Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs


Þriðjudaginn 29

 

Þriðjudaginn 29. apríl 2003.

Nr. 134/2003.

Dánarbú Einars Kristjánssonar

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Reinhold Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs.

Aðilar deildu um úthlutun söluverðs bátsins S, sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi seldi við nauðungarsölu í september 2002. E hélt því fram að hann væri eigandi tiltekinna aflaheimilda bátsins samkvæmt samningi við SÍ, eiganda hans, og bæri að fá úthlutað til sín svo miklu af söluverði skipsins, sem næmi hlutfalli óveðsettra veiðiheimilda af söluverði þess. Talið var, að samkvæmt lögum um samningsveð yrði aflahlutdeild ekki skilin frá veðsettu fiskiskipi nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi ættu í viðkomandi skipi. Í málinu lægi fyrir að aflahlutdeild í tilgreindum tegundum, sem E undanskildi við sölu skipsins til SÍ, hefði ekki verið skilin frá bátnum og því fylgt honum þegar honum var ráðstafað við nauðungarsöluna. Hvað sem liði réttindum E samkvæmt kaupsamningi um bátinn væri ljóst að E nyti ekki hlutbundinna tryggingarréttinda í bátnum, sem gætu komið til greina við úthlutun söluverðsins. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms, um að hafna kröfu E um að frumvarpi sýslumanns yrði breytt á þann veg að E fengi úthlutun af söluverði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. mars 2003, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Stykkishólmi 2. desember 2002 um að láta standa óbreytt frumvarp 29. október sama árs til úthlutunar á söluverði fiskiskipsins Sigmundar SH 369 við nauðungarsölu. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að frumvarpi sýslumanns verði breytt á þann veg að hann fái úthlutað aðallega 15.438.680 krónum af söluverði skipsins, en til vara annarri lægri fjárhæð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Samfélag Ísfirðinga ehf., sem átti aðild að málinu við hlið sóknaraðila fyrir héraðsdómi, hefur ekki látið það til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, dánarbú Einars Kristjánssonar, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 18. mars 2003

                Mál þetta var þingfest 24. janúar 2003 og dómtekið 28. febrúar sama ár. Sóknaraðilar eru db. Einars Kristjánssonar, Dalhúsi 86 í Reykjavík, og Samfélag Ísfirðinga ehf., Árnagötu 2 á Ísafirði, en varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., Aðalstræti 11 í Reykjavík.

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, krefst þess að frumvarpi sýslumannsins í Stykkishólmi frá 29. október 2002, vegna úthlutunar á söluverði bátsins Sigmundar SH-369, skipaskrárnr. 1924, sem seldur var við nauðungarsölu 2. september sama ár, verði breytt á þann veg að sóknaraðili fái úthlutað 15.438.680 krónum af söluverðinu. Til vara krefst sóknaraðili þess að dánarbúinu verði úthlutað lægri fjárhæð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

                Sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., krefst þess að frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluverði bátsins verði breytt þannig að úthlutun til varnaraðila lækki um 1.931.506 krónur og að úthlutun til síðari veðhafa hækki sem því nemur. Þá er þess krafist að varnaraðili verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar.

                Af hálfu varnaraðila er þess krafist að staðfest verði ákvörðun sýslumanns frá 2. desember 2002 um að frumvarp til úthlutunar á söluverðinu skuli standa óbreytt. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað.

I.

                Með beiðni varnaraðila 27. nóvember 2001 var þess farið á leit við sýslumanninn á Ísafirði að báturinn Sigmundur SH-369, skipaskrárnr. 1924, yrði seldur nauðungarsölu. Beiðni um nauðungarsölu á bátnum reisti varnaraðili á skuldabréfi 28. apríl 1999, sem tryggt er með veði í bátnum. Sigmundur SH-369 er skráður með heimahöfn í Ólafsvík og því var beiðnin framsend sýslumanninum í Stykkishólmi. Þegar beiðni varnaraðila barst sýslumanninum í Stykkishólmi 7. janúar 2002 höfðu tvær aðrar beiðnir um nauðungarsölu á bátnum borist í nóvember 2001.

                Hinn 4. apríl 2002 tók sýslumaðurinn í Stykkishólmi fyrir kröfur um nauðungarsölu á bátnum. Að kröfu gerðarbeiðenda var ákveðið að uppboð á bátnum byrjaði 16. maí sama ár. Þann dag var báturinn boðinn upp og að því loknu var ákveðið að uppboði yrði framhaldið 6. júní sama ár.

                Með bréfi 5. júní 2002 krafðist lögmaður sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, þess að tekið yrði fram við nauðungarsölu á bátnum að ekki fylgdi uppboðsandlaginu kvótaaflamark í ýsu, ufsa og steinbít, sem skráð væri á skipið, en væri í eigu dánarbúsins. Við fyrirtöku hjá sýslumanni 6. sama mánaðar, þegar til stóð að uppboði á bátnum yrði fram haldið, féllst sýslumaður á þessi andmæli og tók þá ákvörðun að nauðungarsala á bátnum og veiðiheimildum í tilgreindum tegundum færi ekki fram. Þessi ákvörðun sýslumanns bar varnaraðili undir dóminn eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/1991 og var hún felld úr gildi með úrskurði réttarins 21. ágúst 2002.

                Hinn 2. september 2002 var tekið fyrir hjá sýslumanninum í Stykkishólmi framhald nauðungarsölu á bátnum. Í gerðarbók sýslumanns var bókað að Eggert Jónsson hefði mætt af hálfu gerðarþola, en hann átti hæsta boð í bátinn á uppboðinu, 55.000.000 króna, fyrir hönd Togaraútgerðar Ísfirðinga ehf.

                Með bréfi sýslumanns 29. október 2002 var Togaraútgerð Ísfirðinga ehf. og aðilum nauðungarsölunnar sent frumvarp til úthlutunar á söluverði. Af gögnum málsins að dæma var frumvarpið þó ekki sent sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf. Samkvæmt frumvarpinu nemur úthlutun til varnaraðila vegna veðskuldabréfs hans 50.470.340 krónum, en gert er ráð fyrir að eftirstöðvar söluverðsins komi til úthlutunar upp í sex handhafaskuldabréf á 2. veðrétti. Frestur til að hreyfa andmælum við frumvarpinu var til 12. nóvember 2002. Með bréfi 11. sama mánaðar frá sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, var frumvarpinu mótmælt þar sem sýslumaður tæki ekki tillit til kröfu dánarbúsins að fjárhæð 15.438.680 krónur, sem það hafði lýst í söluverðið með bréfi 20. september sama ár. Einnig var kröfu varnaraðila í söluverðið mótmælt sem of hárri.

                Í tilefni af andmælum sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, gegn frumvarpi sýslumanns til úthlutunar á söluverði voru aðilar að nauðungarsölunni, auk Togaraútgerðar Ísfirðinga ehf. sem hæstbjóðanda á uppboðinu, boðaðir á fund sýslumanns með bréfi 14. nóvember 2002. Af gögnum málsins verður þó ráðið að sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., var ekki sent fundarboðið. Fundur þessi var haldinn 2. desember 2002 og þar tók sýslumaður þá ákvörðun að hafna andmælum sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, þannig að frumvarpið yrði óbreytt lagt til grundvallar við úthlutun söluverðs. Á fundinum var því lýst yfir af hálfu dánarbúsins að þessi ákvörðun yrði borin undir dóm eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/1991.

                Með bréfi 5. desember 2002, sem lögmaður sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., ritaði sýslumanni, var athygli vakin á því að sóknaraðila hefði ekki verið sent frumvarp til úthlutunar á söluverði bátsins og því hefði honum ekki gefist færi á að taka afstöðu til þess. Var þess einnig farið á leit að úthlutun söluverðsins yrði frestað þar til sóknaraðila hefði gefist ráðrúm til að koma að andmælum sínum. Sýslumaður svaraði þessu erindi með bréfi 8. desember 2002. Þar er sóknaraðili upplýstur um fundinn, sem haldinn var 2. sama mánaðar, í tilefni af andmælum sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar. Einnig er rakið að ekki hafi verið fallist á andmæli dánarbúsins og þeim ágreiningi hafi verið vísað til úrlausnar héraðsdómara. Þá er í bréfinu dregið í efa að sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., hafi ekki verið kunnugt um framgang nauðungarsölunnar, þar sem Eggert Jónsson, framkvæmdarstjóri sóknaraðila, hafi mætt við framhaldssölu bátsins fyrir hönd gerðarþola, auk þess sem hann hafi lagt fram kröfulýsingu í söluverðið fyrir hönd sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, og boðið í bátinn fyrir hönd Togaraútgerðar Ísafjarðar ehf. Loks hafi hann fyrir hönd þess félags framselt boð í bátinn til Kviku ehf. 

                Lögmaður sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., ritaði sýslumanni á ný bréf 19. desember 2002. Þar kemur fram að sóknaraðili hafi yfirfarið frumvarp sýslumanns til úthlutunar á söluverði bátsins og andmæli úthlutun til varnaraðila þar sem krafan sé ofreiknuð um allt að 1.931.506 krónur, eins og nánari er rökstutt í bréfinu. Einnig er ítrekað að sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., hafi ekki verið gefinn viðhlítandi kostur á að koma að athugasemdum við frumvarpið. Loks er gerð sú krafa að ágreiningi þessum verði vísað til héraðsdóms, ef ekki verður ekki fallist á andmælin. Með bréfi sýslumanns 20. desember 2002 var erindi þetta síðan sent dóminum.

II.

                Veðskuldabréfið, sem liggur til grundvallar nauðungarsölubeini varnaraðila, er gefið út af Einari Kristjánssyni 28. apríl 1999 til varnaraðila. Höfuðstóll bréfsins er 50.000.000 króna og átti að endurgreiða lánið á tólf árum með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta skipti 5. júní 1999. Til tryggingar greiðslu lánsins var sóknaraðila veittur 2. veðréttur með uppfærslurétti í Sigmundi SH-369. Í veðskuldabréfinu er tekið fram að báturinn sé settur sóknaraðila að veði með öllu því sem fylgir og fylgja ber eins og báturinn verði framast veðsettur, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, og 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990. Einnig er tekið fram að veðsala sé óheimilt með öllu að framselja aflahlutdeild bátsins og veiðileyfi, hvort heldur er að hluta eða öllu leyti, nema fyrir liggi skriflegt samþykki veðhafa, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð. Þá segir í bréfinu að sóknaraðila sé heimilt að fella skuldina í gjalddaga ef skylda til greiðslu vaxta og afborgana hefur verið vanefnd verulega eða ef veðið verði selt.

                Með bréfi Eymars Einarssonar 10. október 2000 fyrir hönd sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, var þess farið á leit að varnaraðili samþykkti skuldaraskipti á veðskuldabréfinu í tilefni af fyrirhugaðri sölu bátsins. Í bréfinu eru málefni dánarbúsins rakin og talið afar brýnt að sala bátsins nái fram að ganga. Einnig kemur fram að erfingjar Einars séu reiðubúnir til að borga inn á höfuðstól bréfsins til að greiða fyrir skuldaraskiptum.

                Hinn 13. nóvember 2000 gerðu sóknaraðilar með sér kaupsamning um bátinn. Samningurinn var móttekinn til þinglýsingar 23. sama mánaðar og færður í þinglýsingabók 26. júní 2001. Afsal fyrir bátnum var ekki gefið út. Samkvæmt kaupsamningnum var kaupverðið 60.000.000 króna og átti að greiða af því 36.000.000 króna með yfirtöku á veðskuldabréfi varnaraðila. Í kaupsamningnum er að finna svohljóðandi ákvæði:

 

„Samkomulag er um það milli kaupanda og seljanda að sú krókaaflahlutdeild sem fylgir bátnum, sem er : Ýsa 0,0613269%, Ufsi 0,0204746, Steinbítur 0,0230274% skuli vera eign seljanda fiskveiðiárin 2000/2001 og 2001/2002. Verði framangr. krókahlutdeildum úthlutað sem krókaaflamarki á fiskveiðiárunum 2000/2001 eða 2001/2002 hefur kaupandi forkaupsrétt á þeim, hverju fyrir sig eða öllum, og skal þá miðað við meðaltal markaðsverðs fyrstu þriggja mánaða. Verði framangr. krókahlutdeildum ekki úthlutað sem krókaaflamarki fisveiðiárin 2000/2001 og 2001/2002 teljast þessar heimildir eign kaupanda eftir það.“  

 

                Með yfirlýsingu 24. nóvember 2000 samþykkti varnaraðili kaup sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., á bátnum og yfirtöku á veðskuldabréfinu. Í yfirlýsingunni kemur fram að eftirstöðvar bréfsins nemi 48.519.138,20 króna, en þar af séu í vanskilum 744.327,20 krónur. Einnig segir að Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, muni greiða inn á bréfið 12.519.138,20 krónur þannig að við yfirtöku sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., verði eftirstöðvar þess 36.000.000 króna. Þá kemur fram að vaxtakjör bréfsins og lánstími haldist óbreyttur við yfirtöku lánsins, sem og önnur ákvæði bréfsins. Loks segir að það sé forsenda fyrir skuldskeytingunni að varnaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., verði þinglýstur eigandi bátsins. Yfirlýsingin er árituð um samþykki beggja sóknaraðila.

Sama dag og varnaraðili samþykkti sölu bátsins gaf sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, út skuldabréf til varnaraðila að fjárhæð 12.000.000 króna til að standa við skuldbindingu sína um að greiða inn á höfuðstól veðskuldabréfsins, sem hvíldi á bátnum. Í kjölfar þinglýsingar var lánið afgreitt hjá varnaraðila 7. desember 2000 og fengust 11.793.844 krónur fyrir skuldabréfið að teknu tilliti til kostnaðar við lántöku. Þeim fjármunum var ráðstafað til greiðslu á veðskuldabréfinu, sem hvíldi á bátnum, þannig að 751.002,80 krónur komu til greiðslu á afborgun í vanskilum frá 5. nóvember 2000, 739.941,30 krónur til greiðslu á afborgun sem féll í gjalddaga 5. desember sama ár, en 10.302.900 krónur voru greiddar inn á höfuðstól bréfsins.

Í kjölfar þessarar greiðslu frá sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, voru greiddar af reikningi dánarbúsins hjá varnaraðila tvær afborganir af veðskuldabréfinu, sem hvíldi á bátnum. Annars vegar var um að ræða afborgun, sem féll í gjalddaga 5. janúar 2001 og greidd var 15. sama mánaðar með 564.463,90 krónum, og hins vegar afborgun að fjárhæð 578.909,30, sem féll í gjalddaga 5. febrúar sama ár og var greidd þann dag. Eftir þetta var afborgun 5. mars 2001 greidd 24. apríl sama ár með 598.193,60 krónum, en ekki liggur fyrir í málinu hvor sóknaraðili innti þá greiðslu af hendi. Frekari greiðslur inn á bréfið hafa ekki borist.

Með yfirliti varnaraðila 16. júlí 2001 var sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., tilkynnt að veðskuldabréfið hefði verið sent lögfræðingi til innheimtu, þar sem fjórar afborganir væru fallnar í gjalddaga og vanskil næmu samtals 2.437.949,80 krónum að teknu tilliti til verðbóta, vaxta og kostnaðar. Höfuðstóll veðskuldabréfsins var því næst gjaldfelldur með innheimtubréfi varnaraðila 26. júlí 2001. Sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., var síðan birt greiðsluáskorun varnaraðila 15. október sama ár þar sem skorað er á hann að greiða kröfuna innan 15 daga frá móttöku áskorunarinnar, en að þeim tíma liðnum verði krafist nauðungasölu á bátnum án frekari tilkynninga.

III.

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, heldur því fram að við sölu á bátnum Sigmundi SH-369 hafi staðið til að dánarbúið myndi selja aflahlutdeild í ýsu, ufsa og steinbít sérstaklega þegar yfirvöld hefðu úthlutað henni á bátinn, ef sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., neytti ekki forkaupsréttar. Við þetta hafi kaupverðið verið miðað, en ella hefði það orðið töluvert hærra. Varnaraðili, sem átti veð í skipinu, hafi samþykkt þessa tilhögun og þar með að aflahlutdeildin yrði ekki hluti veðandlagsins.

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, hafnar því að dánarbúið hafi ekki staðið við að greiða inn á höfuðstól veðskuldabréfs varnaraðila í samræmi við skuldbindingu þess við skuldaraskipti vegna sölu bátsins. Hið rétta sé að dánarbúið hafi fengið lán hjá varnaraðila að fjárhæð 12.000.000 króna til að standa við þessa skuldbindingu, en það bréf sé að fullu greitt. Einnig hafi varnaraðila verið í lófa lagið að óska eftir því við dánarbúið að það greiddi það sem upp á vantaði eða skuldfæra reikning þess hjá varnaraðila, svo sem gert hafi verið síðar. Þannig nemi samanlögð fjárhæð þess sem dánarbúið hafi greitt varnaraðila meiru en búið hafi tekið að sér að greiða varnaraðila inn á skuldina við skuldaraskipti vegna sölu bátsins.

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, vísar jafnframt til 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, en þar sé beinlínis gert ráð fyrir að aðilar geti gert með sér skriflegt samkomulag um að aflahlutdeild fylgi ekki fiskiskipi við eigandaskipti. Slíkt skriflegt samkomulag hafi sóknaraðilar gert og varnaraðili samþykkt fyrir sitt leyti. Samhliða hafi um fjórðungur verið greiddur inn á veðskuldina, en sú ráðstöfun hafi meðal annars verið gerð þar sem varnaraðili nyti ekki þeirrar hækkunar sem leiddi af auknum aflahlutdeildum, sem úthlutað yrði á bátinn. Í þessu ljósi hafi verið eðlilegt að varnaraðili samþykkti kaupin og að aflahlutdeild í ýsu, ufsa og steinbít yrði undanskilin.

                Einnig bendir sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, á að varnaraðili sé bankastofnun, sem hafi á að skipa sérfræðingum í meðferð og samningu veðskjala. Sóknaraðili hafi skilið áritun varnaraðila á yfirlýsingu um skuldaraskipti 24. nóvember 2000 þannig að fallist væri á efni kaupsamnings um bátinn að svo miklu leyti sem hann færi í bága við hagsmuni varnaraðila. Í áritun varnaraðila hafi því falist loforð um að samþykkja flutning aflahlutdeilda í tilgreindum tegundum yfir á annað skip, ef til þess kæmi, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997. Hafi varnaraðili á hinn bóginn lagt annan skilning í samþykki sitt verði hann en ekki sóknaraðili að bera hallann af því. Samkvæmt þessu sé sóknaraðili eigandi þessara aflahlutdeilda og af þeim sökum taki veðréttur varnaraðila ekki til þeirra þótt þessum aflahlutdeildum hafi verið ráðstafað við nauðungarsölu á bátnum.

                Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, að dánarbúið sé eigandi umræddra aflahlutdeilda og beri að fá úthlutað til sín svo miklu af söluverði skipsins, sem nemi hlutfalli óveðsettra veiðiheimilda af söluverði bátsins. Krafa sóknaraðila sé miðuð við markaðsverð á þessum veiðiheimildum, enda hafi ekki annað komið fram en söluverðið á skipinu hafi verið eðlilegt. Nánar sundurliðar sóknaraðili kröfu sína þannig:

 

                Aflahlutdeild í ýsu                      27.130   kg            430   per/kg                     11.665.900   kr.

                Aflamark í ýsu                              27.130   kg              80   per/kg                       2.170.400   kr.

                Aflahlutdeild í ufsa                       6.157   kg            130   per/kg                          800.410   kr.

                Aflamark í ufsa                               6.157   kg              20   per/kg                          123.140   kr.

                Aflahlutdeild í steinbít                  3.029   kg            190   per/kg                          575.510   kr.

                Aflamark í steinbít                         3.029   kg              30   per/kg                            90.870   kr.

                                                                                                              Samtals               15.426.230   kr.  

 

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, hefur sett fram varakröfu sína ef varnaraðila tekst að sýna fram á að markaðsverð bátsins ásamt veðsettum veiðiheimildum hafi verið hærra en söluverð bátsins, en eðlilegt sé að jafnræði sé með aðilum verði það leitt í ljós.

IV.

                Sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., heldur því fram að hann hafi efnt greiðslu samkvæmt kaupsamningi 13. nóvember 2000 við sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar. Sem eigandi bátsins samkvæmt þinglýstum kaupsamningi hafi sóknaraðili beinna hagsmuna að gæta hvernig söluverðinu verði ráðstafað og geti látið mál þetta til sín taka.

                Sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., andmælir útreikningi á kröfu varnaraðila að fjárhæð 50.470.340 krónur, sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar í frumvarpi sýslumanns. Telur sóknaraðili að krafan sé ofreiknuð um 1.931.506 krónur þegar tekið hefur verið tillit til innborgana inn á kröfuna. Ef miðað er við upphafleg ákvæði veðskuldabréfsins hafi krafan í raun verið í fullum skilum allt þar til 5. júní 2002. Varnaraðili sjálfur hafi lýst því yfir að innborgun á bréfið hafi verið ráðstafað til greiðslu á gjaldföllunum afborgunum sökum þess að ekki hafi verið staðið að fullu við samkomulag um niðurgreiðslu á höfuðstól bréfsins. Við útreikning kröfunnar verði að hafa hliðsjón af þessu og taka tillit til innlánsvaxta á innborgaðri fjárhæð, en þannig reiknuð lækki krafan um áðurgreinda fjárhæð þar sem hún hafi fyrst verið í vanskilum frá 5. júní 2002 en ekki 5. apríl 2001, eins og varnaraðili byggi á.

V.

                Varnaraðili mótmælir að öllu leyti kröfugerð sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, bæði varðandi þær veiðiheimildir sem dánarbúið telji „óveðsetta eign“ og útreikningi á þeim veiðiheimildum sem aldrei hafi verið aðgreindar frá því er fylgir bátnum.

                Varnaraðili vísar til þess að eftir gildistöku laga um samningsveð, nr. 75/1997, sé óheimilt að veðsetja aflahlutdeild skips. Hafi skipið hins vegar verið veðsett sé eiganda þess ekki heimilt að skilja aflahlutdeildina frá skipinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðrétt eiga í skipinu. Regla þessi helgist af því að eðlilegt sé að líta á fiskiskip og aflahlutdeild sem eina heild. Um þetta sé nánar mælt fyrir í 4. mgr. 3. gr., en samkvæmt því ákvæði verði kvóti ekki veðsettur einn og sér, auk þess sem kvóti verði ekki framseldur af skipi nema með samþykki veðhafa. Aflahlutdeild geti því ekki verið sjálfstætt andlag veðréttar. Því sé byggt á misskilningi hjá dánarbúinu að líta á hluta af veiðiheimildum bátsins sem óveðsett verðmæti meðan önnur slík réttindi séu veðsett.

                Varnaraðili heldur því fram að hann hafi samþykkt skuldaraskipti á veðskuldabréfinu, sem lá til grundvallar kröfu hans um nauðungarsölu á bátnum, með því skilyrði að sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, greiddi bréfið niður um 12.519.138,20 krónur, sbr. yfirlýsingu frá 24. nóvember 2000. Þannig tæki sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., yfir 36.000.000 króna af skuldinni miðað við kaupsamningsdag 13. sama mánaðar. Að auki hafi samþykki varnaraðila verið bundið því skilyrði að sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., yrði þinglýstur eigandi bátsins, en ella félli yfirtaka á skuldinni niður. Varnaraðili telur að hvorugu þessara skilyrða hafi verið fullnægt. Hinn 7. desember 2000 hafi fyrst verið greitt inn á bréfið eftir að afborgun 5. sama mánaðar var fallin í gjalddaga til viðbótar við fyrri vanskil vegna afborgunar 5. nóvember sama ár. Að teknu tilliti til þessara vanskila hafi innborgun inn á höfuðstól bréfsins numið 10.302.900 krónum, en eftir það hafi ekki verið greitt frekar inn á höfuðstól bréfsins þrátt fyrir áskoranir.          

                Varnaraðili lítur svo á að með kaupsamningi 13. nóvember 2000 hafi sóknaraðilar komið sér saman um söluverð bátsins og þess sem honum fylgdi. Þó hafi verið gerður fyrirvari um uppgjör á hluta veiðiheimilda, sem annars fylgdu skipinu án þess að sérstök greiðsla kæmi í staðinn. Þetta samkomulag sóknaraðila hafi engu breytt um réttindi veðhafa. Eftir sem áður yrði að leita skriflegs samþykkis þeirra til flutnings veiðiheimilda af bátnum á annað skip. Varnaraðili hafi hvorki gefið fyrirheit né samþykkt slíkan flutning veiðiheimilda, ef eftir því yrði leitað. Samkomulagið hafi því eingöngu verið milli sóknaraðila um verðlagningu söluhlutar.

                Varnaraðili mótmælir kröfugerð sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., aðallega með þeim rökum að hún sé of seint fram komin, en þegar af þeirri ástæðu sé rétt að henni verði vísað frá dómi. Til vara andmælir varnaraðili útreikningi sóknaraðila, þar sem ekkert tilefni sé til að breyta þegar samþykktri fjárhæð kröfunnar í frumvarpi til úthlutunar á söluverði. Í því sambandi vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki staðið við þær skuldbindingar sem hann hafi gengist undir við yfirtöku veðskuldabréfsins.

VI.

                Í málinu deila aðilar um úthlutun söluverðs bátsins Sigmundar SH-369, sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi seldi við nauðungarsölu 2. september 2002. Sóknaraðilar krefjast þess að frumvarpi sýslumanns 29. október sama ár verði breytt en varnaraðili krefst þess að frumvarpið verði lagt til grundvallar við úthlutun.

                Svo sem áður er rakið verður ekki séð að sýslumaður hafi sent sóknaraðila, Samfélagi Ísfirðinga ehf., frumvarp til úthlutunar á söluverði eða boðað hann til fundar 2. desember 2002 í tilefni af andmælum gegn frumvarpinu. Var þetta andstætt ákvæðum 1. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 52. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Með bréfi sýslumanns, sem ritað var sunnudaginn 8. desember sama ár, var sóknaraðila hins vegar gerð grein fyrir því að fundur samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna hefði verið haldinn og þar hefði verið tekin sú ákvörðun að frumvarpinu yrði ekki breytt. Ætla verður að þetta bréf hafi í fyrsta lagi verið póstlagt daginn eftir og ekki borist sóknaraðila fyrr en einhverjum dögum síðar. Sóknaraðili krafðist þess síðan með bréfi 19. sama mánaðar, sem sent var samdægurs með símbréfi, að ágreiningnum yrði vísað til úrlausnar héraðsdómara. Samkvæmt þessu er ekki annað leitt í ljós en að sú yfirlýsing sóknaraðila hafi komið fram innan lögboðins viku frests frá því honum var kunnugt um ákvörðun sýslumanns, sbr. 2. mgr. 73. gr. Komast kröfur sóknaraðila því að í málinu.  

                Í kaupsamningi um bátinn 13. nóvember 2000 undanskildi sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, fiskveiðiheimildir í ýsu, ufsa og steinbít. Þótt orðalag kaupsamningsins bendi til að einungis sé undanskilið aflamark í þessum tegundum í tvö fiskveiðiár er ágreiningslaust með málsaðilum að samningsákvæðið taki til aflahlutdeildar bátsins, sem úthlutað var samkvæmt lögum nr. 129/2001 um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990.

                Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, verður aflahlutdeild ekki skilin frá veðsettu fiskiskipi nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi skipi. Í málinu liggur fyrir að aflahlutdeild í tilgreindum tegundum, sem sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, undanskildi við söluna, höfðu ekki verið skildar frá bátnum og fylgdu þær honum því þegar bátnum var ráðstafað við nauðungarsöluna.

                Við úthlutun í kjölfar nauðungarsölu skal söluverðinu úthlutað til aðila að nauðungarsölunni eftir því sem til hrekkur og rétthæð krafna þeirra leiðir til, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991. Hvað sem líður réttindum sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, samkvæmt kaupsamningi um bátinn er í öllu falli ljóst að dánarbúið nýtur ekki hlutbundinna tryggingarréttinda í bátnum, sem komið geta til greina við úthlutun söluverðsins. Hafi dánarbúið á hinn bóginn öðlast rétt á hendur varnaraðila á grundvelli yfirlýsingar hans 24. nóvember 2000 vegna sölu bátsins og yfirtöku kaupanda á veðskuld verður dánarbúið að sækja þann rétt beint á hendur varnaraðila, eftir atvikum með málsókn eftir almennum reglum. Samkvæmt þessu er hafnað kröfu sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, um að frumvarpi sýslumanns verði breytt á þann veg að dánarbúið fái úthlutun af söluverði.

                Samkvæmt veðskuldabréfi varnaraðila 28. apríl 1999, sem lá til grundvallar kröfu hans um nauðungarsölu á bátnum, var varnaraðila heimilt að gjaldfella bréfið við sölu veðsins, sbr. f-liður 1. mgr. 9. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997. Í tengslum við sölu bátsins 13. nóvember 2000 varð að samkomulagi með málsaðilum að sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., yfirtæki 36.000.000 króna af bréfinu, en sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, gerði kröfuna upp að öðru leyti. Við þetta stóð dánarbúið ekki að fullu, en það greiddi þó næstu tvær afborganir af bréfinu, sem féllu í gjalddaga 5. janúar og 5. febrúar 2001. Að öðru leyti hefur einungis verið greidd ein afborgun af bréfinu, sem féll í gjalddaga 5. mars sama ár, en ekki liggur fyrir hvor sóknaraðila innti þá greiðslu af hendi. Veðskuldabréfið hefur því verið í vanskilum frá 5. apríl 2001 og af þeim sökum var varnaraðila heimilt að eindaga bréfið, svo sem hann gerði með innheimtubréfi 26. júlí 2001, og reikna kröfu sína út á þeim grundvelli. Í þessu tilliti stoðar ekki fyrir sóknaraðila, Samfélag Ísfirðinga ehf., sem að öllu eða verulegu leyti hefur vanefnt skuldbindingu sína um yfirtöku skuldarinnar, að bera fyrir sig greiðslur sóknaraðila, db. Einars Kristjánssonar, og miða við upphaflegt efni bréfsins, enda verður ekki talið að varnaraðili hafi fallið frá að krafan yrði gerð upp í samræmi við fyrrgreind samkomulag um yfirtöku skuldarinnar. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila, Samfélags Ísfirðinga ehf., um að frumvarpi sýslumanns verði breytt til lækkunar á úthlutun til varnaraðila.

                Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu varnaraðila um að staðfest verði ákvörðun sýslumanns frá 2. desember 2002 um að frumvarp til úthlutunar á söluverði bátsins Sigmundar SH-369 standi óbreytt.  

                Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað, svo sem í úrskurðarorði greinir.

                Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Stykkishólmi frá 2. desember 2002 um að leggja óbreytt til grundvallar frumvarp 29. október sama ár til úthlutunar á söluverði bátsins Sigmundur SH-369.

                Sóknaraðili, db. Einars Kristjánssonar, og sóknaraðili, Samfélag Ísfirðinga ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur in solidum í málskostnað.