Hæstiréttur íslands
Mál nr. 328/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2004. |
|
Nr. 328/2003. |
Kristinn Vermundsson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Víði Jónassyni (Stefán Geir Þórisson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.
Deilt var um hvaða tekjuviðmiðun skyldi lögð til grundvallar uppgjöri bóta vegna varanlegrar örorku V, sbr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Ekki var talið að lagaskilyrði væru uppfyllt til að meta árslaun V sérstaklega eftir 2. mgr. 7. gr. laganna. Með því að miða uppgjör skaðabóta fyrir varanlega örorku V við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna var VÍS hf. talið hafa bætt V það tjón hans að fullu. Kröfum V var samkvæmt því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Héraðsdómi var áfrýjað 22. ágúst 2003. Áfrýjendur krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
I.
Stefndi varð fyrir slysi 11. janúar 2001 þegar áfrýjandinn Kristinn ók aftan á bifreið hans á Suðurlandsbraut við gatnamót Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Hlaut stefndi við þetta líkamstjón og hefur honum verið metinn 10% varanlegur miski og 15% varanleg örorka. Áfrýjendur viðurkenna bótaskyldu sína vegna atviksins og ekki er ágreiningur um mat á örorku eða miskastigi stefnda. Aðilarnir deila hins vegar um það hvaða tekjuviðmiðun skuli lögð til grundvallar uppgjöri bóta vegna varanlegrar örorku stefnda, sbr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum.
Áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi stefnda 3.696.395 krónur 18. júlí 2002 í bætur fyrir líkamstjón hans af völdum slyssins, en þar af voru 2.578.988 krónur fyrir varanlega örorku. Við ákvörðun þeirrar fjárhæðar voru lögð til grundvallar árslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og þeirri grein hafði verið breytt með 6. gr. laga nr. 37/1999. Gefur áfrýjandinn þá skýringu að ef miðað hefði verið við reglu 1. mgr. 7. gr. laganna um meðalatvinnutekjur stefnda sjálfs þrjú síðustu árin fyrir þann dag er tjón varð, hefðu bætur orðið mun lægri en með því að beita reglu 3. mgr. 7. gr. um lágmarks launaviðmiðun. Forsendur séu hins vegar ekki fyrir hendi til að meta árslaun stefnda sérstaklega samkvæmt reglu 2. mgr. 7. gr. laganna. Stefndi tók við bótagreiðslunni með fyrirvara um tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku. Í málinu krefst hann þess að launin verði metin samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að þá verði miðað við meðallaun verkmanna síðasta árið fyrir slysið. Var krafa hans tekin til greina í héraðsdómi. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Stefndi hefur frá árinu 1996 haft atvinnu af því að reka eigin leigubifreið til fólksflutninga. Er í héraðsdómi gerð grein fyrir því hvaða tekjur hann hefur reiknað sér af þessari starfsemi, en öll árin fram að slysdegi voru launin mjög lág og verulega undir þeirri lágmarkstekjuviðmiðun, sem 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hefur að geyma. Fjárhagsleg afkoma í rekstri stefnda sýndi ýmist lítils háttar tap eða hagnað, eins og kemur fram í héraðsdómi. Á árunum 1992 til 1996 starfaði hann við akstur leigubifreiða sem launþegi í þágu annarra og verður ráðið af framlögðum skattframtölum stefnda að laun hans hafi þá verið svipuð og síðar varð við rekstur eigin leigubifreiðar.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skulu árslaun tjónþola metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en sá, sem fæst með því að beita aðalreglu 1. mgr. 7. gr. um meðalatvinnutekjur tjónþola sjálfs síðustu þrjú árin fyrir þann dag er tjón varð. Við mat á því hvort heimilt sé að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna í tilviki stefnda verður að líta til þess hvort aðstæður hans hafi á einhvern hátt verið óvenjulegar að því er tekjuöflun varðar, þannig að annar mælikvarði teljist réttari en hans eigin tekjur. Hvorki er fram komið að einhverjar breytingar, sem máli skipta, hafi orðið á atvinnuhögum stefnda eftir að hann hóf sjálfstæðan rekstur fram að slysdegi né að sveiflur hafi orðið í tekjuöflun hans á þessum tíma. Verður þvert á móti ráðið af framlögðum skattframtölum og meðfylgjandi rekstrarreikningum fyrir umrædd ár að tekjur fyrir seldan akstur leigubifreiðar hans hafi aukist jafnt en hægt milli ára og hinu sama gegnir um reiknað endurgjald til stefnda, sem nam 960.000 krónum fyrir árið 2000. Er ekki borið við af hálfu stefnda að breyting á tekjuöflun hans í þessum rekstri til hins betra hafi verið fyrirsjáanleg. Samkvæmt þessu eru lagaskilyrði ekki uppfyllt til að meta árslaun stefnda sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verður heldur ekki fallist á þá skýringu hans að heimilt sé að beita lagaákvæðinu óháð því hvort óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi.
Regla 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga tryggir öllum tjónþolum lágmarksbætur fyrir líkamstjón úr hendi hins skaðabótaskylda. Getur hún samkvæmt því einnig tekið til þeirra, sem stunda sjálfstæðan rekstur, svo sem átti við um stefnda. Með því að miða uppgjör skaðabóta fyrir varanlega örorku hans við lágmarkslaun samkvæmt framangreindu lagaákvæði hefur áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. bætt stefnda það tjón hans að fullu. Verða áfrýjendur samkvæmt því sýknaðir af kröfu stefnda.
Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður staðfest. Um gjafsóknarkostnað hans fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Kristinn Vermundsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknir af kröfu stefnda, Víðis Jónassonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2003.
I
II
Málavextir eru þeir að þann 11. janúar 2001 varð stefnandi fyrir umferðarslysi. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var bílstjóri bifreiðarinnar TG-298 sem ekið var á leið vestur Suðurlandsbraut þegar bifreiðinni NX-505 var ekið aftan á bíl hans á mikilli ferð á gatnamótum við Kringlumýrarbraut. Bifreiðin sem þannig var ekið aftan á stefnanda var í eigu stefnda Kristins og var ábyrgðartryggð hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., sbr. 1. mgr. 91. gr. og 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Vegna kvartana stefnanda um eymsli frá hálsi og baki var hann fluttur á slysadeild Landsspítalans, Fossvogi. Samkvæmt læknisvottorði frá slysadeild fékk stefnandi hálshnykk við áreksturinn.
Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Yngvi Ólafsson mátu afleiðingar slyssins með matsgerð sem dagsett er 26. júní 2002 og er niðurstaða matsgerðarinnar að varanlegur miski var metinn 10% og varanleg örorka 15%.
Stefnandi sendi stefnda Vátryggingarfélagi Íslands hf. kröfubréf þann 10. júlí 2002 sem byggði á niðurstöðu matsgerðar ofangreindra lækna. Krafðist hann þess að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku yrði lagt til grundvallar að meta bæri tekjur stefnanda sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, þar sem reiknað endurgjald gæfi ekki rétta mynd af raunverulegu tekjutjóni hans en stefnandi vann sem sjálfstætt starfandi leigubílstjóri á slysdeginum. Þessu hafnaði stefndi Vátryggingafélag Íslands og lagði til grundvallar í tillögu að lokauppgjöri að bætur miðuðust við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem reiknað endurgjald stefnanda á skattframtali síðastliðinna þriggja ára svari til lægri launa en lágmarkstekna samkvæmt ákvæðinu.
Stefnandi var ósáttur við þessa afstöðu félagsins og tók við greiðslu bóta úr hendi stefnda Vátryggingafélagi Íslands með fyrirvara um tekjuviðmiðun bóta vegna varanlegrar örorku eins og fram kemur á tjónskvittun 18. júlí 2002. Stefnandi fékk leyfi dómsmálaráðuneytis til gjafsóknar þann 22. september 2002.
Stefnandi ritaði Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi bréf og spurðist fyrir hvort hann hefði undir höndum upplýsingar um meðaltekjur launþega við akstur leigubifreiða eða hvort hann gæti fundið slíka árstekjuviðmiðun út frá öðrum gögnum. Í bréfi tryggingafræðingsins dagsettu 17. desember 2002 kemur fram að hann hafi ekki gögn um meðaltekjur leigubifreiðastjóra en í niðurstöðum sínum reiknar hann út árstekjur fyrir ágúst 1996, árin 1998-2000, janúar 2001 og 2. ársfjórðung 2002 hjá fullvinnandi verkafólki auk þess sem hann styðst við árstekjur sjálfstætt starfandi vörubílstjóra á sama tímabili í samræmi við niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2468/2000.
Er mál þetta höfðað til heimtu þess mismunar sem stefnandi telur að bætur fyrir varanlega örorku eigi að vera og þess sem stefndi Vátryggingafélag Íslands telur hann eiga rétt á og hefur þegar greitt. Hvorki er deilt um bótaskyldu né örorku af völdum slyssins.
III
Krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku byggir á 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og matsgerð Jónasar Hallgrímssonar og Yngva Ólafssonar. Kveður stefnandi að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna eins og lögunum var breytt með lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi l. maí 1999, skuli við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku miða við árslaun sem nemi meðalvinnutekjum tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs síðustu þrjú almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma er upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 2. mgr. segi að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Telur stefnandi að beita eigi ákvæði 2. mgr. 7. gr. við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda en ekki 3. mgr. 7. gr. eins og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafi gert við uppgjörið.
Fyrir þessari skoðun sinnir telur stefnandi vera augljós rök. Fyrir slysið hafi stefnandi unnið sem sjálfstætt starfandi leigubílstjóri og reiknað sér laun til skatts fyrir þá vinnu. Endurgjald það sem stefnandi hafi reiknað sér fyrir þá vinnu og fært inn á skattframtal segi hins vegar ekki til um tekjur og þann hag sem stefnandi hafi haft af rekstri sínum. Hér beri að líta til fleiri þátta.
Samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekju- og eignaskatt nr. 75/1981 skuli maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði haft hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Þetta reiknaða endurgjald þurfi þannig ekki að endurspegla það fé, sem sjálfstæður atvinnurekandi hafi af rekstri sínum til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni. Styðjist sú fullyrðing við ummæli í greinargerð með frumvarpi því, er síðar hafi orðið að lögum nr. 40/1978 um tekju- og eignaskatt þar sem segi að maður, sem stundi atvinnurekstur í eigin nafni eða sjálfstæða starfsemi verði án tillits til afkomu rekstrarins skattlagður eins og honum væru greidd laun frá öðrum. Með þessum hætti sé ráðgert að innleiða eins konar lágmarks skattskyldar tekjur einstaklings í atvinnurekstri. Þá sé og á það að líta að þegar um taprekstur sé að ræða eins og í tilfelli stefnanda sé sjálfstæðum atvinnurekanda heimilt að reikna sér lægra endurgjald en reglur ríkisskattstjóra um viðmiðunartekjur segi til um. Það hafi stefnandi gert þegar hann reiknaði sér endurgjald vegna starfsemi sinnar. Kveður stefnandi að dómstólar hafi komist að þeirri niðurstöðu að í tilviki sjálfstætt starfandi einstaklinga verði að meta tekjur þeirra sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Fái sú niðurstaða jafnframt stoð í athugasemdum með ákvæðinu sjálfu enda þekkt staðreynd að ekki nægi að meta sjálfar tekjurnar hjá þeim sem standa í eigin atvinnurekstri enda gefi þær ekki rétta mynd af raunverulegu framtíðartjóni þeirra..
Stefnandi telur rétt að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku eigi að leggja til grundvallar bótauppgjöri, meðaltekjur sem hann hefði haft sem launþegi í sama starfi. Sé sú viðmiðun í fullu samræmi við dómaframkvæmd þar sem byggt hafi verið á því að í tilviki sjálfstætt starfandi einstaklinga sé eðlilegt að miða við þær tekjur sem sá hinn sami hefði haft, hefði hann verið í starfi hjá öðrum. Með því móti sé komist næst því að gera stöðu stefnanda sem líkasta því sem orðið hefði raunin ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu, en það sé einmitt tilgangurinn með skaðabótalögunum.
Þar sem ekki sé til tekjuviðmiðun fyrir launþega í starfi við akstur leigubifreiða sé farin sú leið að leggja til grundvallar bótauppgjöri meðaltekjur fullvinnandi verkafólks á síðastliðnu almanaksári fyrir slysið í samræmi við upplýsingar frá Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi. Byggt sé á því að launatekjur þessar komist sem næst launatekjum leigubílstjóra. Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:
2.036.000 x 1.06 / 196,4 x 211,7 = 2.326.285
2.326.285 x 10,689 x 15 %................................................. kr. 3.729.849
Að frádreginni innborgun frá VÍS hf. þann 18. júní 2002
vegna varanlegrar örorku ..................................................- kr. 2.578.988
Samtals....... kr. 1.150.861
V
Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993 sbr. lög nr. 37/1999 segir að árslaun til ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Í 2. mgr. segir að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í 3. mgr. segir síðan að þrátt fyrir ákvæði 1.-2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en í nánar tilgreindri töflu þar sem viðmiðunin fyrir fólk 66 ára og yngra er 1.200.000 krónur. Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 krónur.
7. gr. skaðabótalaganna hljóðaði þannig áður en henni var breytt með lögum nr. 37/1999:
“Árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð.
Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum.
Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.”
Í greinargerð með ákvæðinu sagði að regla 1. mgr. eigi fyrst og fremst við launþega en þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola að því er varðar tekjur og starf eða annars standi sérstaklega á eigi að ákveða árslaun eftir mati sbr. 2. mgr. Þá sagði í greinargerðinni að ákvæði 2. mgr. myndi til dæmis beitt um sjálfstæða atvinnurekendur sem hafi tekjur sem séu undirorpnar tíðum breytingum. Árslaun sjálfstæðra atvinnurekenda eða annarra manna með sveiflukenndar tekjur sé rétt að ákveða á grundvelli meðaltekna sem tjónþoli hafi haft á síðustu árum fyrir tjón. Varðandi sjálfstæðan atvinnurekendur nægi í ýmsum tilvikum ekki að meta sjálfar tekjurnar.
Eins og rakið hefur verið var 7. gr. breytt með lögum 37/1999 og eftir þá breytingu skyldu árslaun til ákvörðunar bóta teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjón sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Þá var 2. mgr. rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt. Þá var í 3. mgr. ákvæðisins tekin upp lágmarksviðmiðun.
Stefnandi var sjálfstæður atvinnurekandi og ók leigubifreið. Árið 1997 rak hann starfsemina með tapi sem nam 312.218 krónum og var reiknað endurgjald það árið 500.000 krónur. Árið 1998 rak hann starfsemina með tapi sem nam 311.203 krónum og það árið var reiknað endurgjald 630.000 krónur. Árið 1999 var starfsemin ekki lengur rekin með tapi heldur var hagnaður ársins 179.419 krónur og reiknað endurgjald það árið 720.000 krónur og árið 2000 var starfsemin rekin með hagnaði sem nam 163.893 krónum og var reiknað endurgjald það árið 960.000 krónur. Af þessum tölum er ljóst að reiknað endurgjald stefnanda er langt undir þeim lágmarks viðmiðunartekjum sem greinir í 3. mgr. 7. gr. enda eru aðilar sammála um að hið reiknaða endurgjald verður ekki lagt til grundvallar bótaútreikningi þegar af þeim sökum.
Eins og rakið hefur verið þurfa að vera fyrir hendi óvenjulegar aðstæður og líklegt að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola ef meta á árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A liðar 7. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt sbr. nú lög nr. 90/2003 skal maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði haft hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.
Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að atvinnurekstur stefnanda gekk ekki sem skyldi þótt rekstrarafkoman færi batnandi en tap var á rekstri stefnanda árin 1997 og 1998 en hagnaður árin 1999 og 2000 og hækkaði reiknað endurgjald nokkuð í takt við betri afkomu rekstrarins enda bera gögn málsins með sér að reiknað endurgjald hafi stefnandi ákvarðað í skattframtölum sínum með tilliti til afkomu rekstrarins. Þykir því ljóst vera að aðstæður undanfarin þrjú ár hjá stefnanda fyrir slysið voru óvenjulegar og líklegt að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans en hið reiknaða endurgjald. Verður því að telja að þær aðstæður séu fyrir hendi í máli þessu að uppfyllt séu skilyrði til að meta árslaun stefnanda eftir sérreglunni í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna.
Stefnandi gerir kröfu um að við ákvörðun bóta verði lagðar til grundvallar meðaltekjur sem stefnandi hefði haft sem launþegi í sama starfi. Verður fallist á það með stefnanda að með því móti verði komist næst því að gera stöðu hans sem líkasta því sem orðið hefði, ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu. Leggur stefnandi til grundvallar kröfu sinni útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings þar sem byggt er á meðaltekjum fullvinnandi verkafólks á síðastliðnu almanaksári fyrir slysið þar sem þær launatekjur komist næst launatekjum leigubílstjóra, en tekjuviðmiðun varðandi þá sé ekki til.
Það er mat dómsins að við mat á framtíðartekjum verði vart við lægri tekjur miðað en meðaltekjur verkafólks svo sem stefnandi gerir og er því fallist á þann mælikvarða á framtíðartekjur stefnanda, en útreikningi Jóns Erlings hefur ekki verið mótmælt sem slíkum.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er fallist á kröfur stefnanda í máli þessu en rétt þykir að krafan beri dráttarvexti frá dómsuppsögudegi sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 402.450 krónur, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans sem þykja hæfilega ákvörðuð 390.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ólafur Svansson hdl. en af hálfu stefndu flutti málið Sigurður B. Halldórsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndu Vátryggingafélag Íslands hf. og Kristinn Vermundsson greiði stefnanda Víði Jónassyni 1.150.861 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 11. janúar 2001 til 1. júlí 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 402.450 krónur, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans Ólafs Svanssonar hdl. 390.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.