Hæstiréttur íslands
Mál nr. 689/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 14. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2017, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðilanna D, E, F, G, H, I, J og K um að dómkvaddir yrðu matsmenn samkvæmt svonefndri viðbótarmatsbeiðni þeirra frá 5. september 2016. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðilanna um dómkvaðningu matsmanna og þeim gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðilarnir B og C krefjast þess aðallega „að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi“, en til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Í báðum tilvikum krefjast þau kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðilarnir H, I, J og K krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Aðrir aðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Af greinargerð varnaraðilanna B og C fyrir Hæstarétti verður ekki annað ráðið en að fyrrgreind aðalkrafa þeirra sé reist á því að sóknaraðili geti ekki sem varastefndi í héraði aflað gagna eða andmælt gagnaöflun annarra um atriði, sem varði dómkröfur á hendur aðalstefnda í héraði, varnaraðilanum L, enda hafi sóknaraðili ekki af því lögvarða hagsmuni. Eigi af þessum sökum að „vísa öllum kröfum sóknaraðila er lúta að mótmælum við framlagðri matsbeiðni ... frá dómi“, svo sem komist er að orði í greinargerð varnaraðilanna. Um þetta verður að gæta að því að samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 verður mótmælum eins málsaðila gegn kröfu annars aldrei vísað frá dómi, enda verður tekin afstaða til slíkra mótmæla með því að taka til greina eða hafna kröfunni, sem þeim er beint að. Um þessa kröfu er að öðru leyti til þess að líta að eins og málið liggur fyrir verður ekki gerður slíkur greinarmunur á málatilbúnaði um dómkröfur á hendur varnaraðilanum L annars vegar og sóknaraðila sem varastefnda í héraði hins vegar að slegið verði föstu að matsgerð, sem heimiluð var með hinum kærða úrskurði, varði ekki hagsmuni sóknaraðila. Eru þegar af þessum ástæðum engin efni til að verða við aðalkröfu varnaraðilanna B og C fremur en varakröfu þeirra, sem einkum virðist vera reist á því að héraðsdómur hafi ranglega látið hjá líða að geta um og taka afstöðu til kröfu þeirra um frávísun mótmæla sóknaraðila, en er að öðru leyti engum haldbærum rökum studd.
Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað eins og segir í dómsorði, en að öðru leyti en þar greinir fellur sá kostnaður niður.
Dómsorð:
Dómkveðja skal matsmenn í samræmi við matsbeiðni varnaraðila D, E, F, G, H, I, J og K frá 5. september 2016 með þeirri takmörkun, sem greinir í hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum H, I, J, og K hverju fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2017.
Mál þetta, sem var höfðað 28. apríl 2014, var tekið til úrskurðar 22. september 2017. Stefnendur eru B, [...], Reykjavík, D, C, [...] Reykjavík, E, Svíþjóð, F, [...], Reykjavík, H, [...], Reykjavík, G, Portúgal, J [...], Mosfellsbæ, K Danmörku, og I, með óþekkt heimilisfang í útlöndum.
Aðalstefndi er L, [...], Kópavogi.
Varastefndi er A [...], Kópavogi.
Réttargæslustefndu eru Q [...] Kópavogi, M, [...] Kópavogi, N, [...], Hellu, O, Noregi, og P, [...], Kópavogi. Við þingfestingu málsins 5. nóvember 2014 var ekki mætt af hálfu réttargæslustefnda Q.
Dómkröfur stefnenda eru aðallega þær að aðalstefndi L verði dæmdur til að greiða dánarbúi R 74.811.389.954 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 3. maí 2013 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúi R 47.558.500.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til þrautavara er gerð krafa um að varastefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúi R 2.250.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. janúar 2007 til 5. nóvember 2014, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess aðallega krafist að aðalstefndi, en til vara varastefndi, verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað.
Stefnendur gera engar kröfur á hendur réttargæslustefndu.
Aðalstefndi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Til vara var þess krafist að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum krafðist aðalstefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Varastefndi gerði aðallega kröfu um að dómkröfum stefnenda á hendur honum yrði vísað frá dómi og að stefnendum yrði gert in solidum að greiða varastefnda málskostnað. Til vara krafðist varastefndi sýknu af dómkröfum stefnenda og að stefnendum yrði gert in solidum að greiða honum málskostnað.
Réttargæslustefndu tóku undir kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi og kröfðust þess að stefnendum yrði gert að greiða réttargæslustefndu málskostnað.
Frávísunarkröfu aðalstefnda og varastefnda var hafnað með úrskurði dómara 23. september 2015.
Í þinghaldi 2. október 2015 var ákveðið, með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 78/2015, að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt sérstaklega um greiðslu- og bótaskyldu aðalstefnda og varastefnda.
Aðalmeðferð fór fram 7. janúar 2016 í fjölskipuðum dómi og var málið dómtekið. Dómurinn taldi að málið væri ekki dómtækt og vísaði því frá dómi með úrskurði 29. s.m. Með dómi Hæstaréttar 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að eins og málið væri vaxið yrði ekki séð að sú ákvörðun héraðsdóms 2. október 2015 að skipta sakarefni þess á grundvelli undantekningarákvæðisins í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 myndi hafa í för með sér hagræði við úrlausn þess. Í þinghaldi 11. apríl 2016 ákvað dómurinn að falla frá fyrri ákvörðun um skiptingu sakarefnis og myndi málið því sæta efnismeðferð óskipt.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar ágreiningur um viðbótarmatsbeiðni stefnenda D, E, F, G, H, I, J og K.
I.
Mál þetta er að rekja til erfðaskrár sem S gerði hinn 4. janúar 1938 um jörðina [...] S lést [...] 1940 og R tók arf í samræmi við erfðaskrána. Ágreiningur reis við opinber skipti á dánarbúi R um framangreinda erfðaskrá og ráðstöfun [...]. Allt frá þeim tíma hafa fjölmörg mál verið rekin fyrir dómstólum vegna ágreinings um erfðaskrána. Þá hefur L fjórum sinnum, árin 1992, 1998, 2000 og 2007, tekið eignarnámi hluta af jörðinni [...] og greitt umsamdar eignarnámsbætur í fyrstu tvö skiptin til T, elsta sonar R, í þriðja skiptið til dánarbús T og loks í það fjórða til varastefnda A, elsta sonarT.
Í máli því sem hér er til úrlausnar reisa stefnendur málssóknina á því að aðalstefndi hafi ekki greitt lögbundnar eignarnámsbætur til réttmæts og lögmæts handhafa beins eignarréttar að jörðinni [...], dánarbús R. Stefnendur líta svo á að eignarnámsbætur geti aðeins runnið til eiganda hins beina eignarréttar og að handhafi hins óbeina eignarréttar verði þá að sækja bætur til hans, eftir atvikum með málshöfðun. Málið höfða stefnendur til hagsbóta fyrir dánarbúið á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Af hálfu aðalstefnda og varastefnda er á því byggt að hinn beini eignarréttur að jörðinni sé verðlaus og að handhafi hins óbeina eignarréttar eigi tilkall til allra eignarnámsbóta.
Stefnendur lögðu fram matsbeiðni í þinghaldi 6. maí 2016 þar sem þess var óskað að dómkvaddir matsmenn legðu mat á hvert væri í krónum talið markaðsvirði 20,5 hektara lands jarðarinnar [...] sem matsþoli tók eignarnámi 8. maí 1992: a) Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram 8. maí 1992, b) framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013, c) á verðlagi 3. maí 2013 er Hæstiréttur kvað upp dóm í máli nr. 701/2012, d) á verðlagi þess dags sem matið fer fram. Þá var farið fram á að matsmenn legðu mat sama efnis á eignarnám árið 1998, 2000 og 2007, en vegna síðastgreinda eignarnámsins var einnig óskað eftir mati á nákvæmri stærð landsvæðisins sem var tekið eignarnámi og hver væru verðmæti landgæða þess lands sem tekið var eignarnámi, þ.e. vatnsréttinda, jarðefnaréttinda, veiðiréttinda, ef einhver væru, og náttúrufyrirbæra.
Aðalstefndi lagði einnig fram matsbeiðni, í þinghaldi 11. júlí 2016. Þar var í fyrsta lagi óskað eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta hvort beinn eignarréttur dánarbús R að landi jarðarinnar, sem tekið var eignarnámi árin 1992, 1998, 2000 og 2007, hafi haft fjárhagslegt gildi að teknu tilliti til þess að við eignarnámið hafi umráða- og afnotaréttur að landinu verið skilinn frá hinum beina eignarrétti að landinu. Ef svar við fyrstu spurningu væri játandi var þess óskað að matsmenn legðu mat á það hvert hafi verið verðmæti þess beina eignarréttar að landi jarðarinnar [...] sem tekið var eignarnámi framangreind ár, að teknu tilliti til þess að við eignarnámið hafi umráða- og afnotaréttur að landinu verið skilinn frá hinum beina eignarrétti. Í þriðja lagi var óskað eftir mati á því hvert hafi verið verðmæti þess umráða- og afnotaréttar að landi [...] sem tekið var eignarnámi framangreind ár og voru á hendi rétthafa samkvæmt erfðaskrá S.
Í þinghaldinu 11. júlí 2016 kvaddi dómsformaður til þá U, héraðsdómslögmann og löggiltan fasteignasala, og V hagfræðing, sem aðilar höfðu komið sér saman um sem hæfa og óvilhalla matsmenn, til að framkvæma umbeðið mat samkvæmt matsbeiðni stefnenda.
Varastefndi lagði fram matsbeiðni í þinghaldi 17. ágúst 2017. Þar var í fyrsta lagi óskað eftir mati á því hvert væri söluvirði/markaðsvirði beins eignarréttar yfir 864,4 ha lands úr landi jarðarinnar [...] sem tekið var eignarnámi 2007 ef undan beinum eignarrétti hafi varanlega verið skilinn réttur til að nota allt landið með því sem landinu fylgir og fylgja ber, réttur til að leigja allt landið út undir hús, leikvelli og annað og réttur til allra bóta fyrir landspjöll. Í öðru lagi var óskað eftir mati á því hvert væri söluvirði endurgjaldslauss og ótímabundins afnotaréttar yfir 274,4 ha landspildu úr landi jarðarinnar norðan [...] sem tekin var eignarnámi 2007, ef afnotaréttur fæli í sér einkarétt til að nota landið og hagnýta sér allt það sem landinu fylgir og fylgja ber, einkarétt til að leigja landið út undir hús, leikvelli og annað og einkarétt til allra bóta fyrir landspjöll. Í þriðja lagi hvert væri söluvirði/markaðsvirði endurgjaldslauss og ótímabundins afnotaréttar yfir 580 ha landspildu úr landi jarðarinnar [...] sunnan [...] sem tekin var eignarnámi 2007 ef afnotaréttur fæli í sér það sama og í spurningu 2. Í fjórða lagi var óskað mats á söluvirði/markaðsvirði réttinda samkvæmt leigusamningi milli einkahlutafélagsins [...] ehf. og matsbeiðanda frá 17. apríl 2002. Að lokum var farið fram á, telji matsmenn notagildi leiða til hærri niðurstöðu í einhverjum tilvikum, að þeir byggi á því í svari sínu og rökstyðji það. Þá skuli matsmenn miða svör sín í krónum talið annars vegar við verðlag í janúar 2007 og hins vegar á matsdegi.
Hinn 31. ágúst 2016 var sömu matsmönnum, U og V, falið að framkvæma umbeðið mat samkvæmt matsbeiðni aðalstefnda og matsbeiðni varastefnda.
Í þinghaldi 6. september 2016 lögðu stefnendur fram viðbótarmatsbeiðni. Í henni var óskað eftir því að matsspurningum um verðmæti nánar tilgreindra „takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda“ jarðarinnar [...] yrði bætt við fyrri matsbeiðni stefnenda. Í viðbótarmatsbeiðni er því haldið fram að Hæstiréttur hafi hinn 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 slegið því föstu að varastefndi væri réttmætur handhafi „kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda“ jarðarinnar [...] og það væri óhjákvæmilegt að matsbeiðendur leggðu fram sérstakar matsspurningar þar sem meint tjón handhafa „kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda“ væri metið sérstaklega. Þá segir í viðbótarmatsbeiðninni að nauðsynlegt sé að tekið verði tillit til þess að réttindi handhafa „kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda“ væru tímabundin og gæti viðkomandi rétthafi aðeins verið réttmætur handhafi eignarnámsbóta vegna sannanlegs tjóns á þeim tíma sem rétthafinn nýtur réttindanna. Þá er því haldið fram í viðbótarmatsbeiðninni að varastefndi hafi aldrei notið „takmarkaðra og kvaðabundinna afnotaréttinda“ að því landi sem var tekið eignarnámi árið 1992, 1998 og 2000. Síðan eru settar fram matsspurningar vegna hvers eignarnáms um sig, árið 1992, 1998, 2000 og 2007, þar sem óskað er eftir mati á því hvert var árlegt „afrakstursverðmæti (tekjur umfram gjöld og kostnað) handhafa kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda jarðarinnar“ af því landi sem tekið var eignarnámi hverju sinni og hvert hafi verið heildartjón handhafa „kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda“ jarðarinnar vegna þess lands sem tekið var eignanámi: a) Á verðlagi þess dags sem eignarnámið fór fram, b) framreiknað miðað við verðlagsbreytingar til 3. maí 2013, c) á verðlagi 3. maí 2013 er Hæstiréttur kvað upp dóm í máli nr. 701/2012 og d) á verðlagi þess dags sem matið fer fram. Við svörin skuli taka tillit til skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt og „þeirrar staðreyndar að handhafi kvaðabundinna og takmarkaðra afnotaréttinda jarðarinnar hefur aðeins tímabundinn afnotarétt af eigninni.“
Varastefndi mótmælti því að matsmenn yrðu dómkvaddir samkvæmt viðbótarmatsbeiðni. Málinu var frestað til 18. október 2016 til að stefnendur og aðalstefndi gætu tekið afstöðu til mótmælanna. Í þinghaldi þann dag kvaddi dómari til sem matsmenn, vegna matsbeiðni aðalstefnda, varastefnda og stefnenda Þ hrl., þar U hafði sagt sig frá verkinu, og V. Dómsformaður ákvað að svo stöddu að dómkveðja ekki matsmenn samkvæmt viðbótarmatsbeiðni stefnanda. Var málinu frestað ótiltekið eða þar til matsgerðir lægju fyrir.
Dómsformaður boðaði til þinghalds 6. júlí 2017 vegna bréfs Valgeirs Kristinssonar hrl. og Sigmundar Hannessonar hrl., dags. 14. júní 2017, þar sem óskað var eftir fyrirtöku í málinu vegna viðbótarmatsbeiðni stefnenda. Í því þinghaldi kom fram að stefnendur C og B stæðu ekki lengur að viðbótarmatsbeiðni sem hafði verið lögð fram í málinu. Málinu var frestað til 12. júlí 2017. Í þinghaldi þann dag mótmælti varastefndi fyrirliggjandi viðbótarmatsbeiðni og krafðist þess að fram færi munnlegur málflutningur í málinu og að dómsformaður úrskurðaði um ágreininginn. Munnlegur málflutningur fór fram 22. september 2017 og var málið tekið til úrskurðar.
II.
Varastefndi byggir mótmæli sín við því að dómkvaddir verði matsmenn samkvæmt viðbótarmatsbeiðni á því að í beiðninni séu matsmönnum gefnar forsendur sem þeim sé ætlað að fara eftir en séu á valdi héraðsdóms að meta. Slíkur málatilbúnaður fari gegn 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 og sé beiðnin ekki tæk til dómkvaðningar, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.
Matsbeiðnin sé sett fram með þeim hætti að ætlun matsbeiðenda sé að matið verði einskorðað við ákveðnar forsendur sem matsbeiðendur telja fullnægjandi til styrktar sjónarmiðum sínum. Hæstiréttur hafi synjað dómkvaðningar sem byggist á slíkum málatilbúnaði. Loks sé spurt um atriði sem séu þýðingarlaus fyrir úrlausn málsins og dómara sé því rétt að synja um dómkvaðningu með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Varastefndi telur að spurning um árlegt „afrakstursvirði“ óbeinna eignarréttinda fram til þess dags er eignarnám átti sér stað hafi enga þýðingu fyrir úrlausn sakarefnis máls þessa og því beri að hafna dómkvaðningu með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Við mat á tjóni vegna eignarnáms beri að leggja markaðsvirði til grundvallar nema notagildi leiði til hærri niðurstöðu. Með notagildi sé átt við þann arð sem eignin geti gefið af sér að teknu tilliti til endingartíma og vaxta.
Í eignaumráðum felist réttur eigandans til að geyma hagnýtingu eignar sinnar til þess tíma sem honum þyki hentugast. Þá verði ekki gerð sú krafa á eiganda réttinda að öll eignarréttindi hans séu fullnýtt á hverjum tíma. Af því leiði að söguleg skoðun á „afrakstursvirði“ eignarréttinda varastefnda og áður föður hans, innan tímaramma sem matsbeiðendur velji að geðþótta, hafi enga þýðingu fyrir úrlausn sakarefnis máls þessa. Í fyrsta lagi sé ómetið virði þeirra réttinda sem eigandinn kaus að geyma sér að hagnýta og í öðru lagi sé ómetið framtíðar- eða væntingavirði.
Varastefndi kveðst eiga stjórnarskrárvarinn rétt til að fá fullt verð fyrir þau takmörkuðu eignarréttindi sem hann hafi verið sviptur með eignarnámi matsþolans Kópavogsbæjar árið 2007.
Í viðbótarmatsbeiðni sé samkvæmt framansögðu ekki lagt fyrir matsmenn að meta sannvirði hinna takmörkuðu eignarréttinda, heldur ætlist matsbeiðendur til þess að lagt verði fyrir matsmenn að telja saman mismun tekna og gjalda af hinu eignarnumda á tímamarki eignarnáms, en ætlaða útkomu þess reiknings hafi þeir í matsbeiðni skilgreint sem fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti matsþolans og þannig lagt óheimilar fyrirfram forsendur fyrir niðurstöðu matsgerðar.
Þá séu í matsbeiðni hin takmörkuðu eignarréttindi ítrekað rangnefnd „takmörkuð afnotaréttindi“, þau sögð tímabundin og til þess ætlast að matsmenn byggi niðurstöður sínar á því. Einnig sé lagt fyrir matsmenn að í svörum við matsspurningum taki þeir tillit til „skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt“ sem væri, ef við ætti, hlutverk dómsins en ekki matsmanna.
Um lagarök vísar varastefndi til 3. mgr. 46. gr., 2. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eiga aðilar rétt á að afla í einkamáli þeirra sönnunargagna sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Það er hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt nema með stoð í lögum. Þannig ber dómara jafnan að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmann eða matsmenn nema matsbeiðni fullnægi ekki skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, dómari telji sönnunarfærslu tilgangslausa, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða að matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum sem dómara ber að leggja sjálfur mat á, sbr. 2. mgr. 60. gr. og 1. málslið 1. mgr. 61. gr. laganna.
Í viðbótarmatsbeiðni kemur skýrt fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað matsbeiðendur vilja sanna með mati. Ágreiningur um það hvort afnotaréttindi varastefnda séu „takmörkuð og kvaðabundin“ eða tímabundin varðar efni máls, sem og ágreiningur um það hvort „afrakstursvirði“ óbeinna eignarréttinda hafi þýðingu við mat á tjóni sem handhafar hinna óbeinu eignarréttinda telja sig hafa orðið fyrir vegna eignarnáms á jörðinni [...]. Efnislegur ágreiningur aðila getur ekki staðið í vegi fyrir því að matsbeiðendur afli umbeðins viðbótarmats og verður ekki fullyrt að sönnunarfærslan sé tilgangslaus. Það er svo dómsins að leggja mat á sönnunargildi matsgerðar við efnismeðferð málsins og bera matsbeiðendur áhættuna af notagildi hennar og kostnað af henni. Samkvæmt framansögðu er hafnað mótmælum varastefnda gegn umbeðinni dómkvaðningu og skal hún fara fram, að því undanskildu að það getur ekki verið hlutverk matsmanna að meta og taka tillit til skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt þar sem það er á valdi dómsins að meta slíkt ef við á.
Allir málsaðilar gera kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins. Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Umbeðin viðbótarmatsbeiðni skal fram fara eins og í beiðninni greinir, að því undanskildu að hafnað er því að matsmenn skuli meta og taka tillit til skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.