Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2010
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Stjórnsýsla
- Skaðabætur
|
Fimmtudaginn 3. mars 2011. |
|
|
Nr. 472/2010. |
Háskólinn á Akureyri (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Stefáni G. Jónssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Stjórnsýsla. Skaðabætur.
S starfaði sem dósent hjá H þegar honum var sagt upp störfum í maí 2006 vegna skipulagsbreytinga. Breytingarnar fólu m.a. í sér að dregið var úr námsframboði í kennaradeild H sem S starfaði við. S krafði H um bætur vegna uppsagnarinnar. Þar sem fyrir lá að kennaradeild og háskólaráð H höfðu komist að þeirri niðurstöðu að draga ætti úr raungreinakennslu við deildina féllst Hæstiréttur ekki á með S að rektor H hefði með uppsögninni farið gegn ákvörðunum deildarráðs eða háskólaráðs. Ekki var talið orka tvímælis að ráðning S hefði verið bundin við kennaradeild og að byggt hefði verið á því í starfsemi H að einstakir kennarar væru ráðnir til ákveðinna deilda H, störfuðu við þær og lytu í ýmsum atriðum boðvaldi deildarforseta eða deildarfundar. Við samanburð á kennurum þeirra greina sem S kenndi hefði rektor H því ekki með réttu lagi getað litið út fyrir raðir þeirra sem störfuðu við kennaradeild H. Ekki voru efni til að hnekkja mati H að kennari í þessum greinum, sem einn sat eftir í stöðu við kennaradeild, stæði framar í samanburði við S. Var H því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. október 2010. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 11.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. desember 2007 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Gagnáfrýjandi starfaði hjá aðaláfrýjanda á árunum 1987 til 2001, en fékk þá leyfi frá starfi og sagði því síðan lausu 2002. Hann var ráðinn að nýju til aðaláfrýjanda frá 1. júní 2003 að telja. Í ráðningarsamningi var starfsheiti samkvæmt kjarasamningi sagt vera dósent í stærðfræði og eðlisfræði og tegund starfs kennsla, rannsóknir og stjórnun. Ráðningin var ótímabundin, en gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir.
Með bréfi rektors aðaláfrýjanda 31. maí 2006 var gagnáfrýjanda sagt upp starfi sínu frá og með 1. júní sama ár. Til skýringar á uppsögninni var þar meðal annars vísað til þess að vegna langvarandi fjárhagsvanda aðaláfrýjanda hafi verið gripið til umfangsmikilla skipulagsbreytinga, sem miðuðu að því að rekstur skólans yrði framvegis innan ramma fjárlaga. Liður í því væri að sameina deildir og draga úr námsframboði og væru enn frekari breytingar fyrirhugaðar til að ná aukinni hagkvæmni í rekstri en þegar hafi verið ákveðnar. Þetta hafi þegar dregið úr kennsluþörf og væri ráðningarsamningi gagnáfrýjanda sagt upp vegna umræddra skipulagsbreytinga og minnkandi þarfar fyrir starfsfólk.
Gagnáfrýjandi óskaði 13. júní 2006 eftir frekari rökstuðningi, sem rektor veitti honum með bréfi 26. sama mánaðar. Þar sagði að skipulagsbreytingar hafi meðal annars beinst að því að samnýta í auknum mæli námsframboð, bæði innan deilda og milli deilda. Þannig hafi verið reynt að fækka mjög fámennum námskeiðum í deildum skólans, en jafnframt að bjóða nemendum hliðstæð námskeið í öðrum deildum. Á grunnskólabraut kennaradeildar, þar sem gagnáfrýjandi starfaði, hafi raungreinasvið verið illa sótt og mjög fáir nemendur valið það. Á síðasta ári hafi einungis tveir nemendur verið á öðru ári á raungreinasviði og á fyrsta ári hafi aðeins tveir valið það. Þess vegna hafi verið ákveðið að bjóða ekki upp á nám á raungreinasviði grunnskóladeildar næsta vetur. Núverandi nemendum á raungreinasviði yrði gert að ljúka námi með því að sækja námskeið í öðrum deildum og gildi sú regla framvegis. Með þessari breytingu minnki námsframboð kennaradeildar og þá jafnframt þörf fyrir kennara. Að auki hafi verið ákveðið á nýliðnu skólaári að draga úr skyldu nemenda grunnskólabrautar til að sitja námskeið í stærðfræði og eðlisvísindum og fyrirhugað væri að samræma raunvísindakennslu við skólann með því að auka samnýtingu námskeiða, sem þegar væru í boði. Breytingin leiddi til þess að ekki væru fyrirsjáanleg verkefni fyrir gagnáfrýjanda á næsta skólaári og því hafi ráðningarsamningi hans verið sagt upp.
Í málinu byggir gagnáfrýjandi meðal annars á því að í ráðningarsamningi hans hafi ekki verið tekið fram að hann væri ráðinn til að starfa við tiltekna deild aðaláfrýjanda og hafi ráðningin því tekið til skólans í heild. Jafnvel þótt verkefni við kennslu í stærðfræði og eðlisvísindum hafi ekki verið talin næg fyrir þá kennara, sem störfuðu í kennaradeild, hafi aðaláfrýjandi af þeim sökum ekki getað látið við það sitja að velja einungis á milli þeirra. Þess í stað hafi orðið að bera saman hæfni allra kennara skólans, sem kenndu þessar greinar, og taka ákvörðun um uppsögn á þeim grunni, enda hafi kennsla yfir svokallaða deildarmúra tíðkast innan skólans. Með þeirri nálgun hefði ekki getað komið til uppsagnar hans. Aðaláfrýjandi vísar á hinn bóginn til þess að gagnáfrýjandi hafi starfað við kennaradeild eftir að hann hóf störf hjá þeim fyrrnefnda að nýju á árinu 2003 og verði að taka mið af þeirri staðreynd. Minnkun verkefna við kennslu í þessum greinum hafi einkum orðið í kennaradeild og hljóti fækkun í kennaraliði að koma þar niður en ekki bitna á öðrum eins og gagnáfrýjandi krefjist í raun. Valið hafi staðið á milli gagnáfrýjanda og annars kennara við deildina og niðurstaðan orðið sú að sá maður hafi verið talinn standa gagnáfrýjanda framar.
Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi fallið frá upphaflegum kröfulið um bætur vegna búferlaflutninga milli landshluta af völdum uppsagnarinnar, enda hafi ekki til þeirra komið.
II
Í málinu er meðal annars deilt um heimild rektors aðaláfrýjanda til þeirrar ráðstöfunar, sem hér um ræðir, og hvort atbeini eða samþykki háskólaráðs eða þeirrar deildar, sem átti í hlut, hafi þurft til að koma. Þannig er byggt á því í málatilbúnaði gagnáfrýjanda að forsendurnar, sem rektor hafi reist ákvörðun um uppsögn á, hafi lotið að því hvaða námsefni yrði kennt hjá aðaláfrýjanda hverju sinni, en um það hafi deildarráð eða eftir atvikum háskólaráð haft ákvörðunarvald. Hvorki deildarráð kennaradeildar né háskólaráð hafi fjallað um þetta og ákvörðunin ekki heldur sótt stoð í samþykkta kennsluskrá. Deildarfundur fari með æðsta ákvörðunarvald í málefnum hverrar deildar, þar með talið um náms- og kennsluskrár, en rektor hafi ekkert tillit tekið til þess og því ekki farið að réttum málsmeðferðarreglum.
Þegar atvik málsins urðu giltu lög nr. 40/1999 um Háskólann á Akureyri, en samkvæmt 3. gr. þeirra réði rektor kennara til skólans og í 7. gr. voru frekari ákvæði um valdsvið rektors, þar á meðal um ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans. Hlutverk háskólaráðs var einkum markað í 4. gr. og 5. gr. laganna og samkvæmt 8. gr. skyldi það meðal annars ákveða deildaskipan skólans og setja reglur um yfirstjórn deilda. Samkvæmt 9. gr. skyldi setja námskrá fyrir hverja deild eða skilgreinda námsbraut og gefa árlega út kennsluskrá. Þá var mælt svo fyrir í 17. gr. að menntamálaráðherra setti í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Í 18. gr. sagði að allar reglur, sem háskólaráð setti á grundvelli þessara laga, skyldu birtar í Stjórnartíðindum.
Reglur nr. 888/1999 fyrir Háskólann á Akureyri voru samþykktar af háskólaráði 3. desember 1999 og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í II. kafla þeirra var fjallað um stjórnskipulag skólans og í 2. mgr. 2. gr. sagði meðal annars að „stjórn hans er falin háskólaráði, rektor og deildum (þ.e. deildarforsetum, deildarfundum og deildarráðum).“ Um yfirstjórn deilda var nánar fjallað í 5. gr., en í 1. mgr. hennar sagði að „með yfirstjórn deilda háskólans fara deildarfundir, deildarforsetar og deildarráð ef deildarfundur viðkomandi deildar tekur ákvörðun um að skipa deildarráð.“ Í 6. gr. voru ákvæði um deildarfundi og deildarráð og í 1. mgr. hennar sagði að „deildarfundir fara með æðsta ákvörðunarvald innan hverrar deildar“, en samkvæmt 2. mgr. ættu sæti á deildarfundum deildarforseti, prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar, hvort sem þeir gegndu fullu starfi eða hlutastarfi. Þá sagði meðal annars í 5. mgr. 6. gr. að deildarfundur fjalli um meginatriði í starfsemi hverrar deildar og í 6. mgr. sömu greinar að ákvörðun deildarráðs væri unnt að skjóta til deildarfundar. Í III. kafla reglnanna voru ákvæði um kennara, deildir og stofnanir aðaláfrýjanda, þar sem sagði meðal annars í 1. mgr. 11. gr. að deildir háskólans bæru ábyrgð á kennslu og kennslufyrirkomulagi og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skyldu deildir aðaláfrýjanda hafa með sér náið samstarf, meðal annars til að samnýta mannafla og fleira til að efla fjölbreytta menntunarkosti og tryggja hagkvæmni í rekstri. Um það sagði síðan að „í þessu skyni má nýta starfsskyldu þeirra sem ráðnir eru til starfa við einhverja deild skólans í þágu annarra deilda eða skólans í heild.“ Þá var í 4. mgr. 12. gr. mælt fyrir um að ef auglýst yrði staða prófessors, dósents eða lektors og fleiri en einn fengju hæfnisdóm skyldi rektor leita umsagnar viðkomandi deildar eða deilda áður en hann réði í stöðuna. Í 6. mgr. sömu greinar sagði loks að rektor skyldi ákveða í samráði við deildarforseta hvernig starfsskyldur einstakra háskólakennara skiptust milli kennslu og annarra starfsþátta innan marka gildandi kjarasamninga.
Að framan var getið skýringa rektors á uppsögn gagnáfrýjanda, þar sem meðal annars var vísað til dræmrar aðsóknar nemenda að raungreinum í kennaradeild og minnkandi verkefna við kennslu í þeim. Áður en kom til uppsagnar gagnáfrýjanda hafði námskrá fyrir skólaárið 2006 til 2007 þegar verið til umfjöllunar og ákvörðunar á að minnsta kosti þremur fundum innan kennaradeildar í febrúar og mars 2006. Sá fyrsti var haldinn í grunnskólabraut kennaradeildar 14. febrúar 2006, sá næsti einnig í grunnskólabraut 14. mars sama ár og sá þriðji í deildarráði kennaradeildar degi síðar. Niðurstaðan varð sú að lagt var til að kennsla í svokölluðum brautarkjarna deildarinnar í stærðfræði og eðlisfræði yrði minnkuð úr níu einingum í fimm og raungreinasvið sem kjörsvið fellt niður. Í tölvubréfi til rektors 26. mars 2006 lýsti gagnáfrýjandi óánægju með þessar breytingar, sem myndu leiða til þess að „umfang náms í stærðfræði og eðlisvísindum minnki um ca. tvo þriðju innan kennaradeildar.“ Þá liggur fyrir fundargerð háskólaráðs 12. apríl 2006, þar sem forseti kennaradeildar gerði grein fyrir erindi frá henni um staðfestingu háskólaráðs á breyttu námsframboði í grunn- og leikskólabraut. Háskólaráð samþykkti erindið.
Að framan var greint annars vegar frá stjórnskipulagi aðaláfrýjanda samkvæmt lögum nr. 40/1999 og reglum nr. 888/1999, þar á meðal hvert væri valdsvið rektors, háskólaráðs og deilda hvers um sig, og hins vegar niðurstöðum kennaradeildar og háskólaráðs um námskrá og ákvörðun rektors um að segja gagnáfrýjanda upp starfi. Að fenginni niðurstöðu kennaradeildar og háskólaráðs um að draga úr raungreinakennslu var það mat rektors að einungis yrði þörf fyrir einn kennara í raungreinum við deildina. Eins og málið liggur fyrir eru ekki forsendur til að hnekkja því mati. Ákvörðun rektors um að fækka kennurum á því sviði féll þannig saman við áðurnefnda niðurstöðu deildarinnar og háskólaráðs.
Gagnáfrýjandi ber því við sem áður segir að jafnvel þótt fækkun kennara á raungreinasviði hafi verið talin óhjákvæmileg hefði hún ekki átt að bitna á sér, enda myndi rannsókn hafa leitt í ljós að hann hafi staðið framar ótilgreindum starfsmönnum aðaláfrýjanda, sem kenndu stærðfræði og eðlisvísindi í öðrum deildum. Um þetta verður að gæta að því að í ráðningarsamningi gagnáfrýjanda frá 2003 kom fram að starfsheiti hans væri dósent í stærðfræði og eðlisfræði og vinnustaður Háskólinn á Akureyri, en háskóladeildar var þar í engu getið. Í þeim ákvæðum reglna nr. 888/1999, sem áður voru rakin, var allt að einu sýnilega byggt á því grundvallaratriði í starfsemi aðaláfrýjanda að einstakir kennarar væru ráðnir til tiltekinnar deildar, störfuðu við hana og lytu í ýmsum atriðum boðvaldi deildarforseta eða deildarfundar, sbr. meðal annars 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 11. gr. og 4. mgr. og 6. mgr. 12. gr. reglnanna. Ljóst er af gögnum málsins að gagnáfrýjandi starfaði við kennaradeild aðaláfrýjanda og gegndi skyldum sínum meðal annars með því að sitja fundi grunnskólabrautar deildarinnar. Getur að þessu virtu ekki orkað tvímælis að ráðning gagnáfrýjanda var í reynd bundin við kennaradeild, þótt einnig hefði mátt nýta starfsskyldu hans í þágu annarra deilda, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 11. gr. reglna nr. 888/1999. Af þessum sökum hefði ekki getað komið til álita að rektor segði upp kennara í stærðfræði eða eðlisvísindum við aðra deild til að mæta samdrætti í kennslu í þeim greinum í kennaradeild og flytti við svo búið gagnáfrýjanda til í starfi á milli deilda án nokkurs tillits til afstöðu hans og þeirrar deildar, sem við honum ætti að taka. Að réttu lagi gat aðaláfrýjandi því ekki litið við samanburð á kennurum í þessum greinum út fyrir raðir þeirra, sem störfuðu við kennaradeild. Ekki eru efni til að hnekkja því mati aðaláfrýjanda að kennari í þessum greinum, sem einn sat eftir í stöðu við kennaradeild, stæði framar í samanburði gagnáfrýjanda. Þessu til samræmis og með því að önnur haldbær rök geta ekki staðið til þess að krafa gagnáfrýjanda verði tekin til greina verður aðaláfrýjandi sýknaður af henni.
Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Háskólinn á Akureyri, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Stefáns G. Jónssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. maí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. marz, er höfðað með stefnu, birtri 9. nóvember 2007, af Stefáni G. Jónssyni, kt. 031048-4439, Holtateigi 24, Akureyri, á hendur Háskólanum á Akureyri, kt. 520687-1229, Sólborg, Akureyri.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 26.653.978 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf. og að við ákvörðun hans verði litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar stefnukröfu og niðurfellingar málskostnaðar.
Málavextir
Stefnandi, sem er eðlisfræðingur og stærðfræðingur, hóf störf hjá stefnda á fyrsta starfsári stefnda, 1987. Starfaði hann hjá stefnda til ársins 2002, þar af sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði árin 1995 til 2002, síðasta árið var stefnandi þó í launalausu leyfi. Árið 2002 sagði stefnandi upp starfi sínu hjá stefnda og starfaði hjá fyrirtæki í Reykjavík. Árið 2003 var stefnandi að nýju ráðinn til starfa hjá stefnda, sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði, frá og með 1. júní það ár. Með bréfi rektors stefnda, dagsettu 31. maí 2006, var stefnanda sagt upp starfinu frá og með 1. júní það ár, en stefnandi starfaði þá innan kennaradeildar stefnda. Í bréfi rektors segir meðal annars, að vegna viðvarandi fjárhagsvanda stefnda hafi verið gripið til umfangsmikilla skipulagsbreytinga sem miði að því, að rekstur stefnda verði framvegis innan ramma fjárlaga. Mikilvægur þáttur í breyttu skipulagi sé að sameina viðskipta-, upplýsingatækni- og auðlindadeild í eina deild, viðskipta- og raunvísindadeild. Kennsla skuli hefjast í nýrri sameiginlegri deild haustið 2006. Þá segir að í nóvember 2005 hafi háskólaráð samþykkt að draga skyldi úr og einfalda námsframboð í félagsvísinda- og lagadeild og hafi ráðið jafnframt fjallað um sameiningu kennaradeildar við félagsvísinda- og lagadeild og falið rektor að gera áætlun um tímaramma og málsmeðferð. Sameining deilda hafi þegar leitt til breytinga á námsframboði einstakra deilda og séu frekari breytingar fyrirhugaðar, svo sem í þá veru að breyta skipulagi náms þannig að deildir sérkenni síður tilteknar fræðigreinar heldur sæki nemendur þess í stað sambærileg námskeið í aðrar deildir. Hafi þetta þegar dregið úr kennsluþörf. Segir í bréfinu að vegna þessara breytinga og minni þarfar fyrir starfsfólk sé ráðningarsamningi stefnanda sagt upp og skuli starfslok, að loknum þriggja mánaða uppsagnarfresti, vera 31. ágúst 2006.
Stefnandi fór fram á frekari rökstuðning fyrir ákvörðun rektors og fékk hann með bréfi dagsettu 26. júní 2006. Segir þar, að raungreinasvið grunnskólabrautar kennaradeildar hafi verið illa sókt og mjög fáir nemendur valið sviðið. Síðasta ár hafi aðeins tveir nemendur verið á fyrsta ári og tveir á öðru, og hafi því verið ákveðið að bjóða ekki upp á nám á raungreinasviði grunnskólabrautar komandi vetur. Þeim nemendum, sem þegar séu á sviðinu, verði gert að ljúka námi sínu með því að sækja námskeið í öðrum deildum. Með þessari breytingu minnki námsframboð kennaradeildar og þá þörfin fyrir kennara. Þá segir í rökstuðningnum að ákveðið hafi verið að draga úr skyldu nemenda grunnskólabrautar til að sitja námskeið í stærðfræði og eðlisvísindum. Sé nú öllum gert að sitja tvö námskeið á haustmisseri fyrsta árs en á vormisseri geti þeir valið milli námskeiðs í íslenzku annars vegar og stærðfræði og eðlisvísindum hins vegar. Áður hafi öllum verið skylt að sitja einnig eðlisvísinda- og stærðfræðinámskeið á vormisseri fyrsta árs. Þá sé fyrirhugað að samræma raunvísindakennslu við stefnda með því að auka samnýtingu þeirra námskeiða sem þegar séu í boði. Muni heildarfjöldi kenndra eininga í stærðfræði og eðlisvísindum því minnka, þó samnýting námsleiða verði til þess að námsframboð verði sambærilegt. Hafi þessar breytingar leitt til þess að ekki væru „fyrirsjáanleg verkefni“ fyrir stefnanda næsta skólaár og því hafi ráðningarsamningi hans verið sagt upp. Lýkur rökstuðningnum á að rektor harmar að til þessa hafi þurft að koma.
Tveimur dögum síðar skrifar rektor meðmælabréf með stefnanda. Segir þar að stefnandi hafi verið fyrsti starfsmaður stefnda og er starfsferill hans svo rakinn nánar. Segir meðal annars í bréfinu að stefnandi hafi kennt flest námskeið kennaradeildar sem séu á fræðasviði hans en hafi jafnframt kennt námskeið í tölfræði, stærðfræði og eðlisvísindum í öðrum deildum stefnda. Hafi stefnandi reynzt vandaður kennari og farsæll stjórnandi og öll hans störf einkennzt af nákvæmni og sanngirni.
Undir rekstri málsins var Sverrir Kristinsson löggiltur fasteignasali dómkvaddur til að meta tjón stefnanda af því að hann „verði að selja hús sitt og konu sinnar á Akureyri og kaupa í staðinn hús í Reykjavík sambærilegt að stærð og gæðum.“ Matsbeiðandi var stefnandi. Í matsgerð sinni, dagsettri 17. nóvember 2009, segir matsmaður að á matsfundi hafi hann verið beðinn um að matið yrði annars vegar miðað við áramótin 2006 og 2007 og hins vegar við 1. september 2009. Niðurstaða matsmanns er sú, að miðað við 1. janúar 2007 teljist tjónið vera 14.850.000 krónur en miðað við 1. september 2009 teljist það vera 12.350.000 krónur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst hafa ráðizt fyrst til stefnda árið 1987, á fyrsta starfsári stefnda. Hann hafi látið af starfi við stefnda árið 2002 en verið ráðinn þar að nýju sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði frá 1. júní 2003. Hafi hann árin 2003 til 2006 kennt að hluta eða heild nokkur námskeið í stærðfræði, eðlisvísindum og tölfræði í kennaradeild, tölfræði í heilbrigðisdeild og hluta námskeiðs í aðferðafræði í félagsvísinda- og lagadeild. Hafi stefnandi á starfsferli sínum kennt í fimm af sex deildum stefnda og komið að velflestum námskeiðum í stærðfræði, tölfræði, eðlisvísindum, kennslufræði raungreina, aðgerðagreiningu og mælitækni. Kennsluskylda stefnanda hafi við starfslok verið 849 einingar á ári.
Stefnandi segir, að í maílok 2006 hafi auk sín tveir kennarar kennt stærðfræði og raunvísindi við kennaradeild í hálfu öðru stöðugildi, Axel Björnsson og Níels Karlsson. Kennsluskylda Axels hafi verið 769 einingar á ári en Níelsar, sem hafi verið í hálfu starfi, 425 einingar. Stefnandi segir, að Níelsi hafi verið sagt upp starfi um leið og stefnanda og hafi efnisatriði uppsagnarbréfs hans verið samhljóða því sem stefnandi hafi fengið.
Stefnandi segir, að ekki standist skoðun sú fullyrðing rektors stefnda, að vegna minna kennslumagns hafi ekki verið þörf fyrir stefnanda hjá stefnda. Kveðst stefnandi rökstyðja þá skoðun sína í átján liðum:
Í fyrsta lagi segir stefnandi að mat stefnda á námskeiðunum STÆ0153 og EVÍ152 virðist vera nokkuð nærri lagi, en þó vanmat, þar sem nokkur fjöldi eldri nemenda hafi flutzt milli kerfa í kennaradeild og þurfi að reikna með endurtökuprófum. Ekki sé heldur getið um námskeiðið STÆ0151, sem ætlað hafi verið þeim nemendum sem lokið hefðu STÆ0152 en vantað eina einingu til að hafa lokið STÆ0153. Sé því líklegast að nokkurar einingar bætist við hinar áætluðu 950.
Í öðru lagi segir stefnandi að fyrirhugað hafi verið að Axel Björnsson yrði í rannsóknarleyfi allt almanaksárið 2007. Eftir uppsögn stefnanda hafi leyfi Axels verið frestað til haustannar 2007 en fram að þeim tíma hafi Axel sinnt kennslu sem stefnandi hefði allt eins getað sinnt. Hefði því mátt komast hjá uppsögn stefnanda með því að Axel færi í sitt fyrirhugaða námsleyfi.
Í þriðja lagi segist stefnandi hafa verið búinn að vinna sér rétt til rannsóknarleyfis þegar sér hafi verið sagt upp störfum. Hefði því mátt semja við sig um rannsóknarleyfi í stað uppsagnar.
Í fjórða lagi segir stefnandi að Axel Björnsson hafi kennt námskeiðið JVÍ1103, jarðvísindi, sem nú sé í viðskipta- og raunvísindadeild. Samkvæmt áætlun haustmisseris hafi verið reiknað með 309 einingum þar og hafi Axel kennt námskeiðið sem fyrr. Rektor hafi í engu litið til þessa.
Í fimmta lagi segist stefnandi hafa tekið að sér einn nemanda til kjörsviðsritgerðar í kennaradeild vorið 2006. Hafi þar verið 30 einingar.
Í sjötta lagi segir stefnandi að Axel Björnsson hafi séð um eðlisfræðistofu frá því hann hafi komið til starfa við stefnda. Áður hafi stefnandi gegnt þeim starfa. Séu þar 50 einingar.
Í sjöunda lagi segir stefnandi að rektor hafi ekki litið til valnámskeiða í stærðfræði og eðlisfræði vormisseris. Rektor segi, í tölvubréfi til Þóris Sigurðssonar, formanns kennarafélagsins, hinn 22. ágúst 2006 að almenna reglan „sé sú að það þurfi a.m.k. 10 nemendur til að námskeið sé kennt. Verði sú raunin að nægilega margir nemendur velji stærðfræði og eðlisvísindi á vormisseri umfram íslensku þá bætast um 520 einingar við, uþb 340 í EVÍ og 180 í STÆ. Námskeiðið í eðlisvísindum skiptist í eðlis- og efnafræði nokkurn veginn til helminga.“ Stefnandi segir, að við endurskoðun námskrár á grunnskólabraut kennaradeildar veturinn 2005 til 2006 hafi brautarstjóri og fleiri lagt áherzlu á að raunverulegt val yrði milli íslenzku og stærðfræði og eðlisvísinda. Komi sá skilningur fram í fundargerð 45. fundar grunnskólabrautar hinn 18. október 2005, en þar segi að hugmyndin með breytingunum sé „að gefa nemendum kost á auknum valmöguleikum óháð reglum um lágmarksþátttöku á einstökum námsleiðum.“ Rektor hafi ekki, í maí 2006, litið til valnámskeiða vormisseris 2007 og stangist það á við umræður á grunnskólabraut við endurskoðun námsskrár.
Í áttunda lagi segir stefnandi að ekki hafi verið minnzt á þann möguleika að útvega Axel Björnssyni meiri kennslu í öðrum fögum en fela stefnanda fleiri verkefni innan kennaradeildar.
Í níunda lagi segir stefnandi, að þegar litið sé til kennslu vormisseris þá hafi Axel og stefnandi gjarnan verið með að minnsta kosti 150 einingar við kjörsviðsritgerðir til BEd prófs. Á brautarfundi hinn 22. ágúst 2006 hafi komið fram hjá brautarstjóra grunnskólabrautar að líklega þyrfti að leita handleiðara utan deildar, vegna anna og leyfa kennara. Auðvelt hefði verið að stýra ritgerðarverkefnum til stefnanda. Í september 2006 hafi enn milli tuttugu og þrjátíu nemendur verið án handleiðara og hefðu þar verið 500 til 700 einingar hið fæsta.
Í tíunda lagi segir stefnandi að prófessor Kristján Kristjánsson, umsjónarkennari diplóma og meistaraprófsritgerða, hafi talið að þar væru hugsanlega verk fyrir vel menntaða handleiðara.
Í ellefta lagi segir stefnandi að Axel Björnsson hafi kennt nokkura tíma í námskeiðinu LIV0552, vísindasmiðju í kennaradeild. Sé eðlilegt að reikna þar með 15 einingum hið fæsta. Þetta hefði stefnandi getað kennt. Þá sé ekki óeðlilegt að kunnáttumaður í raunvísindum sjái um námskeiðið og séu þar aðrar 15 einingar.
Í tólfta lagi segir stefnandi að þeir Axel hafi báðir kennt tölfræði kennaradeildar á vormisseri. Sé sú kennsla vart undir 300 einingum. Þetta kenni nú kennari í heilbrigðisdeild en stefnandi gæti það engu síður.
Í þrettánda lagi segir stefnandi að námskeiðið AÐF0152, aðferðir, hafi kennt aðjúnkt við deildina, sem þar hafi verið í hlutastarfi á móti starfi á skólarannsóknarsviði. Sá aðjúnkt hafi, eftir uppsögn stefnanda, verið færður tímabundið í fulla stöðu í kennaradeild, vegna mikillar kennslu. Stefnandi segir að þetta námskeið hefði sem bezt getað verið á starfsviði sínu. Sami aðjúnkt hafi einnig séð um námskeiðið stærðfræði og náttúrvísindi yngri barna. Hafi hann lokið BEd prófi af myndlistarsviði og standi stefnanda því að baki við kennslu þeirra verkefna sem hér hafi verið nefnd.
Í fjórtánda lagi segir stefnandi að í rannsóknarleyfi Braga Guðmundssonar dósents hafi nýráðinn aðjúnkt séð um námskeið um grenndarkennslu. Þessi aðjúnkt hafi lokið BA prófi í almennri bókmenntafræði með íslenzku sem aukagrein. Eðlilegt hefði verið að fela Axel Björnssyni umsjón með þessu námskeiði og verulegan hluta kennslu þar.
Í fimmtánda lagi segir stefnandi að ekki hafi verið kannaðir möguleikar á því, að Axel kenndi sérhæfð námskeið í viðskipta- og raunvísindadeild, á umhverfis- og orkusviði. Nefnir stefnandi sérstaklega námskeiðið ENO1103, endurnýjanlega orkugjafa, en þar sé meðal annars fjallað um jarðhita, sem sé á sérsviði Axels.
Í sextánda lagi segir stefnandi að kennari í stærðfræði við viðskipta- og raunvísindadeild hafi unnið mjög mikla yfirvinnu. Stefnandi hafi kennt á þeirri deild og væri undarlegt ef ekki hefði mátt fela honum verkefni þar, hefði skortur verið á þeim innan kennaradeildar.
Í sautjánda lagi segir stefnandi að vitað hafi verið að prófstjóri myndi hætta störfum. Það starf hefði stefnandi getað tekið að sér, vegna starfsreynslu sinnar innan stefnda.
Í átjánda lagi segir stefnandi að Axel Björnsson hafi verið í rannsóknarleyfi, á yfirstandandi önn, miðað við útgáfu stefnu. Í stað hans hafi verið fenginn matvælafræðingur í stundakennslu eðlisfræði og hagfræðingur fenginn sem umsjónarkennari námskeiðsins. Skólaárið 2006 til 2007 hafi Guðmundur Óskarsson kennt viðskiptastærðfræði á viðskipta- og raunvísindadeild. Stærðfræðinámskeið kennaradeildar hafi verið samkennt með viðskiptastærðfræðinni, en stefnandi segir innihaldið hafa verið þvert á samþykkta kennsluskrá kennaradeildar. Þá hafi Guðmundur kennt strjála stærðfræði á tölvu- og upplýsingatæknibraut vormisserið 2007, en stefnandi kveðst hafa mun meiri menntun og reynslu en Guðmundur á sviði strjállar stærðfræði. Yfirvinna Guðmundar og Axels Björnssonar, skólaárið eftir uppsögn stefnanda, hafi verið meiri en kennsluskylda stefnanda hafi verið. Þá hafi fleiri stærðfræði- og raunvísindakennarar einnig unnið talsverða yfirvinnu það ár.
Stefnandi kveðst hafa verið ríkisstarfsmaður. Um réttindi hans og skyldur hafi gilt ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Þá hafi stjórnsýslulög nr. 37/1993 gilt um uppsögn stefnanda auk óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins. Starfsuppsögn sé einkar íþyngjandi ákvörðun.
Stefnandi kveðst telja, að við ákvörðun um uppsögn sína hafi ekki verið gætt málsmeðferðarreglna sem kveðið sé á um í lögum nr. 40/1999 um Háskólann á Akureyri og reglum sem settar hafi verið með stoð í þeim lögum. Fyrir því kveðst stefnandi færa þau rök, að fram hafi komið í rökstuðningi rektors að breytingar á námsframboði og sameining námskeiða hafi verið forsendur uppsagnarinnar. Um þetta og skyld atriði séu ákvæði í lögum um stefnda, er varði stjórnskipan hans. Samkvæmt 5. gr. laganna sé háskólaráð æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. sé rektor yfirmaður stjórnsýslu og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum. Hann hafi almennt eftirlit með starfsemi stefnda og frumkvæði að því að háskólaráð marki heildarstefnu í málefnum stefnda. Samkvæmt 8. gr. ákvarði háskólaráð deildarskipan og afmarki aðrar stjórnunareiningar innan stefnda. Háskólaráð setji deildum starfsreglur og reglur um hvert vera skuli verksvið, vald og ábyrgð hverrar stjórnunareiningar innan deildar. Samkvæmt 9. gr. skuli setja námsskrá fyrir hverja deild og skilgreinda námsbraut, og þar kveða á um markmið, inntak og megin viðfangsefni námsins. Á grundvelli námsskrár skuli árlega gefa út kennsluskrá þar sem meðal annars sé gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skuli enn fremur kveðið á um missera- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varði skipulag náms. Háskólaráð skuli staðfesta námsskrár og kennsluskrár en deildarráð bera ábyrgð á gerð þeirra. Stefnandi segir, að þegar litið sé til laganna sé ljóst að rektor hafi engar lögmætar forsendur haft til að segja stefnanda upp störfum. Forsendurnar, sem hann hafi byggt á, hafi lotið að atriðum sem deildarráð, og eftir atvikum háskólaráð, hafi átt ákvörðunarvald um, hvað kennt skuli í stefnda á hverjum tíma. Hvorki deildarráð né háskólaráð hafi fjallað um þær forsendur sem rektor hafi byggt á. Ákvörðun rektors hafi ekki átt sér forsendur í samþykktri kennsluskrá. Í uppsagnarbréfi til stefnanda hafi rektor vísað til fundar háskólaráðs í nóvember 2005, þar sem ákveðið hafi verið að draga úr og einfalda námsframboð í félagsvísinda- og lagadeild. Fari mjög fjarri að ákvörðun rektors eigi nægilega skýra stoð í þeim fundi og uppsögnin því ólögmæt.
Þá kveðst stefnandi vísa til 6. gr. reglna nr. 888/1999 fyrir Háskólann á Akureyri, sem gilt hafi er rektor hafi ákveðið að segja stefnanda upp störfum. Þar segi meðal annars að deildarfundir fari með æðsta ákvörðunarvald hverrar deildar og hafi rektor þar ekki annað en málfrelsi og tillögurétt. Deildarfundur skuli fjalla um meginatriði í starfsemi deildarinnar og bera ásamt deildarforseta ábyrgð á því að hún sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Skuli deildarfundur skera úr málum er varði skipulag kennslu. Stefnandi segir að deildarfundur kennaradeildar hafi sett á laggirnar námsnefnd til að gera tillögur um námsskrá, námsskipan og námsgreinar í deildinni. Reglur um náms- og matsnefnd kennaradeildar hafi verið samþykktar hinn 12. desember 2003 og komi þar fram að náms- og matsnefnd hafi það hlutverk að fjalla um nám í hverri skor, skipulag þess og inntak, og meta fyrra nám nemenda. Séu þar ýtarlegar reglur um málsmeðferð við gerð náms- og kennsluskráa. Hafi rektor virt þessar reglur að vettugi við uppsögn stefnanda.
Þá kveðst stefnandi telja, að ákvörðun um uppsögn sína hafi verið ólögmæt þar sem við ákvörðun um hana hafi verið brotið gegn grundvallarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar. Kveðst stefnandi, því til stuðnings, telja að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin og uppsögnin verið illa ígrunduð, en samkvæmt ákvæðinu beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Stefnandi kveðst vísa til þess, að ákvarðanir rektors um skipulagsbreytingar hafi ekki farið fram samkvæmt þeim málsmeðferðarreglum sem um slíkar ákvarðanir hafi gilt. Rektor hafi ekki heldur borið uppsagnartilefnið undir deildarforseta kennaradeildar og ekki stefnanda. Málið hafi því ekki verið upplýst er rektor hafi tekið ákvörðun sína.
Þá kveður stefnandi brýnt hafa verið að rektor gerði sér glögga grein fyrir því hvað myndi sparast við uppsögnina og þær afleiðingar sem hún hefði. Á þetta hafi skort, þar sem ekki hafi verið útséð um að hve miklu leyti skarð stefnanda yrði fyllt með störfum og yfirvinnu annarra starfsmanna. Jafnframt liggi fyrir, að ekki hafi verið rannsakað hvort markmiðum um sparnað mætti ná með mildari aðferðum.
Stefnandi segir, að rektor hafi rökstutt ákvörðun sína með því að spara hafi átt fjármuni með því að minnka kennslu í greinum sem stefnandi sinnti. Stefnandi segir, að þegar litið sé til ráðningarsamnings síns, menntunar, starfsreynslu og margvíslegra mikilvægra starfa sinna fyrir stefnda, hafi verið til fleiri atriða að líta en þeirra kennslustarfa einna sem stefnandi hafi sinnt á þeirri stund sem uppsögn hafi verið ákveðin. Stefnda hefði borið að leggja frekara mat á hæfni stefnanda og bera hana saman við hæfni samstarfsmanna hans, áður en ákveðið yrði að segja stefnanda upp af sparnaðarástæðum.
Þá kveðst stefnandi telja, að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Samkvæmt henni beri stjórnvaldi að taka íþyngjandi ákvörðun því aðeins að lögmætu markmiði verði ekki náð með mildara móti, og megi ekki fara strangar að en nauðsyn krefji. Stefnanda hafi verið sagt upp, án þess að skoðað hafi verið hvort ná mætti ætluðum markmiðum með skipulagsbreytingum án niðurlagningar starfa. Hafi stefnandi nefnt fjölmörg dæmi um möguleika sem stefndi hefði haft til að segja stefnanda ekki upp störfum. Þá kveðst stefnandi telja, að meðalhófsregla hafi verið brotin, þegar með því að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á því að nýta sér rannsóknarleyfisrétt sinn. Við þær aðstæður hafi ekki verið rétt að segja stefnanda upp störfum með þeim rökum að ekki væri nóg kennsla fyrir hann.
Stefnandi kveðst telja, að brotið hafi verið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins, en hún ætli stjórnvöldum að byggja matskenndar ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Í lögum nr. 70/1996 séu ekki reglur um hvað ráða skuli vali forstöðumanns á starfsmanni sem segja skal upp, þegar gripið er til hagræðingar í rekstri. Ákvörðun um það séu settar skorður, meðal annars af meðalhófsreglu og réttmætisreglu. Stefndi hafi vísað til þess að fyrirhugað hafi verið að gera breytingar sem leitt hafi til þess að ekki yrðu næg verkefni fyrir stefnanda og hann því óþarfur. Ljóst sé að verkefni stefnanda og hæfni hafi ekki takmarkazt við kennslu tiltekinna námskeiða kennaradeildar, heldur hafi stefnda borið að leggja frekara mat á hæfni hans áður en ákveðið hafi verið að segja honum upp, frekar en öðrum kennurum stefnda.
Þá kveðst stefnandi benda á, að forsendur stefnda um kennslumagn og kennsluþörf hafi verið rangar og án nægilegrar könnunar staðreynda. Kveðst stefnandi vegna þessara sjónarmiða sinna vísa til þeirra átján liða sem áður hafa verið raktir.
Þá kveðst stefnandi byggja á því, að stefndi hafi með ólögmætum hætti haft af sér áunninn rannsóknarleyfisrétt. Með uppsögninni hafi stefndi komið sér undan að greiða stefnanda laun og annan kostnað í rannsóknarleyfinu. Kveðst stefnandi byggja á því, að stefnda hafi borið að bjóða sér að nýta rannsóknarleyfisrétt sinn.
Stefnandi kveðst bæði hafa orðið fyrir fjártjóni og miska vegna uppsagnarinnar og því krefjast skaðabóta. Kveðst hann vísa til almennu skaðabótareglunnar og fordæma Hæstaréttar í málum vegna ólögmætra uppsagna ríkisstarfsmanna. Bótakröfu sína kveðst stefnandi sundurliða svo, að hann krefjist 26.153.978 króna bóta vegna fjártjóns og 500.000 króna miskabóta. Stefnandi segir bótakröfu sína vegna fjártjóns komna af þremur liðum, sem nú verða raktir.
Fyrstur sé tekju- og lífeyristjón, en fjárhæðin samsvari þeim launum er stefnandi hefði haft í 18 mánuði, hefði hann haldið starfinu. Mánaðarlaun, að meðtöldu mótframlagi í lífeyrissjóð, hefðu verið 417.491 króna. Sé þar miðað við grunnlaun að meðtöldu 5% álagi 369.588 krónur, 1,5% framlag í vísindasjóð sem Félag háskólakennara greiði út í árslok 5.544 krónur, mánaðarlegt hlutfall af orlofs- og desemberuppbót 5.400 krónur, 8% mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð kr. 29.567 krónur og 2% mótframlag í séreignarlífeyrissjóð kr. 7.392. Litið sé framhjá yfirvinnu, sem gera megi ráð fyrir að hefði verið töluverð.
Annar sé tekjutjón sem svari til þeirra greiðslna sem stefnandi hefði fengið í eins misseris rannsóknarleyfi sem hann hafi unnið sér rétt til. Greiðslur í leyfinu hefðu orðið 3.650.140 krónur, og sé sú tala þannig fundin að mánaðarlaun í sex mánuði hefðu orðið 2.504.946 krónur, þjálfunardagpeningar 1.045.194 krónur og kostnaður við fargjöld áætlaður 100.000 krónur.
Þriðji sé vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar við búferlaflutninga og öflun húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, en stefnandi segir í stefnu að afar ólíklegt sé að hann fái starf við hæfi á Akureyri og grennd. Kveðst stefnandi áætla þennan kostnað 15 milljónir króna.
Stefnandi kveðst telja bótakröfu sína hæfilega. Fjártjón hans verði að meta að álitum, og beri að líta til aldurs stefnanda, kyns, menntunar, starfsreynslu og aðstæðna að öðru leyti. Sérstaklega beri að gæta að því, að stefnandi hafi unnið sér rétt til rannsóknarleyfis sem hafi af honum verið tekinn með uppsögninni.
Stefnandi segir miskabótakröfu sína gerða með stoð í 26. gr. skaðabótalaga. Með því að velja stefnanda úr stórum hópi starfsmanna til að segja upp, án sýnilegrar málefnalegrar ástæðu og án þess að gæta að grundvallarreglum stjórnsýslulaga hafi verið vegið að æru stefnanda, starfsheiðri og persónu. Varpað hafi verið rýrð á hið mikla starf sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda á löngum tíma. Eins og atvikum sé háttað, sé uppsögnin sérstaklega til þess fallin að skapa tortryggni annarra vinnuveitenda í garð stefnanda.
Stefnandi segir að verði ekki fallizt á bótakröfu sína að fullu, felist í henni varakrafa um aðrar bætur lægri, samkvæmt mati réttarins.
Stefnandi segist krefjast dráttarvaxta frá þingfestingardegi með vísan til ákvæða III. og IV. kaflalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess sé krafizt að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Málsástæður og lagarök stefnda
Eins og rakið hefur verið, tilgreinir stefnandi í átján liðum dæmi er hann telur sýna að rangt sé, að vegna minna kennslumagns hafi ekki verið þörf fyrir stefnanda innan stefnda. Stefndi kveðst svara hverjum og einum lið svo sem nú verður rakið.
Í fyrsta lagi segir stefndi að aukaatriði sé, hvort hugsanlega hafi mátt finna einhverjar fleiri kennslueiningar í stærðfræði og eðlisvísindum í kennaradeild. Mergur málsins sé, að um 950 einingar hefðu verið til ráðstöfunar skólaárið 2006 til 2007. Stefnandi hafi verið dósent og dósent þurfi að skila rúmlega 800 einingum til að uppfylla kennsluskyldu sína. Flestir kennarar hafi sótzt eftir nokkurri kennsluyfirvinnu. Stefndi kveðst mótmæla sem röngu að áætlun um kennslumagn í stærðfræði og eðlisvísindum kennaradeildar hafi verið á bilinu 1500 til 2000 einingar.
Í öðru lagi segir stefndi að rannsóknarleyfi Axels Björnssonar hafi verið frestað að sjálfs hans ósk. Hafi sú breyting ekki komið uppsögn stefnanda við.
Í þriðja lagi segir stefndi að starfsmenn sínir vinni sér rétt til að sækja um rannsóknarleyfi en ekki til að hljóta það. Stefnandi hafi ekki sókt um rannsóknarleyfi skólaárið 2006 til 2007. Hefði reynzt mögulegt að leysa vanda stefnanda með því að veita honum rannsóknarleyfi, án umsóknar hans, hefði sú lausn einungis verið tímabundin. Stefndi hefði staðið frammi fyrir sama vanda ári síðar og við ákvörðun um uppsögn hafi verið horft til lengri tíma en árs.
Í fjórða lagi mótmælir stefndi því, að líta hefði átt til námskeiðsins JVÍ1103 við mat á kennsluþörf skólaársins 2006 til 2007, en jarðvísindi séu ekki á sérsviði stefnanda og komi námskeiðið því ekki til álita við mat á kennsluþörf vegna hans.
Í fimmta lagi segir stefndi að engu skipti við mat á heildarkennsluþörf kennara hvort hann hafi 30 einingar vegna lokaverkefna.
Í sjötta lagi segir stefndi að ekki hafi staðið til að breyta þeirri skipan að Axel Björnsson sæi um eðlisfræðistofu enda hefði engin ástæða verið til þess.
Í sjöunda lagi segir stefndi að rektor hefði ómögulega getað litið til valnámskeiða á vormisseri. Ákvörðun rektors hafi verið tekin seint í maí 2006 en upplýsingar um fjölda nemenda í valnámskeiðum á vormisseri hafi ekki legið fyrir fyrr en í október. Engar líkur hafi verið til þess að nægilega margir nemendur myndu sækjast eftir þeim námskeiðum. Í rekstraráætlun hafi verið sett fjöldaviðmið í námskeiðum sem slíkum og þar einnig sérstaklega tekið fram að dregið yrði úr kennslu í raunvísindum í kennaradeild. Rektor sé einum heimilt að veita undanþágu frá ákvörðunum háskólaráðs og því mistök af hálfu brautarfundar grunnskólabrautar að ætla sér að bjóða upp á námskeið í stærðfræði og eðlisfræði án tillits til fjölda skráðra nemenda.
Í áttunda lagi segir stefndi að ekki hafi legið á lausu önnur kennsla til handa Axel Björnssyni. Hefði átt að fá honum meiri kennslu í öðrum deildum en kennaradeild hefði þurft að segja kennara þar upp störfum eða raska högum hans í verulegu.
Í níunda lagi segir stefndi, að upplýsingar um þörf nemenda fyrir handleiðara vegna kjörsviðsritgerða hafi ekki legið fyrir fyrr en þremur mánuðum eftir uppsögn stefnanda. Þá sé þess að geta að nemendur velji sér sjálfir leiðbeinendur en sé ekki úthlutað þeim. Á raungreinasviði hafi aðeins verið tveir nemendur og ekki tryggt að þeir myndu leita til stefnanda.
Í tíunda lagi segir stefndi að ekkert liggi fyrir um hvenær prófessor Kristján Kristjánsson hafi sagt verk vera til fyrir vel menntaðan handleiðara við leiðsögn vegna gerðar diplómaritgerða og meistaraprófsritgerða. Aldrei hafi verið skrifuð meistaraprófsritgerð á sviði stærðfræði eða eðlisfræði í kennaradeild.
Í ellefta lagi segir stefndi að námskeiðið LIV0552, vísindasmiðja, sé á leikskólabraut. Það hafi leikskólakennarar hannað og hugsað fyrir leikskólanema. Hafi leikskólakennari frá upphafi séð um námskeiðið og kennslu þar að mestu. Geri umsjón þess enga kröfu um viðamikla sérþekkingu á sviði stærðfræði eða eðlisvísinda.
Í tólfta lagi segir stefndi að tölfræðinámskeið kennaradeildar sé samkennt með heilbrigðisdeild. Kennarinn, er séð hafi um það, sé vel menntaður í eðlisfræði og hafi gengið vel með kennsluna. Engin ástæða hafi verið til að hrófla við honum.
Í þrettánda lagi segir stefndi að aðjúnkti þeim, sem séð hafi um námskeiðin AÐF0152, aðferðir, og NSY0152, náttúruvísindi og stærðfræðikennslu yngri barna, hafi farizt það verk mjög vel úr hendi. Engin rök hafi verið fyrir því að ýta honum úr kennslu fyrir stefnanda, enda sé stærðfræðikennsla yngri barna ekki á sérsviði stefnanda og aðferðanámskeiðið taki til fleiri þátta en rökfræði, gerðar taflna og línurita. Ákvörðun um kennslu aðjúnktsins hafi legið fyrir áður en til uppsagnar stefnanda hafi komið.
Í fjórtánda lagi segir stefndi að ákvörðun um umsjón námskeiðs í grenndarkennslu hafi legið fyrir löngu áður en ákvörðun hafi verið tekin um uppsögn stefnanda. Hefði átt að fá Axel Björnssyni umsjón með þessu námskeiði, í júní eftir uppsögn stefnanda, hefði þurft að segja aðjúnkti upp starfi veturinn 2006 til 2007, sem henni hefði verið lofað, en hún hefði starfað sem aðjúnkt við stefnda í tvö ár. Þar að auki hefði Axel ekki getað kennt námskeiðið nema að hluta, þar sem það sé sambland af sagnfræði, landafræði, líffræði og jarðfræði.
Í fimmtánda lagi segir stefndi að umhverfis- og orkusvið hafi verið illa sókt. Ekki hafi þar verið umtalsverð kennsla í boði og hafi verið talið nær að fækka þar kennurum en fjölga.
Í sextánda lagi segir stefndi að stærðfræðikennari í viðskipta- og raunvísindadeild hafi skilað afar góðu starfi og nemendur ítrekað lýst ánægju með hann í kennslumati. Deildarforseti hafi ekki viljað taka áhættu með þann árangur sem náðst hafi í stærðfræðikennslu deildarinnar.
Í sautjánda lagi segir stefndi að starf prófstjóra hafi verið auglýst en stefnandi ekki sókt um það.
Í átjánda lagi segir stefndi að ákvarðanir um ráðstöfun kennslu í eðlisvísindum á haustmisseri 2007 komi máli stefnanda ekki við. Þá segir stefndi að Guðmundur Óskarsson hafi kennt námskeið í stærðfræði á fyrsta ári grunnskólabrautar. Hafi hann talið að með lagfæringum á því námskeiði, sem kennt væri í viðskipta- og raunvísindadeild, væri hægt að uppfylla þau markmið sem sett væru í kennsluskrá kennaradeildar. Deildarforseti hafi því ákveðið að fela honum umsjón með námskeiðinu. Sé rangt hjá stefnanda að innihald stærðfræðinámskeiðs haustmisseris 2006 hafi verið þvert á samþykkta kennsluskrá kennaradeildar. Þá segir stefndi að kennsluyfirvinna kennara sinna sé að jafnaði nokkur og hafi stundum verið full mikil. Sé það eðlilegur hluti kjara fastra starfsmanna að geta fengið yfirvinnu, óski þeir hennar. Sé því röskun á eðlilegum kjörum séu starfsmenn sviptir yfirvinnu. Þótt slík aðgerð hafi komið til álita hafi ekki verið gripið til hennar, en stefndi hafi talið að þegar litið væri lengra en til skólaársins 2006 til 2007 hafi ekki verið þörf fyrir alla þá kennara á sviði náttúruvísinda sem verið hafi í starfi vormisserið 2006.
Stefndi segir að þær ákvarðanir um stærðfræðikennslu, sem teknar hafi verið eftir að stefnanda var sagt upp störfum, hafi verið útfærsluatriði sem ekki hafi verið hægt að ganga frá fyrr en eftir uppsögn stefnanda.
Stefndi segir að rekstur sinn hafi verið óviðunandi í nokkur ár. Yfir 70% útgjalda stefnda sé vegna launa. Háskólaráð hafi samþykkt sérstaklega í rekstraráætlun ársins 2006 að raunvísindakennsla kennaradeildar skyldi dregin saman. Þá hafi deildarráð kennaradeildar samþykkt nýtt námsskipulag sem fækkaði námskeiðum á fyrsta ári sviði stærðfræði og raunvísinda. Engir nemendur hafi óskað eftir námi á raungreinasviði grunnskólabrautar. Fastir kennarar deildarinnar hafi verið of margir til að sinna þeirri raunvísindakennslu sem eftir hafi staðið.
Stefndi segir að þegar ákvörðum um uppsögn hafi verið tekin, hafi ekki legið annað fyrir en að tvö námskeið yrðu kennd á sviði stærðfræði og raunvísinda í kennaradeild skólaárið 2006 til 2007. Þótt hægt sé að leggja til að námskeið verði tekin af kennurum sem hafi séð um þau, hafi slíkar tillögur engan tilgang hér. Ljóst hafi verið að yrði stefnanda ekki sagt upp störfum yrði að segja einhverjum öðrum upp.
Stefndi segir að skilja megi stefnu málsins svo, að eðlilegt hefði verið að grípa inn í skipulag kennslu víða innan stefnda, til að tryggja hagsmuni stefnanda. Stefndi segir að vega verði hagsmuni hans á móti hagsmunum annarra. Sé það hlutverk stjórnenda stofnunar sem stefnda að sjá til þess að starfsemin haldist innan fjárlaga, gæði starfseminnar séu sem mest og festa í rekstri. Þá beri þeim að líta til langtímahagsmuna við ákvarðanir sínar.
Stefndi segir að deildir séu grunneiningar sínar. Hver beri ábyrgð á skipulagningu og uppbyggingu náms og þeim gráðum sem hún veiti. Háskólaráð ákveði deildaskiptingu stefnda og tíðkist það vinnulag að deildarforsetar ákveði hverjir séu umsjónarkennarar námskeiða. Við kennaradeild hafi mótazt það verklag að brautir taki ákvarðanir um námsskrá þess náms sem í boði sé, og deildarráð staðfesti ákvörðun brautar. Sé deildarráðið ekki sátt við ákvörðun brautarinnar geti það vísað námsskránni aftur til brautarinnar en hafi ekki vald til að breyta henni.
Stefndi segir að deildarráð kennaradeildar hafi samþykkt nýtt skipulag grunnskólabrautar og háskólaráð samþykkt það hinn 12. apríl 2006. Í framhaldi af því hafi rektor rætt við forseta kennaradeildar og viðskipta- og raunvísindadeildar og metið stöðuna í raunvísindakennslu við stefnda, þar á meðal þörf fyrir kennslu. Ljóst hafi verið, að kennsla í öðrum deildum yrði að koma til, ef allir fræðimenn á sviði raunvísinda í kennaradeild ættu að halda störfum. Eftir ítrekaða skoðun og mat á þörfum deilda stefnda fyrir kennslu á sviði stærðfræði og eðlisfræði hafi niðurstaða rektors orðið að ekki væri þörf fyrir hluta þeirra kennara er þessar greinar hafi kennt.
Stefndi segir að þegar rektor hafi tekið ákvörðun sína hafi það eitt verið öruggt um kennaradeild að þar yrðu kennd tvö námskeið á haustmisseri fyrsta árs. Þau dugi sem forsenda einnar stöðu í raunvísindum. Skoðað hafi verið, hvort koma mætti til móts við stefnanda, en niðurstaðan orðið sú, að til þess þyrfti að segja einhverjum öðrum upp.
Stefndi kveðst mótmæla sem röngu og ósönnuðu að við uppsögn stefnanda hafi ekki verið gætt málsmeðferðarreglna sem kveðið sé á um í lögum nr. 40/1999 um Háskólann á Akureyri. Uppsögnin hafi verið fyllilega lögmæt.
Stefndi segist hafa átt í umtalsverðum rekstrarörðugleikum og verið rekinn með halla frá árinu 2001. Í rökstuðningi rektors til stefnanda sé vísað til uppsagnarbréfs hans og sé þar greint frá sameiningu deilda og breytingu á námsframboði sem allt miði að því að draga úr rekstrarkostnaði stefnda. Meginmarkmið breytinganna hafi verið að ná tökum á rekstrarvandanum.
Stefndi segir að samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum, eftir því sem mælt sé fyrir í ráðningarsamningi. Þar sé miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest og hafi stefnanda verið sagt upp með löglegum fyrirvara. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 40/1999 hafi rektor ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum stefnda nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Rektor hafi því haft vald til að segja stefnanda upp störfum. Þá hafi það verið í höndum rektors að meta hver þörf væri fyrir kennslukrafta á sviði raunvísinda.
Stefndi kveðst mótmæla sem röngu og ósönnuðu að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Stefndi hafi átt í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum. Árið 2001 hafi halli stefnda verið 10 milljónir króna, 35,9 milljónir króna árið 2002, 133,6 milljónir króna árið 2003, 107,7 milljónir króna árið 2004, 86,6 milljónir króna árið 2005, 15,3 milljónir króna árið 2006 en í greinargerð stefnda segir að líkur séu á að reksturinn verði í jafnvægi árið 2007. Meginástæða hallarekstrarins árin 2003 til 2005 hafi verið fjölgun nemenda og aukið námsframboð. Meginástæða batnandi afkomu séu umfangsmiklar aðgerðir til að hagræðingar, sem meðal annars hafi haft uppsagnir starfsfólks í för með sér. Ljóst hafi verið að sparnaður yrði fyrst og fremst á sviði náttúruvísindagreina. Á því sviði, bæði í kennaradeild og upplýsingatæknideild, hafi verið flest námskeið með fáum nemendum og verið dýr og afar óhagkvæm, þar sem greiðslur ríkissjóðs til háskóla byggist á nemendafjölda. Að minnsta kosti fjórir kennarar í upplýsingatækni hafi hætt störfum í kjölfar sameiningar og á því sviði þurfti ekki að koma til uppsagna. Mögulegum námseiningum á sviði raunvísinda í kennaradeild hafi fækkað úr níu í fimm og raunvísindasvið hafi fallið niður. Jafnframt hafi verið fyrirhugað að samræma raunvísindakennslu við skólann með því að auka samnýtingu námskeiða. Því hafi verið ljóst að heildarfjöldi kenndra eininga í stærðfræði og eðlisfræði drægist enn saman.
Stefndi segir að í fjárhagsáætlun hvers árs, sem háskólaráð samþykki, komi fram almenn viðmið þar sem fram komi að lágmarksfjöldi nemenda sem hefji nám á sviði sé tíu. Nemendur á raungreinasviði hafi aldrei náð þeirri tölu og veturinn 2005 til 2006 hafi aðeins tveir nemendur verið á sviðinu. Til að bjóða upp á raungreinasvið hafi kennaradeild einlægt þurft að óska eftir undanþágu. Þá komi fram í almennum viðmiðunum fjárhagsáætlunar að ekki verði boðið upp á námskeið nema að minnsta kosti tíu nemendur séu þar skráðir og fimmtán nemendur þurfi að vera á námsbraut til að geta hafið þar nám. Nemendum á fyrsta ári grunnskólakennarabrautar hafi fækkað umtalsvert árin 2004 og 2005. Þegar legið hafi fyrir að ekki yrði óskað eftir undanþágu fyrir raungreinasvið hafi verið ljóst að kennslueiningum á sviði náttúruvísinda myndi fækka verulega.
Stefndi segir að rektor hafi metið það svo, að til að ná fram hagræðingu í rekstri stefnda væri nauðsynlegt að fækka starfsmönnum raungreinasviðs grunnskólabrautar kennaradeildar. Stefndi segir að mat á hæfni stefnanda og samstarfsmanna hans hafi farið fram, með því að litið hafi verið til samanburðar á hæfnisþáttum í kennslu og rannsóknum kennara á raungreinasviði, það er að segja stefnanda og Axels Björnssonar. Hafi þannig farið fram val milli starfsmanna. Hafi verið mat stefnda að Axel væri bezt fallinn til að ná markmiðum stefnda. Stefndi hafi hins vegar talið óeðlilegt að bera stefnanda saman við alla kennara stefnda. Fyrir hafi legið að Níels Karlsson myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi starfi við stefnda og að mati stefnda hafi verið rétt að sá héldi áfram starfi sem deildinni nýttist bezt. Axel hafi verið prófessor en stefnandi dósent, rannsóknarverkefni Axels hafi verið mun meiri en stefnanda og námskeiðsmat Axels sömuleiðis mun hærra en stefnanda. Þá hefði stefnandi ekki getað tekið yfir kennslu Axels þar sem fræðasvið stefnanda nái ekki yfir námskeið í jarðvísindum sem Axel hafi á þeim tíma kennt. Stefndi hafi hins vegar álitið að Axel réði við kennsluverkefni stefnanda. Þá hafi verið litið til þess að stefnandi hafi haft hvað stytztan samfelldan starfsaldur kennara á sviði raunvísinda í kennaradeild. Það hafi verið mat stjórnenda stefnda að uppsögn stefnanda væri sú ákvörðun sem minnst raskaði þeirri starfsemi sem fram færi innan stefnda og miðaðist við þróun stefnda til langs tíma. Það mat, sem hér hafi verið lýst, hafi verið réttmætt, löglegt og málefnalegt.
Stefndi segir að engin skylda hafi verið til að bera uppsagnarferlið undir forseta kennaradeildar og stefnanda. Hafi verið aflað þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar hafi verið, áður en ákvörðun hafi verið tekin.
Stefndi kveðst mótmæla sem röngu og ósönnuðu að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Stefndi hafi átt í umtalsverðum rekstrarörðugleikum og eftir ítrekaða skoðun og mati á þörfum deilda stefnda, hafi niðurstaðan orðið sú að ekki væri annarra kosta völ en að segja meðal annarra stefnanda upp störfum. Hefði stefnanda ekki verið sagt upp störfum hefði það orðið hlutskipti einhvers annars.
Stefndi kveðst mótmæla því að meðalhófsregla hafi verið brotin með því að stefnandi hafi ekki átt þess kost að nýta rannsóknarleyfisrétt. Um rannsóknarleyfi stefnanda hafi farið samkvæmt 10. kafla kjarasamnings fjármálaráðherra og Félags háskólakennara á Akureyri. Stefnandi hafi ekki óskað eftir að fara í rannsóknarleyfi og hafi það því ekki verið svo, að hann hafi ekki fengið að nýta rannsóknarleyfisrétt. Málsástæðum í þá veru sé mótmælt sem röngum.
Þá kveðst stefndi mótmæla sem röngu og ósönnuðu að réttmætisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Meginmarkmið stefnda með endurskipulagningu starfsemi sinnar hafi verið að draga úr rekstrarkostnaði sínum. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 beri forstöðumaður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar hans sé í samræmi við fjárlög og fjármunir nýttir á árangursríkan hátt. Stefnda hafi verið skylt að hagræða í rekstri sínum og uppsögn stefnanda hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.
Stefndi kveðst mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að forsendur sínar um kennslumagn og kennsluþörf hafi verið rangar og án nægilegrar könnunar staðreynda.
Stefndi kveðst telja stefnanda ekki hafa orðið fyrir neinu tjóni vegna uppsagnarinnar og eiga því hvorki rétt á bótum vegna fjártjóns né miska. Kveðst stefndi mótmæla öllum liðum bótakröfu stefnanda. Sérstaklega sé kröfulið vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar við búferlaflutninga og öflun húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega mótmælt og röksemdum bak við hann. Kveðst stefnandi telja kröfuliðinn gersamlega vanreifaðan og eiga að sæta frávísun ex officio, meðal annars með vísun til d og e liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá segir stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðunum stefnda hafi falizt ólögmætar meingerðir gegn friði, frelsi, æru og persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Ákvarðanir stefnda hafi verið lögmætar og kveðst stefndi mótmæla því að uppsögnin hafi verið sérstaklega til þess fallin að valda tortryggni annarra vinnuveitenda og kveðst benda meðal annars á meðmæli þau er rektor hafi gefið stefnanda eftir uppsögnina. Kveður stefndi að skilyrðum skaðabótaréttar fyrir kröfum stefnanda sé að engu leyti fullnægt. Sé meðal annars ekki fullnægt skilyrðum um tjón, sök, orsakatengsl, sennilega afleiðingu og ólögmæti.
Stefndi kveðst mótmæla öllum málsástæðum stefnanda.
Vegna varakröfu sinnar kveðst stefndi vísa til allra sömu málsástæðna og sjónarmiða og hér hafa verið rakin. Þá segir stefndi að stefnandi miði kröfu sína við allt of langt tímabil og sé þess krafizt að sú viðmiðun verði stytt og lækkuð verulega. Í stefnu segi að fjárhæð bóta vegna tekju- og lífeyristjóns samsvari þeim launum sem stefnandi hefði haft á átján mánaða tímabili hefði hann haldið starfinu. Stefndi segir aðstæður stefnanda réttlæta engan veginn að miðað sé við svo langan tíma. Dómkrafa stefnanda sé allt að einu miðuð við fjárhæðir í nóvember 2007 og kveðst stefndi mótmæla því á alla grein og telur eiga að miða við fjárhæðir launa eins og þær hafi verið við uppsögn stefnanda.
Þá segir stefndi að stefnandi hafi ekki sókt um rannsóknarleyfi og geti ekki átt rétt til þess sem hann hafi ekki sókt um. Þá sé krafa stefnanda hér ekki sett fram sem endurgreiðsla á kostnaði á þeim tíma sem ferðir hafi verið farnar. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á greiðslu úr hendi stefnda vegna þessa þáttar. Verði þessi krafa stefnanda hins vegar að einhverju leyti tekin til greina mótmæli stefndi forsendum og útreikningi mánaðarlauna og annarra greiðslna, sem stafi frá stefnanda, sem of háum og kveði jafnframt viðmiðun ná um of langan tíma. Þá sé kröfu um greiðslu þjálfunarpeninga mótmælt. Loks sé kostnaður við fargjöld vanreifaður og sé honum einnig mótmælt.
Stefndi kveðst gera athugasemdir við sjálfstæðar bótakröfur stefnanda sem krefjist 1,5% framlags í vísindasjóð, orlofs- og desemberuppbóta og mótframlaga í lífeyrissjóð og séreignalífeyrissjóð. Verði fallizt á kröfur stefnanda verði þessi atriði hluti af því uppgjöri sem þá færi fram. Stefnandi hafi verið í ellefta launaflokki frá og með 1. maí 2006 en ekki tólfta, eins og segi í stefnu. Mótframlag vinnuveitanda í vísindasjóð sé af föstum launum og greiðist stéttarfélagi en ekki starfsmanni. Í kröfu stefnanda séu fjárhæðir orlofs- og desemberuppbóta miðaðar við árið 2007 og sé því mótmælt, en fremur eigi að miða við fjárhæðir árið 2006. Þá sé ekki greitt í lífeyrissjóð af framlagi í vísindasjóð, eins og gert sé ráð fyrir í stefnu.
Þá segir stefndi að kröfu stefnanda vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar vegna búferlaflutninga og öflunar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sé sérstaklega mótmælt og sé hún gjörsamlega órökstudd, ósönnuð og vanreifuð. Verði hins vegar að einhverju leyti fallizt á hana sé á það bent að hún sé allt of há og sé krafizt stórkostlegrar lækkunar hennar. Þá segir stefnandi að í hugtakinu „fyrirsjáanlegs“ felist viðurkenning stefnanda á því að hann hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni. Sé til dæmis ósannað að stefnandi fái ekki vinnu á Akureyri eða grennd. Stefndi segir að stefnanda hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt og sé ósannað að hann hafi fullnægt þeirri skyldu.
Stefndi segir, að verði hann dæmdur til greiðslu skaðabóta, sé þess krafizt að frá þeim verði dregin öll laun sem stefnandi hafi haft á því tímabili sem miðað verði við.
Loks kveðst stefndi mótmæla vaxtakröfu stefnanda. Krafizt sé dráttarvaxta frá þingfestingardegi en stefnandi telji að verði dráttarvextir dæmdir verði að miða við þann tíma er mánuður sé frá birtingu stefnu í málinu og sé það í samræmi við 9. gr. laga nr. 38/2001, en bótakrafa hafi ekki verið lögð fram fyrr. Þá geti dráttarvextir vegna kröfu um fyrirsjáanlegan kostnað vegna búferlaflutninga og öflun nýs húsnæðis ekki reiknast fyrr en mánuður sé liðinn frá því stefnandi leggi sannanlega fram þær upplýsingar sem þurfi til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Það hafi stefnandi ekki gert.
Verður nú rakin skýrslugjöf og framburður vitna eftir því sem ástæða þykir til.
Stefnandi kvaðst hafa í febrúar 2003 misst starf er hann hefði gegnt, og hefði Guðmundur Heiðar Frímannsson, deildarforseti kennaradeildar stefnda, þá sent sér tölvubréf og boðizt til að ráða stefnanda til starfa, frá þeim tíma er stefnandi sjálfur kysi. Hefði Guðmundur Heiðar haft við orð, að ekki væri kennslan vandalaus en fáum treysti hann betur fyrir henni en stefnanda. Stefnandi hefði í framhaldi af þessu haft samband við Guðmund Heiðar, en þeir hefðu áður átt gott samstarf um margra ára skeið, stefndi hefði auglýst stöðu nokkurum vikum síðar og hefði stefnandi verið ráðinn í hana þá um vorið. Hefði stefnandi, samkvæmt vinnusamningi, verið ráðinn til stefnda án þess að nokkur sérstök deild hans væri greind. Fyrsta verkefni stefnanda hefði verið að vinna skýrslu um raungreinakennslu í skólanum og hefði honum væntanlega verið falið það verk þar sem hann hefði áður kennt raungreinar í öllum deildum stefnda nema einni. Hefði stefnandi flutzt norður vegna starfsins hjá stefnda, en áður hefði hann starfað í Reykjavík. Hefði fjölskyldan selt fasteign sína í Reykjavík en keypt á Akureyri.
Stefnandi sagði að uppsögn sín hefði komið sér í opna skjöldu. Hann hefði verið boðaður með tölvubréfi á fund rektors að morgni 31. maí og hefði rektor afhent sér uppsagnarbréf á þeim fundi þeirra, um klukkustund síðar. Hefði stefnandi unnið út þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn. Ástæða uppsagnarinnar væri sögð vera skipulagsbreytingar, en stefnandi hefði ekki komið því heim og saman að þær skipulagsbreytingar ættu að leiða til uppsagnar sinnar. Áður hefði verið fjallað um sameiningu deilda, en stefnandi og samkennarar hans í raunvísindum kennaradeildar hefðu litið svo á, að eftir sem áður yrði næg kennsla til skiptanna fyrir alla, og hefðu engar upplýsingar um annað komið frá deildarforseta.
Stefnandi kvaðst líta svo á, að uppsögn sín hefði verið óþörf og næg kennsluverkefni fyrir sig á fagsviðum sínum. Kennsluskylda sín sem dósents hefði verið um hálft níunda hundrað eininga, en með einingu væri átt við vinnustund. Væri hvert námskeið metið til eininga, og væru þá fyrirlestrar, dæmatímar og verkleg kennsla innifalin.
Stefnandi sagði að aldrei hefði verið við sig orðað að hann færi fremur í námsleyfi en að vera sagt upp störfum.
Í stefnu sinni tilgreinir stefnandi í átján töluliðum dæmi um möguleika sem hann kveður hafa verið á að fela stefnanda, eða samkennara hans Axel Björnssyni, verkefni, innan eða utan kennaradeildar, ef vilji stefnda hefði verið til þess. Stefnandi kvaðst aðspurður standa við öll þau sjónarmið sín. Stefnandi kvað þá Axel hafa kennt ýmsa áfanga, í fleiri en einni deild. Hefði Axel þannig kennt jarðvísindi í auðlindadeild, 390 eininga námskeið. Þá hefði Axel haft umsjón með eðlisfræðistofu og væri greitt fyrir hana. Staðið hefði til að Axel kæmi meira að kennslu um endurvinnanlega orkugjafa, en ekki hefði orðið úr því veturinn eftir uppsögn stefnanda, vegna anna Axels. Axel hefði kennt eðlisfræði á raunvísindasviði og hefði haft dæmatíma í stærðfræði á fyrsta ári, en stefnandi hefði kennt öll eðlisvísindi fyrsta árs og hefði haft dæmatíma í stærðfræði, þá hefði stefnandi kennt hluta stærðfræðiáfanga raungreinasviðs. Þeir Axel hefðu skipt þessu eins bróðurlega milli sín og unnt hefði verið og hefðu unnið þá yfirvinnu sem stefndi hefði óskað eftir. Þegar komið hefði að vetrinum 2006 til 2007 hefði ekki annað staðið til en þeir skiptu kennslu milli sín, þannig að Axel myndi kenna í auðlindadeild eins mikið og hann kæmist yfir, en ekki hefði komið til þess. Hvorugur hefði hins vegar ætlað sér að vinna yfirvinnu sem nokkuru næmi og væri það beggja ósk. Við uppsögn stefnanda hefðu verið næg verkefni fyrir þá báða við kennslu, en eftir uppsögnina hefði verkefnum verið bætt á Axel svo hann hefði ekki aðeins kennt fulla kennslu heldur fulla yfirvinnu og raunar gott betur. Hefði Axel orðið að láta frá sér verkefni í auðlindadeild og hefði ekki haft tök á að leiðbeina nemendum um lokaverkefni, vegna anna sinna. Hefði Axel þannig, umfram reglulega vinnuskyldu sína, sinnt ýmsum verkefnum sem stefnandi hefði getað sinnt. Þá sæi stefnandi ekki betur en kennarinn Guðmundur Óskarsson hefði sinnt tvöfaldri kennslu umræddan vetur og bersýnilega kennt allt sem til hefði fallið og stefnandi hefði ella getað kennt. Hefði Guðmundur raunar ætíð kennt „gríðarlega mikla yfirvinnu“. Aldrei hefði verið nefnt við stefnanda að hann myndi kenna eitthvað af því sem Guðmundi var falið, en á meðan stefnandi hafi verið við störf hjá stefnda, alls sautján ár, hefði aldrei skort kennslustörf á hans sviði. Hefði stefnandi verið búinn að ráða með sér, árið 2006, að óska eftir að þurfa ekki að kenna mikla yfirvinnu.
Stefnandi kvaðst eftir uppsögnina hafa tekið að svipast um eftir öðrum starfa, en uppsögnin hefði komið á óhentugum tíma fyrir skólamann. Hefði starfsleitin gengið illa, fátt verið í boði og nánast ekkert á Akureyri. Stefnandi hefði fylgzt með atvinnuauglýsingum og beðið menn um að spyrjast fyrir, fyrir sína hönd. Þá hefði stefnandi tvívegis sókt um starf, annað á Akureyri en hitt í Reykjavík. Stefnandi hefði hins vegar ekki hugleitt að sækja um atvinnuleysisbætur. Eftir nokkurra mánaða atvinnuleit hefði stefnandi, haustið eftir, ákveðið að fara til Svíþjóðar til náms eftir næstu áramót, með það fyrir augum að fá vinnu haustið þar eftir. Stefnandi hefði haldið til Svíþjóðar en of hár blóðþrýstingur hefði orðið sér til vandræða og hefði stefnandi leitað aftur út til Íslands til lækninga, eftir um vikudvöl. Þessi hái blóðþrýstingur væri álagstengd ættarfylgja sem þó hefði lítið látið á sér kræla, vegna meðalagjafar, þar til eftir uppsögn stefnanda. Í kjölfar uppsagnarinnar hefði stefnandi auk þess glímt við svefnleysi.
Árið 2007 hefði atvinnuleitin haldið áfram með svipuðum hætti og áður. Það vor hefði rektor Menntaskólans við Hamrahlíð hins vegar haft símasamband við stefnanda og tjáð honum að hann hygðist auglýsa kennarastöðu í raunvísindum og hefði hvatt stefnanda til að sækja um hana. Hefði stefnandi sókt um stöðuna og fengið frá og með fyrsta ágúst. Í ágúst 2007 hefði stefnandi farið suður og fengið herbergi hjá syni sínum, er þar hefði búið, en kona stefnanda hefði búið áfram nyrðra. Jafnframt þessu hefði stefnandi tekið að sér að kenna tölfræðinámskeið í verkfræði við Háskólann í Reykjavík. Nokkuru seinna hefði stefnandi tekið að sér námskeið í tölvunarfræði við sama skóla. Þennan tíma hefði stefnandi gert út frá herbergi því er hann hafði hjá syni sínum, en heimili þeirra hjóna áfram verið á Akureyri, og hefði þessi skipan ekki getað gengið til lengdar. Um veturinn hefði verið auglýst staða stærðfræðikennara við Menntaskólann á Akureyri og hefði stefnandi sókt um hana og fengið haustið 2008, en þau hjónin hefðu ekki treyst sér til búferlaflutninga suður á þessum tíma. Jafnframt hefði hann fengið tímabundna stöðu námsstjóra náttúrufræðibrautar skólans.
Stefnandi kvaðst hafa svolitlar tekjur vegna kennslubókarskrifa. Væru þær óreglulegar og greiddar sem verktakalaun. Mætti áætla þær nokkur hundruð þúsund krónur á ári, en margt gæti haft áhrif á þær frá ári til árs, svo sem þrot bókaverzlana.
Vitnið Axel Björnsson prófessor kvaðst hafa verið prófessor við stefnda frá árinu 2000, fyrst við kennaradeild svo auðlindadeild. Hefði hann kennt tölfræði, eðlisfræði og jarðvísindi, auk þess að koma að ýmsum námskeiðum sem tengist umhverfi og orku. Ætti þessi lýsing einnig við um þann tíma er stefnanda var sagt upp störfum.
Vitnið kvaðst muna mjög vel eftir uppsögn stefnanda, sem hefði verið „mjög eftirminnilegur atburður“ í skólanum og haft mikil áhrif á vitnið og fleiri. Vitnið kvaðst aldrei hafa, á þeim tíu árum sem það hefði kennt við skólann, kennt meira en það hefði gert veturinn eftir uppsögn stefnanda. Hefði fyrri kennsla stefnanda nær öll flutzt á vitnið. Kennsluskylda prófessors í eldri kantinum væri 769 tímar á ári, en margir ynnu yfirvinnu þar fyrir utan, þótt um 400 tíma árlegt þak væri þar á. Vitnið hefði umræddan vetur kennt milli 1200 og 1300 tíma, og hefði þar munað mest um eðlisfræðinámskeið í kennaradeild, en þar hefði vantað kennara. Hefðu það raunar ekki verið nein ósköp, miðað við „ýmislegt sem hefur verið á ferðinni í skólanum hvað yfirvinnu varðar“, en sér hefði þókt þetta mikið. Vitnið sagði að stefnandi hefði hæglega getað kennt þau námskeið sem þannig hefðu bætzt á vitnið, en stefnandi hefði kennt mörg þeirra áður. Vitnið tók fram að því líkaði yfirvinna illa og vildi helzt enga hafa, því hún tæki svo mikinn tíma frá rannsóknum þess. Ýmsir náttúruvísindakennarar hefðu hins vegar haft gerólíka afstöðu í þeim efnum og hefðu viljað vinna sem mesta yfirvinnu. Væru dæmi um kennara sem ynnu jafnvel tvöfalda yfirvinnu, og hefði þar verið svigrúm til að auka vinnu annarra, svo sem stefnanda. Þannig hefði stærðfræðikennari í viðskiptafræði og auðlindafræði verið meðal þeirra sem hefði kennt um tvöfalt, eða meira, eftir því sem vitninu hefði skilizt. Einnig hefði deildarforseti kennt mjög mikla yfirvinnu. Stefndi hefði getað stýrt slíku eftir þörfum. Vitnið sagði að árið eftir hefði það farið í rannsóknarleyfi og ekkert kennt, en allt að einu hefði skólinn þann vetur allan verið enn að greiða sér yfirvinnu frá fyrra ári. Vitnið hefði þar fyrir utan getað kennt meira í auðlindadeild, en hefði hvorki óskað eftir slíku né viljað það.
Vitnið hefði verið í rannsóknarleyfi veturinn 2007 til 2008. Við kennslu sinni í jarðvísindum hefði tekið ungur jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands en við eðlisfræðikennslu kennaradeildar hefði tekið matvælafræðingur, sem þrjátíu árum fyrr hefði tekið BS próf í matvælafræði við Háskóla Íslands en fyrir nokkurum árum masterspróf í líftækni.
Sækja hefði þurft um rannsóknarleyfi með um árs fyrirvara. Vitnið hefði sókt um leyfi sitt í febrúar 2006 og fengið jákvætt svar í apríllok. Hefði vitnið þá beðið um vor- og hausmisseri 2007, en vitnið hefði í júlí óskað eftir því að fá að fresta leyfinu í hálft ár, meðal annars vegna þess að sér hefði þókt þægilegra að fá leyfi heilt skólaár fremur en hálft misseri tveggja skólaára. Þessi frestun hefði verið veitt greiðlega.
Vitnið kvað stefnda hafa haft ýmsa möguleika til að „hliðra til og sveigja“ ef vilji hefði verið til þess að komast hjá uppsögn stefnanda. Starfsmenn hafi látið af störfum, svo sem prófstjóri og þar hefði skapazt starf sem stefnandi hefði hæglega getað sinnt. Stefnandi kvaðst telja alveg ljóst að næg kennsluverkefni hefðu verið á sviði stefnanda, í öðrum deildum en kennaradeild, svo sem með því að draga úr yfirvinnu og minnka notkun stundakennara. Hefði það „örugglega skapað nægt svigrúm“.
Hugsanlega hafi stefndi hins vegar einblínt á kennaradeildina sjálfa. Á þessum tíma hafi stefnt í að gjörbylta kennaranáminu, „það er að segja henda út raungreinasviðinu, henda út öllu sem er erfitt og þungt í grunnnáminu“, og væri nú svo komið í kennaradeild, að raungreinasviðið, sem hefði verið aðalsmerki deildarinnar og raunar stefnda alls, hefði verið lagt niður. Væri nú ekki annað eftir en einn eða tveir kúrsar sem búið væri að „minnka og skera utanaf og blanda saman ýmsum fögum, í þessum náttúruvísindum sem við kenndum, þannig að kennaranám, eftir þessa lengingu um tvö ár og mikið tal um styrkingu, það er eiginlega ennþá meira uppeldis- og kennslufræði og ennþá verra en það var.“ Væri þarna fylgt þeirri „stefnu uppeldisfræðinganna að kennari eigi helzt ekkert að kunna í því sem hann á að kenna, allavega ekki faglega.“ Þrýstingur hafi verið mikill í þessa átt, á þeim tíma sem stefnanda hafi verið sagt upp störfum.
Vitnið kvaðst aðspurt hafa kennt námskeiðið JVÍ1103 jarðvísindi og hafa kennt 256 einingar þar. Þá hefði vitnið kennt 137 einingar í jarðhitafræði.
Vitnið kvaðst hafa haft umsjón með eðlisfræðikennslu og tækjum og tólum henni tengd, og eftir að skólinn hafi flutt í nýtt húsnæði að Borgum hefði vitnið fengið umsjón eðlisfræðistofunnar metna sem 50 stunda kennslu. Hafi sú skipan verið hafin áður en stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Þetta hefði vitnið getað eftirlátið stefnanda, þar eð vitnið hefði haft yfrið nóg að gera. Þessi möguleiki hefði ekki verið ræddur við vitnið.
Vitnið sagði uppsögn stefnanda hafa komið eins og reiðarslag. Hefði vitnið aldrei verið spurt hvort það gæti bent á einhverjar tilhliðrunarleiðir sem orðið gætu til þess að ekki þyrfti að koma til uppsagnarinnar. Vitnið hefði reynt að afla sér skýringa á uppsögninni en engin svör fengið. Fjárhagur skólans hafi verið í rúst á þessum tíma, ráðuneyti hefði þrýst mjög á að eitthvað yrði í því gert og skipun tilsjónarmanns hefði vofað yfir. Menn hafi á þessum tíma reynt að „gera eitthvað“ og uppsögn stefnanda hafi komið til við þær aðstæður.
Vitnið kvaðst aðspurt hafa kennt á námskeiðinu LIV0552, vísindasmiðju í kennaradeild. Stefnandi hefði alveg eins getað kennt þar.
Vitnið kvaðst aðspurt staðfesta það sem í stefnu væri sagt um námskeiðið AÐF0152, aðferðir. Þar væri settur til háskólakennslu kennari, sem hefði ekki til þess hæfi, og væri aðjúnkt en ekki lektor, dósent eða prófessor. Byggju þar að baki ríkjandi viðhorf til kennaramenntunar, að ekki eigi að kenna námsgreinarnar sjálfar, heldur eigi allir að geta kennt allt. Eðlilegra hefði verið, að mati vitnisins, að maður með réttindi og hæfi kenndi umrætt námskeið.
Vitnið var spurt hvort rétt væri að umhverfis- og orkusvið hefði verið illa sókt og að þess vegna hafi ekki þókt skynsamlegt að bæta við kennurum þar, heldur þvert á móti fækka þeim og draga úr námsframboði. Vitnið kvað þetta ekki rétt. Ef skoðaðar væru síðustu haustinnritanir þá hefðu mun fleiri nemendur skráð sig á umhverfis- og orkubraut en sjávarútvegsbraut og líftæknibraut til samans. Væri umhverfis- og orkubraut vinsælust meðal nemenda, en hins væri að gæta að mjög fáir nemendur væru í raunvísindum auðlindadeildar.
Vitnið sagði, að ef horft væri á það sem það hefði kennt, veturinn eftir uppsögn stefnanda, hefði vitnið örugglega vilja losna við um 500 til 550 kennslueiningar, en full kennsla dósents væri nálægt 800 einingum.
Vitnið sagði að ekki væri dýrt að láta prófessor kenna yfirvinnu, en yfirvinnutaxti prófessora væri lægri en dagvinnutaxti. Öðru máli myndi gegna um dósenta.
Vitnið Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu stefnda, kvaðst hafa komið til þeirra starfa hjá stefnda í byrjun apríl 2006. Hefðu skipulagsbreytingar staðið yfir og verið komnar til vegna fjárhagsvandræða stefnda. Þegar vitnið hefði komið til starfa hefði uppsafnaður halli stefnda verið tæplega 340 milljónir króna. Hallareksturinn hafi varað frá árinu 2001 til 2006 og hefði stefndi verið kominn með mjög ákveðin fyrirmæli úr menntamálaráðuneytinu um að gerð yrði bragarbót á. Frekari hallarekstur yrði ekki liðinn. Árin 2003 til 2005 hefði hallinn verið um og yfir hundrað milljónir króna á ári. Fjármál stefnda hefðu heyrt undir vitnið sem sjálft hefði átt undir rektor. Aðgerðir til að bæta fjárhagsstöðuna hefðu verið hafnar þegar vitnið hefði komið til starfa. Þannig hefði þá verið búið að sameina þrjár deildir stefnda í eina en áfram hefði verið haldið á sömu braut, hagrætt hefði verið í kennslu og fólki sagt upp störfum. Allt hafi það miðað að því að koma rekstri stefnda innan þeirra marka sem fjárlög settu. Hefði þannig tekizt árið 2006 að minnka árlegan halla úr hundrað milljónum króna í fimmtán. Árið 2007 hefði reksturinn skilað afgangi og gengið vel síðan. Hefði menntamálaráðuneytið í framhaldi af því beitt sér fyrir aukafjárveitingu til að greiða niður hinn uppsafnaða halla, og væri hann nú kominn niður í áttatíu milljónir króna.
Vitninu voru sýndir launaseðlar stefnanda og kvaðst ráða af þeim að stefnandi hefði verið í launaflokki 695C13 fyrir rannsóknarhluta starfs síns, en C13 merkti að hann fengi ekki álag vegna rannsókna þar sem virkni hans við rannsóknir hafi ekki verið nægilega mikið til þess. Í október 2006 hafi nýir samningar tekið gildi, frá og með 1. maí það ár og hafi stefnandi þá flutzt í 11. launaflokk, fjórða þrep.
Vitnið kvað stefnanda ekki hafa sókt um rannsóknarleyfi árin 2005 og 2006. Hefði háskólaráð heimild til þess að veita starfsmönnum rannsóknarleyfi samkvæmt umsókn þeirra. Réðust afdrif slíkrar umsóknar af rannsóknarvirkni þeirra og fjölda ára sem liðið hefðu milli rannsóknarmissera, og væri ljóst að menn ynnu sér ekki rétt til rannsóknarleyfis heldur til þess að sækja um slíkt leyfi. Væri á alfarið á valdi háskólaráðs að veita slíkt leyfi og væru slíkt leyfi til dæmis ekki veitt nú. Á þeim tíma sem mál þetta snýst um hefðu slík leyfi hins vegar veitt þeim umsækjendum sem uppfylltu skilyrði.
Vitnið var spurt hvernig uppsögn stefnanda hefði verið undirbúin. Sagði vitnið, að þegar það hefði hafið störf hjá stefnda, í apríl 2006, hefði vinna við að ná tökum á rekstri stefnanda þegar verið hafin. Fundir hefðu verið haldnir og málin rædd, þar á meðal mál kennaradeildar, en nauðsynlegt hefði þókt að skera niður í rekstri stefnda. Litið hefði verið á ýmsa hluti, svo sem fjölda nemenda í hverju námskeiði, en vitnið hefði ekki verið sett inn í öll smáatriði sem rædd hefðu verið áður en það hefði komið til starfa. Við uppsögn stefnanda hefði sparazt launakostnaður vegna stefnanda, en vitnið kvaðst ekki geta svarað hverju hver og ein sparnaðaraðgerð hefði skilað, en í heild hefði náðst mikill árangur. Vitnið sagði að legið hefði ljóst fyrir hve mikill launakostnaður myndi sparast við uppsögn stefnanda, en sú yfirvinna annarra, sem hugsanlega yrði að auka til að mæta uppsögninni, hefði verið talin mun kostnaðarminni. Uppsögnin hafi verið ákveðin að fengnum upplýsingum frá deildarforseta og deildum skólans.
Vitnið sagði að á þessum tíma hefðu kennarar talið yfirvinnu vera hluta af kjörum sínum. Þegar yfirvinna hefði verið skorin niður síðar, hefði það verið gert samkvæmt samkomulagi við starfsmenn.
Vitnið Guðmundur Heiðar Frímannsson prófessor kvaðst hafa verið forseti kennaradeildar stefnda þegar stefnanda var sagt upp störfum. Á þessum tíma hefði nám í deildinni skipzt í leikskólabraut og grunnskólabraut. Veturinn 2005 til 2006 hefði innan grunnskólabrautar farið fram vinna er lotið hefði að skipulagi námsins. Meðal þess sem rætt hefði verið á fundi eftir fund, hefði verið staða kennslu í stærðfræði og náttúruvísindum, en kennara deildarinnar hefði greint á um hana og skipzt í tvö horn. Á fyrsta ári grunnskólabrautar hafði kennslu verið háttað svo, að á haustmisseri væri námskeið í stærðfræði og annað í náttúruvísindum og aftur á vormisseri. Samtals hefðu þessi námskeið veitt níu námseiningar, en þegar vitnið var nánar spurt kvað það einingarnar hugsanlega hafa verið tíu. Nemendur hefðu verið skyldugir að sitja öll þessi námskeið. Brautarfundur hefði hins vegar ákveðið að nemendum skyldi í sjálfsvald sett hvort þeir veldu að sitja námskeiðin á vormisserinu. Hefði þetta verið grundvallaratriði í þeim skipulagsbreytingum sem varðað hefðu þessar námsgreinar.
Vitnið sagði að stefndi hefði viljað bjóða upp á kennslu í umræddum greinum, svo úr yrðu útskrifaðir kennarar, sem hefðu þennan grunn. Ljóst hefði hins vegar verið, að „það yrðu afar fáir ef nokkurir nemendur til þess að sækja um þetta nám á þessu sérsviði“ veturinn 2006 til 2007. Þar með félli mikil kennsla niður á þessu sviði, og eftir stæði þá fyrst og fremst kennslan á haustmisseri. Þannig hefði þörf deildarinnar fyrir raunvísindakennslu dregizt „mjög rækilega“ saman.
Vitnið kvaðst hafa með tvennum hætti komið að undirbúningi uppsagnar stefnanda. Þegar deildarráð hefði staðfest skipulagsbreytingarnar, hefði vitnið upplýst rektor um í hvað stefndi og jafnframt sent niðurstöðu deildarráðs til háskólaráðs, en gera yrði sérstaklega grein fyrir öllum breytingum sem áhrif hefðu á rekstrarkostnað stefnda. Þá hefði vitnið í marz, eða byrjun apríl, setið fund með rektor og forseta viðskipta- og raunvísindadeildar þar sem afleiðingar skipulagsbreytinganna hefðu verið ræddar, bæði að því er sneri að raungreinakennurum kennaradeildar og því, hvort annars staðar opnuðust möguleikar á kennslu á þeirra sviði. Hefði þar fyrst og fremst verið rætt hvort í viðskipta- og raunvísindadeild væru verkefni fyrir stefnanda, en álitið hefði verið að eftir breytingar væri ekki efni til nema einnar stöðu raungreinakennara í kennaradeild. Að boði rektors hefði því verið reynt að finna stefnanda verkefni annars staðar. Vitnið kvaðst hins vegar ekki muna til þess að aðrir menn hefðu verið ræddir í því sambandi, en þar sem skipulagsbreytingarnar hefðu orðið í kennaradeild hefði verið „sjálfgefin forsenda“ að horfa yrði fyrst til þeirra einstaklinga sem þar störfuðu. Hefði því þurft að velja milli stefnanda og Axels Björnssonar. Eftir þetta hefði málið verið í höndum rektors. Kvaðst vitnið ekki líta svo á að það hefði átt aðild að ákvörðun um uppsögn stefnanda, enda væri slíkt hvorki á valdi né starfssviði deildarforseta. Rektor hefði tilkynnt sér um uppsögnina klukkustund eftir að rektor hefði tilkynnt stefnanda um hana. Vitnið hefði ekki vitað af uppsögninni fyrr en þá, en vitninu hefði verið kunnugt um að svo kynni að fara.
Vitnið sagði að náttúruvísindanámskeiðin hefðu verið kennaradeildinni kostnaðarsöm að því leyti að „einingarnar, eða tímarnir, sem greiddir eru fyrir þau, eru fleiri en fyrir aðrar tegundir námskeiða“, en námskeið væru flokkuð eftir ákveðnu kerfi, og væru náttúruvísindanámskeiðin í dýrasta flokknum. Vitnið kvaðst hins vegar ekki geta svarað hvort þau væru dýrari en önnur, miðað við hverja stund.
Vitnið kvaðst ekki hafa þrýst á rektor að hann drægi uppsögn stefnanda til baka. Vitnið hefði hins vegar, að beiðni Þóris Sigurðssonar, gengið á fund rektors og spurt hvort til greina kæmi að draga uppsögnina til baka, en rektor hefði neitað því afdráttarlaust.
Vitnið kvað sér ekki hafa verið kunnugt um hvað sparast myndi á uppsögn stefnanda en vitnið hefði ekki komið nálægt fjárhagsatriðum er vörðuðu málið.
Vitnið Þorsteinn Gunnarsson, fyrrverandi rektor, kvað þáverandi prófessor við stefnda, Kristján Kristjánsson, hafa sagt sér að stefnanda hefði verið sagt upp starfi, er hann hefði gegnt fyrir sunnan, en þörf væri á raunvísindakennara við kennaradeild stefnda og hefði Kristján mælt með stefnanda. Í framhaldi af þessu hefði kennarastaða verið auglýst og stefnandi ráðinn í hana.
Vitnið sagði fjárhagsástæður hafa knúið stefnda til uppsagna. Stefndi hefði lengi verið rekinn með halla, á árinu 2003 um 133 milljónir króna, á árinu 2004 um 107 milljónir og á árinu 2005 um 86 milljónir króna. Mjög ströng skilaboð hefðu komið frá menntamálaráðuneyti og ríkisendurskoðun um að svo mætti ekki lengur til ganga. Hefði verið gripið til ýmissa aðgerða, námskeið hefðu verið kennd saman, sum kennd annað hvert ár, ekki verið ráðnir menn í stað þeirra sem létu af störfum og deildum hefði verið fækkað úr sex í fjórar, en upplýsingatæknideild, viðskiptadeild og auðlindadeild hafi verið sameinaðar og hafinn hafi verið undirbúningur sameiningar laga- og félagsvísindadeildar og kennaradeildar. Ljóst hefði þó verið, að endum yrði ekki náð saman nema starfsfólki yrði fækkað, en greidd laun væru um 70% af útgjöldum stefnda. Raungreinasvið kennaradeildar hefði verið mjög illa sókt og nemendur þar færri en viðmið stefnda hefðu sagt, en þar væri gert ráð fyrir að minnsta kosti tíu nemendum. Veturinn 2005 til 2006 hefði grunnskólabrautin ákveðið að draga úr skyldusókn nemenda á raungreinanámskeið og hætta að bjóða upp á raungreinasvið, sem hafi raunar verið sjálfgert því enginn nemandi hefði sókt um nám þar. Við þetta hefði námseiningum í raunvísindum fækkað úr níu í fimm.
Vitnið sagði háskólaráð hafa samþykkt rekstraráætlun fyrir árið 2006 þar sem gert hafi verið ráð fyrir samdrætti í raunvísindakennslu kennaradeildar og deildarráð hefði jafnframt samþykkt nýtt námsskipulag sem hefði orðið til fækkunar námskeiða í raunvísindum og stærðfræði á fyrsta ári, en stefnandi hefði kennt þær greinar. Hefði þetta leitt til uppsagnar stefnanda. Forseti kennaradeildar hefði kynnt vitninu þær breytingar sem deildin hefði samþykkt á skipulagi sínu og að ekki væri þörf fyrir fleiri en einn raunvísindakennara við deildina. Fyrirhuguð raunvísindakennsla deildarinnar hefði verið metin til eitt þúsund til ellefu hundruð eininga, í stærðfræði og skyldum greinum. Þá hefði vitnið kallað forseta viðskipta- og raunvísindadeildar fyrir sig, til að fara yfir hver þörf væri fyrir raunvísindakennara við þá deild. Hefði hann ekki talið rúm fyrir kennara til viðbótar við þá er fyrir væru.
Vitnið sagði að athugað hefði verið hvort möguleikar væru á að finna stefnanda kennsluverkefni annars staðar í skólanum, en niðurstaðan hefði orðið að það væri ekki unnt án þess að raska verkefnum þeirra sem fyrir hefðu verið. Hefði sú leið því ekki verið talin fær. Þá hefði verið nauðsynlegt að lækka rekstrarkostnað stefnda, og væri slíkt ekki gert með því að flytja menn milli starfa heldur fækka starfsfólki.
Vitnið sagði að mikill árangur hefði orðið af sparnaðaraðgerðum og hefði tekizt að ná rekstrinum úr hundrað milljóna króna halla í jafnvægi árið 2007.
Vitnið sagði að sparnaðaraðgerðum hefði ekki verið sérstaklega beint að raunvísindakennslu heldur hefði orðið víðtækur sparnaður í rekstri skólans, námskeið felld niður og störfum fækkað. Mest hefði verið sparað þar sem fæstir hefðu verið nemendur, en tekjur skólans kæmu þar sem þeir væru flestir. Í viðmiðunarreglum stefnda væri gert ráð fyrir að ekki væru færri nemendur en tíu í námskeiði, slíkt hefði þó verið látið óátalið í nokkur ár, en þegar svo hefði lengi gengið hefði orðið að bregðast við. Á námskeiðum raungreinasviðs kennaradeildar hefðu nemendur verið mun færri en tíu.
Vitnið var spurt hvernig staðið hefði verið mati á starfsmönnum stefnda. Kvað vitnið rannsóknarvirkni kennara vera metna og eins færi fram námskeiðsmat, þar sem nemendur mætu kennara. Niðurstöður þessa hefðu legið fyrir um stefnanda, eins og aðra kennara, og áður en ákvörðun um uppsögn stefnanda hefði verið tekin, hefði verið litið til þessara þátta hjá honum annars vegar og Axel Björnssyni hins vegar, en Axel hefði þá einnig verið kennari á raungreinasviði. Axel hefði verið talinn hafa það fram yfir stefnanda að vera prófessor, en stefnandi dósent, rannsóknarverkefni og rannsóknarvirkni Axels hefðu þókt meiri en hjá stefnanda, rannsóknarstig stefnanda hefðu verið 274 en rannsóknarstig Axels hefðu verið nálægt átta hundruð. Þá hefðu niðurstöður námskeiðsmats verið jákvæðari hjá Axel en hjá stefnanda. Loks hefði samfelldur starfstími stefnanda verið styttri en Axels. Vitnið kvaðst hafa metið það svo að Axel myndi nýtast kennaradeildinni betur en stefnandi.
Vitnið sagði að starfsmenn hefðu ekki átt rétt á rannsóknarleyfi heldur rétt til að sækja um rannsóknarleyfi. Stefnandi hefði ekki nýtt sér þann rétt á þeim tíma er mál þetta varði. Fyrirhugað námsleyfi Axels Björnssonar hefði engu skipt er ákvörðun um uppsögn stefnanda hefði verið tekin.
Vitnið sagði að frá umræddum tíma hefði stöðugt dregið úr yfirvinnu hjá stefnda.
Vitnið var spurt um yfirvinnu þriggja kennara kennsluárið 2006 til 2007, Axels Björnssonar, Guðmundar Óskarssonar og Bjarna Hjarðar. Vitnið kvaðst ekki muna hversu mikil hún hefði verið þá, en vita að Axel og Guðmundur hefðu unnið verulega yfirvinnu þetta skólaár. Vitnið kvaðst ekki muna eftir yfirvinnu Bjarna.
Vitnið sagði að þegar ákvörðun hefði verið tekin um uppsögn stefnanda hefðu legið fyrir rekstraráætlun stefnda, samþykkt deildarráðs kennaradeildar um nýtt skipulag þar sem ekki hefði verið gert ráð fyrir raungreinasviði, og gögn um námskeiðsmat stefnanda og rannsóknarvirkni. Reiknað hefði verið út að uppsögn stefnanda myndi spara um fimm milljónir króna á ári. Ódýrara væri fyrir stefnda að fá kennara til að kenna yfirvinnu en að hafa starfsmann á föstum fullum launum. Ekki hefðu þó legið fyrir nákvæmir útreikningar á þessu, þegar stefnanda hefði verið sagt upp störfum. Fastráðnir kennarar á þessum tíma hefðu verið nálægt áttatíu. Uppsögn stefnanda og tveggja annarra starfsmanna hefðu verið fyrstu uppsagnir sem gripið hefði verið til, en eitthvað hefði verið um að tímabundnar ráðningar hefðu ekki verið framlengdar.
Vitnið sagði að kennarar hefðu ekki átt rétt á því að vinna yfirvinnu. Þeir hafi hins vegar talið yfirvinnu eftirsóknarverða búbót og ekki verið vel séð ef yfirstjórn stefnda „væri að klípa mikið í yfirvinnu kennara“. Stefnda hefði hins vegar verið heimilt að skera yfirvinnuna niður. Hefðu slíkir möguleikar komið til skoðunar, þegar leitað hefði verið leiða til að draga úr launakostnaði, en niðurstaðan orðið sú, að andstaða kennara við þá leið yrði of mikil.
Vitnið Þórir Sigurðsson, stundakennari við stefnda, kvaðst hafa verið lektor hjá stefnda frá áramótum 1989 til 1990 og kennt stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði og ýmsar hagnýtar stærðfræðigreinar. Hefðu þeir stefnandi unnið mjög vel saman í mörg ár, en mörg námskeið hefðu verið sameiginleg í þeim deildum er þeir hefðu kennt við; stefnandi hefði fyrst kennt í rekstrardeild en vitnið í sjávarútvegsdeild, stefnandi hefði svo kennt í viðskiptadeild en vitnið í auðlindadeild. Samvinna hefði verið milli deilda og vitnið og stefnandi kennt á víxl í hvorri deild. Væri mjög algengt að kennarar „kenni á milli og fari yfir þessa svo kölluðu deildarmúra“. Vitnið kvaðst telja sig hafa þekkt raungreinakennslu innan stefnda manna bezt. Hefði vitnið verið formaður félags háskólakennara á Akureyri og hefði sem slíkur beitt sér fyrir því að uppsögn stefnanda yrði dregin til baka, og hefði gengið oft á fund rektors og skrifað honum vegna þess erindis. Enginn árangur hefði orðið af þeirri baráttu. Hefði vitnið meðal annars teflt því fram, að stefnandi væri mjög fjölhæfur kennari og gæti því nýtzt stefnda víðar en í kennaradeild. Rektor hefði hins vegar horft til kennaradeildar einnar. Í auðlindadeild, þar sem vitnið hefði starfað, hefðu verið ýmsir kennarar, á sama sviði og stefnandi, sem kenndu „alveg gífurlega yfirvinnu“, bæði fyrir og eftir uppsögn stefnanda, og hefði yfirvinnan enn aukizt eftir uppsögnina. Þá hefði starfstími stefnanda við skólann verið um sautján ár, en ekki þrjú, eins og oft hefði mátt ráða af málflutningi rektors, en á það yrði að horfa að stefnandi hefði starfað hjá stefnda í mörg ár, áður en hann hefði horfið til annarra starfa í um eins til tveggja ára skeið. Stefnandi hefði svo komið að nýju til starfa hjá stefnda árið 2003.
Vitnið var spurt um þá ákvörðun að samkenna stærðfræðinámskeið auðlindadeildar og raunvísindasviðs kennaradeildar. Vitnið sagði að hér virtist ákvörðun hafa verið tekin á fundi tveggja deildarforseta með þeim kennara, sem kenna skyldi hið sameiginlega námskeið. Væri sú aðferð ekki í samræmi við lög og starfsreglur stefnda, en að réttu lagi hefðu námsnefndir deildanna átt að fjalla um málið og svo ætti að ræða málið á fundum í brautum og skorum. Það virtist ekki hafa verið gert hér. Vitnið væri mjög kunnugt þessum námskeiðum enda hefði það kennt stærðfræði í deildunum báðum. Væru þessi námskeið mjög ólík, og alls ekki réttlætanlegt að kenna þau saman en áherzlur deildanna væru mjög ólíkar. Hefði þessi tilhögun aðeins verið notuð einn vetur. Væri þetta „faglega séð alveg óskiljanleg ákvörðun og gerð greinilega eftir á til þess að geta sýnt fram á að það væri minni þörf fyrir starfskrafta [stefnanda] heldur en ella.“
Vitnið sagði að rétt væri, sem sagt væri í stefnu, að námskeiðið AÐF0152 hefði kennt aðjúnkt við deildina sem þar hefði verið í hlutastarfi, en hefði, eftir uppsögn stefnanda verið færður í fullt starf í kennaradeild. Sagði vitnið að stefnandi hefði verið mun betur til þess starfs fallinn en sá kennari, en sá hefði ekki haft lágmarksmenntun kennara og alls ekki í stærðfræði, heldur hefði hann haft kennaramenntun á myndlistarsviði en hefði þarna fengið mikla ábyrgð á stærðfræði- og eðlisvísindakennslu. Væri „ótrúlegt að þetta skuli gerast í háskóla, vægast sagt.“ Hefði þetta verið lausamaður sem hefði verið „gripinn úr öðrum störfum til þess að geta kennt ennþá meira heldur en áður, einmitt námskeið sem voru á fræðasviði [stefnanda] en ekki á fræðasviði hans.“ Hefði þessi kennari verið með mjög mikla yfirvinnu árið eftir uppsögn stefnanda.
Vitnið Sverrir Kristinsson, fasteignasali, staðfesti matsgerð sína.
Niðurstaða
Stefnandi var í starfi sínu hjá stefnda ríkisstarfsmaður og giltu um réttindi hans og skyldur ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. þeirra laga hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Þegar stefnanda var sagt upp störfum giltu um stefnda lög nr. 40/1999 um Háskólann á Akureyri. Þau lög féllu úr gildi með gildistöku laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 40/1999 sagði að rektor stefnda hefði ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum stefnda, nema annað væri berum orðum ákveðið í lögum. Það vald var hvergi í lögum tekið frá rektor og fært öðrum. Samkvæmt þessu hafði rektor stefnda vald til að segja stefnanda upp störfum. Við töku slíkrar ákvörðunar var rektor bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo sem rannsóknarreglu 10. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. þeirra. Verður nú hugað að því.
Er stefnanda var sagt upp störfum starfaði hann innan kennaradeildar stefnda. Í ráðningarsamningi stefnanda segir að hann sé ráðinn til starfa sem dósent í stærðfræði og eðlisfræði og vinnustaður er sagður vera Háskólinn á Akureyri. Í bréfi rektors til stefnanda, er stefnanda var tilkynnt um ráðningu sína, segir: „Vísað er í umsókn þína um stöðu háskólakennara í stærðfræði/eðlisfræði við Háskólann á Akureyri sem auglýst var laus til umsóknar 23. mars 2003. Ákveðið hefur verið að ráða þig til að gegna stöðu dósents í stærðfræði/eðlisfræði frá 1. júní n.k. Háskólinn býður þig hér með velkominn til starfa.“ Hvergi í þessum plöggum er kennaradeildar stefnda sérstaklega getið. Vitnið Þórir Sigurðsson, fyrrverandi lektor og formaður kennarafélags stefnda, bar að mjög algengt hefði verið að kennarar kenndu „á milli“ og færu „yfir þessa svo kölluðu deildarmúra“. Þá báru vitnin Þorsteinn Gunnarsson og Guðmundur Heiðar Frímannsson að kannað hefði verið, við undirbúning ákvörðunar um uppsögn, hvort finna mætti stefnanda verkefni í öðrum deildum stefnda. Þykir dóminum óhjákvæmilegt að líta svo á, að stefnandi hafi verið ráðinn til að kenna stærðfræði og eðlisfræði við stefnda, en ekki ráðinn sérstaklega til einstakrar brautar eða deildar.
Í uppsagnarbréfi rektors til stefnda er vísað til „viðvarandi fjárhagsvanda“ stefnda og skipulagsbreytinga sem hans vegna hafi verið gripið til.
Telja verður ljóst að stefndi hafi, árin fyrir uppsögn stefnanda, glímt við verulegan fjárhagsvanda og að þörf hafi verið róttækra aðgerða í rekstri hans. Var í höndum stefnda að meta til hvaða skipulagsbreytinga hafi verið þörf, til að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í rekstri, en slík hagræðing verður að teljast lögmætt markmið. Ljóst er að stefndi áleit í því skyni nauðsynlegt að draga úr launakostnaði. Þurfi að koma til uppsagna starfsmanna af þeim sökum, er það komið undir mati forstöðumanns stofnunar hverjum starfsmanna hennar verður sagt upp störfum. Eins og áður segir, gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um þá ákvörðun.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald gæta þess að mál sé nægilega upplýst áður en það tekur ákvörðun í því. Ekki er í lagagreininni nánar kveðið á um hvernig það skuli metið, hvenær mál teljist nægilega upplýst. Við mat á því verður einnig að hafa 1. mgr. 9. gr. laganna í huga, en hún mælir svo fyrir að mál skuli afgreitt eins fljótt og unnt er. Þá verður að hafa í huga, að afar margar ákvarðanir eru teknar á stjórnsýslustigi og verður að ætla stjórnvaldshafa á hverju sviði talsvert svigrúm til mats á því hvenær hann telji mál svo upplýst að hann geti tekið í því ákvörðun.
Stefndi hefur byggt á því, að hann hafi borið þá saman, stefnanda og samkennara hans í kennaradeild, Axel Björnsson, og niðurstaða sín hafi orðið að Axel myndi nýtast stefnda betur. Hefur stefndi tilgreint rök sem hann hafi haft fyrir því mati sínu. Ekki er á valdi dómstóla að endurskoða eða hnekkja frjálsu mati stjórnvalds milli lögmætra sjónarmiða, og þar sem telja verður að stefndi hafi byggt mat sitt milli þeirra tveggja á lögmætu sjónarmiði, verður það mat stefnda, að Axel hafi hentað stefnda betur, ekki endurskoðað af dómnum.
Eins og áður segir lítur dómurinn svo á að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda í heild en ekki til afmarkaðra verkefna svo sem kennslu tiltekinna námskeiða. Stefnandi hafi einfaldlega verið ráðinn til að kenna stærðfræði og eðlisfræði við stefnda. Fyrir liggur að kennsla á fræðasviðum stefnanda var ekki bundin við kennaradeild. Þótt ætla verði stjórnvaldshafa töluvert svigrúm til að meta hvenær hann hafi fengið nægar upplýsingar til að taka ákvörðun í máli, þá geta þau sjónarmið ekki dregið hann að landi í þeim tilvikum þar sem alls ekkert mat hefur farið fram og mál verður að teljast alveg óupplýst.
Stefndi hefur byggt á því, að eftir skipulagsbreytingar hafi ekki verið næg verkefni fyrir stefnanda í kennaradeild, að gerðum samanburði á stefnanda og Axel Björnssyni.
Vitnin Þorsteinn Gunnarsson og Guðmundur Heiðar Frímannsson báru að kannað hefði verið hvort verkefni væru fyrir stefnanda í öðrum deildum, en niðurstaðan orðið sú að þá hefði þurft að segja öðrum upp.
Eins og áður segir lítur dómurinn svo á, að stefnandi hafi ekki verið sérstaklega ráðinn til að kenna stærðfræði og eðlisfræði við kennaradeild stefnda, heldur innan stefnda í heild. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að öðru máli hafi gegnt um aðra fastráðna kennara í þeim greinum. Þykir þvert á móti hafa komið fram, að kennarar hafi kennt yfir „deildamúra“ ef þannig hafi borið undir. Það að rektor hafi kannað, áður en hann tók ákvörðun um uppsögn stefnanda, hvort finna mætti honum verkefni í öðrum deildum, þykir horfa til sömu áttar.
Álítur dómurinn því, að jafnvel þótt komizt yrði að þeirri niðurstöðu, að vegna skipulagsbreytinga hefði þörf kennaradeildar fyrir kennara, á fræðasviði stefnanda, minnkað, þá leiði sú niðurstaða ekki sjálfkrafa til þess að réttlætt hafi verið uppsögn kennara sem þar starfi, umfram aðra kennara í stefnda.
Að mati dómsins var stefnda ekki nægilegt að bera stefnanda við Axel Björnsson, samkennara hans innan kennaradeildar, heldur hefði stefndi þurft að leggja mat á hæfni stefnanda í samanburði við aðra starfsmenn stefnda á sama fræðisviði, úr því að stefndi hafði komizt að þeirri niðurstöðu að segja yrði upp kennara á þessu fræðisviði. Þykir þessi niðurstaða fá stuðning í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 647/2006, sem upp var kveðinn 10. maí 2007. Telur dómurinn, að þar sem kennarar hafi verið ráðnir til stefnda í heild, en ekki til einstakra deilda, og þar sem fyrir liggi að kennarar hafi tíðum færzt milli námskeiða og deilda, að uppsögn stefnanda verði ekki réttlætt með því að þörf fyrir stærðfræði- og eðlisfræðikennara innan einnar deildar skólans hafi minnkað og að samanburður hans og annars kennara þeirrar deildar einnar hafi ekki orðið honum í vil.
Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram, að ef stefnanda hefði ekki verið sagt upp störfum heldur fengið verkefni í öðrum deildum, hefði orðið að segja einhverjum upp þar. Að mati dómsins breyta þau sjónarmið engu hér, þótt sönnuð yrðu. Jafnvel þótt fallizt yrði á, að vegna skipulagsbreytinga hefði þörf stefnda fyrir kennara á fræðasviðum stefnanda minnkað, þá leysti það stefnda ekki undan þeirri skyldu að leggja mat á það, hverjum kennara á því fræðasviði yrði sagt upp störfum. Eins og samningum og vinnulagi var háttað innan stefnda, var stefnda ekki unnt að takmarka það val við þá starfsmenn sem þá stundina kenndu í þeirri deild þar sem verkefnunum skyldi fækkað.
Í ljósi framanritaðs er niðurstaða dómsins að ekki hafi verið staðið réttilega að þeirri ákvörðun að segja stefnanda upp störfum á þeim grunni sem gert var. Verður að líta svo á að ákvörðunin hafi verið ólögmæt og þykir stefndi með henni hafa bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda.
Bótakrafa stefnanda hefur verið rakin. Stærsti liður hennar er vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar sem stefnandi kveður sig munu hafa af búferlaflutningum og öflunar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Metur stefnandi þennan kostnað fimmtán milljónir króna. Frá því stefnandi gerði dómkröfur sínar hefur hann hlotið fast starf á sínu fræðasviði sem stærðfræðikennari við Menntaskólann á Akureyri og gegnir þar jafnframt tímabundnu starfi sviðsstjóra náttúrufræðibrautar. Hefur uppsögn stefnanda því ekki haft þau áhrif að hann hafi þurft að flytja búferlum og hefur hann hvorki selt né keypt húsnæði hennar vegna. Verður stefndi sýknaður af kröfu um bætur vegna slíks. Þá krefst stefnandi bóta vegna tekjutjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að hann hafi orðið af rannsóknarleyfi sem hann hafi unnið sér rétt til. Stefndi hefur mótmælt þeirri kröfu. Reglur um rannsóknarleyfi kennara við stefnda liggja fyrir í málinu. Samkvæmt þeim geta kennarar sókt um rannsóknarleyfi eftir ákveðinn árafjölda í starfi. Segir í reglunum að sérstök nefnd skuli vinna úr umsóknum og skila til rektors tillögu um hverjir fái leyfið. Í 10. gr. a reglnanna segir að komi til þeirrar stöðu, „að ekki geti allir sem eiga gildar umsóknir fengið leyfi“ skuli nefndin raða umsóknunum eftir nánar tilgreindum viðmiðum. Þykir dóminum af þessu sem ekki liggi fyrir með óyggjandi hætti að stefnandi hefði fengið námsleyfi, jafnvel þó að hann hefði sókt um það, sem hann gerði ekki. Verður ekki fallizt á að stefndi sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þessa.
Stefnandi krefst bóta vegna tekju- og lífeyristjóns. Er uppsögn stefnanda kom til framkvæmda var stefnandi kominn hátt á sextugsaldur, búsettur í byggðarlagi þar sem búast mátti við að fátt væri lausra starfa á sérsviði hans. Var stefnandi án starfs í um eitt ár, en fékk svo starf á höfuðborgarsvæðinu. Ekki liggur fyrir að hann hafi haft tekjur á því tímabili sem hér skiptir máli, en ekki hefur verið hrakið að tekjur sem hann hafi haft vegna eldri fræðibókaskrifa séu óreglulegar og breyti engu um þær hvort hann sé í föstu starfi eða ekki. Launaseðlar stefnanda mánuðina fyrir uppsögn liggja fyrir í málinu og eru laun þá ríflega 350.000 krónur á mánuði auk yfirvinnu og orlofs af yfirvinnu sem nemur um 70.000 krónum.
Á hinn bóginn verður að líta til þess að rektor stefnda lét stefnanda í té lofsamlegt meðmælabréf sem var til þess fallið að auðvelda stefnanda atvinnuleit og draga þannig úr tjóni hans. Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að ósannað sé að stefnandi hafi reynt að takmarka tjón sitt svo sem skylda hans sé. Stefnandi kvaðst fyrir dómi hafa tvívegis sókt um starf en auk þess beðið menn að spyrjast fyrir í sína þágu. Ekkert liggur hins vegar fyrir um þessa atvinnuleit og í ljósi andmæla stefnda verður hún að teljast ósönnuð.
Þegar á allt framanritað er horft þykja skaðabætur til stefnanda hæfilega metnar að álitum þrjár milljónir króna sem bera skuli dráttarvexti frá 9. desember 2007 er mánuður var liðinn frá birtingu stefnu, en gögn málsins bera ekki með sér að fjárkrafa hafi verið gerð fyrr en þá.
Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur og kveður vegið hafa verið að æru sinni, heiðri og persónu með því að vera valinn úr stórum hópi starfsmanna til uppsagnar án sýnilegar málefnalegrar ástæðu. Ljóst þykir að stefndi glímdi við verulega fjárhagserfiðleika sem hafi verið á almennu vitorði. Umtalsverðar aðgerðir hafi farið fram þeirra vegna og hafi meðal annars falizt í skipulagsbreytingum. Þá verður að líta til þess að rektor lét stefnanda í té meðmælabréf þar sem farið var lofsamlegum orðum um stefnanda og störf hans fyrir stefnda. Þó ráða megi af framburði vitnisins Axels Björnssonar að innan stefnda hafi verið tekizt á um stefnu í kennaramenntun, hefur ekki verið sannað í málinu að uppsögn stefnanda hafi átt sér aðrar ástæður en stefndi hefur gefið upp og þykir ekki hafa verið sannað í málinu að í uppsögn stefnanda hafi falizt atlaga að æru hans og persónu, þó þannig hafi til tekizt að stefndi hafi ekki staðið að henni með þeim hætti sem stjórnsýslulög áskilja. Verða skilyrði miskabóta ekki talin uppfyllt.
Í málinu liggur fyrir matsgerð svo sem rakið hefur verið. Féll kostnaður vegna vinnu matsmanns allur til eftir að ljóst varð að stefnandi hafði fengið fast starf við fræðigrein sína á Akureyri. Verður ekki horft til matskostnaðar við ákvörðun málskostnaðar, en stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda eina milljón króna í málskostnað.
Mál þetta fluttu hæstaréttarlögmennirnir Gísli Guðni Hall fyrir stefnanda og Óskar Thorarensen fyrir stefnda. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Háskólinn á Akureyri, greiði stefnanda, Stefáni G. Jónssyni, þrjár milljónir króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. desember 2007 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda eina milljón króna í málskostnað.