Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2002
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Dánarbætur
- Óvígð sambúð
- Meðalganga
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 17. október 2002. |
|
Nr. 73/2002. |
Inga Lára Reimarsdóttir(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) Antoni Frey Karlssyni og(Þorsteinn Einarsson hrl.) Söndru Ósk Karlsdóttur(Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Dánarbætur. Óvígð sambúð. Meðalganga. Gjafsókn.
I hafði verið í óvígðri sambúð með K í sem næst sex ár þegar K lést í flugslysi í Skerjafirði í ágúst 2000. Saman áttu þau drenginn A, fæddan 1998, en S, dóttir K sem fædd var 1990, var einnig á heimili þeirra. Eftir lát K fór I ein með forsjá beggja barnanna. Meðan á sambúðinni stóð keypti I svokallaða F-plús fjölskyldutryggingu hjá VÍS. VÍS vefengdi ekki að félaginu bæri að greiða dánarbætur samkvæmt vátryggingunni vegna dauða K og að hann hafi fallið undir skilgreiningu tryggingarskilmálanna um það til hverra vátryggingin tæki. VÍS taldi hins vegar þau A og S eiga tilkall til bótafjárins, þar sem samkvæmt tryggingarskilmálunum skyldi greiða „nánustu vandamönnum“ hins látna bæturnar. K og I hafi ekki verið í hjúskap en samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga væri maki, sem hinn látni hafi verið í hjúskap með, nánasti vandamaður, en að honum frágengnum væru það börn hins látna. Óumdeilt var í málinu að K væri hluti fjölskyldu I og að vátryggingin hafi af þeirri ástæðu tekið til hans. Talið var að ekki yrði horft framhjá því sérstaka einkenni tryggingarinnar að vera fjölskyldutrygging. Vátryggingarverndin hafi beinst að fjölskyldunni sem einingu, sem aftur leiddi til þeirrar niðurstöðu að rétthafar bóta væru þeir sömu í því tilviki að dauðaslys raskaði getu fjölskyldunnar til að afla fjár til framfærslu sinnar með vinnu. Var fallist á með I að skýra yrði skilmálana svo að hún væri rétthafi dánarbótanna eftir K. Komu skýringarreglur laga um vátryggingarsamninga því ekki til álita við úrlausn um það hver væri rétthafi dánarbótanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2002 og krefst þess að stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. verði dæmdur til að greiða sér 3.268.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. nóvember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndu Anton Freyr Karlsson og Sandra Ósk Karlsdóttir krefjast staðfestingar héraðsdóms, en þó þannig að vextir af tildæmdum fjárhæðum greiðist frá 21. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 samkvæmt 7. gr. vaxtalaga og frá þeim degi til 9. nóvember sama árs samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, en frá þeim degi til greiðsludags krefjast þau dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðastnefndra laga. Þau krefjast einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.
I.
Áfrýjandi var í óvígðri sambúð með Karli Frímanni Ólafssyni þegar hann lést í flugslysi í Skerjafirði 7. ágúst 2000. Óumdeilt er að sambúð þeirra hafði þá staðið í sem næst sex ár. Saman áttu þau stefnda Anton, sem fæddur er 1998, en stefnda Sandra, sem er dóttir Karls og fædd 1990, var einnig á heimili þeirra. Eftir lát Karls hefur áfrýjandi farið með forsjá beggja barnanna.
Meðan á sambúðinni stóð keypti áfrýjandi vátryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., og eru endurnýjunarkvittun félagsins frá árinu 2000 og skilmálar fyrir tryggingunni meðal málskjala. Er fyrirsögn skilmálanna „Víðtæk fjölskyldutrygging F-plús“. Meðal þess, sem tekið var fram að tryggingin bætti, var tjón af völdum slyss, sem vátryggður yrði fyrir í frístundum, hvort heldur það leiddi til tímabundins missis starfsorku, varanlegrar læknisfræðilegrar örorku eða dauða. 1. gr. I. kafla skilmálanna hafði að geyma ákvæði um það hverjir væru vátryggðir, en hún hljóðaði svo: „Vátryggðir eru vátryggingartaki og fjölskylda hans með sameiginlegt lögheimili á Íslandi, sameiginlegt heimilishald og búa á sama stað.“ Í 3. gr. IV. kafla skilmálanna var ákvæði um rétthafa dánarbóta samkvæmt tryggingunni, en í 1. mgr. hennar sagði: „Valdi slys dauða vátryggðs innan eins árs frá slysdegi, greiðist nánustu vandamönnum fjárhæð sú sem tilgreind er í vátryggingarskírteininu eða endurnýjunarkvittun ...“. Í 2. mgr. sömu greinar sagði: „Hafi vátryggður engan á framfæri sínu greiðast einungis 20% af dánarbótum slysatryggingarinnar. Með framfæranda er átt við þann sem sannanlega hefur barn eða fullorðinn einstakling á framfæri sínu.“
Við skýrslugjöf fyrir dómi skýrði áfrýjandi frá því að sölumaður vátrygginga frá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi komið á heimili hennar og Karls og boðið trygginguna til kaups. Hafi Karl spurt sölumanninn ítarlega um mörg atriði varðandi trygginguna, þar á meðal um það hverjum yrðu greiddar bætur við dauða annað hvort hans sjálfs eða áfrýjanda. Hafi tryggingasalinn svarað á þann veg að því þeirra, sem eftir lifði, yrðu þá greiddar bæturnar. Sagði áfrýjandi jafnframt að hún og Karl hafi ákveðið að tryggingin yrði tekin í nafni hennar þar eð íbúð hafi verið skráð á hennar nafn.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. vefengir ekki að honum beri að greiða dánarbætur samkvæmt vátryggingunni vegna dauða Karls og að hann hafi fallið undir skilgreiningu 1. gr. tryggingarskilmálanna um það til hverra vátryggingin tæki. Stefndi fellst hins vegar ekki á að áfrýjandi sé rétthafi bótanna. Upphaflega hélt hann fram að þær ættu að falla til dánarbús Karls, en eftir að skiptastjóri búsins lýsti yfir að það gerði ekki tilkall til bótafjárins taldi hann meðstefndu Anton og Söndru eiga rétt á því. Bendir hann á að samkvæmt tryggingarskilmálunum skyldi greiða „nánustu vandamönnum“ hins látna bæturnar. Karl og áfrýjandi hafi ekki verið í hjúskap, en samkvæmt 105. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sbr. 122. gr. sömu laga, væri maki, sem hinn látni hafi verið í hjúskap með, nánasti vandamaður. Að honum frágengnum væru það börn hins látna.
II.
Svo sem fram er komið nefndist umrædd vátrygging „víðtæk fjölskyldutrygging F-plús“. Samkvæmt 1. gr. skilmála fyrir henni nutu þeir verndar, sem tilheyrðu fjölskyldunni, svo sem hún var þar skilgreind. Var tryggingunni ætlað að bæta tjón af margs kyns vá, sem stafað gat að tryggingartaka, fjölskyldu hans og heimili. Óumdeilt er í málinu að Karl var hluti fjölskyldu áfrýjanda og að vátryggingin hafi af þeirri ástæðu tekið til hans.
Við úrlausn um það hver eða hverjir séu rétthafar bóta sem nánustu vandamenn hins látna í merkingu 3. gr. IV. kafla tryggingarskilmálanna verður ekki horft framhjá þessu sérstaka einkenni tryggingarinnar. Vátryggingarverndin beindist að fjölskyldunni sem einingu, sem aftur leiðir til þeirrar niðurstöðu að rétthafar bóta voru þeir sömu í því tilviki að dauðaslys raskaði getu fjölskyldunnar til að afla fjár til framfærslu sinnar með vinnu. Ekki er vefengt að framfærsla fjölskyldunnar hafi hvílt á Karli ásamt áfrýjanda og lagði dauði hans því auknar byrðar á herðar áfrýjanda, sem eftir það var ein ábyrg fyrir framfærslu fjölskyldunnar. Þá kom sá þáttur vátryggingarinnar, sem tengdist framfærslu, jafnframt eins og áður segir fram í 2. mgr. 3. gr. skilmálanna með tilteknum hætti. Að virtu öllu framanröktu verður fallist á með áfrýjanda, að skýra verði 3. gr. IV. kafla skilmálanna svo að hún sem bæði vátryggingartaki og sambúðarkona sé rétthafi dánarbótanna eftir Karl. Koma skýringarreglur 105. gr. laga nr. 20/1954 því ekki til álita við úrlausn um það hver sé rétthafi dánarbótanna. Verður krafa áfrýjanda á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt því tekin til greina, en kröfum stefndu Antons og Söndru á hendur félaginu jafnframt hafnað.
Áfrýjandi beindi kröfu sinni að hinu stefnda félagi með bréfi 27. nóvember 2000. Félagið neitaði greiðsluskyldu, en ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Verður það dæmt til að greiða áfrýjanda kröfufjárhæðina með dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði, og verður upphafstími þeirra miðaður við þann dag er 14 dagar voru liðnir frá því félagið átti þess kost að taka afstöðu til kröfunnar, sbr. 24. gr. laga nr. 20/1954.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi og stefndu Anton og Sandra hafa fengið gjafsókn fyrir Hæstarétti og tvö hin fyrstnefndu höfðu einnig gjafsókn í héraði. Verður gjafsóknarkostnaður stefndu Söndru fyrir Hæstarétti og gjafsóknarkostnaður áfrýjanda og stefnda Antons í héraði og fyrir Hæstarétti ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiði áfrýjanda, Ingu Láru Reimarsdóttur, 3.268.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. er sýkn af kröfum stefndu Antons Freys Karlssonar og Söndru Óskar Karlsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar á báðum dómstigum, samtals 500.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda Antons Freys Karlssonar í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 250.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefndu Söndru Óskar Karlsdóttur fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, samtals 125.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. október sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ingu Láru Reimarsdóttur, kt. 180374-5319, Stigahlíð 4, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, er stefnda tók við stefnu og málið þingfest 8. febrúar sl.
Dómkröfur aðalstefnanda eru að stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. verði gert að greiða stefnanda 3.268.000 krónur „auk vanskilavaxta p.a., skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, frá 27.11.2000 til greiðsludags." Þá er þess krafist að gjafsóknarkostnaður stefnanda verði greiddur úr ríkissjóði og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur aðalstefnda eru að stefndi verði sýknaður af kröfu stefnanda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, að teknu tilliti til skyldu stefnda til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Þorsteinn Einarsson hrl. krefst þess fyrir hönd meðalgöngustefnanda, Antons Freys Karlssonar, kt. 111098-2559, Stigahlíð 4, Reykjavík, að aðalstefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmt til að greiða honum 1.634.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. nóvember 2000 til greiðsludags. Þá er þess krafist að aðalstefnda verði dæmt til að greiða meðalgöngustefnanda, Anton Frey Karlssyni, málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Meðalgöngustefnandi, Anton Freyr Karlsson, gerir engar kröfur á hendur meðalgöngustefndu, Ingu Láru Reimarsdóttur.
Páll Arnór Pálsson hrl. krefst þess fyrir hönd meðalgöngustefnanda, Söndru Óskar Karlsdóttur, kt. 130690-2549, Óðinsgötu 21, Reykjavík, að aðalstefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., verði dæmt til að greiða henni 1.634.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. nóvember 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags. Þá er þess krafist að meðalgöngustefndu verði dæmd in solidum til að greiða meðalgöngustefnanda, Söndru Ósk Karlsdóttur, málskostnað að mati dómsins.
Meðalgöngustefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., gerir þær dómkröfur í meðalgöngusök, að meðalgöngustefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmt til að greiða meðalgöngustefnendum hvoru fyrir sig 1.634.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. ágúst 2000 til uppsögu endanlegs dóms í málinu, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Vátryggingafélag Íslands hf. krefst og málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnenda að mati dómsins.
Meðalgöngustefnda, Inga Lára Reimarsdóttir, gerir þær dómkröfur í meðalgöngusök að „dánarbætur þær, sem um er deilt í máli þessu vegna andláts Karls Frímanns Ólafssonar í flugslysi þ. 7. ágúst 2000, verði dæmdar aðalstefnanda, þ.e. að stefnda Vátryggingafélag Íslands verði gert að greiða aðalstefnanda kr. 3.268.000,00 auk vanskilavaxta p.a., skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, frá 27.11.2000 til greiðsludags." Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu í meðalgöngusök.
Með bréfi 28. mars 2001 veitti dómsmálaráðherra stefnanda, Ingu Láru Reimarsdóttur, gjafsókn í málinu og með bréfi 18. maí 2001 veitti dómsmálaráðherra meðalgöngustefnanda, Antoni Frey Karlssyni, gjafsókn í málinu.
Málavextir eru þeir að stefnandi, Inga Lára Reimarsdóttir, var vátryggingartaki hjá stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., með vátryggingarskilmálum sem bera heitið Víðtæk fjölskyldutrygging F plús, nr. GH20. Skírteinið ber númerið 2000-05-6933336 og gildistími þess var frá 1. maí 2000 til 1. maí 2001. Hluti tryggingarinnar er svonefnd frítímaslysatrygging, þar sem dánarbætur eru einn þáttur bóta. Stefnandi var í sambúð með Karli Frímanni Ólafssyni, kt. 070965-3139, um nokkurra ára skeið. Karl Frímann lést í flugslysi 7. ágúst 2000. Á slysdegi námu dánarbætur frítímaslysatryggingar 3.268.000 krónum.
Aðalstefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., hafnar ekki bótaskyldu en telur, svo sem málum er háttað, ekki lagaskilyrði til annars en að greiða bæturnar beint til barna Karls Frímanns, Söndru Óskar og Antons Freys.
Aðalstefnandi, Inga Lára Reimarsdóttir, byggir á því að í 3. gr. IV. kafla vátryggingarskilmálanna segi að valdi slys dauða vátryggðs verði nánustu vandamönnum greidd fjárhæð sú sem tilgreind er í vátryggingarskírteininu. Hún sé rétthafi sem nánasti vandamaður enda liggi það beinast við þar sem hún sé vátryggingartaki, en almennt eigi að túlka skilmála trygginga tryggingartaka til hagsbóta. Þar sem um sé að ræða slysa- og sjúkratryggingu beri að beita IV. kafla laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 um tilvik þetta. Í 122. gr. laganna segi að 102. til 106. gr. laganna gildi um slysatryggingar og sjúkratryggingar eftir því sem við á. Mótmæla verði því viðhorfi aðalstefnda að hafna greiðslu til aðalstefnanda með vísan til 104. gr. laganna þar sem kveðið sé á um að greiða eigi vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka og hafi hann eigi tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, skuli fjárhæðin renna til dánarbús hans. Aðalstefnandi sé vátryggingartaki en Karl Frímann Ólafsson hinn vátryggði í því tilviki sem hér sé til úrlausnar. Ákvæði laga um vátryggingarsamninga taka ekki eftir orðanna hljóðan beint til atviks eins og hér um ræðir, 102.-106. gr. laganna eigi samkvæmt orðanna hljóðan við um líftryggingar og þá sé gengið út frá því að vátryggingartaki sé sami og vátryggður. Hér sé hins vegar aðalstefnandi málsins vátryggingartaki en vátryggður Karl Frímann Ólafsson. Rétthafar vátryggingarfjárhæðar séu nánustu vandamenn hins látna og ber því að líta til ákvæða 5. mgr. 105. gr. laga um vátryggingarsamninga þar sem segir að hafi vátryggingartaki tilnefnt nánustu vandamenn sína teljist maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi þá börn hans. Aðalstefnandi, sambýliskona hins látna og vátryggingartaki, verði að teljast rétthafi í skilningi vátryggingarsamningsins.
Sýknukrafa aðalstefnda er á því reist, að rétthafi dánarbótanna séu börn Karls Frímanns en ekki stefnandi. Um greiðslu bótanna fari samkvæmt IV. kafla laga nr. 20/1954, en í 122. gr. þeirra segi, að ákvæði 102.-106. gr. gildi um slysatryggingar, eftir því sem við á. Samkvæmt þessu fari úrslit málsins eftir túlkun 105. gr. laganna. Í 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 segi orðrétt: „Hafi vátryggingartaki tilnefnt nánustu vandamenn sína, telst maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi, þá börn hans, og séu þau heldur eigi á lífi, þá erfingjar hans, allt samkvæmt reglum þeim, er áður var lýst." Samkvæmt íslenskri málvenju megi telja vafalaust að orðið maki taki fyrst og fremst til þess, sem verið hefur í hjúskap með viðkomandi. Orðið taki nú sjálfsagt einnig til þeirra, sem eru í skráðri sambúð. En orðið maki geti ekki tekið til þess sem er í óskráðri sambúð, enda tilviljunarkennt hvenær og hvernig slík sambúð hefst og henni lýkur. Jafnvel þótt vera megi að aðalstefnandi og Karl Frímann kunni að hafa búið saman um nokkurra ára skeið, nægi það ekki til þess að hún verði talinn „nánasti vandamaður" hans í skilningi 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954. Líta ber á að sambúðin hafi ekki verið skráð og ljóst sé að aðalstefnandi nýtur ekki erfðaréttar eftir Karl Frímann og geti ekki reist rétt á ákvæðum hjúskaparlaga.
Af hálfu meðalgöngustefnenda er byggt á því að samkvæmt vátryggingarskilmálum, er hér um ræðir, skuli greiða dánarbætur til nánustu vandamanna vátryggðs. Í 5. mgr. 105. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 segi að börn hins látna teljist nánustu vandamenn sé maki eigi á lífi. Aðalstefnandi hafi ekki verið í hjúskap með hinum látna og geti því ekki talist nánasti vandamaður hans. Þá sé til þess að líta að barn njóti erfðaréttar eftir foreldi sitt en ekki sambúðaraðili foreldris.
Af hálfu meðalgöngustefndu, Ingu Láru Reimarsdóttur, er á því byggt að aðalstefnda og meðalgöngustefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi í greinargerð sinni eingöngu krafist sýknu á grundvelli þeirra reglna að bæturnar skuli falla til dánarbús Karls Frímanns Ólafssonar. Beri því að dæma félagið til að greiða aðalstefnanda, Ingu Láru Reimarsdóttur, svo sem hún gerir kröfu til, enda hafi félagið ekki reist kröfur sínar á persónulegum rétti barnanna.
Af hálfu meðalgöngustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., er á því byggt að af hálfu dánarbús Karls Frímanns Ólafssonar hafi verið lýst yfir, að dánarbúið eigi ekki aðild að málinu og geri ekki kröfur í því. Beri þá samkvæmt vátryggingarskilmálum og ákvæðum 105 gr. laga nr. 20/1954 að greiða bæturnar til barna hins látna, helming bóta til hvors. Þá er talið að engin efni séu til að dæma félagið til að greiða dráttarvexti fyrr en frá uppsögu endanlegs dóms í málinu.
Niðurstaða: Í IV. kafla vátryggingarskilmála, er aðilar byggja á í máli þessu, segir í 1. mgr. 3. gr. er fjallar um dánarbætur: „Valdi slys dauða vátryggðs ... greiðist nánustu vandamönnum fjárhæð sú sem tilgreind er í vátryggingarskírteininu ..." Óumdeilt er að Karl Frímann Ólafsson, er lést af slyssförum 7. ágúst 2000, var vátryggður samkvæmt vátryggingarskilmálum er hér um ræðir. Þá er ekki deilt um að skýra beri orðin nánustu vandamenn út frá ákvæði 5. mgr. 105. gr. laga um vátryggingar-samninga nr. 20/1954 þar sem segir: „Hafi vátryggingartaki tilnefnt nánustu vandamenn sína, telst maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi, þá börn hans ..."
Af hálfu aðalstefnanda er haldið fram að réttarþróun hafi leitt til þess að orðið maki í greindu lagaákvæði nái nú til sambúðarkonu í óvígðri sambúð. Ekki verður fallist á það. Að sönnu er víða tekið fram í lögum, er sett hafa verið síðan lög um vátryggingarsamninga öðluðust gildi, að óvígð sambúð beri sömu réttaráhrif í ákveðnum tilvikum og hjónaband. Allt að einu verður óvígð sambúð ekki talin jafnast á við hjónaband að lögum nema þar sem það er skýrt tekið fram.
Meðalgöngustefnendur krefjast þess að aðalstefnda greiði þeim bótafjárhæðina með dráttarvöxtum frá 27. nóvember 2000 til greiðsludags. Aðalstefnda hefur á engan hátt hafnað að greiða meðalgöngustefnendum dánarbætur frá því að krafa var gerð af þeirra hálfu um greiðslu. Um vanefndaálag getur því ekki verið að ræða.
Samkvæmt framangreindu verður aðalstefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., sýknað af kröfum aðalstefnanda, Ingu Láru Reimarsdóttur. Þá verður Vátryggingafélagi Íslands hf. dæmt til að greiða meðalgöngustefnendum hvoru fyrir sig 1.634.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalag nr. 25/1987 frá 21. ágúst 2000 til 9. nóvember 2001en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Rétt er að málskostnaður falli niður í aðalsök. Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda greiðist úr ríkisjóði þar með talin þóknun lögmanns aðalstefnanda sem hæfileg þykir 100.000 krónur.
Rétt er að meðalgöngustefnda, Inga Lára Reimarsdóttir, greiði meðalgöngustefnanda, Söndru Ósk Karlsdóttur, 60.000 krónur alls í málskostnað en málskostnaður falli niður milli meðalgöngustefnenda og meðalgöngustefndu, Vátryggingafélagi Íslands hf. Gjafsóknarkostnaður meðalgöngustefnanda, Antons Freys Kalssonar, greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun Þorsteins Einarssonar hrl. sem hæfileg þykir 60.000 krónur.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Aðalstefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum aðalstefnanda, Ingu Láru Reimarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður í aðalsök. Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns aðalstefnanda, 100.000 krónur.
Meðalgöngustefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði meðalgöngu-stefnendum, Antoni Frey Karlssyni og Söndru Ósk Karlsdóttur, hvoru fyrir sig 1.634.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalag nr. 25/1987 frá 21. ágúst 2000 til 9. nóvember 2001 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Meðalgöngustefnda, Inga Lára Reimarsdóttir, greiði meðalgöngustefnanda, Söndru Ósk Karlsdóttur, 60.000 krónur í málskostnað. Málskostnaður fellur niður milli meðalgöngustefnenda og meðalgöngustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Gjafsóknarkostnaður meðalgöngustefnanda, Antons Freys Kalssonar, greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun Þorsteins Einarssonar hrl. sem hæfileg þykir 60.000 krónur.