Hæstiréttur íslands

Mál nr. 799/2016

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Rebekku Rut Guðmundsdóttur (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Umferðarlagabrot

Reifun

R var sakfelld fyrir brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987 með því að hafa ekið bifreið svipt ökurétti. Að virtum sakaferli R var refsing hennar ákveðin 30 daga fangelsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brots hennar til refsiákvæðis.

Sakarferli ákærðu er lýst í hinum áfrýjaða dómi en samkvæmt sakavottorði  hefur hún ítrekað gerst sek um sams konar brot og hún er nú sakfelld fyrir með því að aka bifreið svipt ökurétti, sbr. 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Með sátt 10. júní 2014 gekkst ákærða undir greiðslu sektar meðal annars fyrir að aka bifreið svipt ökurétti. Með dómi 5. febrúar 2015 var ákærða dæmd til greiðslu sektar fyrir að hafa, annars vegar 28. maí 2014 og hins vegar 4. september sama ár, meðal annars ekið bifreið svipt ökurétti. Þar sem fyrra brotið var framið áður en ákærða gekkst undir fyrrnefnda sátt var henni dæmdur hegningarauki við sáttina hvað það brot varðaði. Þá var ákærða með dómi 14. september 2015 dæmd til greiðslu sektar og í 30 daga fangelsi fyrir að hafa 3. febrúar 2015 ekið bifreið svipt ökurétti og undir áhrifum fíkniefna. Voru þau brot framin áður en fyrrgreindur dómur 5. sama mánaðar gekk og var henni því dæmdur hegningarauki við þann dóm vegna brotanna.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er brot það sem ákærða er nú sakfelld fyrir ítrekað öðru sinni. Að teknu tilliti til þess, sakarferils ákærðu og dómvenju er refsing hennar ákveðin fangelsi í 30 daga.

Með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Ákærða, Rebekka Rut Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. október síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 6. september 2016, á hendur Rebekku Rut Guðmundsdóttur, kennitala [...], Daltúni 36, Kópavogi, „fyrir umferðarlagabrot í Hafnarfirði með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 25. mars 2016 ekið bifreiðinni [...] svipt ökurétti suður Hafnarfjarðarveg við Engidal uns aksturinn var stöðvaður. Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“ Er þess krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærða sótti þing við þingfestingu málsins, játaði sök og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa.

Um atvik málsins er vísað til ákæru. Ákærða hefur fyrir dómi játað brot sitt skýlaust og því var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og ákærða höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Þykir sannað með játningu ákærðu, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og er brot hennar þar rétt heimfært til refsiákvæða. Ákærða hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærða er fædd í júlí 1993 og hefur samkvæmt framlögðu saka­vottorði áður gerst brotleg við refsilöggjöf, þar af þrisvar sinnum áður fyrir sams konar brot og ákærða er nú sakfelld fyrir. Með sátt hjá lögreglustjóra 10. júní 2014 samþykkti ákærða greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar fyrir brot gegn 1., sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Með dómi 5. febrúar 2015 var ákærðu gert að greiða sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr. og 1., sbr. 4. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var dómurinn hegningarauki, sem og dómur 14. september 2015 þar sem ákærða var dæmd í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Var ákærðu að auki gerð sekt og svipt ökurétti ævilangt. Loks samþykkti ákærða greiðslu sektar með sátt hjá lögreglustjóra fyrri brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  

Að virtum framangreindum sakarferli ákærðu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Sakarkostnað leiddi ekki af málinu. 

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

   Ákærða, Rebekka Rut Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 60 daga.