Hæstiréttur íslands
Mál nr. 605/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
|
|
Föstudaginn 18. nóvember 2011. |
|
Nr. 605/2011.
|
M (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) gegn K (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að K færi með forsjá dóttur málsaðila til bráðabirgða þar til dómur gengi í forsjármáli þeirra, sem og niðurstaða um umgengnisrétt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2011, þar sem leyst var úr ágreiningi aðilanna um forsjá dóttur þeirra, A, til bráðabirgða og umgengni við hana á meðan rekið er mál varnaraðila á hendur sóknaraðila um forsjá barnsins. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða og varnaraðila gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá 1. nóvember 2011. Til vara krefst hann þess að lögheimili barnsins verði hjá sér, en varnaraðili hafi umgengni við það aðra hverja viku frá fimmtudegi til sunnudags kl. 20. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að lögheimili barnsins verði hjá sér og sóknaraðila gert að greiða einfalt meðlag með barninu „frá uppkvaðningu úrskurðar þar til endanlegur dómur gengur í forsjármáli milli aðila.“ Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því krafa hennar um málskostnað í héraði ekki til álita hér fyrir dómi.
Sóknaraðili gerir athugasemdir við meðferð héraðsdóms á máli þessu sem hafi verið á þann veg að hann hafi ekki fengið að gæta hagsmuna sinna. Hafi forsjármálið verið þingfest 5. október 2011, en krafa varnaraðila um bráðabirgðaforsjá hafi verið tekin fyrir í þinghaldi 7. sama mánaðar og ákveðið að taka hana til aðalmeðferðar þremur dögum síðar, þrátt fyrir andmæli sóknaraðila. Af fyrirliggjandi endurriti úr þingbók vegna fyrirtöku málsins 7. október 2011 verður ekki séð að lögmaður sóknaraðila hafi andmælt þessari ákvörðun dómara. Af hálfu sóknaraðila var lögð fram greinargerð í þinghaldinu 10. sama mánaðar og aðspurðir af dómara í því þinghaldi töldu lögmenn beggja aðila ekkert því til fyrirstöðu að aðalmeðferð færi fram. Verður því ekki séð að hinn skammi frestur hafi komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti gætt hagsmuna sinna.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði tók sóknaraðili barn aðila af leikskóla 20. september síðastliðinn án vitundar og í óþökk varnaraðila og neitaði henni um umgengni við það. Fyrir liggur að eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar skilaði sóknaraðili barninu til varnaraðila. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2011.
Mál þetta var höfðað 30. september 2011 um forsjá barns aðila, A sem er fædd [...]. Með bréfi dagsettu 29. september 2011 barst dóminum krafa um bráðabirgðaforsjá barnsins og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar.
Sóknaraðili er K, [...].
Varnaraðili er M, [...].
Sóknaraðili gerir kröfu um úrskurð um forsjá A til bráðabirgða þar til dómur gengur í málinu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og varnaraðila verði falin forsjá barnsins A, þar til dómur gengur um forsjá barnsins. Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmd til að greiða einfalt meðlag með barninu frá 1. nóvember 2011 til 18 ára aldurs þess.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og ákveðið verði með úrskurði að sameiginleg forsjá barnsins verði ekki felld niður fyrr en með dómi í forsjármáli. Varnaraðili krefst þess að lögheimili barnsins verði ákveðið hjá föður að [...] og að barnið dvelji hjá varnaraðila en umgengni sóknaraðila við barnið A verði aðra hverja viku frá fimmtudegi til sunnudagskvölds kl. 20:00, þar til endanlegur dómur verður kveðinn upp í forsjármáli aðila.
Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar.
Aðilar gáfu skýrslur fyrir dómi 10. október sl., svo og C, starfsmaður Barnaverndarnefndar [...]. Sama dag var málið flutt munnlega og tekið til úrskurðar.
I
Sóknaraðili lýsir atvikum svo að aðilar málsins hafi verið í sambúð frá árinu 2002 og í skráðri samfelldri sambúð frá 28. febrúar 2006. Aðilar eigi saman barnið, A fædda [...]. Áður hafi sóknaraðili átt dóttur fædda 2. ágúst 1994 sem búi hjá sóknaraðila. Aðilar hafi undanfarin ár verið búsettir að [...]. Sóknaraðili, sem sé [...] að uppruna en íslenskur ríkisborgari, hafi á undanförnum árum starfað við [...] í [...], en varnaraðili sé umboðsmaður fyrir [...] í [...]. Hafi hún dvalið þar um lengri tímabil og þá ávallt haft barnið með sér. Hún hafi þó sent barnið heim til Íslands á undan sér 19. apríl 2011 og hafi það þá verið hjá varnaraðila og eldri systur þar til sóknaraðili kom heim 22. júlí 2011. Sé það í eina skiptið sem barnið hafi verið í burtu frá sóknaraðila frá fæðingu.
Þegar sóknaraðili hafi komið til landsins hafi varnaraðili viljað slíta sambúðinni og haldið því fram að sambúðarslit hafi orðið á síðasta ári. Hafi varnaraðili farið af heimilinu 23. júlí 2011 og hafi umgengist barnið eitthvað síðan. Þann 20. september hafi varnaraðili sótt barnið á leikskóla án þess að hafa rætt það áður við sóknaraðila. Hann hafi ekki skilað barninu aftur heim og neitað að láta sóknaraðila hafa barnið á ný. Hafi barnið ekki mætt á leikskólann og hafi sóknaraðili óljósar hugmyndir um dvalarstað barnsins. Hún hafi verulegar áhyggjur af því og hafi meðal annars leitað aðstoðar barnaverndaryfirvalda í [...].
Varnaraðili mótmælir því að sambúð aðila hafi hafist á árinu 2002 og telur sambúðina hefjast á árinu 2006. Í atvikalýsingu varnaraðila kemur meðal annars fram að í maímánuði 2009 hafi sóknaraðili ákveðið með stuttum fyrirvara og í algjörri óþökk varnaraðila að fara til [...] með barnið og sagt varnaraðila að hún ætlaði að vinna þar að dreifingarmálum fyrir [...]. B, eldri dóttir sóknaraðila hafi orðið eftir hjá varnaraðila og gengið í menntaskóla. Þessi brottflutningur sóknaraðila með barnið hafi verið varnaraðila mjög erfiður enda var hann sár og niðurbrotinn að þurfa að horfa á eftir dóttur sinni til [...] og hafi sóknaraðili virt vilja hans í þeim efnum algjörlega að vettugi. Sóknaraðili hafi haft lítil samskipti heim til Íslands á þessum tíma en varnaraðili hafi reynt að hafa samband við barnið símleiðis, þrátt fyrir ungan aldur, og sent henni dvd diska með íslensku barnaefni til að viðhalda íslenskukunnáttu hennar og gjafir o.fl. Varnaraðili hafi síðar komist að því að foreldrar sóknaraðila hafi aldrei afhent barninu þessar gjafir.
Varnaraðili fullyrðir að foreldrar sóknaraðila hafi haft barnið þennan tíma, enda hafi sóknaraðili verið í vinnu á ýmsum stöðum í [...] og skilið barnið eftir vikum og mánuðum saman í umsjá foreldra sinna, sbr. yfirlýsingu móðurbróður hennar þar um. Varnaraðili mótmæli því sérstaklega fullyrðingum sóknaraðila um að hún haft barnið hafi nær óslitið frá fæðingu. Varnaraðili fullyrði að það sé rangt. Á þessum tíma hafi sóknaraðili meðal annars unnið að því að opna skrifstofu í [...] en faðir sóknaraðila búi þar og hafi hann verið með barnið í borginni [...], en nokkurra klukkustunda flugferð sé á milli þessara tveggja staða. Sóknaraðili hafi komið með barnið til Íslands í mars 2010 og dvalið með það í þrjá mánuði og reyndi varnaraðili að helga sig því nær alfarið þann tíma. Málsaðilar hafi á þessum tíma getað talast við en sóknaraðili hafi svo endurtekið leikinn og farið aftur út með barnið í lok maí 2010 í óþökk varnaraðila. Hafi það verið varnaraðila mjög mikið áfall. Varnaraðili hafi farið til [...] í september 2010 og tjáð sóknaraðila ákveðið að hann vildi skilnað eins og málsaðilar höfðu verið að ræða um í nokkra mánuði áður. Varnaraðili hafi dvalið í [...] frá september til nóvember 2010, meðal annars til að [...] í [...] en jafnframt hafi hann farið til [...] til að dvelja með dóttur sinni. Hafi foreldrar sóknaraðila fyrst neitað varnaraðila um að hitta dótturina og það hafi ekki verið fyrr en hann hafi samþykkt að vera með sóknaraðila í íbúð í borginni sem hann hafi fengið að hafa dótturina hjá sér. Varnaraðili var í [...] samtals í þrjá mánuði. Málsaðilar hafi á þessum tíma getað talast við. Upphaflega hafi sóknaraðili ekki verið ósátt við skilnað, sbr. tölvupóst til móðurbróður frá 21. júlí 2010, en síðar hafi þessi ákvörðun snúist upp í mikla reiði. Í samskiptum málsaðila hafi ávallt verið um það rætt að barnið skyldi búa hjá varnaraðila á Íslandi.
Þegar varnaraðili hafi farið til [...] í september 2010 hafi hann verið ákveðinn í að skilja og fara úr því mynstri sem hafi verið í sambúðinni. Jafnframt hafði hann á þeim tíma kynnst konu sem hann vildi fara að huga að sambandi við, en áður en það gerðist vildi hann binda endi á samband sitt við sóknaraðila sem þá hafði dvalið í [...] í rúmt ár.
II
Sóknaraðili byggir á því að nauðsynlegt sé að hún fái barnið til sín að nýju, enda mjög alvarlegt brot að nema barnið brott af heimili sínu og sínu eðlilega umhverfi án þess að samkomulag eða úrskurður liggi fyrir. Krafa sóknaraðila um úrskurð um bráðabirgðaforsjá er byggð á 35. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Aðalmálsástæða sóknaraðila vegna kröfu um forsjá barnsins til bráðabirgða sé sú að tryggja velferð barnsins. Sóknaraðili hafi allt frá fæðingu barnsins alið önn fyrir því og séð um allar þarfir þess. Tengsl sóknaraðila og dóttur séu innileg, enda hafi þær verið saman alla tíð, utan þess tíma sem barnið var hjá varnaraðila og systur í þrjá mánuði síðastliðið vor. Fyrir dómi lýsti lögmaður sóknaraðila því viðhorfi til umgengni að eðlilegt væri að varnaraðili hefði umgengni við barnið annan hvern fimmtudag og til mánudagsmorguns.
III
Varnaraðili kveður aðalkröfu sína byggja á því að í kröfugerð sóknaraðila felist ekki að forsjá barnsins A verði úrskurðuð óskipt á hendi sóknaraðila. Eingöngu sé gerð krafa um úrskurð um forsjá barnsins A en ekki er gerð krafa um hvernig sá úrskurður skuli vera. Kröfugerð sóknaraðila sé því vanreifuð, ekki dómtæk og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna henni. Varnaraðili geri hins vegar kröfu um að úrskurðað verði að honum verði með úrskurði falin óskipt forsjá barnsins til bráðabirgða þar til dómur liggi fyrir í forsjármáli aðila. Kröfugerð sóknaraðila sé einfaldlega gölluð og ekki dómtæk enda feli hún ekki í sér kröfu um að sóknaraðila verði falin forsjáin. Eina dómtæka krafan í málinu sé krafa varnaraðila. Framhjá þessari staðreynd geti dómari ekki horft, og beri þegar af þeirri ástæðu að fela varnaraðila forsjá barnsins til bráðabirgða, samkvæmt kröfugerð hans.
Aðalkrafa varnaraðila byggi á því að það sé barninu ótvírætt fyrir bestu að lúta forsjá hans til bráðabirgða þar til endanlegur dómur verður kveðinn upp í því forsjármáli sem sóknaraðili hafi höfðað. Barnið hafi undanfarið dvalið hjá varnaraðila, þar líði henni vel og finni fyrir stöðugleika og öryggi. Leikskóli barnsins hafi tilkynnt um vanlíðan barnsins til barnaverndarnefndar [...] meðan barnið dvaldi eingöngu hjá sóknaraðila og í kjölfarið hafi varnaraðili ákveðið að annast alfarið um barnið.
Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili sé ekki hæf til að fara með forsjá barnsins þar sem hún eigi við alvarleg geðræn vandamál að stríða sem hún hafi ekki viljað leita sér lækninga við. Lýsi þetta sér meðal annars í því að sóknaraðili missi algjörlega stjórn á skapi sínu og gjörðum, komist í tryllingslegt ástand og meðan á slíku ástandi vari séu allir í kringum hana í hættu. Sóknaraðili hafi ítrekað lamið og beitt eldri dóttur sína líkamlegu ofbeldi í þessum köstum, hún hafi ítrekað lamið til dóttur málsaðila og virðist dóttirin meðal annars stundum slá sjálfa sig í andlitið eða á hendur eftir að hún hafi verið hjá sóknaraðila. Meðan á sambúð málsaðila hafi staðið hafi sóknaraðili fengið þessi köst á nokkurra vikna fresti. Sóknaraðili kveðst vísa um sönnun þess meðal annars til yfirlýsingar móðurbróður sóknaraðila, dagsettra 9. og 10. október 2011 en hann hafi búið á heimilinu um nokkurra mánaða skeið og kynnst þar ástandinu. Varnaraðili telji að í forsjárhæfnismati muni slíkir skapgerðarbrestir koma í ljós og því verði dómari í bráðabirgðamáli að láta barnið njóta vafans og úrskurða að barnið verði hjá varnaraðila þar til niðurstaða sé komin í forsjármál aðila.
Þá kveðst varnaraðili byggja á því að sóknaraðili hafi frá upphafi með ýmsum og alvarlegum hætti vanrækt barnið. Meðal annars hafi sóknaraðili, allt frá því er barnið hafi verið nokkurra mánaða gamalt, skilið það eitt eftir í íbúðinni meðan hún hafi farið út í búð eða í heimsóknir. Varnaraðili hafi ávallt brugðist mjög illa við þessu í þau skipti sem hann hafi fyrir tilviljun komst að þessu en þrátt fyrir það hafi sóknaraðili í engu látið af þessu. Nú síðast hafi sóknaraðili farið til [...] frá 19.-22. ágúst sl. og í stað þess að barnið dveldi hjá varnaraðila hafi barnið dvalið hjá dóttur sóknaraðila. Myndir frá þeim tíma staðfesti að umönnun barnsins sé ófullnægjandi, meðal annars sé dóttirin látin sofa í rúmi án þess að blóð og þvag sé þrifið þar a.m.k. svo dögum skipti. Varnaraðili byggi á því að á myndbandi og ljósmyndum sem sýni aðstæður í íbúð sóknaraðila séu glerbrot út um allt, en tæplega þriggja ára barni sé mikil hætta búin að vera innan um glerbrot. Á myndbandinu sjáist sóknaraðili koma til að rífast við varnaraðila og hafi hún þá skilið barnið eftir eitt innan um öll glerbrotin. Varnaraðili óttist því einfaldlega um barnið í umsjá sóknaraðila og hafi hann því haft barnið hjá sér undanfarið þó í óþökk sóknaraðila sé. Þar líði barninu vel og með því móti einu sé öryggi þess tryggt, að mati varnaraðila.
Varnaraðili byggi á því að veruleg hætta sé á því að sóknaraðili fari með barnið úr landi og til [...], verði honum ekki falin forsjá þess til bráðabirgða. Vísar varnaraðili meðal annars í tölvupóst frá sóknaraðila frá 17. júlí sl. þar sem hún segist ætla að fara með dótturina aftur með sér til [...]. Jafnframt hóti sóknaraðili sambýliskonu varnaraðila í þeim sama tölvupósti. Sóknaraðili hafi sýnt það með hegðun sinni að hún sé til alls líkleg og hafi áður farið með barnið til [...], á árinu 2009 í algjörri óþökk varnaraðila. Hafi hún ítrekað hótað varnaraðila slíku eins og móðurbróðir sóknaraðila lýsi.
Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili hiki ekki við að skilja barnið eftir í umsjá ókunnugra í stað þess að það dvelji hjá varnaraðila. Barnið þekki ekkert móðurforeldra sína er sóknaraðili ákvað að skilja það þar eftir tæplega ársgamalt um margra mánaða skeið, meðan hún hafi unnið við að setja upp skrifstofu í borginni [...]. Barnið hafi því ekki dvalið hjá sóknaraðila nema lítinn hluta þess tíma sem sóknaraðili hafi verið í [...]. Sóknaraðili hafi virt allar óskir varnaraðila að vettugi um að barnið dveldi hjá honum sem varnaraðili telji ótvírætt að hefði verið betra heldur en að barnið dveldi hjá ókunnugum móðurforeldrum. Varnaraðili telji þessa staðreynd, sem staðfest sé af móðurbróður sóknaraðila í áðurnefndum yfirlýsingum, staðfesta að skilningur hennar og næmni fyrir þörfum barnsins sé ófullnægjandi.
Þá kveðst varnaraðili benda á þá staðreynd að sóknaraðili myndi ekki eðlileg tilfinningatengsl. Sóknaraðili skilji t.d. eldri dóttur sína eftir á Íslandi í rúmt ár án þess að heimsækja hana eða hafa mikil samskipti við hana. Varnaraðili hafi annast um eldri dóttur sóknaraðila allan þann tíma, enda þyki honum vænt um hana og vilji geta átt góð samskipti við hálfsystur dóttur sinnar. Sú stúlka hafi mjög neikvæða mynd af sóknaraðila sem móður. Á sama tíma skilji sóknaraðili barn málsaðila eftir í umsjá foreldra sinna mánuðum saman, meðan hún hafi unnið í [...], en barnið hafi ekki verið orðið ársgamalt. Frumtengsl barnsins við sóknaraðila séu því ekki sterk eins og í ljós hafi komið þegar barnið hafi komið aftur til varnaraðila til Íslands í apríl 2011. Þegar barnið hafi grátið hafi það kallað á móðurafa sinn, en ekki á sóknaraðila. Varnaraðili byggi á því að málsaðilar hafi mjög ólíkar uppeldisaðferðir og að aðferðir varnaraðila henti barninu ótvírætt betur. Mikill agi, öskur og líkamlegt ofbeldi séu meðal uppeldisaðferða sóknaraðila og meðal annars beri eldri dóttir hennar ör eftir sóknaraðila. Varnaraðili beiti ekki slíkum aðferðum og fordæmi þær. Þá kveðst varnaraðili byggja á því að hann geti búið barninu mun betri aðstæður en sóknaraðili. Varnaraðili búi í 4ra herbergja íbúð að [...], þar sem allar aðstæður séu hinar bestu. Sambýliskona varnaraðila hafi myndað góð tengsl við barnið og stórfjölskylda varnaraðila standi fast við bak honum. Hið sama geri náfrændi sóknaraðila sem þekki vel til sóknaraðila en hann telji engan vafa leika á því að barninu sé best borgið með því að lúta óskiptri forsjá varnaraðila.
Varnaraðili krefjist þess að verði honum falin forsjá barnsins til bráðabirgða verði sóknaraðili úrskurðuð til að greiða varnaraðila einfalt meðlag frá 1. nóvember 2011 þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í forsjármáli aðila.
Rökstuðningur fyrir varakröfu varnaraðila byggi á því að ef dómari telji ekki aðstæður til að ákvarða forsjá til bráðabirgða verði ákveðið að barnið skuli dvelja og eiga lögheimili hjá varnaraðila þar til endanleg niðurstaða sé komin í forsjármál aðila en sóknaraðili hafi umgengni við barnið aðra hverja viku frá fimmtudegi til sunnudags. Varakrafa varnaraðila sé sett fram, telji dómari þær aðstæður ekki vera fyrir hendi að hagsmunum barnsins sé hætta búin meðan beðið sé endanlegrar niðurstöðu í forsjármáli. Með þeim hætti væri unnt að fá faglegt mat sérfróðs aðila áður en dómari tæki ákvörðun um að fella niður sameiginlega forsjá aðila. Varnaraðili geri kröfu um að lögheimili barnsins verði í því tilviki ákvarðað hjá honum að [...], með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, því með því móti sé tryggt að ekki verði farið með barnið til [...], eins og varnaraðili óttist að sóknaraðili kunni að gera.
Varnaraðili kveður kröfu sína byggða á því að það sé barninu A fyrir bestu að búa hjá honum í samræmi við 35. gr. barnalaga sem og VI. kafla laga nr. 76/2003. Um sönnunargögn er vísað til 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar.
IV
Sóknaraðili þingfesti forsjármál á hendur varnaraðila 5. október sl. Áður beindi sóknaraðili kröfu til dómsins um úrskurð um bráðabirgðaforsjá barns hennar og varnaraðila, A, sem er fædd [...]. Varnaraðili skilaði greinargerð vegna bráðabirgðaforsjárkröfunnar 10. október sl. Aðalkrafa hans í þessum þætti málsins er að kröfu sóknaraðila um bráðabirgðaforsjá verði hafnað og að varnaraðila verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða uns dómur gengur í málinu.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að krafa sóknaraðila um úrskurð um forsjá barns hennar og varnaraðila sé ekki dómtæk þar sem ekki sé gerð krafa um að sóknaraðila verði úrskurðuð bráðabirgðaforsjá barnsins. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 getur dómari í máli um forsjá barns úrskurðað til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barni er fyrir bestu. Þá er í sama úrskurði heimilt að kveða á um umgengi og meðlag til bráðabirgða. Að mati dómsins er kröfugerð sóknaraðila samrýmanleg 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og verður ekki fallist á sjónarmið varnaraðila um að krafa sóknaraðila sé ekki dómtæk.
Aðilar málsins fara sameiginlega með forsjá barnsins A og eiga þau öll lögheimili að [...]. Aðila greinir á um upphafstíma sambúðar þeirra og um það hvenær sambúðinni var slitið. Heldur sóknaraðili því fram að skilnaður hafi orðið í júlí 2011, en varnaraðili vísar til þess að það hafi verið á árinu 2009. Fyrir liggur að sóknaraðili fór með barnið A til [...] í maímánuði 2009 vegna atvinnu sinnar og hefur dvalið þar með barnið að langmestu leyti síðan. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila kom sóknaraðili með barnið til Íslands í marsmánuði 2010, en fór aftur til [...] í lok maí það ár. Þá kemur fram að varnaraðili hafi verið í [...] vegna vinnu sinnar í september-nóvember 2010 og hafi hann þá hitt barnið. Þann 19. apríl 2011 kom móðurbróðir sóknaraðila með barnið til Íslands. Fyrir dómi kom fram hjá lögmanni sóknaraðila að ástæða þess hefði verið að vegabréfsáritun barnsins hafi verið að renna út, en varnaraðili heldur því fram að samkomulag hafi verið milli hans og sóknaraðila um að barnið skyldi búa hjá varnaraðila á Íslandi. Eftir komuna til landsins dvaldi barnið að [...] hjá varnaraðila og eldri dóttur sóknaraðila, B sem er 17 ára. Þá liggur fyrir að sóknaraðili kom til Íslands 22. júlí sl. og að varnaraðili flutt af heimilinu daginn eftir. Þann 20. september sl. tók varnaraðili barnið af leikskóla án vitundar og í óþökk sóknaraðila og hefur frá þeim tíma neitað að afhenda sóknaraðila barnið og neitað umgengni sóknaraðila við barnið. Hafa tilraunir aðila til að ná samkomulagi um umgengni við barnið, meðal annars undir rekstri þessa þáttar málsins, ekki borið árangur.
Krafa varnaraðila um bráðabirgðaforsjá barnsins er öðrum þræði byggð á því að sóknaraðili sé ekki hæf til að fara með forsjá barnsins þar sem hún eigi við geðræn vandamál að stríða. Slík fullyrðing varnaraðila er að mati dómsins ósönnuð enda liggur ekkert fyrir um forsjárhæfni aðila málsins á þessu stigi. Í tengslum við ágreining aðila um forsjá barnsins mun fara fram sérstök athugun á forsjáhæfni aðila og aðstæðum þeirra, en þær upplýsingar sem dómurinn hefur nú um aðstæður aðila og barnsins eru um margt knappar. Þó liggur fyrir að báðir aðila búa við sömu eða mjög svipaðar aðstæður hvað varðar húsnæði og atvinnu. Einnig liggur fyrir að barnaverndarnefnd [...] hóf fyrir skömmu athugun með viðtölum við málsaðila og athugun á aðstæðum þeirra og húsnæði. Var það gert vegna tilkynningar frá leikskóla A um vanlíðan hennar. Kom þetta fram í framburði vitnisins C starfsmanns barnaverndarnefndar [...] fyrir dómi. Greindi hún frá því að málið væri í biðstöðu vegna forsjárdeilu aðila. Einnig að ekki hefði verið hægt að ræða við A þar sem hún gæti ekki tjáð sig ekki á íslensku. Í skýrslu varnaraðila fyrir dómi kom fram að barnið hefði verið í leikskóla í um þrjá mánuði.
Barnið A er um tveggja ára og 10 mánaða. Hefur barnið dvalið stóran hluta ævi sinnar í [...] og verið þar með móður sinni og fjölskyldu hennar. Sóknaraðili og vitnið C fullyrða að barnið geti ekki tjáð sig á íslensku, en varnaraðili er á öðru máli um það atriði. Fyrir liggur að leikskóli barnsins tilkynnti um vanlíðan barnsins, en engra gagna nýtur við um þá tilkynningu umfram það sem varnaraðili upplýsti og fram kom fyrir dómi hjá áður nefndum starfsmanni barnaverndar [...]. Viðbrögð varnaraðila voru að taka barnið af leikskólanum í óþökk sóknaraðila og hafna allri samvinnu við sóknaraðila um samvistir við barnið. Virðist það hafa verið gert af ótta við velferð barnsins í höndum sóknaraðila og að sóknaraðili færi með barnið til [...]. Á slíka viðbáru verður ekki með nokkru móti fallist. Verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að varnaraðili heldur barninu hjá sér í óþökk sóknaraðila og frá leikskóla án þess að hafa fyrir því haldbærar ástæður.
Að teknu tilliti til aldurs barnsins og þeirra aðstæðna sem að framan er lýst þar á meðal óvissu um það hvort barnið geti tjáð sig á íslensku eða hvernig það aðlagast íslensku samfélagi verður það niðurstaða dómsins að barninu A sé fyrir bestu, eins og á stendur, að sóknaraðili fari með forsjá hennar til bráðabirgða.
Ágreiningur er með aðilum um það hvernig umgengni skuli háttað á meðan forsjármálið er til meðferðar fyrir dóminum. Þykir rétt að tryggja varnaraðila nokkuð rúma umgengni við barnið. Skal varnaraðili skal eiga rétt á að fá barnið til sín annan hvern fimmtudag, í fyrsta sinn fimmtudaginn 3. nóvember nk., og sækja það úr leikskóla þegar starfstíma þar lýkur og hafa það hjá sér til kl. 08.00 mánudaginn næsta á eftir og koma barninu þá í leikskóla.
Rétt þykir að málskostnaður bíði dóms í forsjármáli aðila.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sóknaraðili, K, skal til bráðabirgða fara með forsjá A, barns hennar og varnaraðila, M.
Varnaraðili á rétt á að fá barnið til sín annan hvern fimmtudag, í fyrsta sinn fimmtudaginn 3. nóvember nk., og sækja það úr leikskóla þegar starfstíma þar lýkur og hafa það hjá sér til kl. 08.00 mánudaginn næsta á eftir og koma barninu þá í leikskóla.
Málskostnaður bíður dóms.