Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 28. júlí 2014. |
|
Nr. 522/2014.
|
Sýslumaðurinn á Akranesi (Halla Bergþóra Björnsdóttir settur sýslumaður) gegn X (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 24. júlí 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. ágúst 2014, klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að varnaraðili verði látinn sæta farbanni.
Atvik málsins urðu að kvöldi 16. júlí 2014 og aðfaranótt 17. sama mánaðar er fiskiskipið [...] var í höfn á [...] til löndunar. Hluti áhafnar skipsins, meðal annars varnaraðili, mun hafa farið á veitingastað á [...] um kvöldið og neytt þar léttra veitinga. Brotaþoli, sem ekki var skipverji, var einnig á staðnum og kemur fram í framburði nokkurra vitna að hann hafi verið ölvaður og leitað árangurslaust eftir átökum við einhverja úr áhöfninni, en þess á milli rætt við áhafnarmeðlimi. Hann hafi að öðru leyti ekki verið til sérstakra vandræða. Þegar veitingastaðnum var lokað hélt áhöfnin í tveimur hópum til skips og blandaðist brotaþoli um síðir í seinni hópinn. Hann mun þar meðal annars hafa slegið til eins áhafnarmeðlims, en beðist afsökunar á því framferði sínu og það ekki haft eftirmál milli þeirra tveggja. Er áhafnarmeðlimir voru komnir um borð leitaði brotaþoli samkvæmt framburði vitna einnig eftir því að fá að koma um borð, en var meinað það og sagt að aðrir en skipverjar ættu þangað ekki erindi. Undi hann því og eftir samtal við skipverja hélt hann á brott. Síðar fór varnaraðili við annan mann á eftir honum og hafa þeir ekki gefið haldbæra skýringu á ástæðum þess. Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél við höfnina á [...] sést hvar varnaraðili og skipsfélagi hans eltu brotaþola um nokkurn veg eftir bryggjunni og veittust að honum með höggum. Sést þar meðal annars hvar varnaraðili veitti brotaþola högg sem leiddi til þess að hann féll á bryggjuna og að skipsfélagi varnaraðila fór þá klofvega yfir brotaþola, þar sem hinn síðarnefndi lá óvígur og hreyfingarlaus, og veitti honum tvö högg með hægri hendi.
Brotaþoli er samkvæmt upplýsingum læknis með alvarlega höfuðáverka og lífshættulega slasaður. Hefur honum verið haldið sofandi í öndunarvél. Engar upplýsingar liggja fyrir um batahorfur.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem að lögum getur varðað meira en tíu ára fangelsi, ef sannað verður. Verður því fallist á með héraðsdómi að skilyrði séu til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þann tíma, sem í úrskurðinum greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands fimmtudaginn 24. júlí 2014.
Lögreglustjórinn á Akranesi hefur krafist þess að Héraðsdómur Vesturlands úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. ágúst nk. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til vara er þess krafist að X sæti farbanni á meðan á rannsókn málsins stendur yfir eða í allt að fjórar vikur frá úrskurðardegi.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Með úrskurði dómsins kveðnum upp 17. júlí sl. var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var því markaður tími til dagsins í dag kl. 14:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Akranesi hafi til rannsóknar stórfellda líkamsárás sem átti sér stað við höfnina í [...] um kl. 2:30 aðfararnótt 17. júlí 2014. Þá um nóttina var lögreglu tilkynnt um að maður hafi orðið fyrir líkamsárás við höfnina í [...] og að hann væri meðvitundarlaus. Lögreglan fór á vettvang þegar hún kom þá voru sjúkraflutningamenn og læknir að hlú að brotaþola, A, kt. [...], sem var meðvitundarlaus og var stór blóðpollur á jörðinni þar sem höfuð hans hafði legið. Brotaþoli var skömmu seinna fluttur á brott í sjúkrabifreiðinni og þvínæst fluttur með þyrlu á bráðamóttöku Landsspítalans. Samkvæmt upplýsingum í málinu er áverki brotaþola mjög alvarlegur og er hann enn í lífshættu eins og fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu í málinu.
Á vettvangi hafði lögreglan tal af vitni sem sá atburðinn, B, sagðist hann hafa verið að vinna á lyftara á hafnarsvæðinu þegar hann tók eftir því að brotaþoli hafi verið að kítast eitthvað við tvo aðila á hafnarsvæðinu. Vitnið sagði að brotaþolar og aðilarnir hefðu slegið til hvers annars. Þá sagði vitnið að aðilarnir tveir hefðu verið að slást saman á móti brotaþola. Sagði vitnið að brotaþoli hefði verið sleginn í höfuðið með krepptum hnefa af öðrum aðilanum með þeim afleiðingum að brotaþoli féll í jörðina. Vitnið sagði að brotaþoli hefði fallið með höfuðið í malbikið á hafnarsvæðinu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvor þeirra hefði slegið brotaþola fyrst. Vitni sagði að eftir að brotaþoli hefði fallið í jörðina hefði hann sennilega rotast. Vitnið sagði að þvínæst hefði annar aðilinn stigið yfir brotaþola og staðið klofvega yfir honum og slegið hann með krepptum hnefa einu sinni eða tvisvar í höfuðið. Vitnið sagði að höfuð brotaþola hefði skollið niður í malbikið við höggin. Vitnið sagði að þegar hann kom að hefðu aðilarnir eitthvað farið að rífa sig en síðan hefði fljótlega einhver aðili komið að frá bátnum [...] og þá hefðu árásaraðilarnir farið um borð í bátinn [...].
Í framhaldi af því voru kærðu X og Y voru handteknir klukkan 04:00 sömu nótt og þeim tilkynnt að þeir væru grunaðir um meiriháttar líkamsárás.
Fram kom hjá kærða X í frumskýrslu lögreglu að hann hefði verið á barnum í [...] ásamt félögum sínum á skipinu [...]. Kærði sagði að á barnum hefði einnig verið aðili, sem var mjög ölvaður og hefði hann verið að angra hann og skipsfélaga hans mikið. Taldi hann að þessi aðili hefði verið að reyna að fá þá til að slást við sig. Kærði sagði að hann og skipsfélagar hans hefðu verið að reyna að fá þennan ölvaða aðila til þess að róa sig niður. Þegar búið var að loka barnum hefði hann og skipsfélagar hans gengið áleiðis að höfninni frá barnum og þessi ölvaði maður hefði komið á eftir þeim og hefði hann ráðist á C, slegið hann og brotið gleraugu sem C var með. Kærði sagði að þessi ölvaði aðili hefði elt þá alveg að skipinu [...] og hefði hann reynt að komast um borð í skipið en hann og skipsfélagar hans hefðu varnað honum að fara um borð, þvínæst hefði hann og Y farið að manninum og ýtt honum frá skipinu og reynt að fá hann í burtu. Kærði sagði að þá hefði þessi aðili slegið til hans þrisvar til fjórum sinnum með krepptum hnefa. Kærði sagði að þessi aðili þessi hefði hitt sig einu sinni á hægri hlið andlitsins með krepptum hnefa. Kærði sagðist þvínæst hefði hann hrint aðilanum frá sér með þeim afleiðingum að aðilinn féll aftur fyrir sig. Kærði sagði að þá hefði aðili komið að á lyftara og hann hefði farið frá vettvangi ásamt Y.
Skýrslutaka af kærða X fór fram hjá lögreglunni á Akranesi 17. júlí 2014 þar hélt kærði sig við fyrri framburð en bætti við að hann teldi að gafflar lyftarans sem ekið var að þeim þegar brotaþoli lá í götunni hafi farið í höfuð hans þar sem hann lá. Kvaðst hann ekki getað vitnað um þátt Y í atburðarásinni þar sem hann hafi verið upptekinn við að verja sig. Honum var sýnt upptaka úr öryggismyndavélum við [...] en á henni sést atburðurinn. Kvað hann myndbandið ekki sýna fram á neitt annað en það sem hann heldur fram.
Þá talaði lögreglan við vitnið C og staðfesti hann að komið hefði til ryskinga eins og kærði hefur lýst.
Þá hefur verið tekin framburðar skýrsla af kærða Y en þar kemur fram m.a. að eftir að þeir hefðu verið komnir um borð hafi kærði X ákveði að fara á eftir brotaþola í í þeim tilgangi að láta hann bæta gleraugu C sem brotnað höfðu er brotaþoli sló hann í andlitið. Kærði Y kvaðst hafa talið víst að til áfloga myndi koma og að X yrði undir í þeim þar sem brotaþoli væri bæði stærri og öflugri en X. Hann hafi því farið á eftir X. Kærði kvaðst ekki vita hvort X hrinti eða sló A með þeim afleiðingum að hann skall í götuna eftir að A hafi slegið til hans. Hann kvaðst sjálfur hafa farið klofvega yfir A þar sem hann lá og tekið í föt hans á brjósti til að halda honum niðri. Allt þetta hafi gerst mjög snöggt og hafi lyftarinn komið þarna að í sömu andrá og hann sleppt takinu. Eftir að honum var sýnd upptakan úr öryggismyndavél lagði hann áherslu á að allt hafi gerst hratt og hann myndi ekki eftir að hafa slegið brotaþola. Þá nefndi hann ekki að gafflar lyftarans hefðu farið í höfuð brotaþola.
Þá hafði lögreglan samband við Hafstein Garðarsson, hafnarvörð hjá [...] og var óskað eftir að sjá upptökur af höfninni. Við skoðun á myndbandsupptökunni sést að kærði X slær brotaþola bylmingshöggi í höfuðið svo hann fellur aftur fyrir sig í malbikið og höfuðið skellur í malbikið, því næst sést er kærði Y beygir sig yfir brotaþola, sem liggur óvígur í götunni, kýlir með krepptum hnefa hægri handar tvö mjög þung högg í höfuðið. Þá sést að árársinni hætti þegar vitnið á lyftaranum kom aðvífandi að vettvangi. Þessi átök áttu sér stað frá klukkan 02:24 til klukkan 02:25 samkvæmt klukku á myndbandsupptökunni sem fylgir málinu.
Í framhaldi af handtöku kærða var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands nr. [...]/2014 og sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar nr. [...]/2014.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Akranesi hefur tekið vitnisframburði af 18 aðilum, bæði skipsverjum á skipinu [...], starfsmönnum [...] skemmtistaðarins og af þeim aðilum sem að voru við störf á [...] á umræddum tíma. Þá var rætt við 7 skipverja á [...] sem að voru vissulega í [...] en sáu ekki neitt og vissu ekkert um málið. Alls hefur rannsóknarlögreglan tekið 25 vitnaframburði. Samkvæmt vitnaframburðum liggur það fyrir að meirihluti skipsverja á [...] fóru um kvöldið á skemmtistaðinn [...] og kom brotaþoli þangað einnig um kvöldið. Samkvæmt vitnaframburðum liggur það fyrir að flestir voru að drekka bjór og sumir orðnir nokkuð ölvaðir en ekkert ofbeldi eða hótanir um ofbeldi átti sér stað á skemmtistaðnum. Þá kemur fram hjá vitnum að brotaþoli ásamt fleirum hefðu verið að metast um hitt og þetta og vitnum ber saman um að brotaþoli hefði verið nokkuð ölvaður á þessum tíma. Þegar skemmtistaðnum lokaði klukkan 01:00 þá fóru þá allir skipverjarnir ásamt brotaþola út af staðnum í nokkrum hópum. Samkvæmt vitnisframburðum var æsingur í kærða Y og brotaþola á leiðinni en ekki kom til slagsmála eða ryskinga þeirra á milli. Við verslunina Samskaup sló brotaþoli einn skipverjann með þeim afleiðingum að gleraugun hans skekktust og ekki er vitað um ástæðuna fyrir því höggi. Vitni sögðu að brotaþoli hefði beðið afsökunar og engir eftirmálar hafi orðið af því. Skipverjarnir fóru síðan um borð í skipið [...] og elti brotaþoli þá og var honum bönnuð innganga í skipið en vitni sögðu að hann hefði tekið því banni ágætlega og verið rólegur að spjalla við skipverjana í landganginum. Skömmu síðar hafi brotaþoli farið niður landganginn og gengið áleiðis í burtu frá skipinu án allra vandræða.
Samkvæmt ofangreindu og gögnum málsins er kærði undir sterkum grun um að hafa framið í félagi við annan mann stórfellda líkamsárás gegn ungum manni. Afleiðingar árásarinnar eru mjög alvarlegar og er brotaþoli enn í öndunarvél og í lífshættu. Ljóst er að afleiðingar árásarinnar eru mjög alvarlegar og m.t.t. almannahagsmuna er ekki forsvaranlegt að hann gangi laus. Ríkir almannahagsmunir standa til þess, að þegar svo stendur á sem í þessu máli, að menn sem eru sterklega grunaðir um alvarlega brot gangi ekki lausir. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings yrði kærði látinn laus. Meint brot kærða varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og refsiramminn allt að 16 ára fangelsi.
Rannsókn málsins er langt komin. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og með vísan til framanritaðs og gagna málsins verður talið að nauðsynlegt sé að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til rannsóknar og til meðferðar í réttavörslukerfinu og þess krafist að krafan nái fram að ganga. Til vara er krafist farbanns með vísan til 100. gr., sbr. b lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga, þar sem talið er veruleg hætta á að kærði, sem er [...] ríkisborgari og skráður til heimilis í [...] og á engin tengsli við landið utan við sjómennskuna, muni reyna að yfirgefa Ísland í þeim tilgangi að koma sér með einum eða öðrum hætti undan, rannsókn, málsókn, eða fullnustu refsingar.
Kærði er undir sterkum grun um að hafa ásamt öðrum manni ráðist að brotaþola og valdið honum stórfelldum áverkum á höfði aðfaranótt 17. þess mánaðar, en brotaþoli er nú á sjúkrahúsi algerlega meðvitundarlaus, lífshættulega slasaður og hefur gengist undir aðgerðir á höfði. Kærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 17. þ.m. á grundvelli 1. mgr. 95. gr.laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fallast verður á það með lögreglu að brot það sem kærði er sakaður um sé þess eðlis að almannahagsmunir standi til þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi en brot hans getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þykja uppfyllt hér og verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett.
Allan V. Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. ágúst 2014 kl. 16:00.