Hæstiréttur íslands
Mál nr. 157/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 157/2006. |
101 Fasteignafélag ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Stafna á milli ehf. Frakkastíg ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Máli sem F höfðaði á hendur S, F og H og til réttargæslu V og VL var vísað frá héraðsdómi með vísan til þess að stefna hefði þurft V til fullrar aðildar að málinu. Talið var að gögn málsins bentu til að V hefði haft stöðu veðhafa í fasteignaviðskiptum þeim sem deilt var um í málinu og yrði því ekki fallist á með héraðsdómara að F hefði borið á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að stefna V til fullrar aðildar að málinu. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Gögn málsins benda til þess að Verðbréfastofan hf. hafi stöðu veðhafa í fasteignaviðskiptum þeim sem um er deilt. Verður því ekki fallist á það með héraðsdómara að sóknaraðila hafi borið á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 að stefna réttargæslustefnda Verðbréfastofunni hf. til fullrar aðildar í málinu.
Fallist er á með varnaraðilum að nokkuð skorti á skýrleika í kröfugerð sóknaraðila en ekki þykir nægileg ástæða til að vísa málinu frá að svo stöddu vegna þessa. Með vísan til þess sem að framan greinir er hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Stafna á milli ehf., Frakkastígur ehf. og Hverfisgata 59 ehf., greiði óskipt sóknaraðila, 101 Fasteignafélagi ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2006.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 1. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af 101 Fasteignafélagi ehf., Grandagarði 3, 107 Reykjavík, til efnda in natura á kaupsamningi, auk málskostnaðar, með stefnu birtri 11. janúar 2006.
Stefndu eru Stafna á milli ehf., Frakkastígur ehf. og Hverfisgata 59 ehf., öll til heimilis að Lynghálsi 4, 110 Reykjavík.
Réttargæslustefndu eru Vatn og land ehf., Kringlunni 7, 103 Reykjavík, og Verðbréfastofan hf., Suðurlandsbraut 18, 108 Reykjavík. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur á hendur réttargæslustefndu. Þeir hafa ekki látið málið til sína taka en stefnan var birt þeim 12. janúar 2006.
Dómkröfur
Í þessum þætti málsins hafa stefndu gert kröfu um frávísun málsins frá Héraðsdómi og málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu og krefst málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Annars eru dómkröfur í málinu eftirfarandi:
Dómkröfur stefnanda:
A. Á hendur stefnda Stafna á milli ehf. eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði með dómi að í gildi sé bindandi kaupsamningur á milli stefnanda og stefnda um eftirfarandi fasteignir, eins og þeim er lýst í samningi aðila sem komst á með samþykki stefnda á kauptilboði stefnanda þann 19. nóvember 2005:
Lindargata 44, fastanúmer 200-3339, 200-3340 og 200-3341, eignarhlutar 030101, 030201 og 030301, Frakkastígur 6a, fastanúmer 200-3349, eignarhluti 010201, Frakkastígur 6b, lóð, landnúmer 101086, greinitala 0000-01-1152514, Vatnsstígur 8, fastanúmer 200-3322, eignarhluti 010101, Vatnsstígur 10, fastanúmer 200-3325, 200-3326, 200-3327, 200-3328 og 200-3329, eignarhlutar 010101, 010201, 020101, 030101 og 040101, Vatnsstígur 10b, fastanúmer 200-3323 og 200-3324, eignarhlutar 010101 og 010201, Hverfisgata 53, fastanúmer 200-3375, eignarhluti 010201, Hverfisgata 55, fastanúmer 200-3371, 200-3372 og 200-3373, eignarhlutar 010101, 010102, og 010201, Hverfisgata 57, fastanúmer 200-3365, eignarhluti 010101, Hverfisgata 59a, 200-3359, 200-3360, 200-3361, 200-3362 og 200-3363, eignarhlutar 010102, 010201, 010301, 010401, og 010402, Hverfisgata 61, fastanúmer 200-3352, 200-3353, 200-3354, 200-3355, 200-3356 og 200-3357, eignarhlutar 010101, 010201, 020001, 020101, 020102 og 030101.
2. Að stefnda verði gert að uppfylla allar skyldur sínar samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði, þ.m.t. að undirrita skriflegan kaupsamning við stefnanda á grundvelli hins samþykkta kauptilboðs og afhenda um leið fasteignirnar, að gefa út afsal fyrir fasteignunum og undirrita skilyrt veðleyfi á grundvelli ábyrgðar Íslandsbanka, dagsettri þann 30. desember 2005, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 150.000,- frá uppkvaðningu dóms eða eftir mati dómsins.
B. Á hendur stefnda Frakkastíg ehf. eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:
1. Að viðurkennt verði með dómi að í gildi sé bindandi kaupsamningur á milli stefnanda og stefnda um eftirfarandi fasteignir, eins og þeim er lýst í samningi aðila sem komst á með samþykki stefnda á kauptilboði stefnanda þann 19. nóvember 2005:
Laugavegur 41, fastanúmer 200-4759, 200-4760, og 226-4800, eignarhlutar 010101, 010201, og 010301, Laugavegur 41a, þinglýstu gagntilboði í eignina, fastanúmer 200-4761 og 200-4762, eignarhlutar 010001 og 010101, Laugavegur 41a, bílskúr, fastanúmer 200-4763, eignarhluti 020101, Laugavegur 43, fastanúmer 200-4757 og 223-9070, eignarhlutar 010101, 010401, Laugavegur 45, fastanúmer 200-4755 og 200-4756, eignarhlutar 040101 og 040201, Laugavegur 45a, er hluti af Frakkastíg 8, Laugavegur 45b, er hluti af Frakkastíg 8, Frakkastígur 8, fastanúmer 200-4739, 200-4740, 200-4741, 200-4742, 200-4743, 200-4744, 200-4745, 200-4746, 200-4747, 200-4748, 200-4749, 200-4750, 200-4751, 200-4752, 200-4753 og 200-4754, eignarhlutar 010101, 010201, 010202, 010203, 010204, 010205, 010206, 010301, 010302, 010303, 010304, 010305, 010306, 010401, 010402 og 010403, Hverfisgata 58, fastanúmer 200-4728, 200-4729, 200-4730, 200-4731, 200-4732 og 200-4733, eignarhlutar 010001, 010101, 010201, 020101, 020102, og 020103, Hverfisgata 58a, fastanúmer 200-4734, og 200-4736, eignarhlutar 010001, og 010201, Hverfisgata 62, er hluti af Frakkastíg 8.
2. Að stefnda verði gert að uppfylla allar skyldur sínar samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði, þ.m.t. að undirrita skriflegan kaupsamning við stefnanda á grundvelli hins samþykkta kauptilboðs og afhenda um leið fasteignirnar, að gefa út afsal fyrir fasteignunum og undirrita skilyrt veðleyfi á grundvelli ábyrgðar Íslandsbanka, dagsettri þann 30. desember 2005, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 150.000,- frá uppkvaðningu dóms eða eftir mati dómsins.
C. Á hendur stefnda Hverfisgötu 59 ehf. eru gerðar eftirfarandi dómkröfur.
1. Að viðurkennt verði með dómi að í gildi sé bindandi kaupsamningur á milli stefnanda og stefnda um fasteignina Hverfisgata 59, fastanúmer 200-3358, eignarhluti 010101, eins og eigninni er lýst í samningi aðila sem komst á með samþykki stefnda á kauptilboði stefnanda þann 19. nóvember 2005.
2. Að stefnda verði gert að uppfylla allar skyldur sínar samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði, þ.m.t. að undirrita skriflegan kaupsamning við stefnanda á grundvelli hins samþykkta kauptilboðs og afhenda um leið fasteignina, að gefa út afsal fyrir fasteigninni og undirrita skilyrt veðleyfi á grundvelli ábyrgðar Íslandsbanka, dagsettri þann 30. desember 2005, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 50.000,- frá uppkvaðningu dóms eða eftir mati dómsins.
Allt gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt samningi stefnanda og stefndu, samtals að fjárhæð kr. 1.375.000.000,-, sem greiðist að kr. 1.275.000.000,- við gerð kaupsamnings og kr. 100.000.000,- sex mánuðum eftir gerð kaupsamnings og skiptist milli stefndu samkvæmt 4. gr. samnings aðila.
D. Þess er einnig krafist að öllum stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu:
Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda hvort heldur sem aðal- eða varakrafa þeirra verður tekin til greina.
Málsatvik.
Hinn 19. nóvember 2005 undirrituðu Magnús Ingi Erlingsson f.h. óstofnaðs hlutafélags (nú stefnandi 101 Fasteignafélag ehf.) og fyrirsvarsmenn stefndu Stafna á milli ehf., Frakkastígs ehf. og Hverfisgötu 59 ehf. fyrir hönd félaganna kauptilboð um eftirfarandi fasteignir:
Frakkastígsreitur:
Laugavegur 41, fastanúmer 200-4759, 200-4760, og 226-4800, eignarhlutar 010101, 010201, og 010301,
Laugavegur 41a, þinglýstu gagntilboði í eignina, fastanúmer 200-4761 og 200-4762, eignarhlutar 010001 og 010101,
Laugavegur 41a, bílskúr, fastanúmer 200-4763, eignarhluti 020101,
Laugavegur 43, fastanúmer 200-4757 og 223-9070, eignarhlutar 010101, 010401,
Laugavegur 45, fastanúmer 200-4755 og 200-4756, eignarhlutar 040101 og 040201,
Laugavegur 45a, er hluti af Frakkastíg 8,
Laugavegur 45b, er hluti af Frakkastíg 8,
Frakkastígur 8, fastanúmer 200-4739, 200-4740, 200-4741, 200-4742, 200-4743, 200-4744, 200-4745, 200-4746, 200-4747, 200-4748, 200-4749, 200-4750, 200-4751, 200-4752, 200-4753 og 200-4754, eignarhlutar 010101, 010201, 010202, 010203, 010204, 010205, 010206, 010301, 010302, 010303, 010304, 010305, 010306, 010401, 010402 og 010403,
Hverfisgata 58, fastanúmer 200-4728, 200-4729, 200-4730, 200-4731, 200-4732 og 200-4733, eignarhlutar 010001, 010101, 010201, 020101, 020102, og 020103,
Hverfisgata 58a, fastanúmer 200-4734, og 200-4736, eignarhlutar 010001, og 010201,
Hverfisgata 62, er hluti af Frakkastíg 8,
Hverfisgötureitur:
Lindargata 44, fastanúmer 200-3339, 200-3340 og 200-3341, eignarhlutar 030101, 030201 og 030301,
Frakkastígur 6a, fastanúmer 200-3349, eignarhluti 010201,
Frakkastígur 6b, lóð, landnúmer 101086, greinitala 0000-01-1152514,
Vatnsstígur 8, fastanúmer 200-3322, eignarhluti 010101,
Vatnsstígur 10, fastanúmer 200-3325, 200-3326, 200-3327, 200-3328 og 200-3329, eignarhlutar 010101, 010201, 020101, 030101 og 040101
Vatnsstígur 10b, fastanúmer 200-3323 og 200-3324, eignarhlutar 010101 og 010201,
Hverfisgata 53, fastanúmer 200-3375, eignarhluti 010201,
Hverfisgata 55, fastanúmer 200-3371, 200-3372 og 200-3373, eignarhlutar 010101, 010102, og 010201,
Hverfisgata 57, fastanúmer 200-3365, eignarhluti 010101,
Hverfisgata 59, er skráð sem Hverfisgata 59a,
Hverfisgata 59a, fastanúmer 200-3358, 200-3359, 200-3360, 200-3361, 200-3362 og 200-3363, eignarhlutar 010101, 010102, 010201, 010301, 010401, og 010402,
Hverfisgata 61, fastanúmer 200-3352, 200-3353, 200-3354, 200-3355, 200-3356 og 200-3357, eignarhlutar 010101, 010201, 020001, 020101, 020102 og 030101
Samkvæmt 1. gr. kauptilboðsins skyldi afsal undirritað við kaupsamningsgerð og afhent réttargæslustefnda Verðbréfastofunni hf., þar til yfirtaka lána og lokagreiðsla samkvæmt samningnum hefði farið fram.
Í 3. gr. kauptilboðsins kom fram að allar áhvílandi skuldir vegna hins selda væru hjá Verðbréfastofunni hf. Jafnframt gerðu aðilar fyrirvara um að samkomulag næðist við Verðbréfastofuna hf. vegna uppgjörs áhvílandi veðskulda.
Á fasteignum þessum hvíla veðskuldir, sem nema liðlega 1,5 milljörðum króna við réttargæslustefnda, Verðbréfastofuna hf. Af þessari fjárhæð eru kröfur að höfuðstól 1.040.025.000 kr. samkvæmt 295 handhafaskuldabréfum. Skuldabréf þessi eru öll fallin í gjalddaga og í vanskilum; annars vegar eru 177 skuldabréf að höfuðstól 570.875.000 kr. í vanskilum frá 1. október 2005 og hins vegar eru 118 skuldabréf að höfuðstól 469.150.000 kr. í vanskilum frá 10. október 2005.
Samkvæmt 4. gr. kauptilboðsins var kaupverð ákveðið 1.375.000.000 kr. og skyldu 1.275.000.000 kr. greiðast við kaupsamningsgerð, en 100.000.000 kr. sex mánuðum eftir gerð kaupsamnings. Þá skuldbundu stefndu sig til að veita kaupanda öll nauðsynleg veðleyfi til að kaupin gengju eftir.
Samkvæmt 5. gr. kauptilboðsins skyldi afhenda fasteignirnar við kaupsamningsgerð, sem stefnt var að að halda 15. desember 2005, en skyldi ekki gerður síðar en 31. desember 2005.
Í 9. gr. kauptilboðsins gerði kaupandi fyrirvara um að samkomulag næðist við Þorstein Steingrímsson um sölu eignar hans. Fallið var frá þeim fyrirvara tveimur dögum eftir gerð samningsins.
Í 11. gr. segir að aðilar samþykki kauptilboðið með fyrirvara um samþykki Verðbréfastofunnar hf.
Hinn 30. nóvember 2005 barst stefnanda símskeyti frá stefndu þar sem stefnanda var gefinn frestur til kl. 16:00 mánudaginn 5. desember 2005 til að leggja fram staðfesta yfirlýsingu um fjármögnun kaupanna eða að leggja fram tímasetta áætlun, sem stefndu sættu sig við, um með hvaða hætti kaupin yrðu fjármögnuð. Að öðrum kosti myndu stefndu líta svo á að tilboðið væri niður fallið.
Vegna símskeytisins hélt forsvarsmaður stefnanda tvo fundi, það er 5. og 20. desember 2005.
Hinn 15. desember 2005 var undirrituð viljayfirlýsing með fjárfestum um sameiginlega þátttöku í verkefninu og í kjölfarið eða 19. desember var félagið 101 Fasteignafélag ehf. stofnað en það er stefnandi málsins.
Formlegt svar við símskeytinu 30. nóvember er frá 21. desember 2005. Þar er riftuninni mótmælt sem þýðingarlausri (en það hafði áður verið gert af fasteignasölunni 5. desember 2005.) Þá var stefndu tilkynnt um framgang fjármögnunar kaupanna auk þess sem því var harðlega mótmælt að stefndu létu þinglýsa riftun kauptilboðsins á eignirnar.
Hinn 21. desember 2005 var lögð fram beiðni til Verðbréfastofunnar um áritun á kauptilboðið og tímabundna yfirtöku lána. Áritunin fékkst ekki og sendi stefnandi Verðbréfastofunni áskorun dags. 27. desember 2005 um áritun á kauptilboðið.
Með bréfi 29. desember 2005 svaraði lögmaður Verðbréfastofunnar beiðni/áskorun stefnanda og upplýsti að tveir óháðir aðilar, báðir í krafti undirritaðra kauptilboða við þinglýsta seljendur, óskuðu eftir aðkomu Verðbréfastofunnar. Í bréfinu var afstaða Verðbréfastofunnar skýrð og tekið fram að hvorugt tilboðið yrði áritað.
Hinn 30. desember fékk stefnandi bankaábyrgð hjá Íslandsbanka hf. fyrir allt að 1.275.000.000 kr. og gilti hún til 31. janúar 2006.
Þann 31. desember átti í síðasta lagi að undirrita kaupsamninginn, en ekkert varð af því þar sem stefndu mættu ekki til undirritunarinnar.
Stefnandi ritaði lögmanni Verðbréfastofunnar tölvupóst 2. og 3. janúar 2006 og fékk svar 4. janúar um óbreytta afstöðu frá fyrra bréfi 29. desember 2005. Daginn eftir ritar stefnandi lögmanninum aftur til að árétta lagalega stöðu málsins, en tekur fram að stefnandi líti svo á að beiðni um áritun hafi verið hafnað.
Stefnandi höfðaði síðan mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun málsins.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé ekki í samræmi við 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 einkum d-lið 1. mgr. ákvæðisins. Þannig segir í stefnu að málið sé höfðað til efnda in natura á kaupsamningi. Þessi staðhæfing í stefnu er í andstöðu við kröfugerð stefnanda því samkvæmt 1. tölulið A, B og C í stefnunni krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi, að í gildi sé bindandi kaupsamningur milli stefnanda og stefndu um nánar tilgreindar fasteignir, sem stefndu eru þinglýstir eigendur að. Eðli máls samkvæmt getur stefnandi ekki höfðað mál til efnda in natura á kaupsamningsskyldum, ef byrja þarf á að fá viðurkenningu fyrir því að í gildi sé eða séu kaupsamningur/ar, sem efnda er krafist á. Vilji stefnandi fá viðurkenningu fyrir réttindum sínum varðandi fasteignir þær sem hann tilgreinir í stefnu, ber honum að höfða eignardómsmál samkvæmt 122. gr. sbr. 2. mgr. 120. gr. og 121. gr. sömu laga, þar sem fyrir liggur að þriðji aðili, Verðbréfastofan hf. á réttindi yfir fasteignum, sem stefndu verða ekki knúðir með dómi til að aflétta eða ráðstafa með öðrum hætti.
Í 2. tölulið A, B og C í stefnu er gerð sú krafa, að stefndu verði gert skylt að uppfylla allar skyldur sínar samkvæmt ,,hinu samþykkta kauptilboði, þ.m.t. að undirrita skriflegan kaupsamning við stefnanda á grundvelli hins samþykkta kauptilboðs og afhenda um leið fasteignina, að gefa út afsal fyrir fasteigninni og undirrita skilyrt veðleyfi á grundvelli ábyrgðar Íslandsbanka, dagsettri þann 30. desember 2005, að viðurlögðum dagsektum að fjárhæð 150.000 kr. að því er varðar stefndu Stafna í milli ehf. og Frakkastíg ehf., en 50.000 kr. að því er varðar stefnda Hverfisgötu 59 ehf., frá uppkvaðningu dóms eða eftir mati dómsins“.
Stefndu benda á, að af d-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga leiði að kröfur í dómsmálum verði að vera skýrar og ótvíræðar. Krafan um skýrleika í málatilbúnaði sé óhjákvæmileg svo binda megi enda á þrætu þ.e. réttarágreininginn. Kröfur stefnanda í 2. tölulið A, B og C í stefnu fullnægja ekki kröfum d-liðar 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna og ber því að vísa málinu frá dómi og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar.
Í þessu sambandi benda stefndu einnig á, að yfirlýsing Íslandsbanka hf. um greiðslu á 1.275.000.000 kr. sé skilyrt og tímabundin. Ábyrgðin fellur úr gildi þann 31. janúar 2006, þ.e. sama dag og greinargerð þessari er skilað. Ábyrgð þessi getur því aldrei orðið grundvöllur efnisdóms og úr því verður ekki bætt eftir að frávísunarkrafa þessi er komin fram, sbr. 95. gr., 99. gr. og 2. mgr. 100. gr. einkamálalaga.
Eigi að kveða upp efnisdóm um efndir in natura verður fullnusta dómsins að vera bæði óskilyrt og óháð atbeina þriðja manns, sem óbundinn er af dómnum. Samkvæmt framlögðum gögnum eru efndir in natura í máli þessu háðar því annars vegar, að Íslandsbanki hf. fallist á frekari greiðsluábyrgð og hins vegar, samþykki Verðbréfastofunnar hf. Hvorugt liggur fyrir í máli þessu.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun málsins.
Stefnandi hafnar alfarið frávísunarkröfu stefnda. Hann heldur því fram, að dómkröfur stefnanda séu bæði ákveðnar og skýrar og í fullu samræmi við dómkröfur í sambærilegum málum. Hann telur að heimilt sé að gera í sama máli bæði kröfu um viðurkenningu á skuldbindingargildi samnings og efndir hans. Því til stuðnings vísar hann til dóma Hæstaréttar Íslands.
Þá telur stefnandi að 18. gr. eml. eigi ekki við í málinu og því leiði ætluð röng aðild ekki til frávísunar málsins. Þar að auki sé málsástæða þessi of seint fram komin. Stefnandi bendir á, að í greinargerð stefnda komi fram að stefnandi eigi ekki kröfur á hendur Verðbréfastofunni.
Þá telur stefnandi að dómkröfur um efndir kaupsamnings um fasteign séu ekki gerðar á hendur veðhafa. Lögmaðurinn vísar til 1. mgr. 46. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 svo og 20. gr. laga um samningsveð nr. 97/1995 og til nokkra dóma Hæstaréttar Íslands. Varðandi bankaábyrgð Íslandsbanka þá tekur lögmaður stefnanda fram, að vegna kostnaðar við hana sé ábyrgðin tekin tímabundið. Krafan um undirritun veðleyfisins byggist á 4. gr. kauptilboðsins.
Forsendur og niðurstaða.
Í málinu er kröfugerð stefnanda tvískipt. Fyrri hluti hennar er viðurkenningarkrafa, þ.e. að dómurinn viðurkenni að í gildi sé bindandi kaupsamningur á milli málsaðila. Í seinni hluta kröfunnar er þess krafist, að stefndu efni hið samþykkta kauptilboð.
Samkvæmt gögnum málsins var kauptilboð stefnanda til stefndu samþykkt af þeirra hálfu 19. nóvember sl. Í því eru fyrirvarar. Í 3. gr. kauptilboðsins sem varðar skuldir segir m.a.: „Allar áhvílandi skuldir vegna hins selda eru hjá Verðbréfastofunni hf. Aðilar gera fyrirvara um að samkomulag náist við Verðbréfastofuna hf. vegna uppgjörs áhvílandi veðskulda“. Í 11. gr. kauptilboðsins er varðar gildistíma þess, segir m.a.: „Aðilar samþykkja kauptilboð þetta með fyrirvara um samþykki Verðbréfastofunnar hf.“ Þá segir í 1. gr. kauptilboðsins, að afsalið verði undirritað við kaupsamning og Verðbréfastofan hf. varðveiti afsalið þar til yfirtaka lána og lokagreiðsla hafi farið fram og sjái um þinglýsingu að því loknu á kostnað kaupanda. Samkvæmt gögnum málsins er Verðbréfastofan hf. veðhafi í hinum seldu eignum, en áhvílandi skuldir munu nema um það bil einum og hálfum milljarði. Ómótmælt er af stefnanda hálfu þeirri fullyrðingu lögmanns Verðbréfastofunnar hf. í bréfi til stefnanda dags. 29. desember 2005, að Verðbréfastofan hf. hafi veðsetningar- og þinglýsingarbann á eignunum. Þá liggur einnig fyrir í málinu yfirlýsing frá 5. janúar sl. frá forsvarsmanni stefnanda um að stefnandi líti svo á að beiðni til Verðbréfastofunnar hf. um áritun á kauptilboðið hafi verið hafnað.
Hér er um margt um óvenjulegar aðstæður að ræða. Ef dómkröfur stefnanda yrðu teknar til greina við efnismeðferð málsins myndi sú niðurstaða binda Verðbréfastofuna hf. bæði hvað varðar viðurkenningarkröfuna og einnig hvað varðar efndakröfuna. Kauptilboðið varðar því Verðbréfastofuna hf. miklu og nægir að mati dómsins ekki að stefna henni til réttargæslu í málinu. Þegar af þessum ástæðum telur dómurinn, að vísa eigi máli þessu frá dómi með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála. Í ljósi þess að dómara ber að athuga aðild málsins af sjálfsdáðum og vísa máli frá ef svo ber undir, þá hafa mótmæli lögmanns stefndu um að málsástæða í þessa veru sé of seint fram komin, ekki þýðingu.
Niðurstaða dómsins er því sú, að vísa máli þessu frá Héraðsdómi. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 2. tl. 130. gr. um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 100.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðsson hdl.
Af hálfu stefndu flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, 101 Fasteignafélag ehf., greiði stefndu, Stafna á milli ehf., Frakkastíg ehf., og Hverfisgötu 59 ehf., 100.000 krónur í málskostnað.