Hæstiréttur íslands

Mál nr. 571/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð


Fimmtudaginn 19. september 2013.

Nr. 571/2013.

M

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

K

(Eva B. Helgadóttir hrl.)

Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um opinber skipti til fjárslita milli hans og K. Í kröfu M um opinber skipti kom fram að ágreiningur hans og K lyti eingöngu að tiltekinni fasteign K, enda ættu aðilar ekki aðrar eignir saman. Í Hæstarétti var fallist á með héraðsdómi að skilyrði 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., um að opinber skipti færu ekki fram til fjárslita nema minnst annar aðilanna ætti eignir umfram skuldir, væri ekki uppfyllt eins og ákvæðið hafi verið skýrt með dómi réttarins í máli nr. 261/2005. Mat löggilts fasteignasala á söluverði fasteignarinnar sem M aflaði einhliða yrði ekki, gegn andmælum K, lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. ágúst 2013 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á kröfu hans um að fram fari opinber skipti vegna fjárslita milli aðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var tekið fram í kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðila að ágreiningur þeirra lyti eingöngu að fasteigninni að [...] 14, [...], enda ættu aðilar ekki aðrar eignir saman. Í kröfunni var þess getið að aðrar helstu eignir sóknaraðila væru hlutafé í tveimur tilgreindum félögum og tvær fasteignir. Um verðmæti hlutabréfanna nýtur engra gagna við í málinu og þá hafa heldur engin gögn verið lögð fram af hálfu sóknaraðila um hvort áhvílandi skuldir á fasteignunum séu lægri en söluverðmæti þeirra. Einnig liggur fyrir í málinu að 4. febrúar 2013 var gert árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila. Samkvæmt þessu og eins og málatilbúnaði sóknaraðila er háttað verður ekki við annað miðað en að skuldir hans séu umfram eignir.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt mat löggilts fasteignasala 13. ágúst 2013 á söluverði áðurnefndrar fasteignar að [...] 14, þinglýstrar eignar varnaraðila, og er það áætlað 75.000.000 krónur. Þá hefur sóknaraðili lagt fyrir réttinn yfirlit um stöðu sex tryggingarbréfa, sem hann hefur gefið út til tryggingar skuldum sínum, en fimm þeirra hvíla á fyrrgreindri fasteign. Kemur þar fram að 12. ágúst 2013 hafi eftirstöðvar skulda samkvæmt þremur bréfanna, sem hvíla bæði á [...] 14 og [...] 15, [...], þinglýstri eign sóknaraðila, numið samtals 57.574.556 krónum. Einnig er tilgreint á yfirlitinu að eftirstöðvar skulda samkvæmt tveimur tryggingarbréfanna, er hvíla eingöngu á [...] 14, hafi þá samtals verið 17.055.445 krónur. Þá hafi eftirstöðvar skuldar samkvæmt tryggingarbréfi, er hvíli eingöngu á [...] 15, numið 27.486.498 krónum. Í yfirlitinu er ekki getið skuldar sóknaraðila samkvæmt tryggingarbréfi 10. febrúar 2005, upphaflega að fjárhæð 3.500.000 krónur, sem mun hvíla á [...] 14. Engin gögn liggja fyrir í málinu um stöðu annarra áhvílandi veðskulda á [...] 15 en samkvæmt fyrrgreindum fjórum tryggingarbréfum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið nema eftirstöðvar áhvílandi tryggingarbréfaskulda sóknaraðila, sem áður eru taldar og hvíla á fasteigninni að [...] 14, samtals 74.630.001 krónu. Aðrar áhvílandi veðskuldir á eigninni voru samkvæmt söluyfirliti 22. janúar 2013 að eftirstöðvum 22.262.681 króna að meðtalinni skuld samkvæmt áðurnefndu tryggingarbréfi frá 10. febrúar 2005.

Fasteignamatsverð [...] 14 er 43.600.000 krónur. Þar sem sóknaraðili aflaði einhliða fyrrgreinds mats á söluverði eignarinnar verður það, gegn andmælum varnaraðila, ekki lagt grundvallar við úrlausn málsins.

Að framangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2013.

                Mál þetta, sem barst dóminum 17. janúar 2013 með bréfi sóknaraðila, var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. júní sl.

                Sóknaraðili er M, [...] 14, [...].

                Varnaraðili er K, [...] 14, [...].           

                Sóknaraðili krefst opinberra skipta vegna slita á sambúð aðila og máls­kostn­aðar að mati dómsins.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað.

                Til vara er þess krafist að dómurinn staðfesti að allar eignir sóknaraðila teljist skipta­andlag, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991, og að sóknaraðila verði gert að leggja fram skiptatryggingu að mati dómsins.

                Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila að mati dómsins auk virðis­aukaskatts.

                Málsatvik

                Sambúð aðila hófst árið 1996 og lauk á árinu 2012. Við sambúðarslit bjuggu aðilar að [...] 14, [...]. Málsaðilar eiga saman eitt barn, drenginn A sem fæddur er  [...].

                Aðilar voru ekki með sameiginlegan fjárhag og töldu ekki fram sameiginlega til skatts. Sóknaraðili stóð í atvinnurekstri og keypti fasteignir meðal annars á [...] og [...], [...] 15 og stóð einn að þeim kaupum. Varnaraðili keypti fast­eignina að [...] 14, [...] árið 2000 og lagði sóknaraðili fram um þrjár millj­ónir til útborgunar í fasteigninni. Kveðst varnaraðili hins vegar hafa tekið öll lánin til kaupana og greitt af þeim sem og öll gjöld sem eigninni fylgdu.

                Sóknaraðili hefur krafist opinberra skipta vegna sambúðarslita aðila og byggir þá kröfu á eignarhlutdeild í fasteigninni að [...] 14, [...]. Við þing­fest­ingu málsins 8. febrúar sl. mótmælti varnaraðili kröfu sóknaraðila og var þá þegar þing­fest ágreiningsmál þetta.

                Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að þar sem sambúð aðila hafi staðið frá árinu 1996 til 2012 og þau hafi eignast saman barn í sambúðinni séu uppfyllt skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. vegna kröfu hans um opbinber skipti.

                Sóknaraðili tekur fram að ágreiningur aðila um eignaskipti ætti eingöngu að lúta að fasteigninni að [...] 14, [...], sem þau hafi eignast á sambúðar­tíma, í apríl 2000. Þrátt fyrir að eignin sé þinglýst á nafn varnaraðila hafi kaupin á henni, viðhald, endurbætur og greiðslur af afborgunum lána nánast að öllu leyti verið greidd af sóknaraðila. Ætti eignarhlutdeild hans í fasteigninni að nema a.m.k. 75%.

                Við umsókn um íbúðarlán hafi legið fyrir yfirlýsing frá sóknaraðila um að hann ætlaði að styrkja varnaraðila um 1.260.000 kr. en á endanum hafi sóknaraðili greitt alla þá fjárhæð sem átti að koma sem eigið fé til að unnt væri að fá lána­fyrir­greiðslu.

                Sóknaraðili tekur fram að á þeim tíma sem eignin var keypt hafi varnaraðili hvorki haft tekjur né átt eignir. Auk þessa hafi hún verið tekjulaus árin 2007-2012 og hafi til að mynda krafist niðurfellingar á afborgun hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna tekjuleysis. Sóknaraðili hafi alfarið greitt útborgun kaupverðs fasteignarinnar, auk þess sem hann hafi að hluta séð um afborgun lána og greiðslu opinberra gjalda, en að nær öllu leyti greiðslu vegna viðbyggingar og endurbóta fasteignarinnar. Fyrsta útborgun vegna kaupanna hafi numið rúmlega þremur milljónum króna sem sóknar­aðili hafi greitt í tveimur greiðslum með tékkum að fjárhæð 2.900.000 kr. og 158.880 kr., en áætlaður kostnaður vegna endurbóta og viðbyggingar hafi verið um 18.000.000 krónur. Á móti hafi varnaraðili tekið svokölluð endurbótalán að fjárhæð rúmlega þrjár millj­ónir króna og hafi sóknaraðili fengið um helming þeirra í sinn hlut. Eftir að varn­ar­aðili flutti úr húsinu hafi sóknaraðili sett enn frekara fjármagn til endurbóta og við­halds þess. Sóknaraðili kveðst hafa búið áfram að [...] 14, ásamt syni máls­aðila, til 29. október sl. Hann kvaðst ekki hafa beðið um opinber skipti fyrr en útséð var um sættir með aðilum.

                Sóknaraðili tekur fram að aðrar helstu eignir hans, auk innbús að [...] 14, séu hlutafé í B ehf, C ehf, og fasteignirnar [...] og [...] 15, [...].  Fasteignirnar hafi hann keypt, þá fyrri á árunum 1986-1987 og hina síðari 2005. Þá sé staða beggja þessara einkahlutafélaga þannig að ekkert sé þar til skiptanna.

                Sóknaraðili veit ekki um neinar sérstakar sameiginlegar skuldir aðila.

                Hin umrædda eign að [...] 14, [...], sé nægileg trygging fyrir skipta­kostnaði, en sóknaraðili ábyrgist greiðslu hans í samræmi við ákvæði 3. mgr. 101. laga nr. 20/1991 og muni leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði verði þess krafist.

                Krafan byggi á ákvæðum 100.-101. gr. laga  nr. 20/1991.

                Málsástæður varnaraðila og lagarök

                Varnaraðili tekur m.a. fram um málsatvik að hún hafi tekið lán hjá Íbúða­lána­sjóði til endurbóta á fasteigninni að [...] 14, [...] og hafi millifært lánið að miklu leyti til sóknaraðila þar sem hann ætlaði að semja við og gera upp við verktaka. Það hafi hins vegar gengið á ýmsu og virtist sem ætíð kastaðist í kekki milli hans og flestra verktaka sem komu að endurbótum á húsinu. Á sama tíma hafi sóknar­aðili staðið í endurbótum á fasteignum sínum að [...] og [...]. Hafi ein­hver viðskiptanna endað fyrir dómi. Þá hafi ættingjar varnaraðila tekið virkan þátt í endur­bótum á eigninni, með vinnuframlagi, láni á verkfærum o.fl.

                Árið 2005 hafi [...]arfur varnaraðila að fjárhæð um þrjár milljónir runnið inn í heimilishaldið á [...] 14. Árin 2005 og 2006 hafi varnaraðili samþykkt að sókn­ar­aðili fengi að þinglýsa tryggingabréfi á [...] 14 til tryggingar á skuldum hans við Glitni og Landsbanka, samtals að höfuðstól 50,5 milljónir króna vegna hans eigin fjárfestinga. Ljóst sé að tryggingabréf sóknaraðila tæmi allt eigið fé í fast­eign­inni og skuldi sóknaraðili því varnaraðila sem því nemi, verði gengið að eigninni. Á það hafi ekki reynt hvort sóknaraðili reynist nokkurn tíma borgunarmaður fyrir þeirri skuld, a.m.k. bendi ekkert til þess að hann sé það nú. Ljóst sé af þessu hins vegar að hvorugur aðila eigi eignir umfram skuldir. 

                Þegar upp úr sambandi aðila slitnaði hafi varnaraðili gert ráð fyrir að hvor aðila héldi sína leið og hún gæti búið áfram í fasteign sinni að [...] 14, allt þar til skuldheimtumenn sóknaraðila gengju mögulega að eigninni. Telur varnaraðili frá­leitt að hún skuldi sóknaraðila vegna [...], sérstaklega í ljósi áhvílandi trygg­ing­ar­bréfa vegna skulda sóknaraðila sem séu varnaraðila algjörlega óviðkomandi og þess að sóknaraðili hafi búið endurgjaldslaust í fasteigninni öll árin sem hann bjó þar og hafi nánast ekkert lagt til rekstrarins á fasteigninni eða heimilisins eftir að kaupin voru frágengin.

                Varnaraðili byggir aðalkröfu sína, að hafna beri kröfu sóknaraðila um opinber skipti, á þeim grunni að skuldir málsaðila séu mun hærri en eignir þeirra. Þannig sé skilyrði laga nr. 20/1991 ekki uppfyllt til þess að verða við kröfu sóknaraðila. Vísað er sérstaklega til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 476/2011, þar sem skýrt komi fram að opinber skipti til fjárslita fari ekki fram nema minnst annar aðilanna eigi eignir umfram skuldir, enda fjalli lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., um búskipti aðila þegar skuldir séu umfram eignir. Fyrir liggi veðbókarvottorð yfir fasteign varnaraðila að [...] 14. Samkvæmt því nemi áhvílandi skuldir að höfuðstól um 61 milljón krónur. Miðað við upplýsingar sem varnaraðili fékk um stöðu áhvílandi skulda í lok janúar 2013 var staða þeirra tæpar 95 milljónir króna. Fasteignamat eignarinnar er 43,6 milljónir króna og markaðsverð aldrei meira en nokkrum milljónum hærra. Eignin sé því verulega yfirveðsett. Þótt engin gögn hafi verið lögð fram um eignir sókn­ar­aðila, aðallega vegna þess að hann telji beiðni sína einungis geta lotið að eign varn­ar­aðila en ekki hans eigin, þá sýni vanskilaskrá Lánstrausts að aðfarargerð sýslu­manns­ins í Reykjavík á hendur honum lauk 12. apríl 2011 án árangurs. Jafnvel þótt skuld­heimtumenn sóknaraðila hafi af einhverjum ástæðum ekki óskað eftir gjald­þrota­skiptum á búi sóknaraðila í kjölfarið sé fjárnámsgerðin opinbert gagn sem staðfesti eignaleysi sóknaraðila. Skuldir beggja aðila séu því langt umfram eignir, sé lagt til grund­vallar að sóknaraðili sé ekki borgunarmaður vegna tryggingarbréfanna, sem hvíla á [...]. Því beri að hafna kröfu sóknaraðila um opinber skipti. Eina for­sendan fyrir því að dómnum bæri að fallast á kröfu sóknaraðila væri að hann gæti sýnt fram á verulegar eignir, skráðar á hann sem skuli teljast skiptaandlag. Kröfugerð sókn­ar­aðila byggi hins vegar á því að einungis ein eign skuli vera skiptaandlag, þ.e. eign varn­ar­aðila. Það fái hins vegar ekki staðist.

                Þá byggir varnaraðili einnig á því að fjárhagur aðila hafi aldrei verið sam­eigin­legur í neinum skilningi. Fjárhagur sóknaraðila hafi til að mynda aldrei verið ræddur, né hafi hann veitt varnaraðila nokkrum tíma upplýsingar um sitt fjármálavafstur. Sókn­ar­aðili virtist sífellt vera á flótta undan skuldheimtumönnum og hafi iðulega átt í deilum við aðila vegna skulda. Til að mynda skipti hann mjög ört um lögheimili, eins og staðfesting Þjóðskrár Íslands á íbúðaskráningu að [...] 14 sýni. Þá sé einnig óljóst hvort og þá hvaðan sóknaraðili hafði tekjur, sem skýri væntanlega af hverju sókn­ar­aðili hafi örsjaldan ef nokkuð lagt til heimilisins, umfram það sem hafi verið vegna hans eigin sérþarfa. Þrátt fyrir þessa tilhögun hafi varnaraðili aldrei farið fram á það við sóknaraðila að hann greiddi meðlag með syni þeirra eða leigu, þrátt fyrir að slíkar kröfur hefðu fyllilega átt rétt á sér. Í það minnsta sé fráleitt að sóknaraðili eigi kröfu af einhverju tagi á hendur varnaraðila jafnvel þótt hann hafi lagt fram þrjár millj­ónir við upphafleg kaup fasteignarinnar, sem hann hafi búið í endurgjaldslaust og á framfæri varnaraðila allt fram til loka síðasta árs. Síður en svo hafi hallað á sóknar­aðila fjárhagslega vegna fasteignarinnar eða búsetu hans þar. Þvert á móti. Þegar litið sé til áhvílandi tryggingabréfa vegna skulda sóknaraðila sé krafa sóknaraðila í raun frá­leit. Komi til þess að skuldheimtumenn sóknaraðila gangi að fasteign varnaraðila eigi varnaraðili endurkröfu á hendur sóknaraðila vegna þess tjóns, sem það muni valda henni. Varnaraðili hafi lagt allar sínar tekjur og[...]arf í rekstur fasteignarinnar og heim­il­is­ins og geti staðfest það með yfirlitum yfir bankareikning sinn. Sóknaraðili hafi lagt fram yfirlit yfir einn bankareikning sinn, sem sýni ótilgreindar millifærslur og eigi að sýna fram á greiðslur reikninga J ehf. Þessum gögnum sé hins vegar mót­mælt sem sönnun um slíkt. Í fyrsta lagi stemmi greiðslurnar ekki á við reikningana og hvergi komi fram nein tilgreining á því hvert greiðslan renni. Þá hafi varnaraðili marg­oft millifært af sínum reikningum yfir á reikninga sóknaraðila eða félaga hans, sem sýni að þau lán sem varnaraðili tók vegna fasteignarinnar, hafi farið inn á reikninga sókn­ar­aðila m.a. til uppgjörs við verktaka.

                Varakrafa varnaraðila um að staðfest verði með úrskurði dómsins að allar eignir aðila teljist andlag skipta og að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði, byggist á því að úrskurður um opinber skipti á sameiginlegu búi aðila geti aldrei grundvallast á því að einungis eigi að skipta einni eign og sérstaklega ein­ungis eign annars aðila. Verði fallist á að skilyrði laga nr. 20/1991 um opinber skipti á búi aðila séu uppfyllt, telji varnaraðili að allar eignir sóknaraðila, sem voru til staðar þegar sambandi þeirra var slitið skuli teljast skiptaandlag, sbr. 104. gr. laga nr. 20/1991, enda hafi sóknaraðili keypt fasteignir og stundað atvinnurekstur í skjóli þess að hann hafi sáralítið þurft að leggja til vegna búsetu sinnar hjá varnaraðila. Þá hafi samþykki varnaraðila á veðsetningu tryggingabréfa á fasteign sinni að [...]14, verið forsenda þess að sóknaraðili gæti fest kaup á fasteignum að [...] og [...]. Þá hafi sóknaraðili stofnað og eigi ótal hlutafélög, s.s. D ehf., E ehf., F ehf., G ehf., H ehf., I ehf., sem og hlut í erlendu félagi sem framleiðir [...] á [...] og sé þetta ekki tæmandi talning. Skorað sé á sóknaraðila að upplýsa um alla hluta­bréfa­eignir sínar og stöðu á þeim félögum. Hafi sóknaraðili fengið greiddar tekjur af fast­eignum sínum og hlutafélögum hafi þær ekki runnið inn í rekstur fasteignar varn­ar­aðila eða heimilishald. Komi til opinberra skipta á búi aðila skuli það lögum sam­kvæmt reiknast inn í uppgjör aðila og muni þá síst halla á varnaraðila, sbr. ofan­greint ákvæði 104. gr. laga nr. 20/1991. Ekki síst í ljósi þess að það séu skuldir sókn­ar­aðila sjálfs sem geri það að verkum að eign varnaraðila sé yfirveðsett. Krafa sóknaraðila sé óskilj­anleg þegar litið sé til alls þessa. Þá vísar varnaraðili jafnframt til 2. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 og gerir þá kröfu að eign hennar að [...] 14 teljist til séreignar hennar á grundvelli þess að hún fari með forsjá sameiginlegs ófjár­ráða barns þeirra.

                Þá sé einnig talið að bifreið í eigu varnaraðila, með fastanúmerið [...], skuli teljast til skiptaandlags. Bifreiðin hafi verið í eigu varnaraðila, en henni hafi orðið það nýlega ljóst að eigendaskipti voru send Umferðarstofu 15. maí 2010, þar sem bifreiðin sé færð yfir á félag í eigu sóknaraðila, H ehf., án þess að nokkur greiðsla hefði komið fyrir bifreiðina. Varnaraðili kannist ekki við að hafa ritað undir skjöl vegna yfirfærslunnar. Vísað sé til upprunalegrar tilkynningar um eig­enda­skipti, en af henni sjáist greinilega að undirskrift varnaraðila sé ekki á síðari til­kynn­ing­unni.

                Niðurstaða

                Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort lagaskilyrði séu til þess að fram fari opin­ber skipti til fjárslita milli aðila. Samkvæmt 100. gr. laga nr. 20/1991, sbr. lög nr. 65/2010, getur annar sambúðarmaka eða báðir, við slit á óvígðri sambúð, krafist opin­berra skipta til fjárslita milli þeirra. Það er skilyrði samkvæmt ákvæðinu að sam­búð­ar­fólk eigi barn saman eða hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár. Sam­búð aðila stóð samfleytt frá árinu 1996 til 2012 og aðilar eiga barn saman. Skil­yrði lagaákvæðisins til þess að opinber skipti milli aðila geti farið fram eru því upp­fyllt.

                Í 109. gr. laga nr. 20/1991 segir um það hvernig fara skuli með eignir og skuldir aðila við skiptin. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 2. september 2011 í máli nr. 476/2011 verður af þeirri lagagrein ráðið að opinber skipti til fjárslita fara ekki fram nema minnst annar aðilanna eigi eignir umfram skuldir, sbr. dóm Hæsta­réttar 29. ágúst 2005 í máli nr. 261/2005.

                Í kröfu sóknaraðila er tekið fram að ágreiningur aðila um eignaskipti lúti ein­göngu að fasteigninni [...] 14, [...], enda eigi málsaðilar ekki aðrar eignir.

                Samkvæmt fyrirliggjandi þinglýsingarvottorði um eignina [...] 14, [...], hvíla á henni veðbönd að höfuðstól um 61 milljón króna. Þar af eru trygg­ing­arbréf að fjárhæð um 50 milljónir króna vegna persónulegra skulda sóknaraðila við Lands­bank­ann og Glitni. Samkvæmt fyrirliggjandi söluyfirliti um sömu eign, dags. 22. janúar 2013, eru eftirstöðvar áhvílandi veðskulda tæpar 95 millj­ónir króna. Fasteigna­mat eignarinnar er 43,6 milljónir króna. Eignin er því veru­lega yfir­veðsett vegna skulda sóknaraðila. Liggur því ekki fyrir, að svo komnu, að í búi aðila séu eignir umfram skuldir. Eru því ekki skilyrði til þess, samkvæmt fram­an­sögðu, að fallast á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðila og er þeirri kröfu hafnað.

                Verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 350.000 krónur.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfu sóknaraðila, M, um opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, K, er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.