Hæstiréttur íslands

Mál nr. 188/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. nóvember 2004.

Nr. 188/2004.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

gegn

Ingunni Maríu Björnsdóttur

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.

I, sem var 23 ára, slasaðist er bifreið hennar skall á bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt. Á slysdegi hafði I lokið fyrsta námsári af fjórum til BS gráðu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. I og vátryggingarfélagið S hf. deildu um hvort bætur fyrir varanlega örorku hennar skyldu ákveðnar á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðin voru á slysdegi eða eftir þágildandi 8. gr. laganna. Þá deildu aðilar um fjárhæð bóta vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum, sbr. 1. mgr. 1. gr. sömu laga. Talið var að bætur fyrir varanlega örorku I bæri að ákveða á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga og tekið fram að í þeim tilvikum, þar sem fallist hafi verið á að þau ákvæði ættu við um námsmenn, hafi tjónþolar verið komnir að námslokum þegar þeir slösuðust. Var S hf. því sýknað af kröfu I um frekari bætur fyrir varanlega örorku en höfðu þegar verið greiddar. Á hinn bóginn var fallist á kröfu I um hærri bætur vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum með vísan til þess að kröfunni væri í hóf stillt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2004. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefndu og dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefndu verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnda nýtur gjafsóknar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti er ágreiningur milli aðila um þá tvo liði í kröfum stefndu, sem teknir voru til greina í héraði. Þar er í fyrsta lagi um að ræða þann lið sem studdur er við 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi krafðist upphaflega 550.000 króna vegna þessa tjóns. Var krafan sundurliðuð þannig að 50.000 krónur væru vegna ýmiss útlagðs kostnaðar en 500.000 krónur vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum vegna tafa í námi. Áfrýjandi samþykkti, áður en til málsóknar kom, að greiða 450.000 krónur vegna þessa tjóns og taldi það þá fullbætt. Dómkrafan nam mismuninum 100.000 krónum. Sú krafa var tekin til greina í hinum áfrýjaða dómi. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var tekið fram af hálfu áfrýjanda, að 50.000 krónur af því sem greitt var, væri vegna ýmiss kostnaðar. Ágreiningsfjárhæðin 100.000 krónur fælist því eingöngu í mismunandi afstöðu aðila til þess hvað teljast skyldu hæfilegar bætur vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum. Vísað er til forsendna hins áfrýjaða dóms um að þessum kröfulið sé í hóf stillt og verður því niðurstaða dómsins um að taka hann til greina staðfest.

Í annan stað greinir málsaðila á um, hvort ákveða beri bætur stefndu fyrir varanlega örorku eftir 5.-7. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðin voru á slysdegi eða eftir þágildandi 8. gr. þeirra, þar sem kveðið er á um bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var stefnda 23 ára gömul á slysdegi, 8. september 1996. Hún hafði þá lokið fyrsta námsári af fjórum til B.S. gráðu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Lauk hún námi sínu þar á árinu 2000 eftir að hafa að eigin sögn tafist í náminu um eitt ár vegna slyssins. Kröfur hennar eru á því byggðar, að hún teljist hafa markað sér starfsvettvang á sviði sjúkraþjálfunar og beri að miða útreikning bóta til hennar fyrir varanlega örorku við meðaltekjur í þeirri starfsgrein. Þessu mótmælir áfrýjandi og telur dómafordæmi Hæstaréttar benda til þess, að miða beri bætur til tjónþola, sem ekki sé kominn lengra í námi en stefnda, við reglu 8. gr. skaðabótalaga.

Ekki verður hjá því komist að fallast á sjónarmið áfrýjanda um þetta. Vísast í því efni til dóma réttarins 13. júní 2002 í máli nr. 51/2002 og 13. febrúar 2003 í máli nr. 375/2002. Í þeim tilvikum, þar sem fallist hefur verið á, að 5.-7. gr. skaðabótalaga hafi átt við um námsmenn, og er að finna í dómasafni Hæstaréttar 1998 bls. 1976 og í dómi 1. nóvember 2001 í máli nr. 201/2001 voru tjónþolar komnir að námslokum þegar þeir slösuðust. Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu um frekari bætur vegna varanlegrar örorku en hún þegar hefur fengið greiddar.

Þar sem telja verður að veruleg vafaatriði hafi verið uppi í málinu varðandi mörkin milli 5.-7. og 8. gr. skaðabótalaga þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála rétt að fella niður málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefndu, Ingunni Maríu Björnsdóttur, 100.000 krónur með 2% ársvöxtum frá 1. maí 1998 til 7. júní 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2004.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ingunni Maríu Björnsdóttur, kt. 170573-5369, Skúlabraut 27, Blönduósi, með stefnu birtri 30. apríl 2002 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 4.886.651, með 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá 08.09.1996 til 07.06. 2001, en með dráttarvöxtum af þeirri upphæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 0l.07. 2001, en skv. 9. gr., sbr. l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafizt málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld.

 

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til vara er þess krafizt, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er þess krafizt, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

II.

Málavextir:

Þann 8. september 1996 lenti stefnandi í alvarlegu umferðarslysi á Vesturlandsvegi, skammt norðan Úlfarsfellsvegar, þegar bifreið hennar skall framan á bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt. Báðar bifreiðarnar fóru út af veginum og skemmdust mikið. Stefnandi festist inni í bifreið sinni og varð að nota áhöld tækjabifreiðar til að losa hana úr flakinu.

Stefnandi var þegar flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem hún var lögð inn á slysa- og bæklunardeild sjúkrahússins.  Í ljós kom, að stefnandi hafði hlotið fjöláverka í slysinu og var mikið slösuð.  Meðal áverka stefnanda voru mörg opin sár á höfði, opið kjálkabrot hægra megin, rifbrot vinstra megin, blæðing í forhólfi hægra auga, loftbrjóst hægra megin, brot á hægri upphandlegg, brot á þriðja miðhandarbeini vinstri handar, rifa á lifur, brot á mjaðmargrind, opið brot á vinstri lærlegg, opið liðhlaup milli miðfótarbeina og ristarbeina og opið kurlað brot á hægri fótlegg.

Strax eftir komuna á sjúkrahúsið gekkst stefnandi undir aðgerð, þar sem gert var að meiðslum hennar.  Þann 19.09. 1996 gekkst hún undir aðra aðgerð, þar sem gert var frekar að brotum hennar.  Þann 17.10. 1996 útskrifaðist hún yfir á endurhæfingardeild sjúkrahússins á Grensásvegi, þar sem hún lá til 05.12. 1996.  Hún var undir stöðugu eftirliti lækna í framhaldinu og lá m.a. á bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 10.-14. febrúar og 6.-9. nóvember 1997.

Frá slysinu kveðst stefnandi hafa fundið fyrir óþægindum frá vinstri mjöðm, verkjum og þreytu í vinstra hné og fæti, dofa í tveimur fingrum vinstri handar, kraftminnkun í hægri handlegg og fleira.

Er stefnandi lenti í slysinu, var hún í B.S. námi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, en það nám hóf hún árið 1995.  Hún kveðst ekki hafa getað stundað námið veturinn 1996-1997 vegna afleiðinga slyssins, og hafi henni því seinkað um heilt ár í námi.  Hún kveðst hafa starfað á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi, meðan á náminu stóð og hlotið þar starfsþjálfun.  Hún kveðst hafa lokið náminu vorið 2000 og ráðið sig sem sjúkraþjálfara á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi í 60% starf, þar sem hún hafi ekki talið sig ráða við meira.

Að beiðni stefnanda mat Jónas Hallgrímsson læknir afleiðingar slyssins með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993, og er matsgerð hans dags. 23.03. 2000.  Telur læknirinn, að ekki hafi verið um tímabundið atvinnutjón að ræða veturinn eftir slysið, en að hún hafi verið 40% óvinnufær í fjóra mánuði, á meðan hún starfaði sem sjúkraliði á Blönduósi á árinu 1977.  Þá telur hann, að varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins sé 50%, varanleg örorka 25%, og að hún hafi verið veik í skilningi 3. gr. laganna frá slysdegi 08.09. 1996 til 30.05 1997, þar af 101 dag rúmliggjandi.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 26.07. 2000, var krafizt greiðslu á kr. 8.716.998, auk verðbóta og vaxta samkvæmt 15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og lögmannsþóknunar ásamt virðisaukaskatti vegna líkamstjóns stefnanda af völdum slyssins.

Því bréfi svaraði stefndi með tilboði, dags. 14.08. 2000.  Gat stefnandi ekki fellt sig við tilboð stefnda.

Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 7. maí 2001, var krafizt greiðslu á kr. 11.716.197, auk verðbóta og vaxta samkvæmt 15. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og lögmannsþóknunar ásamt virðisaukaskatti vegna líkamstjóns stefnanda af völdum slyssins.  Kveður stefnandi þá hafa verið komin fram frekari gögn um kröfur stefnanda.

Eftir samningaviðræður lögmanns stefnanda og stefnda náðist samkomulag um nokkra þætti uppgjörsins, svo sem þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, sbr. tilboð stefnda dags. 31.08. 2001.  Það tilboð fól hins vegar ekki í sér bætur vegna tímabundinnar örorku stefnanda.  Þá miðaði tilboð stefnda við, að bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda skyldu reiknaðar út á grundvelli 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ekki 5.-7. gr. laganna, eins og stefnandi hafði krafizt.  Þá fól tilboð stefnda í sér, að einungis yrðu greiddar kr. 450.000 í almennt fjártjón, sem m.a. skyldi taka til tafa í námi og ósannaðra fjárhagslegra útgjalda.

Stefnandi kveðst ekki hafa getað fellt sig við síðastnefnda þætti í greiðslutilboði stefnda.  Hafi lögmaður hennar því tekið á móti greiðslu á grundvelli tilboðsins með fyrirvara vegna tímabundinnar örorku, bóta vegna tafa í námi og útreiknings varanlegrar örorku.

Deila aðila lýtur að bótum vegna þeirra þátta, sem fyrirvari stefnanda í greiðslukvittun tekur til, en bótaskylda er óumdeild.

 

III.

Málsástæður stefnanda:

Bótaskylda:

Stefnandi byggir kröfu sína á hendur stefnda á vátryggingarsamningi um slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar K-143, sem stefnandi ók, er hún slasaðist.  Byggi sú trygging á ákvæðum 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ekki sé ágreiningur um grundvöll bótaskyldu, enda hafi stefndi þegar greitt stefnanda bætur vegna afleiðinga slyss hennar og viðurkennt bótaskyldu sína. 

 

Bótaútreikningur og bótafjárhæð:

Um útreikning skaðabóta stefnanda fari eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þau hafi verið, er stefnandi lenti í slysinu.  Ágreiningur aðila þessa máls standi um útreikning á tímabundnu tekjutapi stefnanda, útreikning bóta vegna varanlegrar örorku hennar og kröfu stefnanda um bætur vegna tafa í námi og annars fjártjóns.

 

Tímabundið tekjutap, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi kveður slys sitt hafa verið alvarlegt og afleiðingar þess gríðarlegar fyrir heilsu hennar.  Óumdeilt sé í málinu, að vegna afleiðinga slyssins hafi stefnandi misst heilt ár úr námi sínu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.  Af þeim sökum hafi hún misst heilt ár úr starfsævi sinni.  Stefnandi hafi haldið áfram námi sínu í sjúkraþjálfun einu ári eftir slysið og lokið því námi árið 2000, eða einu ári síðar en eðlilegt hefði verið.  Sé þar einungis um að kenna afleiðingum slyssins, enda hafi stefnandi ekki átt þess kost að stunda nám árið eftir slysið.

Stefnandi byggi á þeirri óskoruðu meginreglu, að tjónþoli skuli fá allt tjón sitt bætt úr hendi tjónvalds eða þess, sem greiða beri skaðabætur vegna tjónsins, í þessu tilviki stefnda.  Í skaðabótarétti sé að þessu leyti fylgt reglu, sem kalla megi mismunarregluna, þ.e. að bera skuli saman stöðu tjónþola, eins og hún sé eftir slys við stöðu tjónþola, eins og hún hefði verið, ef slysið hefði ekki komið til.

Ljóst sé, að stefnandi fái ekki allt sitt tjón bætt, nema með því að hún fái greidd þau laun, sem hún hefði aflað sér fyrsta árið eftir útskrift sína sem sjúkraþjálfari.  Sú staðreynd, að stefnandi var í námi, þegar hún slasaðist, breyti því ekki, að hún hafi orðið fyrir verulegu tímabundnu tekjutapi vegna slyssins, alveg á sama hátt og ef hún hefði orðið fyrir slysinu að námi loknu.  Eini munurinn sé sá, að tjón hennar hafi ekki komið fram fyrr en síðar, þ.e. í raun síðasta ár stefnanda í náminu.  Ófært sé, að stefnandi standi uppi bótalaus vegna þessa tekjutaps, og að stefndi hagnist um samsvarandi fjárhæð, enda sé tjón stefnanda vegna tímabundins tekjutaps það sama, hvort sem hún slasist og missi úr heilt ár í námi eða missi úr heilt ár í vinnu.  Eini munurinn sé sá, að tjón stefnanda komi fram á mismunandi tíma.  Það breyti ekki því, að stefnanda beri að fá tjónið bætt.

 

Útlagður kostnaður og bætur vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum vegna tafa í námi, sbr. l. mgr. l. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi hafi orðið fyrir ýmsum útgjöldum vegna þeirra tafa, sem hún varð fyrir í námi sínu, eins og grein sé gerð fyrir hér að framan.  Þannig hafi stefnandi t.d. lagt út fyrir skólagjöldum við Háskóla Íslands, kr. 25.000, sem hafi ekki nýtzt, þar sem hún hafi ekki getað stundað nám við skólann.  Þá hafi tafirnar eðli máls samkvæmt valdið mikilli röskun á stöðu og högum hennar.  Slík röskun hafi verið bætt á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir setningu skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með setningu skaðabótalaga hafi ekki verið stefnt að neinni efnisbreytingu á heimild til að bæta námsmönnum þá röskun, sem þeir urðu fyrir vegna tafa í námi, en hún sé nú bætt sem "annað fjártjón" á grundvelli 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga.  Hafi dómstólar jafnan beitt þessari heimild í tilvikum sem þessum og dæmt bætur að álitum.  Vegna framan­greindra atriða sé gerð krafa um greiðslu á kr. 500.000.

Þá hafi stefnandi orðið fyrir ýmsum öðrum útgjöldum, svo sem kostnaði vegna ferða til og frá læknum, sjúkraþjálfunar, lyfja og öðrum kostnaði því tengdum.  Hér sé um að ræða kostnað, sem stefnanda sé örðugt að sýna fram á með framvísun reikninga, en sem hún eigi skilyrðislaust rétt á að fá bættan.  Krafizt sé greiðslu á kr. 50.000 vegna þessa tjóns.  Sé m.a. vísað til dóms Hæstaréttar frá 04.06.1998 í málinu nr. 317/1997 í þessu tilliti, en þar hafi tjónþola verið dæmdar bætur vegna sambærilegra fjárútláta, enda hafi þótt sýnt, að hann hefði orðið fyrir nokkru tjóni að þessu leyti, þó að ekki gæti hann sýnt fram á það með framvísun reikninga.

Samtals nemi því krafan vegna þessa þáttar kr. 550.000.

 

Bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku hennar byggi á 5.-7. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993, eins og þau hafi verið, þegar stefnandi lenti í slysi sínu.  Stefndi telji hins vegar að miða eigi greiðslu bóta stefnanda við 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Á þá afstöðu stefnda geti stefnandi ekki fallizt, enda gangi hún í berhögg við meginreglur 5.-7. gr. skaðabótalaga og þær forsendur, sem stefnandi hafði skapað sér, þegar hún lenti í slysinu.

Er stefnandi slasaðist, hafði hún lokið einu ári í námi sínu til B.S. gráðu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.  Stefnandi hafi þannig verið búin að ákveða og skapa sér starfsvettvang fyrir slysið.  Stefnandi hafi staðið við þau áform og haldið áfram námi sínu í sjúkraþjálfun um leið og henni hafi verið það unnt heilsu sinnar vegna, ári eftir slysið.  Eftir að stefnandi útskrifaðist sem sjúkraþjálfari vorið 2000, hafi hún ráðið sig í fasta stöðu í 60% vinnu við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi og hafi starfað á þeim vettvangi síðan.  Slys stefnanda hafi þannig engu breytt um þessi áform hennar og hafi engin áhrif haft á starfsval eða framvindu í námi og starfi hennar.

Samkvæmt 7. gr. þágildandi skaðabótalaga og athugasemdum við þá grein í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga fari því ekki um útreikning skaðabóta stefnanda eftir 8. gr. laganna.  Hins vegar skuli nota 5.-7. gr. laganna og leggja til grundvallar bótaútreikningnum þær tekjur, sem stefnandi hefði haft að námi sínu í sjúkraþjálfun loknu.

Hér verði að líta til þess, að 5. gr. skaðabótalaga sé ótvíræð meginregla um útreikning líkamstjóns vegna varanlegrar örorku.  Hafi Hæstiréttur enda staðfest þann skilning á afdráttalausan hátt í dómum sínum, og jafnframt staðfest þann skilning, að þágildandi 8. gr. laganna skuli einungis beitt, ef ógerlegt sé að beita 5.-7. gr. laganna.

Þannig sé 8. gr. þágildandi skaðabótalaga undantekningarákvæði, sem skýrt skuli þröngt í samræmi við viðtekin lögskýringarviðhorf.  Bætur vegna varanlegrar örorku skuli þannig einungis reiknaðar eftir 8. gr. skaðabótalaga, þegar hinn slasaði hafi ekki skapað sér starfsvettvang og því ekki við neina nærtæka tekjuviðmiðun að styðjast, sem hægt sé að byggja bótaútreikning á.  Þetta eigi hins vegar einungis við um fáa einstaklinga, s.s. börn, þá sem hafi verið lengi heimavinnandi og aðra einstak­linga, þegar ekki verði ráðið, hverjar líklegar framtíðartekjur þeirra séu.

Þegar um sé að ræða einstaklinga í fullri vinnu, skuli, samkvæmt 6. og 7. gr. skaðabóta­laga, að jafnaði leggja tekjur þeirra á næstliðnu ári til grundvallar, þegar reiknað sé tjón þeirra vegna varanlegrar örorku.  Þegar um sé að ræða einstaklinga, sem vinni t.a.m. hlutastarf í tengslum við iðnnám sitt eða séu í námi, þar sem auðvelt sé að reikna út líklegar meðaltekjur í framtíðinni, eins og stefnandi í máli þessu, skuli leggja til grundvallar þær tekjur, sem viðkomandi hefði mátt vænta að lokinni útskrift. Þetta komi skýrt fram í athugasemdum greinargerðar með 7. gr. frumvarps til skaðabótalaga.  Eins og þar komi fram, sem og í ritum fræðimanna á sviði skaðabótaréttar, skuli viðmiðun 7. gr. byggja á vinnugetu tjónþola á tjónsdegi, en ekki raunverulegum tekjum.  Það ráði því ekki úrslitum, hvort og hve miklar tekjur tjónþoli hafi haft, þegar hann slasaðist, heldur vinnugeta hans og væntanlegar tekjur. Grundvallarregla skaðabótalaga sé sú sama og almennt í skaðabótarétti, þ.e. að nálgast skuli raunverulegt tjón hins slasaða eftir fremsta megni.

Verði farið að tillögum stefnda, stríði það hins vegar alfarið gegn þeirri meginreglu, enda verði þá í raun vikið frá þeim tekjuviðmiðunum, sem fyrir liggi í málinu og þeim tekjum, sem stefnandi hafi getað vænzt að lokinni útskrift.  Í máli þessu liggi engin rök til þeirrar niðurstöðu, enda væri með því vísvitandi verið að fjarlægjast eðlilega, sanngjarna og lögbundna nálgun við raunverulegt tjón stefnanda.  Í máli þessu sé ekki fyrir að fara neinum vafa um starfsval stefnanda, eða hvert hún stefndi í lífinu, enda hafi stefnandi staðið við áætlanir sínar um að leggja stund á sjúkraþjálfun.  Það sé m.ö.o. engum vafa fyrir að fara um þann vettvang, sem sé grundvöllur tekjuöflunar stefnanda.  Um útreikning tjóns stefnanda vegna varanlegrar örorku fari því að 5.-7. gr. skaðabótalaga, og til grundvallar útreikningnum skuli leggja þær tekjur, sem stefnandi hafi getað vænzt að loknu námi sínu í sjúkraþjálfun, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og sjónarmið að baki henni.  Í máli þessu liggi fyrir skýrar mælingar sérfróðra aðila á þeim meðaltekjum, eins og nánar verði fjallað um í tengslum við útreikning kröfu stefnanda.

Í þessu sambandi vísi stefnandi einnig sérstaklega til þeirrar meginreglu skaða­bóta­réttar, að tjónþoli skuli fá allt tjón sitt bætt.  Stefnandi muni ekki fá tjón sitt bætt, verði notazt við undantekningarákvæði 8. gr. skaðabótalaga við útreikning skaðabóta hennar vegna varanlegrar örorku, sér í lagi þegar haft sé í huga, að skaðabætur samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga séu staðlaðar bætur fyrir alla hópa barna og ýmissa annarra einstaklinga og miklum mun lægri en skaðabætur, sem reiknaðar séu út eftir ákvæðum 5.-7. gr. laganna.

 

Bótafjárhæð.

Við ákvörðun bótafjárhæðar sé byggt á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, með hliðsjón af niðurstöðu matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 23.03. 2000, um afleiðingar slyss stefnanda.  Sundurliðist bótakrafan þannig:

            

1.          Tímabundið tekjutap           kr.          2.549.199

2. Annað fjártjón kr.    550.000

3. Varanleg örorka kr.    7.391.952

4. Frádráttur vegna innágreiðslu   kr. - 5.604.500

             Samtals                         kr.          4.886.651

 

Um lið 1:

Að því er þennan lið varði vísist til almennra reglna skaðabótaréttar og 1. og 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Eins og fram komi í kröfubréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. maí 2001, verði lagðar til grundvallar bótaútreikningi þær tekjur, sem stefnandi hafi mátt vænta að lokinni útskrift úr námi sínu í sjúkraþjálfun.  Samkvæmt yfirliti frá Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna, dags. 25.04. 2000, hafi meðaltekjur sjúkraþjálfara í þjónustu ríkisins verið kr. 2.404.905 árið 1999.  Verði sú viðmiðun lögð til grundvallar, þar sem hún sýni líklegar tekjur stefnanda.  Að viðbættum 6% vegna greiðslu vinnuveitanda stefnanda í lífeyrissjóð, nemi sú upphæð kr. 2.549.199.  Þar sem námslok stefnanda hafi tafizt um eitt ár, sé gerð krafa um greiðslu á þeirri fjárhæð, sem nemi árslaunum sjúkraþjálfara.

 

Um lið 2:

Um þennan lið vísist til umfjöllunar hér að framan.  Eins og þar greini, sé gerð krafa um greiðslu á kr. 550.000 vegna þessa þáttar.

 

Um lið 3:

Varanleg örorka stefnanda sé metin 25%.  Útreikningur á kröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar byggi á 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Til grundvallar bótaútreikningi verði lagðar þær tekjur, sem stefnandi hafi mátt vænta að loknu námi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og sjónarmið að baki henni.  Samkvæmt yfirliti frá Kjararannsóknarnefnd opinberra starfs­manna, dags. 25.04. 2000, hafi meðaltekjur sjúkraþjálfara í þjónustu ríkisins verið kr. 2.404.905 árið 1999.  Verði sú viðmiðun lögð til grundvallar, þar sem hún sýni líklegar tekjur stefnanda.  Hafi þeirri viðmiðun ekki verið hnekkt.  Að viðbættum 6% vegna greiðslu vinnuveitanda stefnanda í lífeyrissjóð nemi sú upphæð kr. 2.549.199.

Skaðabótakrafa stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar nemi samkvæmt þessu 25% x kr. 2.549.199 x 10 x 4077/3515 = kr. 7.391.952 samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga, að teknu tilliti til hækkunar lánskjaravísitölu frá slysdegi í september 1996 og til útreikningsdags bótanna í maí 2001, samkvæmt 15. gr. laganna.

 

Um lið 4:

Frá kröfu stefnanda dragist kr. 5.604.500, sem stefndi hafi greitt upp í tjón stefnanda samkvæmt framangreindu, sbr. greiðslutilboð stefnda, dags. 31.08.2001.  Þar af séu kr. 450.000 vegna "annars fjártjóns" stefnanda og kr. 5.154.500 vegna varanlegrar örorku hennar.

 

Aðrar kröfur:

Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Vaxta sé krafizt frá slysdegi, en dráttarvaxta frá 7. júní 2001, þ.e. er mánuður hafi verið liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda bréflega um greiðslu skaðabóta, samkvæmt meginreglu 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn, sem stefnda hafi verið þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.  Frá 0l.07. 2001 sé krafizt dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, samkvæmt fyrirmælum laganna í ákvæði II til bráðabirgða.

 

Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í l. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.           Krafan um virðisaukaskatt á mál­flutnings­­­þóknun sé reist á lögum nr. 50/1988.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld.

 

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa:

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því, að með þegar greiddum bótum að fjárhæð kr. 7.917.056 hafi tjón stefnanda verið að fullu bætt.

 

Tímabundið atvinnutjón sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:

Stefnandi byggi þennan kröfulið í stefnu á því, að hún hafi tafizt í námi um eitt ár vegna slyssins, sem samsvari því, að hún hafi í raun misst eitt ár úr starfi sem sjúkraliði.  Ofangreind krafa stefnanda sé ekki tímabundið atvinnutjón í skilningi skaðabótalaga.  Stefndi bendi á, að samkvæmt þágildandi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga skuli ákveða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð, þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju, eða þar til ekki sé að vænta frekari bata.  Meint tekjutap sem afleiðing af seinkun í námi falli ekki undir 2. gr. skbl.  Sé því alfarið mótmælt af hálfu stefnda, að ofangreind krafa stefnanda jafngildi tímabundu tekjutapi í skilningi 2. gr. skbl., enda sé óumdeilt, að stefnandi hafi ekki verið í launuðu starfi, er slys varð.

Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga komi fram, að með setningu laganna og niðurfellingu 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi ekki verið gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á, að námsmönnun væru dæmdar bætur vegna tafa í námi; heimilt yrði að bæta slíkt sem annað fjártjón eftir gildistöku laganna.  Hafi því engin breyting orðið á rökum fyrir bótum vegna námstafa við setningu skaðabóta­laga nr. 50/1993.  Það, sem áður hafi verið kallað bætur fyrir röskun á stöðu og högum, beri eftir gildistöku laganna að bæta að álitum sem annað fjártjón en ekki sem atvinnutjón.  Beri því ekki að bæta námstöf sem tímabundið atvinnutjón, eins og stefnandi geri kröfu um.

Stefnandi krefjist einnig bóta vegna tafa í námi með vísan til 1. mgr. l. gr. skbl. og sé því í raun að tvíkrefja um bætur.

Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á, að hún hafi orðið fyrir tímabundu tekjutapi, sem falli undir 2. gr. skbl.  Hafi stefnandi sönnunarbyrði fyrir því, að hún hafi orðið fyrir tekjutapi vegna afleiðinga slyssins.

Af ofangreindu sé ljóst að sýkna beri stefnda af þessum kröfulið stefnanda.

                  

Annað fjártjón sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:

Stefnandi hafi fengið greiddar kr. 450.000 vegna annars fjártjóns, m.a. vegna tafa í námi og ósannaðra fjárhagslegra útgjalda, sbr. dskj. nr. 19.

Byggi stefndi á því, að með þegar greiddum bótum sé annað fjártjón stefnanda að fullu bætt.  Sé frekari kröfum stefnanda fyrir annað fjártjón, mótmælt sem ósönnuðum og órökstuddum.  Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því, að hún hafi orðið fyrir frekara tjóni samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

 

Bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 5. og 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:

Stefndi byggi kröfu sína um sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu frekari bóta vegna varanlegrar örorku á því, að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt.

Stefndi byggi á því, að ákveða beri bætur fyrir varanlega örorku stefnanda eftir ákvæðum 8. gr. skbl., en ekki 5.-7. gr. laganna, eins og stefnandi krefjist.  Í athugasemdum með frumvarpi að skaðabótalögum komi fram, að reglum 8. gr. skuli beitt um ungt námsfólk, þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti.

Stefnandi hafi verið 23 ára á slysdegi og hafði lokið fyrsta námsári af fjórum í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.  Stefnandi hafi lokið stúdentsprófi vorið 1994 og hafið nám í sjúkraþjálfun þá um haustið, en ekki komizt inn vegna fjöldatakmarkana.  Ljóst sé því, að stefnandi hafi í reynd stundað nám með eðlilegum hætti, er hún lenti í slysinu.  Þá hafi stefnandi ekki þegið laun í tengslum við námið.

Ákvæði 8. gr. skuli beitt um ákvörðun bóta til fólks, sem hafi ekki tekjusögu, sem unnt sé að byggja á.  Stefnandi falli undir öll skilyrði ákvæðisins, en hún hafi verið ungur námsmaður, sem hafði stundað nám með eðlilegum hætti, þegar hún lenti í slysinu.  Hún hafi á slysdegi nýtt vinnugetu sína að verulegu leyti þannig, að hún hafi haft engar eða takmarkaðar tekjur.

Rök stefnanda fyrir því, að hún hafi þegar verið búin að skapa sér starfsvettvang, er hún slasaðist, fái ekki stuðning í lögunum, og sé þeim því alfarið hafnað.  Mikill meirihluti námsmanna hafi þegar valið sér starfsvettvang á námstíma, en teljist samt sem áður til námsmanna samkvæmt skaðabótalögunum.  Með því að fallast á túlkun stefnanda á lögunum og fella námsmenn samkvæmt 8. gr. undir sama hatt og einstaklinga í fullri vinnu samkvæmt 5.-7. gr. sé verið að ganga gegn tilgangi laganna, og myndi slíkt í raun gera að engu þörfina fyrir 8. gr. þeirra.

Einungis sé heimilt að ákveða bætur til námsmanna á grundvelli ákvæða 5.-7. gr. laganna í þremur tilvikum.  Í fyrsta lagi verði neminn að vera kominn vel áleiðis í námi.  Stefnandi hafi á tjóndegi einungis verið búin með eitt ár af fjórum í sjúkraþjálfara­námi sínu.  Slíkt teljist ekki vera “kominn vel áleiðis” í námi.  Þvert á móti hafi stefnandi verið nýbyrjuð í námi sínu, er slysið varð.  Í öðru lagi sé ákvæðum 5.-7. gr. beitt, þegar námsmaður vinni meira en hálft starf með námi.  Ekki hafi komið fram hjá stefnanda, að hún hafi unnið hálft starf eða meira með námi.  Í þriðja lagi geti ákvæði 5.-7. gr. átt við, þegar námsmaður hafi þegið laun í tengslum við nám, svo sem iðnnemar eða læknastúdentar.  Hér sé átt við það, sem kallist starfsnám, þ.e. þegar starfið sé skyldubundinn hluti af náminu.  Eigi það ekki við um stefnanda.

Af framangreindu verði því að telja ljóst, að bætur til stefnanda eigi að ákveða samkvæmt 8. gr. skbl.  Hafi þær bætur þegar verið greiddar, og beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

 

Varakrafa um lækkun bóta:

Verði ekki á aðalkröfu stefnda fallizt, sé gerð krafa um, að bætur verði lækkaðar verulega.

 

Tímabundið atvinnutjón:

Stefnandi miði kröfu sína um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón við meðaltekjur sjúkraþjálfara.  Mótmæli stefndi þeirri kröfu sem of hárri, þar sem stefnandi hefði ekki getað búizt við að ná meðallaunum sjúkraþjálfara strax eftir útskrift.  Beri því að lækka bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á þeim grunni.

 

Annað fjártjón:

Kröfu um lækkun bóta fyrir annað fjártjón byggi stefndi á því, að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því, að hún hafi orðið fyrir frekara tjóni en þegar hafi verið bætt.

 

Varanleg örorka:

Varakrafa um lækkun bóta vegna varanlegrar örorku sé á því byggð, að ekki beri að ákveða stefnanda bætur á grundvelli meðallauna sjúkraþjálfara, heldur eigi að miða við tekjur hennar síðustu 12 mánuði fyrir slys, sbr. 1. mgr. 7. gr. skbl.

Að öðru leyti vísist um rökstuðning fyrir varakröfu til umfjöllunar um aðalkröfu eftir því sem við eigi.

Kröfu um vexti fyrir 30. apríl 1998 sé mótmælt sem fyrndri.

Upphafstíma dráttarvaxta sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi.

Ekki er deilt um bótaskyldu stefnda vegna afleiðinga slyss stefnanda, en á því byggt, að tjónið hafi verið að fullu bætt.

Krafa stefnanda er þríþætt.  Verður fjallað um hvern lið fyrir sig.

 

Tímabundið tekjutap, sbr. 2. gr. skbl., kr. 2.549.199:

Þegar slysið varð, var stefnandi að hefja nám á öðru ári til BS prófs í sjúkraþjálfun.  Hún gegndi því ekki launuðu starfi á slystíma, en byggir á því, að vegna slyssins hafi hún orðið fyrir töfum á námi í 1 ár og þannig misst ár úr starfsævi sinni.

Það er meginregla í skaðabótarétti, að tjónþoli skuli fá allt tjón sitt bætt úr hendi bótagreiðanda.  Í 2. gr. skaðabótalaga er kveðið á um greiðslur vegna tímabundins atvinnutjóns.  Samkvæmt þeirri grein ákveðast bætur fyrir tímann frá því að tjón varð og þar til tjónþoli getur hafið vinnu á ný.  Í greinargerð með frumvarpi að lögunum segir um þetta ákvæði, að með því sé átt við, að tjónþoli geti byrjað aftur starf að verulegu leyti í sama mæli og áður.  Tekur greinin þannig til raunverulegs tekjutaps.  Í 1. gr. sömu laga er hins vegar kveðið á um bætur vegna atvinnutjóns, sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, auk þjáningarbóta.  Í greinargerð með frumvarpi til laganna er hugtakið “annað fjártjón” skýrt svo, að átt sé við útgjöld, sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir tjónsatvik og taki m.a. til bóta vegna námstafa, sem verða vegna slyss.  Stefnandi var í námi, þegar slysið varð, svo sem fyrr er rakið, og hafði ekki atvinnutekjur á þeim tíma.  Hún varð því ekki fyrir sannanlegu tímabundnu atvinnutjóni í skilningi laganna, en krafa hennar um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, sem byggir á námstöf, á ekki undir 2. gr. skaðabótalaga.  Er þessum kröfulið því hafnað.

 

Útlagður kostnaður og bætur vegna óhagræðis og röskunar á stöðu og högum vegna tafa í námi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skbl., kr. 500.000, og vegna ýmissa útgjalda, kr. 50.000:

Fallast má á með stefnanda, að henni beri bætur vegna tafa á námi undir þessum kröfulið.  Þegar slysið varð, var stefnandi að hefja annað námsár sitt til BS prófs í sjúkraþjálfun.  Vegna slyssins tafðist nám hennar í 1 ár, en eftir það sóttist henni námið eðlilega og lauk hún því á eðlilegum tíma, svo sem gögn málsins bera með sér.  Með hliðsjón af þeirri röskun, sem þessi töf hefur haft á högum hennar og m.a. möguleika til tekjuöflunar á þessu tímabili, þykir kröfum hennar samkvæmt þessum lið, kr. 500.000, í hóf stillt.  Þá þykja kröfur stefnanda vegna annarra útgjalda sanngjarnar, en sýnt þykir, að stefnandi hefur orðið fyrir ýmsum útgjöldum vegna slyssins, sem örðugt er að sýna fram á með gögnum.

Stefndi hefur þegar greitt kr. 450.000 vegna þessa kröfuliðar og er hann því tekinn til greina með kr. 100.000.

 

Bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 5.-7. gr. skbl., kr. 7.391.952:

Ágreiningur er með aðilum, hvort bæta beri tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5.-7. gr. skbl. eða skv. 8. gr. sömu laga, svo sem stefndi hefur þegar gert.

Í 5.-7. gr. skbl. koma fram meginreglur, sem beita skal við ákvörðun bóta vegna skerðingar á getu til að afla atvinnutekna vegna varanlegrar örorku.  8. gr. laganna er hins vegar undantekningarákvæði, sem skýra ber þröngt og tekur fyrst og fremst til barna og annarra tjónþola, þegar svo háttar, að ógerlegt er að beita 5.-7. gr. laganna. 

Stefnandi var á 24. aldursári, þegar hún slasaðist.  Hún upplýsti fyrir dómi við aðalmeðferð, að hún hefði lokið sjúkraliðanámi, þegar slysið varð.  Þá liggur fyrir, svo sem fyrr er rakið, að hún var komin áleiðis í námi í sjúkraþjálfun.  Hún hafði þannig á þessum tíma markað sér starfsvettvang, en eins og áður hefur verið gerð grein fyrir, sóttist henni námið eðlilega, ef frá er talin sú árstöf, sem varð vegna afleiðinga slyssins, og lauk hún því á eðlilegum tíma.

Samkvæmt skattframtölum stefnanda fyrir tekjuárin 1991-1997 og með vísan til framburðar hennar fyrir dómi, vann hún öll sumur með námi, m.a. á Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi, þar sem hún vann sem sjúkraliði, auk þess sem hún vann við það í fullu starfi á Hrafnistu frá upphafi árs 1995 til vors sama ár.  Þá bar hún, að þegar eftir að hún lauk námi í sjúkraþjálfun, hóf hún að vinna við þá starfsgrein í hlutastarfi á Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi og að hluta sjálfstætt.

Með hliðsjón af aldri stefnanda, menntun hennar fyrir slys og stöðu í námi, þegar slysið varð, tekjuöflun hennar og starfssviði fyrir slys, sem og í ljósi fordæma Hæstaréttar, sbr. Hrd. í máli nr. 201/2001 og í dómasafni 1998:1976, er fallizt á, að henni verði ákveðnar bætur fyrir varanlega örorku á grundvelli meginreglna 5.-7. gr. skbl, eins og þær voru á slysdegi.  Eins og tekjuöflun stefnanda var háttað fyrir slysið, verða árslaun hennar metin með hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. skbl.  Með hliðsjón af því, sem fyrr greinir um menntun stefnanda og námsframvindu fyrir og eftir slys, sem og þess að eftir að hún lauk námi í sjúkraþjálfun hefur hún unnið á þeim starfsvettvangi, má fallast á, að til grundvallar bótaútreikningi verið lagðar meðaltekjur sjúkraþjálfara í þjónustu ríkisins, svo sem krafa hennar byggir á, þar sem að öðrum kosti er sýnt að hún fái tjón sitt ekki að fullu bætt.

Útreikningum, sem stefnandi byggir kröfur sínar á samkvæmt þessum kröfulið, hefur ekki verið mótmælt, og verða þeir því lagðir til grundvallar.  Stefndi hefur þegar greitt stefnanda kr. 5.154.500 vegna varanlegrar örorku.  Verður þessi kröfuliður því tekinn til greina með kr. 2.237.452.

Samkvæmt 3. gr. l. nr. 14/1905 fyrnast vextir á 4 árum.  Stefna í máli þessu var birt 30. apríl 2002, og eru áfallnir vextir fyrir 30. apríl 1998 samkvæmt því fyrndir.  Fallizt er á dráttarvaxtakröfu stefnanda með þeim rökum, sem hann setur fram.

Eftir atvikum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 550.000, og hefur þá verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Ingunni Maríu Björnsdóttur, kr. 2.337.452, með 2% ársvöxtum frá 01.05. 1998 til 07.06. 2001, en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá þeim degi til 0l.07. s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 550.000 í málskostnað.