Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 20. mars 2013. |
|
Nr. 184/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Víðir Smári Petersen hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 27. mars 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af gögnum málsins verður ráðið að móðir hins látna barns hafi farið að heiman frá sér um klukkan 17.40 mánudaginn 18. mars 2013 og varnaraðili þá verið einn með barnið. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað móðirin barnið hafa verið sofandi er hún yfirgaf heimilið og ekkert amað að því. Hún kvaðst hafa haft samband við varnaraðila símleiðis klukkan 18.15 og hann sagt að eitthvað væri að barninu. Leið þannig einungis liðlega hálf klukkustund frá því móðir barnsins fór að heiman þar til varnaraðili kvað eitthvað vera að því. Um klukkan 20 að kvöldi sama dags var tekin tölvusneiðmynd af höfði barnsins sem sýndi útbreidda blæðingu hægra megin undir höfuðkúpubeini. Ekki tókst að bjarga lífi barnsins með skurðaðgerð og var það úrskurðað látið um klukkan 2 aðfaranótt næsta dags vegna heilablæðingar. Samkvæmt vottorði sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum var útlit blæðingar í heila barnsins nokkuð dæmigert fyrir blæðingu af völdum áverka, höggs eða að heili kastist til innan höfuðkúpu. Þá voru marblettir á upphandleggjum þess. Að framangreindu virtu er varnaraðili undir rökstuddum grun um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og eru uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi svo sem krafist er. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til miðvikudagsins 27. mars 2013 kl. 16.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú andlát A kt. [...] sem í gærkvöldi hafi verið flutt meðvitundarlaust af heimili sínu í Reykjavík á Landspítalann við Hringbraut og hafi verið úrskurðuð látin laust eftir kl 02:00 í nótt.
Upplýst sé að kl. 19 í gærkvöldi hafi verið óskað eftir sjúkrabíl að heimili barnsins vegna veikinda þess. Það hafi verið nágrannar sem höfðu hringt að beiðni föður þess en faðirinn hafi verið einn heima með barnið. Barnið hafi þá verið meðvitundarlaust en andaði. Þegar barnið hafi verið flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann hafi það farið í krampa í sjúkrabílnum og púlsinn lækkað og hafi því verið gefið súrefni.
Við líkamsskoðun á stúlkunni hafi sést marblettir ofarlega á báðum upphandleggjum, sérstaklega hægra megin. Fljótlega eftir komu á slysadeild hafi komið í ljós að annað sjáaldrið hjá barninu hafi verið víðara en hitt og hafi verið því farið með barnið í tölvusneiðmynd á höfði. Tölvusneiðmyndin hafi sýnt útbreidda blæðingu hægra megin undir höfuðkúpubeini, innanbastblæðing, sem hafi legið yfir nær öllu hægra heilahvelinu og inn á milli heilahvelanna. Þá hafi æðar í höfði barnsins reynst sprungnar og háræðar rifnar. Stúlkan hafi látist að lokum vegna heilablæðingar.
Það sé niðurstaða læknis sem skoðaði barnið að útlit blæðingarinnar samræmdist blæðingu af völdum áverka, höggs eða því þegar heili kastast til inni í höfuðkúpu. Þá bendi áverkar á höndum einnig til þess að áverki hafi átt sér stað.
Kærði neiti að vera valdur að áverkum dóttur sinnar. Hafi hann greint lögreglu frá því að barnið hafi vaknað skömmu eftir að móðir þess fór til vinnu. Barnið hafi grátið og verið óvært en hann hafi reynt að róa það með því að ganga með það um gólf og fara með það út að ganga. Þegar kærði hafði gengið um gólf með barnið eftir að hann kom inn úr göngutúrnum hafi farið að koma frá henni undarleg hljóð og jafnframt hafi líkami hennar orðið máttlaus. Kvaðst kærða hafa brugðið við þetta og reyndi hann í fyrstu að smella fingrum framan í telpuna til að láta hana ranka við sér, en án árangurs. Í framhaldinu hafi hann leitað til nágranna sinna og beðið þá að hringja á sjúkrahús. Stuttu síðar hafi sjúkrabíll komið og barnið verið flutt á Landspítalann í honum.
Að sögn B, móður A, hafi hún tekið strætisvagn í vinnu kl. 17:40 og hafi barnið þá verið sofandi í hjónarúmin á heimili hennar og kærða og ekkert amaði að því. B hafi vonað að A myndi sofa eins lengi og hún gæti því að hún vissi að A mynda fara að gráta þegar hún vaknaði og að mamma hennar væri ekki á staðnum. B segist hafa hringt heim um það bil 18:15 og þá hafi kærði sagt henni að A hafði vaknað stuttu eftir að hún fór. B hafi þá heyrt að A hafi verið grátandi. B segist svo hafa verið við vinnu sína kl 18:45-18:50 þegar hringt var þangað. Það hafi verið kærði og hann hafi sagt að eitthvað væri að A, hann væri hjá nágrannanum og ætlaði að fara með hana upp á spítala. B sagði A einungis hafa viljað vera hjá henni og færi alltaf að gráta ef aðrir en hún héldu á henni. Sagðist hún vita til þess að kærða þætti þetta leiðinlegt.
Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum rökstuddum grun um að vera valdur að dauða dóttur sinnar, A. Það sé mat C sérfræðings á Landspítalanum að andlát A gæti hafa komið til af völdum áverka, höggs eða því að heili kastist til innan í höfuðkúpu. Þá bendi marblettir á upphandleggjum til þess að áverki hafi átt sér stað. Með hliðsjón af því og framburði B telur lögregla sterkar líkur á að kærði hafi valdið A framangreindum áverkum sem drógu hana að lokum til dauða.
Brot kærða er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kunna að varða 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu. Að mati lögreglu má ætla að ef kærði verður látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins. Það er því mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt og er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa valdið dauða ungs barns síns og að hafa brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn því ákvæði kann að varða fangelsi í 16 ár eða allt að ævilangt. Kærði neitar því að vera valdur að áverkum sem eru á barninu og taldir eru hafa valdið dauða þess. Ráða má af læknisvottorði í málinu að áverkarnir á barninu geti að einhverju leyti verið eldri en sá ferski áverki sem fannst á barninu við komu þess á spítala í gærkveldi. Þá var barnið marið í handarkrikum. Rannsókn málsins er á byrjunarstigi. Eftir er að yfirheyra nágranna og móður barnsins og hugsanlega fleiri vitni. Telja verður hættu á því að kærði gæti torveldað rannsókn málsins, fengi hann að ganga laus og hafa samband við aðra. Eru því uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 fyrir því að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun. Ber því að taka kröfu lögreglustjórans til greina.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til miðvikudagsins 27. mars 2013 kl. 16.