Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldabréf
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Lögvarðir hagsmunir


                                     

Þriðjudaginn 9. júní 2015.

Nr. 372/2015.

Kjartan Hallgeirsson

(Guðmundur Jónsson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Lögvarðir hagsmunir.

K krafðist þess að fellt yrði úr gildi árangurslaust fjárnám sem gert hafði verið hjá honum að beiðni L hf. á grundvelli skuldabréfs sem K hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Byggði K á því að ógilda bæri ábyrgðina með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem aðstöðumunur hefði verið á milli aðila, auk þess sem sér hefði hvorki verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir í samræmi við skilmála skuldabréfsins né hefði L hf. látið fram fara greiðslumat á aðalskuldara í tilefni af undirritun ábyrgðarinnar. Þá hefði bankinn vanrækt að tilkynna K um vanskil aðalskuldara bréfsins, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2009 um ábyrgðarmenn. Í úrskurði héraðsdóms var kröfu K hafnað með vísan til þess að ákvæði skuldabréfsins um ábyrgðina hefðu verið auðskilin og K alvanur samningagerð sem löggiltur fasteignasali. Þá bæru fjöldi tilkynninga um vanskil, sem prentaðar hefðu verið úr tölvukerfi L hf., með sér að þær hafi verið sendar á heimili K. Aðrar fyrrgreindra málsástæðna kæmust ekki að í málinu þar sem þær væru of seint fram komnar. Varakröfu K, sem laut að því að aðfarargerðin yrði felld úr gildi að því er varðaði aðrar kröfur en höfuðstól, var einnig hafnað. Í Hæstarétti var hinn kærði úrskurður staðfestur með þeirri athugasemd um varakröfu K að fjárnáminu hefði verið lokið án árangurs á grundvelli yfirlýsingar K um eignaleysi. Að því virtu gæti engu breytt fyrir K fyrir hverri fjárhæð var leitast við að gera fjárnám og hefði hann af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur yrði felldur á þá kröfu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015, þar sem leyst var úr ágreiningi um fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 9. maí 2014 fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að „ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík um árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila“ verði felld úr gildi, en til vara að ákvörðun þessi verði felld úr gildi ,,hvað varðar aðrar kröfur en höfuðstól“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á mál þetta rætur að rekja til þess að sóknaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu varnaraðila samkvæmt skuldabréfi útgefnu 5. mars 2009 af nafngreindu einkahlutafélagi, en höfuðstóll skuldarinnar, sem bundinn var vísitölu neysluverðs, var upphaflega 2.300.000 krónur og átti að endurgreiða skuldina ásamt nánar tilteknum vöxtum með 120 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 19. mars 2009. Vanskil munu hafa orðið á greiðslum af skuldabréfinu frá september 2009 og var bú útgefanda þess tekið til gjaldþrotaskipta 12. febrúar 2010. Að undangenginni greiðsluáskorun til sóknaraðila leitaði varnaraðili fjárnáms hjá honum með beiðni 25. október 2013. Mætt var af hálfu sóknaraðila til gerðarinnar sem fór fram 9. maí 2014. Sýslumaður hafnaði mótmælum sóknaraðila gegn framgangi hennar, umboðsmaður sóknaraðila lýsti hann eignalausan og var gerðinni við svo búið lokið án árangurs. Sóknaraðili leitaði 4. júlí 2014 úrlausnar héraðsdóms um gerðina og var mál þetta þingfest af því tilefni 3. október sama ár. Fyrir héraðsdómi gerði sóknaraðili sömu dómkröfur og áður greinir, en líta verður svo á að hann krefjist þess aðallega að fjárnámið 9. maí 2014 verði fellt úr gildi og til vara að því verði breytt á þann hátt að það taki aðeins til höfuðstóls kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 5. mars 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hafnað aðalkröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnámsins sem gert var hjá honum 9. maí 2014. Fjárnámi þessu var sem fyrr segir lokið án árangurs á grundvelli yfirlýsingar sóknaraðila við gerðina um að hann væri eignalaus. Að því virtu getur engu breytt fyrir sóknaraðila fyrir hverri fjárhæð var leitast við að gera fjárnám og getur hann af þeim sökum ekki haft lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur verði felldur á varakröfu sína. Verður þannig staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfum sóknaraðila, svo og um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kjartan Hallgeirsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 19. mars sl. Sóknaraðili er Kjartan Hallgeirsson, [...], [...], en varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila í máli nr. 011-2013-12854 frá 9. maí 2014 verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að sama ákvörðun sýslumannsins verði felld úr gildi hvað varðar aðrar kröfur en höfuðstól. Til þrautavara er þess krafist að réttaráhrif aðfarargerðarinnar frestist á meðan aðfarargerðin er til meðferðar hjá Hæstarétti með vísan til 3. mgr. laga nr. 90/1989. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins í Reykjavík nr. 011-2013-03218 verði látin standa óhögguð. Þá er krafist málskostnaðar.     

II

Málavextir

Hinn 5. mars 2009 gaf Icelandic clothing company ehf. út skuldabréf til varnaraðila (sem þá hét NBI hf.) að fjárhæð 2.300.000 krónur. Lánstíminn var til 10 ára og átti lánið að greiðast með 120 afborgunum á eins mánaðar fresti. Sóknaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. Í skilmálum skuldabréfsins kemur m.a. fram að fyrir gjaldfallinni fjárhæð megi gera aðför hjá útgefanda eða sjálfskuldarábyrgðaraðilum til fullnustu skuldarinnar, án undangengins dóms eða réttarsáttar, samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Skuldin hefur verið í vanskilum síðan í september 2009. Framangreint einkahlutafélag var úrskurðað gjaldþrota 12. febrúar 2010 og mun ekkert hafa greiðst upp í kröfu varnaraðila á hendur félaginu. Óumdeilt er að sóknaraðila voru send innheimtubréf vegna skuldarinnar vorið 2013 en aðila greinir á um hvort hann hafi fyrir þann tíma fengið tilkynningar frá varnaraðila vegna ábyrgðar sinnar. Sóknaraðili kveður sér ekki hafa verið kunnugt um að skuldabréfið væri í vanskilum fyrr en honum bárust framangreind innheimtubréf. Með bréfi sínu 17. september 2013 til varnaraðila, krafðist sóknaraðili þess að sjálfskuldarábyrgð sín yrði felld niður vegna vanrækslu varnaraðila á tilkynningaskyldu en varnaraðili hafnaði kröfunni með bréfi 24. sama mánaðar. Hinn 25. október 2013 óskaði varnaraðili eftir því við sýslumanninn í Reykjavík að fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila á grundvelli sjálfskuldarábyrgðarinnar fyrir 4.064.279 krónum. Hinn 9. maí 2014 var gert árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila þrátt fyrir andmæli hans. Með bréfi sem barst dóminum 4. júlí sl. krafðist sóknaraðili ógildingar fjárnámsins.

Frá 1. janúar sl. tilheyrir embætti sýslumannsins í Reykjavík embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sbr. reglugerð nr. 1151/2014.

Sóknaraðili gaf skýrslu í málinu.                                   

III

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að sjálfskuldarábyrgð hans sé niðurfallin vegna vanrækslu varnaðaraðila á tilkynningarskyldu skv. 2. mgr., sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Gögn málsins gefi til kynna að ekkert hafi verið aðhafst með innheimtu á hendur sóknaraðila í tæp fjögur ár. Fullyrðingar varnaraðila um að sóknaraðila hafi borist tilkynningar fyrir árið 2013 séu ótrúverðugar enda liggi engin gögn því til staðfestingar. Eina sem liggi fyrir séu tölvugerðar útprentanir sem ekki hafi verið afhentar fyrr en í október 2013, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Sóknaraðila hafi aldrei borist tilkynning um gjaldþrot aðalskuldara bréfsins 12. febrúar 2010, sbr. c-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Þá hafi honum aldrei borist yfirliti yfir ábyrgðir sínar, sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna.       

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að ógilda beri samninginn um sjálfskuldarábyrgð með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verulegur aðstöðumunur hafi verið með aðilum við samningsgerðina og ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig. Í munnlegum málflutningi vísaði sóknaraðili enn fremur til þess að honum hefði ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir eins og vísað sé til í 13. tl. skuldabréfsins og að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á aðalskuldara í samræmi við samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra stóðu að. Því bæri að fella niður ábyrgð hans með vísan til framangreinds lagaákvæðis.

Varakröfu sína styður sóknaraðili m.a. við 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og telur að vanræksla og tómlæti varnaraðila eigi að leiða til þess að vextir og annar kostnaður falli niður.

Um málskostnaðarkröfu vísar sóknaraðili til 1. mgr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að sóknaraðili hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð gagnvart eiganda lánsins með undirritun á umrætt skuldabréf. Hafi hann jafnframt lýst því yfir að hann hefði kynnt sér efni upplýsingabæklings varnaraðila um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Andvirði skuldabréfsins hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu á yfirdrætti á hlaupareikningi félagsins en sóknaraðili hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á þeim reikningi fyrir allt að tveimur milljónum króna auk vaxta og kostnaðar.

Varnaraðili mótmælir því að hin umrædda sjálfskuldarábyrgð sé niður fallin vegna vanrækslu á tilkynningarskyldu. Lögð hafi verið fram afrit af fjölmörgum bréfum frá varnaraðila til sóknaraðila og verði að telja að verulegur ólíkindablær sé á staðhæfingum sóknaraðila þess efnis að umrædd bréf hafi aldrei borist honum. Augljóst sé af gögnum málsins að bankinn hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni samkvæmt a-lið og d-lið 7. gr. laga nr. 32/2009. Þó hafi ekki fundist afrit af tilkynningu til sóknaraðila um gjaldþrot aðalskuldara með vísan til c-liðar sama ákvæðis og sé því hugsanlegt að farist hafi fyrir að senda sóknaraðila þá tilkynningu. Hafi svo verið þá fari því fjarri að slíkt geti talist veruleg vanræksla í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Varnaraðili hafi hins vegar verið búinn að senda sóknaraðila nokkur bréf nokkrum mánuðum fyrir gjaldþrot aðalskuldara þannig að honum mátti ljóst vera að lánið væri í vanskilum en grandvar ábyrgðarmaður hefði í þeim sporum sett sig í samband við varnaraðila og eftir atvikum fyrirsvarsmenn aðalskuldara sem hafi verið systir hans og mágur. Það hafi sóknaraðili ekki gert, heldur þvert á móti látið allar tilkynningar sem vind um eyru þjóta og ekki brugðist við fyrr en honum sýndist stefna í óefni þegar formleg innheimta ábyrgðarinnar hafi hafist.

Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að ógilda beri ábyrgð hans með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki sé með neinu móti reynt að rökstyðja í hverju hinn meinti aðstöðumunur fólst og hvaða áhrif hann átti að hafa haft við samningsgerðina né hvers vegna það sé ósanngjarnt af hálfu varnaraðila að bera samninginn fyrir sig. Ekki er heldur leitast við að sýna fram á að það stafi af einhverjum eða öllum þeim tilvikum sem tilgreind eru í 2. mgr. 36. gr. framangreindra laga og eru grundvöllur ósanngirnismatsins. Að mati varnaraðila verði einnig að líta til þess að sóknaraðili sé löggiltur fasteignasali með tæplega 20 ára reynslu af fasteignasölu og sé einn af eigendum elstu starfandi fasteignasölu landsins. Þá sé hann einnig stjórnarmaður í félagi fasteignasala. Verði því ekki annað séð en að hann sé margreyndur í atvinnurekstri og ætti honum því að hafa verið fullkunnugt um hvað hann var að rita undir og þýðingu þess að gangast í sjálfskuldarábyrgð. Varnaraðili mótmælir málsástæðu sóknaraðila, þess efnis að ógilda beri ábyrgðina þar sem honum hefði ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir og að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á aðalskuldara, sem of seint fram kominni. Enn fremur sé hún haldslaus þar sem sóknaraðili hafi með undirskrift sinni á skuldabréfið staðfest að hafa verið kynntur upplýsingabæklingurinn og þá gildi umrætt samkomulag frá 1. nóvember 2001 ekki um ábyrgðir á skuldum fyrirtækja líkt og um ræðir í þessu máli.

                Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 90/1989, laga nr. 91/1991, laga nr. 150/2007, laga nr. 32/2009 og laga nr. 7/1936 en um málskostnað er vísað til 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að fellt verði úr gildi árangurslaust fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 9. maí 2014 að kröfu varnaraðila. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu byggist aðfararbeiðni varnaraðila á skuldabréfi sem Icelandic clothing company ehf., sem nú er gjaldþrota, gaf út til varnaraðila, 5. mars 2009 að fjárhæð 2.300.000 krónur. Gekkst sóknaraðili í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. Í skýrslu hans fyrir dóminum kom fram að hann hefði gengið í ábyrgð af greiðasemi við systur sína en eiginmaður hennar, mágur sóknaraðila, hefði verið fyrirsvarsmaður nefnds félags. Sóknaraðili kannast við að hafa um ári áður gengið í skjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 2.000.000 króna vegna yfirdráttar á reikningi félagsins hjá varnaraðila. Sóknaraðili gat ekki upplýst hvort þeir peningar sem fengnir voru að láni skv. skuldabréfinu hefðu farið til greiðslu framangreindrar yfirdráttarskuldar, eins og haldið er fram af hálfu varnaraðila. Skuld skv. skuldabréfinu fór í vanskil í september 2009 og var bú aðalskuldara tekið til gjaldþrotaskipta 12. febrúar 2010. Mun ekkert hafa fengist upp í kröfu varnaraðila.

                Sóknaraðili vísar til þess að ógilda beri samninginn um sjálfskuldarábyrgð með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem verulegur aðstöðumunur hefði verið á aðilum við samningsgerðina og ósanngjarnt sé af varnaraðila að bera samninginn fyrir sig. Að mati dómsins eru ákvæði skuldabréfsins um eðli ábyrgðar sóknaraðila og umfang hennar einföld og auðskilin hverjum sem er en um er að ræða hefðbundna skilmála í lánsviðskiptum. Þá ber að hafa í huga að sóknaraðili er alvanur samningagerð en hann hefur um langt skeið starfað sem löggiltur fasteignasali. Verður skuldbindingu hans samkvæmt skuldabréfinu því ekki vikið til hliðar á þessum grunni.

Við munnlegan málflutning vísaði sóknaraðili að auki til þess að honum hefði ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir eins og vísað sé til í 13. tl. skuldabréfsins og að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á aðalskuldara í samræmi við ákvæði samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra stóðu að. Því bæri að ógilda ábyrgðina á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Af hálfu varnaraðila var þessari málsástæðu sóknaraðila mótmælt sem of seint fram kominni. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, skulu málsástæður koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema með samþykki gagnaðila. Gegn andmælum varnaraðila kemst hún ekki að í málinu en ekki er unnt að fallast á það með sóknaraðila að það hafi fyrst verið tilefni fyrir hann að byggja á þessari málsástæðu eftir að greinargerð varnaraðila og umræddur upplýsingabæklingur um ábyrgðir voru lögð fram. Enn fremur er til þess að líta að greinagerðin var lögð fram 21. nóvember 2014. Hefði sóknaraðila því verið í lófa lagið að koma málsástæðunni að við næstu fyrirtöku málsins 27. janúar 2015.

                Sóknaraðili byggir jafnframt á því að sjálfskuldarábyrgð hans sé niður fallin sökum þess að varnaraðili hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. 7. gr. laga nr. 39/2009 um ábyrgðarmenn. Lögin tóku gildi skömmu eftir að sóknaraðili gekk í ábyrgð en þau taka til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum tilteknum ákvæðum þeirra en ákvæði 7. gr. er þar ekki undanskilið. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega, svo fljótt sem kostur er, m.a. tilkynningu um vanefndir lántaka, tilkynningu um að veð eða aðrar tryggingar séu ekki lengur tiltækar og tilkynningu um andlát lántaka eða hvort bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá skal lánveitandi eftir hver áramót senda upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að hann hafi ekki fengið tilkynningar um vanskil aðalskuldara í samræmi við framangreindar reglur fyrr en með innheimtubréfum sem bárust honum á vordögum 2013. Í málinu liggja fyrir samrit fjölda tilkynninga, sem varnaraðili kveðst hafa sent sóknaraðila. Eru það tilkynningar um vanskil skuldabréfsins frá árinu 2009, dagsettar 1. og 18. júní, 17. júlí, 18. ágúst og 25. ágúst, 19. og 25. september og 16. og 23. október. Enn fremur tilkynningar um yfirlit ábyrgða sóknaraðila hjá varnaraðila frá ársbyrjun 2010, 2011, 2012 og 2013 þar sem fram kemur að hann sé ábyrgðarmaður á umræddu skuldabréfi sem sé í vanskilum. Varnaraðili ber sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningaskyldu hafi verið gætt en lög um ábyrgðarmenn mæla hins vegar ekki fyrir um að tilkynningar skuli sendar með sannanlegum hætti. Umræddar tilkynningar, sem munu hafa verið prentaðar út úr tölvukerfi varnaraðila, bera með sér að hafa verið sendar á heimili sóknaraðila. Því er ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að hann hafi ekki fengið tilkynningarnar. Hvað sem því líður verður að telja að möguleg vanræksla varnaraðila á því að senda tilkynningarnar geti ekki leitt til þess að ábyrgð sóknaraðila yrði að fullu felld niður, enda hefur hann ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess. Verður því ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila þess efnis að hin árangurslausa aðfarargerð verði felld úr gildi.

Sóknaraðili gerir þá varakröfu að ákvörðun sýslumannsins verði felld úr gildi hvað varðar aðrar kröfur en höfuðstól. Þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili yrði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði vegna hins umþrætta láns er til þess að líta að ekki liggur fyrir að lækkuð krafa myndi leiða til þess að hann gæti bent á eignir til fullnustu henni, þ.e. aðfarargerðinni yrði samt sem áður lokið án árangurs. Því verður að hafna varakröfu sóknaraðila.

                Ekki eru efni til að fallast á þrautavarakröfu sóknaraðila um að réttaráhrif aðfarargerðarinnar frestist á meðan aðfarargerðin er til meðferðar hjá Hæstarétti.

Samkvæmt öllu framangreindu ber að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu. Fallist er á kröfu varnaraðila um að gerðin verði staðfest.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Við meðferð málsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur Jónsson hdl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Þorvaldur Emil Jóhannesson hdl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                                     Ú R S K U R Ð A R O R Р                                    

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kjartans Hallgeirssonar, um að aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum án árangurs 9. maí 2014, að beiðni varnaraðila Landsbankans hf.,  verði ógilt og er gerðin staðfest.

Málskostnaður fellur niður.