Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-335

Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar (Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður)
gegn
A (Jóhannes Ásgeirsson lögmaður) og B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 28. nóvember 2019 leitar barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 421/2018: A og B gegn barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A og B leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að gagnaðilar verði sviptir forsjá tveggja barna þeirra á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur Reykjavíkur tók til greina kröfu leyfisbeiðanda um að svipta gagnaðila forsjá barnanna C sem er fædd [...] 2008 og D sem er fæddur [...] 2011. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og hafnaði kröfu leyfisbeiðanda þar sem skilyrðum 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga væri ekki fullnægt.

Það er upphaf málsins að sérkennslufulltrúi í skóla C tilkynnti leyfisbeiðanda 26. október 2015 að stúlkan hefði upplýst að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns, gagnaðilans A. Í framhaldinu voru börnin vistuð tímabundið utan heimilis til 9. desember sama ár, en þá fóru þau aftur í umsjá móður sinnar. Var C síðan vistuð utan heimilis frá 3. febrúar 2016 en D frá 1. september það ár. C er nú 11 ára og D 8 ára. Hefur C samkvæmt þessu verið vistuð utan heimilis í þrjú ár og átta mánuði en D í þrjú ár og þrjá mánuði. Gagnaðilinn A var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn báðum börnunum en með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. nóvember 2017 í máli nr. S-[...]/2017 var hann sýknaður af þeim sakargiftum og var þeim dómi ekki áfrýjað

Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi í aðalatriðum til þess að málið hafi verulegt almennt gildi í barnarétti og barnaverndarrétti og þá ekki hvað síst um það hversu mikið vilji barns eigi að vega í málum sem snerta það og þá hvort miða eigi við aldur og þroska barns eða horfa í aðstæður almennt. Jafnframt þurfi barnaverndaryfirvöld að fá leiðsögn um það hvort og hvaða áhrif sýkna í sakamáli eigi að hafa í máli sem þessu. Leyfisbeiðandi telur einnig að málið hafi verulegt almennt gildi um það hvernig túlka beri þá meginreglu barnaverndarlaga að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Vísar leyfisbeiðandi einnig til þess að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant meðal annars vegna þess að dómarar málsins hafi ekki gefið börnunum kost á að tjá fyrir dómi og ekki heldur rökstutt hvers vegna litið hafi verið fram hjá matsgerð dómkvadds manns þegar komist var að niðurstöðu í málinu.Vísar leyfisbeiðandi til þessi að lögskylt sé að að leita eftir afstöðu barns og taka réttmætt tillit til hennar þegar fyrir stjórnvöldum og dómstólum eru rekin mál sem varða hagsmuni þess. Eingöngu megi víkja frá þessari meginreglu ef slíkt geti haft skaðleg áhrif á hagsmuni barns eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins, sbr. dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2017 í máli nr. 703/2017. Loks leggur leyfisbeiðandi áherslu á að þótt hann telji sig hafa sérstaklega mikla hagsmuni af úrlausn málsins sé hafið yfir vafa að mestu hagsmunirnir liggi hjá þeim börnum sem málið varði og sé unnt að fella hagsmuni þeirra undir áskilnað 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi tekin til greina.