Hæstiréttur íslands
Mál nr. 271/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Refsilágmark
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2013. |
|
Nr. 271/2013.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Oddgeir Einarsson hrl. Bryndís Guðmundsdóttir hdl) (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Refsilágmark. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa, er hann var 16 ára, haft samræði og munnmök við A sem þá var 12 ára. Við ákvörðun refsingar vísaði Hæstiréttur til þess að aldursmunur X og A hefði verið þrjú og hálft ár er atvik gerðust og væri því ekki uppfyllt skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga um að gerandi og þolandi væru á svipuðum aldri. Á hinn bóginn væri andlegum þroska X verulega ábótavant. Með hliðsjón af því og vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 4 mánuði og var fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var X gert að greiða A skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, en refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess að sér verði ekki gerð refsing og hann sýknaður af einkaréttarkröfu.
D hefur fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, krafist þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um kröfu hennar.
Með ákæru 13. nóvember 2012 voru ákærða gefin að sök kynferðisbrot framin fyrri hluta maí 2010 með því að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung þvingað 12 ára gamla stúlku, A, til samræðis og endaþarmsmaka og látið hana hafa við sig munnmök. Var ákærði talinn hafa brotið gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af því að hafa haft endaþarmsmök við brotaþola og jafnframt sýknaður af því að hafa beitt ofbeldi eða annars konar nauðung til að ná fram kynferðismökum. Háttsemi ákærða var heimfærð undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjóra mánuði með vísan til 2. málsliðar ákvæðisins og hún skilorðsbundin með vísan til sakarferlis ákærða, játningar hans og þess tíma sem liðinn var frá broti.
Máli þessu var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins til sakfellingar samkvæmt ákæru en við meðferð þess fyrir Hæstarétti var fallið frá þeirri kröfugerð og því lýst yfir að ákæruvaldið sætti sig við niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn krefst ákæruvaldið þyngri refsingar yfir ákærða þar sem hvorki séu uppfyllt skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. né 2. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga til að færa refsingu ákærða niður fyrir það lágmark sem kveðið er á um í 1. málslið 1. mgr. 202. gr. laganna. Ákærði vísar á hinn bóginn einkum til framangreindra ákvæða 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. og 2. töluliðar 1. mgr. 74. gr. laganna til stuðnings kröfu sinni um að honum verði ekki gerð refsing í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára, sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
Aldursmunur ákærða og brotaþola er þrjú og hálft ár og er atvik máls gerðust var ákærði rúmlega 16 ára en brotaþoli 12 ára. Af þeim sökum er ekki uppfyllt skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga um að gerandi og þolandi séu á svipuðum aldri. Á hinn bóginn er fram komið í málinu, einkum með vottorðum og framburði Stefáns Jóhanns Hreiðarssonar geðlæknis, sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi, að andlegum þroska ákærða er verulega áfátt. Meðal annars er fram komið að ákærði er með alvarleg frávik í þroska sem eru sértæk og allir sjónrænir og verklegir þættir í fari hans eru á stigi vægt þroskahefts barns. Taldi læknirinn ekki líklegt að refsing gagnvart ákærða myndi bera árangur. Samkvæmt framangreindu verður með vísan til 2. töluliðs 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar.
Héraðsdómur verður staðfestur um framkomna einkaréttarkröfu.
Héraðsdómur verður einnig staðfestur um að ákærði verði dæmdur til greiðslu þriðjungs af sakarkostnaði, en við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að sakarkostnaður sé alls 755.218 krónur en ekki 765.218 krónur, eins og greinir í héraðsdómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, X greiði þriðjung sakarkostnaðar í héraði, sem er samtals 755.218 krónur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2013.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 4. desember 2012, útgefinni 13. nóvember 2012 af ríkissaksóknara, á hendur X, kt. [...], [...], [...],
„fyrir kynferðisbrot gegn A, sem þá var 12 ára gömul, með því að hafa, fyrri hluta maí 2010, á heimili sínu að [...] í [...], haft samræði og endaþarmsmök við A og látið hana hafa við sig munnmök, en ákærði þvingaði stúlkuna til kynmakanna með ofbeldi og ólögmætri nauðung.
Telst þetta varða við 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í málinu er gerð sú einkaréttarkrafa fyrir hönd brotaþola að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. maí 2010 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.
Aðalmeðferð fór fram þann 19. febrúar sl. og var málið tekið til dóms að henni lokinni.
Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins og framburði kynntust ákærði og brotaþoli í maí 2010 er þau hittust í hópi vina. Var brotaþoli þá tæplega þrettán ára en ákærði sextán ára. Síðar sama dag og þau hittust voru þau í MSN-sambandi og ákváðu að hittast í Mjóddinni daginn eftir, sem þau gerðu. Ók móðir brotaþola henni í Mjóddina. Þar hitti brotaþoli ákærða og tóku þau strætó saman heim til ákærða í [...]. Hvað þeim fór á milli í strætisvagninum ber þeim ekki saman um en ákærði segir hana hafa rætt við sig um fyrri kærasta og kynlífsreynslu. Brotaþoli neitar því. Er þau komu heim til ákærða horfðu þau á kvikmynd í tölvu ákærða og í framhaldi höfðu þau kynmök. Að þeim loknum fór brotaþoli heim til sín. Í byrjun árs 2011 segir brotaþoli móður sinni frá atvikinu og vinkonu sinni, B, í framhaldi. Atvikið var kært til lögreglu þann 26. júní 2012 og var ákæra gefin út 13. nóvember sl.
Í kæruskýrslu móður brotaþola kemur fram að hún hafi tekið eftir því vorið 2010 að brotaþola leið greinilega eitthvað illa. Eftir það hafi brotaþoli breyst verulega og hætt að hanga í Kringlunni og Smáralindinni og hætt að umgangast unglinga sem hún hafði áður hangið með. Hún hafi aftur orðið yndislega barnið sem hún hafði áður verið og hætt að sýna þá áhættuhegðun sem hún hafði sýnt áður. Í apríl 2011 hafi brotaþoli sagt sér frá atvikinu.
Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð Sigurðar Ragnarssonar sálfræðings þar sem fram kemur að brotaþoli hafi komið til hans í viðtöl, fyrst í apríl 2010 en forsaga þess að hún fór til sálfræðings þá er önnur en atvik þessa máls. Brotaþoli kom síðan til sálfræðingsins í maí 2011 og aftur í janúar 2013.
Skýrslur aðila og vitna fyrir lögreglu og dómi.
Verða nú raktar skýrslur ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi eftir því sem ástæða þykir til.
Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 13. ágúst 2012. Kvaðst hún hafa hitt ákærða í maí 2010 á sólríkum degi. Hafi hún verið með vinum sínum niðri í miðbæ Reykjavíkur. Hafi þau rölt niður Laugaveginn og þar neðarlega hitt ákærða og vin hans sem einn vinur brotaþola hafi þekkt. Þau hafi tekið tal saman og ákærði hafi rætt mikið við brotaþola. Hafi ákærði þá m.a. sýnt brotaþola hversu sterkur hann væri en hann hafi æft [...]. Þau hafi öll tekið strætó vestur í bæ og þá hafi ákærði beðið hana um símanúmer hennar sem hún hafi látið hann hafa. Brotaþoli hafi síðar fengið símtal frá frænku sinni og henni tilkynnt um matarboð hjá móður brotaþola. Brotaþoli hafi því farið úr vagninum hjá móður sinni og ákærði hafi kysst hana í kveðjuskyni. Í framhaldi hafi ákærði og brotaþoli rætt saman á MSN og ákærði beðið brotaþola um að hitta sig daginn eftir í Mjóddinni, sem þau hafi ákveðið. Hún hafi hitt ákærða og þau tekið strætó heim til hans. Þau hafi farið inn í herbergi ákærða og þau farið að horfa á bíómynd í fartölvu ákærða.
Ákærði hafi síðan slökkt á tölvunni, sett hana á gólfið og byrjað að klæða brotaþola úr. Brotaþoli kvaðst hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera, hann ekki svarað og haldið áfram. Þegar ákærði hafi ætlað að taka brotaþola úr að neðan hafi hún sagt nei og spurt aftur hvað hann væri að gera. Ákærði hafi ekki svarað og rifið hana úr og haldið henni með báðum höndum. Þá hafi ákærði klætt sig úr fötunum. Brotaþoli kvaðst ekki hafa sofið hjá neinum strák áður þannig að ákærði hafi átt erfitt með að komast inn í hana en það hafi verið mjög sárt. Ákærði hafi verið með smokk. Brotaþoli kvaðst hafa hugsað um að hlaupa út en verið dofin og ekki getað það. Ákærði hafi síðan snúið henni við og tekið hana í rassinn sem hafi verið mjög vont. Það hafi staðið yfir í um þrjár mínútur. Hún hafi tárast mikið en var ekki viss hvort ákærði hafi tekið eftir því. Ákærði hafi snúið henni aftur við, mjög ákafur, tekið í hárið á henni og látið hana totta sig. Ákærði hafi haldið mjög fast um hárið á henni og ýtt henni fram og aftur og það eina sem hún hafi gert var að opna munninn. Ákærði hafi tekið smokkinn af sér þá og sett svo á sig annan smokk. Eftir að því var lokið hafi ákærði troðið sér aftur inn, venjulega, hann ofan á og hún undir. Síðan hafi ákærði allt í einu hætt og hafi bakkað frá af því að smokkurinn hafi rifnað. Ákærði hafi ýtt henni út úr rúminu og sagt henni að fara að pissa. Hún hafi gert það og síðan klætt sig og ákærði kannað með strætó fyrir hana. Ákærði hafi síðan hóstað að henni, ýtt henni út en gengið með henni að strætóskýlinu og sagt við hana að hún væri númer 27.
Brotaþoli kvaðst hafa hágrátið í strætó alla leiðina heim. Hún hafi harkað af sér þegar heim var komið þar sem móðir hennar hafi verið með matarboð. Brotaþoli kvaðst hafa verið mjög aum í nokkra daga á eftir og hafi verið vont að pissa. Brotaþoli kvaðst hafa hugleitt atvikið en ekki svo mikið fyrr en um tveimur mánuðum eftir að hún byrjaði í skólanum um haustið en hún hafi þá séð ákærða fyrir tilviljun. Brotaþoli kvaðst hafa átt erfitt með að beita sér í námi eftir það og farið aftur í náminu. Móðir hennar hafi orðið vonsvikin og hafi brotaþoli þá aftur farið að gráta vegna þessa. Eftir áramótin hafi henni liðið orðið mjög illa og hún farið að sleppa úr skólanum. Brotaþoli kvaðst hafa brotnað niður og sagt móður sinni frá atvikinu og minnti að það hafi verið í desember 2010. Í framhaldi hafi móðir hennar sent hana til sálfræðings og hafi hún farið í þrjú skipti til hans. Hún hafi síðan hætt hjá sálfræðingnum en liðið áfram illa. Hún hafi mætt illa í skólann og hætt að æfa íþróttir eins mikið og hún hafði gert. Þá hafi hún velt sjálfsmorði fyrir sér og hver væri besta leiðin til þess.
Brotaþoli kvaðst hafa sagt kærasta sínum frá atvikinu um einum og hálfum mánuði fyrir skýrslutökuna og einnig hafi hún verið búin að segja bestu vinkonu sinni frá. Það hafi verið viku eftir að hún sagði móður sinni frá. Móðir hennar hafi síðan sagt föður hennar frá atvikinu um mánuði eftir að hún sagði móður sinni frá því. Brotaþoli kvað ákærða hafa vitað um aldur sinn.
Brotaþoli kom fyrir dóminn og skýrði kynni sín af ákærða og aðdragandann að heimsókn hennar heim til hans í meginatriðum á sama veg og fyrir lögreglu. Kvaðst hún tvisvar hafa séð ákærða eftir atvikið en ekki rætt við hann. Aðspurð um það hvað þau hafi ætlað að gera heima hjá honum hafi hún haldið að þau myndu hitta aðra krakka en það hafi ekki verið og ekki hafi verið rætt neitt sérstaklega um það hvað þau hafi ætlað að gera heim til hans. Þá hafi ekki staðið til að stunda kynlíf heima hjá honum. Þegar hann hafi sett bíómyndina í tölvuna hafi hún talið að þau myndu horfa á myndina, hlæja eitthvað að henni og hún myndi síðan fara heim. Kvað hún ákærða hafa sagt við hana að hún væri númer tuttugu og átta þegar hann ýtti henni út en hann hafi farið með henni niður í strætóskýli til að bíða eftir strætó. Brotaþoli kvaðst hafa skrópað í framhaldi í skóla, nýtt sér tækifæri til að mæta of seint. Hún hafi grátið mikið og hugsað um það að drekkja sér eða ganga fyrir bíl.
Brotaþoli kvað þau hafa horft á bíómynd heima hjá ákærða inni í herbergi hans. Ákærði hafi byrjað að klæða hana úr og hafi hún við það algjörlega frosið. Ákærði hafi ýtt henni niður og reynt að troða limnum inn, sem ekki hafi gengið vel í byrjun og limurinn ekki komist almennilega inn. Næst hafi ákærði tekið hana og látið hana totta sig. Hann hafi síðan snúið henni við og ákærði reynt að fara inn í endaþarm hennar, sem hafi verið mjög sárt en hann hafi ekki komið limnum inn í endaþarminn. Smokkurinn hafi þá rifnað og hafi ákærði þá öskrað á hana að fara inn á klósett, sem hún hafi gert, klætt sig síðan og farið út og heim með strætó. Þegar ákærði hafi ýtt henni niður til að láta hana totta sig hafi hún streist á móti en ákærði ekki sinnt því. Henni hafi liðið mjög illa. Aðspurð kvaðst hún aldrei hafa gert neitt kynferðislegt með strák áður. Aðspurð um misræmi í framburð hennar fyrir lögreglu, kvaðst brotaþoli ekki muna þetta vel í dag því hún legði sig fram um að gleyma atvikinu. Aðspurð kvað hún það ekki geta passað að samræði í endaþarm hafi staðið yfir í þrjár til fjórar mínútur eins og komi fram í lögregluskýrslu.
Kvaðst hún hafa sagt móður sinni frá í janúar 2011. Ástæðu þess að ekki hafi verið kært til lögreglu fyrr, kvað hún vera þá að hún hafi ekki sagt neinum frá atvikinu fyrr en hún sagði móður sinni frá því. Móðir hennar hafi sagt henni að hún réði því alveg sjálf hvort yrði kært eða ekki. Hún hafi síðan byrjað með núverandi kærasta sínum árið 2012 og sagt honum frá og hafi hann hvatt hana til að kæra atvikið til lögreglu. Lýsti hún því svo að ákærði hafi haldið um hendur hennar, bæði fyrir ofan og neðan olnboga, á meðan hann þrýsti henni ofan í rúmið og hafði samfarir við hana. Brotaþoli minntist þess ekki að um neina hótun hafi verið að ræða af hálfu brotaþola, eingöngu þvingun. Brotaþoli kvaðst ekki kannast við að þau hafi verið í „69“ stellingu og haft munnmök þannig, en kvaðst þó ekki muna það. Kvað hún móður ákærða hafa komið inn í herbergið eftir að brotaþoli hafði klætt sig og sagt hæ við þau en farið síðan.
Brotaþoli kvaðst hafa sagt B, vinkonu sinni, frá atvikinu rétt eftir að hún sagði móður sinni frá því. Hún hafi ekki sagt henni nein smáatriði en sagt henni að henni hafi verið nauðgað. Aðspurð um að hún hafi stundað kynlíf með C kvað hún það vera lygi frá byrjun. Þá minnti brotaþola að hún hafi rætt atvikið við sálfræðing sinn á árinu 2010 en mundi það þó ekki. Hann hafi þó átt hlut að því að hún segði móður sinni og föður frá þessu.
Brotaþoli kvað C hafa borið út sögu um að þau hafi lifað kynlífi. Þau hafi hist í jólafríi og horft á mynd í sjónvarpinu. Eftir þann dag hafi C sagt vinum sínum að hann hafi lifað kynlífi með brotaþola en það hafi verið ósatt. Hún hafi ákveðið að skipta sér ekki af þessari sögu eða reyna að breyta þeirri sögu af hræðslu við að verða barin. Þá kvaðst hún ekki muna til þess að hafa rætt við ákærða um C í strætó á leið heim til ákærða en það gæti alveg verið.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 25. júní 2012. Þegar sakarefnið var kynnt honum kvaðst hann ekki vita hvort um nauðgun hafi verið að ræða en þau hafi sofið saman, hann muni bara ekki dagsetninguna en það hafi verið sumar. Lýsti ákærði aðdragandanum á sama hátt og brotaþoli. Kvaðst ákærði hafa vitað þá að brotaþoli var fædd árið 1997 og hún hafi verið þrettán ára. Aðspurður ítrekað um aldur brotaþola kvaðst hann hafa vitað að hún var fædd árið 1997 en ekki vitað að hún væri tólf ára. Kvað hann þau hafa tekið strætó heim til hans og á leiðinni hafi brotaþoli sagt sér að hún hafi sofið hjá fleiri strákum. Minnti hann að hún hafi nefnt fjóra stráka sem hún hafi sofið hjá. Þau hafi farið heim til hans í þeim tilgangi að hafa samfarir. Ákærði kvaðst ekki hafa upplifað neinn mótþróa hjá brotaþola og ekki að hann hafi þvingað hana til neins. Ákærði lýsti samförum þeirra þannig að þau hafi haft kynmök í leggöng og hann minnti að hann hafi notað smokk. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hafi spurt brotaþola hvort hún hafi viljað hafa kynmök við sig eða ekki og ekki muna til þess að hún hafi sýnt honum neinn mótþróa. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa sýnt brotaþola dónaskap eða aðra slíka framkomu að samförum þeirra loknum.
Skýrsla var aftur tekin af ákærða hjá lögreglu 29. ágúst 2012. Kvað hann rétt eftir brotaþola haft að þau hafi tekið strætó heim til hans umræddan dag frá Mjóddinni. Sagði ákærði að tilgangur hans, með því að fara heim til hans, hafi verið að sofa hjá brotaþola. Hann hafi langað til þess og spurt brotaþola, í strætó á leiðinni, hvort hún hefði sofið hjá einhverjum fleirum og minnti að hún hafi talið upp einhverja fjóra stráka. Aðspurður um aðdragandann að samförum þeirra, kvað ákærði þau örugglega hafa haft einhvern aðdraganda, kysst eða eitthvað en hann myndi það ekki. Ákærði kvaðst heldur ekki muna eftir því að hafa klætt hana úr fötunum og ekki heldur hvort hann eða hún hafi afklætt hann. Aðspurður um stellingar þeirra kvaðst ákærði bara muna að þau hafi farið í „öfuga stellingu“ eða „69 dæmi“. Ákærði neitaði því að hafa haft kynmök við brotaþola í endaþarm, sagði það „ekki séns“ og sagði slíkt ekki hugnast sér. Þá kvaðst ákærði ekki muna til þess að hafa neytt brotaþola til að „totta“ sig með þeirri aðferð sem brotaþoli hafi lýst, en hann muni að þau hafi farið í „69“. Ákærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa haldið brotaþola niðri á öxlunum né eftir það að smokkurinn hafi rifnað. Þá dró ákærði í efa frásögn brotaþola um að hann hafi fundið strætóleið fyrir hana í gegnum stræto.is þar sem hann væri nú nýlega búinn að læra á það kerfi. Á þeim tíma hafi hann kynnt sér ferðir á leiðarvísi í strætóskýlinu sjálfu, sem væri rétt við heimili hans.
Ákærði lýsti aðdraganda að samskiptum hans og brotaþola á sama veg fyrir dóminum og fyrir lögreglu. Staðfesti ákærði að hann hafi vitað að brotaþoli var fædd árið 1997 þegar hann hitti hana og reiknaði það út að hún væri þremur árum yngri en hann en hann hafi ekki vitað að hún væri tólf ára þá. Ákærði kvaðst hafa verið í þeirri trú, þar sem hann var bara sextán ára, að þau væru bæði undir lögaldri en að öðru leyti hafi honum ekki fundist neitt athugavert við aldursmun þeirra. Minnti ákærða að þau hafi kynnst í Mjóddinni sama dag og þau fóru heim til ákærða. Minnti ákærða þó að þau hafi haft einhver samskipti á facebook en hvort það var eftir að þau fóru heim til hans eða áður var hann ekki viss um. Sagði hann að tilgangurinn með því að fara heim til hans hafi verið sá að hafa kynmök. Aðspurður kvað hann þau hafa rætt kynlífsreynslu hennar í strætó á leiðinni og hafi hún sagt honum að hún hafi sofið hjá strákum áður. Ákærði mundi óljóst eftir kynmökunum, hann kvaðst ekki hafa spurt hana áður en þau byrjuðu en hann hafi ekki skynjað neinn mótþróa hjá henni. Líklega hafi hann klætt hana úr fötunum. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig samfarirnar hafi byrjað, hann taldi líklegt að þau hafi byrjað að kyssast en mundi það ekki. Kvaðst hann hafa munað eftir að hafa verið í öfugum stellingum „69“ og hafa haft kynmök í leggöng en neitaði að hafa haft kynmök í endaþarm brotaþola. Þá taldi ákærði víst að hann hafi notað smokk því hann hefði áhyggjur af kynsjúkdómum. Hann hafi skynjað brotaþola þannig að hún hafi verið samþykk kynmökunum. Ákærði kvaðst ekki muna hvernig þau hafi skilið, hvort hann hafi kysst hana eða ekki að skilnaði. Ákærði sagðist hafa lesið í lögregluskýrslu, haft eftir brotaþola, að hann hafi verið að leita að áætlun strætó á netinu fyrir hana, sem gæti ekki passað þar sem ákærði væri í dag nýlega búinn að læra á þann vef. Ákærði kvaðst hafa hitt brotaþola í strætóskýli skömmu seinna, en brotaþoli hafi kallað á eftir honum „hæ eða eitthvað“ og hann ekki þekkt hana strax en svarað á móti. Þá hafi hann séð hana við afgreiðslukassa í verslun einhverju síðar, hann mundi ekki hvar, en þau hafi þá ekki haft nein samskipti. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa sagt við brotaþola að hún væri númer tuttugu og sjö eða átta í röðinni og fannst það ólíklegt. Ákærði kvaðst ekki muna til þess að hafa verið dónalegur eða ruddalegur við brotaþola þegar hún var stödd hjá honum. Aðspurður kvað ákærði að hann myndi stöðva samfarir ef hann skynjaði skrýtna eða neikvæða tilfinningu, t.d. ef hann sæi stúlku tárast eða spyrði „hvað ertu að gera?“
Ákærði kvaðst vera með ofvirkni og athyglisbrest og talnablindu auk hvatvísi. Kvað hann þetta mál hafa tekið á sig. Ákærði lýsti því að þegar lögregla hafði samband við hann árið 2012 hafi hann verið veikur heima og lögreglan sagt honum í síma að kæra vegna kynferðisbrots hafi verið lögð fram. Lögreglan hafi ekki viljað segja honum neitt frekar um kæruna og hafi hann farið strax samdægurs í skýrslutöku. Hann hafi þá ekkert vitað um hvað málið snerist. Hann hafi í skýrslutöku hjá lögreglu reynt að segja eins rétt frá og hann frekast mundi.
Stefán Jóhann Hreiðarsson læknir kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft ákærða til meðferðar frá því hann var fimm ára. Ákærð hafi verið með mikla ofvirkni strax þá og hafi ákærði verið í meðferð vegna þessa. Hafi verið unnið á því með lyfjagjöf. Ákærði búi við alvarleg frávik í þroska sem séu sértæk. Hann sé með eðlilega mállega greind en allir sjónrænir verklegir þættir væru eins og hjá vægt þroskaheftu barni. Þessir krakkar komi oft vel fyrir þar sem málfærni sé eðlileg en sterk tengsl séu á milli þess að skilja félagslegar aðstæður og að lesa í aðstæður. Komi það upp sem mismunagreining einhverfu. Þær aðstæður að skilja óskrifaðar reglur, lesa í aðstæður og lesa í svipbrigði séu slakari hjá ákærða en hjá jafnöldrum hans. Hann kunni sig ekki alltaf í hópnum og skilji ekki alltaf samskiptareglur. Skilningur hans á aðstæðum sé eins og hjá mun yngra barni. Í dag sé siðferðilegur skilningur hjá honum eins og hjá fjórtán ára barni. Hann hafi þá haft þroska á við þrettán ára um sextán ára aldur. Aðspurður um skilning ákærða á aldursmun hans og brotaþola og getu hans til að meta rétt og rangt kvað hann það mögulega skert út frá greiningu hans. Ákærði geri sér vel grein fyrir afleiðingum gerða sinna í einfaldari hlutum en hann sé líklegur, út frá sérfræðimati, til að lesa illa í þau skilaboð sem hann fær, þannig séð að dómgreind hans sé eins og hjá yngra barni. Aðspurður hvort hann sé líklegur til að láta eigin þarfir ganga fyrir þörfum annarra, og þá eins og honum sýnist, kvað hann ákærða ekki gera það en hann hafi skerta möguleika á að meta aðstæður eins og aldur hans gefi tilefni til. Hann framkvæmi kannski en eftirsjáin komi svo á eftir, en allt spili þetta illa við hans óyrta mynstur, sem sé þekkt af því að skerða félagsfærni og mat á aðstæðum. Ákærði uppfylli ekki skilyrði einhverfu. Aðspurður kvað hann ákærða skilja vel neitun en hvort hann skildi síðan það sem á eftir fylgi sé ekki víst. Aðspurður kvað hann refsingu ekki myndu koma ákærða að gagni, frekar að hann fengi meðferð og ráðgjöf. Staðfesti Stefán vottorð sitt frá 9. september 2012.
B kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið vinkona brotaþola á þeim tíma sem atvikið átti sér stað. Sagði hún brotaþola hafa sagt sér frá því að brotaþoli hafi lent í einhverju sem hún vildi ekki að hefði gerst og hún myndi ekki hvenær það hafi verið. Brotaþoli hafi aldrei lýst atburðinum fyrir sér. Fyrst kvaðst brotaþoli hafa hitt þennan strák og síðan hafi liðið einhver tími þar til brotaþoli sagði henni nánar frá. Brotaþoli hafi alltaf sagt sér að hún hafi ekki viljað þetta. B kvað brotaþola hafa sagt sér að þau hafi sofið saman í upphafi en síðan hafi sagan breyst. Brotaþola hafi liðið illa þegar hún sagði henni frá og kvaðst B hafa trúað henni. Aðspurð minnti B þetta hafa verið stuttu áður en hún sagði móður sinni frá atvikinu. B kvað brotaþola hafa verið með strák fyrir atvikið en B hafi fundist hann vera slæmur félagsskapur. Minnti B að það hafi verið í sjöunda bekk en brotaþola hafi ekki alltaf liðið vel með þeim strák á þeim tíma. Kvað hún brotaþola hafa sagt sér að þau hafi lifað kynlífi og hafi brotaþoli sagt sér að sá kærasti, C, hafi viljað að brotaþoli yrði ófrísk. Aðspurð kvað hún B aldrei hafa lýst með orðum hvað fór fram á milli ákærða og brotaþola nema að hún hafi ekki viljað þetta. B kvaðst hafa litið þá svo á að brotaþola hafi verið nauðgað. Þá fannst B að C hafi eyðilagt brotaþola.
Sigurður Ragnarsson sálfræðingur gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa haft brotaþola í meðferð, fyrst á árinu 2010. Hún hafi þá komið þrisvar til hans á tímabilinu 26. apríl til 31. maí það ár. Þá hafi hún aftur komið í tvö viðtöl í maí 2011. Kvað Sigurður brotaþola hafa sagt sér strax frá atvikinu. Brotaþoli hafi kvartað undan vanlíðan og hún endurupplifði þessa atburði. Þegar vanlíðan sæki á hana sé eins og sjálfsmynd hennar brotni og hún ráði ekki við neitt. Brotaþoli reki þessa vanlíðan sína til ákærða. Sigurður kvaðst ekki muna hvenær brotaþoli sagði honum frá atvikinu en hann minni að atvikið hafi verið tiltölulega nýtt þegar hún sagði frá. Kvað hann brotaþola hafa allar forsendur til að vinna sig út úr þessari vanlíðan en hann viti ekki hversu langan tíma það taki. Minnti Sigurð að viðtölin í maí 2011 hafi snúið meira að prófkvíða brotaþola og árekstrum hennar við skólafélaga, en hún hafi komið inn á atvikið. Kvað hann brotaþola ekki hafa verið búna að ræða atvikið við móður sína þegar hún opnaði málið við hann. Síðan hafi stúlkan verið óörugg við að ræða málið við föður sinn og hafi Sigurður rætt það við móður brotaþola hvernig mætti liðka fyrir því. Brotaþoli væri á þessum tímapunkti í meðferð hjá Sigurði. Aðspurður um misræmi í tímasetningum kvaðst Sigurð minna að brotaþoli hafi opnað umræðuna við sig á árinu 2010 en kvaðst ekki vera viss, hann væri ekki með það skrifað hjá sér.
D, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn og kvað dóttur sína hafa sýnt í nokkurn tíma skrýtna hegðun og gráta mikið en ekki vilja segja hvað væri að. Eitt kvöld um átta til níu mánuðum síðar hafi hún sagt sér frá atvikinu. Lýsti hún frásögn brotaþola á sama hátt og brotaþoli gerði fyrir lögreglu um aðdragandann að því að þau fóru heim til ákærða. Brotaþoli hafi fermst um vorið 2011 og hafi hún sagt sér frá stuttu fyrir það. Skýringin á því að atvikið hafi verið kært svo seint sé að brotaþoli hafi ekki viljað kæra málið í upphafi. D kannaðist vel við C og hafi hann komið í heimsókn til þeirra. Brotaþoli hafi slitið því sambandi sjálf. D sagði brotaþola vera mjög viðkvæma eftir þetta, grátgjarna og hafi henni hrakað í skóla en hún hafi verið afburðanemandi áður. D kvað brotaþola hafa farið til sálfræðings áður en atvikið átti sér stað en það hafi verið leið fyrir brotaþola að ná áttum en hún hafi verið á ákveðnu mótþróaskeiði. Þá lýsti D því að brotaþoli hafi ætíð virkað eldri eða þroskaðri en hún var þar sem hún hafi verið og sé hávaxin.
C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið kærasti brotaþola á árinu 2009 og 2010 í einhverja mánuði. Hann hafi verið á vistheimili úti á landi og þau ekki hist nema þegar hann kom til Reykjavíkur. Þau hafi verið í hálfgerðu fjarsambandi en þau hafi talað saman á hverjum degi. Þau hafi lifað kynlífi í eitt sinn á meðan þau voru í sambandi og hafi það verið samfarir í leggöng hennar.
Niðurstaða.
Ágreiningslaust er að aðilar fóru heim til ákærða umræddan dag í maí 2010 eftir stutt kynni þeirra. Ók móðir brotaþola henni í Mjóddina þar sem ákærði beið eftir henni og tóku þau strætisvagn heim til ákærða. Ágreiningur er um það hvort þau hafi rætt kynlíf á leiðinni heim til ákærða en ákærði heldur því fram að hún hafi sagt honum frá strákum sem hún hafi stundað kynlíf með. Mótmælti brotaþoli því en hún heldur því fram að hún hafi ekki haft neina kynlífsreynslu fyrir þetta atvik. Vinkona brotaþola lýsti því fyrir dóminum að brotaþoli hafi sjálf sagt sér að hún hafi átt kynlíf með fyrrverandi kærasta sínum. Brotaþoli kvaðst fyrir dóminum ekki hafa rætt fyrrverandi kærasta við ákærða en sagðist svo ekki muna það vel. C fyrrverandi kærasti brotaþola kom fyrir dóminn og kvaðst eitt sinn hafa átt kynlíf með brotaþola fyrir þennan atburð.Verður að þessu virtu að meta þennan vafa, hvað þetta atriði varðar, ákærða í vil.
Þá er ágreiningslaust að ákærði og brotaþoli höfðu kynmök í umrætt sinn en ákærði neitar því að þau hafi farið fram með ofbeldi af hans hálfu. Taldi hann að um samþykki brotaþola væri að ræða en hún hafi ekki sýnt neinn mótþróa eða verið með „skrýtna hegðun“ eins og hann útskýrði sjálfur fyrir dóminum. Var ákærði í þeirri trú að samfarirnar væru með hennar samþykki.
Ákært er fyrir endaþarmsmök við brotaþola og að ákærði hafi látið hana hafa við sig munnmök með ofbeldi. Ákærði neitar því. Brotaþoli lýsti því svo fyrir lögreglu að ákærði hafi snúið henni við og tekið hana í rassinn sem hafi verið mjög vont. Það hafi staðið yfir í um þrjár mínútur. Hún hafi tárast mikið en var ekki viss hvort ákærði hafi tekið eftir því. Fyrir dóminum kvað hún ákærða ekki hafa komið limnum inn í rassinn en hann hafi reynt það. Það hafi tekið nokkrar sekúndur. Telur dómurinn slíkan vafa vera uppi um samfarirnar í endaþarm að meta verði hann ákærða í vil.
Ákærði kvað fyrir dóminum þau hafa haft munnmök með „69“ stellingu með samþykki brotaþola en brotaþoli neitaði því. Brotaþoli lýsti því að ákærði hafi neytt hana til að taka liminn upp í munn sér og haft þannig samfarahreyfingar með því að taka í tagl hennar og ýta höfði sínu fram og til baka.
Framburður ákærði hefur verið skýr og samhljóða, bæði fyrir lögreglu og dóminum, og telur dómurinn gegn neitun hans ósannað að hann hafi neytt brotaþola með ofbeldi til að hafa við sig munnmök.
Ákærði neitaði því staðfastlega að hafa haft samfarir við brotaþola gegn vilja hennar. Kvað hann þau hafa rætt kynlíf og um fyrrverandi kærasta brotaþola á leiðinni í strætó heim til hans og hann hafi verið í þeirri trú að þau hafi ætlað að stunda kynlíf. Þá kvaðst hann ekki hafa orðið var við neinn mótþróa hjá brotaþola en brotaþoli hefur sjálf lýst því svo að hún haldi að ákærði hafi ekki séð að hún hafi grátið. Er framburður ákærða fyrir dóminum í meginatriðum samhljóða skýrslu hans hjá lögreglu en eins og ákærði sagði frá, þá fór hann samdægurs á lögreglustöðina til að gefa skýrslu þegar honum var tilkynnt kæran á hendur honum í gegnum síma. Hafði hann þá enga hugmynd um það um hvað kæran snerist. Verður framburður hans metinn með hliðsjón af þessu. Þá verður að taka tillit til þess að brotaþoli segir ekki frá atburðinum fyrr en tæpu ári síðar. Telur dómurinn ekki fullsannað að hegðun og tilfinningalegir erfiðleikar brotaþola á þessum tíma og eftir hann, stafi eingöngu af ofangreindu atviki en brotaþoli átti í félagslegum erfiðleikum fyrir atvikið eins og fram hefur komið hjá móður hennar. Styður það að brotaþoli var byrjuð í samtölum hjá sálfræðingi fyrir atvikið. Gegn eindreginni neitun ákærða telur dómurinn, þegar litið er heildstætt til framburðar brotaþola og vitna, að ekki hafi komið fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi beitt brotaþola ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung til að ná fram kynferðismökum með henni.
Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft kynmök við brotaþola og vitað að brotaþoli var fædd árið 1997 en neitað því staðfastlega að hafa vitað að hún hafi verið tólf ára. Kvaðst hann hafa reiknað út að hún væri þremur árum yngri en hann en hann var þá sextán ára. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákærði hafi vitað frekar um aldur brotaþola. Í 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 segir að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en fimmtán ára skal sæta fangelsi, ekki skemur en í eitt ár og allt að sextán árum. Lækka megi refsinguna eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Brotaþoli var rétt tæplega þrettán ára umrætt sinn og ákærði sextán ára. Hefur ákærði gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Verður ákærða gerð refsing fyrir.
Með setningu 10. gr. laga nr. 61/2007 bættist við 1. mgr. 202. gr. laga nr. 19/1940 nýr málsliður þar sem segir að lækka megi refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Í greinargerð með 10. gr. segir að aldur geranda og þolanda skipti miklu máli þegar metið sé hversu alvarlegt brot er og refsing er ákveðin. Þeir séu á svipuðu þroskastigi þegar jafnræði sé með þeim, bæði að líkamlegum þroska og andlegum. Þeir séu á svipuðum aldri þegar á milli þeirra séu 23 ár hið mesta. Bæði skilyrðin, um aldur og þroska, þurfi að vera fyrir hendi svo að ákvæðið eigi við. Metur dómurinn það svo, með vísan til vottorða og framburðar Stefáns Hreiðarssonar læknis, að með ákærða og brotaþola hafi verið nokkurt jafnræði, bæði hvað varðar aldur og andlegan og félagslegan þroska.
Með vísan til þessa þykir mega beita refsilækkunarheimild ákvæðisins og er refsing ákærða ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði tvisvar hlotið refsingu fyrir umferðarlagabrot á árinu 2012. Hafa þær refsingar ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Þá verður að líta til þess við ákvörðun refsingar að tvö og hálft ár liðu frá því að atburðurinn átti sér stað og þar til ákæra var gefin út en tvö ár liðu frá atvikinu sjálfu og þar til brotaþoli kærði atvikið til lögreglu. Með vísan til þessa og játningar ákærða skal refsingin skilorðsbundin og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.
Réttargæslumaður brotaþola hefur krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Er til grundvallar kröfunni vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola sem fullvíst má telja að hafi valdið henni tjóni. Brotaþoli gekk til sálfræðings áður en atvik þetta átti sér stað en hún lýsti einnig vanlíðan sinni hjá sálfræðingnum vegna þessa atviks. Telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi valdið brotaþola miska. Taldi Sigurður Ragnarsson sálfræðingur að brotaþoli hefði allar forsendur til að ná sér að fullu en tíminn myndi leiða það í ljós. Með vísan til þessa þykja bætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Bótakrafan var fyrst kynnt ákærða 29. ágúst 2012 og verður hann dæmdur til að greiða vexti skv. 8. gr. vaxtalaga af fjárhæðinni frá 6. maí 2010 til 29. september 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr.1. mgr. 6. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Með vísan til 1. og mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu þriðjungs hluta alls sakarkostnaðar sem hlaust af máli þessu, sem er samkvæmt gögnum ferðakostnaður vitnis og kostnaður fyrir vottorð sálfræðings, samtals 40.000 krónur. Þá eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðbjarna Eggertssonar hrl., hæfilega ákveðin 525.218 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði greiði einnig hluta kostnaðar réttargæslumanns brotaþola, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins fór Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari með málið.
Málið dæma héraðsdómararnir Ástríður Grímsdóttir, Finnbogi Alexandersson og Ragnheiður Bragadóttir.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði þriðjung alls sakarkostnaðar, sem er samtals 765.218 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hrl., 525.218 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 200.000 krónur.
Ákærði greiði D, kt. [...] fyrir hönd brotaþola, 400.000 krónur ásamt vöxtum, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 6. maí 2010 til 29. september 2012 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.