Hæstiréttur íslands

Mál nr. 646/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Sératkvæði


Mánudaginn 10

 

Mánudaginn 10. desember 2007:

Nr. 646/2007.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann. Sératkvæði.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að uppfyllt væru skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og X því gert að sæta farbanni á meðan máli hans væri ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. janúar 2007, kl. 16.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 30. janúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í lögregluskýrslum liggur fyrir að varnaraðili hefur viðurkennt að hafa hitt konu í anddyri skemmtistaðar í Vestmannaeyjum aðfaranótt laugardagsins 22. september 2007 og hafa síðan átt kynmök við hana utandyra skammt frá. Í ljósi þess að kærandi virðist ekki gefa glögga lýsingu á geranda hjá lögreglu og í kæru varnaraðila er því borið við að hann hafi haft „samfarir við einhverja konu“, verður ekki hjá því komist að bíða eftir niðurstöðu úr greiningu lífsýna svo hægt verði að taka ákvörðun um framhald málsins.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili verði látinn sæta farbanni þann tíma sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. janúar 2008 kl. 16.

 

 

Sératkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Kærandi var ekki yfirheyrð hjá lögreglu fyrr en 15. nóvember 2007. Hún kvaðst lítið muna eftir atburðinum. Þau atvik sem hún taldi sig þó muna óljóst eftir geta samrýmst skýrslum varnaraðila sem hefur skýrt frá atburðarrásinni á sama hátt alveg frá fyrstu skýrslu 23. september 2007. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að bíða eftir niðurstöðu úr greiningu lífsýna til að unnt sé að taka ákvörðun um saksókn á hendur varnaraðila enda hefur hann viðurkennt að hafa haft mök við konu og fellt til hennar sæði á þeim stað og stundu sem um ræðir. Er ástæðulaust að gera því skóna að þar hafi verið um aðra konu en kæranda að ræða. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 þykir þó mega staðfesta hinn kærða úrskurð um farbann þann tíma sem telja má nægilegan til að taka ákvörðun um hvort höfða skuli opinbert mál á hendur varnaraðila á grundvelli þeirra rannsóknargagna sem þegar liggja fyrir eða til 14. desember 2007 kl. 16.

        

                                         Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. nóvember 2007.

Dóminum hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi þess efnis að X, pólskum ríkisborgara, kt. [...], með dvalarstað að [...] í Kópavogi, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn A, kt. [...], í Vestmannaeyjum aðfaranótt laugardagsins 22. september sl., verði gert að sæta farbanni til miðvikudagsins 30. janúar 2008 nk. kl. 16:00, eða þar til lögreglurannsókn í máli nr. 032-2007-04825 sé lokið og ákvörðun um saksókn hafi verið tekin. 

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að kærði hafi játað mök við kæranda en kvað þau hafa átt sér stað með samþykki hennar. Rannsókn málsins miði vel, skýrsla hafi verið tekin af kæranda málsins og öllum vitnum í málinu en beðið sé niðurstöðu rannsókna á fatnaði kæranda. Þá kemur fram í greinargerðinni að kærandi muni atburði kvöldsins í brotum, en muni eftir gríðarlega miklum sársauka þar sem hún hafi legið á grúfu á jörðinni. Kærandi lýsi einnig áverkum og eymslum sem komi heim og saman við læknisskoðun. Þá vísar lögreglustjóri í greinargerð sína frá 31. október sl. í máli dómstólsins nr. R-53/2007.

Byggt er á því að kærði sé undir rökstuddum grun um alvarlegt kynferðisbrot gagnvart kæranda og sé það talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga og teljist sök sönnuð eigi kærði yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi. Kærði sé erlendur ríkisborgari sem hafi starfað hér á landi og megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði mótmælir kröfunni og kveðst ekki eiga að gjalda þess að rannsóknir á lífsýnum taki langan tíma. Þá kveður hann það hans réttindi að fá að vera hjá fjölskyldu sinni um hátíðarnar. Þá sé kærði slasaður og geti þess vegna ekki stundað atvinnu. Þá ítrekar kærði að hann sé tilbúinn til að leggja fram tryggingu sem tryggja má að hann komi til landsins aftur, ef þörf krefur. Að lokum vísar kærði til þeirra raka sem fram komu við farbannskröfu frá 2. nóvember sl.

Sækjandi ítrekar kröfur sínar og vísar til þess að hér sé um alvarlega árás að ræða og ríkir hagsmunir séu til þess að kærði sé til staðar við rannsókn málsins. Sækjandi kveður rannsóknir á lífsýnum taka langan tíma en beðið er eftir niðurstöðum sem sendar voru til Rettsmedisinsk Institutt í Noregi þann 17. október sl.

Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af rannsóknargögnum, þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot það sem hann er grunaður um. Kærði er pólskur ríkisborgari og má fallast á það með lögreglustjóra að brottför kærða af landinu gæti torveldað frekari rannsókn þess og því ber nauðsyn til að tryggja nærveru hans meðan máli hans er ólokið. Með vísan til framanritaðs og ofangreindra lagaákvæða verður krafa lögreglustjóra tekin til greina.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                                  Úrskurðarorð.

Kærða, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 30. janúar 2008 kl. 16:00.