Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2010
Lykilorð
- Skuldabréf
- Vanefnd
- Gjalddagi
- Lögtaksréttur
- Fyrning
|
Fimmtudaginn 2. desember 2010. |
|
|
Nr. 242/2010. |
Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Helgu Kristínu Benediktsson (Sigurður A. Þóroddsson hrl.) |
Skuldabréf. Vanefndir. Gjalddagi. Lögtaksréttur. Fyrning.
Á árunum 1987 til 1991 gaf LÍN út þrettán skuldabréf vegna námslána sem veitt voru H. Vanskil urðu á lánunum og höfðaði LÍN mál til innheimtu skuldarinnar. Talið var að krafa LÍN hafi samkvæmt fortakslausu ákvæði skuldabréfanna sjálfkrafa fallið í gjalddaga í framhaldi af vanskilum H 1. mars 1999. Í 3 tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda væri kveðið á um að kröfur sem lögtaksrétt hafa fyrndust á fjórum árum. Með 3. mgr. 9. gr. laga nr.72/1982 hafi LÍN verið veittur lögtaksréttur fyrir vangoldnum endurgreiðslum af skuld, svo og gjaldfelldum eftirstöðvun námslána. Samkvæmt þessu var talið að krafa LÍN hafi í heild verið fyrnd á árinu 2003 og var H því sýknuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2010. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 2.754.295 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2005 til 15. september 2008, en af framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en að því frágengnu að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraði gerði stefnda kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi. Með úrskurði héraðsdóms 28. september 2009 var þeirri kröfu hafnað með vísan til þess að dómkrafa áfrýjanda væri nægilega reifuð í héraðsdómsstefnu, enda gætu aðilarnir við efnismeðferð málsins komið að málsástæðum og gögnum varðandi hana. Ekki eru efni til að hnekkja því mati og verður því hafnað aðalkröfu stefndu fyrir Hæstarétti, sem reist er á sömu rökum.
Svo sem í héraðsdómi greinir er krafa áfrýjanda byggð á þrettán skuldabréfum, sem umboðsmaður stefndu gaf út á tímabilinu frá 30. mars 1987 til 11. september 1991 vegna námslána, sem veitt voru stefndu vegna tónlistarnáms í Kanada, en að höfuðstóli voru þessi skuldabréf samtals að fjárhæð 1.477.924 krónur. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna, sem gefin voru út á grundvelli þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, var krafa samkvæmt þeim bundin lánskjaravísitölu miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir veitingu láns, en ekki var kveðið á um vexti af skuldinni. Endurgreiðsla láns átti að hefjast þremur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum, sem ákveðnar yrðu í tvennu lagi, annars vegar sem föst greiðsla með tiltekinni fjárhæð, sem skyldi innt af hendi 1. mars ár hvert, og hins vegar sem svokölluð viðbótargreiðsla, sem tæki á nánar tiltekinn hátt mið af útsvarsstofni lánþegans á næsta ári á undan, en standa átti skil á henni 1. september á hverju ári. Ljúka átti endurgreiðslu á þennan hátt á 40 árum, en dygðu ekki afborganir fyrir fullri greiðslu áttu eftirstöðvar skuldar að falla niður að þeim tíma liðnum. Í skuldabréfunum sagði að auki meðal annars eftirfarandi: „Endurgreiðslur eru lögtakskræfar ef um vanskil er að ræða. Sama máli gegnir um eftirstöðvar námslána sem felld eru í gjalddaga ... Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.“
Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda mun stefnda hafa lokið námi skólaárið 1991 til 1992 og hafi því endurgreiðslur á skuld hennar hafist 1. mars 1995. Af yfirlitum, sem áfrýjandi hefur lagt fram um stöðu stefndu gagnvart sér, voru greiddar afborganir af skuld hennar 1. mars á hverju áranna 1995 til og með 1998, en áfrýjandi staðhæfir að engin viðbótargreiðsla hafi verið ákveðin vegna þessara ára þar sem tekjur stefndu hafi ekki náð tilskildu lágmarki til þess. Afborgun af skuld stefndu, sem var í gjalddaga 1. mars 1999, var ekki innt af hendi og engar greiðslur af skuldinni upp frá því. Fyrir liggur að stefnda hafi verið með lögheimili erlendis allar götur síðan og kveðst áfrýjandi hvorki hafa haft vitneskju um heimilisfang hennar né fengið upplýsingar um tekjur hennar til að ákveða árlega viðbótargreiðslu af skuldinni, sem hafi því verið reist á áætlun tekna. Samkvæmt því hafi áfrýjandi reiknað út afborganir af skuld stefndu tvívegis á ári frá og með 1999 til 1. september 2008, en eftir þann dag hafi aðeins 373 krónur verið ógjaldfallnar af skuldinni. Þær eftirstöðvar felldi áfrýjandi í gjalddaga vegna vanskila og höfðaði mál þetta 13. janúar 2009 til heimtu samanlagðrar fjárhæðar gjaldfallinna afborgana og eftirstöðva skuldarinnar ásamt dráttarvöxtum frá 1. mars 2005.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu höfðaði áfrýjandi mál þetta sem skuldabréfamál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í framlögðum skuldabréfum, sem áfrýjandi reisir kröfu sína á samkvæmt áðursögðu, er mælt fortakslaust fyrir um að lán sé allt gjaldfallið án uppsagnar ef ekki séu staðin skil á greiðslu afborgana á réttum tíma. Samkvæmt hljóðan skuldabréfanna féllu þannig allar eftirstöðvar skuldar stefndu sjálfkrafa í gjalddaga í framhaldi af vanskilum 1. mars 1999. Undan þessu getur áfrýjandi ekki vikist sér til hagsbóta með því að skírskota til 1. málsliðar 11. gr. laga nr. 72/1982, þar sem stjórn hans var veitt heimild til að gjaldfella eftirstöðvar skuldar vegna verulegra vanskila, enda var það ákvæði sýnilega sett skuldara til verndar en ekki áfrýjanda. Af þessum sökum er áfrýjandi bundinn af því að krafa hans á hendur stefndu hafi öll fallið í gjalddaga á árinu 1999, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 22. október 1998 í máli nr. 480/1997. Í 3. tölulið 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrndust á fjórum árum kröfur, sem lögtaksrétt hafa. Með 3. mgr. 9. gr. laga nr. 72/1982 var áfrýjanda veittur lögtaksréttur fyrir vangoldnum endurgreiðslum af skuld, svo og gjaldfelldum eftirstöðvum námslána, og nægði sú lagaheimild ein út af fyrir sig til að gera mætti aðför fyrir skuld stefndu án undangengins dóms eða sáttar. Krafa áfrýjanda í heild var þannig fyrnd á árinu 2003. Niðurstaða héraðsdóms verður því staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu, Helgu Kristínu Benediktsson, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember sl., var höfðað 13. janúar 2009 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Laugavegi 77, Reykjavík, gegn Helgu Kristínu Benediktsson, [...]
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða 2.754.295 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.268.138 krónum frá 1. mars 2005 til 1. september s.á., en af 1.496.136 krónum frá þeim degi til 1. mars 2006, en af 1.539.825 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 1.820.269 krónum frá þeim degi til 1. mars 2007, en af 1.866.989 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 2.220.849 krónum frá þeim degi til 1. mars 2008, en af 2.270.307 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., en af 2.753.922 krónum frá þeim degi til 15. september s.á., en af 2.754.295 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins, þ.m.t. virðisaukaskatts.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins auk 24,5% virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Í greinargerð stefndu var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 28. september sl.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að skuldin sem hér um ræði sé vegna lána til stefndu samkvæmt þrettán skuldabréfum, útgefnum af stefndu til stefnanda með sjálfskuldarábyrgð Guðrúnar Stefánsdóttur. Skuldabréfunum er lýst í stefnu en byggt er á því að þau myndi heildarskuld stefndu. Um afborganir af lánunum fari samkvæmt lögum nr. 72/1982. Afborganir hafi verið í vanskilum frá 1. mars 1999 og séu gjaldfallin vanskil samtals 2.753.922 krónur.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að krafa stefnanda sé öll fallin niður vegna fyrningar. Því er mótmælt af hennar hálfu að hún hafi nokkurn tímann greitt af skuldabréfinu, en það sem ábyrgðarmaður hafi greitt hafi aðeins verið til ársins 1995. Skuldabréfið hafi því allt verið gjaldfallið samkvæmt fortakslausu ákvæði þess fyrir árið 1999 og krafan því öll fyrnd. Af hennar hálfu er því haldið fram að krafan fyrnist á fjórum árum eftir að hún féll í gjalddaga þar sem lögtaksréttur fylgi henni. Varakrafa stefndu um lækkun stefnukrafna er byggð á því að vextir og verðbætur af kröfunni fyrnist á 4 árum samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 og 3. gr. laga nr. 150/2007. Allar gjaldfallnar afborganir fyrnist á 4 árum, sbr. 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, þar sem þeim fylgi lögtaksréttur. Skuldin vegna þeirra sé því fallin niður sökum fyrningar og beri að lækka kröfur stefnanda sem því nemi.
Af hálfu stefnanda er því mótmælt að krafan hafi fallið niður fyrir fyrningu. Um sé að ræða skuld samkvæmt skuldabréfi en slík krafa fyrnist á tíu árum samkvæmt 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Fyrning hafi verið rofin með málssókninni innan þess tíma.
Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefndu að málið væri svo vanreifað að því bæri að vísa sjálfkrafa frá dómi. Þessu er mótmælt af hálfu stefnanda.
Þá er því mótmælt af hálfu stefndu að málið verði rekið samkvæmt XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engin mótmæli hafa þó komið fram við því að varnir stefndu kæmust að í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að skuld stefndu sé samkvæmt þrettán skuldabréfum, útgefnum af henni til stefnanda með sjálfskuldarábyrgð Guðrúnar Stefánsdóttur. Þeim er lýst þannig:
nr. T-083873, upphaflega að fjárhæð 84.312 krónur, útgefið 20. mars 1987
nr. T-092864, upphaflega að fjárhæð 88.488 krónur, útgefið 24. september s.á.
nr. T-101200, upphaflega að fjárhæð 110.209 krónur, útgefið 27. janúar 1988
nr. T-110882, upphaflega að fjárhæð 30.936 krónur, útgefið 20. júlí s.á.
nr. T-113030, upphaflega að fjárhæð 115.346 krónur, útgefið 12. september s.á.
nr. T-117666, upphaflega að fjárhæð 149.504 krónur, útgefið 27. nóvember s.á.
nr. T-123907, upphaflega að fjárhæð 54.869 krónur, útgefið 5. apríl 1989
nr. T-130426, upphaflega að fjárhæð 172.994 krónur, útgefið 5. september s.á.
nr. T-136148, upphaflega að fjárhæð 76.667 krónur, útgefið 30. nóvember s.á.
nr. T-138158, upphaflega að fjárhæð 139.282 krónur, útgefið 28. desember s.á.
nr. T-150445, upphaflega að fjárhæð 88.089 krónur, útgefið 16. maí 1990
nr. T-150719, upphaflega að fjárhæð 214.258 krónur, útgefið 25. maí s.á.
nr. T-204285, upphaflega að fjárhæð 152.970 krónur, ódagsett.
Skuldabréfin myndi heildarskuld stefndu en þeim hafi verið steypt saman í innheimtukerfi stefnda án þess að gefið væri út nýtt skuldabréf fyrir heildarskuldinni. Skuldabréfin séu verðtryggð en beri ekki vexti. Þau hafi fengið sameiginlegt lánsnúmer, S-952040. Af fyrstu tveimur tölunum megi ráða að endurgreiðslur vegna lánsins skyldu hefjast á árinu 1995. Í gögnum málsins komi fram að námslok hafi verið 1992. Ábyrgðarmaður á bréfunum sé látinn og engar eignir hafi verið í dánarbúinu.
Um afborganir af láninu fari samkvæmt lögum nr. 72/1982, þ.e. annars vegar föst ársgreiðsla með gjalddaga 1. mars ár hvert og hins vegar tekjutengd ársgreiðsla með gjalddaga 1. september ár hvert. Afborganir hafi verið í vanskilum frá 1. mars 1999 og gjaldfallin vanskil samtals að fjárhæð 2.753.922 krónur. Samkvæmt heimild í skuldabréfinu sjálfu hafi lánið verið gjaldfellt miðað við 15. september 2008 vegna verulegra vanskila, en þá hafi eftirstöðvar skuldarinnar numið 373 krónum. Nánari sundurliðun stefnukröfunnar sé eftirfarandi:
|
Gjaldfallin afborgun |
1. mars 1999 |
32.240 krónur |
|
“ |
1. september s.á. |
113.986 „ |
|
“ |
1. mars 2000 |
34.053 „ |
|
“ |
1. september s.á |
128.069 „ |
|
“ |
1. mars 2001 |
35.467 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
144.745 „ |
|
“ |
1. mars 2002 |
38.524 38.524 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
197.249 „ |
|
“ |
1. mars 2003 |
39.298 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
189.743 „ |
|
“ |
1. mars 2004 |
40.364 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
232.453 „ |
|
“ |
1. mars 2005 |
41.947 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
227.998 „ |
|
“ |
1. mars 2006 |
43.689 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
280.444 „ |
|
“ |
1. mars 2007 |
46.720 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
353.860 „ |
|
“ |
1. mars 2008 |
49.458 „ |
|
“ |
1. september s.á. |
483.615 „ |
|
Samtals |
|
2.753.922 krónur |
|
Eftirstöðvar |
|
373 „ |
|
Samtals |
|
2.754.295 krónur |
Nauðsynlegt hafi verið að höfða málið þar sem innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur. Stefnandi mótmæli að krafan hafi fallið niður fyrir fyrningu en málið hafi verið höfðað innan tíu ára fyrningarfrests samkvæmt 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Mótmælt er að krafan hafi gjaldfallið fyrr en við fyrstu vanskil á árinu 1999. Einnig er því mótmælt að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda.
Krafan sé byggð á almennum reglum kröfu- og samningaréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga og sé málið rekið á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 180. gr. Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, áður bæjarþingi Reykjavíkur, samkvæmt sérstöku ákvæði þar um í skuldabréfunum sjálfum. Byggt sé á lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, einkum 11. gr., sbr. lög nr. 21/1992 um stefnda. Dráttarvaxtakrafan sé byggð á III. og V. kafla laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað sé reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er málsatvikum lýst þannig að hún hafi flust til Kanada árið 1984. Á árinu 1987 hafi hún ákveðið að fara þar í tónlistarnám og hafi amma hennar, Guðrún Stefánsdóttir, bent henni á að hún kynni að eiga rétt á námsláni á Íslandi. Hún hafi ætlað að hafa milligöngu um það og sjá alfarið um alla skjalagerð vegna málsins og jafnframt greiðslur af láninu þegar að þeim kæmi. Stefnda hafi síðan þegið einhver námslán til ársins 1990 er hún lauk námi. Fjárhæð skuldarinnar komi henni þó mjög á óvart og hún hafi efasemdir um að hún hafi nokkurn tíma fengið allar þessar fjárhæðir. Það sé skemmst frá því að segja að stefnda hafi aldrei frétt neitt af láninu síðan hún lauk námi en taldi að endurgreiðslur hefðu hafist á árinu 1993 í samræmi við reglur laga nr. 72/1982. Einnig hafi hún talið að amma hennar hefði séð um greiðslu lánsins og að það hefði greiðst upp í síðasta lagi við andlát hennar árið 1995. Stefnda hafi ekki fengið bréf frá stefnanda í hátt í 20 ár og hafi hún því enga hugmynd um hver hafi greitt meintar afborganir af láninu til ársins 1999 eins og haldið sé fram í stefnu. Engin tilraun hafi verið gerð til að innheimta kröfuna í allan þennan tíma og sé skuldin löngu fyrnd samkvæmt lögum.
Sýknukrafa stefndu byggi á því að krafa stefnanda sé öll fallin niður vegna fyrningar. Því sé mótmælt að greitt hafi verið af skuldabréfinu til ársins 1999. Skuldin hafi öll verið gjaldfallin samkvæmt fortakslausu ákvæði í skuldabréfinu fyrir árið 1999 og krafan því öll fyrnd. Með því að lögtaksréttur fylgi gjaldföllnum afborgunum og lánum sem falli í gjalddaga þá hafi lánið verið fallið niður fjórum árum eftir að það gjaldféll, eða a.m.k. tíu árum síðar. Vísað sé til laga nr. 14/1905, einkum 3. tl. 3. gr. og 4. gr., sbr. 17. gr. Þá sé vísað til tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Engar áritanir um afborganir komi fram á skuldabréfunum.
Krafa stefndu um lækkun stefnukrafna sé byggð á því að vextir og verðbætur af kröfunni fyrnist á fjórum árum samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 og 3. gr. laga nr. 150/2007. Gjaldfallnar afborganir fyrnist einnig á fjórum árum, sbr. 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 þar sem þeim fylgi lögtaksréttur. Skuldin sé því fallin niður í samræmi við það og beri að lækka kröfur stefnanda sem því nemi.
Stefnda mótmæli því að málið sé rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991, þar sem skuldabréfin uppfylli ekki þær kröfur sem gera verði til skuldabréfa, m.a. vegna þess hve gjalddagi bréfanna sé óljós og fari í raun ekki eftir texta bréfanna nema að litlu leyti. Þá sé málið svo vanreifað af hálfu stefnanda að vísa beri því sjálfkrafa frá dómi án kröfu.
Sýknukrafan sé byggð á almennum reglum samninga- og fjármunaréttar og reglum um fyrningu krafna, sbr. l. nr. 14/1905 og laga nr. 150/2007. Krafan um málskostnað sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun styðjist við 3. gr. laga nr. 50/1988, en stefnda reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
Niðurstaða
Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að skuldabréfunum, sem myndi heildarskuld stefndu við stefnanda, hafi verið steypt saman í innheimtukerfi stefnda. Í gögnum málsins kemur fram að lánsnúmerið, sem vísað er til af hálfu stefnanda í þessu sambandi, eigi við um lán í innheimtu samkvæmt skuldabréfi með útgáfudegi 14. febrúar 1995. Útreikningar á kröfunni eru samkvæmt yfirliti sem lagt er fram í málinu af hálfu stefnanda. Málið þykir nægilega reifað af hálfu stefnanda og kemur því ekki til þess að vísa því frá dómi án kröfu.
Í upphaflegum skuldabréfum er ákvæði um að standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma sé lánið allt í gjalddaga fallið án uppsagnar. Í málinu er lagt fram greiðsluyfirlit, en samkvæmt því sem þar kemur fram hefur ekki verið greitt af láninu eftir 5. mars 1998. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að lánið hafi verið gjaldfellt miðað við 15. september 2008, en í stefnu er því lýst að afborganir hafi verið í vanskilum frá 1. mars 1999. Af hálfu stefndu er því mótmælt að hún hafi nokkurn tímann greitt af láninu og að nokkuð hafi verið greitt af því eftir að ábyrgðarmaður lést á árinu 1995, en hún hafi lokið námi á árinu 1990 og hafi greiðslur afborgana námslána því átt að hefjast á árinu 1993.
Þrátt fyrir framangreind mótmæli stefndu hefur stefnandi ekki lagt fram önnur gögn í málinu um greiðslur stefndu en þau sem stafa frá stefnanda sjálfum og sýna að síðast hafi verið greitt af láninu 5. mars 1998. Samkvæmt því hafa vanskil væntanlega orðið í september það ár en ekki í mars 1999, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Verður því að telja staðhæfingar stefnanda, um að krafan hafi fyrst orðið gjaldkræf í mars 1999 ósannaðar gegn andmælum stefndu. Þá verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að ekki hafi verið staðið í skilum með greiðslur afborgana að minnsta kosti frá árinu 1998 og að þá hafi krafa stefnanda orðið gjaldkræf. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi haldið kröfunni við eftir að hún fór í vanskil, en kröfubréf stefnanda til stefndu er dagsett 17. mars 2009, eftir að málið var höfðað 13. janúar sama ár.
Að þessu virtu verður að telja að upphaf fyrningarfrests hafi í síðasta lagi verið á árinu 1998 samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, en lög um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 gilda um kröfur sem stofnast eftir gildistöku þeirra laga 1. janúar 2008. Krafa stefnanda, sem telja verður að fyrnist á 10 árum samkvæmt 1. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905, var því fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað 13. janúar 2009 samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Dóminn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari, en dómsuppkvaðning hefur dregist vegna mjög mikilla anna dómarans.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Helga Kristín Benediktsson, er sýknuð af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 250.000 krónur í málskostnað.