Print

Mál nr. 257/2011

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Fæðingarorlof

                                     

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011.

Nr. 257/2011.

Kristín Helga Þórarinsdóttir

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Ráðningasamningur. Uppsögn. Fæðingarorlof.

K höfðaði mál vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi. Byggði K á því að óheimilt hefði verið að segja henni upp störfum vegna ákvæða 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Óumdeilt var að uppsögn áfrýjanda tengdist því ekki að hún hefði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs heldur greindi aðila á um hvort gildar ástæður hefðu búið að baki uppsögninni í skilningi lagagreinarinnar. Fyrir lá að K hafði ekki sérmenntun á því sviði sem starf hennar hjá G laut að. Í janúar 2010 var K tilkynnt að til stæði að ráða starfsmann með slíka sérþekkingu og var starfsmönnum stofnunarinnar einnig tilkynnt þetta í tölvubréfi 1. febrúar sama ár. Að þessu gættu féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að uppsögn K hefði ekki verið andstæð 30. gr. laga nr. 95/2000 og var Í sýknað af kröfum K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2011. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 1.872.727 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. apríl 2010 til 2. september sama ár og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur stefnda á því að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafi verið óheimilt að segja henni upp störfum vegna ákvæða 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Óumdeilt er að uppsögn áfrýjanda tengdist því ekki að hún hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, heldur greinir aðila á um hvort gildar ástæður hafi búið að baki uppsögninni í skilningi lagagreinarinnar. Áfrýjandi hafði ekki sérmenntun á því sviði sem starf hennar hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni laut að og kveður áfrýjandi að í byrjun janúar 2010 hafi sér verið gerð grein fyrir að til stæði að ráða í sinn stað starfsmann með slíka sérþekkingu. Var sú ákvörðun einnig kynnt starfsmönnum stofnunarinnar með tölvubréfi 1. febrúar 2010. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður uppsögn áfrýjanda ekki talin hafa verið andstæð 30. gr. laga nr. 95/2000. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður áfrýjandi dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristín Helga Þórarinsdóttir, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristínu Helgu Þórarinsdóttur, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, með stefnu birtri 16. ágúst 2010, á hendur íslenska ríkinu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð samtals 1.872.727 kr. ásamt skaðabótavöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. apríl 2010 og fram til þingfestingar máls þessa og dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingu til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

II

Málavextir

Stefnandi þessa máls réð sig til starfa sem læknir hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í september 2007. Í upphafi var hún ráðin tímabundið, en í október 2009 var gerður við hana samningur um fastráðningu. Samkvæmt stefnda var aðdragandi að ráðningu stefnanda sá að í árslok 2006 lét einn af barnalæknum stofnunarinnar af störfum. Auglýst hafi verið eftir barnalækni til starfa, annaðhvort með sérhæfingu og reynslu á sviði fatlana eða með áhuga á að afla sér þekkingar á því sviði sem nýttist til sérfræðiviðurkenningar í fötlunum barna en ekki hafi tekist að finna barnalækni á þessum tíma með svo sérhæfða menntun. Hafi forstöðumaður stofnunarinnar því boðið stefnanda að koma til starfa sem almennur læknir á meðan verið væri að finna sérfræðilækni til starfa. Í janúar 2010 var stefnanda tilkynnt að nýr sérfræðilæknir myndi koma til starfa og henni yrði formlega sagt upp. Starfsmönnum Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins var sendur tölvupóstur þann 1. febrúar 2010 þar sem fram kemur að stefnandi myndi hætta.

Stefnandi tilkynnti yfirmanni sínum að hún væri barnshafandi 17. febrúar 2010. Yfirmaður stefnanda tjáði henni munnlega 28. apríl 2010 að henni yrði sagt upp frá 1. ágúst 2010 og sendi henni síðar sama dag formlegt uppsagnarbréf. Stefnandi segist hafa tjáð honum vonbrigði sín með að uppsögn skyldi berast við þessar kringumstæður þar sem hún væri barnshafandi og hafa farið fram á að fá að lágmarki að vinna fram að áætluðum barnsburði, eða fram til mánaðamóta september/október. Í uppsagnarbréfinu var vísað til fyrri umræðna forstöðumanns og stefnanda um að hún léti af störfum sem almennur læknir hjá stofnuninni þegar völ væri á sérfræðilækni til starfa. Stefnandi segist hafa ítrekað beiðni sína á fundi sem haldinn hafi verið 20. maí 2010 með yfirmanni og fjármálastjóra stofnunarinnar en þar hafi henni verið tjáð að ekki væri unnt að halda henni í vinnu fram að barnsburði. Stefnandi leitaði til stéttarfélags síns og lögmanns þess, sem ritaði bréf og gerði kröfu til þess á grundvelli 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 að uppsögnin yrði dregin til baka en því var hafnað.

Fyrir dóminum gáfu skýrslur stefnandi, Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins og Heimir Bjarnason, rekstrarstjóri stofnunarinnar.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hún eigi rétt til skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar stefnda á ráðningarsamningi. Skaðabætur taki mið af því tjóni sem riftunin hafi valdið og miðist við laun út það tímabil sem stefnandi njóti verndar gegn uppsögnum í starfi á grundvelli 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Óumdeilt sé í málinu að stefnandi hafi greint forsvarsmönnum Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins frá þungun sinni um miðjan febrúar 2010. Hún njóti því verndar gegn uppsögnum atvinnurekenda með vísan til nefnds lagaákvæðis þar sem komi fram að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða sé í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Stefnandi njóti ekki einungis verndar gegn uppsögnum á meðan hún sé í fæðingarorlofi heldur einnig allt til þess tíma er hún hafi að fullu tekið út fyrirhugað fæðingarorlof. Þá taki við þriggja mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi.

Stefnandi mótmælir því að gildar ástæður hafi verið fyrir uppsögninni. Einungis hafði verið um það rætt að stefnanda kynni að verða sagt upp ef læknir, sem hefði rétta sérmenntun byðist. Samt sem áður hafi verið gerður samningur um fastráðningu örfáum mánuðum áður en henni hafi verið sagt upp. Enginn áskilnaður hafi verið í fastráðningarsamningi um að henni yrði sagt upp ef annar starfsmaður byðist. Þá hafi skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni verið ábótavant.

Stefnandi vísar til þess að krafa hennar sé sett fram sem skaðabótakrafa vegna ólögmætrar uppsagnar og bótafjárhæð taki mið af launum vegna þess tíma sem hún telji sig eiga rétt til. Hluti þess tíma sé enn ekki liðinn, en uppsögnin hafi þegar átt sér stað. Kröfur stefnanda, að teknu tilliti til lækkunar sem gerð var við upphaf aðalmeðferðar vegna greiðslu atvinnuleysisbóta í september, sundurliðast á eftirfarandi hátt:

Bætur sem nema launum í 5 mánuði

318.391 x 5

kr.   1.466.468

13,04% orlof af kr. 1.591.955

“        207.591

Desemberuppbót 5/12 af kr. 46.800 (19.500)  x 70 %

“         13.650

Orlofsuppbót 5/12 af kr. 25.800 (10.750) x70 %

“           7.525

Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð

8% af  1.820.721                                           

“        145.658

Framlag atvinnurekanda í séreignasjóð,

Almenna lífeyrissjóðinn, 6.367 x 5

“          31.835

-----------------------

kr.  1.872.727

                              

Um lagarök vísar stefnandi að öðru leyti til reglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og vinnuréttarins um að virða beri kjarasamninga.  Vaxtakrafan byggist á 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dráttarvaxtakrafan á 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa byggir á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er því mótmælt að um ólögmæta riftun á ráðningarsamningi hafi verið að ræða. Uppsögn stefnanda hafi ekki stafað af því að hún hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs heldur hafi legið gildar ástæður að baki uppsögninni í skilningi 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins hafi allt frá upphafi ráðningar stefnanda gert henni grein fyrir því að ráðningin væri aðeins tímabundin. Það að gerður hafi verið ótímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda hafi eingöngu byggst á því að stofnun­inni hafi verið óheimilt að gera á ný tímabundinn samning við stefnanda þar sem hún hafði starfað þar samfellt í tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við gerð samningsins hafi upphafleg forsenda vinnusambandsins verið ítrekuð og því ljóst að ráðningu stefnanda myndi ljúka þegar sérfræðilæknir fengist til starfa. Uppsögnin hafi því ekki tengst þungun stefnanda heldur komið til af ástæðum sem snert hafi uppbyggingu faglegrar þekkingar á stofnuninni. Gildar ástæður hafi því verið fyrir uppsögn stefnanda og í uppsagnarbréfi hafi þær komið skýrt fram.

Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi kröfu til bóta vegna uppsagnar. Stefnandi hafi fengið greidd þau laun sem henni hafi borið og ekki hafi stofnast réttur til frekari greiðslna, hvorki á grundvelli ráðningarsamnings né kjara­samnings.  Uppsögn á ráðningarsamningi stefnanda var að mati stefnda lögmæt og breyti þar engu um að stefnandi hafi tilkynnt að hún væri barnshafandi. Þar sem tilefni starfs­loka stefnanda megi rekja til þeirrar forsendu sem snerta uppbyggingu faglegrar starfsemi stofnunarinnar og að sú forsenda var stefnanda kunn verði ekki séð að nokkur grundvöllur sé fyrir skaðabótakröfu hennar. Eftir að stefnanda hafi verið sagt upp hafi hún óskað eftir breytingum á ráðningarskilmálum.

Til stuðnings varakröfu sinni um lækkun krafna vísar stefndi til þess að framsetning á skaðabótakröfu stefnanda standist ekki en hún taki mið af launum vegna tímabils sem enn sé ekki liðið þótt uppsögn hafi átt sér stað þegar í stað. Þótt miðað væri við að krafa stefnanda hefði orðið til við uppsögn ráðningar­samnings beri stefnanda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins að leitast við að takmarka tjón sitt með því að afla sér vinnu hjá öðrum í framhaldi af uppsögn. Vísar stefndi hér til hliðsjónar til 2. mgr. 32. gr. starfsmannalaga. Þá telur stefndi hæpið að leggja við framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, enda sé þar um að ræða kröfu sjóðsins og fé sem hefði umbreyst í réttindi en ekki jafngildi í krónum gagnvart stefnanda. Kröfum um vexti og dráttarvexti er mótmælt, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er vinnuveitanda óheimilt að segja starfsmanni upp vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs eða foreldraorlofs eða sé í slíku orlofi. Frá þessu má þó víkja ef gildar ástæður eru fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Hefur ákvæðið verið skýrt svo að í öllum öðrum tilvikum sé uppsögn óheimil þótt ekki sé sýnt fram á að hún sé gagngert komin til vegna þess að starfsmaður hafi annað tveggja tilkynnt um fyrirhugaða töku orlofs eða sé að taka það út. Enn fremur hefur sönnunarbyrði fyrir því að gildar ástæður hafi legið til grundvallar uppsögninni verið lögð á vinnuveitandann.

Stefnandi, sem er með almennt lækningaleyfi, hóf störf hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í október 2007. Samhliða starfi sínu var hún í námi í siðfræði við Háskóla Íslands en hún mun ekki hafa haft hug á að afla sér sérfræðiþekkingar á sviði fötlunar barna. Gerður var skriflegur fastráðningarsamningur við stefnanda hinn 16. nóvember 2009, en þá var liðinn sá hámarkstími sem ráða mátti hana tímabundið, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Óumdeilt er að haustið 2009 var stefnanda gerð grein fyrir því að ef stofnuninni stæði til boða að ráða lækni með sérfræðileyfi í barnalækningum og þekkingu á málefnum fatlaðra barna yrði ekki lengur fjárhagslegt svigrúm til að hafa hana í vinnu. Stefnandi kannast hins vegar ekki við að þessi sjónarmið hafi verið reifuð við upphaflega ráðningu hennar eða fastráðninguna eins og haldið er fram af hálfu stefnda. Í byrjun janúar 2010 mun stefnanda hafa verið sagt að stofnuninni byðist að ráða til starfa umrætt sérfræðileyfi og þekkingu og því yrði ekki unnt að halda opinni stöðu fyrir hana samhliða. Hinn 1. febrúar 2010 var öllum starfsmönnum stofnunarinnar sendur tölvupóstur þar sem fram kom að auglýst yrði í næstu viku  laus staða læknis með sérfræðiviðurkenningu í fötlunum/hæfingu barna og að horft yrði til haustsins um ráðninguna. Stefnandi og annar nafngreindur starfsmaður myndu þá hverfa frá stofnuninni. Hinn 17. febrúar 2010 skýrði stefnandi forstöðumanni stofnunarinnar frá því að hún væri barnshafandi. Ljóst er því að ákvörðun um að segja stefnanda upp hafði verið tekin áður en hún tilkynnti forstöðumanninum um þungunina, þótt ekki hefði henni verið sent formlegt uppsagnarbréf.

Stefnanda var hinn 28. apríl 2010 sent bréf forstöðumanns Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins þar sem henni var sagt upp störfum. Sama dag hafði forstöðumaðurinn tilkynnt henni símleiðis um uppsögnina en stefnandi var þá heima í veikindaleyfi. Bréfið, sem ber yfirskriftina „Starfslok á Greiningarstöð“ er svohljóðandi: „Ágæta Kristín Helga. Ég vísa í fyrri umræður okkar um starfstíma þinn sem almennur læknir á Greiningar- og ráðgjafastöð, en af hálfu Greiningarstöðvarinnar var miðað við að þú létir af störfum, þegar völ væri á sérfræðilækni til starfa á stofnuninni. Sú staða er nú uppi. Í samræmi við þetta er þér hér með sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti, þannig að starfslok vera að óbreyttu frá og með 1. ágúst nk.“ Að mati dómsins er ljóst af bréfinu að ástæða uppsagnarinnar var sú að stofnuninni stóð til boða læknir með tilskilin sérfræðiréttindi og verður því að telja að um fullnægjandi rökstuðning hafi verið að ræða, sérstaklega með hliðsjón af því að þessi mál hafði áður borið á góma í samskiptum stefnanda og forstöðumannsins.

Óumdeilt er í málinu að uppsögn stefnanda tengist því ekki að hún hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Aðila greinir hins vegar á um hvort gildar ástæður hafi búið að baki uppsögninni.

Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins starfar á grundvelli laga nr. 83/2003. Stofnuninni er ætlað að tryggja það markmið laganna að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miði að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar, enn fremur að tryggja öflun, viðhald og miðlun fræðilegrar þekkingar á þessu sviði. Er hlutverk stofnunarinnar nánar tilgreint í 3. gr. laganna. Ljóst er að miklu skiptir fyrir stofnunina að til hennar ráðist starfsfólk með sérþekkingu á málefnum barna með alvarlegar þroskaraskanir til þess að umrædd markmið náist og stofnunin geti byggt upp faglega þekkingu. Fram hefur komið að ekki hafi reynst unnt að manna stöðu læknis með sérfræðiþekkingu í fötlunum barna og því hafi stefnandi, sem er með almennt lækningaleyfi og hafði ekki hug á að afla sér slíkrar þekkingar, verið ráðin í stöðuna. Fyrir liggur að barnalæknir með sérfræðiviðurkenningu og reynslu í taugasjúkdómum barna og hæfingu hafði sambandi við forstöðumann stofnunarinnar í ársbyrjun 2010 og lýsti yfir áhuga á að starfa hjá stofnuninni. Var staða stefnanda því auglýst laus til umsóknar og stefnanda jafnframt sagt upp störfum. Reyndist læknirinn sem hafði haft samband við stofnunina vera eini umsækjandinn um stöðuna og var hann ráðinn til starfans. Með hliðsjón af því sem að framan segir um markmið laga nr. 83/2003 um Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og nauðsyn stofnunarinnar til að byggja upp faglega þekkingu verður að fallast á það með stefnda að gildar ástæður hafi verið fyrir uppsögn stefnanda og því heimilt að segja henni upp störfum þrátt fyrir ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Kristínar Helgu Þórarinsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.