Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999 og voru erfingjar eftir hann eiginkona hans og fjögur börn, þar á meðal varnaraðilinn Þorsteinn Hjaltested. Erfingjar Magnúsar gerðu 21. nóvember 2000 skiptayfirlýsingu, þar sem meðal annars sagði eftirfarandi: „Með yfirlýsingu þessari er jörðin Vatnsendi Kópavogi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ... yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested ... á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938 Samkvæmt erfðaskránni gengu allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og gekk þá eignin til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús lést 21. desember 1999 og á eignin þá skv. erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Erfingjar lýsa því yfir að enginn ágreiningur er meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu falli óskipt til Þorsteins Hjaltested“. Þessari yfirlýsingu var þinglýst 12. desember 2000 og var varnaraðilinn Þorsteinn sagður „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda í þinglýsingarvottorði frá 11. janúar 2012.
Með dómi Hæstaréttar 24. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 var tekin til greina krafa, sem sóknaraðilar stóðu meðal annarra að, um að skipaður yrði skiptastjóri til að fara með opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, en fyrir liggur að ekkert hafði þá verið hafst að við þau eftir 15. maí 1972 og er þeim enn ólokið. Í framhaldi af þessu reis ágreiningur við skiptin um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Úr honum var leyst í dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að beinn eignarréttur að jörðinni væri enn á hendi dánarbús Sigurðar. Skiptastjóri leitaði eftir því 6. maí 2013 að dómi þessum yrði þinglýst, sem sýslumaður varð við, en þó þannig að eftir sem áður var varnaraðilinn Þorsteinn skráður sem þinglýstur eigandi Vatnsenda í fasteignabók. Ágreiningur kom upp um þetta, sem leiddi til dóms Hæstaréttar 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013, en í honum var lagt fyrir sýslumann að færa nafn dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested í fasteignabók sem eiganda jarðarinnar. Ekki vildu sóknaraðilar una við það hvernig sýslumaður varð við skyldu sinni samkvæmt þeim dómi og beindu þeir af því tilefni svofelldum kröfum til sýslumanns 27. janúar 2014: „Þess er farið á leit að fasteignin Vatnsendi verði tilgreind í fasteignabók/þinglýsingarbók sem jörðin Vatnsendi þannig að þinglýsingarvottorð taki ótvírætt til jarðarinnar Vatnsendi og að eignarheimildir dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda jörðinni verði tilgreindar með vísan til heimildar skjala þ.e. annars vegar til erfðaskrár/arfleiðsluskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar Íslands nr. 701/2012. Þess er jafnframt farið á leit að skiptayfirlýsing útg. af Þorsteini Hjaltested 21.11.2000, nú þinglýst sem kvöð á eignina, verði afmáð úr fasteignabók/þinglýsingabók Vatnsenda jarðarinnar.“ Þessu hafnaði sýslumaður með bréfi 9. maí 2014. Því vildu sóknaraðilar ekki una og báru þeir ákvörðun sýslumanns um þetta undir héraðsdóm 4. júní 2014, en af því tilefni var mál þetta þingfest 10. júlí sama ár.
Samhliða þeim ágreiningi, sem mál þetta er risið af, kom upp deila við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested um frumvarp til úthlutunar úr því, sem skiptastjóri gerði 15. apríl 2014. Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 var frumvarpið fellt úr gildi.
II
Í veðbókarvottorði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 27. febrúar 2015, sem varnaraðilinn Þorsteinn hefur lagt fyrir Hæstarétt, er tilgreint að samkvæmt fasteignabók sé dánarbú Sigurðar K. Hjaltested þinglýstur eigandi Vatnsenda, sem sé „jörð“ með tilteknu fasteignanúmeri. Eignarheimildir þinglýsta eigandans séu annars vegar „erfðaskiptayfirlýsing“, sem gefin hafi verið út 4. janúar 1938 og móttekin til þinglýsingar 9. janúar 1941, og hins vegar dómur, sem móttekinn hafi verið 6. maí 2013. Samkvæmt þessu verður engan veginn séð hvað skorti á að færslur í fasteignabók séu í því horfi, sem dómkrafa sóknaraðila um þetta efni hljóðar um. Verður því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfum sóknaraðila að þessu leyti.
Eins og áður greinir var því slegið föstu með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og eru færslur í fasteignabók samkvæmt framansögðu nú í samræmi við það. Með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 hefur jafnframt verið leyst úr því að sá beini eignarréttur gangi ekki að erfðum við skipti á dánarbúi Sigurðar eftir fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, heldur eftir lögerfðareglum. Af dómum réttarins 5. apríl 1968 og 30. maí 1969 leiðir á hinn bóginn að um „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“, sem svo voru nefnd, fari að Sigurði látnum eftir ákvæðum erfðaskrárinnar. Með dóminum 30. maí 1969 var þessum réttindum yfir fasteigninni ráðstafað í samræmi við erfðaskrána til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested og hafði hann þau á hendi þar til hann lést 21. desember 1999. Óumdeilt er að eftir erfðaskránni áttu réttindin að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested látnum að ganga til elsta sonar hans, varnaraðilans Þorsteins. Þótt þessi aðilaskipti að umráðum og afnotum fasteignarinnar eigi sér stoð í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafa þeir, sem við þeim réttindum hafa tekið eftir lát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, fengið þau í hendur frá næsta forvera sínum, en ekki frá Magnúsi Einarssyni Hjaltested. Til að koma fram aðilaskiptum að þessum réttindum eftir lát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested var óumflýjanlegt að gerð yrði skiptayfirlýsing, svo sem erfingjar hans gerðu 21. nóvember 2000. Að gengnum dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 verður að líta svo á að sú skiptayfirlýsing hafi eingöngu fært í hendur varnaraðilans Þorsteins réttindi til umráða og afnota fasteignarinnar Vatnsenda, en ekki beinan eignarrétt að henni. Þau réttindi fela á hinn bóginn í sér afnotarétt að fasteign, sem háður er þinglýsingu samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 31. gr. þinglýsingalaga. Eru því engin efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að skiptayfirlýsingin frá 21. nóvember 2000 verði afmáð úr fasteignabók.
Samkvæmt framansögðu verður hafnað þeim kröfum, sem sóknaraðilar hafa gert í málinu. Því til samræmis verða þeir dæmdir til að greiða varnaraðilanum Þorsteini málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Sigurðar Kristjáns Sigurðssonar Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested, í máli þessu.
Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila Þorsteini Hjaltested samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. febrúar 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. febrúar sl., barst dómnum 4. júní 2014 með bréfi Sigmundar Hannessonar hrl., dagsettu þann sama dag.
Sóknaraðilar eru Sigurður Karl Hjaltested, Marargötu 4, Vogum, Karl Lárus Hjaltested, Ósabakka 19, Reykjavík, Sigríður Hjaltested, til heimilis í Danmörku, og Markús Ívar Hjaltested, Norðurbraut 25, Hafnarfirði.
Varnaraðilar eru Þorsteinn Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi, og dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested.
Dómkröfur sóknaraðila eru þessar:
a) Að fasteignin Vatnsendi 116957, Kópavogi, fasteignanúmer 206-6737 verði tilgreind í fasteignabók/þinglýsingarbók sem „jörðin Vatnsendi“ þannig að þinglýsingarvottorð taki ótvírætt til jarðarinnar Vatnsendi og að eignarheimildir dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested að Vatnsendajörðinni verði tilgreindar með vísan til heimildarskjala, þ.e. annars vegar til erfðaskrár/arfleiðsluskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar Íslands nr. 701/2012.
b) Að skiptayfirlýsing útgefin af Þorsteini Hjaltested 21. nóvember 2000, nú þinglýst sem kvöð á eignina, verði afmáð úr fasteignabók/þinglýsingabók Vatnsendajarðarinnar.
c) Þá krefjast allir sóknaraðilar, hver fyrir sig, málskostnaðar úr hendi varnaraðila og embættis sýslumannsins í Kópavogi.
Kröfur varnaraðila Þorsteins Hjaltested eru þær að dómkröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðilinn málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Kröfur varnaraðila dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested eru þær að kröfu sóknaraðila samkvæmt staflið a) hér að framan verði hafnað. Þá krefst varnaraðilinn sýknu af öllum kröfum sóknaraðila um málskostnað og að dánarbúinu verði úrskurðaður málskostnaður úr þeirra hendi.
I
A
Með dómi Hæstaréttar 24. ágúst 2011, í máli nr. 375/2011, var lagt fyrir Héraðsdóm Reykjaness að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, og skipaði dómurinn Jón Auðunn Jónsson hrl. til að gegna starfanum. Þinglýst eignarheimild Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested var erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, er þinglýst var 9. janúar 1941. Sigurður Kr. Lárusson Hjaltested tók við kvaðabundnum eignaumráðum jarðarinnar í skjóli erfðaskrárinnar, en í erfðaskránni voru fyrirmæli um áframhaldandi erfðaröð að Sigurði látnum. Með dómi Hæstaréttar Íslands 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var erfðaskrá Magnúsar dæmd gild.
Hinn 3. maí 2013 var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 kveðið á um að við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested teldist beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi enn vera á hendi dánarbúsins. Segir í forsendum dómsins að í tengslum við afhendingu fasteignarinnar Vatnsenda til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi ekki ekki verið kveðið á um afdrif beins eignarréttar í dómsúrlausnum í málinu og verði ekki séð að þeim rétti hafi verið ráðstafað til Magnúsar með skiptayfirlýsingu eða afsali. Í forsendum dómsins er enn fremur vísað til úrskurðar skiptadóms Kópavogs frá 24. júlí 1967, en niðurstaða skiptadóms Kópavogs var að Magnúsi Sigurðssyni væri einum erfingja Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda. Í úrskurðarorði skiptadóms Kópavogs sagði: „Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938.“ Var úrskurður skiptadóms staðfestur með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967.
Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 er jafnfram reifað að að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 hafi verið haldinn skiptafundur í dánarbúinu 7. maí 1968. Á skiptafundinum hafi skiptaráðandi lýst því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda með því sem henni fylgdi og fylgja bæri, samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja væru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Ákvörðun skiptadóms var staðfest með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.
Með frumvarpi að úthlutunargerð í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, dagsettu 15. apríl 2014, var beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda ráðstafað til varnaraðila Þorsteins. Á skiptafundi 30. apríl 2014 var frumvarpið til umfjöllunar og kom þá upp ágreiningur um efni þess. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var honum því vísað til dómsins á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991. Dómurinn kvað upp úrskurð í málinu 6. nóvember sl. Úrskurðurinn sætir nú kæru til Hæstaréttar.
B
Með kæru til Hæstaréttar Íslands 20. nóvember 2013 kærðu nokkrir erfingjar í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 7. nóvember 2013. Í úrskurði héraðsdóms var vísað frá dómi kröfum nokkurra sóknaraðila í málinu um að sýslumanninum í Kópavogi yrði gert að afmá úr þinglýsingabók, vegna jarðarinnar Vatnsenda, eignarheimild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á grundvelli dóms Hæstaréttar 30. maí 1969 í málinu nr. 99/1968 og leyfi varnaraðilans Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur 19. janúar 2000 til setu í óskiptu búi. Þá var hafnað kröfum allra sóknaraðila um að sýslumanni yrði gert annars vegar að afmá úr þinglýsingabók vegna sömu jarðar eignarheimild varnaraðilans Þorsteins Hjaltested samkvæmt skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000 og hins vegar að færa dóm Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 sem eignarheimild dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að jörðinni. Í forsendum dóms Hæstaréttar í kærumálinu, máli nr. 740/2013, sem kveðinn var upp 6. desember 2013, sagði meðal annars:
Ber sýslumanninum í Kópavogi því að breyta færslu í fasteignabók á þann hátt, sem greinir í dómsorði, jafnhliða því að gera þar að eigin frumkvæði nauðsynlegar leiðréttingar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga á eldri færslum um eignarheimildir yfir jörðinni Vatnsenda, þannig að ekki orki tvímælis að réttindi á grundvelli fyrrnefnds dóms frá 30. maí 1969 séu óbein eignarréttindi og sá, sem fari með þau, sé ekki þinglýstur eigandi hennar í skilningi 1. mgr. 25. gr. sömu laga.
Var dómsorðið síðan svohljóðandi:
Sýslumanninum í Kópavogi ber að færa heiti dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blað í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi á grundvelli þinglýsingar á dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012.
Með erindi 27. janúar 2014 óskuðu sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus eftir úrlausn þinglýsingarstjóra, í samræmi við dómkröfur þeirra í málinu, þ.e. að fasteignin Vatnsendi yrði tilgreind í þinglýsingabók sem „jörðin Vatnsendi“, að eignarheimildir dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested yrðu tilgreindar með vísan til heimildarskjala, annars vegar erfðaskrár/arfleiðsluskrár og hins vegar dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 701/2012, og að skiptayfirlýsing útgefin af varnaraðila Þorsteini 21. nóvember 2000, nú þinglýst sem kvöð á eignina, yrði afmáð úr þinglýsingabók. Sóknaraðilarnir ítrekuðu erindi sitt með bréfum 25. mars 2014 og 25. apríl 2014. Með bréfi þinglýsingarstjóra 9. maí 2014 var erindi sóknaraðila hafnað. Vísaði þinglýsingarstjóri meðal annars til þess að hann teldi enga hættu á að núverandi tilgreining Vatnsendajarðarinnar skapaði hættu á ruglingi. Ekki væri því ástæða til þess að breyta heiti eignarinnar á þinglýsingarvottorði. Hvað skiptayfirlýsingu varnaraðila Þorsteins varðaði vísaði þinglýsingarstjóri til þess að dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested væri enn til opinberra skipta og að þangað til niðurstaða skiptanna, eða eftir atvikum önnur skjöl, sem tæk væru til þinglýsingar, bærust embættinu, sæi þinglýsingarstjóri ekki ástæðu til að breyta skráningu á þinglýsingarvottorði eignarinnar. Sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus vildu ekki una við úrlausn þinglýsingarstjóra og sendu honum því 22. maí 2014 tilkynningu samkvæmt 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Með bréfi sóknaraðila 4. júní 2014 var málinu vísað til dómsins, svo sem áður var rakið.
Mál þetta var þingfest 10. júlí 2014. Þar sem lögmaður sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar taldi sig ekki hafa fengið öll gögn málsins frá sýslumanninum í Kópavogi var málinu frestað til framlagningar á frekari gögnum og eftir atvikum greinargerð nefndra sóknaraðila til fimmtudagsins 21. ágúst 2014. Þann dag sótti þing, auk lögmanna upphaflegra sóknaraðila og beggja varnaraðila, Valgeir Kristinsson hrl. Kvaðst hann sækja þing fyrir hönd tveggja erfingja í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, sóknaraðila Sigríðar og Markúsar Ívars. Krafðist lögmaðurinn þess að umbjóðendur hans fengju stöðu sóknaraðila í málinu og sagði hann þá gera sömu dómkröfur og aðrir sóknaraðilar hefðu þegar gert. Var aðild sóknaraðila Sigríðar og Markúsar Ívars að máli þessu þegar mótmælt af hálfu varnaraðila Þorsteins.
II
A
Sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus benda á að í þinglýsingarhluta fasteignaskrár Íslands sé skráning Vatnsendajarðarinnar svofelld: „Fasteignir: Fastanúmer 206-6737-01-0101, Vatnsendi 116957, Kópavogur.“
Eignir tengdar fastanúmeri séu síðan tilgreindar svo:
Tegund eignar Mhl-Rými Heildarmat Húsmat lóðamat
Einbýli 010101 53950 42050 11900
Áhaldahús 040101 846
Hænsnahús 070101 2050
Ungahús 080101 50
Hesthús 090101 464
Hesthús 100101 1215
Þá benda sóknaraðilarnir á að í svari sýslumannsins í Kópavogi og gögnum málsins komi meðal annars fram að „Jörðin Vatnsendi“ sé hvorki tilgreind í þinglýsingarhluta Fasteignaskrár Íslands né þinglýsingarvottorði fyrir eignina.
Sóknaraðilarnir vísa til þess að í 1. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segi meðal annars að Þjóðskrá fari með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögunum og rekstur gagna- og upplýsingakerfis sem nefnist fasteignaskrá á tölvutæku formi. Í fasteignaskrá skuli skrá allar fasteignir í landinu. Kjarni fasteignaskrár séu upplýsingar um lönd og lóðir og hnitsett afmörkun þeirra, mannvirki við þau skeytt og réttindi þeim viðkomandi. Fasteignaskrá sé grundvöllur þinglýsingarbókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár þjóðskrár og þannig úr garði gerð að hún nýtist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum. Saga breytinga á skráningu fasteignar skuli varðveit í fasteignaskrá. Í 2. gr. sé á um það kveðið að hverja fasteign skuli meta til verðs eftir því sem næst verði komist á hverjum tíma og nánar sé kveðið á um í lögunum. Þá segi í 3. gr. laganna að fasteign samkvæmt lögunum sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.
Fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Land sé hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- og afnotaréttar, hagnýtingar auðkenna eða landamerkja geti talist sjálfstæð eind.
Sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus segja skiptayfirlýsingu varnaraðila Þorsteins, dagsetta 21. nóvember 2000, vera meðal skjala sem þinglýst sé á Vatnsendajörðina samkvæmt þinglýsingarhluta Fasteignaskrár Íslands, jafnframt sem skiptayfirlýsingin, skjal nr. 437H000310/2000, sé samkvæmt þinglýsingarvottorði, þ.e. samkvæmt fasteignabók, þinglýst sem kvöð á eignina með svofelldri lýsingu:
„Þorsteinn Hjaltested erfir réttindi Magnúsar Hjaltested: Magnúsi var með ákvörðun skiptadóms „áskilinn réttur eftir látin föður sinn að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda“ sjá Hæstaréttardóm 99/1968.“
Í þessu sambandi benda sóknaraðilarnir á að eigandi beins eignaréttar að Vatnsendajörðinni, dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, sé enn til opinberra skipta. Þá sé ágreiningur um eignarhald að jörðinni til úrlausnar fyrir dómstólum. Eigandi beins eignarréttar að Vatnsendajörðinni hafi hvergi komið nærri gerð hinnar umdeildu skiptayfirlýsingar. Yfirfærsla á réttindum tengdum jörðinni verði ekki gerð án atbeina handhafa beins eignaréttar að jörðinni. Þegar af þeirri ástæðu eigi skiptayfirlýsingin ekkert erindi í þinglýsingarbækur og þar með þinglýsingarvottorð eignarinnar.
Til stuðnings kröfum sínum vísa sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus meðal annars til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 3. gr., 25. gr. og 27. gr. laganna, svo og laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, einkum 1., 2., 3., 10. og 19. gr. laganna.
Um réttarfar í þinglýsingarmálum vísa sóknaraðilarnir meðal annars til ákvæða þinglýsingalaga, svo og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað vísa þeir meðal annars til ákvæða síðast nefndra laga, einkum 129. og 130. gr. laganna.
B
Sóknaraðilarnir Sigríður og Markús Ívar vísa til 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi skyldu til þess að veita þeim sem beri óskipt réttindi eða beri óskipta skyldu að eiga samaðild að dómsmáli. Í máli þessu séu hagsmunir allra sóknaraðila óaðskiljanlegir og neiti sóknaraðilar Sigríður og Markús Ívar því réttar síns samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 til að láta málið til sín taka.
Sóknaraðilarnir segja það álit sitt að núverandi skráning Vatnsendajarðarinnar uppfylli ekki lagakröfur. Taka þeir undir röksemdir annarra sóknaraðila hvað það varðar.
Dómkröfur sóknaraðila varði tvennt. Annars vegar að inni í veðmálabókum nú sé yfirlýsingin frá 21. nóvember 2000 sem sé skiptayfirlýsing er ætlað hafi verið að færa eignarrétt að Vatnsendajörðinni frá dánarbúi Magnúsar Hjaltested til sonar hans, varnaraðila Þorsteins. Tvennt í þessari yfirlýsingu sé rangt og ólöglegt. Magnús hafi aldrei haft á sinni hendi eignarrétt að Vatnsendajörðinni, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 701/2012. Í dómnum hafi verið staðfest að eignarrétturinn hafi verið, og sé enn, eign dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Þetta tvennt sé ósamrýmanlegt og beri sýslumanni að virða dóm Hæstaréttar Íslands að þessu leyti og afmá nefnda eignaskiptayfirlýsingu úr veðmálabókum. Einnig sé augljós afleiðing af réttleysi dánarbús Magnúsar Hjaltested að dánarbúið og erfingjar þess séu ekki þess umkomnir að ráðstafa eignarréttinum til Þorsteins Hjaltested.
Þrátt fyrir efnisannmarka framangreinds skjals og gagnsleysi skjalsins að því er varði tilgang þess sé samt glóra í því að einu leyti en í skjalinu sé heiti þeirrar eignar sem skjalinu hafi verið ætlað að flytja milli aðila sagt vera jörðin Vatnsendi.
Hins vegar lúti dómkröfur sóknaraðilanna að þeim stórfellda annmarka sem sé á skráningu eignarinnar í veðmálabókum. Hið skráða heiti sé Vatnsendi 116957, Kópavogi. Svo komi fastanúmer 206-6737 og lýsing, einbýli 01-0101, og að síðustu tilgreining samkvæmt þinglýsingabók, Vatnsendi.
Sóknaraðilarnir segja það fróðlegt, sem fram komi í fyrirliggjandi bréfi þinglýsingastjóra, að heiti eignar, land og fastanúmer, auk lýsingar eignarinnar einbýli 01-0101, en þessar upplýsingar komi fram á veðbókarvottorði, sé ekki skráð af sýslumanni og hafi hann því ekki tök á því að breyta þeirri skráningu. Hins vegar sé þess ekki getið hver það sé sem yfir þinglýsingastjóra sé hafinn þrátt fyrir lögbundið hlutverk þinglýsingarkerfisins og sýslumanna. Umræddri röksemd sé því hafnað af sóknaraðilum Sigríði og Markúsi Ívari.
Þá nefni sýslumaður einnig í bréfi sínu að eini reiturinn sem hann ráði yfir og geti skráð í sé sá þar sem nú megi lesa „Vatnsendi“ og sú tilgreining komi af síðu eignarinnar í þinglýsingabók. Sú tilgreining hafi alla tíð verið notuð. Einnig megi vísa til framlagðs tölvubréfs, dags. 11. júlí 2014, þar sem segi að Vatnsendi sé skráður í tölvukerfi þinglýsinga og því sé fasteignabók ekki lengur uppfærð. Og enn versni ástandið á heimilinu þegar skráningin í tölvukerfinu sé skoðuð nánar. Þar sé greint frá einu einbýlishúsi og fimm útihúsum. Ekki sé getið um landstærð og ekkert greint frá skerðingum síðustu ára, þ.e. eignarnámi og svokölluðum eignarnámssáttum.
Sóknaraðilar Sigríður og Markús Ívar segja skráningu á jörðinni Vatnsenda ekki aðeins vera ófullnægjandi heldur einnig ranga og einkennast af upplýsingaskorti, vanskráningu þýðingarmikilla stærða. Aðalatriðið sé samt sem áður rangar skráningar og tilgreiningar á þinglýsingarvottorði er verði að leiðrétta.
Brýnt sé að lagfæra og breyta skráningu jarðarinnar Vatnsenda til samræmis við kröfugerð sóknaraðila. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem jörðin, landið og stærð þess sé ekki að finna í þinglýsingarhluta fasteignaskrár, þ.e. kjarna þess sem sé að baki heitinu jörðin Vatnsendi.
III
A
Varnaraðili Þorsteinn kveðst mótmæla sérstaklega aðild og aðkomu Markúsar Ívars Hjaltested og Sigríðar Hjaltested að málinu en lögmaður þeirra hafi mætt til þinghalds í málinu án þess að hafa átt aðild að upphaflegri beiðni sem leiddi til þingfestingar þinglýsingarmálsins. Varnaraðilinn hafi látið bóka mótmæli við aðild nefndra sóknaraðila í þinghaldi 21. ágúst sl. Varnaraðili Þorsteinn kveðst telja að aðkoma umræddra sóknaraðila fullnægi ekki skilyrðum 3. mgr. 3. gr. l. nr. 39/1978. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum þeirra.
Varnaraðili Þorsteinn segist aðallega byggja á því að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm samkvæmt 3. gr. þinglýsingarlaga. Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. fari skiptastjóri dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested með forræði dánarbúsins og sé hann einn til þess bær að ráðstafa hagsmunum þess. Ákvæði 3. mgr. 68. gr. laganna sé undantekning frá meginreglu sem skýra beri þröngt. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfum sóknaraðila í málinu.
Á því er einnig byggt af hálfu varnaraðila Þorsteins að með frumvarpi að úthlutunargerð 15. apríl 2014 hafi skiptastjóri dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested skuldbundið dánarbúið með þeim hætti að beinum eignarrétti að Vatnenda hafi verið úthlutað til Þorsteins Hjaltested. Með frumvarpinu hafi skiptastjóri ráðstafað hagsmunum sem verið hafi á hendi dánarbúsins og varðað hafi jörðina Vatnsenda. Frumvarpi skiptastjóra að úthlutunargerð í dánarbúinu hafi ekki verið hnekkt fyrir dómi og standi það því óhaggað. Eftir að frumvarp skiptastjóra var kynnt erfingjum dánarbúsins á skiptafundi 30. apríl 2014 geti sóknaraðilar ekki á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 haldið uppi hagsmunum í þágu dánarbúsins er varði fasteignina Vatnsenda. Sóknaraðilar hafi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi úrlausn þinglýsingarstjóra. Þegar af þeirri ástæðu beri dómnum að hafna kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili Þorsteinn segir hér engu skipta þótt tveir sóknaraðila hafi krafist úrlausnar þinglýsingarstjóra áður en frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested lá fyrir. Það sem meginmáli skipti sé að frumvarp skiptastjóra um úthlutun í dánarbúinu hafi legið fyrir þegar sóknaraðilar lögðu fram beiðni úrskurð til héraðsdóms 4. júní 2014.
Af hálfu varnaraðila Þorsteins er einnig á því byggt að það sé andstætt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., um forræði skiptastjóra á málefnum dánarbús, að einstaka erfingjar sæki mál gegn dánarbúinu í dómsmáli utan ramma 122. gr. laga nr. 20/1991. Slík málsóknaraðild erfingja sé algerlega án lagastoðar og verði því að hafna kröfum sóknaraðila.
Verði ekki á framangreint fallist kveðst varnaraðilinn byggja á því að í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 701/2012 og 740/2013 hafi ekki falist fyrirmæli um að breyta heiti jarðarinnar Vatnsenda í „Jörðin Vatnsendi”. Heiti jarðarinnar sé réttilega skráð Vatnsendi í fasteignabók og standi engin rök til þess að breyta heiti jarðarinnar í „Jörðin Vatnsendi”. Heiti jarðarinnar Vatnsenda hafi verið þannig skráð í opinberum skrám og sé elsta heimildin um slíka skráningu í máldaga Viðeyjarklausturs frá árinu 1234 en þar sé heitið skráð „Vatzendi”.
Enn fremur sé á því byggt af hálfu varnaraðila Þorsteins að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á neina lögvarða hagsmuni af því að fá nafni jarðarinnar breytt. Það sé algerlega á skjön við íslenska nafnahefð og leiði til ankannalegrar niðurstöðu. Þannig myndi varnaraðili Þorsteinn, ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila, búa á jörðinni „Jörðin Vatnsendi” og leigðar yrðu út lóðir úr jörðinni „Jörðin vatnsendi”. Dómsorð Hæstaréttar í þinglýsingamálinu nr. 740/2013 hefði orðið að lagt yrði fyrir þinglýsingarstjóra að færa heiti dánarbús Sigurðar Kr. Hjaltested, sem eiganda, á blað í fasteignabók fyrir jörðina Jörðin Vatnsendi. Þetta séu tilhæfulausar kröfur með öllu og engin gild rök séu fyrir því að breyta eigi nafni fasteignarinnar Vatnsenda með þeim hætti sem krafist sé. Arflátinn Magnús Einarsson Hjaltested hafi vísað til Vatnsenda ýmist sem fasteignar, jarðar eða jarðeignar í erfðaskrá sinni, en heiti fasteignarinnar hafi þar ávallt verið tilgreint sem Vatnsendi. Í inngangi að erfðaskrá sinni segist Magnús Einarsson vera bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi.
Varnaraðili byggir á því að þinglýsingarstjóri hafi staðið formlega rétt að þinglýsingu skiptayfirlýsingar, sem gefin var út af erfingjum í dánarbúi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Skiptayfirlýsingin sé árituð og með embættisstimpli sýslumannsins í Kópavogi 7. desember 2000. Við andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi réttindi sem honum tilheyrðu fallið í umsjón sýslumannsins í Kópavogi, sbr. meginreglu 11. gr. laga nr. 20/1991. Þar á meðal hafi verið réttindi til jarðarinnar Vatnsenda sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested hafi verið úthlutað 7. maí 1968 með útlagningargerð, sem var staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968. Þinglýsingarstjóri hafi veitt skjalinu viðtöku úr hendi skiptadeildar sýslumannsembættisins 12. desember 2000 og þinglýst því á jörðina Vatnsenda.
Þessi réttindi séu ekki meðal eigna dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested og því séu þau ekki á forræði skiptastjóra dánarbúsins. Þvert á móti hafi sýslumaðurinn í Kópavogi verið með forræði á þessum hagsmunum eftir andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested og hann því einn verið bær til þess að heimila ráðstöfun umræddra hagsmuna til varnaraðila Þorsteins. Umrædd réttindi sæki varnaraðilinn ekki til Magnúsar föður síns heldur til arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár hans, sem þinglýst sé á jörðina Vatnsenda sem ævarandi kvöð á eigninni.
Varnaraðili Þorsteinn bendir á að Sigurður Kr. Lárusson Hjaltested hafi verið fyrsti erfingi samkvæmt erfðaskránni og hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested verið næstur á eftir honum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 110/1967. Varnaraðili Þorsteinn sé elsti sonur Magnúsar og því réttur erfingi að þeim réttindum sem umrædd þinglýst erfðaskrá ráðstafi til arfs. Þorsteinn sæki ekki rétt sinn til föður síns heldur arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested.
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 701/2013 hafi kveðið upp úr um það að beinn eignarréttur, bundinn kvöðum samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, sé enn á hendi dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Það sé hann á grundvelli upprunalegrar eignarheimildar Sigurðar, þ.e. erfðaskrá Magnúsar. Dómur Hæstaréttar í máli 701/2013 sé ekki sjálfstæð eignarheimild dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, heldur dómur um framvindu skipta. Í ljós sé leitt að umráð og afnot Vatnsenda, samkvæmt þeim réttindum sem erfingjanum Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested hafi verið úthlutað 7. maí 1968, teljist óbein eignaréttindi. Í því ljósi beri að skilja dóm Hæstaréttar í máli nr. 740/2013. Af þeim sökum sé á því byggt af hálfu varnaraðila Þorsteins að þinglýsingarstjóri hafi brugðist rétt við með því að færa db. Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda jarðarinnar á grundvelli þinglýstrar erfðaskrár. Þá hafi þinglýsingarstjóri átt að gæta að því að ekki orkaði tvímælis að réttindi á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli 99/1969, uppkveðnum 30. maí 1969, væru óbein eignaréttindi. Telji varnaraðilinn að þinglýsingarstjóri hafi einnig farið að þeim fyrirmælum Hæstaréttar.
Samkvæmt framansögðu beri dómnum að hafna kröfum sóknaraðila um aflýsingu skiptayfirlýsingarinnar frá 29. nóvember 2000, sem stimpluð hafi verið og árituð af sýslumanninum í Kópavogi 7. desember 2000, móttekin til þinglýsingar frá skiptadeild 12. sama mánaðar og innfærð í þinglýsingarbækur tveimur dögum síðar.
Þá geti sú málsástæða sóknaraðila, að skiptayfirlýsingunni beri að aflýsa þar sem hún sé ekki gefin út af skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, ekki leitt til þess að aflýsa beri skjalinu. Umrædd réttindi séu ekki eign í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Sá beini eignaréttur sem dánarbúið teljist enn hafa á hendi sé án umráða- og afnotaréttar, án réttar til arðs af Vatnsenda og án réttar til að taka við bótum fyrir skerðingum á eigninni. Með öðrum orðum, án allra þeirra helstu efnislegu réttinda sem erfingja samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested séu áskilin.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili Þorsteinn til 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 38/1979, til 11. gr., 1. mgr. 67. gr., 3. og 4. mgr. 68. gr., 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Þá vísar varnaraðili til ákvæða 130. gr., sbr. a-lið 131 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
B
Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested telur að krafa sóknaraðila, sem tilgreind er í staflið a) hér að framan, þess efnis að fasteignin Vatnsendi 116957, Kópavogi, fastanúmer 206-6737, verði tilgreind í fasteignabók sýslumannsins í Kópavogi sem „Jörðin Vatnsendi“, hljóti að vera á misskilningi byggð. Í því sambandi vísi dánarbúið einkum til forsendna og dómsorðs Hæstaréttar í máli nr. 740/2013, en í dómsorði sé lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að færa heiti dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blaði í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi. Dómsorðið sé skýrt og ekki vafa undirorpið að dánarbúið skuli vera skráð eigandi að umræddri fasteign. Dómur Hæstaréttar lúti eingöngu að eigandaskráningu eignarinnar en fjalli ekkert um heiti hennar eða hvernig það sé sett fram í þinglýsingabók.
Fasteign sú sem um ræði heiti Vatnsendi, en fasteignin sé jörð. Hún heiti ekki „Jörðin Vatnsendi“ og því væri það beinlínis rangt að tilgreina hana þannig í fasteignabók. Eignin hafi landnúmer og fasteignanúmer og því sé það skýrt og afmarkað hvaða land og hvaða mannvirki tilheyri eigninni. Ekki verði séð að nokkur þörf sé á að breyta þeirri skráningu.
Sýslumaðurinn í Kópavogi hafi brugðist við í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar og breytt skráningu eiganda fasteignarinnar þannig að dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sé skráð eigandi eignarinnar, eins og sjá megi á framlögðu veðbókarvottorði. Vottorðið beri enn fremur með sér að dánarbúið sé undir opinberum skiptum og á forræði skiptastjóra.
Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested tekur ekki efnislega afstöðu til þeirrar kröfu sóknaraðila sem tilgreind er í kröfulið b) hér að framan. Lítur varnaraðilinn svo á að hann eigi ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins hvað það atriði varði. Í því sambandi er af hálfu dánarbúsins til þess vísað að með úrskurði skiptaréttar 24. júlí 1967 hafi Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested verið fengin umráð og afnot jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Sá úrskurður hafi verið staðfestur af Hæstarétti. Umráða- og afnotaréttinum hafi fylgt allur réttur til að heimta lóðaleigu, veiðileyfagjöld og aðrar tekjur af jörðinni. Þessum óbeinu eignaréttindum hafi því með endanlegum hætti verið ráðstafað úr dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested og séu þau því ekki á hendi dánarbúsins nú. Það varði því hagsmuni þess engu hvernig þessum réttindum hafi verið eða verði ráðstafað eftir daga Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested.
Af hálfu varnaraðila dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested er enn fremur til þess vísað að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í málinu nr. 701/2012 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri enn á hendi dánarbúsins. Rétturinn hafi því lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að breyta eigendaskráningu eignarinnar í fasteignabók, með þeim hætti sem áður var rakið. Skiptayfirlýsingin sem kröfuliður b) lúti að stafi frá erfingjum í dánarbúi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Hún geti því eingöngu varðað ráðstöfun á óbeinum eignarréttindum að jörðinni og geti ekki haft áhrif á ráðstöfun beinna eignarréttinda að henni. Frá sjónarhóli varnaraðila dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested skipti því engu máli hvort yfirlýsingin fái að vera áfram skráð í fasteignabók, eða hvort henni verði aflýst.
Hvað varðar kröfur sóknaraðila um málskostnað úr hendi dánarbúsins er af hálfu búsins tekið fram að ekki verði talin brýn þörf á því að dánarbúið eigi aðild að málinu. Verði reyndar að líta svo á að sóknaraðilar telji sig vera að sækja hagsmuni dánarbúsins í málinu. Málskostnaðarkrafa þeirra á hendur dánarbúinu sé því mjög óeðlileg og henni beri að hafna.
Af hálfu dánarbúsins sé gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi sóknaraðila. Krafan styðjist við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 38/1978 má bera úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Úrlausnin skal borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
Af tilvitnuðum orðum 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga verður ráðið að umræddur fjögurra vikna frestur til að bera úrlausn um þinglýsingu undir héraðsdómara miðast við það tímamark sem þinglýsingarbeiðanda eða umboðsmanni hans varð kunnugt um úrlausn þinglýsingarstjóra. Skiptir í því sambandi engu hvort það er þinglýsingarbeiðandi sjálfur eða þriðji maður sem bera vill úrlausnina undir héraðsdómara. Kemur þessi skilningur á ákvæðinu einnig skýrlega fram í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 6/1992 um breyting á þinglýsingalögum og hefur hann verið staðfestur í dómaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 74/2010, sem kveðinn var upp 11. mars 2010.
Fyrir liggur að þinglýsingarbeiðendur, þ.e. sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus, báru hina umdeildu úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara innan þess frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 3. gr. laganna. Nefndur frestur var hins vegar löngu liðinn þegar sóknaraðilar Sigríður og Markús Ívar sóttu þing í máli þessu og freistuðu þess þannig, í bága við fyrirmæli 4. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, að bera fyrrnefnda úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara fyrir sitt leyti. Þegar að þessu gættu þykir dómurinn ekki eiga þess annan kost en vísa kröfum sóknaraðila Sigríðar og Markúsar Ívars frá dómi ex officio.
Í dómsorði Hæstaréttar Íslands í dómi réttarins í máli nr. 740/2013 var lagt fyrir sýslumanninn í Kópavogi að færa heiti dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blað í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi. Verður ekki annað séð að dómur Hæstaréttar lúti eingöngu að því hvern skrá beri eiganda fasteignarinnar í þinglýsingabók en hann fjalli ekki um heiti eignarinnar eða hvernig það sé sett fram í þinglýsingabók.
Af gögnum málsins má ráða að fasteign sú sem um ræðir í máli þessu ber heitið Vatnsendi og hefur eignin borið það nafn um langa hríð. Þá er óumdeilt að fasteignin er jörð. Fasteigna- og landnúmer fasteignarinnar eru skráð í þinglýsingabók. Verður að telja að skýrt sé og afmarkað samkvæmt þinglýsingabók hvaða land og hvaða mannvirki tilheyra fasteigninni. Að því gættu og að virtum framlögðum gögnum fær dómurinn ekki annað séð en breyting þinglýsingarstjóra á skráningu Vatnsendajarðarinnar hafi verið í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 740/2013. Með vísan til þeirrar niðurstöðu og annars þess sem að framan er rakið verður ekki séð að nokkur efni séu til þess að dómurinn kveði á um breytingu á tilgreiningu eignarinnar í þinglýsingabók. Þá kemur skýrlega fram í þinglýsingarvottorði eignarinnar að þinglýst eignarheimild dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested sé erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, er þinglýst var 9. janúar 1941. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 701/2012 er ekki eignarheimild dánarbúsins og því engin efni til þess að vísa til dómsins í þinglýsingarbók varðandi eignarheimild dánarbúsins. Samkvæmt öllu þessu verður hafnað kröfum sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar samkvæmt staflið a) í dómkröfum þeirra, svo sem þær eru reifaðar hér að framan.
Sóknaraðilar Sigurður Kristján og Karl Lárus eru þinglýsingabeiðendur í máli þessu í skilningi 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá eru þeir jafnframt meðal erfingja í dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested. Þegar að þessu gættu var þeim rétt að bera úrlausn þinglýsingarstjóra við embætti sýslumannsins í Kópavogi frá 9. maí 2014 undir héraðsdómara á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis þinglýsingalaga. Ákvæði 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. getur engu breytt í því sambandi.
Þá liggur fyrir að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested er ekki lokið. Þó svo skiptastjóri hafi með frumvarpi úthlutað beinum eignarrétti að Vatnsenda til varnaraðila Þorsteins verður ekki framhjá því litið að afdrif frumvarpsins fyrir dómstólum liggja enn ekki fyrir, en úrskurður héraðsdóms hvað frumvarpið varðar sætir nú kæru til Hæstaréttar. Að þessu gættu þykir 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 ekki standa í vegi málsskoti sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar á grundvelli 3. gr. þinglýsingalaga.
Hin umdeilda skiptayfirlýsing frá 21. nóvember 2000 stafar frá varnaraðila Þorsteini, ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, og öðrum erfingjum Magnúsar, þeim Vilborgu Hjaltested, Marteini Hjaltested og Sigurði Kristjáni Hjaltested. Óumdeilt er að varnaraðili Þorsteinn er handhafi víðtækra óbeinna eignarréttinda að jörðinni Vatnsenda. Þann eignarrétt leiðir hann af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 en ekki hinni umdeildu skiptayfirlýsingu. Að mati dómsins verður skiptayfirlýsingin ekki skilin öðruvísi en svo en skjalinu hafi verið ætlað að koma því til leiðar að varnaraðili Þorsteinn yrði skráður þinglýstur eigandi Vatnsenda í þinglýsingabók. Samkvæmt því sem áður var rakið er dánarbú Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested hins vegar skráður eigandi Vatnsenda í þinglýsingabók, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 740/2013. Þegar að þessu gættu þykir verða að fallast á kröfu sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar um afmáningu skiptayfirlýsingarinnar úr þinglýsingabók, sbr. 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðilum Sigríði og Markúsi Ívari gert að greiða varnaraðilum málskostnað með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir og sem þar þykir hæfilega ákveðinn. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli varnaraðila og sóknaraðila Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila Sigríðar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested er vísað frá dómi ex officio. Nefndir sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum, Þorsteini Hjaltested og dánarbúi Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, hvorum fyrir sig, 100.000 krónur í málskostnað.
Kröfum sóknaraðila Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested samkvæmt staflið a) í kröfugerð þeirra er hafnað.
Lagt er fyrir sýslumanninn í Kópavogi að afmá úr þinglýsingabók fasteignarinnar Vatnsenda, landnúmer 116957, fasteignanúmer 206-6737, skiptayfirlýsingu, útgefna af varnaraðila Þorsteini Hjaltested 21. nóvember 2000, með þinglýsinganúmerið H-310/00.
Málskostnaður fellur niður milli sóknaraðila Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárussonar Hjaltested annars vegar og varnaraðila, Þorsteins Hjaltested og dánarbús Sigurðar Kr. Lárussonar Hjaltested, hins vegar.