Hæstiréttur íslands
Mál nr. 661/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi
- Lögreglurannsókn
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 23. janúar 2007. |
|
Nr. 661/2006. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn A (Gestur Jónsson hrl.) B(Einar Þór Sverrisson hdl.) C(Kristín Edwald hrl.) D og(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.) E(Jakob R. Möller hrl.) |
Kærumál. Hæfi. Lögreglurannsókn. Sératkvæði.
A, B, C, D og E kröfðust þess að rannsókn R á ætluðum skattalagabrotum þeirra yrði dæmd ólögmæt en til vara að allir starfsmenn embættisins vikju sæti við rannsóknina. Talið var að með nánar tilgreindum ummælum hefði ríkislögreglustjóri orðið vanhæfur í málinu og var því fallist á varakröfu sakborninganna að því leyti. Ekki var hins vegar talið að röksemdir sakborninganna ættu að leiða til þess að aðalkrafa þeirra næði fram að ganga. Þá var því hafnað að öðrum starfsmönnum embættisins bæri að víkja sæti í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2006, þar sem Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Jóni H. B. Snorrasyni þáverandi saksóknara hjá embætti ríkislögreglustjóra var gert að víkja sæti við rannsókn sóknaraðila á máli nr. 006-2004-0076, sem fjallar um nánar tilgreind ætluð skatta- og hegningarlagabrot varnaraðila, en hafnað kröfum þeirra um að rannsóknin yrði úrskurðuð ólögmæt. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi niðurstaða hins kærða úrskurðar um að ríkislögreglustjóri og saksóknarinn skuli víkja sæti en að úrskurðurinn verði að öðru leyti staðfestur. Þá krefst hann að varnaraðilum verði gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti með kæru 21. desember 2006. Þau krefjast þess aðallega að dæmt verði að rannsókn ríkislögreglustjóra í framangreindu máli sé ólögmæt. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um að ríkislögreglustjóri og saksóknarinn skuli víkja sæti við rannsóknina en jafnframt að allir aðrir starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra skuli víkja sæti. Þá krefjast þau að ríkissjóður greiði allan málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Í hinum kærða úrskurði eru færð rök fyrir því að varnaraðilum sé heimilt að bera ágreining um lögmæti umræddrar rannsóknar í heild undir dóm á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991. Með vísan til þeirra röksemda er niðurstaða hins kærða úrskurðar um þetta atriði staðfest.
I.
Málsatvik og röksemdir aðila eru raktar í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram rökstyðja varnaraðilar kröfur sínar í fjórum liðum. Aðalkrafa þeirra er meðal annars reist á því að ríkislögreglustjóri hafi með ummælum, sem höfð voru eftir honum í Blaðinu 12. október 2005, brotið gegn rétti varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, til að teljast saklausir uns sekt þeirra hefur verið sönnuð. Þá telja þau ummæli, sem höfð voru eftir saksóknara hjá embætti ríkislögreglustjóra í Blaðinu 14. nóvember 2006, séu sama marki brennd.
Ummæli ríkislögreglustjóra, eins og þau birtust í Blaðinu 12. október 2005, eru rakin í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili hefur dregið í efa að tilvitnun í ummælin séu rétt eftir höfð. Ber að skilja athugasemdir sóknaraðila svo að ríkislögreglustjóri telji sig ekki hafa kveðið jafn afdráttarlaust að orði um að málið myndi fara fyrir „dóm sem skattsvikamál“, eins og ráða megi af greininni.
Greinin í Blaðinu byggir á því sem blaðamaðurinn taldi ríkislögreglustjóra hafa sagt. Ekki liggja fyrir önnur gögn um hvað hann sagði á blaðamannafundinum um skattrannsóknina. Er ekki unnt að útiloka að ummælin hafi verið sett fram með öðrum hætti en fram kemur í umræddri grein. Hvað sem ágreiningi um þetta atriði líður þá verður að líta til þess að aðalkrafa varnaraðila miðar að því að fá staðfestingu á að rannsókn á ætluðum brotum varnaraðila „sé ólögmæt“. Verður að leggja til grundvallar að með rannsókn sé átt við allar athafnir rannsóknara, samkvæmt þeim heimildum sem felast í lögum nr. 19/1991, er miða að því að afla nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. framangreindra laga. Eins og málið liggur fyrir og að virtri kröfugerðinni verður ekki fallist á að þetta atriði geti leitt til þess að þær athafnir embættisins er miðuðu að þessu marki eigi allar að teljast ólögmætar. Fallist er á þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að þegar ummælin, sem höfð eru eftir saksóknaranum í Blaðinu 14. nóvember 2006, eru lesin í samhengi við annað, sem þar kemur fram, gefi þau ekki til kynna að hann hafi með þeim tekið afstöðu til sektar varnaraðila í þessu máli. Aðalkrafa varnaraðila getur því ekki náð fram að ganga með þessum rökum.
II.
Þá reisa varnaraðilar aðal- og varakröfur sínar á því að með ummælum ríkislögreglustjóra í kvöldfréttatímum Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins 11. október 2005 og ummælum, sem höfð voru eftir honum í Blaðinu 12. sama mánaðar, hafi forsvarsmenn embættis ríkislögreglustjóra lýst sig vanhæfa til að fara með mál varnaraðila. Þeir séu því einnig vanhæfir til að rannsaka þann þátt málsins er lúti að ætluðum skattalagabrotum varnaraðila. Einnig vísa þau til annarra ummæla ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005 er lúta að rannsókn og meðferð málsins vegna ætlaðra skattalagabrota varnaraðila, svo og orða sem saksóknarinn viðhafði í sama blaði 14. nóvember 2006. Varnaraðilar benda í þessu sambandi ennfremur á grein eftir Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjón, sem birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2006, en hann hafi verið einn stjórnenda rannsóknarinnar, sem tók meðal annars til þeirra ætluðu brota, sem rannsókn málsins beinist að. Telja varnaraðilar að þessi ummæli séu öll til marks um þann hug sem ríkir meðal starfsmanna sóknaraðila til varnaraðila. Gefi það þeim réttmætt tilefni til að draga í efa vilja og getu starfsmanna embættisins til að rannsaka mál varnaraðila og taka ákvarðanir um framhald þess í samræmi við þær kröfur um hlutleysi sem gerðar séu í lögum nr. 19/1991.
Sóknaraðili hafnar því að með ummælum ríkislögreglustjóra hafi hann lýst yfir vanhæfi sínu eða embættis síns til að halda áfram meðferð málsins. Þá telur hann að þau ummæli, sem varnaraðilar vísa til, eigi ekki að valda vanhæfi.
Í 5. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 segir að þegar ríkislögreglustjóri er svo við málsefni eða aðila riðinn að hann mætti eigi gegna dómarastörfum í því skuli hann víkja sæti og setur dómsmálaráðherra þá löghæfan mann til meðferðar þess máls. Samkvæmt þessu eru gerðar sömu kröfur til sérstaks hæfis ríkislögreglustjóra og til dómara, en um það atriði eru fyrirmæli í 6. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þó að einstakir stafliðir 5. gr. síðargreindu laganna eigi sér samsvörun í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber samkvæmt áðurnefndu ákvæði lögreglulaga að leggja sama mælikvarða til grundvallar við mat á hæfi ríkislögreglustjóra og dómara í viðkomandi máli.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði voru ummæli ríkislögreglustjóra, sem hann viðhafði 11. október 2005, og vísað hefur verið til af varnaraðilum, sett fram í tilefni af dómi Hæstaréttar 10. sama mánaðar í málinu nr. 420/2005, en þar var 32 af 40 ákæruliðum samkvæmt ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí 2005 gegn varnaraðilum vísað frá héraðsdómi. Af gögnum málsins má ráða að þegar þessi ummæli voru viðhöfð hafði ríkissaksóknari ákveðið að beiðni ríkislögreglustjóra að taka þau gögn málsins, sem lágu að baki ákæruliðunum sem vísað hafði verið frá dómi, til athugunar í því skyni að ganga úr skugga um hvort efni væru til að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra. Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 sagði ríkislögreglustjóri orðrétt: „Ég held að það sé heppilegast vegna framgangs málsins, framtíð þessa máls, að ríkissaksóknari taki ákvarðanir um þau efni. Það er hægt að með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í framhaldinu.“ Í kvöldfréttatíma ríkissjónvarpsins sama kvöld sagði ríkislögreglustjóri eftirfarandi: „Ég held að ef að ríkislögreglustjóri sé áfram með þetta mál hér innanhúss að allar ákvarðanir sem við kynnum að hafa tekið í sambandi við áframhald málsins myndu ekki vera trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu.“
Ætla verður að í þessum ummælum komi fram ástæður þess að ríkislögreglustjóri óskaði eftir því að ríkissaksóknari tæki afstöðu til þess hvað gera skyldi varðandi þá 32 ákæruliði, sem vísað hafði verið frá dómi. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að á þessum tíma hafi ætlunin verið að ríkislögreglustjóri héldi áfram meðferð þeirra 8 ákæruliða, sem ekki var vísað frá dómi. Þau mistök sem urðu við gerð ákæru á hendur varnaraðilum, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar 10. október 2005, leiddu út af fyrir sig ekki til vanhæfis þeirra sem stóðu að eða báru ábyrgð á gerð ákærunnar. Ummælin bera heldur ekki með sér svo óyggjandi sé að ríkislögreglustjóri hafi talið sér óheimilt að halda áfram meðferð málsins vegna vanhæfis. Verður því ekki fallist á að með þessum ummælum hafi ríkislögreglustjóri verið að lýsa yfir vanhæfi sínu og embættis síns í málinu eins og varnaraðilar halda fram.
Ummæli ríkislögreglustjóra í kvöldfréttatímum Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins skírskota þó með ákveðnum hætti til sjónarmiða um sérstakt hæfi. Verður að líta svo á að þau endurspegli huglæga afstöðu ríkislögreglustjóra til málsins. Þar sem þau voru viðhöfð opinberlega í fjölmiðlum verður sérstaklega að líta til þess hvernig þau horfa við almenningi og hvort varnaraðilar geti í ljósi þeirra með réttu dregið óhlutdrægni hans í efa í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til hæfis dómara. Verða ofangreind ummæli ekki skilin á annan hátt en að ríkislögreglustjóri telji að með réttu megi álíta að embætti hans sé ekki treystandi til að líta hlutlaust á málavexti. Hefði dómari viðhaft sams konar ummæli opinberlega hefði hann orðið vanhæfur til að leysa úr því, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Með hliðsjón af áðurnefndri 5. mgr. 5. gr. lögreglulaga verður því að líta svo á að ríkislögreglustjóri hafi, er hann lét ummælin falla, orðið vanhæfur til að halda áfram meðferð málsins.
Gögn málsins bera með sér að við rannsókn ríkislögreglustjóra, sem hófst í ágústlok 2002, hafi komið fram upplýsingar, sem álitið var að veittu sterkar vísbendingar um að varnaraðilar hefðu gerst sekir um brot gegn þágildandi lögum um tekju- og eignarskatt, lögum um virðisaukaskatt og lög um bókhald og ársreikninga. Sendi saksóknari embættisins samantekt um þessi atriði til skattrannsóknarstjóra ríkisins 17. september 2003. Skattrannsóknarstjóri hóf athugun á málinu 14. nóvember sama ár. Á meðan á athugun hans stóð fékk embætti ríkislögreglustjóra ýmis gögn afhent frá skattrannsóknarstjóra, sem hann hafði aflað. Hinn 12. nóvember 2004 lagði skattrannsóknarstjóri fram kæru til ríkislögreglustjóra vegna ætlaðra brota varnaraðila gegn ákvæðum þágildandi laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt, laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, laga nr. 145/1994 um bókhald, þágildandi laga nr. 144/1994 um ársreikninga, laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, laga nr. 18/1997 um endurskoðendur og almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Vinnugögn frá embætti ríkislögreglustjóra benda til þess að í fyrstu hafi athugun í tilefni af kæru skattrannsóknarstjóra farið fram undir sama málsnúmeri og sú rannsókn, sem lá til grundvallar ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí 2005. Ekki virðist þó hafa verið unnt að koma því við að ljúka rannsókn og taka ákvörðun um saksókn vegna ætlaðra skattalagabrota varnaraðila fyrir útgáfu ákæru 1. júlí 2005, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991. Í ljósi þeirra nánu tengsla, sem eru milli rannsóknar ríkislögreglustjóra, sem leiddi til útgáfu ákærunnar 1. júlí 2005, og þeirrar rannsóknar sem mál þetta lýtur að, verður að telja að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur í málinu í ljósi ummæla sinna.
III.
Samkvæmt a. lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga starfrækir ríkislögreglustjóri lögreglurannsóknardeild sem rannsakar skatta og efnahagsbrot. Starfsemi þessarar deildar fer því fram í skjóli valdheimilda hans. Sé hann talinn vanhæfur samkvæmt 5. mgr. sama ákvæðis ber dómsmálaráðherra að setja sérstakan ríkislögreglustjóra til að fara með viðkomandi rannsókn. Víki ríkislögreglustjóri sæti ber honum að gera allar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda máli í réttu horfi þar til sérstakur ríkislögreglustjóri hefur verið skipaður. Rannsókn í opinberu máli miðar að því að unnt verði að taka ákvörðun um saksókn. Henni getur einnig lokið án þess að ákvörðun sé tekin þar um, sbr. 112. gr. til 115. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra verður ekki reist á rannsókn vanhæfs ríkislögreglustjóra, en eftir að settur ríkislögreglustjóri tekur við máli fer rannsókn fram í skjóli valdheimilda hans. Honum ber að rannsaka málið í samræmi við þá grundvallarreglu, sem meðal annars kemur fram í 31. gr. laga nr. 19/1991, um að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Sakborningar geta komið að öllum sjónarmiðum sínum varðandi rannsóknina til hans, þar á meðal við þann hluta hennar sem fram fór fyrir setningu hans. Fyrirmæli eru um hæfi starfsmanna lögreglu í 23. gr. lögreglulaga. Þar segir ekkert um hæfi þeirra þegar yfirmaður er vanhæfur. Hins vegar gilda reglur stjórnsýslulaga um hæfi undirmanna einnig um starfsmenn ríkislögreglustjóra. Samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. laganna eru undirmenn vanhæfir ef næstu yfirmenn þeirra eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta og samkvæmt 6. tölulið sama ákvæðis séu að öðru leyti fyrir hendi þær aðstæður, sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu. Eftir að nýr ríkislögreglustjóri hefur verið settur ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að starfsmenn ríkislögreglustjóraembættisins megi vinna að rannsókninni undir stjórn hans hafi þeir ekki sjálfir bakað sér vanhæfi með störfum sínum eða 23. gr. lögreglulaga eigi annars við um þá.
Ekkert liggur fyrir um að atvik í máli þessu séu með þeim hætti að starfsmenn ríkislögreglustjóra eigi að teljast vanhæfir í framangreindum skilningi. Þá verður að leggja til grundvallar að ríkislögreglustjóri hafi aðeins verið að lýsa eigin afstöðu til málsins undir sinni stjórn. Þau ummæli sem Jón H. B. Snorrason saksóknari viðhafði í fjölmiðlum og sem vitnað er til af varnaraðilum eru almenns eðlis og vísa ekki til þessa máls sérstaklega. Hann hefur nú látið af störfum. Hann mun því ekki koma að framhaldi málsins undir stjórn setts ríkislögreglustjóra og er því ekki þörf á því að taka sérstaka afstöðu til hæfis hans. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem ritaði grein í Morgunblaðið 15. nóvember 2006, sé fyrrum starfsmaður efnahagsbrotadeildar. Liggur ekkert fyrir um að hann hafi unnið við rannsókn málsins eftir að umrædd grein var birt. Hefur því enga þýðingu að skera úr hvaða áhrif ummæli hans eigi að hafa á hæfi hans í máli þessu. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður ekki fallist á að aðrir starfsmenn sóknaraðila en Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi orðið vanhæfir til að rannsaka ætluð skatta- og hegningarlagabrot varnaraðila.
IV.
Kröfur varnaraðila eru ennfremur reistar á því að rannsókn í málinu hafi tekið óhæfilega langan tíma og að það brjóti gegn rétti þeirra til málsmeðferðar innan hæfilegs tíma samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þá telja þau að með því að taka upp þessa rannsókn að nýju í júní 2006 hafi verið brotið gegn 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.
Eins og að framan greinir sendi sóknaraðili skattrannsóknarstjóra ríkisins samantekt 17. september 2003 um þau atriði, sem talin voru veita sterka vísbendingu um skattalagabrot af hálfu varnaraðila. Skattarannsóknarstjóri hóf rannsókn á málinu 14. nóvember sama ár. Fram kemur í gögnum málsins að frumskýrslur í málinu hafi legið fyrir í sumarbyrjun 2004 og var aðilum þess þá gefinn kostur á að tjá sig um þær. Lokaskýrslur skattrannsóknarstjóra lágu fyrir 27. júlí 2004, 29. sama mánaðar, 27. október 2004 og 3. nóvember sama ár. Málsaðilum var tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málunum þegar þær lágu fyrir. Eftir að athugasemdir höfðu borist var ákvörðun tekin um að vísa málinu í heild til ríkislögreglustjóra og honum send kæra 12. nóvember 2004. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á málinu meðan það var til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra.
Fram kemur í gögnum málsins að skýrslutökur af varnaraðilum vegna kæru skattrannsóknarstjóra hafi fyrst hafist hjá sóknaraðila 21. júní 2006. Rúmlega eitt og hálft ár var þá liðið frá því að skattrannsóknarstjóri vísaði málinu þangað. Sóknaraðili skýrir málsmeðferðartímann með því að um mjög flókið og umfangsmikið mál sé að ræða og sakarefnin mörg og margháttuð. Langan tíma hafi tekið að fara yfir gögn, afmarka sakarefni og undirbúa skýrslutökur, en að því hafi verið unnið frá því að skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til sóknaraðila.
Afar takmörkuð gögn liggja fyrir um rannsókn sóknaraðila í máli þessu. Af þeim má þó draga þá ályktun að hún sé umfangsmikil. Ekki er þó unnt að staðreyna út frá þeim hvort skýringar sóknaraðila á málsmeðferðartímanum séu haldbærar. Verður því engin afstaða tekin til þess í máli þessu hvort þetta atriði eigi að hafa áhrif á afdrif rannsóknarinnar. Með sömu rökum þykja heldur ekki efni til að leggja mat á hvort brotið hafi verið gegn 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991 við meðferð málsins. Bíður það eftir atvikum dómsúrlausnar að taka afstöðu til þessara atriða ef ákært verður í málinu.
V.
Loks telja varnaraðilar að ólöglega hafi verið staðið að öflun gagna í málinu. Þannig hafi verið settar fram alvarlegri ásakanir en efni stóðu til í réttarbeiðni til Lúxemborgar og gögn, sem aflað var með húsrannsókn þar, hafi verið notuð andstætt fyrirmælum saksóknara í Lúxemborg. Þá er í kæru varnaraðila til Hæstaréttar vísað til þess að sóknaraðili hafi fengið aðgang að gögnum, sem skattrannsóknarstjóri aflaði á grundvelli víðtækari heimilda til gagnaöflunar en sóknaraðili hefur. Er þar talið að starfsaðferðir sóknaraðila að þessu leyti renni stoðum undir röksemdir um að þegar hafi verið mótuð afstaða hjá sóknaraðila um að varnaraðilar væru sekir. Þá er dregið í efa að starfsmenn efnahagsbrotadeildar geti tekið sjálfstæða afstöðu til sakarefna án þess að hún litist af þessum gögnum.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að varnaraðilar geti ekki stutt aðalkröfu sína við að ólöglega hafi verið staðið að öflun gagna frá Lúxemborg og notkun þeirra. Þá liggur ekki fyrir að starfsaðferðir sóknaraðila við öflun gagna frá skattrannsóknarstjóra eigi að leiða til þess að rannsóknin í heild verði talin ólögmæt.
VI.
Samkvæmt framansögðu ber Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra að víkja sæti við rannsókn í áðurnefndu máli, sem hefur að öðru leyti þau áhrif sem lýst er í 5. mgr. 5. gr. lögreglulaga. Eins og að framan greinir verður að leggja þann skilningi í aðalkröfu varnaraðila að allar aðgerðir sóknaraðila sem miða að því að afla nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli varnaraðila til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar, verði dæmdar ólögmætar. Í III. kafla hér að framan er tekin afstaða til þess hvernig fari um framhald rannsóknar málsins undir stjórn setts ríkislögreglustjóra. Á hann mat um það að hvaða marki sú vinna verður reist á gögnum, sem þegar liggja fyrir í málinu. Verður ekki talið að vanhæfi Haralds Johannessen eigi leiða til þess að fallast eigi á aðalkröfu varnaraðila. Aðrar málsástæður þeirra renna heldur ekki nægum stoðum undir hana eins og að framan greinir. Þá er því hafnað með vísan til þess sem að framan greinir að aðrir starfsmenn sóknaraðila eigi að víkja sæti við rannsókn málsins og geti ekki unnið áfram að henni undir stjórn setts ríkislögreglustjóra. Er því aðeins efni til að fallast á varakröfu varnaraðila að því er lýtur að hæfi ríkislögreglustjóra.
Staðfest er ákvörðun í hinum kærða úrskurði um málskostnað í héraði. Þá verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri skal víkja sæti við rannsókn í máli nr. 006-2004-0076. Öðrum kröfum aðilanna er hafnað.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Í atkvæði meirihlutans og hinum kærða úrskurði eru tíundaðar kröfur varnaraðila og þær röksemdir sem teflt er fram til stuðnings þeim. Ég er sammála niðurstöðu í I. kafla atkvæðis meirihlutans um að ekki séu efni til þess að fallast á aðalkröfu varnaraðila á þeim grundvelli að brotið hafi verið á rétti þeirra til að teljast saklausir uns sekt þeirra hefur verið sönnuð samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Ég er einnig sammála niðurstöðu í IV. kafla í atkvæði meirihlutans um að ekki séu í máli þessu efni til að taka afstöðu til hvort rannsókn sóknaraðila á ætluðum skattalagabrotum varnaraðila hafi tekið of langan tíma og hvaða áhrif það kunni að hafa á afdrif rannsóknarinnar, svo og hvort í málinu hafi verið brotið gegn 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá er ég á sama máli og meirihlutinn í V. kafla atkvæðis þeirra um að ekki liggi fyrir að starfsaðferðir sóknaraðila við öflun gagna í málinu eigi að leiða til þess að fallast beri á aðalkröfu varnaraðila um að rannsóknin í heild verði dæmd ólögmæt.
I.
Varnaraðilar reisa kröfur sínar meðal annars á því að með ummælum ríkislögreglustjóra í kvöldfréttatímum Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins 11. október 2005 og því sem eftir honum er haft í frétt í Blaðinu degi síðar hafi forsvarsmenn sóknaraðila lýst sig vanhæfa til að fara með mál varnaraðila. Telja þau að ríkislögreglustjóri og allir starfsmenn sóknaraðila séu ekki aðeins vanhæfir til að halda áfram meðferð þeirra ákæruliða, sem vísað var frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2005 í dómasafni réttarins 2005, bls. 3727, heldur nái vanhæfi þeirra til málsins í heild, þar með talið til rannsóknar á meintum skattalagabrotum varnaraðila. Af hálfu sóknaraðila er þessu andmælt og haldið fram að áðurnefnd ummæli verði ekki túlkuð þannig að þar hafi ríkislögreglustjóri lýst yfir vanhæfi sóknaraðila til áframhaldandi meðferðar málsins. Þá hefur sóknaraðili andmælt því að rétt séu eftir ríkislögreglustjóra höfð ummælin í Blaðinu 12. október 2005, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði. Varnaraðilar fóru fram á að ríkislögreglustjóri gæfi skýrslu fyrir dómi vegna þessa, en því var hafnað með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2006. Við úrlausn máls þessa verður hvað þetta varðar einungis litið til þeirra ummæla sem sannanlega hafa komið fram af hálfu ríkislögreglustjóra, en ekki til endursagnar af þeim.
II.
Viðurkennt er í stjórnsýslurétti að ekki verður lagður sami mælikvarði til grundvallar við mat á hæfi fyrirsvarsmanns stjórnvalds og á við um dómara. Lögregla er ekki hefðbundið stjórnvald eða úrskurðaraðili í stjórnsýslu, en markmið lögreglurannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar, sbr. 67. gr. laga nr. 19/1991. Eðli málsins samkvæmt er það stundum fylgifiskur lögreglurannsóknar að sakborningar efast um starfsaðferðir eða jafnvel hæfi rannsóknara. Ekki hefur verið fallist á það sjónarmið að yfirlýst skoðun málsaðila um vanhæfi starfsmanna stjórnvalds ráði úrslitum um hæfi þeirra. Þá ber lögreglu rík skylda til að gæta að þeim atriðum er horfa sakborningi til hagsbóta, jafnvel þótt hún telji á einhverju stigi máls að sá sem sætir rannsókn sé sekur um refsivert brot. Rannsókn lögreglu getur lokið með þeirri stjórnvaldsákvörðun að ekki skuli saksækja viðkomandi, en sé ákært sætir mál hins vegar ætíð meðferð hjá dómstólum. Mistök lögreglu eða ákæruvalds við meðferð máls leiða ekki til vanhæfis og heldur ekki rangt mat starfsmanns í stjórnsýslu um eigið hæfi. Eðlilegur hluti starfs yfirmanna lögreglu er að gera fjölmiðlum nokkra grein fyrir stöðu mála og þeim ákvörðunum sem teknar eru og valda slík samskipti ein og sér ekki vanhæfi, sbr. hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 225/1987 í dómasafni 1987, bls. 1146. Slíkt er mun síður eðlilegur hluti af starfi dómara.
Ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur að geyma almennar reglur um sérstakt hæfi starfsmanna stjórnsýslunnar. Það ákvæði nær meðal annars til ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds, sbr. einnig 30. gr. laga nr. 19/1991. Í 5. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er hins vegar sérákvæði um sérstakt hæfi ríkislögreglustjóra, þar sem segir: „Þegar ríkislögreglustjóri er svo við málsefni eða aðila riðinn að hann mætti eigi gegna dómarastörfum í því skal hann víkja sæti og setur dómsmálaráðherra þá löghæfan mann til meðferðar þess máls.“ Ákvæði um vanhæfi dómara er að finna í 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Við úrlausn í máli þessu koma því til hliðsjónar dómar Hæstaréttar um vanhæfi dómara.
III.
Hafi dómarar tjáð sig um efnisatriði máls, en ekki einungis um formhlið þess, áður en dómur gengur getur það leitt til vanhæfis þeirra, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 488/1998 í dómasafni 1998, bls. 4512 og í máli nr. 491/2003 í dómasafni 2004, bls. 9. Í dómum sem gengið hafa um vanhæfi dómara til meðferðar einstaks máls hefur Hæstiréttur endurskoðað mat dómarans um eigið hæfi og oft dæmt honum skylt að fara með málið þótt dómarinn hafi sjálfur talið rétt að víkja sæti vegna tengsla sinna við málsefnið eða málsaðila, sbr. til dæmis dóma réttarins í máli nr. 373/1999 í dómasafni 1999, bls. 3280 og í máli nr. 487/2002 í dómasafni 2002, bls. 3587. Samkvæmt þessu leiðir rangt mat dómara á reglum um vanhæfi ekki til vanhæfis hans. Þá hefur Hæstiréttur fellt dóma á sama veg, jafnvel þótt héraðsdómari hafi beinlínis lýst yfir því í úrskurði sínum að hann telji sjálfur hættu á því að hann fái ekki litið óhlutdrægt á málavöxtu vegna náinna tengsla við þá sem tengjast málinu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 380/1988 í dómasafni 1988, bls. 1473. Geta ber þess einnig að Hæstiréttur hefur í öðru sambærilegu tilviki þótt „eins og hér stendur á rétt að heimila“ héraðsdómara að víkja sæti í máli, sbr. dóm í máli nr. 39/1989 í dómasafni 1989, bls. 293. Er því ekki sjálfgefið að dómari teljist vanhæfur þótt hann telji sjálfur að hann fái ekki litið óhlutdrægt á málavexti. Slíkt hlýtur þó eðli málsins samkvæmt oft að verða niðurstaðan þegar svo stendur á. Þá hafa gengið margir dómar í Hæstarétti þar sem ekki var fallist á kröfu málsaðila að dómari viki sæti vegna fyrri afskipta hans af máli ef þau afskipti töldust eðlilegur hluti af starfi hans. Er dæmi um að Hæstiréttur hafi fallist á með héraðsdómara að ekki skipti máli þótt sakborningur telji dómara vanhæfan þar sem dómarinn hafi í öðru máli metið framburð sakborningsins, sem þá var vitni, þannig að ekki væri á honum byggjandi, sbr. dóm Hæstaréttar 9. maí 2006 í máli nr. 231/2006. Var þó fjallað um sömu málsatvik í báðum málunum. Í dómi Hæstaréttar 22. nóvember 2006 í máli nr. 567/2006 var jafnvel talið engu máli skipta þótt afskipti dómara af meðferð máls hafi verið svo veruleg að hann hafi áður í dómi lýst yfir sekt sakborninga í sama máli sem vísað var heim í hérað.
Einnig hafa gengið nokkrir dómar um meint vanhæfi handhafa ákæruvalds og má nefna dóm Hæstaréttar í máli nr. 348/1987 í dómasafni 1988, bls. 241, en þar var ríkissaksóknari ekki talinn vanhæfur til meðferðar máls þótt hann hefði gefið út ákæru á grundvelli rannsóknar sem farið hafði fram í tíð hans sem rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, og dóm Hæstaréttar í máli nr. 160/1989 í dómasafni 1989, bls. 828, þar sem segir að skoðanir ákæruvaldsins á hverju máli komi fram í því, þegar ákæruvaldið höfðar mál, og umsögn ákæruvalds eftir útgáfu ákæru hljóti öll að stefna að því að sanna það, sem í ákæruskjali stendur, og fá fram þær kröfur sem þar eru settar fram. Ummæli ákæruvaldsins eftir útgáfu ákæru utan dóms töldust því á engan hátt auka við það, sem þegar lá fyrir við útgáfu ákæru um viðhorf þess til sakargifta, og ollu því ekki vanhæfi. Eins og að framan greinir hafði ríkissaksóknari í málinu frá 1989 líkt og ríkislögreglustjóri í málinu nr. 420/2005, sem umþrætt ummæli ríkislögreglustjóra lutu að, gefið út ákæru og lýst þannig skoðun sinni á þeim sakarefnum sem í ákæru greindi.
IV.
Telja verður að samskipti ríkislögreglustjóra við fjölmiðla þar sem greint var frá stöðu mála hafi verið eðlilegur hluti starfs hans. Ummæli hans í ljósvakamiðlunum eru orðrétt rakin í atkvæði meirihlutans. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði voru þau viðhöfð í tilefni af áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 420/2005 og þeirri ákvörðun að ríkissaksóknari skyldi taka við meðferð þeirra ákæruliða, sem vísað hafði verið frá dómi. Á þessum tíma var gengið út frá því að sóknaraðili héldi áfram rekstri málsins varðandi þá átta ákæruliði, sem ekki var vísað frá dómi. Ég er sammála niðurstöðu meirihlutans um að með þessum ummælum hafi ríkislögreglustjóri ekki verið að lýsa yfir vanhæfi sínu og embættis síns, eins og varnaraðilar halda fram. Líta verður til þess að ríkissaksóknari skýrði ákvörðun sína um að taka við „þeim þætti umrædds máls sem Hæstiréttur hafði vísað frá héraðsdómi“ með því að „málið þótti vandasamt og vafi gat leikið á hvort eða að hvaða marki höfða skyldi mál að nýju“, sbr. bréf hans til dómsmálaráðherra 24. nóvember 2005. Ekkert liggur fyrir um að ástæður fyrir þessari ákvörðun ríkissaksóknara hafi verið aðrar en þær sem hann sjálfur tilgreindi í bréfi sínu.
Við athugun ummæla ríkislögreglustjóra í ljósvakamiðlum verður ekki hjá því komist að líta til þess frá hvaða sjónarhorni hann horfir á málið og verða þau ekki skýrð öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hann að það væri „hægt að með rökum að halda því fram“ að embætti hans væri orðið „of involverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í framhaldinu.“ Þar er hins vegar í engu getið hvort ríkislögreglustjóri telji sjálfur rétt að fallast á þau rök. Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins kom fram að ríkislögreglustjóri haldi að ef embætti hans vinni áfram að málinu myndu þær ákvarðanir, sem sóknaraðili kynni að taka í því „ekki vera trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu.“ Með orðum sínum víkur ríkislögreglustjóri ekki að því hvort hann telji sjálfur að embættinu sé ekki treystandi til að líta óhlutdrægt á málið og gæta málefnalegra sjónarmiða við töku þeirra ákvarðana sem þarna er vísað til. Í hvorugu sjónvarpsviðtalinu er ríkislögreglustjóri í raun sjálfur að lýsa afstöðu sinni til málsins heldur eru þar leiddar líkur að því hvernig það horfi við almenningi og sakborningum ef sóknaraðili héldi áfram meðferð þess í kjölfar áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Af þessum sökum geta þau ekki verið til marks um að hann hafi vantreyst sjálfum sér eða embætti sínu til að líta óhlutdrægt á málið, auk þess sem samkvæmt framangreindum dómum getur rangt mat hans í þessum efnum ekki ráðið úrslitum um hæfi hans. Þeir annmarkar, sem voru á ákæru sóknaraðila gegn varnaraðilum 1. júlí 2005, sbr. framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 420/2005, leiða ekki til vanhæfis þeirra sem stóðu að gerð hennar. Liggur því ekkert fyrir um að ríkislögreglustjóri sé vanhæfur í málinu og er ég samkvæmt öllu framanrituðu ekki sammála niðurstöðu í II. kafla atkvæðis meirihlutans um þetta atriði. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á að undirmenn ríkislögreglustjóra teljist vanhæfir vegna títtnefndra ummæla hans. Þá er ég sammála niðurstöðu meirihlutans varðandi hæfi fyrrum saksóknara og aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá sóknaraðila, sbr. III. kafla atkvæðis meirihlutans.
Samkvæmt öllu framangreindu tel ég að hafna eigi öllum kröfum varnaraðila í málinu. Hvorki á að dæma málskostnað í héraði né kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2006.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 11. desember sl., að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðilar eru A, [kt.], B, [kt.], C, [kt.], D, [kt.], og E, [kt.].
Varnaraðili er ríkislögreglustjóri, Skúlagötu 21, Reykjavík.
Sóknaraðilar gera eftirfarandi kröfur:
1. Aðallega, að héraðsdómur úrskurði að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 sé ólögmæt.
2. Til vara, að héraðsdómur úrskurði að forsvarsmönnum embættis ríkislögreglustjóra, Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Jóni H.B. Snorrasyni saksóknara, og þar með öllum starfsmönnum embættisins, sé skylt að víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076.
3. Að ríkissjóður greiði allan málskostnað sóknaraðila vegna rannsóknar máls nr. 006-2004-00076 og kostnað vegna þessarar kröfu að mati dómsins.
Af hálfu ríkislögreglustjórans er þess krafist að hafnað verði kröfum A, [kt.], B, [kt.], C, [kt.], D, [kt.], og E, [kt.], um að lögreglurannsókn nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt, að ríkislögreglustjóra Haraldi Johannessen, Jóni H. Snorrasyni saksóknara og öllum starfsmönnum embættisins verði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins og að ríkissjóði verði gert að greiða allan málskostnað vegna rannsóknarinnar og kostnað vegna kröfu sóknaraðila í kærumáli þessu.
Rökstuðningur fyrir kröfugerð sóknaraðila
1. Brotið gegn reglu um að sakborningar teljist saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð.
Sóknaraðilar halda því fram að embætti ríkislögreglustjóra (RLS) hafi þegar tekið afstöðu um sekt þeirra og þar með hafi verið brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar.
Orðrétt var haft eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005:
En í því sambandi má minnast á það að þriðjungur rannsóknarinnar beindist að skattamálum, sem hafa sumpart farið sinn farveg í skattkerfinu og munu að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál. Rannsóknin hefur staðist í alla staði hvað þann þátt málsins varðar, svo við vonum auðvitað að aðrir þættir fái efnislega meðferð.
Sóknaraðilar halda því fram að með tilvitnuðum ummælum hafi ríkislögreglustjóri, svo ekki verði um villst, tjáð sig um einstök efnisatriði í máli sem sé til rannsóknar hjá embættinu. Ummælin séu þó fjarri því að geta talist almenns eðlis eða hluti af eðlilegri upplýsingaskyldu lögreglu gagnvart almenningi, heldur sé þar beinlínis kveðið á um hverjar muni verða lyktir rannsóknar lögreglu. Af ummælunum er ljóst að þegar í október 2005 hafi verið ákveðið að rannsókn RLS, sem standi yfir enn í dag, muni lykta með útgáfu ákæru vegna skattsvika. Ummæli Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara RLS, í Blaðinu 14. nóvember 2006 staðfesti það enn frekar. Þar segir m.a.:
Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar
Með ummælunum lýsi saksóknarinn því yfir gagnvart almenningi, eins og það sé staðreynd, að sóknaraðilar hafi brotið af sér. Þetta sé í samræmi við ákvörðun yfirmanns hans sem birtist í Blaðinu 12. október 2005, um að málið muni fara fyrir dóm sem skattsvikamál.
Með framangreindum ummælum telja sóknaraðilar að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til að teljast saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Í máli Ribemont gegn Frakklandi höfðu tveir háttsettir menn innan lögreglunnar í París ásamt ráðherra innanríkismála í Frakklandi gefið í skyn á fréttamannafundi að Ribemont hefði átt þátt í alvarlegu afbroti. Með dómi 10. febrúar 1995 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að með ummælum stjórnvalda hafi verið brotið gegn 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Í niðurstöðu dómsins kom fram að játa yrði stjórnvöldum svigrúm til að upplýsa almenning um framgang rannsóknar sakamála en það yrði þó að gera af nærgætni og varkárni til að brjóta ekki gegn rétti sakborninga til að teljast saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð. Sóknaraðilar halda því fram að með ummælum sínum í Blaðinu 12. október 2005 hafi ríkislögreglustjóri gengið lengra en starfsbræður hans í Frakklandi gerðu í máli Ribemont.
Sóknaraðilar hafa áður vakið athygli á opinskáum og harkalegum ummælum ráðamanna í sinn garð vegna þessa máls. Í dómi 9. janúar 2006 í máli nr. 537/2005 féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu héraðsdóms að ýmis ummæli dómsmálaráðherra væru mjög gagnrýnin í garð Baugs og að minnsta kosti sumra sakborninga í málinu. Þar var hins vegar ekki talið að þau tengdust sérstaklega einstökum sakarefnum í málinu auk þess sem ekki væri fram komið að ráðherrann færi með stjórnsýsluvald á þeim sviðum sem ummæli hans vörðuðu. Var því ekki talið sýnt fram á að ráðherrann hefði með ummælum sínum orðið vanhæfur til að setja sérstakan saksóknara í málinu. Í öðrum dómi Hæstaréttar, 8. júní 2006 í máli nr. 248/2006, sem tengist ekki sóknaraðilum þessa máls, sagði Hæstiréttur tiltekin ummæli dómsmálaráðherra „óvægin“ í garð sakbornings sem sætti rannsókn RLS, en þau yllu hins vegar ekki vanhæfi RLS til að stjórna opinberri rannsókn, „enda [verði] að líta svo á, þegar hlutverk ríkislögreglustjóra samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er virt í ljósi ákvæða IX. kafla laga nr. 19/1991, að hann lúti ekki fyrirmælum dómsmálaráðherra um rannsóknina“.
Að mati sóknaraðila sé ekki þörf á að skilgreina ummæli ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005 sem „gagnrýnin“ eða „óvægin“ í garð þeirra, heldur séu ummælin einfaldlega yfirlýsing um sekt þeirra og þar með andstæð 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Enginn vafi leiki á því að ríkislögreglustjórinn fari með stjórnsýsluvald á þeim sviðum sem ummæli hans vörðuðu, sbr. a-lið 2. mgr. 2. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og 1., 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 406/1997, um rannsókn og saksókn efnahagsbrota.
Með vísan til framangreinds telja sóknaraðilar ótvírætt að forsvarsmenn RLS hafi brotið gegn rétti þeirra til að teljast saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð og því geti embættið ekki rannsakað málið hlutlægt. Allar niðurstöður rannsóknarinnar séu enn fremur sama marki brenndar. Því sé rannsókn embættis ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 ólögmæt og þar með beri að hætta rannsókn málsins.
2. Vanhæfi embættis ríkislögreglustjóra og starfsmanna þess til að fara með málið.
Sóknaraðilar halda því fram að forsvarsmenn RLS hafi áður lýst sig vanhæfa til að fara með mál þeirra og þeir séu því einnig vanhæfir til að rannsaka þennan þátt málsins, sem lúti að meintum skattalagabrotum þeirra.
Eins og kunnugt sé eigi mál þetta sér langan aðdraganda. Það hófst með húsleit í höfuðstöðvum Baugs hf. (félagið hét þá Baugu hf., en nafni þess var síðar breytt í Baugur Group hf. Í þessari kröfu sé yfirleitt vísað til félagsins sem Baug) 28. ágúst 2002, aðeins fáeinum dögum eftir að F, fyrrum viðskiptafélagi Baugs, lagði fram kæru á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins. Strax hafi komið í ljós að stærstur hluti ásakana F átti ekki við rök að styðjast. Næstu þrjú árin hafi hverjum steini verið velt í bókhaldi Baugs og öðrum haldlögðum gögnum auk þess sem farið var fram á afhendingu gríðarlegs magns upplýsinga í leit af afbrotum sem áttu ekkert skylt við upphafleg kæruefni sem voru tilefni húsleitarinnar. Loks var gefin út ákæra í málinu 1. júlí 2005. Með úrskurði 20. september sama ár vísaði héraðsdómur ákærunni frá dómi í heild vegna verulegra ágalla. Hinn 10. október sama ár vísaði Hæstiréttur fyrstu 32 ákæruliðunum frá dómi en lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði liði 33-40. Sóknaraðilar voru allir sýknaðir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. mars 2006.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar var tilkynnt að ríkissaksóknari tæki við meðferð málsins úr höndum efnahagsbrotadeildar RLS. Ráða megi af fréttaflutningi að RLS hafi átt frumkvæði að tilfærslu málsins til ríkissaksóknara á þeim grundvelli að ekki væri trúverðugt að RLS héldi áfram með það.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 11. október 2005 sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri:
Ég held að það sé heppilegast vegna framgangs málsins, framtíð þessa máls, að ríkissaksóknari taki ákvarðanir um þau efni. Það er hægt með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í málinu.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sama dag sagði Haraldur:
Ég held að ef að ríkislögreglustjóri sé áfram með þetta mál hér innanhúss að allar ákvarðanir sem við kynnum að taka í sambandi við áframhald málsins myndu ekki vera trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu.
Í Blaðinu var haft eftir Haraldi 12. október 2005:
Haraldur bætir við að þar komi ekki einungis trúverðugleiki embættisins við sögu. „Þetta er líka nauðsynlegt gagnvart sakborningunum, því eftir aðfinnslur af þessu tagi eiga þeir heimtingu á því að annað embætti komi að málinu, svo ekki verði frekar efast um málatilbúnað.“
Einu ári eftir að þessi ummæli féllu hefur RLS boðað alla sóknaraðila í skýrslutökur á grundvelli kæru skattrannsóknarstjóra frá 12. nóvember 2004. Hafa þeir nú allir gefið skýrslu hjá RLS vegna rannsóknarinnar. Málið ber merkinguna nr. 006-2004-00076 hjá RLS. Telja sóknaraðilar að með tilvitnuðum ummælum hafi forsvarsmenn RLS lýst vanhæfi sínu og embættisins til að fjalla um þetta mál á hendur þeim vegna augljósra tengsla þess við það mál sem vísað var að stofni til frá með dómi Hæstaréttar 10. október 2005.
Í Morgunblaðinu 26. október 2006 hafi Jón H. B. Snorrason, saksóknari efnahagsbrotadeildar RLS, mótmælt því, að skilja mætti ummæli Haraldar Johannessen á þann veg að embætti ríkislögreglustjóra hefði lýst sig vanhæft til að annast önnur mál sóknaraðila innan embættisins.
Sóknaraðilar mótmæla eftiráskýringu saksóknara RLS. Að mati sóknaraðila sé embættismönnum ekki í sjálfsvald sett að lýsa því hvenær þeir séu vanhæfir til að fjalla um hluta mála gagnvart þeim og hvenær ekki. Í máli því sem hér sé til umfjöllunar séu fyrir hendi aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni starfsmanna RLS í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, alveg eins og þegar embættið hafi fyrst sagt sig frá málinu. Fram kom hjá Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í fréttum Sjónvarpsins 11. október 2005 að ákvarðanir sem RLS kynni að taka um mál sóknaraðila væru „ekki trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu“.
Fullyrða megi að í „hugum almennings“, sem ríkislögreglustjóri kaus sjálfur að vísa til, sé enginn munur á ákvörðun um endurútgáfu ákæru í kjölfar frávísunar annars vegar og ákvörðunar um útgáfu ákæru í máli er lúti að meintum skattalagabrotum sömu einstaklinga hins vegar. Málið, sem sé nú til umfjöllunar hjá RLS, varði að miklu leyti sömu atvik og voru tilefni fyrri ákæra í málinu, t.a.m. hafi sérstakur saksóknari lagt fram gögnin úr rannsókn skattrannsóknarstjóra með gögnum málsins vegna ákæru hans 31. mars 2006. Í „hugum almennings“ séu þessi mál saman nefnd „Baugsmálið“.
Í huga Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra sjálfs virðist einnig vera um sama mál að ræða. Haft var eftir honum í Blaðinu 12. október 2005 að rannsókn á skattahluta málsins hafi svarað til þriðjungs rannsóknarinnar í heild, sbr. ummæli hans, sem þýðir að samtals eitt ár af þriggja ára rannsóknartíma hafi farið í þann hluta málsins er lýtur að meintum skattalagabrotum. Ummæli Haraldar séu svohljóðandi:
[spurning blaðamanns:] En hefði ekki mátt búast við skotheldari ákæru eftir þriggja ára rannsókn? „Það má kannski segja það“ segir Haraldur, „[...] En í því samhengi má minnast á það að þriðjungur rannsóknarinnar beindist að skattamálum, sem hafa sumpart farið sinn farveg í skattkerfinu og munu að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál.“
Þyngra vegur þó hvernig þetta horfir við sóknaraðilum. Þeir eigi ekki að þurfa að sæta því að saksóknari efnahagsbrotadeildar lýsi því yfir eftir á að RLS hafi aðeins verið vanhæfur í einum þætti málsins en ekki öðrum. Gagnvart sóknaraðilum sé yfirstandandi rannsókn RLS á meintum skattalagabrotum einungis framhald málsins sem hófst með húsleit 28. ágúst 2002.
Í gögnum málsins liggi fyrir að með bréfi, dags. 17. september 2003, tilkynnti RLS skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) um atvik sem „gefa sterkar vísbendingar um brot m.a. á lögum um tekju- og eignarskatt, virðisaukaskatt, lögum um bókhald og ársreikninga.“ Svo segir í niðurlagi bréfsins: „Jafnframt því að senda yður greinargerð um atvikin til rannsóknar er þess beiðst að efnahagsbrotadeildin fái tækifæri til þess að fylgjast með framvindu málsins hjá embætti yðar.“ Í kjölfar bréfs RLS hóf SRS rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs Group hf., Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og A persónulega hinn 17. nóvember 2003, sbr. bréf þess efnis, dags. 14. nóvember s.á. Hinn 2. desember 2003, aðeins hálfum mánuði eftir að rannsókn SRS hófst, ritaði RLS bréf þar sem farið var fram á afhendingu gagna sem SRS hafði aflað í húsleit sem framkvæmd var á skrifstofu Baugs Group hf. 17. nóvember, sbr. skjal II/45.2. Megi í gögnum málsins sjá fjölmörg önnur atvik þar sem RLS hafi aflað gagna frá SRS sem notuð hafi verið til stuðnings sakarefnum sem urðu tilefni ákæru RLS 1. júlí 2005 og síðar ákæru sérstaks saksóknara 31. mars 2006. Hafa beri í huga að heimildir SRS til leitar og haldlagningar séu ekki háðar úrskurði dómara, heldur mati SRS á því hvort rétt sé að hefja skattrannsókn. Heimildir SRS séu því miklum mun rýmri en heimildir lögreglu almennt til sömu verka. Sóknaraðilar halda því fram að með því að senda til SRS tilkynningu um meint skattalagabrot hafi RLS m.a. verið að afla sér frekari gagna en fengust í hinni hefðbundnu rannsókn lögreglu. Samskipti milli embættis ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra eftir að sá síðarnefndi hóf rannsókn sýni fram á að um sama mál sé að ræða.
Rannsókn SRS á Baugi Group hf. lauk 27. júlí 2004, rannsókn á Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf. lauk 29. júlí 2004 og rannsókn á A persónulega lauk 27. október 2004. Athyglisvert sé að þau atriði sem RLS tiltók í upphaflegu bréfi sínu til SRS urðu fæst tilefni frekari rannsóknar. Með bréfi til ríkislögreglustjóra, dags. 12. nóvember 2004, vísaði skattrannsóknarstjóri til opinberrar rannsóknar kæru gagnvart A, D, C og E.
Gagnvart sóknaraðilum sé staðan þessi: Í málum sem höfðuð voru gagnvart þeim með ákærum 1. júlí 2005 og 31. mars 2006 sé í mörgum ákæruliðum stuðst við gögn frá SRS úr rannsókn sem hófst samkvæmt tilkynningu RLS. Nú rannsaki RLS mál sem barst með kæru frá SRS og lúti að verulegu leyti að sömu löggerningum og atvikum og fjallað sé um í fyrrgreindum ákærum. Líti sóknaraðilar svo á að nú sé til meðferðar enn einn anginn af þeirri rannsókn sem hófst með húsleit 28. ágúst 2002, þ.e.a.s. Baugsmálið svokallaða. Yfirlýsing saksóknara RLS um að hér sé um að ræða aðra og nýja rannsókn breyti þar engu um og sé að auki þvert ofan í yfirlýsingu Haraldar Johannessen, sem kom fram í Blaðinu 12. október 2005.
Sóknaraðilar benda á að fyrirsvarsmenn RLS hafi skýrt þann langa tíma sem tók að rannsaka málið sem varð tilefni útgáfu ákæru 1. júlí 2005 með því að stór hluti rannsóknarinnar hafi beinst að meintum skattalagabrotum. Þar með hafi RLS viðurkennt að um sama mál væri að ræða.
Auk þess að lýsa vanhæfi embættis RLS til að taka ákvarðanir í málum sóknaraðila hafi ríkislögreglustjóri tiltekið sérstaklega í Blaðinu 12. október 2005 að mál vegna meintra skattalagabrot myndi „fara fyrir dóm sem skattsvikamál“. Að mati sóknaraðila brjóti þessi ummæli gegn rétti þeirra til að teljast saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð, eins og áður sé rakið. Séu þessi ummæli til marks um þann hug sem ríki gagnvart sóknaraðilum innan embættis ríkislögreglustjóra og skýri þá skynsamlegu ákvörðun að færa málið til ríkissaksóknara.
Viðurkennt sé í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að réttaröryggi sakborninga krefjist þess ekki einungis að rétt sé farið að, heldur felist einnig í því að þeir sjái og megi finna það að rétt sé haft við. Ríkislögreglustjóri hafi tekið undir þetta meginsjónarmið um skýringu mannréttindareglna með ummælum sínum í Blaðinu 12. október 2005:
Þetta er líka nauðsynlegt gagnvart sakborningum, því eftir aðfinnslur af þessu tagi eiga þeir heimtingu á því að annað embætti komi að málum, svo ekki verði frekar efast um málatilbúnað.
Umhugsunarefni sé hvers vegna RLS hafi nú skipt um skoðun. Sóknaraðilar halda því fram að ekki sé rétt staðið að málum við rannsókn meintra brota þeirra hjá embætti RLS. Raunar hafi þeir fyllstu ástæðu til að vantreysta því embætti, ekki síst eftir yfirlýsingar yfirmanna embættisins um vanhæfi þess, auk yfirlýsinga um sekt sóknaraðila, eins og rakið sé í fyrsta kafla.
Engu skipti þótt komist yrði að þeirri ólíklegu niðurstöðu að með tilvitnuðum ummælum fyrirsvarsmanna RLS hafi þeir einvörðungu sagt sig frá einum þætti málsins. Sóknaraðilar halda því fram að atvik þau er urðu tilefni útgáfu ákæru 1. júlí 2005, sem að mestu var vísað frá með dómi Hæstaréttar 10. október 2005, sem RLS sagði sig svo frá degi síðar, séu svo samrætt atvikum í því máli sem RLS hefur nú til rannsóknar að starfsmenn RLS verði einnig að teljast vanhæfir í því. Þessu til stuðnings er vísað til tveggja dóma Hæstaréttar, H 1989:885 og H 1989:892.
Í Blaðinu 14. nóvember 2006 hafi saksóknari efnahagsbrotadeildar RLS, Jón H. B. Snorrason, tjáð sig aftur um rannsóknina í kjölfar gagnrýni B um að starfsmenn RLS stýrðu rannsókn á þessum þætti málsins. Sagði saksóknarinn m.a.:
Þegar grunur um brot liggur fyrir er eðlilegt að embætti ríkislögreglustjóra rannsaki málið. Áttu kannski björgunarsveitirnar að fara ofan í málið? [...] Þau mál sem eru til skoðunar hjá okkur eiga að vera til skoðunar hjá okkur, meira hef ég ekki um það að segja. [...] Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar. Menn geta ekkert valið Jón eða Gunnu til að stýra rannsókninni og hér fær enginn sérmeðferð, hvort sem hann er snauður eða ríkur og hvort sem hann afgreiðir kjötfars eða ekki. Svona er þetta bara.“
Að mati sóknaraðila lýsi tilvitnuð ummæli í hnotskurn vanhæfi starfsmanna RLS til meðferðar málsins. Misheppnaðar háðsglósur saksóknarans eins og „Áttu kannski björgunarsveitirnar að fara ofan í málið?“ og „hér fær enginn sérmeðferð, hvort sem hann er snauður eða ríkur og hvort sem hann afgreiðir kjötfars eða ekki“ beri með sér hvern hug hann beri til B og annarra sóknaraðila. Verjandi B, Einar Þór Sverrisson hdl., ritaði RLS bréf, dags. 15. nóvember síðastliðinn, þar sem þessum ummælum Jóns H. B. Snorrasonar var mótmælt.
Því sé haldið fram að sóknaraðilar geti ekki vænst þess að hljóta réttláta málsmeðferð hjá embætti RLS. Orð saksóknarans um að „[ef] einhver brýtur af sér á þessu sviði“ feli í sér að afstaða RLS sé fyrir fram mótuð um að brot hafi átt sér stað, þrátt fyrir að rannsókn málsins sé ekki lokið. Séu þessi ummæli í samræmi við ummæli yfirmanns hans, sem hafi komið fram í viðtali í Blaðinu 12. október 2005, um að þessi hluti málsins myndi fara fyrir dóm sem skattsvikamál.
Í Morgunblaðinu 15. nóvember birtist löng grein eftir Arnar Jensson, aðstoðar- yfirlögregluþjón hjá RLS, sem sé jafnframt einn stjórnenda rannsóknar fyrri hluta Baugsmálsins svokallaða og hafi enn fremur tekið þátt í rannsókn þess hluta sem lúti að meintum skattalagabrotum. Í grein Arnars, sem ber yfirskriftina „Atlaga úr hulduheimi Jón og séra Jón“, fullyrðir hann að sóknaraðilar beiti miklum fjármunum til að hljóta aðra meðferð en „hinn venjulegi sakborningur“ og ákalli stjórnvöld um ótilgreindar aðgerðir vegna þess. Að auki drótti hann að því að sóknaraðilar þessa máls hafi staðið að umfjöllun Blaðsins um starfsaðferðir lögreglu, þar sem m.a. voru rifjuð upp atvik í tengslum við rannsókn sakamála er tengdust kunnum umsvifamiklum fíkniefnasala og svonefndu málverkafölsunarmáli. Dragi Arnar þá ályktun eftir að hafa ráðfært sig við nafnlausa heimildarmenn sína að umfjöllun Blaðsins hafi verið ætlað að draga úr trúverðugleika hans sem vitnis í Baugsmálinu. Orðrétt segir Arnar svo:
... og ég verð að játa að það hvarflaði að mér hvort við værum virkilega að upplifa aðferðir Berlusconis á Ítalíu eða skipulagðra glæpahópa sem starfa í skjóli auðs.
Sóknaraðilar sjái ekki ástæðu til að rekja frekari dæmi úr grein aðstoðar-yfirlögregluþjónsins. Í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins 15. nóvember síðastliðinn hafi komið fram að hann hefði kynnt yfirmönnum sínum hjá RLS greinina. Að mati sóknaraðila verði að líta svo á að RLS hafi þar með samþykkt birtingu hennar og að aðstoðaryfirlögregluþjónninn hafi komið fram fyrir hönd embættisins með greinarskrifunum og þátttöku í Kastljósinu. Enn fremur komi fram í umræddu viðtali að hann nyti aðstoðar Landssambands lögreglumanna. Í þessu sambandi sé rétt að halda því til haga að formaður þeirra samtaka sé Sveinn Ingiberg Magnússon sem, ásamt Arnari Jenssyni, hafi stýrt rannsókn máls sóknaraðila. Með grein aðstoðaryfirlögregluþjónsins, ásamt öðru sem fram sé komið, sé sýnt hvaða hug ríkislögreglustjóri og samstarfsmenn hans beri til sóknaraðila. Sóknaraðilar hafi réttmætt tilefni til að draga í efa vilja og getu starfsmanna RLS til að rannsaka mál þeirra og taka ákvarðanir um framhald þeirra í samræmi við þær hlutleysiskröfur sem gerðar séu í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
Loks nefna sóknaraðilar samskipti Gests Jónssonar hrl., f.h. sóknaraðilans A, við RLS 24. og 25. október síðastliðinn um fyrirkomulag á skýrslutökum. Í kjölfar skilaboða Gests um að staðfest hefði verið tímasetning á skýrslutöku 20. nóvember, eins og samkomulag hafi verið um, hafi borist harðorð tölvupóstsending þar sem tilkynnt var að A væri boðaður í skýrslutökur í fimm daga samfellt, frá 20. til 24. nóvember, klukkan 10 til 16 alla dagana. Fá, ef nokkur, dæmi munu vera um það að sakborningur sé boðaður til skýrslutöku með slíkum hætti nema þá í tilvikum þar sem gæsluvarðhaldi sé beitt. Sóknaraðilar telja aðeins hægt að líta á þetta fyrirkomulag boðunar A í skýrslutöku sem vanstillt skyndiviðbrögð við því að hann geti ekki alfarið hagað tíma sínum eftir höfði RLS eins og sóknaraðilar hafa mátt þola undangengin rúm fjögur ár.
Sóknaraðilar halda því fram að starfsmenn RLS séu vanhæfir til að annast rannsókn á þeim hluta málsins er lúti að meintum skattalagabrotum þeirra og að vanhæfi þeirra hafi haft slík áhrif á rannsóknina að hún teljist ólögmæt. Krefjast sóknaraðilar þess að héraðsdómur úrskurði að ríkislögreglustjóra sé skylt að hætta rannsókninni. Til vara er þess krafist að úrskurðað verði að Haraldi Johannessen og þar með öllum starfsmönnum RLS verði gert að víkja sæti við rannsókn málsins.
3. Brotið gegn rétti sóknaraðila til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma
Sóknaraðilar halda því fram að rannsókn RLS á máli þeirra hafi tekið óhæfilegan tíma og þar með brotið gegn rétti þeirra til fljótvirkrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Eins og áður sé rakið hafi fjórir sóknaraðilanna mátt sæta rannsókn RLS frá 28. ágúst 2002 og D frá 5. apríl 2003. Sá þáttur málsins er lúti að meintum skattalagabrotum þeirra hófst með bréfi ríkislögreglustjóra til skattrannsóknarstjóra 17. september 2003 eða í síðasta lagi 17. nóvember 2003 með húsleit SRS. Rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk með skýrslum í maí og júlí 2004 og 12. nóvember sama ár sendi SRS tilkynningu til RLS um meint skattalagabrot fjögurra sóknaraðila en skattrannsóknarstjóri kærði ekki B. Í kjölfar frávísunardóms Hæstaréttar 10. október 2005 hafi forsvarsmenn ríkislögreglustjóra réttlætt hinn langa málsmeðferðartíma með rannsókn skattamálsins, sbr. áður tilvitnuð ummæli Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október sama ár. Þar segir:
[spurning blaðamanns:] En hefði ekki mátt búast við skotheldari ákæru eftir þriggja ára rannsókn? „Það má kannski segja það“ segir Haraldur, „[...] En í því samhengi má minnast á það að þriðjungur rannsóknarinnar beindist að skattamálum, sem hafa sumpart farið sinn farveg í skattkerfinu og munu að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál.“
Þó hafi meint skattalagabrot ekki verið hluti ákæru 1. júlí 2005, né heldur ákærunnar sem gefin var út 31. mars 2006, sem sé, að mati sóknaraðila, andstætt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 77. gr. hegningarlaga nr. 19/1940, um að sakborningar eigi rétt á því að öll mál á hendur þeim verði tekin fyrir í einu lagi eftir því sem við verði komið. Af tilvitnuðum ummælum forsvarsmanna RLS verði ekki annað ráðið en að í hugum þeirra hafi verið um eitt og sama málið að ræða, enda beinist það að sömu einstaklingum og lúti að miklu leyti að sömu atvikum og voru tilefni útgáfu ákæra 1. júlí 2005 og 31. mars 2006. Með vísan framangreinds og þess hve langan tíma rannsókn málsins hafi tekið halda sóknaraðilar því fram að því hefði sannarlega verið við komið að taka fyrir öll mál á hendur þeim í einu lagi.
Þótt RLS hafi fengið bréf SRS 12. nóvember 2004 voru sóknaraðilar fyrst kallaðir til skýrslutöku á sama tíma og málflutningur vegna frávísunarkröfu tveggja þeirra var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. júní 2006. Skýrslutökur lágu niðri yfir sumartímann 2006 en hófust svo aftur með fjölda yfirheyrslna nú í október og nóvember.
Sóknaraðilum verði ekki kennt um drátt á rannsókn þess þáttar málsins er lúti að meintum skattalagabrotum eins og að framan sé rakið þótt vafalaust muni RLS halda því fram. Rannsókn RLS hafi augsýnilega legið niðri allt þar til í lok júní 2006. Margsinnis hafi verið staðfest í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að dráttur á rannsókn mála verði ekki réttlættur vegna margra fyrirliggjandi mála eða skorts á hæfu starfsliði. Ekki sé unnt að réttlæta drátt á rannsókn þessa þáttar málsins með því að um óvenjulega flókið eða viðamikið mál sé að ræða því staðfest hafi verið að verulegur hluti þess lúti að sömu atriðum og starfsmenn RLS hafi haft til úrlausnar frá árinu 2002, m.a. við útgáfu fyrri ákæru í málinu. Að auki verði að líta til þess að með skýrslum skattrannsóknarstjóra og tilkynningu til ríkislögreglustjóra í nóvember 2004 hafi rannsókn þessa hluta málsins verið verulega langt á veg komin þegar málið barst RLS. Sóknaraðilar hafa allir mætt fúslega til skýrslugjafar hjá lögreglu þótt endurteknar yfirheyrslur komi verulega niður á störfum þeirra og öllum fyrirætlunum. Dráttur á meðferð málsins sé því alfarið á ábyrgð RLS.
Það sé kunnara en frá þurfi að segja að málið sem hófst í ágúst 2002 og hafi staðið allar götur síðan hafi haft gríðarleg áhrif á sóknaraðila, bæði persónulega og gagnvart þeim fyrirtækjum sem þeir veita forstöðu. Sóknaraðilar vinni flestir ýmist fyrir eða í tengslum við Baug Group hf., sem starfar í Norður-Evrópu og á og rekur fyrirtæki sem veita rúmlega 60 þúsund manns atvinnu. Nú þegar hafi verið gefnar út tvær ákærur í málinu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2006 voru sóknaraðilar sýknaðir af þeim ákæruliðum sem eftir stóðu af fyrri ákærunni. Þeim dómi var áfrýjað og hefur málflutningur í því máli verið ákveðinn í Hæstarétti 15. janúar 2007. Ákveðið hefur verið að málflutningur vegna þeirra ákæruliða sem eftir standa úr síðari ákærunni muni hefjast í fyrstu eða annarri viku í febrúar 2007 og muni standa í fimm til sex vikur í febrúar og mars 2007.
Sóknaraðilar halda því fram að með því að brjóta gegn rétti þeirra til fljótvirkrar málsmeðferðar sé rannsóknin ólögmæt. Því sé þess krafist að úrskurðað verði að henni skuli hætt.
4. Misnotkun gagna sem aflað var með húsleit í Lúxemborg
Sóknaraðilar halda því fram að ríkislögreglustjóri hafi staðið ólöglega að öflun gagna með húsleit í Lúxemborg.
Með bréfum í janúar, mars og apríl 2004 hafi ríkislögreglustjóri óskað eftir aðstoð frá lögregluyfirvöldum í Lúxemborg við rannsókn meintra afbrota A og E. Hafi yfirvöldum í Lúxemborg verið kynnt að til rannsóknar væru ýmis brot þessara tveggja einstaklinga, þ.á m. fjársvik, fjárdráttur, umboðssvik og peningaþvætti í tengslum við viðskipti Baugs við Kaupthing Luxembourg, og var í kjölfarið gerð þar húsleit. Eftir húsleitina skrifaði Martine Solovieff, saksóknari í Lúxemborg, bréf, dags. 3. ágúst 2004, þar sem hún áréttaði við ríkislögreglustjóra að gögn sem fengist hefðu með húsleit mætti einungis nota vegna þeirra brota sem tiltekin hefðu verið í réttarbeiðnum ríkislögreglustjóra. Þessu bréfi var ekki svarað af hálfu ríkislögreglustjóra.
Nú hafi komið í ljós að gögn sem fengust úr húsleit í Kaupthing Luxembourg hafi verið notuð vegna annarra sakarefna en þeirra sem hafi verið tilefni réttarbeiðna ríkislögreglustjóra þvert gegn fyrrgreindri ítrekun saksóknara í Lúxemborg. Stuðst sé við gögn frá Lúxemborg vegna ákæruliða 11, 12 og 17 í ákæru sérstaks saksóknara, dags. 31. mars 2006, og vegna ákæruliða 9, 30, 31 og 32 í ákæru ríkislögreglustjóra dags. 1. júlí 2005. Hvorki í ákæruliðum 11, 12 og 17 í ákæru 31. mars 2006 né liðum 30, 31 og 32 í ákæru 1. júlí 2005 sé ákært fyrir þau brot sem nefnd hafi verið í upphaflegum réttarbeiðnum um aðstoð frá Lúxemborg. Í ákærulið 9 í ákæru 1. júlí 2005 hafi að vísu verið ákært fyrir meintan fjárdrátt og umboðssvik til vara en þeim ákærulið var vísað frá með dómi Hæstaréttar 10. október 2005 og ekki endurákært vegna þess sakarefnis. Þá hafi bæði Jón H. B. Snorrason, saksóknari efnahagsbrotadeildar RLS, og Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari, viðurkennt opinberlega að stuðst sé við gögn sem aflað var frá Lúxemborg og sá síðarnefndi haldið því fram að ekki væri hægt að taka gögn út úr máli þegar þau væru komin inn í þau, sbr. ummæli hans í Fréttablaðinu 29. október 2006. Halda sóknaraðilar því fram að ríkissaksóknari hafi sett fram alvarlegri ásakanir en efni stóðu til í réttarbeiðni til Lúxemborgar, einungis í því skyni að fá þar aðstoð. Með því hafi ríkislögreglustjóri staðið ólöglega að öflun gagna.
Sóknaraðilar halda því fram að starfsaðferðir ríkislögreglustjóra við öflun gagna í Lúxemborg renni frekari stoðum undir röksemdir um að innan embættis ríkislögreglustjóra hafi þegar verið mótuð afstaða um sekt þeirra, sbr. kafla 1, og vanhæfi starfsmanna ríkislögreglustjóra til að fara með málið, sbr. kafla 2. Saksóknari ríkislögreglustjóra, sem hafi þegar staðfest að gögnin hafi verið notuð til undirbúnings fyrri ákærum í málinu, sem hafi verið andstætt forsendum aðstoðaryfirvalda í Lúxemborg, segir nú að gögnin verði ekki notuð í þeim hluta málsins er lúti að meintum skattalagabrotum, sbr. t.d. kvöldfréttir Útvarpsins 25. október síðastliðinn og kvöldfréttir Sjónvarpsins 27. október síðastliðinn. Halda sóknaraðilar því fram að eina leiðin til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun sönnunargagna sem aflað var með ólögmætum hætti sé að hætta rannsókn málsins. Til vara er þess krafist að úrskurðað verði að ríkislögreglustjóra sé óheimilt að fara áfram með rannsóknina.
5. Almennt um grundvöll kröfu samkvæmt 75. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála
Samkvæmt ákvæði 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála megi bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Skal úrlausn dómara vera í úrskurðarformi, sé þess krafist.
Tvímælalaust sé að lögmæti rannsóknar verði borið undir dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 8. júní 2006 í máli nr. 248/2006. Þar tóku héraðsdómur og Hæstiréttur afstöðu til kröfu um að úrskurðað yrði um lögmæti opinberrar rannsóknar. Í því máli voru uppi álitamál um það hvort sóknaraðili nyti réttlátrar málsmeðferðar í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Rökstuðningur fyrir kröfugerð varnaraðila
1. Brotið gegn reglu um að sakborningar teljist saklausir uns sekt þeirra er sönnuð.
Ríkislögreglustjórinn telur af og frá að embættið hafi verið búið að taka afstöðu til sektar sóknaraðila svo sem haldið sé fram í kröfugerð þeirra.
Ríkislögreglustjórinn bendir á að þau orð sem höfð voru eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005, séu ekki hans, enda andstæð því sem hann segir á nefndum blaðamannafundi í hljóði og mynd í útvarpi og sjónvarpi frá fundinum. Sé í þessu samhengi vísað til útprentunar á fréttum Stöðvar 2 þann 11. október 2005. Þar sé m.a. haft eftir Haraldi á þessum sama fréttamannafundi að hann segi „kæru vegna meintra stórfelldra skattalagabrota enn vera til meðferðar hjá hans embætti”. Megi á þessum orðum sjá að þá hafði ekki verið tekin nein afstaða af hans hálfu til sektar sóknaraðila, en þessi orð féllu, eins og áður sagði, á sama fréttamannafundi. Ef umrædd frétt á Stöð 2 sé skoðuð í heild sinni megi sjá að ekki hafi komið fram á fréttamannafundinum að embættismenn ríkislögreglustjóra hefðu þá verið búnir að taka afstöðu til sektar sóknaraðila í máli þessu.
Ríkislögreglustjórinn bendir á að framsetning blaðamanns Blaðsins á því sem fram fór á umræddum fréttamannafundi og það hvernig hann túlki það sem þar fór fram sé á hans ábyrgð og hans upplifun á því sem fram fór. Hann velji hvernig hann setji fram fréttina og hvernig hann fjalli um málið. Þegar því sé haldið fram fyrir dómi að tiltekin afstaða embættis ríkislögreglustjóra hafi komið fram á umræddum fundi verði hins vegar að taka til skoðunar umræddan fréttamannafund í heild sinni. Þegar umfjöllun blaðamanna um fundinn sé skoðuð í heild sinni komi í ljós að engin slík afstaða sem sóknaraðilar halda fram kom þar fram.
Sama megi segja um orð Jóns H. Snorrasonar saksóknara í Blaðinu 14. nóvember 2006, en þau séu tekin úr því samhengi sem þau voru í. Komi m.a. fram í fréttinni að hann hafi lítið viljað tjá sig um mál sem séu til rannsóknar. Komi einnig fram í greininni að Jón hafi sagt að þegar grunur liggi fyrir um brot af þessu tagi sé eðlilegt að embætti ríkislögreglustjórans taki málið til rannsóknar. Þau orð sem sóknaraðilar kjósi að draga fram úr greininni og byggja á að Jón hafi látið falla séu: „ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar.” Þegar þessi orð séu skoðuð í samhengi við greinina í heild sinni megi ljóst vera að saksóknarinn hafi alls ekki verið að taka afstöðu til sektar sóknaraðila í þessu tiltekna máli. Þvert á móti hafi hann eingöngu verið að útskýra að eðlilegt sé, þegar um mál af þessu tagi sé að ræða, að þau séu tekin til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild. Í því fái enginn sérmeðferð, enda óeðlilegt að svo væri.
Með hliðsjón af öllu þessu telur ríkislögreglustjórinn að ekki sé hægt að leggja til grundvallar í þessu máli þær stuttu setningar sem sóknaraðilar byggja þennan hluta kröfu sinnar á og teknar séu úr því samhengi sem samtal við blaðamanninn hafi verið í.
En jafnvel þótt sú afstaða embættismanna ríkislögreglustjórans hefði komið fram á umræddum fundi og í umræddri blaðagrein að mál varðandi meint skattsvik, sem kærð voru með kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins 12. nóvember 2004, myndu fara fyrir dóm, þá telur ríkislögreglustjórinn ekki að það hafi falið í sér að afstaða hafi þá verið tekin til sektar einstakra sakborninga eða að ákæra yrði gefin út á hendur tilteknum einstaklingum.
Í umræddri kæru skattrannsóknarstjóra, sem varðaði grun um fjölda brota í starfsemi þriggja félaga, hafi fjórir aðilar verið kærðir. Við rannsókn hjá lögreglu hafi fjórir til viðbótar hlotið réttarstöðu grunaðs manns. Hafi því verið haldið fram að umrætt mál færi fyrir dóm hafi því ekki verið um að ræða afstöðu til einstakra sakarefna eða sektar einstakra sakborninga. Sé aðstaðan hér að þessu leyti gjörólík þeirri sem var í dómi mannréttindadómstólsins sem sóknaraðilar vísa til. Í því tilviki hafi verið um það að ræða að gefið var í skyn af hálfu háttsettra manna innan lögreglunnar í París og ráðherra innanríkismála í Frakklandi að tiltekinn einstaklingur hefði framið tiltekið brot. Ef margir hefðu þar legið undir grun, og umræddir embættismenn hefðu einungis sagt að líklegt væri að málið færi fyrir dóm, hefði það tæplega talist í andstöðu við 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Með hliðsjón af því sem hér hafi verið rakið telur ríkislögreglustjórinn ljóst að ekki hafi verið brotið gegn reglu um að sakborningar teljist saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð.
2. Vanhæfi embættis Ríkislögreglustjórans og starfsmanna þess til að fara með málið
Eins og fram komi í kæru sóknaraðila höfðaði ríkislögreglustjórinn opinbert mál á hendur sóknaraðilum með útgáfu ákæru, dags. 1. júlí 2005, þ.e. mál ákæruvaldsins gegn A o.fl. nr. S-1026/2005. Þann 10. október 2005 vísaði Hæstiréttur Íslands, með dómi nr. 420/2005, 32 af 40 ákæruliðum ákærunnar frá héraðsdómi en lagði fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar þá 8 ákæruliði sem eftir stóðu.
Sóknaraðilar halda því fram að forsvarsmenn embættis ríkislögreglustjórans
„hafi áður [þ.e. í kjölfar ofangreinds frávísunardóms] lýst sig vanhæfa til að halda áfram með mál þeirra og þeir séu því einnig vanhæfir til að rannsaka þennan þátt málsins, sem lýtur að meintum skattalagabrotum þeirra”.
Hér séu sóknaraðilar að gefa sér þá staðhæfingu að embættismenn ríkislögreglustjórans hafi lýst sig vanhæfa til frekari meðferðar á ofangreindu ákærumáli. Vandséðar séu þær ástæður sem hefðu átt að leiða til þess, í kjölfar frávísunardóms Hæstaréttar, að ríkislögreglustjórinn yrði vanhæfur í málinu. Sóknaraðilar virðist a.m.k. ekki hafa fyrir því í kæru sinni að nefna þær vanhæfisástæður, heldur segja einfaldlega að ráða megi „af fréttaflutningi að [ríkislögreglustjóri] hafi átt frumkvæði að tilfærslu málsins til ríkissaksóknara á þeim grundvelli að ekki væri trúverðugt að [embættið] héldi áfram með það”.
Þessar fullyrðingar sóknaraðila séu rangar. Embætti ríkislögreglustjórans hafi aldrei lýst sig vanhæft til að annast hið opinbera mál sem að ofan greinir. Hvorki varðandi þá ákæruliði sem vísað var frá né þeirra sem stóðu eftir.
Eins og fram komi í framlögðu bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins, dags. 13. október 2005, ákvað ríkissaksóknari sjálfur, eftir fund með ríkislögreglustjóra, að taka til athugunar gögn þau er lágu til grundvallar hinum 32 ákæruliðum sem vísað var frá dómi og þá með tilliti til þess hvort efni væri til þess að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra gagna. Ákvörðun ríkissaksóknara grundvallaðist, eins og fram kemur í bréfinu, á 1. og 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, en samkvæmt þeim ákvæðum geti ríkissaksóknari tekið ákvörðun um saksókn í sínar hendur, hvenær sem hann telur þess þörf og þá t.d. ef mál er vandasamt, eins og um var að ræða í þessu tilviki.
Þá komi fram í bréfi ríkissaksóknara, dags. 3. nóvember 2005, til Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara, að forræði þess hluta málsins sem ekki var vísað frá sé enn í höndum ríkislögreglustjóra, þ.e. mál nr. S-1026/2005. Það hljóti að skjóta nokkuð skökku við hafi ríkislögreglustjóri lýst sig vanhæfan til meðferðar málsins, eins og sóknaraðilar halda fram í kæru sinni.
Í bréfi setts ríkissaksóknara, dags. 15. nóvember 2005, til ríkislögreglustjóra neytti hinn setti ríkissaksóknari heimilda sinna til að taka yfir sókn máls nr. S-1026/2005, með skírskotun til 2. mgr. 25. gr., 5. mgr. 27. gr., 1. mgr. 28. gr. i.f. og 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 24. nóvember 2005, til dómsmálaráðherra tiltekur hann ástæðu þess að hann ákvað að taka til athugunar gögn þau er lágu að baki hinum margnefndu 32 ákæruliðum sem vísað var frá dómi. Þar segir:
„Til upplýsingar tel ég ástæðu til að árétta að þann 11. október sl. ákvað ég, að gefnu tilefni frá ríkislögreglustjóra, að taka við þeim þætti umrædds máls sem Hæstiréttur vísaði frá héraðsdómi. Var það gert með skírskotun til 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991, þar eð málið þótti vandasamt og vafi gat leikið á hvort eða að hvaða marki höfða skyldi mál að nýju“.
Þau bréf sem hér hafa verið reifuð sýni glögglega að það var einfaldlega verið að nýta heimildir laga um meðferð opinberra mála til að færa saksókn og forræði opinbers máls frá einum ákæruvaldshafa til annars. Sú tilfærsla hafði ekkert með hæfi eða vanhæfi ríkislögreglustjórans að gera.
Það sé því augljóst að málatilbúnaður sóknaraðila, um að ríkislögreglustjórinn eða forsvarsmenn embættisins „hafi áður lýst sig vanhæfa“ í kjölfar frávísunardóms Hæstaréttar, sé á misskilningi byggður, enda virðist krafa þeirra fremur grundvölluð „af fréttaflutningi” en gögnum málsins. Ríkislögreglustjóri hafi aldrei lýst yfir vanhæfi sínu eða embættismanna sinna eða hagað störfum sínum þannig að leiði til vanhæfis.
Af þessu leiðir að sú málsástæða sóknaraðila, að beiðni ríkislögreglustjóra um að ríkissaksóknari taki til meðferðar og endurákvörðunar ákæru útgefna 1. júlí 2005 í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. október 2005, eigi að leiða til þess að embættið sé vanhæft í þeirri rannsókn sem hér um ræðir, fellur algjörlega um sjálfa sig.
Sóknaraðilar virðast standa í þeirri trú að segi ákæruvaldshafi sig frá máli, þá sé hann í öllum tilvikum að lýsa yfir vanhæfi sínu til málsins. Þennan misskilning megi t.d. sjá á bls. 7 í kæru þeirra, þar sem segir:
„Sóknaraðilar halda því fram að atvik þau er urðu tilefni útgáfu ákæru 1. júlí, sem að mestu var vísað frá með dómi Hæstaréttar 10. október 2005, sem [ríkislögreglustjóri] sagði sig svo frá degi síðar, séu svo samrætt atvikum í því máli sem [hann] hefur nú til rannsóknar að starfsmenn [hans] verði einnig að teljast vanhæfir í því“.
Þá skuli þess og getið hér að hefði ríkislögreglustjóri lýst sig vanhæfan til að annast sókn málsins nr. S-1026/2005 og að taka ákvarðanir um framvindu þeirra 32 ákæruliða sem vísað var frá dómi, þá myndi það ekki sjálfkrafa leiða til þess að hann eða embættið yrði vanhæft til að rannsaka síðar hin meintu skattalagabrot sóknaraðila. Á hinn bóginn yrði að meta sérstaklega hvort þær vanhæfisástæður sem um væri tefla ættu að leiða til vanhæfis í þeirri rannsókn. Til þess að unnt væri að framkvæma slíkt mat þyrftu vanhæfisástæðurnar að liggja fyrir, en svo er einfaldlega ekki í máli þessu.
Þá halda sóknaraðilar því fram að þeir geti ekki vænst þess að hljóta réttláta málsmeðferð hjá embætti Ríkislögreglustjórans þar sem saksóknari embættisins hafi opinberlega haft uppi „[m]isheppnaðar háðsglósur ... eins og „Áttu kannski björgunarsveitirnar að fara ofan í málið?“ og „hér fær enginn sérmeðferð, hvort sem hann er snauður eða ríkur og hvort hann afgreiðir kjötfars eða ekki.““ Sömuleiðis telja sóknaraðilar sig ekki munu fá réttláta málsmeðferð vegna ummæla saksóknara embættisins við sama tækifæri, er hann sagði „[e]f einhver brýtur af sér á þessu sviði [skattalagabrot] þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar.”
Ekki verði séð að ummæli þessi séu til þess fallin að valda vanhæfi embættis ríkislögreglustjórans eða sóknaraðilar megi vænta óréttlátrar málsmeðferðar. Með þessum ummælum sé saksóknari embættisins einungis að árétta jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1994, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995. Hér sé um að ræða yfirlýsingu um að allir fái sömu meðferð við rannsókn mála hjá efnahagsbrotadeild. Þá sé saksóknari að benda á þá staðreynd að skattalagabrot séu rannsökuð af hálfu lögreglu, nánar tiltekið hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 406, 1997, um rannsókn og saksókn efnahagsbrota.
Að endingu telja sóknaraðilar embætti ríkislögreglustjórans vanhæft vegna greinar aðstoðaryfirlögregluþjóns embættisins í Morgunblaðinu 15. nóvember sl., þar sem hann segir: „...og ég verð að játa að það hvarflaði að mér hvort við værum virkilega að upplifa aðferðir Berlusconis á Ítalíu eða skipulagðra glæpahópa sem starfa í skjóli auðs.” Halda sóknaraðilar því fram að umræddur aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi verið einn stjórnenda rannsóknar, er lá til grundvallar ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí 2005, og hafi komið að rannsókn er lúti að hinum meintu skattalagabrotum þeirra. Jafnframt telja sóknaraðilar að greinarhöfundur „hafi komið fram fyrir hönd embættisins með greinarskrifum sínum og þátttöku í Kastljósinu.“ Og þar af leiðandi megi „draga í efa vilja og getu starfsmanna [Ríkislögreglustjórans] til að rannsaka mál þeirra og taka ákvarðanir um framhald þeirra í samræmi við þær hlutleysiskröfur sem gerðar eru í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.“
Rétt sé að umræddur aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi verið einn af stjórnendum rannsóknar þess máls sem ákært var í 1. júlí 2005, mál nr. S-1026/2005. En á hinn bóginn er því algjörlega hafnað að viðkomandi hafi komið að rannsókn á meintum skattalagabrotum sóknaraðila. Sömuleiðis er því hafnað að hann hafi komið fram fyrir hönd embættisins í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins eða skrifað umrædda grein fyrir hönd embættisins. Í tilvitnuðum sjónvarpsþætti sé aðstoðaryfirlögregluþjónninn spurður hvort umrædd grein sé skrifuð á hans vegum eða embættisins. Hann segir:
„Þessi grein er algerlega skrifuð á mínum vegum og ég hef sem bara lögreglumaður og einstaklingur skrifað þessa grein og ég hef leitað til Landssambands lögreglumanna með aðstoð ekki til míns embættis. Og ég er að sjálfsögðu búinn að kynna mínum yfirmönnum að þetta sé í gangi og hef ekki fengið athugasemdir við það en þetta er eingöngu mín persónulega skoðun og mín persónulega grein.“
Af þessu megi ljóst vera að greinarskrif og þátttaka aðstoðaryfirlögregluþjónsins í Kastljósþætti sjónvarpsins sé algjörlega á ábyrgð hans sjálfs og embættinu með öllu óviðkomandi. Þá megi geta þess að starfsmaðurinn skýrði frá því í umræddum sjónvarpsþætti að hann væri hættur störfum hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans og hefði ekki komið að málefnum sóknaraðila í langan tíma, sjá nánar skjal.
Það sé því óskiljanleg málsástæða sóknaraðila að þessi ummæli fyrrum starfsmanns efnahagsbrotadeildar, sem hann setji fram sem einstaklingur, geti valdið vanhæfi embættis ríkislögreglustjórans eða dregið í efa hlutleysi starfsmanna þess.
3. Brotið gegn rétti sóknaraðila til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma.
Sóknaraðilar haldi því einnig fram að rannsókn RLS á máli þeirra hafi tekið óhæfilegan tíma og þar með brotið gegn rétti þeirra til fljótvirkrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994.
Ríkislögreglustjórinn telur að rannsókn máls þessa hafi ekki tekið óhæfilegan tíma. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins tók rúmlega eitt ár og rannsókn ríkislögreglustjórans, sem sé á lokastigum, hafi tekið tvö ár. Hér sé um mjög flókið mál og umfangsmikið að ræða og sakarefnin séu mörg og margháttuð. Sé því ekki óeðlilegt að rannsóknin hafi tekið langan tíma. Þá sé að sjálfsögðu rangt að rannsókn málsins hafi legið niðri frá því að málið barst og þar til skýrsla var tekin af kærðu í málinu. Ætti öllum að vera ljóst að í svo flóknu máli taki langan tíma að fara yfir gögn, afmarka sakarefni og undirbúa skýrslutökur. En jafnvel þótt um það væri að ræða að óútskýrður dráttur hefði orðið á rannsókn málsins ætti það ekki að leiða til þess að hætta yrði rannsókn. Ef til ákæru kæmi í málinu yrði hins vegar tekin efnisleg afstaða til þess hvaða áhrif sá dráttur ætti að hafa. Sé þessu til stuðnings vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 248/2006, þar sem Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu varðandi sömu málsástæðu í sams konar máli.
4. Misnotkun gagna sem aflað var með húsleit í Lúxemborg.
Í kröfu sóknaraðila sé því annars vegar haldið fram að embætti ríkislögreglustjórans hafi staðið ólöglega að öflun gagna með húsleit í Lúxemborg, með því að setja fram alvarlegri ásakanir í réttarbeiðni en efni stóðu til og hins vegar að embættið hafi notað umrædd gögn andstætt fyrirmælum Martine Solovieff, saksóknara í Lúxemborg, þ.e. með því að nota þau til stuðnings ákveðnum ákæruliðum í ákærum á hendur sóknaraðilum, dags. 1. júlí 2005 og 31. mars 2006.
Vegna þessa halda sóknaraðilar því fram, aðallega, að hætta verði rannsókn málsins, en til vara að úrskurðað verði að embætti ríkislögreglustjórans sé óheimilt að fara áfram með rannsókn málsins.
Þessi krafa sóknaraðila varði ekki það mál sem hér sé til meðferðar, þ.e. lögreglurannsókn nr. 006-2004-00076 sem grundvallist á kæru skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í þágu þess máls hafi ekki verið aflað gagna frá lögregluyfirvöldum í Lúxemborg og séu engin gögn í málinu sem yfirvöld í Luxemborg hafi aflað eða frá þeim stafa.
Á meðal gagna í sakadómsmálinu sem höfðað var með ákæru Sigurðar Tómasar Magnússonar, setts ríkissaksóknara, 31. mars 2006, séu gögn sem aflað var með réttarbeiðni á grundvelli Evrópusamnings um gagnkvæma réttaraðstoð frá 20. apríl 1959. Þau gögn kunni að koma til mats og skoðunar við meðferð þess máls og verði væntanlega fjallað þar um öflun og notkun þeirra gagna en ekki í því máli sem hér sé til umfjöllunar.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið sé ítrekuð krafa um að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Niðurstaða
Mál þetta er til meðferðar fyrir dómi á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 248/2006 verður 75. gr. skýrð svo að heimilt sé að bera ágreining um lögmæti rannsóknar lögreglu eða ákæranda í heild sinni undir dómara á grundvelli ákvæðisins.
Aðalkröfu sína um að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt byggja sóknaraðilar í fyrsta lagi á því að embætti ríkislögreglustjóra (RLS) hafi þegar tekið afstöðu um sekt þeirra og þar með hafi verið brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Er í þessu sambandi vitnað til eftirfarandi ummæla sem höfð voru eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005:
En í því samhengi má minnast á það að þriðjungur rannsóknarinnar beindist að skattamálum, sem hafa sumpart farið sinn farveg í skattkerfinu og munu að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál. Rannsóknin hefur staðist í alla staði hvað þann þátt málsins varðar, svo við vonum auðvitað að aðrir þættir fái efnislega meðferð.
Sóknaraðilar halda því fram að með tilvitnuðum ummælum hafi ríkislögreglustjóri, svo ekki verði um villst, tjáð sig um einstök efnisatriði í máli sem er til rannsóknar hjá embættinu og beinlínis lýst því yfir að rannsókn RLS muni lykta með útgáfu ákæru vegna skattsvika. Ummæli Jóns H.B. Snorrasonar, saksóknara RLS, í Blaðinu 14. nóvember 2006 staðfesti það enn frekar. Þar segir m.a.:
Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar ...
Telja sóknaraðilar að með ummælum þessum lýsi saksóknarinn því yfir gagnvart almenningi eins og að það sé staðreynd að sóknaraðilar hafi brotið af sér.
Með framangreindum ummælum telja sóknaraðilar að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til að teljast saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Þessu er andmælt af hálfu varnaraðila.
Í greinargerð varnaraðila í málinu, sem lögð var fram í þinghaldi 5. desember sl., segir að þau orð sem höfð voru eftir Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005, séu ekki hans, enda andstæð því sem hann segir á nefndum blaðamannafundi í hljóði og mynd í útvarpi og sjónvarpi frá fundinum. Framsetning blaðamanns Blaðsins á því sem fram fór á umræddum fréttamannafundi og það hvernig hann túlkar það sem þar fór fram sé á hans ábyrgð og upplifun hans á því sem fram fór. Sama megi segja um orð Jóns H.B. Snorrasonar saksóknara, í Blaðinu 14. nóvember 2006, en þau séu tekin úr því samhengi sem þau voru í. Vegna þessarar afstöðu var þess krafist af hálfu sóknaraðila að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Jóni H.B. Snorrasyni saksóknara. Því var mótmælt af hálfu varnaraðila. Þetta ágreiningsefni var lagt í úrskurð dómsins, sem hafnaði því með úrskurði uppkveðnum 6. desember sl. að umbeðnar vitnaleiðslur færu fram.
Í greininni í Blaðinu 12. október 2005 er í upphafi vísað til þess að ákveðið hefði verið að ríkissaksóknari myndi taka við meðferð þeirra 32 ákæruliða í Baugsmálinu, sem Hæstiréttur vísaði frá dómi og í framhaldi af því hafi þeir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H. B. Snorrason, saksóknari efnahagsbrotadeildar, veitt fjölmiðlum viðtal. Snýst viðtalið aðallega um dóm Hæstaréttar og viðbrögð embættis ríkislögreglustjóra við honum. Tilvitnuð ummæli ríkislögreglustjóra koma í beinu framhaldi af spurningu blaðamanns. Þótt vera kunni að ummæli þessi séu ekki orðrétt höfð eftir viðmælanda verður að ætla að þau endurspegli efnislega það svar sem gefið var við spurningunni og ber að skoða þau í því ljósi. Ekki er fallist á samkvæmt þessu að orðalagið „og munu að öðru leyti fara fyrir dóm sem skattsvikamál“ feli í sér ótvíræða yfirlýsingu ríkislögreglustjóra um að rannsókninni muni ljúka með útgáfu ákæru vegna skattsvika. Má einnig í þessu sambandi benda á það er eftir ríkislögreglustjóra var haft í fréttum Stöðvar 2 hinn 11. október 2005 er hann segir „kæru vegna meintra stórfelldra skattalagabrota enn vera til meðferðar hjá hans embætti.” Þegar þetta er virt og grein Blaðsins frá 12. október 2005 skoðuð í heild sinni og til samanburðar við það sem eftir ríkislögreglustjóra var haft í fréttum Stöðvar 2 og í kastljósi sjónvarpsins 11. október 2005 er ekki fallist á að ríkislögreglustjóri hafi þá, í ljósi þess sem eftir honum var haft, verið búinn að taka afstöðu til sektar sóknaraðila í máli þessu. Sama máli gegnir um tilvitnuð ummæli sem eftir Jóni H. B. Snorrasyni eru höfð í Blaðinu 14. nóvember 2006.
Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að með tilgreindum ummælum hafi verið brotið gegn 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að „hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð“ eða samsvarandi ákvæði 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kröfu sóknaraðila um það að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt af þeim sökum er því hafnað.
Í öðru lagi er krafa sóknaraðila um að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt byggð á því að embætti ríkislögreglustjóra og starfsmenn þess séu vanhæfir til þess að fara með málið. Þá er það einnig varakrafa sóknaraðila í málinu að úrskurðað verði að forsvarsmönnum embættis ríkislögreglustjóra, Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra og Jóni H.B. Snorrasyni saksóknara, og þar með öllum starfsmönnum embættisins, sé skylt að víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076.
Með vísan til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 248/2006 verður 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skýrð svo að heimilt sé að bera ágreining um hæfi rannsóknaraðila undir dóm á grundvelli ákvæðisins. Sóknaraðilar halda því fram að forsvarsmenn RLS hafi áður lýst sig vanhæfa til að fara með mál þeirra og þeir séu því einnig vanhæfir til að rannsaka þennan þátt málsins, sem lýtur að meintum skattalagabrotum þeirra. Vísað er til þess að mál þetta eigi sér langan aðdraganda. Upphaf þess sé að rekja til húsleitar í höfuðstöðvum Baugs hf. 28. ágúst 2002, sem fram fór í kjölfar þess að F, fyrrum viðskiptafélagi Baugs, lagði fram kæru á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins. Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 17. september 2003, var skattrannsóknarstjóra ríkisins send samantekt atvika varðandi ætluð brot nokkurra forsvarsmanna Baugs Group hf. á lögum um tekju- og eignarskatt, virðisaukaskatt og lögum um bókhald og ársreikninga. Með bréfum skattrannsóknarstjóra til Baugs Group hf., Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. og A dags. 14. nóvember 2003 var þessum aðilum tilkynnt að hafin væri rannsókn á bókhaldi og skattskilum þeirra frá 1998 til og með 2002. Með bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 2. desember 2003, til skattrannsóknarstjóra ríkisins var óskað eftir afhendingu tiltekinna gagna í þágu rannsóknar vegna ætlaðra auðgunarbrota stjórnenda Baugs Group hf.
Ákæra í Baugsmálinu var gefin út 1. júlí 2005. Með úrskurði 20. september sama ár vísaði héraðsdómur ákærunni frá dómi í heild. Hinn 10. október sama ár vísaði Hæstiréttur fyrstu 32 ákæruliðunum frá dómi en lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðaði liði 33-40. Var það mál nr. S-1026/2005. Sú rannsókn sem um ræðir í máli þessu, nr. 006-2004-00076, fer fram á grundvelli kæru skattrannsóknarstjóra frá 12. nóvember 2004.
Svo sem kemur fram í bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra, dags. 24. nóvember 2005, ákvað hann að gefnu tilefni frá ríkislögreglustjóra að taka við þeim þætti málsins sem Hæstiréttur hafði vísað frá héraðsdómi. Var það gert með skírskotun til 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991. Ríkissaksóknari vék sæti í málinu og settur var sérstakur ríkissaksóknari til meðferðar málsins, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga 19/1991. Að beiðni ríkislögreglustjóra, sbr. bréf dags. 15. nóvember 2005, tók settur ríkissaksóknari einnig yfir meðferð sakamálsins nr. 1026/2005 með vísan til 27. gr. og 2. mgr. 28. gr. laga 19/1991. Sóknaraðilar voru allir sýknaðir í því máli með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. mars 2006.
Í Blaðinu 14. nóvember 2006 eru eftirfarandi ummæli höfð eftir Jóni H. B. Snorrasyni, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.
Þegar grunur um brot liggur fyrir er eðlilegt að embætti ríkislögreglustjóra rannsaki málið. Áttu kannski björgunarsveitirnar að fara ofan í málið? [...] Þau mál sem eru til skoðunar hjá okkur eiga að vera til skoðunar hjá okkur, meira hef ég ekki um það að segja. [...]Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar. Menn geta ekkert valið Jón eða Gunnu til að stýra rannsókninni og hér fær enginn sérmeðferð, hvort sem hann er snauður eða ríkur og hvort sem hann afgreiðir kjötfars eða ekki. Svona er þetta bara.
Ummælin „Áttu kannski björgunarsveitirnar að fara ofan í málið?“ og „hér fær enginn sérmeðferð, hvort sem hann er snauður eða ríkur og hvort sem hann afgreiðir kjötfars eða ekki.” eru ósmekkleg, en ekki til þess fallin að draga megi óhlutdrægni saksóknarans í efa með réttu. Um orðalagið „ Ef einhver brýtur af sér á þessu sviði þá lendir hann hjá okkur til rannsóknar“ var áður fjallað í úrlausn um fyrsta lið aðalkröfu og vísast til þess. Verður ekki talið að ummæli þessi valdi vanhæfi saksóknarans Jóns H. B. Snorrasonar til meðferðar málsins samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að því er varðar grein Arnars Jenssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns RLR, sem birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember sl., þá liggur ekki fyrir að hann hafi nein þau tengsl við rannsókn þá sem hér um ræðir, sem máli getur skipt við mat á lögmæti hennar, auk þess sem greinarskrif hans eru ekki af þeim toga að þau hafi þýðingu við úrlausn þeirrar kröfu sem hér er til meðferðar. Er þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.
Í umfjöllun um fyrsta lið aðalkröfu hefur verið fjallað um þau ummæli sem höfð voru eftir ríkislögreglustjóra í Blaðinu 12. október 2005 og komist að þeirri niðurstöðu að þau fælu ekki í sér að fyrir fram hefði verið tekin ákvörðun um sekt sóknaraðila í máli þessu.
Sóknaraðilar halda því fram að ráða megi af fréttaflutningi að RLS hafi átt frumkvæði að tilfærslu málsins til ríkissaksóknara á þeim grundvelli að ekki væri trúverðugt að RLS héldi áfram með það.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 11. október 2005 sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri:
Ég held að það sé heppilegast vegna framgangs málsins, framtíð þessa máls, að ríkissaksóknari taki ákvarðanir um þau efni. Það er hægt með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í málinu.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sama dag sagði Haraldur:
Ég held að ef að ríkislögreglustjóri sé áfram með þetta mál hér innanhúss að allar ákvarðanir sem við kynnum að taka í sambandi við áframhald málsins myndu ekki vera trúverðugar í hugum almennings eins og umræðan hefur verið í þjóðfélaginu.
Í Blaðinu var haft eftir Haraldi 12. október 2005:
Haraldur bætir við að þar komi ekki einungis trúverðugleiki embættisins við sögu. Þetta er líka nauðsynlegt gagnvart sakborningunum, því eftir aðfinnslur af þessu tagi eiga þeir heimtingu á því að annað embætti komi að málinu, svo ekki verði frekar efast um málatilbúnað.
Framangreind ummæli ríkislögreglustjóra í kvöldfréttum Stöðvar 2 og ríkissjónvarpsins 11. október 2005 eru ekki vefengd, en eins og fyrr segir hefur varnaraðili neitað því að rétt sé eftir ríkislögreglustjóra haft í Blaðinu 12. október 2005. Þau ummæli standa þó að því marki sem þau eru efnislega í samræmi við aðrar yfirlýsingar ríkislögreglustjóra af sama tilefni.
Framangreind ummæli ríkislögreglustjóra komu fram í fréttum er skýrt var frá þeirri ákvörðun að embætti ríkissaksóknara tæki við meðferð þeirra 32 ákæruliða sem vísað var frá með dómi Hæstaréttar 10. október 2005. Forsendur fyrir frávísuninni voru þær meðal annars að ýmist væri verknaðarlýsingu í ákæru ábótavant eða að heimfærsla til refsiákvæða eða tilgreining ætlaðs brots væri ekki í samræmi við verknaðarlýsingu og jafnvel í mótsögn við hana. Þá þótti í mörgum tilvikum ekki skýrt í hverju þátttaka hvers og eins hinna ákærðu í hinum ætluðu brotum átti að felast, auk þess sem verulega þótti skorta á skýrleika í framsetningu ákæru að öðru leyti.
Engin ákvæði eru til í lögum um sérstakt hæfi stofnana eða lögaðila og ríkislögreglustjóri verður ekki vanhæfur til meðferðar máls, nema til sé að dreifa raunverulegum vanhæfisástæðum samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við mat á því hvort túlka beri ummæli ríkislögreglustjóra svo að þau valdi vanhæfi hans varðandi þann hluta máls, sem þau tóku til, vegur þungt tiltrú sóknaraðila á óhlutdrægni hans. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar er verulega að ákæru fundið og yfirlýsingar ríkislögreglustjóra í kjölfarið um að það sé „hægt með rökum að halda því fram að ríkislögreglustjóraembættið sé orðið of innvolverað í þetta mál til þess að geta litið hlutlaust á þær ákvarðanir sem að þarf að taka í málinu“ og „...allar ákvarðanir sem við kynnum að taka í sambandi við áframhald málsins myndu ekki vera trúverðugar í hugum almennings ...“ eru til þess fallnar að draga úr tiltrú sóknaraðila á óhlutdrægni hans. Að þessu virtu verður að telja að ríkislögreglustjóri hafi með þeirri ráðstöfun að fela ríkissaksóknara forræði málsins og þeirri opinberu skýringu sem hann gaf á henni orðið vanhæfur til þess að fara áfram með málið, sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga. Breytir engu í því sambandi þótt formleg yfirtaka ríkissaksóknara á saksókn í þeim þætti málsins hafi farið fram með skírskotun til 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991, þar eð málið væri vandasamt og vafi gat leikið á hvort eða að hvaða marki höfða skyldi mál að nýju, sbr. bréf ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra, dags. 24. nóvember 2005. Verður því einnig að ætla að þegar settur ríkissaksóknari tók yfir meðferð sakamálsins nr. 1026/2005, að beiðni ríkislögreglustjóra hinn 15. nóvember 2005, hafi sömu vanhæfisástæður og fyrr er lýst búið þar að baki.
Sú rannsókn sem um ræðir í máli þessu er augljóslega upphaflega hluti af þeirri rannsókn og því máli sem til varð á grundvelli húsleitarinnar 28. ágúst 2002. Því til stuðnings má benda á að í fréttum Stöðvar 2 hinn 11. október 2005 kom fram sú skýring hjá ríkislögreglustjóra að langur rannsóknartími málsins væri m.a. vegna meintra skattalagabrota, og samskipta skattrannsóknarstjóra og ríkislögreglustjóra út af þeim. Liggur og fyrir að sá hluti málsins, sem nú er til rannsóknar, lögreglurannsókn nr. 006-2004-00076, er sá þáttur, sem vísað var aftur til ríkislögreglustjóra að lokinni rannsókn skattrannsóknarstjóra. Þá liggur einnig fyrir að þau tengsl eru á milli skattrannsóknarinnar og annarra þátta málsins, sem sætt hafa ákæru og varða sömu sakborninga, að aflað hefur verið gagna frá skattrannsóknarstjóra vegna þeirra. Málið horfir og þannig við gagnvart sóknaraðilum að yfirstandandi rannsókn ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum sé einungis framhald málsins sem hófst með húsleit 28. ágúst 2002. Verður þannig að líta á rannsóknina sem eina heild og skiptir ekki máli þótt ætluð brot séu mismunandi.
Þegar allt þetta er virt verður að telja að fyrir hendi séu aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni ríkislögreglustjóra gagnvart sóknaraðilum í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því fallist á þá kröfu sóknaraðila að Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra sé skylt að víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076, sbr. 5. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Af því leiðir að telja verður að Jóni H. B. Snorrasyni saksóknara, sem stýrir rannsókninni í umboði ríkislögreglustjóra, sbr. a-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 406/1997 og 5. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991, beri einnig að víkja sæti við rannsókn málsins.
Sú niðurstaða leiðir hins vegar ekki til vanhæfis annarra starfsmanna embættis ríkislögreglustjóra, enda verður undirmaður ekki sjálfkrafa vanhæfur til meðferðar máls þótt yfirmaður hans sé það samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar. Engum rökum hefur verið að því leitt hvers vegna allir starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra eigi að víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076 og er þeirri kröfu hafnað.
Ekki verður talið að vanhæfi Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra og Jóns H.B. Snorrasonar saksóknara, eigi að leiða til ógildingar á rannsókn máls nr. 006-2004-00076 í heild sinni, enda hefur dómurinn engar forsendur til þess að meta það. Er þeirri kröfu því hafnað.
Í þriðja lagi byggja sóknaraðilar á því að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Sóknaraðilar halda því fram að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli þeirra hafi tekið óhæfilegan tíma og þar með brotið gegn rétti þeirra til fljótvirkrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Sú rannsókn er lýtur að meintum skattalagabrotum hófst með bréfi ríkislögreglustjóra til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 17. september 2003. Þeirri rannsókn lauk hjá skattrannsóknarstjóra á árinu 2004 og var kæru beint til ríkislögreglustjóra 12. nóvember sama ár. Hófst þá hjá varnaraðila sú rannsókn sem um ræðir í máli þessu nr. 006-2004-00076 um meint skattalagabrot fjögurra sóknaraðila en B sætti ekki kæru. Sakborningar voru ekki boðaðir til skýrslutöku vegna rannsóknar málsins fyrr en á þessu ári. Varnaraðili byggir á því að hér sé um mjög flókið og umfangsmikið mál að ræða og sakarefnin séu mörg og margháttuð. Sé því ekki óeðlilegt að rannsóknin hafi tekið langan tíma og rangt sé að hún hafi legið niðri frá því að málið barst og þar til að skýrsla var tekin af kærðu í málinu. Í svo flóknu máli taki langan tíma að fara yfir gögn, afmarka sakarefni og undirbúa skýrslutökur. Með vísan til dóms Hæstaréttar 8. júní 2006 í málinu nr. 248/2006 verður ekki tekin afstaða til þess í máli þessu hvort þessi dráttur á rannsókn málsins eigi að hafa áhrif á mat á lögmæti rannsóknarinnar, þar sem efnisleg afstaða til þess yrði tekin við dómsúrlausn málsins hvaða áhrif sá dráttur ætti að hafa, ef til ákæru kæmi í málinu.
Í fjórða lagi byggja sóknaraðilar á því að embætti ríkislögreglustjóra hafi staðið ólöglega að öflun gagna með húsleit í Lúxemborg með því annars vegar að setja fram alvarlegri ásakanir í réttarbeiðni en efni stóðu til og hins vegar að embættið hafi notað umrædd gögn andstætt fyrirmælum Martine Solovieff, saksóknara í Lúxemborg, þ.e. með því að nota þau til stuðnings ákveðnum ákæruliðum í ákærum á hendur sóknaraðilum, dags. 1. júlí 2005 og 31. mars 2006. Varnaraðili fullyrðir að gögn þessi hafi ekki verið notuð við rannsókn máls nr. 006-2004-00076 og það standi ekki til. Verður þeirri málsástæðu sóknaraðila ekki fundinn staður að starfsaðferðir RLS við öflun gagna í Lúxemborg renni frekari stoðum undir röksemdir sóknaraðila um að innan RLS hafi þegar verið mótuð afstaða um sekt þeirra, sbr. kafla 1 í rökstuðningi kröfugerðar, og vanhæfi starfsmanna RLS til að fara með málið, sbr. kafla tvö. Er því hafnað að sóknaraðilar geti stutt kröfu sína um það að rannsókn máls nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt við þá málsástæðu.
Samkvæmt framansögðu er hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt, en fallist er á þá kröfu sóknaraðila að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H. B. Snorrason saksóknari, skuli víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076.
Ákvörðun um málskostnað vegna rannsóknar máls nr. 006-2004-00076 verður ekki borin undir dóminn á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991 en að öðru leyti verður málskostnaður felldur niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila, A, B, C, D og E, um að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 verði úrskurðuð ólögmæt, er hafnað.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H. B. Snorrason saksóknari, skulu víkja sæti við rannsókn máls nr. 006-2004-00076.
Málskostnaður fellur niður.