Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Mánudaginn 7. maí 2012.

Nr. 234/2012.

Greipt í stein ehf.

(Jón Gunnar Zoega hrl.)

gegn

tollstjóra

(enginn)

Kærumál. Endurupptaka. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem G ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Beiðni G ehf. barst eftir að liðinn var mánaðar frestur samkvæmt 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á máli, sem lauk með úrskurði 7. september 2011, um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans um endurupptöku tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með beiðni 9. febrúar 2011 krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var beiðnin reist á því að sóknaraðili ætti ógreidd opinber gjöld en árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá honum 26. nóvember 2010. Krafan ásamt fyrirkalli til sóknaraðila var birt 18. ágúst 2011 fyrir nafngreindum manni sem sagt var í birtingarvottorði að hist hefði fyrir á stjórnarstöð sóknaraðila. Krafan var tekin fyrir á dómþingi 29. ágúst 2011 og var þá ekki sótt þing af hálfu sóknaraðila. Eins og áður greinir var bú sóknaraðila tekið til skipta með úrskurði 7. september sama ár. Með beiðni sóknaraðila, sem barst héraðsdómi 14. febrúar 2012, var þess krafist að málið yrði endurupptekið, en kröfunni var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili reisir beiðni sína um endurupptöku á því að fyrirkall á hendur honum hafi ekki verið birt fyrir þeim sem birta mátti fyrir. Því sé fullnægt skilyrðum a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Svo sem greinir í úrskurði héraðsdóms sendi fyrirsvarsmaður sóknaraðila tölvubréf til skiptastjóra 19. september 2011 í tilefni af því að hann hafði verið boðaður til að mæta til fundar um málefni búsins. Þann dag var honum því ljóst að búið hafði verið tekið til skipta. Því barst héraðsdómi beiðni um endurupptöku löngu eftir að liðinn var mánaðar frestur frá því sóknaraðila urðu málsúrslit kunn, sbr. 2. mgr. 137. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012.

Að kröfu sóknaraðila, Tollstjóraembættisins, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík, var bú varnaraðila, Greipt í stein ehf., kt. 411008-0370, Suðurlands­braut 6, Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins 7. september 2011.  Með bréfi sem barst dóminum 14. febrúar 2012 krafðist varnaraðili endurupptöku málsins og að úrskurður um gjaldþrotaskipti yrði felldur úr gildi. 

Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila. 

Málið var tekið til úrskurðar 14. mars sl. 

Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila var tekin fyrir á dóm­þingi 29. ágúst 2011 og var þá ekki sótt þing af hálfu varnaraðila.  Varnaraðili mótmælir því að birting hafi verið réttmæt, en stefnuvottur hafi birt boðunina fyrir öðrum stefnuvotti á lögheimili félagsins.  Ekki hafi verið reynt að hafa uppi á forsvarsmanni varnaraðila eða tilkynna honum um boðunina og síðan birtinguna. 

Varnaraðili segir að svo gróft brot hafi verið framið á réttindum sínum að heimilt sé að taka málið upp að nýju. 

Um hvort skilyrði hafi verið til að taka búið til gjaldþrotaskipta er varnaraðili fáorður.  Hann fullyrðir án nánari skýringa að engar forsendur hafi verið til þess að gjaldþrotaúrskurður yrði kveðinn upp. 

Varnaraðili segist ekki hafa getað kært úrskurðinn innan tilskilins frests þar sem hann hafi ekki vitað um hann.  Hann hafi „ekki fengið vitneskju um hann fyrr en nú nýlega“.

Varnaraðili vísar til XIII. kafla laga nr. 91/1991 um birtingu stefnu.  Um heimild til endurupptöku vísar hann til XXV. kafla laga nr. 21/1991 og meginreglna einkamálaréttar um málsskot til æðra dóms, 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 2. mgr. 137. gr. sömu laga.  Loks vísar hann til 65., 67. og 69. gr. laga nr. 21/1991. 

Sóknaraðili kveðst hafa afturkallað kröfulýsingu sína í þrotabú varnaraðila 18. janúar sl.  Það hafi hann gert með fyrirvara um að skiptakostnaður yrði greiddur og framlögð trygging fyrir skiptakostnaði endurgreidd.  Segir að kröfur er hann lýsti hafi verið lækkaðar með skattbreytingum í nóvember 2011 og eftirstöðvar þeirra greiddar að fullu 18. janúar. 

Sóknaraðili segir að beiðni um endurupptöku sé höfð uppi of seint.  Ekki sé reynt í beiðni að gera grein fyrir því hvernig skilyrði XXIII. kafla laga nr. 91/1991 séu uppfyllt.  Hann bendir á að skiptin hafi verið auglýst í Lögbirtingablaði 20. september 2011. 

Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki reifað hvaða varnir hann geti haft uppi og sem hefðu leitt til þess að kröfunni hefði borið að hafna 7. september 2011. 

Niðurstaða

Boðun til fyrirtöku á gjaldþrotabeiðni var birt af stefnuvotti fyrir nafngreindum manni á skráðu lögheimili varnaraðila að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Fullnægir boðun þessi skilyrðum 2. mgr. 69. gr. laga nr. 21/1991, sbr. a-lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991, en varnaraðili hefur ekki hnekkt því að efni birtingarvottorðsins sé rétt. 

Beiðni um endurupptöku barst dóminum eins og áður segir 14 febrúar 2012.  Frestur til að beiðast endurupptöku samkvæmt 137. gr. laga nr. 91/1991, sem beita skal hér í samræmi við dómvenju, reiknast annars vegar frá þeim degi sem aðila verður kunnugt um úrskurð, hins vegar frá þeim degi sem úrskurður gekk.  Í gögnum málsins má sjá að forsvarsmaður varnaraðila sendi skiptastjóra skeyti með tölvupósti þann 19. september 2011, þar sem hann svarar boðun til skýrslutöku hjá skiptastjóra.  Verður að miða við að honum hafi ekki síðar en þann dag verið kunnugt um úr­skurðinn frá 7. september.  Því var frestur samkvæmt 1. mgr. 137. gr. liðinn þann 14. febrúar 2012, er endurupptöku var beiðst.  Þá eru skilyrði 2. mgr. sömu greinar ekki uppfyllt.  Verður þegar af þessari ástæðu að hafna beiðni varnaraðila um endur­upptöku málsins. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Beiðni varnaraðila, Greipt í stein ehf., kt. 411008-0370, um endurupptöku málsins nr. G-166/2011, er hafnað.