Hæstiréttur íslands
Mál nr. 204/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002. |
|
Nr. 204/2002. |
Rás ehf. (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Sandsölunni ehf. (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Bifreiðir. Meðdómsmenn. Ómerking héraðsdóms.
S leitaði til R, sem rekur bifreiðaverkstæði, og óskaði eftir því að hann gerði við leka undan svonefndum „heddum“ á vél vörubifreiðar. R hélt því fram að S hafi óskað eftir lágmarksviðgerð en S hélt því fram að hann hafi óskað eftir viðgerð á lekanum og falið R að meta hvað gera þyrfti. R var talinn bera sönnunarbyrðina fyrir framangreindum staðhæfingum sínum. Eins og málið lá fyrir Hæstarétti var ekki talið að honum hafi, gegn andmælum S, tekist sú sönnun. Ágreiningslaust var að þrátt fyrir viðgerðina lak enn undan svonefndum „heddum“ vélarinnar og þurfti að taka vélina aftur upp og gera við aðra hluta hennar en fyrri viðgerð tók til. Greiddi S reikning R fyrir fyrri viðgerðina og innti af hendi greiðslur upp í seinni viðgerðina, en þær taldi hann hafa verið vegna varahluta. Hann taldi sér hins vegar ekki skylt að greiða eftirstöðvar reiknings R fyrir seinni viðgerðina og höfðaði mál þetta til heimtu þeirra. S hélt því fram að fyrri viðgerðin hafi verið ófullnægjandi og hafi lítt komið að notum við þá seinni. R hélt því hins vegar fram að fyrri viðgerðin sem slík hafi verið í lagi og komið að nær fullum notum við síðari viðgerðina, sem lotið hafi að öðrum hlutum vélarinnar. Var litið svo á að aðilar deildu í málinu um sérfræðileg álitaefni á sviði vélaviðgerða. Var því talið nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn á því sviði til að leggja mat á þessi álitaefni og dæma málið með sér. Þar sem það var ekki gert varð ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með aðalmeðferð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsuppsögu að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 204.653 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. desember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi leitaði stefndi fyrri hluta árs 1999 til áfrýjanda, sem rekur bifreiðaverkstæði, og óskaði eftir að hann gerði við leka undan svonefndum „heddum“ á vél vörubifreiðar. Heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi óskað eftir lágmarksviðgerð og þeir komið sér saman um að láta nægja að taka ofan af vélinni og skipta um svonefndar „heddpakkningar“, slípa „heddið“ og þrýstiprófa það. Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi óskað eftir viðgerð á lekanum og falið áfrýjanda, sem sérfróður væri á þessu sviði, að meta hvað gera þyrfti. Andmælir stefndi því að hann hafi beðið um lágmarksviðgerð, sem og því að hann hafi verið með í ráðum um það hvers konar viðgerð skyldi framkvæmd. Áfrýjandi ber sönnunarbyrðina fyrir framangreindum staðhæfingum sínum. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti hefur honum, gegn andmælum stefnda, ekki tekist sú sönnun.
Ágreiningslaust er að þrátt fyrir þessa viðgerð lak enn undan svonefndum „heddum” vélarinar og leitaði stefndi aftur til áfrýjanda um úrbætur. Kom þá í ljós að ástæða lekans var að svonefndar slífar voru óþéttar. Þurfti að taka vélina aftur upp og var viðgerðar þörf á öðrum hlutum hennar en fyrri viðgerð tók til. Greiddi stefndi reikning áfrýjanda fyrir fyrri viðgerðina og innti af hendi greiðslur upp í seinni viðgerðina, en þær telur hann hafa verið vegna varahluta. Hann taldi sér hins vegar ekki skylt að greiða eftirstöðvar reiknings áfrýjanda fyrir seinni viðgerðina og höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu þeirra.
Stefndi heldur því fram að óforsvaranlegt hafi verið af áfrýjanda að kanna ekki betur orsakir lekans er komið var með bifreiðina fyrst til viðgerðar. Sú viðgerð hafi verið ófullnægjandi og beri áfrýjanda að bæta úr því. Heldur hann því fram að fyrri viðgerð hafi lítt komið að notum við þá seinni og hafi þurft að endurtaka mest af því, sem þá var gert. Hafi hann með greiðslu reiknings fyrir fyrri viðgerðina ásamt greiðslu á 185.243 krónum fyrir síðari viðgerðina greitt allt það, sem honum beri, og ríflega það. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að sú viðgerð, sem fyrst var framkvæmd, hafi verið á efri hluta vélarinnar, en sú síðar á hinum neðri. Hafi fyrri viðgerðin sem slík verið í lagi og komið að nær fullum notum við síðari viðgerðina. Síðari viðgerðin hafi verið viðbót, sem laut að öðrum hlutum vélarinnar, og beri áfrýjanda að greiða hana að fullu.
Eins og að framan er rakið deila aðilar í máli þessu um sérfræðileg álitaefni á sviði vélaviðgerða. Var því nauðsynlegt að héraðsdómari kveddi til sérfróða meðdómsmenn á því sviði til að leggja mat á þessi álitaefni og dæma málið með sér, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem það var ekki gert verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með aðalmeðferð 6. desember 2001 og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsuppsögu að nýju.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði frá og með aðalmeðferð 6. desember 2001 er ómerkt. Er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsuppsögu að nýju.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. þ.m., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rás ehf., kt. 421194-2389, Berghellu 4, Hafnarfirði, gegn Sandsölunni ehf., kt. 450685-0389, Smiðshöfða 19, Reykjavík, með stefnu sem birt var 26. janúar 2001.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 204.653 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af sömu fjárhæð frá 11. desember 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að verða sýknað af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá þeim degi er dómur gengur í málinu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Aðdragandi þessa máls er að vorið 1999 leitaði stefndi með bifreiðina AT-962, Volvo F 12, árg. 1987, til stefnanda, en stefnandi rekur bifreiða- og vélaverkstæði. Af hálfu stefnda var óskað eftir að stefnandi tæki að sér að laga leka undan svokölluðum heddum á vél bifreiðarinnar. Greinir aðila á um hvert varð framhald þessa.
Af hálfu stefnanda segir að við skoðun á bifreiðinni hafi komið í ljós að losa þurfti öll sex hedd vélarinnar þar sem pakkningar hafi verið mjög ljótar. Forsvarsmanni stefnda hafi verið bent á þetta, en hann tjáð forsvarsmanni stefnanda, að stefndi væri búinn að selja bifreiðina og ekki væri ætlun hans að leggja út í mikinn viðgerðarkostnað. Hafi hann óskað eftir að lágmarksviðgerð færi fram. Hafi verið farið að þessum fyrirmælum stefnda en forsvarsmanni stefnda jafnframt tjáð að ekki væri öruggt að þessi viðgerð yrði fullnægjandi.
Af hálfu stefnda segir hins vegar að fyrirhugað hefði verið að selja bifreiðina, en ekki hafi verið búið að ganga frá sölu á þeim tíma sem bifreiðin var færð til viðgerðar. Þegar á verkstæðið var komið hafi starfsmenn stefnanda skoðað vél bifreiðarinnar og tjáð stjórnarmanni stefnda, Sigurði Ó. Grétarssyni, að þeir vissu nákvæmlega hvað væri að. Hafi hann þá beðið þá að gera við bifreiðina enda hafi tilvonandi kaupandi samþykkt að stefnandi gerði við bifreiðina áður en hún yrði afhent honum.
Stefnandi gerði stefnda reikning þann 12. maí 1999 fyrir vinnu við viðgerð á bifreiðinni og efni og varahluti í því sambandi, samtals að fjárhæð 264.757 krónur, sem stefndi greiddi. Í framhaldi, segir af hálfu stefnda, var bifreiðinni ekið á fund kaupanda hennar en hann hafi ekki verið ánægður með viðgerðina. Við nánari könnun kvaðst stjórnarmaður stefnda hafa séð að viðgerðin var gölluð því að enn hafi lekið undan heddum vélarinnar. Hafi bifreiðinni er hér var komið sögu þó ekki verið ekið nema 239 km eftir viðgerðina. Hafi bifreiðinni við svo búið aftur verið ekið á verkstæðið til stefnanda og fyrirsvarsmönnum stefnanda tjáð að viðgerðin væri gölluð.
Af hálfu stefnanda segir að eftir viðgerðina, sem lokið var 12. maí 1999, hafi komið í ljós smáraki undan heddum. Hafi af hálfu stefnda verið talið að viðgerð stefnanda væri gölluð. Af hálfu stefnanda hafi vél bifreiðarinnar verið opnuð á ný og blokk þrýstiprófuð. Hafi þá komið í ljós leki upp með svokölluðum slífum, en slíkur leki verði er vélar ofhitna t.d. við að missa vatn af kælikerfi. Af hálfu stefnda hafi það ekki verið upplýst áður en viðgerð fór fram. Stjórnarmaður stefnda hafi verið boðaður á fund forsvarsmanna stefnanda og honum tjáð að stefndi þyrfti að kosta upp á endurnýjun vélarhluta og slípun á vélarsæti til að koma vélinni í lag. Viðgerðin hafi síðan farið fram með vitund og vilja stjórnarmanns stefnda og hafi stefndi greitt upp í viðgerðarkostnaðinn 225.826 krónur.
Af hálfu stefnda segir að stefnandi hafi ekki byrjað aftur á viðgerðum fyrr en tveimur mánuðum eftir að bifreiðin var aftur færð á verkstæðið. Þá hafi stjórnarmaður stefnda verið kallaður á fund hjá stefnanda og honum tjáð að búið væri að rífa vélina úr bifreiðinni og jafnframt hafi honum verið sagt að ef hann vildi að viðgerð yrði fram haldið þá yrði hann áður að greiða fyrir varahlutina. Kveðst stjórnarmaður stefnda hafa mótmælt því að greiða fyrir viðgerð sem væri, eins og hér stæði á, lagfæring á galla fyrri viðgerðar stefnanda á bifreiðinni. Hann hefði samt sem áður látið til leiðast 3. ágúst 1999 að greiða stefnanda fyrir varahluti 85.243 krónur gegn því að bifreiðin yrði afhent honum. Síðar í sama mánuði hafi stefnandi lokið viðgerðinni en neitað að afhenda stefnda bifreiðina nema gegn greiðslu á 430.479 krónum að frádregnum 85.243 krónum er áður voru greiddar. Stefndi hefði ekki getað orðið við þessari kröfu enda hafi stefnandi á þessum tíma ekki verið búinn að gefa út reikning fyrir fjárhæðinni. Stefnandi hefði gefið út reikning 11. nóvember 1999. Sama dag hefði stefnandi tekið 100.000 krónur upp í greiðslu gegnum Viðskiptanetið fyrir varahluti. Stefndi hafi því greitt vegna viðgerða stefnanda á bifreiðinni, fyrst 264.757 krónur og síðan 185.243 krónur, eða samtals 450.000 krónur.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að hann hafi gert stefnanda reikning vegna viðgerða á bifreið stefnda. Viðgerðin hafi farið fram að beiðni stefnda og stefndi greitt upp í viðgerðarkostnaðinn. Fyrri viðgerð stefnanda á bifreið stefnda hefði ekki reynst fullnægjandi vegna þess að stefndi hefði ekki upplýst að vélin hefði ofhitnað. Auk þess hefði stefndi farið fram á lágmarksviðgerð í fyrra skiptið enda þótt stefndi hefði verið varaður við að slík viðgerð gæti orðið ófullnægjandi.
Af hálfu stefnda er byggt á því að stefndi eigi ekki að bera kostnað af gallaðri viðgerð stefnanda á bifreið stefnda. Kröfu stefnanda vegna seinni viðgerðar hafi ávallt verið mótmælt. Greitt hafi verið fyrir varahluti enda hafi verið lofað að hálfu stefnanda að þá yrði bifreiðin afhent. Staðhæfing stefnanda um að stefndi hafi afhent skriflega verkbeiðni sé röng. Stefndi hafi komið með bifreiðina til stefnanda í fyrra skiptið sökum þess að vatn lak af vél bifreiðarinnar og stefnandi afhent stefnda bifreiðina eftir viðgerðin, að sögn í lagi. Stefnandi hafi gert fullnaðarreikning fyrir viðgerðinni sem stefndi hefði greitt. Þegar bifreiðin var aftur færð til stefnanda, hafi ekki falist í því beiðni um að kaupa viðgerðarþjónustu til viðbótar fyrri viðgerð, heldur hafi það verið gert á grundvelli ábyrgðar, sem stefnandi bar á árangri viðgerðar, er hann hafði áður framkvæmt sem verktaki fyrir stefnda. Þá hafi stefnandi heldur ekki gert grein fyrir efni og umfangi síðari viðgerðarinnar með greinargóðum hætti.
Þá er byggt á því að stefnandi reki bifreiða- og vélaverkstæði og gefi fyrirtækið sig út fyrir að bjóða sérfræðiþjónustu. Í samræmi við það hafi hvílt á starfsmönnum stefnanda ríkar upplýsingaskyldur gagnvart stefnda. Stjórnarmaður stefnda hafi lagt það í hendur starfsmanna stefnanda að meta hvað mundi nægja að gert væri fyrir vélina til að tilvonandi kaupandi bifreiðarinnar yrði ánægður. Stjórnarmaður stefnda hafi að fyrra bragði mátt ætla að viðgerðin yrði fullnægjandi, með öðrum orðum mátt treysta starfsmönnum stefnanda sem sérfræðingum á sínu sviði.
Þá er sýknukrafa stefnda byggð á því að stefnandi hafi ekki lagt fram tímaskýrslur eða önnur gögn sem hann reisi kröfur sínar á. Ógerningur sé því fyrir stefnanda að sjá hvort eða að hvaða leyti innifalin sé lagfæring á fyrri viðgerð sem reyndist gölluð af hálfu stefnanda. Einnig er á því byggt að reikningur stefnanda sé ósanngjarn og að stefndi eigi a.m.k. rétt á afslætti vegna þess að fyrri viðgerð mistókst, auk skaðabóta af þeim sökum.
Stefndi mótmælir að dráttarvextir verði reiknaðir frá 11. desember 1999 svo sem krafist er af hálfu stefnanda. Ómögulegt hafi verið fyrir forsvarsmenn stefnda að átta sig á því hverjar dómkröfur stefnanda voru nákvæmlega fyrr en með birtingu stefnu. Beri því að dæma dráttarvexti frá dómsuppsögudegi eða a.m.k. ekki fyrr en frá stefnubirtingu.
Framkvæmdastjóri stefnanda, Salómon Reynisson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að stefndi, Sandsalan ehf., hafi leitað til stefnanda um viðgerð á bifreið [AT-962], en stefnandi hafi oft áður gert við bifreiðar fyrir stefnda. Í þessu tilviki hafi staðið til að selja bifreiðina AB bílum. Beðið hafi verið um lámarksviðgerð en leki var undan „heddum". Byrjað hafi verið á taka af annað og þriðja „heddið". Þar hafi pakkningarnar verið mjög ljótar og ekki öruggt að það væri það eina sem væri að. Hafi hann haft samband við Sigurð Ólaf Grétarsson [framkvæmdastjóra stefnda] og hafi Sigurður samþykkt að öll sex „heddin" á vélinni yrðu tekin og skipt um heddpakkningar. Blokkin hafi verið frekar grafin og ljót, þegar búið var að rífa frá henni, en Sigurður hefði ákveðið að vélin skyldi sett aftur saman með nýrri heddpakkningu. Hafi það verið gert og bifreiðinni síðan skilað.
Salómon sagði að farið hefði verið með bifreiðina í „test", bæði hjá bílasölunni og hjá Brimborg, sem er umboðssali fyrir Volvo. Komið hafi verið með bifreiðina til baka. Fylgdi ófagur listi með aðfinnslum, sem vörðuðu þó ekki mótorinn að öðru leyti en því að það vætlaði aðeins undan blokkinni. Við athugun hefði komið í ljós að það kom vatn undan öðru „sílender". Hafi þar verið opnað aftur. Ekkert hafi verið að sjá nema að blokkin var grafin. Hafi þá verið settur loftþrýstingur inn á kerfið og í ljós hefði komið að smitaði upp með „slífum". Hafi þá aftur verið hringt í Sigurð og honum tjáð að engin mistök hefðu verið gerð af hálfu stefnanda þar eð stefndi hefði beðið um viðgerð eins og hún var framkvæmd. Það sem að væri lægi dýpra í vélinni en umbeðin viðgerð náði til. Þá hefði komið í ljós að margoft hefði soðið á bifreiðinni vegna vatnsleysis. Ákveðið hefði verið [í samráði við Sigurð] að rífa ofan af og skoða aðra strokka. Komið hefði í ljós að það lak með öðrum strokkum þegar loftþrýstingur var settur á kerfið. Strokkarnir hefðu verið teknir upp úr blokkinni og komið hefði í ljós að þeir hefðu hitnað mjög mikið. Þegar þetta var ljóst var frekari aðgerðum við bifreiðina hætt því að eigandi bifreiðarinnar varð að taka ákvörðun um framhaldið. Eitthvert þóf hefði síðan orðið í um það bil þrjár vikur og bifreiðin staðið inni á gólfi á verkstæðinu með sundurtekna vél. Þá hefði Sigurði verið tjáð að bifreiðin yrði dregin út nema hann gerði eitthvað í þessu. Þá hefði hann komið og sæst á að skipt yrði um slífur og stimpla sem fullnaðar viðgerð. Hefði honum verið tjáð að það yrði ekki gert nema fyrri reikningur yrði að minnsta kosti gerður upp. Hefði hann greitt reikninginn og auk þess greitt fyrir hluta af seinni viðgerðinni, enda hafi þurft að kaupa nokkurt magn af varahlutum fyrir hana.
Salómon sagði að að lokinni viðgerð hefði bifreiðin verið færð út. Staðið hefði á því að stefndi greiddi að fullu fyrir viðgerðina. Sigurður hefði neitað að greiða eftir að fullnaðarviðgerð hafði farið fram án þess að hafa sett út á viðgerðina sem gerð var [eftir að bifreiðin var aftur færð á verkstæðið].
Salómon sagði að stefnandi hefði oft áður komið nálægt viðgerðum á umræddri bifreið. Hann sagði að í þetta sinn hefði Sigurður beðið stefnanda að redda heddpakkningu en sex slíkar séu í vélinni. Hann hefði beðið munnlega um þetta og engar upplýsingar gefið starfsmönnum stefnanda um ástand vélarinnar að öðru leyti en að leki væri undan heddi og tjáð þeim að gera þyrfti við þetta fyrir sölu á bifreiðinni. Hefði hann sagt þeim að ekki ætti að leggja út í mikinn kostnað heldur framkvæma lágmarksviðgerð vegna sölu. Salómon sagði að heddin, sem tekin voru upp, hefðu verið send í þrýstiprófun. Þegar bifreiðin var aftur færð á verkstæðið eftir fyrri viðgerðina og kvartað hafði verið undan því að viðgerðin hefði ekki tekist, hefði komið í ljós að smáraki smitaðist með vél, seytlaði raki niður blokkina sem hvarf er bifreiðin var orðin heit. Sigurði hefði vissulega verið ljóst að fyrri viðgerðin kynni að verða ófullnægjandi þar sem hann hefði lagt fyrir stefnanda að gera sem allra minnst. Sigurður hafi ekki andmælt reikningi fyrir seinni viðgerðina en hann hefði viljað fá bifreiðina afhenta og greiða síðar. Salómon sagði að lokum að bifreiðin væri enn í vörslu stefnanda.
Framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Ólafur Grétarsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að stefnandi hefði frá því á árinu 1995, er stefndi eignaðist bifreið þá er hér um ræðir, séð um viðhald, viðgerðir og eftirlitsþjónustu á henni. Stefndi hefði verið skráður eigandi bifreiðarinnar, er stefnandi tók að sér umdeilda viðgerð á henni. En í janúar 1999 hafi verið gerður samningur við AB bíla um kaup á bifreiðinni. Bifreiðin hefði verið biluð, lekið vatni, og stefnandi tekið að sér að gera við hana.
Sigurður sagði að áður en stefnandi tók bifreiðina til viðgerðar hafi menn á vegum stefnanda skoðað bifreiðina og tjáð honum að það væri ekkert vandamál að gera við hana. Þeir hafi talið sig vita nákvæmlega hvað væri að. Þeir höfðu oft skoðað vélina. Bifreiðin hefði lent í tjóni tveimur árum áður og verið opnuð bæði að ofan og neðan. Þeir hefðu gjörþekkt vélina. Bifreiðinni hefði verið ekið um það bil 40.000 km frá því að viðgerðin fór fram 1997. Sigurður neitaði því að hann hefði sagt að ekki mætti leggja mikið í kostnað við viðgerðina og aftók með öllu að hafa beðið um lágmarksviðgerð vegna sölu. Hann hafi óskað eftir fullnaðarviðgerð enda búinn að selja bifreiðina fyrir 3.500.000 krónur. Fyrir hafi legið að bifreiðin lak vatni og gera hefði átti við það. Sigurður sagði að starfsmenn stefnanda hefðu ekkert tjáð sig um umfang viðgerðarinnar, er henni lauk í fyrra skiptið, svo sem að vélin hefði verið þrýstiprófuð og/eða annað. Þeir hefðu bara tjáð honum að bifreiðin væri í lagi.
Sigurður sagði að komið hefði í ljós eftir viðgerðina að bifreiðin lak enn vatni. Hann neitaði að hafa vitað áður að viðgerðin væri ekki fullnægjandi. Hann sagði að bifreiðin hefði milli viðgerða verið hjá Bjarna í AB bílum en starfsmenn stefnda hafi farið með bifreiðina aftur á verkstæðið til stefnanda. Sigurður sagði að honum hafi verið kunnugt um að vatn lak af bifreiðinni áður en hún var færð til viðgerðar í fyrra skiptið. Bifreiðin hafi ekki verið notuð síðustu mánuði fyrir viðgerðir eins og greina megi á ökurita en ekin rúma 200 km milli viðgerða.
Þegar komið hafi í ljós að bifreiðin lak enn vatni og nokkra mánuði tók að gera við hana, sagði Sigurður, að Bjarni Ingimarsson hjá AB bílum hefði hætt við að kaupa bifreiðina. Hann sagði að seinni viðgerðinni hefði ekki lokið fyrr en í ágúst 1999. Fyrir seinni viðgerðina hefði reikningur verið lagður fram 11. nóvember 1999. Forsvarsmenn stefnanda hefðu vitað að búið var að selja bifreiðina. Og er lokið var við að rífa bifreiðina í sundur á verkstæðinu hafi honum verið stillt upp við vegg og hafi hann orðið að leggja út fyrir varahlutum. Hann kvaðst hafa mótmælt reikningnum, þegar hann var lagður fyrir hann, og tjáð sig vera búinn að greiða fyrir viðgerðina. Hann kvaðst ekki hafa séð verkbeiðni [dskj. nr. 6] er liggur frammi í málinu, hún hafi ekki fylgt seinni reikningi stefnanda.
Bjarni Sigurður Ingimarsson kom fyrir réttinn sem vitni. Hann sagði m.a. að hann hefði keypt bifreiðina AT-962 af stefnda. Þegar kaupin fóru fram hafi bifreiðin verið til viðgerðar hjá stefnanda, Rás ehf., vegna vatnsleka. Eftir viðgerðina kvaðst hann hafa farið með bifreiðina til skoðunar hjá Volvo umboðinu. Hafi bifreiðin verið skoðuð þar og komið hafi í ljós m.a. að hún lak vatni á mótor. Sigurður Ólafur hafi þá tekið við bifreiðinni og farið með hana aftur til stefnanda.
Bjarni sagði að bifreiðin hefði aldrei verið skráð á hann [og/eða AB bíla]. Hann sagði að á milli viðgerða hefði bifreiðin verið hjá honum í nokkra daga. Farið hafi verið með bifreiðina til Volvo umboðsins til skoðunar. Að lokinni skoðun hefði hann talað við Sigurð Ólaf og tjáð honum að hann vildi hafa þetta í lagi og afhent honum skýrsluna frá Volvo.
Niðurstaða: Aðilar eru sammála um að vorið 1999 hafi stefnandi tekið að sér að laga leka undan heddum á bifreið stefnda, AT-962, Volvo F 12, árgerð 1987. Af gögnum málsins verður ekki ráðið með ótvíræðum hætti að framkvæmdastjóri stefnda hafi tjáð starfsmönnum stefnanda, að viðgerðin mætti ekki kosta mikið, eða með öðrum orðum beðið um lágmarksviðgerð á bifreiðinni, svo sem haldið er fram af hálfu stefnanda. En óumdeilt er að viðgerðin náði ekki að koma í veg fyrir lekann og að bifreiðin var aftur færð á verkstæði stefnanda til að bæta úr því.
Fyrir liggur í málinu verkbeiðni sem rituð er og samin af hálfu stefnanda. Verkbeiðni þessi, sem lögð hefur verið fram í málinu sem dskj. nr. 7, varðar viðgerðina á bifreiðinni áður en hún var aftur færð til stefnanda til frekari viðgerðar. Þar kemur fram verklýsing, efni og varahlutir o.fl. Ekki er þar skráð að stefndi hafi beðið um lágmarksviðgerð eða gefið önnur fyrirmæli í þá veru. Verður stefnandi að bera halla af því.
Ljóst þykir að nokkur viðgerð fór fram á bifreiðinni eftir að hún var aftur tekin inn á verkstæði stefnanda. Og aðilar eru sammála um að stefndi greiddi stefnanda 185.243 krónur auk þess að stefndi greiddi stefnanda 264.757 krónur fyrir vinnu og varahluti er stefnandi hafði lagt í viðgerðina í fyrra skiptið. Af hálfu stefnanda er litið svo á að stefndi hafi með þessum hætti viðurkennt skyldu sína til að greiða stefnanda að fullu fyrir frekari viðgerð á bifreiðinni auk varahluta. Af hálfu stefnda er hins vegar haldið fram að stefndi hafi ekki með þessari viðbótargreiðslu viðurkennt frekari greiðsluskyldu. Brýnt hefði verið að viðgerð yrði lokið, m.a. sökum þess að stefndi var búinn að selja bifreiðina. Því hefði af hálfu stefnda verið fallist á að greiða aukalega 85.243 krónur fyrir varahluti gegn því að bifreiðin yrði látin af hendi til stefnda en 100.000 krónur hefði stefnandi tekið upp í greiðslu gegnum Viðskiptanetið.
Reikningur sá er stefnandi, sem rekur bifreiða- og vélaverkstæði, krefur stefnda til að greiða að fullu, er dagsettur 11. nóvember 1999. Þar segir að stefndi sé krafinn um greiðslu fyrir vinnu „v/volvo. Samkvæmt verkbeiðni sem búið er að afhenda." Af hálfu stefnda er því hafnað að verkbeiðni hafi fylgt þessum reikningi. Þá er af hálfu stefnda staðhæft að framkvæmdastjóri stefnda hafi raunar ekki farið fram á annað og meira við stefnanda eftir viðgerð þá, sem greidd var samkvæmt reikningi stefnanda, dags. 12. maí 1999, en að bætt yrði úr mistökum, sem starfsmönnum stefnanda hefði orðið á við þessa tilraun til að gera við bifreiðina. Þessu hefur stefnandi ekki hnekkt með viðhlítandi hætti. Verður því fallist á með stefnda að stefnandi hafi ekki sýnt eða sannað að stefnda beri að greiða stefnanda svo sem stefnandi krefst.
Rétt er að stefnandi greiði stefnda 90.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sandsalan ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Rásar ehf.
Stefnandi greiði stefnda 90.000 krónur í málskostnað.