Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Erfðaábúð
- Dánarbú
|
|
Þriðjudaginn 6. desember 2005. |
|
Nr. 485/2005. |
Hreiðar Hreiðarsson(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn Sigurði Eiríkssyni (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Erfðaábúð. Dánarbú.
E naut erfðaábúðar á jörðinni G og hafði beint yfirlýsingu til sýslumanns á grundvelli 37. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976 um að SnE skyldi erfa ábúðarrétt á jörðinni. Hafði SnE tekið við erfðaábúðinni í samræmi við þessa yfirlýsingu en hafði síðar hætt búskap á jörðinni. Var talið að hvorki SnE né dánarbú E gætu ráðstafað erfðaábúðarréttinum til annarra erfingja E og fallist á kröfu eiganda jarðarinnar um útburð SE af jörðinni, en SE, sem var einn af erfingjum E, taldi sig hafa fengið erfðaábúðarréttinn úr hendi dánarbús E í kjölfar þess að SnE hætti þar búskap.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá varnaraðila borinn með beinni aðfarargerð út af jörðinni Grísará 1 í Eyjafjarðarsveit. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimiluð framangreind aðfarargerð og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem heimilað verði að gera fjárnám fyrir ásamt kostnaði af gerðinni.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði Hreiðar Eiríksson byggingarbréf 22. október 1963 handa Eiríki Hreiðarssyni fyrir jörðinni Grísará, sem Eiríkur skyldi fá að erfðaábúð. Var meðal annars tekið fram í byggingarbréfinu að leiguliða væri óheimilt að byggja öðrum jörðina eða láta af hendi landsnytjar eða hlunnindi án leyfis landsdrottins. Eiríkur beindi yfirlýsingu 16. september 2002 til sýslumannsins á Akureyri, þar sem hann tilkynnti að sonur hans, Snjólfur Eiríksson, skyldi erfa ábúðarrétt að jörðinni. Í málinu er ekki deilt um að þessi ráðstöfun hafi verið gerð á grundvelli 37. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976, sbr. nú 32. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, en fyrir liggur að Snjólfur hafði ásamt Eiríki fengist þá um nokkurn tíma við garðyrkjubúskap á jörðinni.
Eiríkur Hreiðarsson lést 4. mars 2003 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 27. júní sama ár. Hreiðar Eiríksson var þá einnig látinn, en ekkja hans, Ragnheiður Pétursdóttir, mun hafa setið í óskiptu búi og farið þannig með eignarráð yfir jörðinni Grísará 1. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, greiddi Snjólfur Eiríksson landsleigu vegna jarðarinnar til Ragnheiðar 17. október 2003. Þá ritaði Snjólfur henni jafnframt bréf 27. sama mánaðar, þar sem vísað var meðal annars til áðurgreindrar yfirlýsingar Eiríks Hreiðarssonar frá 16. september 2002 og eftirfarandi tekið fram: „Eins og komið hefur fram í samtölum mínum við yður, og greiðslu minni á leigugjaldi fyrir ábúð á Grísará árið 2003, lít ég svo á að ég hafi þegar hafið, og muni halda áfram, ábúð á jörðinni í samræmi við framangreinda yfirlýsingu föður míns, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.“ Í bréfi til Ragnheiðar 5. nóvember 2003 frá lögmanni, sem þá hafði tekið að sér að gæta hagsmuna Snjólfs, sagði meðal annars eftirfarandi: „Eins og þér er ljóst tók umbj.m. við ábúð jarðarinnar þegar faðir hans Eiríkur Hreiðarsson lést nú fyrr á árinu, en Eiríkur hafði með bréfi dags. 16. september 2002, afhent sýslumanninum á Akureyri yfirlýsingu sína þess efnis að umbj.m. mundi taka við ábúðinni, í samræmi við ákvæði ábúðarlaga.“
Skiptastjóri í dánarbúi Eiríks Hreiðarssonar leitaði með bréfi 20. nóvember 2003 eftir úttekt á jörðinni Grísará 1 samkvæmt ákvæðum 36. gr. laga nr. 64/1976 vegna ábúendaskipta á henni. Verður ekki séð af gögnum málsins að atriði varðandi ábúendaskiptin hafi á fyrri stigum komið til umfjöllunar við skipti dánarbúsins, en í umræddu bréfi var meðal annars tiltekið að Snjólfur Eiríksson væri viðtakandi ábúandi. Í úttektargerð 28. júní 2004 var meðal annars tekið fram að „Snjólfur Eiríksson er erfðaábúandi samkvæmt yfirlýsingu sem gefin var út af fyrrum erfðaábúanda ... og afhent sýslumanni þann 16.09. 2002.“ Samkvæmt úttektargerðinni hafði jörðin verið tekin út 1. júní 2004 að viðstöddum Snjólfi, skiptastjóra í dánarbúi Eiríks og báðum aðilum þessa máls.
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að Snjólfur Eiríksson hafi haft með höndum búrekstur að Grísará 1 allt frá andláti Eiríks Hreiðarssonar. Í bréfi til skiptastjóra í dánarbúi Eiríks 20. september 2004 greindi Snjólfur frá því að hann hefði haft í hyggju að halda þeim rekstri áfram, en af fjárhagslegum ástæðum hafi hann ákveðið að gera það ekki og myndi hann því segja upp erfðaábúð á jörðinni. Fyrir liggur að samkomulags hafi í framhaldi af þessu verið leitað milli Snjólfs og Ragnheiðar Pétursdóttur um lok ábúðarinnar, en án árangurs. Beindi hún tilkynningu til hans 26. nóvember 2004 um uppsögn ábúðarsamnings, en sem grundvöll fyrir því vísaði hún til þess að hann væri fluttur af jörðinni og hættur að stunda þar búskap, sbr. 12. gr. og 37. gr. laga nr. 80/2004. Með bréfi 22. desember 2004 var Ragnheiði tilkynnt að Snjólfur hefði ekkert við uppsögn samningsins að athuga og yrði jörðin afhent 30. maí 2005.
Sóknaraðili keypti Grísará 1 af Ragnheiði Pétursdóttur með kaupsamningi 8. janúar 2005. Afsal var gefið út fyrir jörðinni sama dag og því þinglýst 10. sama mánaðar. Sóknaraðili óskaði 9. maí 2005 eftir úttekt á jörðinni vegna ábúðarloka. Áður en til úttektar kom tilkynnti skiptastjóri í dánarbúi Eiríks Hreiðarssonar með bréfi 31. maí 2005 að Snjólfur Eiríksson hefði beint því til sín að kannað yrði hvort einhver annar erfingi eftir Eirík hefði hug á að taka við erfðaábúðinni. Sú athugun hefði leitt til þess að varnaraðili, sem er bróðir Snjólfs, tæki við ábúðinni. Þessu til samræmis sendi skiptastjóri yfirlýsingu til sýslumannsins á Akureyri 15. júní 2005 um að varnaraðili hafi tekið við erfðaábúðarrétti að jörðinni og var yfirlýsingu þessari þinglýst 16. sama mánaðar.
Sóknaraðili telur sem eigandi Grísarár 1 að hvorki í lögum né í byggingarbréfi 22. október 1963 verði fundin stoð fyrir því að varnaraðili hafi átt rétt á að taka við erfðaábúð jarðarinnar að Snjólfi Eiríkssyni frágengnum. Leitaði sóknaraðili 28. júní 2005 heimildar Héraðsdóms Norðurlands eystra til að fá varnaraðila borinn út af jörðinni og var mál þetta þingfest af því tilefni 5. september sama ár. Með hinum kærða úrskurði var beiðni sóknaraðila hafnað.
II.
Við andlát Eiríks Hreiðarssonar voru í gildi reglur um erfðaábúð í V. kafla laga nr. 64/1976. Í 37. gr. laganna var mælt fyrir um hvernig réttur til slíkrar ábúðar skyldi erfast og tekið fram að eftirlifandi maki ábúanda héldi réttinum meðan hann lifði, en ábúðarréttur skyldi erfast til barns þess hjóna, sem stofnaði hann eða erfði, barna þeirra og kjörbarna. Með 3. tölulið ákvæðisins var foreldrum heimilað að koma sér saman um hvert af börnum þeirra skyldi erfa ábúðarréttinn og tilkynna það sýslumanni, en yrði ekki samkomulag um það og börnin kæmu sér heldur ekki saman um það, sbr. 4. tölulið lagagreinarinnar, skyldi rétturinn ganga til þess barns, sem elst væri, en ef það afsalaði sér réttinum nytu önnur börn hans eftir aldri, sbr. 5. tölulið. Efnislega eru sams konar reglur nú í 32. gr. laga nr. 80/2004. Í málinu er ekki deilt um að Eiríkur hafi ráðstafað erfðaábúðarrétti til Snjólfs Eiríkssonar með yfirlýsingu sinni 16. september 2002 með stoð í fyrrgreindum 3. tölulið 37. gr. laga nr. 64/1976.
Í V. kafla laga nr. 64/1976 voru ekki frekar en nú eru í IV. kafla laga nr. 80/2004 reglur um hvort eða hvers konar formlegra aðgerða kynni að vera þörf til að færa erfðaábúðarrétt í hendur nýs ábúanda að þeim fyrri látnum. Var heldur ekkert mælt fyrir um það við hvaða tímamark réttindin færðust til nýja ábúandans. Af ákvæðum V. kafla laga nr. 64/1976 er á hinn bóginn ljóst að erfðaábúðarréttur, sem þau giltu um, gat ekki talist til slíkra fjárhagslegra réttinda ábúanda, sem gengju til dánarbús hans að honum látnum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., enda var við það miðað að aðilaskipti yrðu að réttinum eftir sérreglum 37. gr. laga nr. 64/1976, óháð almennum reglum um erfðaréttindi og án þess að dánarbú látins ábúanda fengi fyrir það endurgjald. Eins og ákvæðum V. kafla laga nr. 64/1976 var hagað er því óhjákvæmilegt að líta svo á að erfðaábúðarréttur að Grísará 1 hafi færst sjálfkrafa í hendur Snjólfs Eiríkssonar við andlát Eiríks Hreiðarssonar og án þess að til formlegra ráðstafana þyrfti að koma af hálfu dánarbús þess síðarnefnda. Af áðurgreindum gögnum málsins er ljóst að þennan rétt nýtti Snjólfur sér þar til hann hvarf frá því í september 2004 að reka bú á jörðinni. Ábúð hans var sagt upp af landsdrottni 26. nóvember 2004 og lýsti Snjólfur því yfir í áðurnefndu bréfi 22. desember sama ár að hann hefði ekkert við uppsögnina að athuga. Reglur V. kafla laga nr. 64/1976 vörðuðu aðeins aðilaskipti að erfðaábúðarrétti við andlát ábúanda, en veittu hvorki ábúanda í lifanda lífi né afkomendum fyrri ábúanda heimild til að ráðstafa slíkum rétti á annan hátt. Samkvæmt þessu verður að fallast á með sóknaraðila að engin lagastoð hafi verið fyrir því að varnaraðili tæki við erfðaábúðarrétti að Grísará 1 eftir að ábúð Snjólfs Eiríkssonar lauk. Ber því að taka til greina kröfu sóknaraðila um að honum verði heimilað að fá varnaraðila borinn út af jörðinni með beinni aðfarargerð.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði, en engin efni eru til að kveða sérstaklega á um heimild til að fá gert fjárnám fyrir þeim málskostnaði eða kostnaði af framkvæmd útburðargerðar, enda standa heimildir til slíks fjárnáms í 1. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Hreiðari Hreiðarssyni, er heimilt að fá varnaraðila, Sigurð Eiríksson, borinn út af jörðinni Grísará 1 í Eyjafjarðarsveit með beinni aðfarargerð.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. nóvember 2005.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 25. október s.l., barst dóminum með aðfararbeiðni Ingvars Þóroddssonar hdl., dagsettri 28. júní 2005, en móttekinni 30. sama mánaðar.
Sóknaraðili er Hreiðar Hreiðarsson, Skák, Eyjafjarðarsveit.
Varnaraðili er Sigurður Eiríksson, Vallartröð 3, Eyjafjarðarsveit.
Kröfur sóknaraðila eru að varnaraðili verði, ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út af jörðinni Grísará 1, Eyjafjarðarsveit, ln. 152606, með beinni aðfarargerð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir þeim kostnaði og áfallandi kostnaði af væntanlegri gerð.
Kröfur varnaraðila eru að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I.
Með byggingabréfi dagsettu 22. október 1963 byggði Hreiðar Eiríksson þáverandi eigandi jarðarinnar Grísarár í Eyjafjarðarsveit syni sínum, Eiríki Hreiðarssyni, jörðina á erfðaleigu.
Árið 1999 stofnaði Eiríkur Hreiðarsson Garðyrkjustöðina Grísará ehf. ásamt Snjólfi syni sínum. Síðar gerðist varnaraðili aðili að félaginu með 10 % eignarhluta. Var jörðin Grísará nýtt í rekstri einkahlutafélagsins.
Með bréfi dagsettu 16. september 2002 tilkynnti Eiríkur Hreiðarsson sýslumanninum á Akureyri að Snjólfur sonur hans skyldi erfa ábúðarrétt á Grísará. Var tilkynning þessi árituð af eiginkonu Eiríks, Margréti Sigurðardóttur.
Eiríkur Hreiðarsson lést 4. mars 2003. Er það gerðist var Hreiðar faðir hans, sem samkvæmt framansögðu hafði byggt honum jörðina á leigu, fallinn frá og sat móðir Eiríks, Ragnheiður Pétursdóttir, í óskiptu búi eftir mann sinn. Dánarbú Eiríks var tekið til opinberra skipta og var Hreinn Pálsson hrl. skipaður skiptastjóri í dánarbúinu 27. júní 2003. Skiptum á búinu er ólokið.
Gerð var úttekt á jörðinni vegna ættliðaskipta samkvæmt ákvæði 36. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Mun niðurstaða úttektarmanna vera dagsett 28. júní 2004.
Lögmaður Ragnheiðar Pétursdóttur ritaði barnabarni hennar, Snjólfi Eiríkssyni, bréf 26. nóvember 2004. Í bréfinu var til þess vísað að Ragnheiður teldi Snjólf ekki lengur stunda landbúnað á Grísará og auk þess vera fluttan í annan landshluta. Þessu til stuðnings var vitnað til bréfs Snjólfs til skiptastjóra dánarbúsins frá 20. september 2004 sem áður er getið. Í niðurlagi bréfs lögmannsins sagði síðan:
„Umbjóðandi minn telur nú að þú uppfyllir ekki skilyrði 12. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 og með vísun til 37. gr. laganna er hér með sagt upp ábúðarsamningi þínum um jörðina Grísará, Eyjafjarðarsveit.“
Bréfi lögmanns Ragnheiðar Pétursdóttur var svarað af lögmanni Snjólfs Eiríkssonar 22. desember 2004. Í svarbréfinu sagði meðal annars:
„Hefur umbj. minn ekki neitt við uppsögn ábúðarsamningsins sem slíka að athuga enda hann sjálfur búinn að ákveða að bregða búi, svo sem umbj. þínum var kunnugt um, og þar með ætlað að segja upp ábúðarsamningi sínum fyrir tilskilinn tíma, þ.e. fyrir áramót í samræmi við 2. mgr. 36. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, um uppsögn lífstíðar ábúðarsamnings.
Umbj. minn mótmælir hinsvegar alfarið að um verulegar vanefndir sé að ræða að sinni hálfu þó hann hafi ákveðið að hætta búrekstri og sé ekki með lögheimili á jörðinni eins og tilvísun í 12. og 37. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 í bréfi þínu vísar til.
Uppsögn ábúðarsamningsins sem slíks telst móttekin þann 30. nóvember þegar umbj. minn móttekur ábyrgðarbréf þar um og mun afhending jarðar og fasteigna sem um gildir uppkaupsskylda jarðareiganda, sbr. 38. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, fara fram að 6 mánuðum liðnum frá þeim tíma, eða þann 30. maí 2005.“
Með kaupsamningi undirrituðum 8. janúar 2005 keypti sóknaraðili jörðina Grísará 1 af móður sinni, Ragnheiði Pétursdóttur. Sama dag gaf Ragnheiður út afsal til handa sóknaraðila fyrir jörðinni og var afsalinu þinglýst 11. sama mánaðar.
Lögmaður sóknaraðila ritaði lögmanni Snjólfs Eiríkssonar bréf 14. janúar 2005 í tilefni af sölu Ragnheiðar Pétursdóttur á jörðinni til sóknaraðila. Í bréfinu kom fram það álit sóknaraðila að uppsögn fyrri eiganda jarðarinnar á ábúðarsamningi Snjólfs, sem gerð hefði verið með vísan til 12. og 37. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, hefði verið réttmæt. Þá var því einnig haldið fram að Snjólfur bæri ábyrgð á veðskuldum sem á jörðinni Grísárá 1 hvíldu, samtals að fjárhæð 13.663.264 krónur. Í bréfinu kvaðst sóknaraðili gera sér grein fyrir því að hann myndi að einhverju leyti þurfa að kaupa af Snjólfi hús, mannvirki og ræktun, sbr. 38. gr. laga nr. 80/2004 og vegna áðurgreindra skulda var af sóknaraðila hálfu vísað til viðhaldsskyldu Snjólfs samkvæmt 17. gr. laga nr. 80/2004.
Í tilefni af sölu jarðarinnar til sóknaraðila og þinglýsingu afsals honum til handa sendi Hreiðar Eiríksson, sonur Eiríks heitins, sýslumanninum á Akureyri yfirlýsingu 4. febrúar 2005 þess efnis að hann teldi að í nefndu afsali fælust allmörg atriði sem skertu hagsmuni dánarbúsins auk þess sem því var haldið fram að gengið hefði verið fram hjá forkaupsrétti ábúanda. Tilkynningu þessari var þinglýst sama dag. Hinn 8. febrúar 2005 barst Hreiðari bréf þinglýsingastjóra þess efnis að kröfu hans um að umrætt afsal yrði afmáð úr þinglýsingabók sýslumanns væri hafnað. Jafnframt var yfirlýsingin frá 4. febrúar 2005 afmáð úr þinglýsingabók. Skiptastjóri í dánarbúi Eiríks Hreiðarssonar tók þá ákvörðun að bera úrlausn þinglýsingastjóra undir Héraðsdóm Norðurlands eystra. Niðurstaða héraðsdóms varð sú að hafna kröfum dánarbúsins. Í niðurlagi forsendna úrskurðar héraðsdóms sagði meðal annars:
„Í máli þessu liggur fyrir að Snjólfur Eiríksson tók við ábúð á jörðinni Grísará ásamt öllum réttindum og skyldum sem ábúðinni fylgja. Lauk þar með réttarsambandi sóknaraðila við eiganda jarðarinnar. Af þessari ástæðu verður sóknaraðili ekki talinn hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni af þeim ákvörðunum þinglýsingastjóra sem nú eru bornar undir dóminn, sbr. 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 3971978.“
Með dómi uppkveðnum 31. ágúst 2005, í hæstaréttarmálinu nr. 366/2005, var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna.
Með bréfi 9. maí 2005 óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því að úttekt færi fram á Grísará 1, skv. 40. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, vegna ábúðarloka Snjólfs Eiríkssonar. Við munnlegan flutning málsins upplýsti lögmaður sóknaraðila að úttekt þessi hefði enn ekki farið fram þar sem úttektarmenn hefðu neitað að framkvæma hana þar til leyst hefði verið úr deilum tengdum ábúð á jörðinni.
Skiptastjóri dánarbús Eiríks Hreiðarssonar ritaði Ragnheiði Pétursdóttur bréf 31. maí 2005 og tilkynnti henni um þá niðurstöðu erfingja Eiríks að ábúðarréttur samkvæmt byggingabréfi frá 22. október 1963 um erfðaábúð á Grísará yrði á höndum varnaraðila. Tók skiptastjóri fram að Snjólfur Eiríksson hefði í fyrstu ætlað sér að nýta ábúðarréttinn en þegar til kom hefði hann ekki talið sig geta tekið við erfðaábúðinni og sagt sig frá henni. Þá kemur og fram í bréfinu að úttekt á jörðinni vegna ættliðaskipta skv. 36. gr. laga nr. 64/1976 hafi farið fram 1. júní 2004 og hafi úttektarmenn lokið skýrslu um úttektina 28. sama mánaðar.
Í bréfi til varnaraðila 10. júní 2005 mótmælti lögmaður sóknaraðila því að síðastgreint bréf skiptastjóra hefði nokkur réttaráhrif. Var í bréfinu vísað til þess að Snjólfur Eiríksson hefði enga heimild haft til þess að framselja ábúðarréttinn með umræddum hætti sem ábúandi, en heimild til framsals í lifanda lífi ábúanda væri ekki að finna í IV. kafla laga nr. 80/2004. Slíkt framsal væri því óheimilt án samþykkis jarðareiganda. Ennfremur hafi ákvörðun um framsal verið tilkynnt röngum aðila. Að endingu var í bréfinu skorað á varnaraðila að rýma Grísará 1 í samræmi við áðurnefnda uppsögn og síðar ákvörðun Snjólfs sjálfs. Var varnaraðila gefinn frestur til að afhenda jörðina til 20. júní 2005, ella myndi sóknaraðili leita atbeina dómstóla til að ná fram rétti sínum.
Vegna þessa bréfs lögmanns sóknaraðila ritaði skiptastjóri lögmanninum bréf 15. júní 2005. Í bréfinu tók skiptastjóri fram að þar sem Snjólfur Eiríksson hefði sagt sig frá erfðaábúðinni hefði komið til beitingar ákvæðis 5. tl. 32. gr. ábúðarlaga. Þar sem varnaraðili hefði krafist ábúðarréttarins með bréfi dagsettu 8. júní 2005 og allir aðrir erfingjar Eiríks heitins afsalað sér honum hefði varnaraðili tekið við réttinum. Því hefði ekki verið um að ræða framsal Snjólfs á ábúðarréttinum til varnaraðila.
Sama dag og skiptastjóri ritaði síðastgreint bréf tilkynnti hann sýslumanninum á Akureyri bréflega að varnaraðili hefði tekið við erfðaábúðinni á Grísará. Var tilkynningu skiptastjóra þinglýst athugasemdalaust á jörðina og efni hennar fært í Landskrá fasteigna.
II.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því að hann eigi óskoraðan eignarrétt að jörðinni Grísará 1. Snjólfur Eiríksson hafi tekið við ábúð á jörðinni með fullgildum hætti, enda hafi farið fram úttekt vegna ættliðaskipta. Snjólfur hafi síðan með skuldbindandi hætti samþykkt uppsögn fyrirliggjandi samnings um erfðaábúð frá 22. október 1963 með bréfi lögmanns hans 22. desember 2004 og jafnframt skuldbundið sig til að afhenda jörðina 30. maí s.l. Enga heimild sé að finna til framsals í lifanda lífi ábúanda í IV. kafla ábúðarlaga nr. 80/2004 og slíkt framsal því óheimilt án samþykkis jarðareiganda sbr. 33. gr., sbr. 20. gr., laganna.
Mögulegt er að áliti sóknaraðila að framsalsheimild geti stuðst við ákvæði í viðkomandi samningi. Slíkt ákvæði sé hins vegar ekki að finna í fyrrgreindum erfðafestusamningi heldur hið gagnstæða, en í 4. gr. samningsins segi: „Leiguliði má ekki byggja öðrum af jörðinni eða láta landsnytjar eða hlunnindi í té, nema landsdrottinn leyfi.“
Þá telur sóknaraðili tilvísun varnaraðila til 5. tl. 32. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 ekki eiga við í umræddu tilviki þar sem Snjólfur Eiríksson hafi tekið við ábúðinni, að því er virðist án fyrirvara, í samræmi við tilnefningu föður síns og eiginkonu hans frá 16. september 2002.
Að endingu vísar sóknaraðili kröfum sínum til stuðnings til 78. gr. laga nr. 90/1989.
III.
Varnaraðili byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að mál þetta sé þannig vaxið að það verði ekki svo vel sé rekið sem almennt útburðarmál. Réttara væri að áliti varnaraðila að sóknaðili höfðaði einkamál til viðurkenningar á þeim réttindum sem hann telji sig eiga. Máli þessu beri því að vísa frá héraðsdómi.
Þá reisir varnaraðili kröfur sínar jafnframt á því að þrátt fyrir viljayfirlýsingu frá 16. september 2002, um að Snjólfur Eiríksson skyldi erfa rétt til ábúðar á jörðinni Grísará, hafi viðtaka Snjólfs ekki komið lögformlega til framkvæmda þar sem hann hafi áður sagt sig frá ábúðarréttinum. Því hafi aldrei komið til þess að Snjólfur yfirtæki öll réttindi og allar skyldur sem ábúðarréttinum séu samfara, þ.m.t. að leysa fráfarandi erfðaábúanda, í þessu tilviki dánarbú hans, frá öllum skuldbindingum hans vegna ábúðarinnar og afla framsals á þeim rétti formlega til sín. Af þeim sökum hafi sýslumanni aldrei verið tilkynnt að Snjólfur hefði formlega tekið yfir ábúðarréttinn.
Úttekt vegna ættliðaskipta og samskipti Snjólfs við jarðareiganda segir varnaraðili engu breyta um framangreint, en aldrei hafi komið til vanefnda á ábúðarrétti með þeim hætti að tilefni gæfi til sjálfstæðrar riftunar. Snjólfur hafi mótmælt riftunar- eða uppsagnartilkynningu landeiganda enda engar réttmætar vanefndir verið tilgreindar. Engar tilkynningar hafi verið sendar til dánarbúsins sem þó hafi allan tímann verið skráður rétthafi ábúðarréttindanna og persónulegur greiðandi flestra þeirra veðskulda sem á jörðinni hvíla. Uppsögn Ragnheiðar Pétursdóttur á erfðaábúðinni hafi því verið beint að röngum aðila og Snjólfur ekki verið til þess bær að samþykkja uppsögnina eða synja henni. Vísar varnaraðili sérstaklega til þess að svo virðist sem þetta sé, að hluta til í það minnsta, viðurkennt af tveimur sonum sóknaraðila, en þeir hafi í mars 2005 gert leigusamning við skiptastjóra dánarbúsins um húseign í eigu dánarbúsins sem sé hluti þeirra eigna sem ábúðinni fylgi.
Þegar fyrir lá að Snjólfur Eiríksson hygðist ekki nýta ábúðarréttinn kveðst varnaraðili hafa falast eftir réttinum af dánarbúinu. Þessi málaleitan hans hafi verið samþykkt, afgreidd og tilkynnt til sýslumanns. Engin mótmæli eða athugasemdir hafi komið fram varðandi tilkynningu til sýslumanns um þau ættliðaskipti að varnaraðili tæki við réttindunum, en afrit tilkynningarinnar hafi verið send lögmanni sóknaraðila. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar innan tilskilins tíma við þinglýsingu réttindanna á jörðina Grísará. Með nefndum formgerningi hafi ættliðaskipti fyrst verið fullfrágengin á jörðinni Grísará og með þeim hætti að varnaraðili hafi þar öðlast lögformlegan rétt.
Varnaraðili tekur fram að Snjólfur Eiríksson hafi starfað við hlið föður síns við rekstur garðyrkjustöðvarinnar á Grísará og þá hafi hann jafnframt átt stóran hlut í einkahlutafélagi því sem reksturinn hafði með höndum, auk föður síns og varnaraðila. Hann hafi því, eðli málsins samkvæmt, haldið áfram rekstri stöðvarinnar eftir skyndilegt fráfall föður síns. Sá rekstur hafi allur, að því er dánarbúið varðaði, verið í umboði skiptastjóra, sbr. meðal annars ákvæði 67. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Snjólfur hafi hins vegar ekki haft til þess umboð frá skiptastjóra að afsala réttindum dánarbúsins vildi hann ekki taka við þeim. Sóknaraðila, sem þá hafi verið fulltrúi eiganda jarðarinnar en sé nú sjálfur orðinn eigandi hennar, hafi verið fullkunnugt um þau álitamál sem uppi voru en hann hafi meðal annars átt fund með stjórn Garðyrkjustöðvarinnar Grísarár ehf. 6. október 2004 um þau og vandkvæði varðandi ættliðaskiptin og yfirtöku ábúðarréttarins, sem einkum hafi snúið að skuldum sem hvílt hafi á jörðinni og dánarbúið verið persónulegur greiðandi að.
Sóknaraðila segir varnaraðila ekki hafa fært rök fyrir þeirri fullyrðingu að Snjólfur Eiríksson hafi tekið við ábúð á Grísará. Helst virðist sem sóknaraðili vísi til þess forsvars Snjólfs sem áður sé getið og úttektar frá því í júní 2004 vegna ættliðaskipta. Úttektin hafi farið fram að frumkvæði skiptastjóra lögum samkvæmt, enda framan af við það miðað að Snjólfur tæki við ábúðinni.
Að lokum vísar varnaraðili sérstaklega til þeirra aðstæðna sem upp hafi komið með skyndilegu fráfalli ábúanda Grísarár. Skiptastjóri hafi orðið ígildi hins látna en ýmsir aðilar, svo sem ekkja hins látna og Snjólfur sonur hans, farið með umsjón og vörslur eigna dánarbúsins meðan unnið hafi verið úr þessum aðstæðum. Í meðförum skiptastjóra hafi úrlausnir tekið miklum breytingum, meðal annars af fjárhagslegum ástæðum, og óvissa verið nokkur. Á þessum tíma hafi hins vegar ekki komið til vanefnda gagnvart eiganda jarðarinnar. Nú segir varnaraðili sjá fyrir endann á þessu óvissuástandi og ástæðulaust að ætla annað en hann, sem sé búfræðimenntaður, muni ekki efna ábúðarskyldur sínar af álúð og sóma. Vafalaust sé að framanlýst aðilaskipti að ábúðarrétti jarðarinnar séu í takt við meginreglur ábúðar- og jarðalaga.
IV.
Eins og áður var rakið byggði Hreiðar Eiríksson syni sínum, Eiríki Hreiðarssyni, jörðina Grísará í Eyjafjarðarsveit á erfðaleigu með byggingabréfi dagsettu 22. október 1963. Við andlát Eiríks 4. mars 2003 tók dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann þá átti eða naut samkvæmt meginreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., þ.m.t. ábúðarrétti á jörðinni Grísará. Samhliða eignaðist Snjólfur, sonur Eiríks, tilkall til ábúðarréttarins á grundvelli tilkynningar hins látna og eiginkonu hans til sýslumannsins á Akureyri frá 16. september 2002 sem send hafði verið sýslumanni í samræmi við ákvæði 3. tl. 1. mgr. 37. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976.
Dánarbú Eiríks Hreiðarssonar var tekið til opinberra skipta og var Hreinn Pálsson hrl. skipaður skiptastjóri í dánarbúinu 27. júní 2003. Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 20/1991 fer skiptastjóri með forræði dánarbús meðan á opinberum skiptum stendur og er einn bær um að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess. Hann kemur fram af hálfu búsins fyrir dómi og gerir samninga og aðra löggerninga í nafni þess.
Skiptum á dánarbúi Eiríks Hreiðarssonar er ólokið. Í málinu hafa engin gögn verið lögð fram er frá skiptastjóra stafa og varða ráðstöfun á ábúðarrétti á Grísárá til Snjólfs Eiríkssonar. Hins vegar liggur fyrir í málinu bréf skiptastjóra til lögmanns sóknaraðila frá 15. júní 2005 þar sem fram kemur að Snjólfur hafi sagt sig frá erfðaábúðinni og af þeim sökum komið til beitingar ákvæðis 5. tl. 32. gr. ábúðarlaga. Í bréfinu segir jafnframt að varnaraðili hafi krafist ábúðarréttarins með bréfi dagsettu 8. júní 2005 og allir aðrir erfingjar Eiríks heitins afsalað sér honum. Varnaraðili hafi því tekið við réttinum. Sama dag tilkynnti skiptastjóri sýslumanninum á Akureyri bréflega að varnaraðili hefði tekið við erfðaábúðinni á Grísará.
Sakarefni hæstaréttarmálsins nr. 366/2005 varðaði lögmæti ákveðinna úrlausna þinglýsingastjóra tengdum jörðinni Grísará. Í máli þessu er hins vegar deilt um hvort sóknaraðili eigi rétt til umráða yfir jörðinni. Að þessu virtu þykir ákvæði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför ekki eiga við í málinu svo sem hreyft var af lögmanni sóknaraðila í munnlegum málflutningi.
Svo fallist verði á kröfu um beina aðfarargerð skulu réttindi gerðarbeiðanda vera svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 78. gr. laganna.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að sóknaraðili hafi fært þær sönnur fyrir umráðum sínum yfir jörðinni Grísará 1 að talið verði að skilyrðum beinnar aðfarargerðar á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 sé fullnægt. Varhugavert þykir því að láta gerðina ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga. Kröfu sóknaraðila um útburð varnaraðila af jörðinni Grísárá 1 er því hafnað.
Með vísan til úrslita málsins úrskurðast sóknaraðili til að greiða varnaraðila málskostnað sem hæfilega telst ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Hreiðars Hreiðarssonar, um að varnaraðili, Sigurður Eiríksson, verði ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út af jörðinni Grísará 1, Eyjafjarðarsveit, ln. 152606, með beinni aðfarargerð, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 120.000 krónur í málskostnað.