Hæstiréttur íslands
Mál nr. 392/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 17. október 2001. |
|
Nr. 392/2001. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Hilmar Magnússon hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. október nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði.
Sóknararaðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2001.
Ár, föstudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Helga I. Jónssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald 28. september sl. til þessa dags, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. október 2001 klukkan 16.
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur til rannsóknar ætlað brot kærða X, Jog G gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varða ætluð brot millifærslur og tilraunir til millifærslna inn á bankareikninga kærða J í þrjú skipti, kærða G í tvö skipti og konu að nafni J í tvö skipti. [ . . . ]
Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot eða eftir atvikum tilraun til brota gegn fyrrnefndum ákvæðum almennra hegningarlaga, en brotin gætu varðað fangelsisrefsingu ef sönnuð yrðu. Þar sem rannsókn máls þessa er hvergi nærri lokið þykir hætta á að kærði geti torveldað rannsókn með því bæði að sammælast við aðra og koma undan gögnum ef hann gengi laus. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að verða við kröfu ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald. Verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi áfram allt til föstudagsins 26. október 2001 klukkan 16.