Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Endurupptaka bótaákvörðunar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2016. Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 9.599.262 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 21. apríl 2011 til 5. júní 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi slasaðist alvarlega í umferðarslysi […] apríl 2005, en hann var þá farþegi í bifreið sem ökumaðurinn, stefnda B, missti stjórn á. Bifreiðin fór margar veltur og mun áfrýjandi, sem ekki var spenntur í öryggisbelti, hafa kastast út úr henni, líklega í gegnum hliðarrúðu. Bifreiðin, sem mun hafa eyðilagst í slysinu, var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Áfrýjandi var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöð en þaðan á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Í vottorði læknis á deildinni 14. mars 2006 segir meðal annars: ,,Slasast mikið. Fær mar og yfirborðs áverka í andlit, sár á hæ. efra augnlok, nefbrot. Þessir áverkar leiddu til aðgerða. Þá var hann með áverka á brjóstkassa og kvið, en ekki sáust áverkar á brjóst- eða kviðarholslíffærum. Við eftirlit 3 vikum eftir slysið bentu einkenni til rifbrots og tognunar á hæ. mjöðm.“ Eftir slysið komst áfrýjandi ekki til fyrri starfa sinna en hann hafði, er slysið varð, unnið við akstur og á vinnuvélum í fullu starfi. Hann vitjaði lækna vegna meina sinna og kom fram í vottorði C, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, 5. febrúar 2006, að hann væri ,,illa haldinn af verkjum í mest öllum skrokknum, hálsi, hrygg, með stöðugan höfuðverk og í vinstra mjaðmarsvæði.“ Í vottorði sama læknis 28. ágúst sama ár sagði meðal annars svo: ,,Hér er um að ræða mann sem lendir í all harkalegu umferðarslysi ... hann mun hafa rotast að einhverju leyti og fengið höfuðhögg því ekki man hann eftir atvikinu og rankaði ekki við sér fyrr en stuttu seinna. Í slysinu hlaut hann höfuðhögg, áverka á vinstra auga, áverka á bak aðallega mjóbak og neðri hluta brjóstbaks, afleiðingar áverka á vinstri mjöðm og mjaðmargrindarsvæði vinstra megin og einnig afleiðingar áverka á vinstra hné líklega högg sem hefur orsakað breytingar á innra borði hnéskeljar.“
Áfrýjandi og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sammæltust um að fela tveimur læknum að meta það líkamstjón sem áfrýjandi hlaut í slysinu. Í áliti þeirra 25. febrúar 2007 voru batahvörf talin vera […] október 2005, sex mánuðum frá slysdegi. Varanlegur miski var metinn 20 stig og varanleg örorka 20%. Til grundvallar mati þeirra á varanlegum miska lögðu þeir ,,eftirstöðvar háls- og baktognunar, tognunar á vinstri mjöðm og hugsanlega vinstra hné, þó óþægindi hafi komið fram síðar, þá telst hann búa við vægar eftirstöðvar heilahristings. Þá er einnig grunur um eftirstöðvar áverka á hægra auga.“ Rök þeirra fyrir mati á varanlegri örorku voru einkum þau, að þeir töldu ljóst að áfrýjandi byggi við ,,skerðingu á álagsgetu og úthaldsþoli til allra almennra starfa og sérstaklega líkamlega erfiðra starfa þegar litið er til afleiðinga umferðarslyssins ... Framtíð þessa unga manns er með öllu óviss, starfsval hans telst takmarkað komi til breytinga á starfssviði.“ Læknarnir töldu að áfrýjandi byggi við ,,all nokkra starfsorku í léttara starfi, jafnvel í fullu starfi.“
Á grundvelli framangreinds álits læknanna fór fram uppgjör 30. mars 2007 á skaðabótum til áfrýjanda vegna afleiðinga umferðarslyssins. Undir það var ritað af hálfu lögmanns hans með fyrirvara um breytingar vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.
Áfrýjandi náði ekki þeirri heilsu að geta hafið störf að nýju að neinu marki en kvaðst þó hafa reynt það ítrekað. Hann sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins 16. júlí 2007 en fullnægði þá ekki því skilyrði að hafa byrjað endurhæfingu.
Áfrýjandi leitaði eftir því við stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 8. janúar 2010 að skaðabótauppgjör til hans yrði endurupptekið. Forsendur læknanna um starfsorku hans stæðust ekki og niðurstaða þeirra um varanlega örorku og varanlegan miska ekki heldur. Málaleitan áfrýjanda var hafnað.
Áfrýjandi óskaði dómkvaðningar matsmanna 2. september 2011 til að meta afleiðingar líkamstjónsins. Í matsbeiðni var fyrst gerð grein fyrir slysinu og síðan getið um álit læknanna tveggja, sem áður greinir, á afleiðingum slyssins og að skaðabætur vegna líkamstjónsins hefðu verið gerðar upp á grundvelli álitsins. Þá sagði að áfrýjandi hafi verið ,,mjög ósáttur við niðurstöður“ læknanna. Forsendur þeirra og rökstuðningur fyrir niðurstöðu hafi að mati áfrýjanda alls ekki gengið eftir og ástand hans versnað til muna eftir að matið var framkvæmt. Þessu til stuðnings var bent á að forsendurnar hafi gengið út frá því að áfrýjandi myndi í framtíðinni búa við allnokkra starfsorku til léttari starfa og myndi jafnvel geta sinnt þeim í fullu starfi. Þessi framtíðarspá hafi alls ekki gengið eftir og líkamlegu og andlegu atgervi áfrýjanda hrakað verulega frá því að álitsgerð læknanna var unnin. Jafnframt sagði að ljóst væri að álit læknanna ,,frá 25. febrúar 2007 á varanlegum miska og varanlegri örorku er mjög lágt ef tekið er mið af alvarlegum og útbreiddum einkennum A og hvaða áhrif slysið hefur haft á starfsmöguleika hans og starfsgetu.“ Áfrýjandi teldi að breyting hafi orðið á heilsu og vinnugetu hans frá því að læknarnir létu í ljós álit sitt á afleiðingum slyssins. ,,Varanlegur miski og varanleg örorka hans er verulega hærri en áður var talið.“ Var þess óskað að dómkvaddir yrðu menn til að meta og láta í ljós álit á: ,,A. Hvenær heilsufar A var orðið stöðugt skv. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga ... B. Hver er varanlegur miski A af völdum slyssins ... C. Hver er varanleg örorka A af völdum slyssins“.
Til að gera matið voru dómkvaddir bæklunarskurðlæknir og hæstaréttarlögmaður og luku þeir matsgerð sinni 28. september 2012. Í henni kom fram að matsmenn hafi látið framkvæma myndgreiningarrannsóknir til nota við matið. Niðurstaða þeirra var að öllu leyti hin sama og læknanna tveggja sem áður höfðu látið í ljós álit sitt á afleiðingum slyssins fyrir áfrýjanda. Matsmenn rökstuddu niðurstöðu sína um varanlegan miska einkum svo: ,,Við miskamat vegna umferðarslyssins ... leggja matsmenn til grundvallar að um er að ræða eftirstöðvar andlitsáverka, háls- og baktognunar auk tognunar á mjöðm. Þá telst hann búa við eftirstöðvar heilahristings. Sjónskerðingu er ítrekað lýst en það er aðeins staðfest rétt tímabundið en að öðru leyti hafa 3 augnlæknar lýst svo til eðlilegri sjón. Eins hefur verið lýst í vottorðum ýmsum áverkum s.s. á hrygg, mjöðm og hné sem ekki eru staðreyndir í myndgreiningarrannsóknum.“ Rökstuðningur matsmanna fyrir niðurstöðu þeirra um 20% varanlega örorku var einkum á þann veg að áfrýjandi ætti að geta stundað léttari almenn störf, til dæmis afgreiðslustörf að minnsta kosti í hlutastarfi. Tekið var tillit til lítillar menntunar hans og takmarkaðs starfsvals sem og annarra atriða.
Áfrýjandi undi ekki niðurstöðu matsmannanna og beiddist dómkvaðningar yfirmatsmanna 25. september 2013. Sú beiðni var að efni til eins og beiðnin 2. september 2011, en þó var sérstaklega vikið að því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna um varanlega örorku væri afar lág þegar tekið væri tillit til þess hve alvarlegar þær afleiðingar væru sem hann glímdi við vegna slyssins. Var einnig bent á að áfrýjandi uppfyllti þá skilyrði staðals Tryggingastofnunar ríkisins um örorkustyrk enda teldist færni hans til almennra starfa hafa skerst að hluta. Loks kom fram í beiðninni að dómkveðja ætti þrjá yfirmatsmenn alla með mikla reynslu af matsstörfum, lögfræðing, taugalækni og geðlækni ,,til að meta afleiðingar umferðarslyss sem“ áfrýjandi lenti í tilgreindan dag.
Yfirmatsmenn luku mati sínu 28. apríl 2014. Niðurstaða þeirra var á þann veg að batahvörf hefðu orðið tólf mánuðum eftir slysdag, þeir töldu varanlegan miska vera 40 stig og varanlega örorku 45%. Rökstuðningur þeirra fyrir niðurstöðu um varanlegan miska var á þann veg að hann væri 20 stig vegna stoðkerfiseinkenna. Áfrýjandi byggi við verulega vitræna skerðingu eftir heilaskaða þann, sem hann varð fyrir í slysinu, og hafi sú skerðing veruleg áhrif á daglega færni hans og sé varanlegur miski vegna heilaskaðans því metinn 20 stig.
Niðurstaða yfirmatsmanna um varanlega örorku var einkum studd þeim rökum að hún væri mun meiri en áður var talið. ,,Kemur þar fyrst og fremst til vitræn skerðing sem ekki var metin í fyrri matsgerðum. Matsmenn telja skerðingu á vitrænni getu slíka að hún takmarki mjög getu til starfa á almennum vinnumarkaði og þá umfram það sem leiðir af líkamlegum vandamálum.“
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína um endurupptöku á ákvörðun 30. mars 2007, um skaðabætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku, á 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að réttur til endurupptöku samkvæmt lagagreininni sé fyrir hendi er að tjónþoli sanni að orðið hafi ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu hans þannig að ætla megi að miskastig og varanleg örorka sé verulega hærri en áður var talið.
Stefndu andmæla því ekki að síðara skilyrðinu um verulega hækkun miskastigs og varanlegrar örorku sé fullnægt. Þau mótmæla því á hinn bóginn að áfrýjandi hafi axlað sönnunarbyrði fyrir því að þær breytingar hafi verið ófyrirsjáanlegar. Áfrýjandi hafi í beiðnum sínum um dómkvaðningu matsmanna og síðar yfirmatsmanna óskað án fyrirvara mats á afleiðingum líkamstjónsins fyrir sig og í engu gætt þess að óska eingöngu mats á þeim breytingum sem orðið hafi á heilsu hans frá því að álit læknanna tveggja lá fyrir 25. febrúar 2007. Útilokað sé því að átta sig á að hvaða marki yfirmatsgerðin sé endurskoðun á áliti læknanna og að hvað marki hún varði einungis breytingar á heilsu áfrýjanda frá niðurstöðu þeirra og þar með á því hvort þær breytingar hafi verið ófyrirsjáanlegar eða ekki.
Við mat á því hvort áfrýjandi hafi fullnægt þeirri sönnunarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga gildir meginregla 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því getur tjónþoli fullnægt sönnunarbyrði sinni samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga með hverjum þeim hætti sem lög leyfa. Beiðni um nýtt mat á afleiðingum líkamstjóns í því skyni ætti þó að réttu lagi að lúta að því að metnar séu eingöngu þær breytingar sem orðið hafi á varanlegum miska og varanlegri örorku tjónþolans frá því að mat það, sem skaðabótauppgjör var reist á, fór fram og hvort þær breytingar hafi verið ófyrirsjáanlegar eða ekki. Þannig ætti slíkt mat almennt ekki að fela í sé nýtt heildarmat á þeim varanlegu afleiðingum sem tjónþoli hlaut við slysið.
Yfirmatsmenn geta þess ekki í matsgerð sinni hvort sú verulega hækkun á mati á varanlegum miska og varanlegri örorku hafi verið ófyrirsjáanleg eða ekki. Þeir voru heldur ekki um það spurðir þegar þeir komu fyrir dóm til skýrslugjafar þar sem þeir staðfestu einnig yfirmatsgerðina. Af yfirmatsgerðinni má ráða að það sé einkum hin vitræna skerðing sem áfrýjandi býr við sem leiddi til svo verulegrar hækkunar á miskastigi og varanlegri örorku. Mat á því hvort breyting á vitrænni skerðingu hafi verið ófyrirsjáanleg eða ekki er læknisfræðilegt og var nauðsynlegur þáttur í sönnunarfærslu áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu er ekki sannað að skilyrðum endurupptöku skaðabótaákvörðunar samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga hafi verið fullnægt og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur sem og ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað fer sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., er höfðað 20. apríl 2015 af A, […] gegn Sjóvá Almennum tryggingum hf. ,Kringlunni 5 Reykjavík og B […].
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verið óskipt dæmd til að greiða stefnanda 9.599.262 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 21. apríl 2011 til 5. júní 2014 en með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefjast stefndu greiðslu málskostnaðar.
I.
[…] apríl 2005 var stefnandi farþegi í bifreið með skráningarnúmerið […]. Ökumaður bifreiðarinnar var stefnda, B. Bifreiðin var tryggð lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf. Stefnda missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut líkamstjón. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefndu. Í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 öfluðu aðilar sameiginlega matsgerðar sem að stóðu tveir læknar. Í matsgerð þeirra frá 25. febrúar 2007 komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði hlotið 20 stiga miska og 20% varanlega örorku við slysið. Stöðugleikatímapunktur var metinn […] september 2005. Aðilar gengu frá uppgjöri á grundvelli matsgerðarinnar 30. mars 2007. Með bréfi 8. janúar 2010 fór stefnandi þess á leit við stefnda Sjóvá Almennar tryggingar hf. að málið yrði tekið upp að nýju og örorka stefnanda metin á ný. Stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. hafnaði beiðni um endurupptöku með tölvupósti 20. ágúst 2010. Með matsbeiðni 2. september 2011 fór stefnandi þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta varanlegar afleiðingar umferðarslyssins og stöðugleika-tímapunkt. Fór stefnandi þess á leit við stefnda Sjóvá Almennar tryggingar hf., 25. nóvember 2011, að stefndi gæfi út yfirlýsingu þess efnis að stefndi myndi ekki bera fyrir sig fyrningu í málinu. Með tölvupósti 29. desember 2011 féllst stefndi á að bera ekki fyrir sig að bótakröfur stefnanda myndu fyrnast áramótin 2011 til 2012. Var yfirlýsingin gefin með þeim fyrirvara að bótakröfur kynnu þegar að vera fyrndar. Hinir dómkvöddu matsmenn, hæstaréttarlögmaður og bæklunarlæknir, skiluðu matsgerð 28. nóvember 2012. Var niðurstaða þeirra að varanlegur miski stefnanda væri 20 stig og varanleg örorka 20%. Stöðugleikatímapunktur var metinn […] október 2005. Með matsbeiðni 25. september 2013 óskaði stefnandi eftir að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Voru geðlæknir, bæklunarlæknir og hæstaréttarlögmaður dómkvaddir til starfans og skiluðu þeir matsgerð 28. apríl 2014. Mátu þeir varanlegan miska stefnanda 40 stig, varanlega örorku 45% og stöðugleikatímapunkt […] apríl 2006. Með bréfi 5. maí 2014 fór stefnandi þess á leit við stefnda, Sjóvá Almennar tryggingar hf., að fyrri ákvörðun yrði endurupptekin á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var krafist skaðabóta í samræmi við niðurstöðu yfirmatsins. Stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. hafnaði kröfunni í tölvupósti 18. júlí 2014.
Við aðalmeðferð málsins staðfestu yfirmatsmenn yfirmatsgerð sína fyrir dóminum.
II.
Stefnandi kveður málsókn sína byggjast á 1. mgr. 88. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og ákvæðum nr. 50/1993, þ.á m. 11. gr. laganna um endurupptöku ákvörðunar bóta fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Bifreið stefndu, B, með skráningarnúmerið […], sem stefnandi var farþegi í þegar hann slasaðist hafi á slysdegi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf. Málsókn á hendur stefndu, B, byggi á 88. og 90. gr. laga nr. 50/1987. Málsókn á hendur stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum hf., byggi á því að bifreið stefndu B, á slysdegi, hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu, skv. 91. gr. laga nr. 50/1987 hjá stefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf., og því beri félagið greiðsluskyldu vegna afleiðinga slyssins, sbr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. laga nr. 50/1987. Krafa um skaðabætur og útreikningur þeirra byggi á ákvæðum laga nr. 50/1993 og yfirmatsgerð geðlæknis, bæklunarlæknis og hæstaréttarlögmanns frá 28. apríl 2014. Þá byggi stefnandi einnig á meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til handa tjónþola vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir.
Stefnandi byggi kröfur sínar á því að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku séu uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt svo endurupptaka nái fram að ganga. Fyrra skilyrðið sé að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola. Seinna skilyrðið sé að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Bæði skilyrðin séu uppfyllt.
Samanburður á frummati og gögnum sem legið hafi til grundvallar við gerð þess og yfirmati, sem stefnandi byggi kröfu sína á, og gögnum sem legið hafi til grundvallar við gerð þess sýni ótvírætt að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari stefnanda frá frummati, frá árinu 2007, og uppgjöri samkvæmt því frá 30. mars 2007. Í frummati, blaðsíðu 4, í kafla um skoðun komi fram að ljósop hægra auga sé heldur víðara en það vinstra. Væg hreyfiskerðing sé í hálsi með óþægindum í endastöðu hreyfinga. Axlarhreyfingar séu fríar og óhindraðar með vægum óþægindum í endastöðu hægra megin og vægum festumeinum í hægri öxl. Það vanti 10 cm. upp á að fingur nái í gólf við frambeygju og rétta og hliðarhreyfingar séu vægt skertar með óþægindum í endastöðu. Það séu dreifð þreifieymsli í vöðvum hliðlægt í öllu bakinu. Óþægindi séu við mjaðmahreyfingar vinstra megin í endastöðu, en hreyfiferlar teljist eðlilegir. Það séu dreifð eymsli yfir liðbili vinstra hnés, en skoðun að öðru leyti eðlileg. Taugaskoðun teljist eðlileg. Neðar á blaðsíðu 4 í frummatinu segi síðan: „Við geðskoðun telst grunnstemning eðlileg, eðlileg raunveruleikatengsl, ekki áberandi kvíðamerki“. Á blaðsíðu 6 í frummati sé rökstuðningur matsmanna fyrir mati á varanlegum miska. Þar segi: „Við mat á varanlegum miska leggja matsmenn til grundvallar að um er að ræða eftirstöðvar háls- og baktognunar, tognunar á vinstri mjöðm og hugsanlega vinstra hné, þó óþægindi hafi komið fram síðar, þá telst hann búa við vægar eftirstöðvar heilahristings. […] Varanlegur miski telst hæfilega metinn 20 stig.“ Hvorki í frummati né í læknisfræðilegum gögnum sem legið hafi fyrir við gerð þess séu ábendingar um að hugsanlegt eða líklegt sé að afleiðingar slyssins séu meiri en þar er lýst og metið var til miska og varanlegrar örorku. Vegna þessa hafi stefnandi ekki séð tilefni til að gera fyrirvara við matið eða uppgjör aðila 30. mars 2007. Í yfirmati, blaðsíðu 11-12 í kafla um skoðun á matsfundi 22. janúar 2014 og þar með talin geðskoðun, komi hins vegar einnig í ljós önnur alvarleg einkenni. Þar komi fram að stefnandi eigi erfitt með að klæða sig úr fötum. Göngulagið sé þannig að vinstri fótur sé útsnúinn og hann haltur. Stefnandi geti hvorki gengið á tám né hælum. Hann sé aumur í vöðvum í baki alveg frá hnakkagróf og niður á mjaðmagrind. Við frambeygju í hálsi muni þremur fingurbreiddum frá höku í bringubein. Rétta sé skert. Hliðarsnúningur sé 45° til hægri og 30° til vinstri. Hliðarsveigja sé 30° í báðar áttir og það taki í við ystu hreyfimörk og hann kvarti um mikinn sársauka við þessar hreyfingar. Engar stöðuskekkjur séu í hálsi. Hreyfingar í öxlum séu eðlilegar og engin klemmueinkenni. Vöðvakraftar í axlargrindarvöðum séu eðlilegir. Taugaskoðun í griplimum sé eðlileg. Hann sé með eymsli yfir olnbogum báðum megin, bæði yfir réttuvöðvafestum og beygjuvöðvafestum. Við frambeygju nái fingurgómar rétt niður fyrir hné og geti stefnandi ekki beygt sig lengra. Rétta sé eðlileg. Hliðarbeygjur séu eðlilegar en það taki í til beggja hliða. Bakeymsli komi fram yfir spjaldhryggjarliðum beggja vegna. Eymsli séu yfir lærhnútum, meira vinstra megin. Hreyfingar í mjöðmum séu 90° beggja vegna en sársauki sé við hreyfingu í vinstri mjöðm. Snúningshreyfingar séu einnig sárar í vinstri mjöðm. Enginn vökvi eða bólga sé í vinstra hné. Hreyfigeta í hnjáliðnum sé eðlileg og hann eymslalaus. Taugaskoðun í ganglimum sé eðlileg. Um geðskoðun, blaðsíðu 12, segi m.a. „Við geðskoðun koma fram verulegar minnistruflanir“. Matsmenn hafi lagt nokkrar einfaldar spurningar fyrir stefnanda sem hann hafi svarað bæði rangt og ruglingslega. Þá segi „Þarf greinilega eftirlit eiginkonu við allt sem hann gerir. Þarf út á vinnumarkaðinn, en treystir sér ekki til þess“. Síðan segi: „Gerð var tilraun til þess að láta yfirmatsbeiðanda fylla út mælikvarða Beck´s á geðlægð og kvíða, en greinilegt var að hann réði ekki við það. Saga hans ruglingsleg og nærminni mjög skert og í framhaldi af matsfundi var ákveðið í samráði við lögfræðing yfirmatsbeiðanda að fá […] D sérfræðing í klínískri taugasálfræði til þess að gera taugasálfræðilega athugun á yfirmatsbeiðanda.“ Í kafla um niðurstöðu og álit á blaðsíðu 5, taugasálfræðilegri athugun D, frá 21. febrúar 2014, segi m.a.: „Við prófun komu fram vísbendingar um erfiðleika tengda því að skilja og átta sig á fyrirmælum. Einnig erfiðleikar tengdir þreytu í hægri hendi við meðferð skriffæris. Greindarprófun benti til skertra greindarþátta af áunnum toga.“ Í niðurstöðum prófana hafi komið fram vísbendingar um margþætta taugasálfræðilega veikleika og séu þeir raktir í athuguninni. Síðan segi orðrétt: „Líkur eru til að ofangreindir taugasálfræðilegir veikleikar séu að verulegu leyti áunnir og afleiðing þess háorku höfuð- og heilaáverka sem [...] hlaut árið 2005“. Á blaðsíðu 16 í yfirmati sé rökstuðningur matsmanna fyrir mati á varanlegum miska. Þar segi m.a.: „Þá telst hann búa við eftirstöðvar höfuðhöggs. Höfuðhöggið hefur haft mjög víðtækar afleiðingar fyrir yfirmatsbeiðanda. Hann er með alvarleg eftirheilahristingseinkenni sem lýsa sér m.a. með miklum kvíða, verulegum minnistruflunum og öðrum taugasálfræðilegum afleiðingum og er það niðurstaða yfirmatsmanna að þessar breytingar séu allar áunnar og orsakaðar af háorku höfuð- og heilaáverka sem yfirmatsbeiðandi fékk í slysinu árið 2005. […] Yfirmatsbeiðandi hefur verulega vitræna skerðingu eftir heilaskaða þann sem hann varð fyrir í slysinu. Sú skerðing hefur veruleg áhrif á daglega færni hans og að mati yfirmatsmanna er miski hans vegna heilaskaðans 20 stig.“ Þess skuli getið að matsmenn hafi metið stoðkerfiseinkenni hans til 20 stiga miska. Samtals sé því miski stefnanda 40 stig. Í frummatinu, sé eins og fyrr segi, lýst háls- og baktognun og vægum eftirstöðvum heilahristings. Geðskoðun hafi verið eðlileg og stefnandi hvorki kvartað undan kvíða né þunglyndi. Af lestri frummatsins sé ljóst að þá hafi ekki verið tilefni til að kalla eftir skýrslu geðlæknis eða athugunar taugasálfræðings vegna afleiðinga slyssins. Að öðrum kosti hefðu hinir reyndu matslæknar kallað eftir slíku. Í yfirmatinu komi fram að stefnandi hafi kvartað undan kvíða, lélegu minni og einbeitingarskorti. Á matsfundi hafi komið fram verulegar minnistruflanir og stefnandi ekki ráðið við einfaldar spurningar og próf. Hafi því verið afráðið að kalla eftir athugun taugasálfræðings. Samkvæmt yfirmati séu afleiðingar slyssins veruleg vitræn skerðing, mikill kvíði, verulegar minnistruflanir og taugasálfræðilegar afleiðingar. Að auki sé í yfirmati lýst mikilli hreyfiskerðingu í hálsi, bæði við frambeygju og réttu sem og hliðarsnúning. Í frummati segi að „væg hreyfiskerðing“ sé í hálsi. Einnig sé í yfirmati lýst eymslum yfir báðum olnbogum, sem ekki sé getið í frummati. Þá komi fram í yfirmati að við frambeygju nái stefnandi fingurgómum rétt niður fyrir hné en í frummati nái fingurgómar 10 cm frá gólfi. Allar þessar alvarlegu afleiðingar umferðarslyssins hafi því sannanlega ekki verið komnar fram þegar frummat og uppgjör hafi farið fram fyrri hluta ársins 2007. Þær séu því eðli máls samkvæmt ekki hluti af mati á miska og örorku í frummati. Einkennin hefðu þá verið metin til miska og varanlegrar örorku í frummatinu. Árið 2007 hafi ekkert verið sem bent hafi til þess að líkamlegar afleiðingar umferðarslyssins yrðu meiri en þar sé lýst eða að afleiðingar höfuðhöggsins myndu með tímanum leiða til verulegrar vitrænnar skerðingar. Þessar breytingar á heilsu stefnanda hafi því verið alveg ófyrirséðar. Afleiðingar af þungu höfuðhöggi og áhrif þess á andlega líðan séu oft lengi að koma fram hjá þeim sem fyrir verði. Matsfundur vegna frummats hafi farið fram 13. febrúar 2007, eða innan við tveimur árum frá slysdegi. Á þeim tímapunkti hafi hvorki andlegar afleiðingar slyssins verið komnar fram né þær vitrænu skerðingar sem raktar verði til höfuðhöggsins. Þessu til stuðnings vísi stefnandi m.a. til þess að fyrst í stofunótu heila- og taugalæknis, frá 9. mars 2010, kvarti stefnandi um minnisleysi. Slíkar kvartanir hafi ekki komið fram í frummati eða í gögnum sem legið hafi því til grundvallar, enda þau einkenni þá ekki til staðar. Að endingu sé rétt að vekja athygli á því að stefnandi hafi verið andlega og líkamlega heilbrigður fyrir slysið. Um það megi m.a. vísa til blaðsíðu 2 í taugasálfræðilegri athugun. Hann hafi æft og keppt í íþróttum. Eftir grunnskóla hafi hann unnið ýmis störf til sjós og lands, lokið […], […] og unnið sem […]. Þá hafi hann einnig leikið í […].
Hækkun á varanlegri örorku milli frummats og yfirmats sé 25 prósentustig, og hækkun varanlegs miska milli frummats og yfirmats 20 stig. Hvort tveggja sé mjög mikil hækkun sem uppfylli skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um verulega hækkun. Að framan hafi verið fjallað um ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari. Það séu þessar ófyrirsjáanlegur breytingar, þ.e. fyrst og fremst áhrif slyssins á andlega líðan stefnanda og afleiðingar heilaskaðans (vitræn skerðing) sem leiði til 20 stiga hækkunar á varanlegum miska og 25 prósentustiga hækkunar á varanlegri örorku. Á blaðsíðu 16 í yfirmati segi orðrétt: „Yfirmatsbeiðandi hefur verulega vitræna skerðingu eftir heilaskaða þann sem hann varð fyrir í slysinu. Sú skerðing hefur veruleg áhrif á daglega færni hans og að mati yfirmatsmanna er miski hans vegna heilaskaðans 20 stig.“ Það sé því heilaskaðinn sem leiði til 20 stiga hækkunar á miska. Á blaðsíðu 17 í yfirmati segi orðrétt: „Nú eru liðin rúm níu ár frá slysinu og telja matsmenn fremur hæpið að [...] komist á almennan vinnumarkað með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í fyrri matsgerðum. Kemur þar fyrst og fremst til vitræn skerðing sem ekki var metin í fyrri matsgerðum. Matsmenn telja skerðingu á vitrænni getu slíka að hún takmarki mjög getu til starfa á almennum vinnumarkaði og þá umfram það sem leiðir af líkamlegum vandamálum. […] Matsmenn telja með hliðsjón af þessu rétt að meta honum varanlega örorku sem telst rétt metin 45%.“ Með yfirmatsgerð sé sannað að miski stefnanda og varanleg örorka séu nú verulega hærri en áður hafi verið talið og þessar breytingar á heilsufari stefnanda eftir frummat verið ófyrirsjáanlegar. Með því mati hafi tjón stefnanda verið sannreynt.
Stefnandi byggi á að sönnunarbyrði vegna frekari frádráttar skaðabótakröfu stefnanda, skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, hvíli á stefndu en stefndu hafi gert kröfu um það við lokauppgjör á sínum tíma. Stefnandi byggi einnig á því að stefnda beri að sýna fram á hvaða greiðslur það eru sem stefnandi njóti frá Tryggingastofnun ríkisins og/eða frá lífeyrissjóðum sem koma eigi til frádráttar skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, og frá og til hvaða tímamarka þær skuli reiknaðar. Stefnandi telji að aðeins þær greiðslur sem hann sannanlega hafi notið á stöðugleikatímapunkti geti komið til frádráttar og hafi sá frádráttur komið til framkvæmda við uppgjör aðila 30. mars 2007. Stefndu hafi reiknað þær greiðslur út og dregið þær frá í lokauppgjöri við stefnanda án nokkurs fyrirvara. Stefnandi mótmæli þeirri kröfu stefnda, Sjóvár Almennra trygginga hf., að viðbótarskaðabótakrafa hans sæti frádrætti á grundvelli þágildandi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Við lokauppgjör skaðabótakröfu stefnanda 30. mars 2007 hafi stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., engan fyrirvara gert um frádrátt þann sem tilgreindur sé í uppgjörinu að fjárhæð 1.119.857 krónur. Stefndi hafi ekki heldur áskilið sér rétt til að draga greiðslur sem stefnandi njóti samkvæmt lögum um almannatryggingar eða greiðslur úr lífeyrissjóðum frá kröfum sem hann kynni að eignast síðar á grundvelli 11. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. geti því ekki krafist frekari frádráttar nú. Sú krafa sé of seint fram komin. Félagið hafi haft tilefni til að gera fyrirvara um frekari frádrátt við uppgjörið árið 2007, enda komi fram á blaðsíðu 6 í frummati og skattaupplýsingum stefnanda, sem legið hafi fyrir á þeim tíma, að stefnandi hefði ekki átt afturkvæmt á vinnumarkað eftir slysið og nyti greiðslna frá lífeyrissjóðum og bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafi félagið engan slíkan fyrirvara gert og þar með fyrirgert rétti sínum til að krefjast endurupptöku uppgjörsins samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1993 eða endurmats á þeim greiðslum sem þá hafi að kröfu stefnda verið dregnar frá, skv. 4. mgr. 5. gr. laganna. Einnig sé þessu til stuðnings bent á athugasemdir með frumvarpi til skaðabótalaga, lagt fram á 115. löggjafarþingi 1991-92, en þar segi m.a. um 11. gr. að ákvæðið veiti aðeins heimild til endurupptöku ef tjónþoli krefjist þess. Hinn bótaskyldi eigi ekki rétt á að krefjast þess að mál sé tekið upp til nýrrar ákvörðunar.
Verði fallist á að skaðabótakrafa stefnanda sæti frádrætti sé útreikningi tryggingastærðfræðingsins mótmælt. Hann sé starfsmaður stefnda, Sjóvár Almennra trygginga hf., og útreikningur hafi takmarkað sönnunargildi. Þá sé útreikningsins aflað einhliða af hálfu stefnda án þess að stefnandi hafi haft tækifæri til að koma sínum röksemdum og sjónarmiðum á framfæri. Stefnandi byggi á því að það hvíli á stefnda að sýna fram á að þær greiðslur sem stefndi telji að koma eigi til frádráttar kröfum stefnanda og séu tilkomnar vegna afleiðinga umferðarslyssins en eigi sér ekki aðrar orsakir eða skýringar. Í örorkumatsgerðum Tryggingastofnunar ríkisins og þeirra sem unnar séu á vegum lífeyrissjóðanna sé m.a. byggt á því að stefnandi búi við skerta sjón á hægra auga. Í yfirmati sé byggt á því að ekkert athugavert sé við sjón stefnanda. Hluti af greiðslum lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar ríkisins sé því sannanlega tilkominn vegna annarra atvika en umferðarslyssins. Þær greiðslur eigi ekki að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda í þessu máli. Útreikningur tryggingastærðfræðingsins taki ekki mið af þessu. Því sé mótmælt að allar greiðslur sem stefnandi njóti frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum eigi rót sína að rekja til umferðarslyssins. Eðli máls samkvæmt hljóti aðrar ástæður og heilsubrestur vegna þeirra einnig að hafa áhrif á möt Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða. Þar sé stefnanda metin full læknisfræðileg örorka en einungis 40% í mati dómkvaddra yfirmatsmanna. Í þessum mötum sé bersýnilega byggt á fleiru en afleiðingum umferðarslyssins […] maí 2005 einum saman. Hvorki sé rökrétt, trúverðugt né sanngjarnt, að stefndu vilji byggja frádrátt frá skaðabótakröfu stefnanda á öðrum forsendum, þ.e. miklum mun hærra örorkumati en sjálf krafan byggi á. Forsendur fyrir útreikningi tryggingastærðfræðingsins séu því svo veikar að honum verði ekki beitt sem sönnunargagni í máli um frádrátt, skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Í útreikningi tryggingastærðfræðingsins sé m.a. gert ráð fyrir greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna barnalífeyris. Stefnandi byggi á að örorkustyrkir vegna barna og/eða barnalífeyrir eigi ekki að koma til frádráttar við uppgjör. Þessar greiðslur séu ekki skaðabætur eða hugsaðar til að bæta framtíðartekjuskerðingu vegna slyss, heldur til að bæta aðbúnað barna sem eigi foreldra með skerta starfsgetu. Verði ekki fallist á þetta sé byggt á því að til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda geti ekki komið aðrar greiðslur en þær sem hann sannarlega hafi notið eða átt rétt til á stöðugleikatímapunkti. Á stöðugleikatímapunkti hafi stefnandi aðeins átt eitt barn. Stefnandi og barnsmóðirin hafi slitið sambandi sínu og barnið búið og búi enn hjá móður sinni. Barnið sé ekki skráð á framfærslu stefnanda á skattagögnum. Hvað sem öðru líði beri stefndu sönnunarbyrðina um þetta atriði, líkt og um aðra ætlaða frádráttarliði.
Stefnandi byggi á því að við ákvörðun á því hvaða greiðslur skuli draga frá skaðabótakröfunni verði að miða við hvernig mál stefnanda hafi staðið á stöðugleikatímapunkti, þ.e. á þeim tíma sem stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata. Réttur til greiðslna sem myndast hafi eftir það tímamark komi ekki til frádráttar skaðabótakröfu hans. Á stöðugleikatímapunkti, […] apríl 2006, hafi stefnandi, auk réttinda hjá lífeyrissjóðum, aðeins notið örorkustyrks frá Tryggingastofnun ríkisins. Styrkurinn sé dreginn frá í uppgjörinu. Það hafi ekki verið fyrr en með örorkumati lífeyristrygginga, 11. febrúar 2013, sem stefnandi hafi uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig. Þau skilyrði hafi hann ekki uppfyllt á stöðugleikatímapunkti og hafi t.a.m. umsókn stefnanda um endurhæfingarlífeyri, 16. júlí 2007, verið hafnað, sbr. mat vegna endurhæfingarlífeyris frá 25. september 2007. Í örorkumati lífeyristrygginga frá 9. júní 2009 komi fram að stefnandi uppfylli ekki skilyrði um hæsta örorkustig, en færni hans til almennra starfa teljist þó skert. Stefnandi hafi samkvæmt þessu ekki átt rétt til fullra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins á stöðugleikatímapunkti. Stefnandi byggi á því að krafa hans um varanlegan miska skuli ekki sæta frádrætti sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993. Miskabætur skv. 4. gr. laganna séu bætur fyrir ófjárhagslegt tjón stefnanda. Greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum sé ætlað að bæta fjárhagslegt tjón. Stefnandi byggi á því að bætur fyrir fjárhagslegt tjón verði ekki dregnar frá bótum fyrir tjón sem ekki er fjárhagslegt. Stefnandi hafi aðeins fengið hluta af slíku tjóni sínu bætt, þ.e. vegna 20 stiga miska sem stefndi hafi greitt stefnanda í mars 2007. Stefnandi hafi ekki fengið greiðslur frá þriðja aðila sem ætlað sé að bæta ófjárhagslegt tjón hans. Krafa stefnanda um skaðabætur fyrir varanlegan miska eigi því að ná fram að ganga óháð niðurstöðu um frekari frádrátt. Bent sé á að uppgjörsblað stefnda Sjóvár Almennra trygginga hf. styðji þessa röksemd stefnanda. Þar sé frádráttur skv. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 dreginn frá útreiknuðum bótum fyrir varanlega örorku.
Stefnandi kveður kröfu sína sundurliðast þannig: Að því er varðar varanlegan miska skv. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993 sé varanlegur miski skv. yfirmati metinn 40 stig, sem sé 20 stiga hækkun frá frummati. Krafa stefnanda vegna varanlegs miska sé því 20% x 10.100.000 krónur (4.000.000 krónur x 8287 / 3282) = 2.020.000 krónur. Að því er varðar varanlega örorku skv. 5. til 7. gr. laga nr. 50/1993 sé varanleg örorka, samkvæmt yfirmati stefnanda metin 45%, sem sé 25 prósentustiga hækkun frá frummati. Viðmiðunarlaun séu hin sömu og lögð hafi verið til grundvallar uppgjöri 30. mars 2007, þ.e. lágmarkslaun skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Miðað sé við stöðugleikatímapunkt skv. yfirmati […] apríl 2006. Viðmiðunarlaunin séu því 1.821.500 krónur (1.200.000 krónur x 4982 / 3282). Á stöðugleikatímapunkti […] apríl 2006 hafi stefnandi verið […] gamall. Aldursstuðull skv. 6. gr. laga nr. 50/1993 sé því 16,644 […] Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 1.821.500 krónur x 16,644 x 25% = 7.579.262 krónur. Heildarkrafan sé því bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 2.020.000 krónur og bætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 7.579.262 krónur, eða alls 9.599.262 krónur.
Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til 33. gr. og 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa stefnanda um vexti byggir á 16. gr. laga nr. 50/1993. Krafa stefnanda um dráttarvexti byggir á 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta er krafist frá því mánuður var liðinn frá því stefnda Sjóvá Almennum tryggingum hf. var sent kröfubréf þann 5. maí 2014.
III.
Stefndu byggja varnir sínar á því að krafa stefnanda sé fyrnd og skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 til endurupptöku ekki uppfyllt. Sönnunarbyrði um rétt stefnanda til frekari skaðabóta úr hendi stefndu hvíli á stefnanda. Stefnandi hafi ekki tekist að sanna að þau atvik séu fyrir hendi sem leiði til frekari bótaskyldu af hálfu stefndu.
Krafa stefndu um sýknu af dómkröfum stefnanda sé í fyrsta lagi á því reist að viðbótarbótakrafa stefnanda vegna líkamstjóns, sem í þessu máli sé krafist greiðslu á og stefnandi telji að rekja megi til umferðarslyssins […] apríl 2005, hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað með birtingu stefnu 20. apríl 2015. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla laga nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildi sérákvæði 99. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna gagnvart þeim sem ábyrgð beri, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi hafi fengið vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Stefndu byggi á því að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar stefnandi hafi höfðað mál um hana. Fram komi í yfirmatsgerð að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt að liðnu einu ári frá slysinu. Þá segi í yfirmatsgerðinni: „Að mati matsmanna verður ekki séð að síðari rannsóknir og/eða meðferðartilraunir hafi bætt ástand svo um muni“. Hafi því verið miðað við að stöðugleikatímapunktur, í skilningi laga nr. 50/1993, hafi verið […] apríl 2006. Eigi þetta sér einnig stoð í öðrum læknisfræðilegum gögnum málsins, svo sem læknisvottorði E frá 6. júlí 2006 þar sem segi: „Nú er liðið rúm[t] ár frá slysinu og ætt[u] allar afleiðingar að vera komnar í ljós og bata náð eins og hægt er. Mat mitt er að tími sé til örorkumats“. Um þetta megi einnig vísa til læknisvottorðs C frá 28. ágúst 2006 þar sem fram komi að ekki sé um frekari meðferðarmöguleika að ræða og tímabært sé að meta afleiðingar slyssins. Í málinu liggi ekki fyrir nein læknisfræðileg gögn um breytingu á heilsufari stefnanda á einhverju síðara tímamarki. Við mat á því hvenær fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1993 hefjist hafi skapast skýr dómaframkvæmd fyrir því að miða við lok þess árs þegar stöðugleikatímapunktur hafi verið ákveðinn af matsmönnum eða það tímamark þegar tjónþola hafi fyrst mátt vera ljóst að hann hefði hlotið varanleg mein af slysinu og þar með átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar. Fyrningarfrestur vegna kröfu stefnanda hafi því hafist 1. janúar 2007 og krafan því fyrnd 1. janúar 2011. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nokkuð sem staðið hafi í vegi fyrir því að hann hefði, fyrir það tímamark, getað gert viðeigandi ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar. Fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987 hafi því í síðasta lagi hafist við árslok 2006 og runnið út í árslok 2010. Mál þetta hafi verið höfðað rúmum fjórum árum síðar. Af hálfu stefnanda hafi fyrst þann 25. nóvember 2011 verið óskað eftir yfirlýsingu frá stefnda þess efnis að stefndi myndi ekki bera fyrir sig fyrningu í málinu um áramótin 2011/2012. Með tölvupósti 29. desember 2011 hafi stefndi fallist á að bera því ekki fyrir sig að bótakröfur stefnanda fyrndust áramótin 2011/2012 en þó með þeim fyrirvara að bótakröfur kynnu þegar að vera fyrndar, líkt og þær hafi verið.
Krafa stefndu um sýknu sé einnig reist á því að fram hafi farið fullnaðaruppgjör milli stefnanda og stefnda, Sjóvár Almennra trygginga hf., þann 30. mars 2007. Þáverandi lögmaður stefnanda hafi undirritað uppgjörið samkvæmt umboði. Eini fyrirvarinn sem gerður hafi verið við uppgjörið af hálfu stefnanda hafi varðað frádrátt vegna væntanlegra greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins sem dregnar hefðu verið frá varanlegri örorku að álitum (nú Sjúkratryggingum Íslands). Umræddur fyrirvari hafi fallið niður með greiðslu stefnda, Sjóvár Almennra trygginga hf., þann 4. apríl 2008. Fyrirvaralaust uppgjör liggi því fyrir í málinu hvað varði bætur vegna slyssins. Forsendur uppgjörsins hafi byggst á niðurstöðum fyrrnefndrar matsgerðar frá 25. febrúar 2007. Stefndu byggi á því að ekki sé unnt að taka upp bótauppgjör stefnanda vegna umrædds umferðarslyss nema endurupptaka sé heimil samkvæmt lögum nr. 50/1993. Stefnanda beri að sýna fram á að skilyrði endurupptöku séu uppfyllt, sbr. 11. gr. laga nr. 50/1993.
Þá byggi stefndu á því að stefnandi hafi ekki sannað að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku séu uppfyllt. Annað skilyrði þess að 11. gr. eigi við sé að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda í skilningi 11. gr. laga nr. 50/1993 frá því að uppgjörið fór fram. Stefndu telji að þetta ófrávíkjanlega skilyrði 11. gr. sé ekki uppfyllt og því verði endurupptaka málsins ekki byggð á 11. gr. laganna. Stefndu telji að yfirmatsgerð sé nýtt mat á afleiðingum slyssins en ekki mat á því hvort heilsufar stefnanda hafi versnað með ófyrirsjáanlegum hætti eftir fullnaðaruppgjör. Niðurstaða yfirmatsmanna um hækkun á varanlegum miska og örorku byggi á því að mat þeirra á afleiðingum slyssins sé annað en fyrri matsmanna en ekki því að heilsa stefnanda hafi versnað. Stefnandi hefði í matsbeiðni átt að beina þeim spurningum til matsmanna hvort heilsa stefnanda hafi versnað og hvort sú breyting hafi verið ófyrirsjáanleg er fullnaðaruppgjör fór fram. Þar sem stefnanda hafi láðst að gera það þá liggi það ekki fyrir. Af þeim ástæðum beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Stefnanda beri beri að sýna fram á að skilyrði 11. gr. séu uppfyllt. Í því tilliti nægi ekki að afla matsgerðar um hærra örorku- og miskastig en áður, heldur þurfi að afla sönnunar á því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið frá fyrra mati. Í yfirmatsgerðinni sé ekki verið að tala um að heilsa stefnanda hafi versnað eða að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á henni heldur felist munurinn á niðurstöðum matsgerða fremur í því að yfirmatsmenn meti eftirstöðvar heilahristings til hærra miskastigs en gert hafi verið í fyrri matsgerðum. Í yfirmatsgerð komi skýrt fram að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata að liðnu einu ári frá slysinu, þ.e. […] apríl 2006, og „[a]ð mati matsmanna verður ekki séð að síðari rannsóknir og/eða meðferðartilraunir hafi bætt ástand svo um muni.“ Breytt niðurstaða yfirmats varðandi varanlega örorku og varanlegan miska verði rakin til annarra þátta en ófyrirséðra breytinga á heilsufari stefnanda. Sé þá byggt á því af hálfu stefndu að hækkun varanlegrar örorku og varanlegs miska leiði þannig af ólíkum aðferðum sem beitt sé í umræddum matsgerðum og hugsanlega af betri og víðtækari rannsóknum, en ekki af ófyrirsjáanlegum breytingum á heilsufari stefnanda. Þannig hafi heilsufar stefnanda ekki versnað heldur verði breytt niðurstaða rakin til annarra þátta en breytinga á heilsu, þ. á m. til ólíkra matsaðferða.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu og komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda sé ekki fyrnd og skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 séu uppfyllt þá geri stefndu engar athugasemdir við útreikning á varanlegum miska og varanlegri örorku. Stefndu krefjist þess hins vegar að til frádráttar skaðabótunum komi þær greiðslur og réttindi til greiðslna sem kveðið sé á um í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Stefndu mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að skaðabætur stefnanda geti ekki sætt frekari frádrætti þar sem ekki hafi verið gerður fyrirvari um slíkt við fullnaðaruppgjör 30. mars. 2007. Um hafi verið að ræða fullnaðar- og lokauppgjör og því óþarft að gera fyrirvara um frekari frádrátt. Komist dómstóllinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að þröng skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku séu uppfyllt þá fari um útreikning á frekari bótum eftir lögum nr. 50/1993. Eigi það við um 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. rétt eins og hvert annað ákvæði laganna. Þá mótmæli stefndu því að einungis þær greiðslur sem stefnandi sannanlega hafi notið á stöðugleikatímapunkti geti komið til frádráttar enda ekkert í lögum nr. 50/1993 eða dómaframkvæmd sem styðji slíka túlkun auk þess sem það myndi vera í andstöðu við tilgang ákvæðisins. Ástæðan fyrir sérstöku ákvæði um frádrátt sé að tjónþoli eigi ekki að fá hærri bætur en þörf sé á til þess að bæta raunverulegt tjón. Því beri að sjálfsögðu við endurupptöku máls að taka mið af þeim upplýsingum um hagi tjónþola sem liggi fyrir, þ. á m. upplýsingum um greiðslur sem tjónþoli hafi sannanlega tekið við frá þriðja aðila. Í gögnum málsins komi ítrekað fram og sé ítrekað haft eftir stefnanda að heilsufarsvandræði hans sé að rekja til slyssins í apríl 2005. Þá sé í gögnum frá Tryggingastofnun, skýrslum lækna vegna umsóknar um örorkubætur, læknisvottorðum og örorkumötum lífeyrissjóða einungis vísað til þess að heilsufarsbresti stefnanda sé að rekja til slyssins 2005. Stefndu mótmæli því sérstaklega þeirri fullyrðingu stefnanda að hluti af þeim greiðslum sem stefnandi njóti frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum eigi rót sína að rekja til annarra atvika en umferðarslyssins. Sé ekkert í gögnum málsins sem styðji það. Sönnunarbyrði um slíkt hvíli á stefnanda. Þá sé ekki hægt að jafna saman örorkumati samkvæmt lögum nr. 50/1993 og lögum um almannatryggingar líkt og gert sé í stefnu enda um örorkumöt á ólíkum grunni að ræða. Varðandi frádrátt á bótum fyrir varanlegan miska sé vísað til skýrs orðlags 4. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993 þar sem vísað sé til þess að um greiðslur frá þriðja manni fari eftir 4. mgr. 5. gr. laganna.
Stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. hafi strax gert lögmanni stefnanda grein fyrir því þegar óskað hafi verið endurupptöku að ef á frekari kröfur reyndi í málinu yrði óskað eftir því að lögð yrðu fram gögn um greiðslur eða réttindi frá þriðja aðila sem komið gætu til frádráttar. Með tölvupósti 19. maí 2014 hafi stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., óskað eftir því að lögmaður stefnanda myndi senda stefnda þau gögn sem þörf væri á til að afla eingreiðsluútreiknings í málinu. Þá hafi með tölvupósti 2. júlí 2014 verið óskað eftir því að tryggingarstærðfræðingur myndi reikna eingreiðsluverðmæti miðað við 40 stiga miska og 45% varanlega örorku. Af gögnum málsins væri ljóst að stefnandi fengi nú greiðslur frá tveimur lífeyrissjóðum sem miðast við greiðslur 75% af fullum örorkulífeyri. Stefnandi hafi þannig fengið greiddan 100% örorkulífeyri til febrúar 2009. Áætlað hafi verið að endurmat á orkutapi stefnanda færi fram í apríl 2015. Í útreikningum tryggingastærðfræðingsins sé gengið út frá því að að loknu endurmati hjá lífeyrissjóðunum í apríl 2015 myndi varanleg örorka stefnanda miðast við 45% í samræmi við örorkumat hans á stöðugleikapunkti og greiðslur frá sjóðunum falla niður í kjölfarið þar sem réttur hjá sjóðunum miðast við lágmarksörorku 50%. Samkvæmt útreikningum tryggingastærðfræðingsins þá hafi 40% af eingreiðsluverðmæti greiðslna frá lífeyrissjóðum verið 1.243.392 krónur, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Þá liggi einnig fyrir að stefnandi hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og skv. útreikningum tryggingarstærðfræðingsins nemi 2/3 af eingreiðsluverðmætinu að teknu tilliti til skatta 11.160.131 krónu, verðmæti barnalífeyris frá Tryggingastofnun sé 3.515.398 krónur og verðmæti vegna væntanlegs barnalífeyris frá Tryggingastofnun 1.617.592 krónur. Samtals næmi því eingreiðsluverðmæti þeirra greiðslna sem kæmu til frádráttar skv. 4. mgr. 5. gr. og 4. mgr. 4. gr. 17.536.613 krónum. Því væri ljóst að frádrátturinn væri umtalsvert hærri fjárhæð en útreiknaðar skaðabætur vegna viðbótarkröfu stefnanda og því engin greiðsluskylda fyrir hendi jafnvel þó skilyrðum 11. gr. væri fullnægt. Stefndu hafi aflað útreiknings frá reynslumiklum tryggingastærðfræðingi og vilji stefnandi vefengja þá útreikninga sé honum frjálst að afla nýrra útreikninga frá öðrum tryggingastærðfræðingi. Stefndu mótmæla því sem fram komi í stefnu að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna barnalífeyris eigi ekki að koma til frádráttar. Barnalífeyrir sé greiðsla til foreldra og það sé örorka foreldris sem skapi réttinn til bótanna. Um þetta sé einnig vísað til dómafordæma. Sé ekki fallist á að greiðslur eða réttindi til greiðslna frá þriðja aðila séu að öllu leyti tilkomnar vegna slyssins heldur eigi sér aðrar orsakir eða skýringar þá sé þess krafist að þær verði dregnar frá að svo miklu leyti sem þær séu taldar að rekja til slyssins.
Stefndu mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Um lagarök vísa stefndu einkum til umferðarlaga nr. 50/1987, skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði. Þá vísa stefndu til 99. gr. laga nr. 50/1987 vegna fyrningar kröfunnar og til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, vegna frádráttar frá dæmdum skaðabótum. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Stefnandi varð fyrir líkams- og heilsutjóni í umferðarslysi […] apríl 2005. Á grundvelli matsgerðar tveggja lækna frá 25. febrúar 2007 varð að samkomulagi með aðilum 30. mars 2007 að stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. greiddi stefnanda skaðabætur út frá mati á varanlegum miska og varanlegri örorku. Yfirmatsmenn mátu á ný örorku og miska stefnanda 28. apríl 2014 og þá til hækkunar á báðum þáttum. Einnig var stöðugleikatímapunktur færður fram um 6 mánuði. Stefnandi reisir skaðabótakröfu sína á því að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 um endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku séu uppfyllt. Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda á þeim grundvelli að krafa stefnanda sé fyrnd. Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd krefjast stefndu sýknu á þeim grundvelli að ekki séu uppfyllt skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 til endurupptöku málsins. Að því gengnu krefjast stefndu sýknu eða lækkunar á skaðabótakröfunni á grundvelli frádráttarreglu 4. mgr. 5. gr., sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993.
Fyrning skaðabótakröfu stefnanda fer eftir 99. gr. laga nr. 50/1987. Samkvæmt ákvæðinu fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII kafla laganna, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur þessar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Af dómafordæmum Hæstaréttar verður ráðið að auknar afleiðingar tjónsatburða geti haft áhrif á það hvenær skemmri fyrningarfresturinn telst hefjast þegar um endurupptökumál samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1993 er að ræða. Ræðst upphaf frestsins í því tilviki af matskenndum atriðum og fer eftir atvikum máls í hverju tilviki fyrir sig. Er þá einkum horft til þess hvenær tjónþoli fékk vitneskju um að ástand hans myndi ekki breytast til batnaðar og þar með átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Hefur af þessum ástæðum verið talið að fresturinn geti í sumum tilvikum ekki hafist fyrr en nokkrum árum eftir tjónsatburð.
Í skilyrði um ófyrirsjáanlegar breytingar í 11. gr. laga nr. 50/1993 felst meðal annars að tjónþoli þarf að sýna fram á að breytingar hafi orðið á heilsu hans frá því að það mat, sem grundvallaði uppgjör hans, var gert. Í þessu felst meðal annars að tjónþoli getur ekki leitað endurupptöku samkvæmt ákvæðinu, á grundvelli nýs mats um hærra miska- eða örorkustig en áður, ef hækkunina er ekki að rekja til breytinga sem orðið hafa, heldur til þess að hið eldra mat er of lágt. Að auki þurfa breytingarnar að hafa verið ófyrirsjáanlegar þegar hið eldra uppgjör fór fram. Af þessu leiðir að það nægir tjónþola ekki eitt og sér að afla matsgerða um hærra örorku- og miskastig en áður, heldur þarf hann jafnframt að afla sér sönnunar um að breytingar hafi orðið frá hinu eldra mati og að þær hafi verið ófyrirsjáanlegar. Í matsbeiðni stefnanda frá 25. september 2013, sem liggur til grundvallar yfirmati í málinu, er þess óskað að matsmenn láti í té skriflegt og rökstutt álit um hvenær heilsufar stefnanda var orðið stöðugt samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, hver sé varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins samkvæmt 1. og 2. ml. 1. mgr. 4. gr. laganna og hver sé varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins, metin samkvæmt 1.-3. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt þessu voru matsmenn ekki spurðir beint að því hvort breytingar hefðu orðið á heilsufari stefnanda frá fyrra mati, sem lá til grundvallar uppgjöri hans, þannig að ófyrirsjáanlegar hafi verið. Af dómaframkvæmd verður ráðið að bæta megi úr þessum ágalla ef fyrirliggjandi gögn og skýrslur, þ. á m. matsmanna, eru skýr um þetta.
F geðlæknir og yfirmatsmaður lýsti því hér fyrir dómi að verulegar breytingar hefðu orðið á heilsufari stefnanda frá slysinu. Erfitt væri að segja til um hvenær eftir 2005 þær hafi komið fram. Að því er varanlega örorku varðar lýsa yfirmatsmenn því í matsgerð sinni að rúm níu ár væru liðin frá slysinu og telji matsmenn hæpið að stefnandi komist á almennan vinnumarkað með þeim hætti sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrri matsgerðum. Komi þar fyrst og fremst til vitræn skerðing, sem ekki hafi verið metin í fyrri matsgerðum. Telji matsmenn ekki útilokað að stefnandi komist til einhverra einhæfra léttari starfa á almennum vinnumarkaði en möguleikar á slíkum störfum séu reyndar fremur takmarkaðir. Með hliðsjón af þessu meta yfirmatsmenn stefnanda 45% varanlega örorku. Að því er varanlegan miska varðar kemur fram í yfirmatsgerð að lagt sé til grundvallar að um sé að ræða eftirstöðvar andlitsáverka, háls- og baktognunar, auk tognunar á mjöðm og áverka á hné. Þá teljist stefnandi búa við eftirstöðvar höfuðhöggs. Hafi höfuðhöggið haft mjög víðtækar afleiðingar fyrir stefnanda. Hann sé með alvarleg eftirheilahristingseinkenni sem lýsi sér meðal annars í miklum kvíða, verulegum minnistruflunum og öðrum taugasálfræðilegum afleiðingum. Sé það niðurstaða yfirmatsmanna að þessar breytingar séu allar áunnar og orsakaðar af háorku höfuð- og heilaáverka sem stefnandi hafi fengið í slysinu 2005. Varanlegur miski vegna stoðkerfiseinkenna sé metinn 20 stig. Stefnandi hafi verulega vitræna skerðingu eftir heilaskaðann. Sú skerðing hafi veruleg áhrif á daglega færni hans. Sé miski vegna heilaskaðans 20 stig.
Í læknisvottorði G heila- og taugaskurðlæknis frá 3. júní 2010 kemur fram að stefnandi hafi kvartað undan dofa í höndum og fótum. Hafi H augnlæknir gert ýtarlega augnskoðun og sjónsviðsrannsókn. Sjón hafi reynst í góðu lagi en ekki tekist að framkvæma nákvæma rannsókn þar sem stefnandi hafi átt erfitt með að fylgja fyrirmælum læknisins. Í niðurlagi kemur fram að stefnandi sé illa haldinn af verkjum í höfði, hálsi, baki, mjöðmum og hnjám og hafi tíminn sýnt fram á að hann sé með verulega skerta hæfni til vinnu og náms. Í stofunótu I taugasjúkdómalækni frá 9. mars 2010, kemur meðal annars fram að stefnandi hafi komið til læknisins kvartandi um að hann væri alverkja um líkamann frá slysi. Væri hann með stöðugan höfuðverk og myndi ekki nokkurn skapaðan hlut frá degi til dags. Hafi hann ekki getað starfað frá slysinu og væri að fara að taka mál sitt upp aftur.
Stefnandi aflaði yfirmatsgerðarinnar í máli þessu. Ber hann þar með ábyrgð á og áhættu af því að yfirmatsgerðin nýtist við sönnun á tjóni hans. Áður var því lýst að stefnandi lagði ekki þá spurningu fyrir matsmenn hvort breytingar hefðu orðið á heilsufari stefnanda frá fyrra mati, sem lá til grundvallar uppgjöri hans, þannig að ófyrirsjáanlegar hafi verið. Yfirmatsmaðurinn F gat fyrir dóminum ekki staðhæft hvenær hinar verulegu breytingar á líðan stefnanda hafi komið fram. Framangreind vottorð læknanna G og I, sem eru frá í mars og júní 2010, leiða líkur að því að stefnandi hafi með vottorðunum fyrst getað fengið vitneskju um þá vitrænu skerðingu er við var að glíma og þau stoðkerfiseinkenni er yfirmatsmenn styðja mat sitt einkum við, þannig að ástand hans myndi ekki breytast til batnaðar. Stefnandi höfðaði mál þetta með stefnu 20. apríl 2015. Stefndu lýstu hins vegar yfir gagnvart stefnanda á fyrri stigum að stefndu myndu ekki bera fyrir sig fyrningu um áramótin 2011 til 2012 og síðar, væru kröfurnar ekki þegar fyrndar. Kröfur stefnanda hefðu samkvæmt áðursögðu að réttu lagi ekki fyrnst fyrr en í fyrsta lagi í mars 2014. Í ljósi áðurnefndrar yfirlýsingar geta stefndu ekki borið fyrir sig fyrningu í málinu.
Skilyrði fyrir endurupptöku samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1993 eru samkvæmt áðursögðu þau að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og að breytingar feli í sér að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Í matsgerð yfirmatsmanna kemur fram að þeir hafi tekið til skoðunar læknisvottorð er lágu til grundvallar undirmati, undirmatið sjálft og síðan síðar tilkomin læknisvottorð vegna stefnanda. Hér að framan var gerð grein fyrir vottorðum G frá 3. júní 2010, sem meðal annars vísar til læknisvottorðs H augnlæknis, og nótu I frá 9. mars s.á. Yfirmatsmenn rekja læknisvottorð þessi í mati sínu, auk þess sem að gerð er grein fyrir vottorði J augnlæknis, K bæklunarskurðlæknis og L sérfræðings í geð- og embættislækningum. Eins er gerð grein fyrir taugasálfræðilegri athugun D taugasálfræðings. Svo sem fyrr var gerð grein fyrir var það niðurstaða yfirmatsmanna að varanlegur miski vegna stoðkerfiseinkenna væri 20 stig og önnur 20 stig vegna heilaskaða. Í undirmati var varanlegur miski metinn 20 stig. Að því er varanlega örorku varðar var það niðurstaða yfirmatsmanna að hún væri rétt metin 45% og hækkaði um 25% stig þar sem vitræn skerðing hefði ekki áður verið metin. Af þessum samanburði verður ráðið að það hafi fyrst og síðast verið hin vitræna skerðing er leiddi til hækkunar bæði varðandi varanlega örorku og varanlegan miska. Af frummati verður ráðið að vitræn skerðing hafi ekki verið til skoðunar og verður ekki séð af matsgerðinni eða gögnum henni til stuðnings að þessi þáttur hafi verið til skoðunar áður. Hér er því um ófyrirsjáanlega breytingu að ræða á heilsu brotaþola í skilningi 11. gr. laga nr. 50/1993. Þá nemur breytingin 25% að því er varanlega örorku varðar og önnur 20 stig að því er varanlegan miska varðar. Samkvæmt því og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 9/2013, sem upp var kveðinn 13. júní 2013, er báðum skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 sem heimila endurupptöku, fullnægt.
Stefndu gera ekki athugasemdir við útreikning á dómkröfu stefnanda varðandi varanlegan miska og varanlega örorku. Stefndu gera á hinn bóginn kröfu um að til frádráttar komi greiðslur samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt téðu ákvæði dragast frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns eingreiddar örorkubætur slysatrygginga, samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega dragast frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laganna fer, að því er varanlegan miska varðar, um greiðslur frá þriðja manni eftir 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.
Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar Íslands, sem meðal annars kemur fram í dómi í máli nr. 242/2011, sem upp var kveðinn 8. desember 2011, girðir endurupptaka á grundvelli 11. gr. laga nr. 50/1993, ekki fyrir að stefndi Sjóvá Almennar tryggingar hf. geti komið við frekari frádrætti en áður var gert í uppgjörinu 30. mars 2007. Þá takmarka lög nr. 50/1993 ekki frádrátt við stöðugleikapunkt.
Stefndi hefur í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 lagt fram útreikning tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda. Er miðað við stöðugleikatímapunkt […] apríl 2006, 40 stiga varanlegan miska og 45% varanlega örorku. Samkvæmt yfirlitinu eru 40% dregin frá af reiknuðu eingreiðsluverðmæti vegna greiðslna frá lífeyrissjóði, miðað við 4,5% ársafvöxtun, alls 1.243.392 krónur. Er frádráttur þessi í samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Þá eru dregnar frá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, en um er að ræða greiðslur vegna örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar og tekjutryggingar. Miðað er við 2/3 af eingreiðsluverðmæti að teknu tilliti til skatta, og að teknu tilliti til 4,5% ársafvöxtunar nemur frádráttur vegna þessara greiðslna 11.160.131 krónu. Þá er tekið tillit til þess að stefnandi hafi fengið greiddan örorkustyrk vegna barns og síðan barnalífeyri vegna tveggja barna. Nemur barnalífeyrir samtals 3.515.398 krónum. Þá nemur verðmæti væntanlegs barnalífeyris 1.617.692 krónum. Með hliðsjón af þeim grunnrökum sem fram koma í dómi Hæstaréttar í dómi í máli nr. 357/2004, sem upp var kveðinn 17. febrúar 2005, verður fallist á með stefndu að greiðslur þessar komi til frádráttar kröfu stefnanda. Að virtum greiðslum samkvæmt uppgjöri aðila og að teknu tilliti til frádráttarliða hér að framan nemur frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1993 hærri fjárhæð en kröfur stefnanda í málinu. Í því ljósi verða stefndu sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Styrmir Gunnarsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefndu Dagmar Arnardóttir héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndu, Sjóvá Almennar tryggingar hf. og B, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.800.000 krónur.