Hæstiréttur íslands
Mál nr. 857/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Þriðjudaginn 29. desember 2015. |
|
Nr. 857/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2015 þar sem varnaraðila var gert að afplána 150 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 6. september 2012 og 23. júní 2015, sem honum var veitt reynslulausn frá 17. ágúst 2015. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, er fram kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi, eftir að honum var veitt reynslulausn, gerst sekur um háttsemi sem varðað getur sex ára fangelsi. Hefur varnaraðili þannig gróflega rofið almennt skilyrði reynslulausnarinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal afplána 150 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum héraðsdóms 6. september 2012 og 23. júní 2015.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 150 daga eftirstöðvar reynslulausna dóma héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. september 2012 og 23. júní 2015, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 17. ágúst 2015.
Í greinargerð kemur fram að þann 22. desember sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að versluninni [...] í [...], Reykjavík, vegna manns, X, sem stolið hafi þar fatnaði og hlaupið gegnum kaffihúsið [...] á flóttanum með fenginn. Maðurinn hafi síðan verið króaður af í sundinu við hliðina á [...] við [...]. Starfsmenn hafi hlaupið hann uppi en hann hefði farið út úr verslun [...] í gegnum neyðarútgang sem liggi úr versluninni og inn milligang/bakherbergi veitingastaðarins. Þaðan hefði hann farið inn í matsal staðarins með fangið fullt af útivistarfatnaði. Þýfið hafi reynst ýmis konar útivistarfatnaður að heildarverðmæti 340.920 kr. X hafi verið handtekinn. Í frumskýrslu lögreglu komi fram að X hafi borið sig aumlega og sagt að hann hafi verið rændur aleigunni í upphafi mánaðar. Hann ætti ekki krónu og hafi m.a. sagt að hann hefði þurft að verða sér út um einhverjar jólagjafir fyrir börnin sín. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi X játað sök. Hann kvaðst hafa farið inn í þessa búð til þess að skoða og máta buxur. Hann hafi ekki farið inn í búðina í þeim tilgangi að stela. Hann kvaðst ekki geta útskýrt þetta en allt í einu hafi hann verið kominn með einhvern fatanað og ákveðið að labba út.
Auk þessa máls megi sjá önnur mál í dagbók lögreglu þar sem X kemur við sögu:
Mál 007-2015-[...]. Nytjastuldur þjófnaður.
Þann 19. desember sl. hafi verið tilkynnt um að búið væri að stela bifreiðinni [...] þar sem hún hafi staðið við [...] og hafi lykillinn verið í bifreiðinni. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst X hafa verið á röltinu og ætlað að fara í apótek. Hann hafi séð að bifreiðin var ólæst og séð klink í mælaborðinu. Hann hafi opnað dyrnar og séð lyklana í svissinum á bifreiðinni og ákveðið að keyra bifreiðina að apótekinu við [...]. Auk þessa hafi hann tekið eitthvað klink, skrúfjárn og hamar úr bílnum. X sagði að það mætti segja að þetta væri eigandanum að kenna því hann hafi skilið lykilinn eftir í bílnum sem hafi verið ólæstur.
Mál 007-2015-[...] og 007-2015-[...]. Fíkniefnaakstur, ölvunarakstur og nytjastuldur.
Þann 14. desember sl. hafi lögreglumenn stöðvað X þar sem hann hafi ekið bifreiðinni [...] austur Hverfisgötu að Frakkastíg. X kvaðst vera sviptur ökuréttindum og hafa neytt fíkniefna undanfarna daga. Við athugun hafi komið í ljós að bifreiðinni hefði verið stolið. X hafi viðurkennt í skýrslutöku að hafa stolið bifreiðinni nokkrum dögum áður.
Mál 007-2015-[...]. Húsbrot.
Þann 3. desember sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að fólk væri búið að brjótast inn í kjallaraíbúð að [...] og að X væri að ganga í burtu af vettvangi. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi X sagt að hann hefði hitt [...] á læknavaktinni í Kópavogi. Hann sagðist hafa fengið íbúð til leigu út mánuðinn og X gæti fengið að gista hjá þeim. Þegar þau hafi komið að íbúðinni þá hafi X sagt að það gæti ekki verið að [...] hefði leyft þeim að fá íbúðina en [...] sagt að þau mættu vera þarna. X kvaðst hafa farið inn í íbúðina og sofnað. Síðan hafi [...] komið og spurt hvað væri í gangi og sagt að þau mættu ekki vera þarna. Þá hafi X labbað út úr íbúðinni og verið handtekinn fyrir utan.
Mál 007-2015-[...]. Líkamsárás.
Þann 11. nóvember sl. hafi borist tilkynning til lögreglu að maður hefði komið að húsi við [...] og beðið vegfaranda um að hringja í lögreglu. Tilkynnandi kvaðst gruna þá [...] og X um að hafa veist að sér inni á heimili hans. Þeir hafi báðir verið með grímur og annar verið með jólasveinahúfu. Þeir hafi einnig verið með hníf í hendi og hann upplifað sig í lífshættu. Þá hafi tilkynnandi fengið nokkur högg í andlitið. X hafi neitað þessu í skýrslutöku hjá lögreglu.
Mál 007-2015-[...]. Varsla fíkniefna.
Þann 4. október sl. hafði lögreglu afskipti af X þar sem hann var á Dalvegi. Við leit á honum hafi fundist ætlað amfetamín sem verið hafi í vasa hans. Hann kvaðst eiga efnið og þetta væru 14 grömm af blönduðu amfetamíni.
Mál 007-2015-[...]. Varsla fíkniefna.
Þann 22. september hafi lögregla haft afskipti af X þar sem hann var við Lágmúla. Við leit í bakpoka X hafi fundist meint kannabis ásamt hníf. Hann kvaðst eiga efnið og þetta væri tæplega gramm af grasi.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggur kærði nú undir sterkum grun um að hafa með skipulögðum hætti farið inn í verslun [...] við [...] í Reykjavík og stolið þaðan fatnaði en brot þetta varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess að hafa í öðrum málum gerst brotlegur með nytjastuldi og vörslu fíkniefna. Framangreint þjófnaðarbrot geti varðað allt að 6 ára fangelsi.
Sé það mat lögreglu að með þessu sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um að hann hafi á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar.
Niðurstaða
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi. Hann hefur því brotið gróflega gegn skilyrðum reynslulausnarinnar. Það er því fallist á með lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
Er krafan því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal afplána 150 daga eftirstöðvar reynslulausna dóma héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. september 2012 og 23. júní 2015, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 17. ágúst 2015.