Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2011


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


                                                                                              

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 165/2011.

Þorsteinn M. Jónsson

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Mál Þ gegn L hf. var fellt niður fyrir Hæstarétti að kröfu þess fyrrnefnda en hann dæmdur til greiðslu málskostnaðar að kröfu L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2011. Með bréfi til réttarins 7. nóvember 2011 tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá áfrýjun. Með bréfi sama dag ítrekaði stefndi kröfu sína um málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

        Mál þetta er fellt niður.

          Áfrýjandi, Þorsteinn M. Jónsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2010.

I.

Mál þetta, sem var dómtekið 14. desember 2010, var höfðað 18. febrúar 2010 af NBI hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, gegn Þorsteini M. Jónssyni, Laufásvegi 73 í Reykjavík.

Samkvæmt stefnu eru dómkröfur stefnanda þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 150.000.000 króna og bankakostnað (vanskilagjald) 10.750 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 150.000.000 krónum frá 10. ágúst 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara sýknu að svo stöddu af kröfum hans. Til þrautavara krefst stefndi sýknu að hluta af kröfum stefnanda, þ.e. annars vegar að hann verði sýknaður alfarið af kröfum um greiðslu dráttar- og vaxtavaxta af stefnufjárhæðinni og hins vegar að hann verði sýknaður alfarið af kröfu um greiðslu bankakostnaðar (vanskilagjalds) að upphæð 10.750 krónur.  Stefndi krefst þess í öllum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Við aðalmeðferð féll stefnandi frá kröfu um greiðslu 10.750 króna í bankakostnað.

II.

Í málinu liggur fyrir að stefndi undirritaði eiginvíxil 28. apríl 2008 þar sem hann lýsti því yfir að hann skyldi hinn 10. ágúst 2008 greiða Landsbanka Íslands hf., eða þeim sem bankinn myndi vísa til, víxilinn með 150.000.000 króna. Á víxlinum var áletrað að hann greiddist í Landsbanka Íslands hf., Reykjavík.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var öllum eignum og réttindum, þ.m.t. kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., að undanskildum þeim sem tilgreindar voru í sérstökum viðauka með ákvörðuninni. Frá og með sama degi tók nýi bankinn við starfsemi gamla bankans sem tengdist hinum framseldu eignum. Í 6. tölul. ákvörðunarinnar kemur fram að greiðslustaða skuldaskjala skyldi miðast við sama tímamark og að greiðslustaður skuldaskjala hjá Landsbanka Íslands hf. teldist vera í samsvarandi útibúi hjá Nýja Landsbanka Íslands hf. Þar kom enn fremur fram að víxlar teldust rétt sýndir til greiðslu hjá Nýja Landsbanka Íslands hf.

Í málinu liggur fyrir innheimtubréf frá lögfræðiinnheimtu stefnanda til stefnda, dags. 17. mars 2009. Þar segir að kröfueigandi sé stefnandi, þ.e. NBI hf., vegna Landsbankans. Krafan var sundurliðuð og dráttarvaxta krafist ásamt bankakostnaðar, innheimtuþóknunar og virðisaukaskatts.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

Í stefnu kemur fram að skuld stefnda sé samkvæmt víxli nr. 330344, útgefnum 28. apríl 2008 af stefnda og samþykktum af stefnda, til greiðslu þann 10. ágúst 2008 í Landsbanka Íslands hf., Reykjavík, nú NBI hf. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Víxillinn sé að fjárhæð 150.000.000 króna sem að sé stefnufjárhæðin. Hafi stefnda verið sent innheimtubréf 17. mars 2009. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök er í stefnu vísað til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Málið sé rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga. Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefnandi til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 um kröfu þá sem hann gerir um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur. Varðandi varnarþing er í stefnu vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

Í greinargerð stefnda er því haldið fram að frumrit víxilsins hafi ekki enn verið sýnt stefnda til greiðslu, hvorki af stefnanda né Landsbanka Íslands. Hafi stefndi ekki annað en orð stefnanda fyrir því að hann sé víxilhafi. Það sé skilyrði fyrir því að víxilhafi geti leitað fullnustu á kröfu samkvæmt víxli að hann hafi verið sýndur greiðanda til greiðslu samkvæmt ákvæðum 38. gr. víxillaga nr. 93/1933. Víxilhafi beri sönnunarbyrði fyrir löglegri sýningu víxils. Samkvæmt 44. gr. víxillaga eigi víxilhafi þannig að láta afsegja víxil til sönnunar á því að víxillinn hafi verið sýndur löglega til greiðslu í samræmi við ákvæði víxillaga og greiðslufall þá orðið af hálfu víxilskuldara. Afsögn hafi ekki farið fram og sá víxill sem um er fjallað sé samkvæmt orðalagi sínu ekki án afsagnar. Þá sé um framseljanlegt viðskiptabréf að ræða og því sé sýning frumrits nauðsynleg forsenda greiðsluskyldu. Telur stefndi því að lögleg sýning víxilsins hafi ekki farið fram samkvæmt ákvæðum víxillaga.

Aðalkrafa stefnda er um sýknu vegna aðildarskorts stefnanda. Telur stefndi að víxillinn hafi ekki verið löglega sýndur samkvæmt víxillögum, sbr. ofangreint. Meðan svo sé hafi stefndi enga vissu um að stefnandi sé réttur víxilhafi og því réttur stefnandi málsins. Verði frumrit víxilsins sýnt í samræmi við kröfur víxillaga undir rekstri málsins segir í greinargerð stefnda að hann muni falla frá aðalkröfu sinni.

Varakröfu stefnda um sýknu að svo stöddu byggir hann á því að greiðsluskylda til stefnanda sé ekki runnin upp þar sem víxillinn hafi ekki enn verið sýndur í samræmi við ákvæði víxillaga.

Stefndi vísar til þess að lögleg sýning víxils undir rekstri þessa máls breyti því ekki að greiðsluskylda hafi ekki verið fyrir hendi þegar málið var höfðað með birtingu stefnu. Að mati stefnda beri þar af leiðandi alltaf að sýkna hann að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda í þessu máli.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu gerir stefndi til þrautavara kröfu um sýknu að hluta. Annars vegar er gerð krafa um sýknu af vaxtagreiðslum þar sem víxillinn hafi ekki enn þá verið löglega sýndur og greiðsluskylda þar af leiðandi ekki stofnast. Hins vegar er í greinargerð krafist sýknu af kröfu um greiðslu bankakostnaðar en þar sem fallið var frá þeirri kröfu er ekki þörf á frekari umfjöllun um mótmæli stefnda við þeirri kröfu.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Við aðalmeðferð vísaði stefndi til þess að stefnandi hefði ekki sýnt fram á að hann væri réttur handhafi víxilsins þar sem framsal hans til stefnanda væri ekki ritað á hann eða á viðfestan miða eins og áskilið væri samkvæmt 13. gr. víxillaga. Samkvæmt því eigi  Landsbanki Íslands hf. að vera réttur víxilhafi en ekki stefnandi, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga. Stefnandi taldi að þessi málsástæða ætti ekki að komast að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Ef ekki yrði fallist á það vísaði hann til dóms Hæstaréttar frá 15. júní 1995 í máli nr. 40/1994 til stuðnings því að stefnandi væri réttur víxilhafi.

IV.

Niðurstaða

Umræddur víxill er eiginvíxill, sbr. annan þátt víxillaga nr. 93/1933. Stefndi er sem útgefandi víxilsins skuldbundinn með sama hætti og samþykkjandi víxils á hendur öðrum manni, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna. Þó að stefnandi kunni að hafa vanrækt að sýna víxilinn til greiðslu á gjalddaga leysir það stefnda ekki undan greiðsluskyldu samkvæmt efni hans. Ekki er þörf á að afsegja eiginvíxil til þess að halda í gildi víxilskyldu útgefanda sem jafnframt er greiðandi hans.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu. Því geti stefndi ekki verið viss um að stefnandi sé réttur handhafi víxilsins. Engin gögn hafa verið lögð fram um að víxillinn hafi verið sýndur til greiðslu á gjalddaga eða stefnda tilkynnt um hann. Það telst því ósannað í málinu. Eins og fyrr greinir leysir það stefnda hins ekki undan greiðsluskyldu samkvæmt víxlinum. Frumrit víxilsins var lagt fram við þingfestingu málsins 9. mars 2009 og verður að telja að þá hafi farið fram fullnægjandi sýning á honum til greiðslu.

Þau rök sem stefndi færði fyrir aðildarskorti stefnanda í greinargerð lutu einungis að því að víxillinn hefði ekki verið sýndur til greiðslu og því gæti stefndi ekki vitað með nægilegri vissu að stefnandi væri réttur víxilhafi. Samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að gera grein fyrir málsástæðum sínum í greinargerð á gagnorðan og skýran hátt. Ef ætlun hans var að rökstyðja aðildarskort stefnanda með því að víxillinn beri ekki með sér að hafa verið framseldur til stefnanda hefði átt að geta þeirrar málsástæðu í greinargerð stefnda með skýrum hætti. Það var ekki gert og þar sem stefnandi hefur mótmælt þessari málsástæðu sem of seint fram kominni er ekki unnt að taka hana til greina, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt öllu framangreindu eru ekki efni til að fallast á aðal- eða varakröfu stefnda. Til þrautavara krefst stefndi sýknu af hluta af kröfum stefnanda, annars vegar af kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti og hins vegar af kröfu um bankakostnað. Þar sem stefnandi hefur fallið frá kröfu um bankakostnað kemur hún ekki til frekari athugunar. Við þingfestingu málsins var frumrit víxilsins sýnt en ekki liggur fyrir að víxillinn hafi áður verið sýndur til greiðslu. Ekki var um greiðsludrátt að ræða af hálfu stefnda fyrr en við sýningu víxilsins á þingfestingardegi. Því þykir rétt að fallast á þrautavarakröfu stefnda þannig að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá þingfestingu málsins 9. mars 2010 en ekki frá gjalddaga eins og stefnandi krefst.

Í 12. gr. laga nr. 38/2001 segir að ef vaxtatímabil er lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skuli þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Samkvæmt þessu er óþarfi að kveða á um höfuðstólsfærslu vaxta á tólf mánaða fresti í dómsorði.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að taka kröfu stefnanda til greina eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndi að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 280.000 krónur.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Þorsteinn M. Jónsson, greiði stefnanda, NBI hf. 150.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 9. mars 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 280.000 krónur í málskostnað.