Hæstiréttur íslands
Mál nr. 620/2017
Lykilorð
- Kjarasamningur
- Vátrygging
- Skaðabætur
- Starfsréttindi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 436.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. október 2016 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Hér fyrir dómi greinir málsaðila eingöngu á um það hvort áfrýjandi eigi rétt til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda sem nemi ígildi vátryggingarfjárhæðar vegna missis flugmannsskírteinis á grundvelli kjarasamnings 29. október 2014 milli stefnda og Íslenska flugmannafélagsins.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að túlka beri ákvæðið í viðauka kjarasamningsins um skírteinistryggingu á þann hátt að skilyrði fyrir þeirri tryggingu hafi verið að þeir flugmenn, sem samningurinn tók til, hefðu „öðlast full starfsréttindi“ hjá stefnda sem hafi falið í sér að þeir hefðu lokið svonefndu leiðarflugsprófi á hans vegum að undangenginni fullnægjandi þjálfun. Óumdeilt er að áfrýjandi hafði ekki lokið því prófi þegar hún lauk störfum hjá stefnda. Leggja verður til grundvallar að yfirlýsing flugrekstrarstjóra stefnda á fundi 12. ágúst 2015 um að allir flugmenn hans væru vátryggðir gegn skírteinismissi hafi verið reist á þeirri forsendu að þeir fullnægðu því skilyrði kjarasamningsins, sem að framan greinir, eins og færð eru rök fyrir í forsendum héraðsdóms.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda hér fyrir dómi.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Stefndi, B ehf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, A.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2017.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 18. maí 2017, er höfðað af A, kt. [...], [...], Reykjavík, með stefnu birtri 5. október 2016, á hendur B ehf., kt. [...], [...], Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða henni 7.810.210 kr. með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 614.416 kr. frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 1.228.832 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2016, af 1.843.248 kr. frá þeim degi 1. maí 2016, af 2.457.664 kr. frá þeim degi til 1. júní 2016, af 3.072.080 frá þeim degi til 1. júlí 2016, af 3.686.496 kr. frá þeim degi til 1. ágúst 2016, af 4.300.912 kr. frá þeim degi til 1. september 2016, af 4.915.328 kr. frá þeim degi til 1. október 2016, af 5.529.744 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 6.144.160 kr. frá þeim degi til 1. desember 2016, en af 7.810.210 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt krefst hún þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 436.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 2.840.077 kr. með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 614.416 kr. frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 1.228.832 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2016, af 1.843.248 kr. frá þeim degi til 1. maí 2016, en af 2.840.077 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 436.000 bandaríkjadali með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Loks er þess krafist, hver sem úrslit málsins verða, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.
Að auki krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málsatvik
Þetta mál varðar það hvaða réttarstöðu stefnandi naut þegar stefndi óskaði ekki lengur eftir vinnuframlagi hennar, þar á meðal hvort stefnandi hafi átt rétt til launa í veikindaleyfi svo og tryggingar gegn missi atvinnuflugmannsskírteinis. Stefndi ber því meðal annars við að stefnandi hafi leynt félagið veikindum sínum og það hafi áhrif á rétt hennar á hendur því. Vegna þessarar málsástæðu stefnda þykir þurfa að rekja með málsatvikum það sem komið er fram um heilsufar stefnanda.
Stefnandi fékk atvinnuflugmannsskírteini CPL/A [...]. Hún hafði listflugsréttindi, blindflugsréttindi og réttindi á fjölhreyflaflugvélar. Hún fékk einnig gefið út fyrsta flokks heilbrigðisvottorð 24. nóvember 2014.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi. Hún bar að áður en hún réð sig til B hefði einu sinni liðið yfir hana. Á þeim tíma starfaði hún sem [...]. Hún hafi komið heim eftir þriðju næturvaktina og lagt sig. Hún hafi vaknað við að hún þurfti að fara á salernið og risið upp. Þá hafi henni sortnað fyrir augum og hún muni næst eftir sér þegar hún vaknaði á gólfinu. Einnig kom fram að í yfirliðinu hafi hún misst þvag.
Stefnandi var ráðin til starfa hjá stefnda frá 1. mars 2015. Í ráðningarsamningnum, sem málsaðilar rituðu undir 4. mars 2015, segir meðal annars að stefnandi sé ráðin í 100% starf flugmanns sem byrjandi, skv. grein 2.1 og 2.2 í kjarasamningi svo og að upphafsdagur þjálfunar sé 2. mars 2015. Ráðningin sé tímabundin til 31. ágúst 2015. Áréttað er að laun og önnur atriði en þau sem getið sé um í ráðningarsamningnum ráðist af kjarasamningi stefnda við Íslenska flugmannafélagið (ÍFF) sem var undirritaður 29. október 2014. Þessi kjarasamningur mun vera sá fyrsti sem aðilar hans gera með sér.
Þjálfun stefnanda hófst eins og getið var um í ráðningarsamningi og 8. mars 2015 hélt stefnandi til [...], ásamt fleiri flugmönnum stefnda, í þjálfun á Airbus-þotur, með tegundarnúmerin 318-321. Stefnandi kom úr þjálfuninni 11. apríl 2015, og hafði staðist allar prófraunir, meðal annars í flughermi, á tilsettum tíma. Þá var stefnandi tilbúin til þess að fara í flug sem flugmaður Airbus 318-321 þotu með aukaflugmanni, sem er undanfari svokallaðs leiðarflugsprófs (e. line check).
Samgöngustofa gaf stefnanda út flugliðaskírteini (Flight Crew Licence) 21. maí 2015. Í skírteinið er til viðbótar við fyrri réttindi ritað að hún hafi réttindi á flugvélar af tegundinni A320. Sú áritun var forsenda þess að stefnandi kæmist í þjálfun á flugvélar stefnda.
C flugstjóri bar fyrir dómi að það hefði verið flöskuháls í þjálfuninni hjá stefnda. Reynslumeiri flugmenn hefðu verið látnir ganga fyrir. Jafnframt hafi mjög skort flugstjóra og flugmenn „á línuna“ og því hafi gengið fyrir að koma þeim reynslumeiri í gegnum þjálfunina. D flugrekstrarstjóri bar einnig fyrir dómi að félagið hefði, á þessum tíma, vantað fleiri þjálfunarflugstjóra og því hafi leiðarflugstíminn verið lengri en hann ætti að vera við bestu aðstæður.
Tæpum tveimur mánuðum eftir að þjálfun í [...] lauk, en aðeins tæpum tveimur vikum eftir að stefnandi fékk A320-áritunina í skírteini sitt, fór hún í sitt fyrsta flug með aukaflugmanni, 2. júní 2015. Flugstjóri í umrætt sinn taldi rétt að stefnandi tæki fleiri flug með aukaflugmanni og fór stefnandi í alls 12 flug, samtals 104,8 flugtíma, með aukaflugmanni eða allt þar til 11. ágúst 2015 þegar henni var veitt heimild til þess að hefja leiðarflugsþjálfun. Á því tímabili, sem flug með aukaflugmanni stóð, leið stundum langur tími á milli fluga hjá stefnanda af sömu ástæðu og áður getur, þ.e. skorts á mannafla hjá stefnda.
Á grunni kjarasamnings stefnda og ÍFF starfar samstarfsnefnd skipuð fulltrúum beggja aðila. Hún hefur meðal annars það hlutverk að fjalla um og skera úr ágreiningi og deilumálum sem kunna að rísa út af kjarasamningnum. Samstarfsnefnd stefnda kom saman til fundar 12. ágúst 2015. Af hálfu ÍFF sátu fundinn flugstjórarnir C og E, en af hálfu stefnda D flugrekstrarstjóri. C ritaði fundargerð á fundinum, sem flugrekstrarstjóri stefnda staðfesti síðar. Nokkur atriði voru tekin til umfjöllunar á fundinum, einnig eftirfarandi atriði sem snerta þetta mál, en orðrétt segi meðal annars í fundargerðinni:
2. Varðandi störf þennan vetur:
D hefur staðfest að sérhver flugmaður sem nú vinnur fyrir B þar með taldir þeir sem eru ráðnir á sumarsamningi muni halda vinnu sinni yfir vetrartímann.
…
5. Nefndin bað B um að skýra smáatriðin í tryggingu okkar til að vita hvenær við erum tryggð og hvenær við erum ekki tryggð.
D mun afhenda ÍFF afrit af vátryggingarskilmálunum sem taka til allra hugsanlegra smáatriða varðandi tryggingu okkar. Við munum dreifa þessu til allra félagsmanna.
Allir flugmenn (þar með taldir sumarstarfsmenn) eru tryggðir samkvæmt vátryggingunni gegn skírteinismissi (USD 463.000), þeir eru líftryggðir (USD 350.000) og slysatryggðir (USD 252.000). Smáatriðin munu verða í vátryggingarskilmálunum sem sendir verða síðar.
…
Næsti fundur og málefni sem ræða skal.
Næsti fundur er enn ekki tímasettur; við erum núna að bíða eftir afriti vátryggingartryggingaskilmálanna ... Öllum öðrum spurningum hefur verið svarað.
Fundargerðin, sem var rituð á ensku, var sama dag og fundurinn var haldinn send flugrekstrarstjóra til staðfestingar. Hann staðfesti 22. september að efni hennar væri rétt (All ok). Hún var síðan kynnt öllum flugmönnum stefnda sem eru í stéttarfélaginu Íslenska flugmannafélagið, þar með talið stefnanda, þegar hún var birt á facebook-síðu flugmannanna.
Á flugrekstrarsviði stefnda starfar flugnefnd (Grand Flight Committee, GFC) sem er æðsta stjórnvald stefnda á því sviði. Í henni sitja flugrekstrarstjóri, yfirmaður þjálfunar flugmanna, yfirflugstjóri og yfirmaður flugöryggisdeildar.
Stefnandi flaug til Amsterdam 19. ágúst 2015 með F þjálfunarflugstjóra. Að heimflugi loknu sendi hann flugnefndinni ítarlegan tölvupóst 19. ágúst 2015. Þar greindi hann frá því að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með frammistöðu stefnanda í fluginu. Hann hafi þurft að endurtaka atriði sem þau hafi margoft rætt í fyrri ferðum. Í lokin kveðst hann hafa reynt að bæta sjálfstraust hennar en telur hana hugsanlega stríða við önnur vandanál sem krefjist skoðunar.
Við aðalmeðferð kom fram að stefnanda var ekki greint frá þessu erindi F til flugnefndarinnar fyrr en gögn voru lögð fram í þessu dómsmáli.
Þegar þarna var komið hafði stefndi flogið til 15 áfangastaða, það er 30 flugleggi og tæplega 125 fartíma og ein og hálf vika var eftir af ráðningartíma hennar. Stefnandi hélt áfram störfum sem flugmaður hjá stefnda í leiðarflugsþjálfun til 14. október 2015. Þá var henni tilkynnt að leiðarflugsþjálfun væri lokið og að henni væri veitt heimild til þess að taka leiðarflugspróf. Við lok leiðarþjálfunar hafði stefnandi lagt að baki 66 flugleggi og 264,8 flugstundir. Samkvæmt þjálfunarmöppu stefnanda fékk hún á þessu tímabili, frá 19. ágúst til 14. október, oftar en ekki hvetjandi og jákvæðar umsagir (Good progress, good job) frá þeim flugstjórum sem hún flaug með þótt henni væri, nánast alltaf, jafnframt bent á atriði sem hún þyrfti að bæta.
Frá og með 15. október 2015 fékk stefnandi greidd full laun sem flugmaður, í stað hlutfallslauna áður. Samkvæmt vaktskrá var leiðarpróf ákveðið 6. nóvember 2015.
Heilbrigðisvottorð stefnanda gilti til 24. nóvember 2015. Skjala- og dreifingarstjóri stefnda sendi henni tölvupóst 23. október 2015, eins og mun tíðkast, og minnti hana á að komið væri að árlegri endurnýjun 1. flokks heilbrigðisvottorðs (e. medical), að stefnandi yrði að bóka tíma hjá fluglækni og senda stefnda nýtt heilbrigðisvottorð um leið og hún fengi það.
Samkvæmt grein 6.1 í kjarasamningnum skal gefa áhafnarskrá út til eins mánaðar í senn, eigi síðar en 25. dag mánaðarins á undan. Í samræmi við þetta var stefnanda send, 24. október 2015, vaktskrá, skrá yfir þau flug sem henni hafði verið raðað á til loka nóvember, alls átta áfangastaðir eða 16 flugleggir.
Stefnandi tekur fram að samkvæmt flugáætlun hafi hún átt að fljúga til Gatwick-flugvallar, í nágrenni London, 25. október 2015. Þeirri áætlun var hins vegar breytt fyrirvaralaust og stefnanda falið að fljúga til Berlínar. Þegar stefnandi var að koma til lendingar í Berlín hafi henni ekki líkað aðflugið nógu vel. Til að gæta fyllsta öryggis hafi hún ákveðið að hætta við lendingu og koma aftur inn til lendingar (fara í „go-around“). Ástæðan hafi verið sú að aðflugið í Berlín var í erfiðara lagi í þetta sinn, eins og oft er vegna umferðar á nálægum flugvelli, því lækka þurfti flugið skarpt á lokastefnu til þess að koma vélinni inn til lendingar. Í stað þess að taka áhættu með því að lækka of hratt, hafi stefnandi metið stöðuna þannig að öruggast væri að hætta við lendingu (að taka „go-around“).
Fyrir dómi bar stefnandi að á leiðinni til Berlínar hefði henni sortnað fyrir augum og hún hætt að heyra í örskamma stund en það hafi mjög fljótt bráð af henni. Þetta hafi gerst nokkru áður en að þau nálguðust flugvöll sem farið er fram hjá áður en komið er að flugvellinum Berlín-Schönefeld og því allnokkru áður en lækka þurfti flugið fyrir lendingu.
F flaug með stefnanda til Berlínar. Örfáum dögum síðar, 28. október, sendi hann flugnefndinni tölvupóst og lagði til að stefnandi færi að svo stöddu ekki í leiðarflugspróf því hún þyrfti að ná frekari færni í stöðluðum verklagsreglum (Standard of Procedure, SOP).
D, flugrekstrarstjóri stefnda, ræddi við stefnanda í síma 28. október og óskaði eftir að hún kæmi til fundar. Ekki varð af þeim fundi þann dag þar eð stefnandi var heima með veikt barn.
Þar
eð stefnandi þurfti að endurnýja heilbrigðisvottorð sitt hafði hún samband við
Fluglæknasetrið 29. október 2015 til þess að panta tíma hjá fluglækni. Henni
var þá boðinn tími mánudaginn 2. nóvember, kl. 15.40, sem hún afþakkaði því hún
átti samkvæmt vaktskrá að vera í flugi frá kl. 14.30 þann dag. Hún óskaði
eftir að komast strax föstudaginn 30. október en þann dag var ekki sinnt
skoðunum. Þá óskaði hún eftir að komast í skoðun fyrir hádegi mánudaginn 2.
nóvember en þann dag var skoðunum ekki sinnt fyrir hádegi.
Sama dag, 29. október, ritaði D stefnanda tölvupóst og bað hana að koma til fundar við hann og yfirflugstjóra 2. nóvember 2015, kl. 15.15 Hann tilkynnti henni jafnframt að hún hefði verið leyst undan starfsskyldum í flugi sem hún var skráð á þann dag.
Stefnandi fundaði með flugrekstrarstjóra stefnda einum 2. nóvember, þar eð yfirflugstjóri stefnda forfallaðist. Á fundinum var henni greint frá því að félagið vildi ræða betur þjálfunarmál hennar og það yrði gert að viðstöddum yfirflugstjóra 4. nóvember 2015.
Stefnandi komst í skoðun hjá fluglækni 3. nóvember 2015 til reglubundinnar endurnýjunar fyrsta flokks heilbrigðisvottorðs. Skoðun leiddi í ljós að stefnandi hafði of lágan blóðþrýsting. Sama dag sendi Fluglæknasetrið yfirflugstjóra stefnda tilkynningu með þeim upplýsingum að heilsufarsvandamál hefði komið upp við læknisskoðun stefnanda hjá fluglækni sem þarfnaðist frekari skoðunar áður en unnt yrði að gefa út heilbrigðisvottorð.
Áður boðaður fundur var haldinn 4. nóvember 2015 í húsakynnum stefnda að viðstöddum stefnanda, flugrekstrarstjóra stefnda og yfirflugstjóra stefnda. Þjálfunar- og heilbrigðismál stefnanda voru rædd á fundinum. Stefnanda var tilkynnt að ekki yrði af leiðarflugsprófinu 6. nóvember 2015. Yfirflugstjóri stefnda lagði til að stefnandi flygi fimm flug til viðbótar. Gengi það vel yrði sett upp ný dagsetning fyrir leiðarflugspróf. Stefnandi yrði hins vegar að einbeita sér að því að ná fullri heilsu að nýju áður en til þessa kæmi.
Stefnandi fór til heimilislæknis síns 4. nóvember. Hann sendi hana á næstu vikum til ýmissa sérfræðilækna og hún gekkst undir fjölmargar rannsóknir til þess að komast mætti að því hvað ylli lágum blóðþrýstingi hennar.
Að sögn stefnanda fékk það mikið á hana að hafa ekki fengið endurnýjað heilbrigðisvottorð svo og þær afleiðingar sem það hafði fyrir hana í starfi en eins og áður segir hafði leiðarflugsprófið verið ákveðið 6. nóvember. Henni hafi liðið svo illa að hún hafi viljað fá álit sérfræðings á ástandi sínu. Af þeim sökum hafi hún leitað til geðlæknis 16. nóvember 2015.
Stefnandi fékk símtal frá G, mannauðsstjóra stefnda, 16. nóvember 2015 og var boðuð á fund 18. nóvember 2015. Stefnandi taldi ráðlegast að hafa fulltrúa stéttarfélags síns með á fundinn, því hún taldi að heilbrigðismál hennar yrðu þar til umræðu. Til fundarins kom með stefnanda H hrl. og framkvæmdastjóri ÍFF, en af hálfu stefnda voru mannauðsstjóri, flugrekstrarstjóri og yfirlögfræðingur. Á fundinum var stefnanda tilkynnt að henni væri sagt upp störfum og að hún fengi greidd laun út desembermánuð 2015, samhliða því sem henni var afhent bréf, dagsett sama dag, undirritað af mannauðsstjóra stefnda með yfirskriftinni tilkynning um lok ráðningar.
Íslenska flugmannafélagið mótmælti uppsögn stefnanda með bréfi til stefnda, dags. 20. nóvember 2015. Í bréfinu eru ýmis réttindi stefnanda tíunduð, meðal annars réttur til veikindalauna í allt að 13 mánuði og þriggja mánaða uppsagnarfrests, og skorað á stefnda að draga uppsögnina til baka.
Yfirlögfræðingur stefnda svaraði með bréfi, dags. 8. desember 2015, og hafnaði kröfum stéttarfélags stefnanda. Í bréfinu vísaði hann jafnframt til þess að sú ákvörðun stefnanda að hætta við aðflug í Berlín 25. október og koma aftur inn til aðflugs væri svonefnt flugatvik.
Heimilislæknir stefnanda gaf úr læknisvottorð 16. desember 2015. Þar segir að stefnandi hafi fallið í yfirlið vorið 2015. Hún hafi misst þvag en ekki bitið í tungu. Einnig kemur fram að í flugi í október hafi henni skyndilega sortnað fyrir augum og hana svimað. Henni hafi einnig fundist heyrn deyfast. Tekið er fram að þær læknisrannsóknir sem stefnandi hafði þá farið í, frá 4. nóvember, hafi ekki sýnt neitt óeðlilegt.
Lögmaður stefnanda svaraði bréfi yfirlögfræðings stefnda og rangfærslum í því með bréfi, dags. 30. desember 2015. Áréttuð var fyrri áskorun ÍFF um að draga uppsögn stefnanda til baka og að réttur stefnanda til áframhaldandi launa í veikindaforföllum yrði virtur.
Íslenska flugmannafélagið sendi stefnda bréf 4. janúar 2016 og fór þess á leit við félagið að það tilkynnti hlutaðeigandi tryggingafélagi að stefnanda hefði verið synjað um framlengingu heilbrigðisvottorðs. Yfirlögfræðingur stefnda hafnaði erindi ÍFF með tölvupósti 14. janúar 2016.
Að ósk yfirlögfræðings stefnda var haldinn fundur í húsakynnum stefnda með lögmanni stefnanda 18. janúar 2016 þar sem reifaðar voru hugmyndir að lausn málsins. Meðal annars var rætt hvort og á hvaða forsendum unnt yrði að ná samkomulagi sem fæli í sér þær lyktir að stefnanda yrði gert kleift að snúa aftur sem flugmaður á þotum stefnda. Tveimur dögum síðar, 20. janúar 2016, hringdi yfirlögfræðingurinn í lögmann stefnanda og greindi frá því að stefndi væri reiðubúinn að freista þess að ná samkomulagi við stefnanda. Í því fælist að hún sneri aftur til starfa hjá stefnda sem flugmaður þegar hún hefði náð heilsu og að lokinni þjálfun. Sama hljóð var í strokknum þegar yfirlögfræðingur stefnda og lögmaður stefnanda ræddust við símleiðis 22. janúar 2016. Hins vegar tilkynnti yfirlögfræðingurinn lögmanni stefnanda símleiðis 29. janúar 2016 að stefnda hefði snúist hugur. Stefnanda var þess í stað boðið að ljúka málinu með sáttagreiðslu sem samsvaraði launum fyrir fjóra mánuði.
Lögmaður stefnanda gerði stefnda gagntilboð með tölvupósti til yfirlögfræðings stefnda, 4. febrúar 2016. Í því var gert ráð fyrir að stefnandi fengi greidd laun í átta mánuði og óskað eftir því að henni yrði heimilað að gera fyrirvara um hugsanlegan rétt til greiðslu skírteinistryggingar eða ígildi hennar. Þessu boði hafnaði stefndi.
Lögmaður stefnanda lagði fram, 16. febrúar 2016, í Héraðsdómi Reykjavíkur beiðni um vitnaleiðslu fyrir dómi. Óskað var eftir því að skýrslur yrðu teknar af D, flugrekstrarstjóra stefnda, I, yfirflugstjóra stefnda, og flugstjórunum C og E. Ráðgert var að skýrslur yrðu teknar 9. mars 2016. Af þeim varð ekki því yfirflugstjóri og flugrekstrarstjóri stefnda boðuðu forföll. Beiðni um vitnaleiðslur var afturkölluð 16. apríl 2016. Nokkru áður höfðu lögmenn málsaðila hist á stuttum fundi 17. mars 2016.
Til viðbótar við rannsóknir sem stefnandi fór í að undirlagi heimilislæknis síns hafði hún, frá 16. nóvember, einnig gengið til geðlæknis. Sá reyndi að grafast fyrir um orsakir þess að stefnanda leið afskaplega illa en henni hafði versnað mjög þegar í ljós kom, í lok janúar 2016, að ekki yrði af því að stefndi gæfi henni kost á að ljúka þjálfuninni og fara í leiðarflugsprófið. Geðlæknirinn tilkynnti Samgöngustofu 13. mars 2016 að hann hefði greint stefnanda með [...].
Með bréfi Samgöngustofu til stefnda, dags. 12. maí 2016, var stefnanda tilkynnt að stofnunin hefði í hyggju að afturkalla heilbrigðisvottorð stefnanda frá 24. nóvember 2014 þar eð hún uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til útgáfu fyrsta eða annars flokks heilbrigðisvottorðs. Um þá fyrirhuguðu ákvörðun segir meðal annars orðrétt:
Heilbrigðisskor Samgöngustofu hefur borist læknabréf frá J geðlækni, vegna veikinda þinna. Í bréfinu kemur fram að þú þjáist af [...]. Honum hafa fylgt [...]. Einnig hefur þú verið á lyfjum vegna sjúkdómsins er ekki samræmast gildandi reglugerðum um flugliða. Sjá nánar reglugerð um áhöfn í almenningsflugi nr. 180/2014, sbr. MED.B.055 í reglugerð (ESB) nr. 1178/2011 og leiðbeiningarefni (AMC1 MED.B.055).
Með bréfi Samgöngustofu, dags. 16. júní 2016, var stefnanda tilkynnt með ítarlegum rökstuðningi sú ákvörðun stofnunarinnar að afturkalla heilbrigðisvottorð stefnanda útgefið 24. nóvember 2014. Stefnanda var gert að afhenda stofnuninni heilbrigðisvottorð og flugskírteini sitt í kjölfarið.
Ákvörðun Samgöngustofu var send lögmanni stefnda 23. júní 2016. Í eftirfarandi samskiptum við hann var þess óskað að aðilar settust niður til viðræðna um mál stefnanda, þ.m.t. um mögulegt samkomulag um greiðslu veikindalauna og skírteinistryggingar eða ígildi hennar. Með tölvupósti lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 23. ágúst 2016, var öllum kröfum og óskum stefnanda endanlega vísað á bug. Stefnandi telur sig því ekki eiga annan kost en að höfða mál á hendur stefnda til að sækja þann rétt sem hún telur sig eiga á hendur honum.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því á því að stefnda hafi verið óheimilt að segja henni upp störfum eins og á stóð. Af þeim sökum eigi stefnandi rétt til skaðabóta vegna uppsagnar stefnda, sem og vegna athafna og athafnaleysis stefnda í tengslum við ráðningarsamband stefnanda og skírteinistryggingu flugmanna stefnda.
Stefnandi byggir á því að hún hafi verið í lögmætum veikindaforföllum og að hún hafi haft réttarstöðu sem fastráðinn flugmaður hjá stefnda þegar hann sagði henni upp störfum 18. nóvember 2015.
Svo einkennilega vilji til að í umferð séu tvær ólíkar útgáfur af „sama“ kjarasamningi stefnda og Íslenska flugmannafélagsins, undirrituðum 29. október 2014. Eintökin séu samhljóða um að kjarasamningurinn sé samningur um lágmarkskjör og að óheimilt sé að greiða félagsmönnum ÍFF lakari laun og launakjör en samningurinn segi til um, sbr. grein 1.3.
Samkvæmt grein 2.1 skuli allir flugmenn hafa fullgild starfsskírteini. Störf flugmanna skiptist þannig eftir réttindum og starfsaldri: Flugstjóri, flugmaður, byrjandi. Samkvæmt grein 2.2 sé byrjandi sá flugmaður sem er ráðinn til reynslu og skal innan níu mánaða frá fyrsta námskeiðsdegi fá úr því skorið hvort viðkomandi skuli ráðinn til framhaldsstarfa hjá félaginu. Sé byrjandi ekki ráðinn á þessu tímabili, sé óheimilt að ráða hann aftur sem byrjanda.
Í grein 3.1 sé mælt fyrir um starfsaldursreglur í viðauka og að þær teljist hluti af kjarasamningnum. Samkvæmt grein 3.2 sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur fastráðinna flugmanna og stefnda þrír mánuðir miðað við mánaðamót.
Í 6. kafla kjarasamningsins séu ýmis ákvæði um áhafnarþörf og áhafnarskrá. Í grein 6.1.a segi að áhafnarskrá skuli gefin út til eins mánaðar í senn og eigi síðar en 25. dag mánaðarins á undan. Samkvæmt grein 6.1.c sé óheimilt að breyta gildandi skrá nema með samþykki viðkomandi flugmanns og áhafnarskráarritara.
Í 7. kafla, annarrar útgáfunnar af kjarasamningnum, sem fjallar um veikindadaga, segi meðal annars í grein 7.2 að veikist flugmaður og forföll hans séu staðfest, skuli greiða honum full laun í 13 mánuði, þó ekki lengur en til loka ráðningartímans. Í hinni útgáfunni sé hins vegar getið um sex mánaða veikindarétt.
Fjallað sé um laun í 11. kafla kjarasamningsins. Þar sé meðal annars, í grein 11.1, mælt fyrir um skiptingu launaflokka í þrennt: 1. flokkur – flugstjóri, 2. flokkur – flugmaður, 3. flokkur – byrjandi. Enn fremur segi í grein 11.3 að laun byrjanda frá upphafi þjálfunar þar til leiðarflugsþjálfun (línuþjálfun) hefjist skuli vera 40% af föstum launum í fyrsta launaþrepi. Frá því leiðarflugsþjálfun (línuþjálfun) hefjist og þar til henni ljúki skuli laun byrjanda vera 60% af launum í fyrsta launaþrepi. Samkvæmt grein 11.7 skuli byrjandi fá byrjendalaun þar til hann hafi skipað sæti flugmanns/flugstjóra eða í allt að níu mánuði.
Fjallað sé um tryggingar flugmanna stefnda í 8. kafla. Þar sé vísað til viðauka við kjarasamninginn. Í þeim viðauka segi að stefndi skuli á sinn kostnað tryggja skírteini hvers flugmanns fyrir 436.000 bandaríkjadali. Tryggingin skuli ná yfir réttindamissi vegna sjúkdóma eða slyss eða samkvæmt nánari skilgreiningu í tryggingaskilmálum. Fram komi að byrjanda beri eigi skírteinistrygging fyrr en hann hafi öðlast full starfsréttindi og skipi jafnframt sæti flugmanns. Í viðaukanum komi einnig fram að segi stefndi flugmanni upp starfi skuli uppsögnin á engan hátt skerða rétt hans til tryggingafjár vegna veikinda eða slysa áður en starfstíma hans ljúki.
Kveðið sé á um tilvist og verkefni samstarfsnefndar aðila kjarasamningsins í gr. 16.5. Stefnandi vísar til þess sem áður var rakið um hlutverk og niðurstöðu samstarfsnefndar á fundi 12. ágúst 2015.
Stefnandi áréttar að við úrlausn þessa máls verði að gera greinarmun á tvennu: Annars vegar því hvenær flugmaður teljist fastráðinn hjá stefnda á grunni meðal annars nefndra ákvæða kjarasamnings stefnda og ÍFF, sem teljist þá jafnframt lágmarkskjör sem óheimilt er að semja sig frá flugmanni í óhag, sbr. gr. 1.3 í kjarasamningnum, sbr. einnig 1. gr. starfskjaralaga, og hins vegar því hvenær flugmaður teljist fastráðinn hjá stefnda og njóta réttinda sem slíkur vegna athafna eða athafnaleysis stefnda. Fastráðinn flugmaður njóti ávallt réttinda sem slíkur í samræmi við ákvæði kjarasamnings stefnda og ÍFF og skipti þá ekki máli á hvaða hátt fastráðningu hefur borið að.
Samkvæmt ráðningarsamningnum hafi stefnandi verið ráðin tímabundinni ráðningu til 31. ágúst 2015. Það sé meginregla vinnuréttar að ráðningarsambandi teljist lokið við umsamið tímamark, án tilkynningar, hafi ekki verið samið um annað í tímabundnum ráðningarsamningi. Það sé enn fremur meginregla að haldi starfsmaður áfram störfum eftir lok tímabundins ráðningarsamnings teljist vera komið á ótímabundið ráðningarsamband milli aðila.
Áður en tímabundnum ráðningarsamningi stefnda og stefnanda lauk hafi stefndi tekið ákvörðun um fastráðningu stefnanda og annarra sumarráðinna flugmanna, sem eins var ástatt um, sbr. samstarfsnefndarfund aðila kjarasamningsins 12. ágúst 2015. Ákvörðunin hafi verið kynnt flugmönnum stefnda, þar með talið stefnanda, og teljist um leið bindandi fyrir stefnda þegar vitneskja um framhaldsráðningu barst stefnanda og öðrum flugmönnum, á grunni reglna sem gildi um ákvaðir. Með því hafi stefndi skorið úr um ráðningu stefnanda og annarra sumarráðinna flugmanna til framhaldsstarfa hjá stefnda í skilningi greinar 2.2 í kjarasamningi stefnda og ÍFF. Stefnandi hafi í framhaldi eða frá 15. október 2015 fengið greidd full laun, auk þess sem yfirlýsing var gefin, og stefndi gert ráðstafanir um vátryggingu stefnanda. Stefndi geti ekki og hafi ekki rétt til þess að snúa einhliða ofan af ákvörðun um framhaldsstörf og fastráðningu, nema með því að fara að leikreglum kjarasamningsins bæði hvað varðar uppsagnarfrest, starfsaldursreglur og veikindarétt fastráðinna flugmanna. Við sönnunarmat verði að hafa í huga stjórnunarrétt stefnda og áhrif stjórnunarréttar á reglur um sönnunarbyrði milli aðila málsins.
Þegar uppsögn stefnanda bar að hafi stefnandi haft réttarstöðu fastráðins flugmanns í veikindaforföllum. Við uppsögnina hafi legið fyrir að sumarráðnir flugmenn hafi öðlast réttarstöðu fastráðinna flugmanna og áform uppi um frekari fjölgun flugmanna, eins og raunin varð. Með uppsögninni hafi stefndi þannig ekki aðeins brotið gegn veikindarétti stefnanda heldur og starfsaldursreglum stefnda.
Aðalkrafa stefnanda lýtur að því að hún eigi, samkvæmt grein 7.2 í annarri útgáfu kjarasamningsins, rétt til fullra launa í allt að 13 mánuði. Varakrafa stefnanda lýtur á hinn bóginn að því að stefnandi eigi, samkvæmt grein 7.2 í hinni útgáfu kjarasamningsins, rétt til fullra launa í allt að 6 mánuði. Ákvæðið í hvorri útgáfu um sig geri ekki greinarmun á því hvort flugmaður njóti stöðu sem flugstjóri, flugmaður eða byrjandi. Liggi hins vegar fyrir, áður en veikindi ber að, að ráðningartíma muni með lögmætum hætti ljúka innan 13 eða eftir atvikum sex mánaða þegar veikindi koma upp, teljist veikindaréttur ná að lokum ráðningartímans. Þegar veikindi stefnanda bar að 3. nóvember 2015 hafi ekkert legið fyrir um lok ráðningartíma hennar. Veikindaréttur stefnanda verði, undir þeim kringumstæðum, aldrei styttur með uppsögn. Eins og gögn málsins sýni hafi stefnandi verið óvinnufær, vegna veikinda, til starfa sem flugmaður samfleytt frá 3. nóvember 2015 og það til frambúðar, sbr. ákvörðun Samgöngustofu frá 16. júní 2016.
Vegna hinnar ólögmætu uppsagnar sé í aðalkröfu krafist skaðabóta er jafngildi rétti stefnanda til veikindalauna skv. grein 7.2 í samtals 11 mánuði auk orlofs frá 1. janúar 2016 að telja til 30. nóvember 2016, en stefndi greiddi stefnanda full veikindalaun í 2 mánuði, þ.e. nóvember og desember 2015. Í varakröfu stefnanda er með vísan til framangreinds krafist skaðabóta er jafngildi rétti hennar til veikindalauna skv. grein 7.2 í samtals fjóra mánuði auk orlofs frá 1. janúar 2016 að telja til 30. apríl 2016. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá gjalddaga hverrar launagreiðslu til greiðsludags. Stefnda bæri með réttu að greiða í lífeyrissjóð af veikindalaunagreiðslum á framangreindu tímabili. Stefnandi hafi ekki forræði yfir þeirri kröfu en hún áskilji sér rétt að vísa þeim þætti til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs að fenginni niðurstöðu dómsins.
Í aðal- og varakröfu er krafist skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 436.000 bandaríkjadala (USD 436.000), eða sem nemur ígildi skírteinistryggingar flugmanna samkvæmt kjarasamningi stefnda og ÍFF. Hafið sé yfir vafa að sú ákvörðun Samgöngustofu, sem áður er vikið að, að svipta stefnanda 1. flokks heilbrigðisvottorði og þar með atvinnuflugmannsskírteini vegna nánar tilgreindra andlegra veikinda, falli undir þá áhættu sem kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu stefnda sé ætlað að ná yfir og vernda.
Stefnandi byggir aðallega á því að hefði stefndi ekki sagt henni upp á ólögmætan hátt hefði stefnandi átt rétt til greiðslu skírteinistryggingar í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings.
Meðal gagna málsins sé bréf vátryggingamiðlarans Willis Limited til stefnda, dags. 28. október 2015. Í því sé stefnda tilkynnt að í samræmi við tilvitnuð samskipti aðila hafi náðst samningur við vátryggjandann Hiscox Global Flying um slysatryggingu og skírteinistryggingu. Bréfinu hafi fylgt tryggingaskilmálar fyrir tímabilið 30. október 2015 til 29. október 2016. Í bréfinu og skilmálunum sé sérstaklega áréttað að stefndi upplýsi án tafar ef tryggingin er í ósamræmi við fyrirmæli eða kröfur stefnda. Stefnandi sé á meðal þeirra 28 einstaklinga sem eru taldir upp í skilmálum tryggingarinnar sem þátttakendur í hópvátryggingunni. Upphafsdagur tryggingar sérhvers þátttakanda sé tilgreindur 30. október 2015 og lokadagur 29. október 2016.
Stefndi hafi ítrekað hafnað því að stefnandi geti talist eiga rétt til bóta úr skírteinistryggingunni sem slíkri eða að hún geti talist eiga rétt til ígildis slíkrar greiðslu úr hendi stefnda. Í svari stefnda til ÍFF, dagsettu 14. janúar 2016, segi meðal annars:
Í viðhengi er afrit af tryggingaskírteini A. Samkvæmt því tók tryggingin gildi 30. október 2015 … Í skilmálum tryggingarinnar sem G sendi þér um daginn segir m.a.: „We will only cover Insured persons who are actively at work on the inception date of this insurance or upon attachment date to it, whichever the later. The insured persons are only covered under this insurance scheme after they have been actively at work for 30 consecutive days from their inception or attachment date to this scheme“.
Samkvæmt framangreindu getum við ekki séð að A sé tryggð þar sem hún hefur verið veik skv. fluglækni frá 3. nóvember 2015. Samkvæmt vaktplönum flaug A ekkert á tímabilinu 30. okt.-3. nóvember.
Í ljósi ofangreinds teljum við ekki nauðsynlegt að fjalla um hvort A hafi átt að vera tryggð skv. ráðningarsamningi og kjarasamningi eða hvort hún hafi uppfyllt skilyrði tryggingar vegna fyrra heilsufars.
Stefnandi bendir á að tilvitnað ákvæði sé í þeim hluta skilmálanna sem gildir um hlutaðeigandi atvinnurekanda, þ.e. stefnda, eða í „Section A-Employer section“. Í þeim hluta skilmálanna sem varði þátttakendur í hópvátryggingunni eða „Section B – Scheme members section“, segi m.a. orðrétt:
You must be actively at work on the inception or attachment date to this group insurance scheme, whichever the later.
If you are not actively at work on the inception or attachment date to this insurance you will not be eligible to join this scheme until you have been actively at work for a continuous period of 30 days.
Ákvæði kjarasamnings stefnda og ÍFF leggi þá skyldu á herðar stefnda að hafa gildar tryggingar. Hvergi í kjarasamningnum sé heimilað að réttindi flugmanna, sem eru jafnframt þátttakendur í vátryggingunni í skilningi laga um vátryggingarsamninga, séu háð biðtíma. Þegar tilvitnuð ákvæði vátryggingarskilmálanna séu túlkuð saman sé ljóst að stefndi hafi athugasemdalaust samið svo um, þvert gegn kjarasamningsbundinni skyldu, að bera sjálfur áhættuna fyrstu 30 dagana eftir upphafsdag skírteinistryggingar. Með þeirri ákvörðun sinni hafi stefndi bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda, enda liggi fyrir að stefnandi hafi verið „actively at work“ í skilningi vátryggingarskilmálanna frá og með upphafsdegi skírteinistryggingarinnar 30. október 2015 og til 3. nóvember sama ár. Það hafi ekki neina þýðingu fyrir úrlausn málsins, að stefnandi hafi ekki flogið á tilgreindu tímabili enda sé það einhliða ákvörðun stefnda að taka hana af flugi samkvæmt vaktskrá 2. nóvember 2015. Stefnandi hafi á tímabilinu haft fullgilt 1. flokks heilbrigðisvottorð og atvinnuflugmannsskírteini í góðri trú um að hún uppfyllti öll skilyrði gilds heilbrigðisvottorðs.
Til viðbótar liggi fyrir að stefndi hafi bakað sér sjálfstæða skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda með því að greina rangt frá því, á samstarfsnefndarfundi 12. ágúst 2015, að allir flugmenn, þar með taldir sumarflugmenn, væru tryggðir. Hefði stefndi þá þegar keypt tryggingar eða hefði hann strax hafist handa um efndir þeirrar yfirlýsingar og tekið skírteinistryggingu, hefði stefnandi átt skýlausan rétt til bóta úr skírteinistryggingunni, burtséð frá því 30 daga biðtímabili sem stefndi samdi um og hafi vísað til, enda tímabilið löngu liðið 3. nóvember 2015. Stefndi virðist hins vegar hafa látið undir höfuð leggjast að setja vátryggingamál flugmanna sinna í farveg allt þar til í lok október 2015. Samkvæmt fyrirliggjandi skilmálum hafi enginn flugmaður stefnda haft gildar skírteinistryggingar í nokkurn tíma eða allt þar til skilmálar þeirrar tryggingar sem um ræðir í þessu máli tóku gildi. Stefnandi fékk í aðdraganda þessarar málsóknar í hendur eldri skilmála, sbr. tölvupóst framkvæmdastjóra ÍFF til lögmanns stefnanda, dags. 26. september 2016, en svo virðist sem ÍFF hafi fyrst fengið eldri skilmála afhenta í janúar 2016.
Með hliðsjón af framangreindu sundurliðast kröfur stefnanda um skaðabætur á þennan hátt:
|
Aðalkrafa: |
|
|
|
Ígildi mánaðarlauna í veikindaforföllum |
|
|
|
mánaðarlaun |
461.967 kr. |
|
|
vaktaálag |
152.449 kr. |
|
|
samtals |
614.416 kr. |
|
|
11 mánuðir (jan. t.o.m. nóv. 2016) x 614.416 kr. |
|
6.758.576 kr. |
|
orlof 15,56% (m/v 36 daga orlofsrétt). |
|
1.051.634 kr. |
|
samtals |
|
7.810.210 kr. |
|
Ígildi skírteinistryggingar |
|
436.000 USD |
|
Varakrafa: |
|
|
|
Ígildi mánaðarlauna í veikindaforföllum |
|
|
|
Mánaðarlaun |
461.967 kr. |
|
|
Vaktaálag |
152.449 kr. |
|
|
Samtals |
614.416 kr. |
|
|
4 mánuðir (jan t.o.m. apríl 2016) x 614.416 kr. |
|
2.457.664 kr. |
|
Orlof 15,56% (m/v 36 daga orlofsrétt). |
|
382.413 kr. |
|
samtals |
|
2.840.077 kr. |
|
Ígildi skírteinistryggingar |
|
436.000 USD |
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi áréttar að óumdeilt sé að stefnandi hafi verið ráðin til stefnda til að verða flugmaður (First Officer) á flugvélum hans. Ritað hafi verið undir ráðningarsamning 4. mars 2015 og hann gilt til 31. ágúst 2015. Í honum sé tekið fram, í grein 2.1, að stefnandi sé byrjandi og ráðin til reynslu svo og að uppsagnarfrestur byrjenda með reynsluráðningu sé einn mánuður. Þegar stefnandi var ráðin hafi hún haft atvinnuflugmannsréttindi. Hins vegar hafi hún ekki haft starfsréttindi á Airbus-flugvélar stefnda.
Um starfssvið og starfskjör flugmanna hjá stefnda gildi kjarasamningur hans við Íslenska flugmannafélagið. Samkvæmt grein 2.2 í kjarasamningnum sé sá flugmaður talinn byrjandi sem er ráðinn til reynslu. Byrjandi eigi rétt á því að fá úr því skorið, innan níu mánaða frá fyrsta námskeiðsdegi, hvort hann verði ráðinn til framhaldsstarfa hjá stefnda. Sé byrjandi ekki ráðinn á þessu tímabili sé óheimilt að ráða hann aftur sem byrjanda.
Í ráðningarsamningnum segi að upphafsdagur þjálfunar stefnanda sé 2. mars 2015. Í síðasta lagi níu mánuðum frá upphafsdegi þjálfunar, 2. desember 2015, hafi stefnandi átt rétt á að fá úr því skorið hvort hún fengi fastráðningu.
Stefndi byggir á því að forsenda og ófrávíkjanlegt skilyrði þess að stefnandi fengi stöðu flugmanns hjá stefnda hafi verið, að hún hefði atvinnuflugmannsréttindi og lyki með fullnægjandi árangri þjálfun til að öðlast starfsréttindi á Airbus-flugvélar stefnda í samræmi við lög um loftferðir, nr. 60/1998, sbr. og reglugerð nr. 237/2014, sem innleiddi reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) nr. 965/2012, um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varðar flugrekstur samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 212/2008, og innri reglur stefnda. Stefnda sé samkvæmt þessum reglum um loftferðir óheimilt að ráða til sín flugmenn (First Officers), sem hafi ekki lokið þjálfun og prófraunum, eins og skýrt sé kveðið á um í kaflanum um flugliða ORO.FC.005, sbr. einkum greinar ORO.FC.120, ORO.FC.135 og d-lið ORO.FC.220 í reglugerð ESB nr. 965/2012, sbr. 6. gr. reglugerðar um tæknikröfur og stjórnsýslureglur í tengslum við starfrækslu loftfara nr. 237/2014. Flugrekstrarhandbók stefnda fjalli einnig um lágmarkskröfur og hæfniskröfur flugmanna í grein 5.2.4.
Starfsréttindaþjálfun stefnda sé þrepaskipt eins og lýst sé í þjálfunarhandbók félagsins:
Í fyrsta lagi hafi stefnandi þurft að sækja og ljúka með fullnægjandi árangri námskeiði á vegum framleiðanda Airbus-flugvéla, eins og stefndi notar (Type Rating course, TRC). Óumdeilt sé að stefnandi sótti námskeið í Toulouse í Frakklandi og hlaut þjálfun á Airbus-flugvélar með tegundarnúmerin 318-321. Kennslan í Toulouse hafi verið bókleg og farið fram í flughermi. Stefnandi hafi eftir þessa þjálfun fengið flugliðaskírteini (Flight Crew Licence), merkt IS.FCL.A.5094.
Í öðru lagi hafi stefnandi þurft að komast í gegnum svonefnda umskiptaþjálfun (Operator‘s Conversion Course, OCC) hjá stefnda, samkvæmt námsskrá hans í þjálfunarhandbók. Þessi þjálfun stefnanda hafi falist í því að:
(a) Fljúga Airbus-flugvél með öryggisflugmanni og æfa lendingar á Keflavíkurflugvelli. Vanalega séu tekin tvö til þrjú flug. Stefnandi hafi farið í 12 flug.
(b) Fljúga Airbus-flugvél í áætlunarflugi (leiðarflugi) með flugstjóra og öryggisflugmanni. Stefnandi hafi flogið með öryggisflugmanni 24 flugleiðir á tímabilinu 2. júní 2015 til 11. ágúst á sama ári. Samanlagður flugtími á þessum leiðum hafi verið um 105 klukkustundir. Enginn byrjandi hjá stefnda hafi þurft jafnmikinn flugtíma með öryggisflugmanni.
(c) Fljúga Airbus-flugvél með flugstjóra, en án öryggisflugsmanns, á flugleiðum stefnda, svokölluð leiðarþjálfun. Stefnandi hafi verið í leiðarþjálfun frá 12. ágúst 2015 til loka október 2015. Á þeim tíma hafi stefnandi flogið um 200 klukkustundir og meira en 50 flugleiðir. Stefnandi hafi því þurft miklu fleiri flugtíma og miklu fleiri flugleiðir en aðrir byrjendur hjá stefnda þegar níu mánaða tíma byrjendaráðningar var að ljúka.
(d) Að ljúka og standast leiðarflugspróf á Airbus-flugvélum stefnda til að sýna hæfni sína í venjulegu leiðarflugi. Stefnandi hafi, þrátt fyrir liðlega 300 flugtíma og 74 flugleiðir, ekki verið talin hæf til að gangast undir leiðarpróf í byrjun nóvember 2015.
Í þriðja lagi hafi stefnandi þurft að standast læknisskoðun.
Það sem hafi verið rakið sýni að stefnandi hafi aldrei náð þeirri hæfni í flugstjórn, sem flugmenn verði að sýna í verki að þeir hafi. Af þeim sökum hafi flugnefndin (Grand Flight Committee, GFC), æðsta stjórnvald stefnda á flugrekstrarsviði, ákveðið að hafna frekari þjálfun stefnanda. Því hafi ekkert orðið úr því að stefnandi gengist undir leiðarpróf 6. nóvember 2015. Þjálfunarhandbók stefnda hafi ekki heldur leyft frekari þjálfun stefnanda.
Flugnefndin, GFC, hafi verið kölluð saman til að fjalla um mál stefnanda í lok október, með tölvupósti K, 28. október 2015, til D flugrekstrarstjóra stefnda og fleiri. Kornið sem fyllti mælinn, og leiddi til þess að stefndi ákvað að ráða stefnanda ekki í starf flugmanns, var tölvupóstur F flugstjóra frá 28. október 2015.
Í tveimur tölvupóstum F, öðrum frá 19. ágúst 2015 og hinum frá 28. október 2015, sé lýst byrjanda sem hafi ekki tekið sérstökum framförum. Í tölvupóstinum frá 19. ágúst segi meðal annars: Hi had a flight today with A and unfortunantly I have to say I was very disapointed with her performance. I had to repeat items I have discussed with her numerous times on previous flights like radio disaplenery, flow sequences and situational awareness.
Í tölvupóstinum frá 28. október 2015, lýsi F flugi með stefnanda til Berlínar (SXF) 25. október 2015. Þar segi að frammistaða stefnanda hafi ekki staðist þær væntingar sem gera megi til flugmanns, sem ætti að að fara að undirgangast leiðarpróf. F lagði til að stefnandi færi ekki í lokaleiðarpróf að svo stöddu, því nauðsynlegt væri að vinna í því að ná fram hjá henni réttu verklagi við stjórnun flugfars (Standard Operating Procedure, SPO). Þessi afstaða hans hafi byggst á flugöryggissjónarmiðum. Þau sjónarmið standi því alfarið í vegi að veittur sé afsláttur við mat á hæfni flugliða almennt, eins og komi fram í námskrá um þjálfun og eftirlit (Training Syllabus and Checking Programs, hér eftir TSCP), sbr. t.d. grein 2.1.6.8 Line Check. Þar segi meðal annars í lokamálslið 2. mgr. greinar 2.1.6.8.1 Line Check Captains Must insist that Company SOP´s are strictly adhered to. Stefndi geti því aldrei gefið afslátt af eða vikið frá þeim kröfum sem koma fram í TSCP og SPO vegna almennra og sérstakra flugöryggisreglna.
Með vísan til framangreinds byggir stefndi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að stefnandi hafi aldrei öðlast eða getað öðlast fullgild starfsréttindi til að fljúga Airbus-flugvélum stefnda. Hún hafi þar af leiðandi aldrei verið fastráðin sem flugmaður hjá stefnda. Þess vegna eigi stefnandi enga kröfu um greiðslu launa, hvorki í 13 mánuði né sex mánuði. Auk þess viti stefnandi að grein 7.2, í þeirri útgáfu kjarasamningsins sem hún byggi aðalkröfu sína á, sé röng. Stefndi þurfi að hámarki að greiða flugmanni, sem veikist, full laun í sex mánuði, þó ekki lengur en til loka ráðningartíma viðkomandi flugmanns. Stefnandi hafi aldrei öðlast starfsréttindi á flugvélar stefnda og eigi því hvorki kröfu til greiðslu launa í uppsagnarfresti, samkvæmt aðal- eða varakröfu, né til greiðslu 436.000 bandaríkjadala vegna skírteinistryggingar. Forsenda kaupa á skírteinistryggingu fyrir byrjanda sé sú, að byrjandinn hafði öðlast full starfsréttindi og skipi jafnframt sæti flugmanns. Stefnandi hafi ekki öðlast full starfsréttindi í nóvember 2015, þótt hún hafi flogið sem flugmaður án öryggisflugmanns í leiðarþjálfun frá 12. ágúst 2015 þar til flugatvikið varð í Berlín 26. október 2015.
Í stefnu segi stefnandi að „með uppsögninni“ hafi stefndi „ekki aðeins (brotið) gegn veikindarétti stefnanda heldur og starfsaldursreglum stefnda“. Stefndi hafnar alfarið þessum málsástæðum stefnanda. Í fyrsta lagi vegna þess að stefnanda hafi aldrei verið sagt upp störfum hjá stefnda heldur hafi henni verið tilkynnt um lok tímabundinnar ráðningar og að stefndi hefði ákveðið að stefnanda yrði ekki boðin fastráðning. Ástæða þessa sé tvíþætt, annars vegar sú að stefnda hafi verið óheimilt að ráða stefnanda lengur en í níu mánuði sem byrjanda og hins vegar hafi stefnandi náð hámarki leyfilegrar þjálfunar samkvæmt þjálfunarhandbók stefnda.
Í öðru lagi bendir stefndi á að hann hafi ekki brotið gegn veikindarétti stefnanda. Ekkert banni að veiku fólki sé sagt upp störfum. Uppsögn við slíkar aðstæður sé aldrei ólögmæt. Í þriðja lagi hafi ekki verið brotið gegn neinum reglum um starfsaldurslista, þar sem ekkert slíkt ákvæði sé í kjarasamningi stefnda við Íslenska flugmannafélagið. Þar að auki eigi starfsaldurslistaákvæði í kjarasamningum við flugmenn aðeins við um fastráðna flugmenn með fullgild starfsréttindi. Stefnandi hafi aldrei öðlast fullgild starfsréttindi á flugvélar stefnda.
Stefnandi eigi ekki neina kröfu á hendur stefnda um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 436.000 bandaríkjadala, sem nemi ígildi skírteinistryggingar flugmanna samkvæmt kjarasamningi stefnda og Íslenska flugmannafélagsins. Stefnandi byggi þessa kröfu sína á því, að hefði stefndi ekki sagt henni upp á ólögmætan hátt hefði hún átt rétt til skírteinistryggingar í samræmi við ákvæði kjarasamningsins.
Stefndi mótmælir því að hann hafi sagt stefnanda upp á ólögmætan hátt, og ítrekar að stefnandi hafi aldrei öðlast starfsréttindi á flugvélar hans, og hafi því aldrei orðið fullgildur flugmaður. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi leynt stefnda upplýsingum um bágt heilsufar sitt áður en stefndi réð hana sem byrjanda. Stefnandi hafi ekki heldur upplýst stefnda um sjúkdómseinkenni, sem greint sé frá í læknisvottorði sem stefnandi lagði sjálf fram. Í því segi að stefnandi hafi vorið 2015 fundið fyrir yfirliðakennd og liðið hafi yfir hana. Þá hafi henni sortnað fyrir augum í flugi í október 2015, heyrn deyfst og sjón truflast.
Með þessu háttalagi hafi stefnandi brotið gróflega gegn rétti stefnda til að fá upplýsingar um sjúkdóma eða kvilla, sem flugliðar hans séu haldnir og geti valdið missi þegar fenginna réttinda, eða komið í veg fyrir ráðningu í upphafi og þar með útilokað öflun starfsréttinda. Með því að leyna stefnda upplýsingum um heilsufar sitt hafi stefnandi valdið því að stefndi hefði aldrei getað veitt því vátyggingarfélagi, sem hann kaupir skírteinistryggingar af, réttar upplýsingar um heilsufar stefnanda, en réttar upplýsingar um vátryggðan séu forsenda þess að vátryggingarfélag geti metið áhættu sína rétt, sbr. annars vegar IV. kafla, Almennar forsendur fyrir ábyrgð félagsins og hins vegar IX. kafla, Sérstakar reglur um hópvátryggingar í lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Auk þess megi benda á tryggingarskilmála Willis Limited, sem stefnandi hafi lagt fram með þýðingum að hluta. Í kafla Group loss licence insurance – elite cover, Section B – Scheme member section sé fjallað um það sem heiti „Previous disability“. Samkvæmt þessu ákvæði eigi að veita upplýsingar um heilsufar hins tryggða á 24 mánuði tímabili fyrir gildistöku skírteinistryggingar.
Stefnandi, sem leyndi upplýsingum um heilsufar sitt, hefði aldrei öðlast neinn rétt á hendur vátryggjanda atvinnuréttarskírteinis hennar, og geti því ekki heldur átt neinn rétti til skaðabóta úr hendi stefnda, sem svarar til ígildis skírteinistryggingarinnar. Í þessu sambandi breyti ekki neinu þótt félagið hafi sent frá sér staðfestingu, þess efnis að stefnandi sé tryggð gegn skírteinismissi frá 30. október 2015 til og með 29. október 2016.
Engu breyti fyrir réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda, þótt stefndi hafi samið við stefnanda um tímabundna ráðningu, sem byrjanda í mars 2015, er hafi átt að gilda til 31. ágúst sama ár. Ráðning stefnanda sem byrjanda hafi að hámarki getað orðið 9 mánuðir. Stefndi hafi vonast til að stefnandi hefði öðlast starfsréttindi á flugvélar hans 31. ágúst 2015. Þegar byrjandasamningurinn var úti samkvæmt efni sínu hafi stefnandi ekki lokið leiðarþjálfun og því ekki heldur gengist undir leiðarpróf. Stefndi hafi haldið áfram að reyna að koma stefnanda í gegnum starfsréttindanám í september og október 2015. Stefnandi hafi á þessum tveimur mánuðum ekki náð þeirri hæfni að geta stjórnað loftfari í samræmi við rétt og öruggt verklag. Þetta sé óumdeilt því í stefnu segi að yfirflugstjóri stefnda hafi lagt það til á fundi 6. nóvember 2015 að stefnandi myndi fljúga fimm flug til viðbótar. Ef þau gengju vel yrði sett upp ný dagsetning fyrir leiðarpróf. Á þessum fundi bar stefnandi fyrir sig að komið hefði upp heilbrigðisvandamál þegar hún fór í skoðun hjá fluglækni 3. nóvember 2015 til endurnýjunar á 1. flokks heilbrigðisvottorði. Stefnandi hafi þess vegna ekki aðeins verið vanhæfur flugmaður heldur hafi hún einnig strítt við eitthvert heilsufarsvandamál áður en lokatilraun til að þjálfa hana átti að hefjast og því áður en hún gat undirgengist leiðarpróf. Hún hafi því aldrei orðið flugmaður hjá stefnda.
Af stefnu verði ekki annað ráðið en heimsókn stefnanda til fluglæknis 3. nóvember 2015 hafi verið ákveðin eftir að stefnanda varð ljóst að möguleiki hennar til að öðlast starfsréttindi á flugvélar stefnda væru hverfandi eftir flugatvikið í Berlín 26. október 2015. Í því sambandi bendir stefndi á, að í kjölfar þess að flugrekstrarstjóra stefnda bárust upplýsingar um flugatvikið í Berlin, og að kalla ætti saman GFC til að fjalla um þjálfunarmálefni stefnanda, hafi flugrekstarstjórinn óskað eftir fundi með stefnanda. Ráðgert hafi verið að halda fundinn 30. október. Þann dag hafi stefnandi ekki getað komið og hafi því verið boðuð á ný 2. nóvember. Þá hafi stefnanda jafnframt verið tilkynnt að flugáætlun hennar hefði verið breytt þannig að hún flygi ekki til Boston þann sama dag. Hefði sú flugáætlun gengið eftir hefði stefnandi verið í Boston 3. nóvember. Í ljósi þess sé óskiljanlegt hvernig stefnandi gat hafa pantað sér tíma 29. október 2015 hjá fluglækni, og átt að mæta hjá honum 3. nóvember til að undirgangast læknisskoðun til reglubundinnar endurnýjunar á 1. flokks heilbrigðisvottorði, eins og segir í stefnu.
Starfslok stefnanda hjá stefnda hafi í fyrsta lagi orðið vegna þess að kjarasamningsbundinn ráðningartími byrjenda var runninn út, en ekki vegna uppsagnar á ótímabundnum ráðningarsamningi flugmanns, enda ekki hægt að segja upp samningi um starf flugmanns fyrr en sá, sem í hlut á, hefur sýnt þá hæfni að geta flogið flugvél án þess að leggja flugfar og farþega í hættu, og hafa til starfans andlegt og líkamlegt atgervi. Stefnandi hafi, þegar á reyndi, haft hvorugt og því ekki getað öðlast nein starfsréttindi á flugvélar stefnda.
Það skapi stefnanda ekki neinn rétt á hendur stefnda þótt starfsmaður hans hafi í október 2015 bent stefnanda á að komið væri að endurnýjun 1. flokks heilbrigðisvottorðs. Það vottorð hafi verið forsenda þess að Samgöngustofa gæfi út eða endurnýjaði skírteini stefnanda, sem aldrei virðist hafa orðið. Þvert á móti hafi stefnandi verið svipt skírteini sínu vegna alvarlegra sjúkdóma. Það skapi stefnanda ekki heldur neinn rétt á hendur stefnda þótt flugrekstrarstjóri stefnda hafi á samstarfsnefndarfundi 12. ágúst 2015 látið þau orð falla ... að sérhver flugmaður sem nú vinnur fyrir B þar með taldir þeir sem eru ráðnir á sumarsamningi muni halda vinnu sinni yfir vetrartímann. Í þessum orðum, séu þau rétt eftir höfð, felist ekki það loforð að byrjendur, sem höfðu ekki fengið starfsréttindi á flugvélar stefnda, myndu halda vinnu sinni yfir vetrartímann.
Það skapi stefnanda ekki heldur neinn rétt þótt stefndi hafi tilkynnt vátryggingarfélagi nöfn þeirra aðila sem hann vildi kaupa skírteinistyggingu fyrir. Forsenda þess að skírteinistrygging yrði keypt fyrir þá, sem voru tilkynntir, hafi ávallt verið sú, að þeir hefðu starfsréttindi á flugvélar stefnda. Sú var aldrei raunin með stefnanda. Þessi trygging hafi átt að taka gildi 30. október 2015 og gat aðeins náð til þeirra sem voru í raun við störf á upphafstíma tyggingarinnar og voru það í 30 daga þar á eftir. Stefnandi hafi ekkert flogið frá því að hún kom heim úr Berlínarfluginu 25. október 2015 þar til henni var tilkynnt formlega um starfslok 18. nóvember 2015. Viðbrögð stefnanda við þessu hafi meðal annars verið að senda I yfirflugstjóra hjá stefnda tölvupóst, þar sem sagði Jæja I. Þá er þetta búið hjá okkur. Takk fyrir samvinnuna og sjáumst.
Það skapi stefnanda ekki heldur neinn rétt þótt stefndi hafi verið búinn að gera flugáætlun fyrir stefnanda í nóvember 2015. Þessi flugáætlun hafi, eins og annað er varðaði starf stefnanda, verið háð því að hún öðlaðist starfsréttindi, sem aldrei varð.
Stefndi hafi ekki bakað stefnanda neitt tjón með ólögmætri uppsögn, hvað þá með því að kaupa ekki skírteinistryggingu fyrir hana. Stefnandi hafi aldrei getað fengið fastráðningu sem flugmaður, þar eð hún lauk ekki starfsþjálfun, og reyndist auk þess hafa verið veik þegar hún réð sig til starfa og í starfi. Veikindi stefnanda hafi að endingu leitt til þess að hún var svipt skírteini sínu. Stefndi beri ekki neina ábyrgð á því að hún hafi aldrei náð að ljúka starfsréttindum á flugvélar hans, hvað þá að stefndi beri ábyrgð á heilsufari stefnanda. Stefnandi eigi því hvorki bótakröfur innan né utan samninga á hendur stefnda.
Síst af öllu eigi stefnandi kröfu sem sé ígildi skírteinistryggingar. Stefndi hafi aldrei getað tilkynnt stefnanda til tryggingarfélagsins sem flugmann með starfsréttindi á flugvélar hans. Hann hafi því ekki bakað stefnanda neitt tjón á saknæman og ólögmætan hátt þannig að stefnandi hafi eignast það sem hún kalli sjálfstæða skaðabótaskyldu gagnvart stefnda, með því að upplýsa ranglega á samstarfsnefndarfundi 12. ágúst 2015 að allir flugmenn, þar með taldir sumarflugmenn, væru tryggðir. Stefndi bendir á að stefnandi hafi þá verið byrjandi sem hafi ekki átt neina kröfu til þess að hafa skírteinistryggingu samkvæmt kjarasamningi.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu vegna skaðabótakröfu, sem svarar ígildi skírteinistryggingar, og krefst þess, verði sú krafa tekin til greina að einhverju leyti eða öllu, að hún beri dráttarvexti frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. Stefnandi mótmælir útreikningum á orlofskröfu, enda hvorki í samræmi við kjarasamning né lög um orlof.
Stefndi bendir á að þar eð stefnandi geri skaðabótakröfur hafi henni borið að takmarka tjón sitt. Það hafi stefnandi gert meðal annars með því að sækja um atvinnuleysisbætur.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á almennum reglum samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar, ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998, og reglugerðum settum á grundvelli þeirra svo sem reglugerð nr. 237/2014 og lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Krafa um málskostnað byggist á 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi, sem hafði atvinnuflugmannsréttindi, réð sig í byrjun mars 2015 til tímabundinna starfa og þjálfunar hjá stefnda, sem er flugrekandi. Í þessu máli þarf að svara því hvort stefnandi hafi notið þeirrar réttarstöðu þegar stefndi óskaði ekki lengur eftir vinnuframlagi hennar, 18. nóvember 2015, að hún ætti rétt til launa vegna veikinda svo og rétt til skírteinistryggingar.
Réttarsamband stefnanda og stefnda stofnaðist með ráðningarsamningnum sem stefnandi og starfsmaður stefnda rituðu undir 4. mars 2015. Samkvæmt honum réð stefndi stefnanda tímabundið í sex mánuði, eða til 31. ágúst 2015. Við aðalmeðferð málsins var þess ekki getið að komið hefði til tals, þegar leið að lokum ágústmánaðar, að stefndi vildi ekki nýta starfskrafta stefnanda frekar eða væri þá þegar úrkula vonar um að hún gæti náð fullnægjandi tökum á stjórn flugvéla stefnda. Þvert á móti sýnir þjálfunarmappa stefnanda að hún flaug til níu áfangastaða eða 18 flugleggi (sector), í september, sem samsvara 73-74 fartímum (block time). Jafnframt flaug hún til 11 áfangastaða í október eða 22 flugleggi, sem samsvara 76-77 fartímum.
Það er meginregla í vinnurétti að haldi starfsmaður, sem var ráðinn tímabundið, áfram störfum hjá vinnuveitanda þegar tímabundni ráðningartíminn er runninn út telst ráðningarsambandið varanlegt.
Ákvæði greinar 2.2 í kjarasamningnum haggar ekki þessari réttarstöðu. Ákvæðið er í kafla 2 um menntun og réttindi. Í greininni segir að byrjandi sé sá flugmaður sem er ráðinn til reynslu og hann skuli, innan níu mánaða frá fyrsta námskeiðsdegi, fá skorið úr því hvort hann skuli ráðinn til framhaldsstarfa hjá félaginu eða ekki. Sé byrjandi ekki ráðinn á þessu níu mánaða tímabili er óheimilt að ráða hann aftur sem byrjanda.
Að mati dómsins er hlutverk þessa ákvæðis í kjarasamningnum annars vegar að sporna við því að flugfélagið geri óhóflega langa tímabundna samninga við byrjendur með því að setja þeim níu mánuði sem hámark og hins vegar að koma í veg fyrir að sami starfsmaður sé aftur og aftur ráðinn tímabundið sem byrjandi.
Þetta ákvæði kjarasamningsins getur á hinn bóginn ekki breytt ráðningarsamningi sem er tímabundinn til 31. ágúst 2015 í ráðningarsamning sem er tímabundinn til 2. desember 2015, þegar liðnir voru níu mánuðir frá 2. mars, fyrsta námskeiðsdegi stefnanda. Að mati dómsins var stefnandi því í ótímabundnu ráðningarsambandi við stefnda þegar læknir á Fluglæknasetri mældi blóðþrýsting hennar svo lágan að hann taldi sig ekki geta gefið út fyrsta flokks heilbrigðisvottorð og tilkynnti það stefnda 3. nóvember 2015.
Eins og fram er komið eru til tvær útgáfur af kjarasamningi stefnda og stéttarfélags stefnanda, Íslenska flugmannafélagsins, báðar dagsettar sama dag og undirritaðar af sama fólki. Eina ákvæðið sem skilur þessar tvær útgáfur að er grein 7.2 um laun í veikindaforföllum. Í annarri útgáfunni er veittur réttur til sex mánaða en í hinni til 13 mánaða.
Það auðveldar ekki lestur þessa kjarasamnings að þar eru hugtök ekki skilgreind sérstaklega. Hugtakið flugmaður hefur þar í það minnsta tvær merkingar. Annars vegar hefur það víða merkingu og tekur til allra þeirra sem hafa atvinnuflugmannsréttindi. Hins vegar hefur það í nokkrum ákvæðum þrengri merkingu. Grein 2.1 sýnir glöggt þessar tvær merkingar hugtaksins en hún hljóðar þannig:
Allir flugmenn skulu hafa fullgild starfsskírteini. Störf flugmanna skiptast þannig eftir réttindum og starfsaldri:
· Flugstjóri
· Flugmaður
· Byrjandi
Hvert sé nákvæmt inntak hugtaksins flugmaður í þrengri merkingu skal ósagt látið. Þó telur dómurinn ljóst að í þeim tilvikum þar sem flugmaður og flugstjóri eru tilteknir sérstaklega taki ákvæðið til flugmanna í þrengri merkingu og ekki byrjenda. Í öðrum tilvikum sé orðið flugmaður notað í víðari merkingunni. Grein 7.2 hljóðar svo:
Nú veikist flugmaður og forföll hans eru staðfest, skal þá greiða honum full laun í 6/13 mánuði, þó ekki lengur en til loka ráðningartímans.
Dómurinn telur að í þessu ákvæði sé hugtakið flugmaður notað í víðari merkingunni enda er starfsheitið flugstjóri ekki tiltekið þar sérstaklega og starfsheitið byrjandi ekki heldur undanskilið þessum rétti til launa í veikindaforföllum.
Þegar stefnandi hugðist endurnýja heilbrigðisvottorð sitt 3. nóvember 2015 reyndist hún veik í þeim skilningi að hún mátti ekki sinna því starfi sem hún var ráðin til hjá félaginu og ekki halda áfram þjálfun. Þegar veikindi hennar bar að hafði stefndi ekki tekið neina ákvörðun um að segja henni upp störfum. Dómurinn telur starfsaldursreglur samkvæmt kjarasamningi og viðauka við hann ekki hafa átt við um stöðu stefnanda hjá stefnda. Stefndi gat sagt henni upp störfum með þeim fyrirvara sem gilti um fastráðna starfsmenn en hann varð þó að virða þau réttindi sem stefnandi hafði áunnið sér samkvæmt kjarasamningi til launa á veikindatíma en eins og fram er komið hefur stefnandi ekki enn náð þeirri heilsu að hún megi fljúga.
Báðar útgáfur kjarasamningsins eru undirritaðar af fimm mönnum, tveimur frá stefnda og þremur frá Íslenska flugmannafélaginu. D, flugrekstrarstjóri stefnda, annar þeirra sem ritaði undir samningana fyrir stefnda, bar fyrir dóminum að það eintak þar sem veikindarétturinn er skemmri sé það eintak sem unnið sé eftir. Stefnandi hefði getað leitt einhvern þeirra þriggja sem rituðu undir kjarasamningana fyrir hönd ÍFF. Hún lét hjá líða að gera það og hefur því ekki hnekkt þessari fullyrðingu stefnda. Því þykir verða að miða við að sú útgáfa kjarasamningsins þar sem réttur flugmanns til launa í veikindum nemur sex mánuðum sé hin rétta.
Stefnandi fékk greidd laun í nóvember og desember 2015. Í varakröfu sinni krefst hún launa á veikindatímabilinu janúar til og með apríl 2016 ásamt orlofi. Stefndi hefur ekki hnekkt því að fjárkrafan sé rétt reiknuð út og því verður fallist á varakröfu stefnanda um laun á veikindatímabili eins og hún er sett fram.
Þá þarf að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi átt rétt til skírteinistryggingar.
Í grein 8.1 í kjarasamningnum segir:
Um tryggingar B og flugmanna vísast til viðauka við samning þennan. B skal fyrir 1. mars ár hvert senda staðfestingu um tryggingar flugmanna til félagsins þar sem fram koma skilmálar þeirra.
Í viðaukanum um tryggingar segir um skírteinistryggingu:
B skal á sinn kostnað tryggja skírteini hvers flugmanns fyrir USD 436.000. Trygging þessi skal ná yfir réttindamissi vegna sjúkdóma eða slyss eða samkvæmt nánari skilgreiningu í tryggingarskilmálum. Greiða skal óskerta tryggingarfjárhæð að 60 ára aldri vegna missis skírteinis, enda þótt sennilegt verði talið að hinn tryggði geti síðar meir stundað aðra atvinnu en þá sem skírteini hans gildir fyrir. Byrjanda ber eigi skírteinistrygging, fyrr en hann hefur öðlast full starfsréttindi og skipar jafnframt sæti flugmanns.
Eins og kjarasamningurinn í heild sinni hefði þetta ákvæði viðaukans að ósekju mátt vera skýrar orðað. Í því er hugtakið flugmaður fyrst notað í víðri merkingu en ekki sem starfsheiti því flugstjórar eru ekki tilgreindir sérstaklega. Það er ekki fyrr en í lok málsgreinarinnar sem í ljós kemur að hugtakið er aðeins að hluta til notað í víðri merkingu því byrjandi þarf að uppfylla sérstök skilyrði til þess að njóta tryggingarinnar. Þeirra á meðal þarf hann að hafa öðlast full starfsréttindi og skipa jafnframt sæti flugmanns. Þarna í lokin stendur orðið flugmaður í þrengri merkingu, það er þeirri sem tekur hvorki til flugstjóra né byrjenda.
Aðilar kjarasamningsins hafa ekki heldur skilgreint hitt skilyrðið sem er hugtakið „full starfsréttindi“. Í það hugtak verður þó að leggja þá merkingu að í því felist réttindi sem eru ríkari en atvinnuflugmannsréttindi því allir flugmenn skulu samkvæmt grein 2.1 í kjarasamningnum hafa fullgild starfsskírteini, þeirra á meðal byrjendur.
Á herðum flugrekanda hvíla annars vegar skyldur við stjórnvöld og eftirlitsaðila samkvæmt lögum og reglugerðum og hins vegar skyldur við starfsfólk sitt samkvæmt kjarasamningi og reyndar einnig lögum. Skyldurnar vísa að sumu leyti í gagnstæðar áttir því stefndi þarf að þjóna tveimur herrum; annars vegar hinu opinbera og hins vegar starfsmönnum sínum. Engu að síður telur dómurinn að í þessu tilviki verði ekki hjá því komist að túlka þær skyldur sem stefndi ber samkvæmt kjarasamningi við einstaka starfsmenn út frá þeim skyldum sem löggjafinn leggur á hann við eftirlitsaðila og leyfisveitanda.
Dómurinn telur svarið við því hvort stefnandi eigi rétt til skírteinistryggingar velta á túlkun á hugtakinu „full starfsréttindi“ í viðauka kjarasamningsins um tryggingar.
Í þjálfunarhandbók sinni tilgreinir stefnandi þær kröfur sem hann gerir til flugliða til þess að þeir fái starfsréttindi sem flugmenn. Þær kröfur taka mjög mið af þeim kröfum sem eru gerðar til stefnda í lögum og reglugerðum, meðal annars í reglugerð ESB nr. 965/2012 til dæmis III. viðauka við hana svonefndum ORO-hluta, sbr. reglugerð nr. 237/2014 sem innleiddi hina fyrrnefndu.
Enda þótt stefnandi hafi fengið áritun í flugliðaskírteini sitt þess efnis að hún mætti fljúga A320-vélum eftir að hún hafði lokið þjálfun í flughermi í Frakklandi varð hún að fara í umskiptaþjálfun (Operator Conversion Course) hjá þeim flugrekanda sem hún hugðist starfa hjá og ljúka hæfnisprófi flugrekandans. Hún þurfti jafnframt að ljúka leiðarflugsprófi þegar hún hefði lokið leiðarflugi undir umsjón, sbr. grein ORO.FC.220 um umskiptaþjálfun á vegum flugrekanda og próf.
Á meðan stefnandi uppfyllti ekki skilyrði þessarar ESB-reglugerðar gat stefndi ekki ráðið hana til þess að fljúga á vélum hans án þess að hún væri undir umsjón þjálfunarflugmanns. Að mati dómsins verður að líta svo á að sá sem uppfyllir ekki skilyrði þessarar reglugerðar geti ekki talist hafa „full starfsréttindi“.
Sérhver flugmaður þarf reglubundið að fara í leiðarflugspróf og getur fallið á því síðar þótt hann hafi einu sinni staðist það.
Stefnandi fékk þá umsögn þjálfunarflugstjóra 14. október 2015 að hún hefði náð þeirri færni að hún gæti farið í prófið. Tveimur vikum síðar fékk hún umsögn annars þjálfunarflugstjóra þess efnis að hún hefði að svo stöddu ekki náð nægilegri færni til að fara í prófið. Nokkru síðar kom hennar eigin heilsufar í veg fyrir að hún gæti flogið flugvél. Hún átti því aldrei kost á að taka leiðarflugsprófið.
Stefnandi hafði því ekki náð að uppfylla þá forsendu fyrir skírteinistryggingunni að hafa öðlast „full starfsréttindi“ í skilningi viðauka við kjarasamninginn um tryggingar 18. nóvember 2015 þegar starfsmaður stefnda afhenti henni bréf þess efnis að ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi hennar. Af þeim sökum átti hún ekki rétt til skírteinistryggingar úr hendi stefnda.
Þar með þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort stefnandi hafi vitað að heilsufar hennar var ekki jafnfullkomið og heilsufar flugmanna þarf að vera en haldið því leyndu fyrir stefnda.
Til viðbótar þeim málsástæðum stefnanda, fyrir því að hún hafi verið fastráðinn flugmaður í þrengri merkingu þess hugtaks, sem dómurinn hefur tekið afstöðu til, teflir stefnandi fram þeirri að hún hafi frá og með 15. október 2015 fengið greidd laun eins og flugmaður.
Dómurinn telur að það eitt að starfsmaður fái greidd laun eins og flugmaður geti ekki haft þau réttaráhrif að hann njóti stöðu flugmanns í þrengri merkingu, sérstaklega ekki þegar viðkomandi hafði ekki náð þeirri sérstöku starfshæfni sem mælt er fyrir um í ESB-reglugerð nr. 965/2012. Stefndi greiddi stefnanda laun í samræmi við grein 11.7 í kjarasamningnum frá því að talið var upphaflega, 14. október, að hún gæti farið í leiðarflugsprófið. Engu að síður komst stefnandi aldrei í það próf og náði þar með ekki heldur að standast það og gat því í raun réttri aldrei borið starfsheitið flugmaður, sbr. sundurliðun á starfsheitum í grein 2.1, þótt vonir bæði hennar og starfsmanna stefnda hafi staðið til þess.
Þýðingarmestu sönnun þess að hún hafi notið stöðu flugmanns í þrengri merkingu kjarasamningsins telur stefnandi yfirlýsingu flugrekstrarstjóra á fundi 12. ágúst 2015.
Fram er komið að í kjarasamningi stefnda og ÍFF er á tveimur stöðum getið um samstarfsnefnd flugmanna og stefnda. Á öðrum staðnum er henni ætlað að fjalla um deilur sem rísa út af kjarasamningnum og á hinum staðnum segir að hún sé samstarfs- og umræðuvettvangur. Þess er hvorki getið að henni sé ætlað að leiða deilumál til lykta né hvaða réttaráhrif ákvarðanir sem hún tekur eða yfirlýsingar sem eru gefnar á fundum eigi að hafa.
Það er jafnframt komið fram að á fundi sem nefndin hélt 12. ágúst 2015 lýsti D, flugrekstrarstjóri stefnda, yfir því að sérhver flugmaður, sem ynni þá fyrir B, þar með taldir sumarstarfsmenn, héldi vinnu sinni yfir vetrarmánuðina. Fundargerðin var send D til staðfestingar sama dag og fundurinn var haldinn. Ekki verður annað séð af tölvupósti sem hann sendi fundarritara sex vikum síðar, 22. september, en að hann sé samþykkur efni fundargerðarinnar (All ok.). Efni þeirrar yfirlýsingar sem er höfð eftir honum í fundargerðinni er afdráttarlaust og verður að mati dómsins að telja yfirlýsinguna gilt loforð sem starfsmenn stefnda máttu telja stefnda bundinn við.
Stefndi ber því við að forsenda hans fyrir því að ráða manneskju í stöðu flugmanns, og þar með forsenda þessarar yfirlýsingar flugrekstrarstjórans, sé að viðkomandi hafi uppfyllt skilyrði ESB-reglugerðarinnar og staðist leiðarflugsprófið.
Það hefði vitaskuld verið ótvíræðara að gera þá kröfu að skriflegu skilyrði. Þegar litið er til þeirra krafna sem flugrekendum ber að gera til þeirra flugliða sem þeir ráða til starfa fellst dómurinn á að það hafi verið óorðuð forsenda þess að stefndi gæti ráðið fólk til starfa sem flugmenn í þrengri merkingu þess hugtaks samkvæmt kjarasamningnum að það fólk uppfyllti skilyrði reglugerðar ESB nr. 965/2012.
Dómurinn telur jafnframt að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um þessa forsendu enda tekur þjálfunin sem hún var í, og er ítarlega rakin í þjálfunarhandbók stefnda, mið af þeim kröfum sem honum ber að lögum að gera til þeirra sem hann ræður til starfa. Stefnandi hlaut því að gera ráð fyrir því að til þess að fá að gegna starfi flugmanns hjá stefnda, eins og áður segir í þrengri merkingu þess orðs samkvæmt kjarasamningnum, þyrfti hún að hafa staðist allar kröfur reglugerðarinnar.
Vegna þessarar brostnu forsendu gat yfirlýsing flugrekstrarstjórans á fundinum 12. ágúst 2015 aldrei skapað stefnanda þá réttarstöðu sem hún byggir á að hún hafi notið þegar henni var sagt upp störfum hjá stefnda.
Af sömu ástæðu telur dómurinn það ekki heldur geta haft þýðingu þótt stefndi hafi tilkynnt tryggingarfélagi sínu að stefnandi væri einn þeirra starfsmanna hans sem nytu skírteinistryggingar.
Dómurinn hefur því fallist á að stefnandi hafi verið flugmaður í víðari merkingu þess hugtaks samkvæmt kjarasamningi stefnda og stéttarfélags stefnanda, Íslenska flugmannafélagsins, og þar með í merkingu greinar 7.2 í samningnum, svo og að ráðningarsambandið hafi verið varanlegt þegar henni var sagt upp störfum 18. nóvember 2015. Það er jafnframt niðurstaða dómsins að sú útgáfa kjarasamningsins þar sem veikindaréttur nemur sex mánuðum sé rétt útgáfa hans. Af þeim sökum er fallist á þá varakröfu stefnanda að stefndi greiði henni það sem ógreitt er af þeim rétti til launa í veikindum.
Dómurinn hefur hins vegar hafnað öllum málsástæðum sem stefnandi færir fyrir því að hún hafi verið flugmaður í þrengri merkingu þess orðs í kjarasamningnum. Dómurinn hefur einnig hafnað því að hæfni stefnanda á flugvélar hafi, þegar henni var sagt upp varanlegu ráðningarsambandi, uppfyllt skilyrði hugtaksins „full starfsréttindi“ í skilningi viðauka við kjarasamninginn um tryggingar. Af þeim sökum hafnar dómurinn því að stefnda beri að greiða stefnanda ígildi skírteinistryggingar.
Stefnandi hefur einungis náð fram hluta krafna sinna. Til þess þó að ná fram greiðslu veikindaréttar þurfti hún að höfða þetta mál gegn fyrrum vinnuveitanda sínum. Því þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.250.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Stefndi, B ehf., greiði stefnanda, A, 2.840.077 kr. með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 614.416 kr. frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 1.228.832 kr. frá þeim degi til 1. apríl 2016, af 1.843.248 kr. frá þeim degi til 1. maí 2016, en af 2.840.077 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði stefnanda 2.250.000 kr. í málskostnað.