Hæstiréttur íslands

Mál nr. 372/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni


                                                                                              

Fimmtudaginn 5. júní 2014.

Nr. 372/2014.

Sérstakur saksóknari

(Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

A

Á

B

C

D

Ð

E

É

F

G

H

I

Í

J

K

L

M

N

O

Ó

P

R

S

T

U

Ú

V

Y

Ý

Þ

Æ

Ö

Aa

Bb

Cc

Dd

Ee

Éé

Ff

Gg

Hh

(Garðar G. Gíslason hdl.)

Kærumál. Vitni

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S hf. o.fl. um að teknar yrðu skýrslur af nánar tilgreindum einstaklingum vegna kröfu um að haldi á gögnum yrði aflétt.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að nánar tilgreindir einstaklingar yrðu leiddir sem vitni fyrir dóm vegna kröfu um að haldi á gögnum yrði aflétt. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að þeim verði heimilað að leiða vitnin fyrir dóm.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á það með héraðsdómi að skýrslur af þeim vitnum, sem varnaraðilar óska eftir að leidd verði fyrir dóm, séu þýðingarlausar við mat á kröfu þeirra um hvort haldlagningu á gögnum verði aflétt, sbr. 3. mgr. 106. gr. og 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.

Mál þetta var, með vísan til 2. mgr. 102. gr., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, borið undir héraðsdóm með kröfu um úrskurð um afléttingu haldlagningu sóknaraðila á gögnum í eigu varnaraðila, sem haldlögð voru að kröfu Seðlabanka Íslands á starfsstöðvum [...] að [...], [...], [...] í [...] og [...] að [...], [...], [...] og á starfsstöðvum [...] að [...], [...] og [...], [...]. Er gerð krafa um að haldlagningu sóknaraðila á umræddum gögnum verði aflétt, gögnin afhent varnaraðilum og afritum af gögnum eytt.

Í tengslum við framangreinda kröfu krefst varnaraðili þess að fá að leiða fyrir dóminn sem vitni sex starfsmenn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og lögreglufulltrúa við Embætti sérstaks saksóknara, en um er að ræða þáverandi forstöðumanni rannsókna hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands, starfsmanni rannsóknarsviðs gjaldeyriseftirlits bankans, lögfræðingi gjaldeyriseftirlitsins, forstöðumanni gjaldeyriseftirlitsins, aðstoðar Seðlabankastjóra, forstöðumanni eftirlitsdeildar gjaldeyriseftirlitsins og lögreglufulltrúa er ritað hefur undir lista um haldlögð gögn af hálfu sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í þessum þætti.

Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili fái að leiða vitni í málinu. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði ekki úrskurðaður málskostnaður. 

Var málið tekið til úrskurðar 21. maí sl. um kröfu varnaraðila um vitnaleiðslur.

Varnaraðilar lýsa því að þeir hafi uppi kröfu um að haldi sóknaraðila á gögnum í eigu varnaraðila verði aflétt, gögnin afhent varnaraðilum og afritum í vörslu sóknaraðila eytt. Á því sé byggt að frá öndverðu hafi skort skilyrði til haldlagningarinnar, bæði að því er varði form og efni. Þá hafi lög verið þverbrotin við meðferð á kröfu Seðlabanka Íslands um hald gagna, haldlagninguna sjálfa og meðferð þeirra gagna sem haldlögð hafi verið. Þannig hafi fulltrúar varnaraðila ekki verið kvaddir fyrir dóm við úrlausn um kröfu um haldlagningu. Gögnum hafi ekki verið haldið eftir í héraðsdómi, þrátt fyrir lagaskyldu. Útreikningar fiskverðs til grundvallar kröfu um húsleit og haldlagningu hafi byggst á röngum og villandi forsendum. Ekki hafi verið gerð tilraun til að aðskilja gögn varðandi ávirðingar Seðlabankans frá öðrum gögnum. Gögn allmargra varnaraðila hafi verið haldlögð án þess að heimild stæði til í úrskurði héraðsdóms. Ekki hafi verið gerðar haldlagningarskýrslur varðandi töluvert magn gagna. Ekki sé ljóst hvernig staðið hafi verið að framkvæmd haldlagningar hjá Seðlabankanum. Engar kvittanir eða skýrslur liggi fyrir um hvaða gögn hafi verið afhent sóknaraðila. Loks sé ekki enn ljóst hvaða gögn hann hafi í haldi, en fyrir liggi upplýsingar um að sóknaraðili viti það ekki, sbr. tölvupóstssamskipti milli sóknaraðila og varnaraðila.

Varnaraðilar hafi sætt óréttmætri málsmeðferð í skilningi mannréttindasáttmála Evrópu. Fái ekki staðist að sóknaraðili haldi áfram gögnum frá þeim. Varnaraðili vilji leiða nokkur vitni í þessum þætti. Sé ætlunin að leiða fram sönnun um forsendur, form- og efnislegar, og hvaða gögn hafi legið til grundvallar kröfu og úrskurði um haldlagningu. Á hvern hátt staðið hafi verið að framkvæmd haldlagningarinnar og meðferð hinna haldlögðu gagna. Hver samskipti við dómstóla hafi verið og á hvern hátt hagað hafi verið rannsókn hinna haldlögðu gagna. Ekki liggi fyrir af hvaða ástæðu Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að rannsaka málið sjálfur. Byggt sé á því að brotið hafi verið gegn ýmsum málsmeðferðarreglum sem leitt hafi til þess að dómstólum hafi verið veittar rangar upplýsingar. Nauðsynlegt sé að fá upplýst um verklag innan Seðlabankans. Alfarið skorti upplýsingar um lyktir málsins hjá Seðlabankanum. Þá sé enn óljóst um atriði sem varði endursendingu málsins til Seðlabankans frá sóknaraðila.

Þau vitni sem varnaraðili óski eftir að leiða séu þáverandi forstöðumaður rannsókna hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands, starfsmaður rannsóknarsviðs gjaldeyriseftirlits bankans, lögfræðingur gjaldeyriseftirlitsins, forstöðumaður gjaldeyriseftirlitsins, aðstoðar Seðlabankastjóri, forstöðumaður eftirlitsdeildar gjaldeyriseftirlitsins og lögreglufulltrúi er ritað hefur undir lista um haldlögð gögn af hálfu sóknaraðila, en listinn er dagsettur 20. maí 2014. Framburðir þessara vitna eigi að leiða í ljós þau atriði sem tilfærð hafi verið hér að framan.

Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðila verði heimilað að leiða vitni í málinu. Séu vitnaleiðslur tilgangslausar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Seðlabanki Íslands hafi lagt hald á gögn þau sem mál þetta snúist um. Seðlabankinn hafi síðar sent sóknaraðila málið til meðferðar samhliða því að leggja fram kæru í málinu. Fyrir liggi að lögaðila verði ekki refsað á grundvelli laga um gjaldeyrismál þar sem refsiheimild hafi skort til þess í þeim lögum. Af þeim ástæðum meðal annars hafi varnaraðilum verið skilað megninu af hinum haldlögðu gögnum. Af samtals 69 kössum hafi varnaraðilum verið skilað 64 og standi einungis 5 kassar eftir. Skilja verði á milli haldlagningar á gögnunum af hálfu Seðlabankans á sínum tíma og þeirrar rannsóknar sem nú sé í gangi af hálfu sóknaraðila á ætluðum brotum gegn lögum um gjaldeyrismál. Hafi málið ekki tafist um of í rannsókn hjá sóknaraðila.

Málsgrundvöllur kröfu varnaraðila sé 3. mgr. 106. gr. laga nr. 88/2008, en á grundvelli ákvæðisins sé unnt að krefjast þess að munnlegar skýrslur verði teknar fyrir dómi við meðferð máls skv. XV. kafla laganna. Munnlegar skýrslutökur séu augljóslega undantekning samkvæmt orðalagi ákvæðisins sjálfs, enda vísað til 3. mgr. 110. gr. í ákvæðinu. Aflétting halds byggi á 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Við ákvörðun á því hvort haldi skuli aflétt skipti undanfarandi atvik ekki máli við mat á því hvort viðhalda eigi haldi. Skilyrði fyrir haldlagningu komi fram í 1. mgr. 68. gr. laganna. Skilyrðin lúti að því hvort hlutir eða upplýsingar hafi að geyma sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Rannsókn sóknaraðila sjálfs hafi ekki tekið nema um 7 mánuði. Málið hafi því ekki dregist, en málið sé flókið og umfangsmikið. Ekkert af þeim atriðum sem varnaraðili vilji leiða í ljós með skýrslutökum í málinu skipti máli skv. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Séu skýrslutökurnar því tilgangslausar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Starfsmenn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands hafi ekki þekkingu á núverandi stöðu málsins og þeirri rannsókn sem fram fari. Lögreglufulltrúi sem tekið hafi saman lista yfir gögn sem eftir standi hafi ritað upp þau gögn sem sannanlega væru enn í húsi hjá sóknaraðila. Engan tilgang hefði að leiða hann fyrir dóminn til að staðhæfa um það. Skýrslan tali sínu máli.

Varnaraðilar vilji leiða í ljós atriði sem tengist upphafi málsins og á hvaða grundvelli það hafi farið af stað. Megi leiða líkur að því að það sé gert í þeim tilgangi að sýna fram á sök til stuðnings væntanlegum skaðabótakröfum. Sé varnaraðilum færar aðrar leiðir en að gera kröfu um munnlegar skýrslur í máli sem varði afléttingu halds skv. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008.

Niðurstaða:

            Hér fyrir dóminum er til úrlausnar hvort sóknaraðila beri að aflétta haldi á gögnum sem haldlögð voru af Seðlabanka Íslands samkvæmt úrskurðum héraðsdóms 24. og 27. mars 2012. Er slík kröfugerð heimil á grundvelli 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Við úrlausn um slíka kröfu verður mat lagt á hvort skilyrðum 1. mgr. 68. gr. sé fullnægt til að haldi verði áfram viðhaldið. Um meðferð kröfu skv. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 hér fyrir dómi fer eftir XV. kafla laganna, þ. á m. 106. gr. Samkvæmt ákvæðinu eru munnlegar skýrslur fyrir dómi heimilar, séu þær ekki bersýnilega tilgangslausar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laganna. Með því að leiða fyrir dóminn tilgreind vitni hyggjast varnaraðilar leiða í ljós að upphafleg meðferð málsins hjá Seðlabanka Íslands hafi verið verulega gölluð í ýmsum veigamiklum atriðum.

                Fyrir liggur að sóknaraðili hefur skilað varnaraðilum meginhluta þeirra ganga sem haldlögð voru í tveim húsleitum og stendur einungis lítill hluti gagna eftir. Þó svo vera kunni að skráningu hins haldlagða kunni að einhverju leyti að vera ábótavant, girðir það ekki fyrir að haldi kunni að vera við haldið, sé skilyrðum 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 á annað borð áfram fullnægt. Að fenginni endanlegri niðurstöðu um hvort mál verði höfðað á grundvelli rannsóknar í tengslum við hin haldlögðu gögn gefst varnaraðilum færi á að leiða í ljós hvort meðferð málsins á fyrri stigum hafi í einhverju verið ábótavant. Til þess tíma er rannsókn málsins orpin þeirri leynd, sem sóknaraðili telur nauðsynlega, á hverjum tíma. Eru boðaðar skýrslutökur að mati dómsins þýðingarlausar við mat á úrlausn um hvort enn séu til staðar skilyrði fyrir haldlagningu gagna. Verður kröfu varnaraðila um munnlegar skýrslutökur í málinu því hafnað.  

                Ekki verður úrskurðað um málskostnað.

                Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu varnaraðila, um að munnlegar skýrslur verði teknar fyrir dómi af þáverandi forstöðumanni rannsókna hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands, starfsmanni rannsóknarsviðs gjaldeyriseftirlits bankans, lögfræðingi gjaldeyriseftirlitsins, forstöðumanni gjaldeyriseftirlitsins, aðstoðar Seðlabankastjóra, forstöðumanni eftirlitsdeildar gjaldeyriseftirlitsins og lögreglufulltrúa er ritað hefur undir lista um haldlögð gögn af hálfu sóknaraðila, er hafnað.