Hæstiréttur íslands
Mál nr. 464/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 464/2003. |
Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
X var sakfelldur fyrir brot á 202. gr. almennra hegningarlaga gagnvart þremur stúlkum og dæmdur í tveggja ára fangelsi og til að greiða stúlkunum miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu hans. Þá er þess krafist, að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta, eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður, en ella verði refsing milduð og skilorðsbundin. Þá er þess krafist, að miskabótakröfum verði vísað frá dómi eða þær lækkaðar.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar skýrslur sálfræðings um greiningu og meðferð þeirra þriggja stúlkna, sem ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. október 2003.
Mál þetta var þingfest 23. maí sl., og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 9. október sl. Dómsformaður tók við máli þessu 2. september sl. Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dags. 2. maí sl., á hendur X, [kennitala og heimilisfang], „fyrir kynferðisbrot sem hér segir:
I.
Gegn Y, fæddri [...] 1989, með því að hafa, á fyrri hluta árs 2002:
1. Á þáverandi heimili ákærða, [...], strokið Y um axlir og maga og reynt að strjúka brjóst hennar innan klæða.
2. Að [...], strokið líkama stúlkunnar innan klæða og snert brjóst hennar.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992 og lög nr. 40, 2003, áður 2. málslið 1. mgr. sömu lagagreinar.
II.
Gegn Z, fæddri [...] 1995, fimmtudagskvöldið 5. desember 2002, að [...], með því að hafa káfað á líkama stúlkunnar, nuddað kynfæri hennar innan klæða og kysst hana á munninn.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Gegn dótturdóttur ákærða, Þ, fæddri [...] 1989, með því að hafa frá árinu 1997 eða þar um bil til desember 2002:
1. Á heimili ákærða, í bifreið sem hann hafði lagt á afviknum stöðum á [...] og á heimili stúlkunnar að [...] og í [...], margoft káfað á líkama hennar, brjóstum og kynfærum, innan og utan klæða, tekið í hönd hennar og látið hana snerta kynfæri sín.
2. Á heimili ákærða, nokkrum sinnum sett fingur í kynfæri stúlkunnar.
Telst liður 1. varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en liður 2. við 1. mgr. sömu lagagreinar.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A og B, f.h. Y, er krafist miskabóta að fjárhæð 700.000 krónur auk kostnaðar við að halda bótakröfu fram og dráttarvaxta frá 1. júní 2002 til greiðsludags.
Af hálfu C, f.h. Z, er krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur auk kostnaðar við að halda bótakröfu fram og dráttarvaxta frá 5. desember 2002 til greiðsludags.
Af hálfu D, f.h. Þ, er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur auk kostnaðar við að halda bótakröfu fram og dráttarvaxta frá 28. janúar 2003 til greiðsludags.”
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af báðum töluliðum fyrsta kafla ákæru og öðrum kafla ákæru. Þá hafnar hann framkomnum bótakröfum Y og Z. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði dæmdur í vægustu refsingu sem lög leyfa vegna þeirrar háttsemi sem honum er gefin að sök í þriðja kafla ákæru og að bótakrafa verði lækkuð.
Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.
Ákæruatriðin verða nú rakin í sömu röð og í ákæru.
I. kafli ákæru
1. töluliður
Foreldrar brotaþolans, Y, tilkynntu barnaverndarnefnd [...] sumarið 2002 að X, ákærði í máli þessu, hefði haft í frammi kynferðislegt athæfi gagnvart dóttur þeirra. Hefði ákærði tekið utan um stúlkuna, þuklað á henni og sagt við hana mjög ósæmilegar setningar. Með bréfi, dags. 12. desember 2002, vísaði barnaverndarnefndin málinu til lögreglu.
Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. desember 2002. Ákærði viðurkenndi að hafa staðið fyrir aftan Y á heimili sínu og nuddað axlir, arma og síður hennar. Kvaðst hann hafa verið að nudda í hana hita þar sem kalt hefði verið í herberginu. Ákærði kvað Y hafa verið í þykkri peysu í umrætt sinn. Ákærði neitaði því alfarið að hafa þuklað á brjóstum hennar og að hafa með háttsemi sinni beitt hana kynferðisofbeldi. Framburður ákærða var á sömu lund þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu 17. febrúar 2002. Hann neitaði að hafa farið með hendur sínar inn á nakið hold stúlkunnar, en sagðist þó hafa farið undir blússuna með hendurnar þegar hann strauk báðar síður hennar.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök og sagði að hvorki hefði verið um ræða kynferðislegt athæfi af hans hálfu né káf á brjóstum. Nánar aðspurður um þennan þátt ákærunnar við aðalmeðferð málsins sagði ákærði lýsingu í ákæruskjali vera rétta að öðru leyti en því að hann hefði ekki reynt að strjúka brjóst stúlkunnar. Hann kvaðst hafa staðið fyrir aftan stúlkuna, sem hefði setið við tölvu, og eingöngu hafa nuddað axlir hennar, niður hendurnar og nuddað síður hennar upp og niður, en ekkert kynferðislegt hefði verið um að ræða af hans hálfu. Þá kvaðst hann ekki hafa farið inn fyrir föt stúlkunnar. Ákærða minnti að stúlkan hefði verið í blússu en sagði að hún hefði örugglega verið í fötum undir blússunni. Hann kvaðst aldrei hafa farið undir brjóst hennar og líklega ekki upp undir brjóstin, því svo framarlega hefði hann ekki farið. Aðspurður hver tilgangur með þessu hefði verið kvað ákærði þetta hafa verið hugsunar- og dómgreindarleysi af sinni hálfu, en tók fram að hann nuddaði oft fólk að gamni sínu. Fram kom hjá ákærða að stúlkan hefði ekki beðið hann um að strjúka sig. Vitnið kannaðist við þann framburð sinn hjá lögreglu, að hann hefði verið að strjúka í stúlkuna hita þar sem frekar kalt hefði verið í húsinu. Aðspurður sagði ákærði að stúlkan hefði engin viðbrögð sýnt.
Vitnið, Y, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 30. desember 2002. Hún greindi frá því að ef vinkona hennar og dótturdóttir ákærða, Þ, vissi að hún væri að gefa skýrslu í málinu myndi Þ ekki vilja vera áfram vinkona hennar. Ástæðuna kvað vitnið vera þá að Þ vildi ekki að afi sinn, ákærði í máli þessu, færi í fangelsi. Vitnið greindi frá því að Þ hefði farið í fýlu eftir að móðir vitnisins, A, ræddi við móður Þ um fyrrgreint atvik. Síðan greindi vitnið frá tveimur aðskildum atvikum í samskiptum sínum við ákærða. Í fyrra skiptið heima hjá ákærða, en síðara skiptið heima hjá Þ vinkonu hennar.
Fram kom hjá vitninu að hún og Þ hefðu verið á heimili ákærða í fyrra skiptið þar sem Þ hefði ekki komist inn heima hjá sér. Vitnið kvaðst hafa setið við tölvu ákærða, en Þ hefði farið fram að smyrja brauð eða kex og kvaðst vitnið hafa verið ein í fimm til tíu mínútur í herberginu. Ákærði hefði þá staðið fyrir aftan sig og spurt hvort hann mætti nudda hana og kvaðst hún hafa sagt já. Hann hefði fyrst nuddað á henni axlirnar og svo reynt að fara inn á brjóst hennar. Honum hefði ekki tekist það og aðspurð hvernig hún hefði vitað að hann hafi ætlað að fara inn á hana sagði vitnið orðrétt. „Af því að hann var kominn hingað”, og þá setti vitnið hægri hönd að maga rétt fyrir neðan brjóst. Vitnið kvaðst halda að ákærði hefði hætt þegar hann hefði heyrt Þ koma. Aðspurð hvort ákærði hefði verið með hendurnar fyrir innan eða utan fötin þegar hann var með þær á maga hennar, sagði vitnið að ákærði hefði verið með þær fyrir innan fötin. Vitnið kvað sér hafa liðið illa og þær Þ hefðu farið þegar amma Þ kom heim úr vinnunni.
Vitnið Þ, dótturdóttir ákærða, gaf skýrslu í Barnahúsi 28. janúar 2003. Í máli hennar kom fram að hún hefði séð ákærða strjúka Y og kvað vitnið sér hafa fundist það svolítið óþægilegt, en aldrei þorað að segja neitt.
Vitnið A, móðir Y, kvaðst í fyrra vor hafa fengið tilkynningu frá skólahjúkrunarfræðingi eftir að dóttir hennar hafði rætt við hana. Í framhaldi af því kvaðst vitnið hafa rætt við dóttur sína sem hefði skýrt henni frá því að ákærði hefði þuklað á sér og strokið sér og sagt henni að hann réði ekki við sig í návist hennar. Þetta hefði átt sér stað heima hjá ákærða og heima hjá Þ vinkonu hennar og ákærði hefði þá strokið Y um maga og brjóst. Vitnið kvaðst hafa rætt við D, móður Þ, um þetta og hefði D ekki komið þetta á óvart. Vitnið kvaðst muna að hún hefði sagt orðrétt „þetta var líka vandamál með mínar vinkonur”. Vitnið kvað Y hafa átt erfitt með að segja sér frá þessu og hún eigi enn erfitt með að ræða um atburðinn. Hún hafi lokað á hann, en hann sitji í henni. Vitnið kvað Y hafa verið í viðtölum hjá sálfræðingi í Barnahúsi fram á vor. Fram kom hjá vitninu að engin samskipti séu nú milli dóttur hennar og Þ.
Vitnið D, móðir Þ og dóttir ákærða, kom fyrir dóm, en óskaði eftir að skorast undan að bera vitni. Hún staðfesti undirskrift sína undir skýrslu sem lögregla tók af henni 30. janúar 2003. Haft er eftir henni hjá lögreglu að móðir Y hefði hringt í hana sumarið 2002 og greint henni frá því að ákærði hefði verið að fitla við Y. D kvað sér hafa brugðið, en jafnvel átt von á þessu. Haft er eftir D í lögregluskýrslu að vinkonur hennar hefðu hér á árum áður kvartað undan því að ákærði væri að þreifa á þeim og káfa.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann viðurkenndi fyrir dómi að hafa staðið fyrir aftan Y og nuddað axlir hennar, síður og hendur, en tók fram að ekkert kynferðislegt hefði verið um að ræða af hans hálfu. Þá hefur ákærði alfarið neitað að hafa farið inn fyrir föt stúlkunnar eða undir brjóst hennar. Ákærði staðfesti fyrir dómi að hann hefði verið að strjúka í stúlkuna hita þar sem frekar kalt hefði verið í húsinu. Að öðru leyti kvaðst ákærði hafa gert þetta í hugsunarleysi og sýnt dómgreindarleysi, en tók fram í því sambandi að hann nuddaði oft fólk að gamni sínu.
Vitnið Y bar fyrir dómi að ákærði hefði fyrst nuddað á henni axlirnar og svo reynt að fara inn á brjóst hennar innan klæða. Hann hefði verið með hendurnar á maga hennar, rétt fyrir neðan brjóst þegar hann hætti, líklega þegar hann heyrði Þ, vinkonu vitnisins, koma inn í herbergið. Vitnið Þ kvaðst fyrir dómi hafa séð ákærða strjúka Y, en aldrei þorað að segja neitt. Þá er fram komið í málinu að starfsmaður í skóla Y tilkynnti móður hennar, vitninu A, um málið, en stúlkan hafði leitað til starfsmannsins. Vitnið A bar fyrir dómi að Y hefði sagt sér að ákærði hefði þuklað á og strokið henni.
Vitnið Y var í upphafi skýrslutöku fyrir dómi treg til að tjá sig. Eftir nokkurn tíma greindi hún frá atvikum og var framburður hennar í heild greinargóður og skýr. Þó átti stúlkan augljóslega erfitt með að greina frá og tók skýrslutakan verulega á hana. Er það mat dómsins, sem skoðað hefur myndbandsupptöku af vitnisburði stúlkunnar, að framburður hennar sé trúverðugur og ekkert þykir hafa komið fram í málinu er dragi úr trúverðugleika hennar. Útskýringar ákærða á hegðun sinni gagnvart stúlkunni eru hins vegar ótrúverðugar og á köflum fjarstæðukenndar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og framburðar vitnisins Y, sem fær stoð í framburði vitnisins Þ, er sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann áreitti stúlkuna, sem þá var á fjórtánda aldursári, kynferðislega, eins og lýst er í fyrri tölulið fyrsta kafla ákæru, og braut þannig gegn ákvæði 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.
I. kafli ákæru
2. töluliður.
Í skýrslutöku af Y fyrir dómi í Barnahúsi 30. desember 2002 kom fram að hún hefði um einum og hálfum mánuði eftir atvikið heima hjá ákærða, sem lýst er í fyrri tölulið fyrsta kafla ákæru, verið að passa yngstu systkini Þ ásamt vinkonu sinni. Þá hefði ákærði komið á heimilið og strokið líkama hennar og brjóst. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 17. febrúar 2003 var ákærða kynntur framburður Y um þetta atvik. Bókað var eftir ákærða að hann myndi ekki eftir atvikinu. Orðrétt er haft eftir ákærða. „Hún ætti nú að muna hvort ég hafi farið inn á brjóstin á henni, ekki man ég eftir því, það er voðalega einfalt.”
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök og sagði að hvorki hefði verið um ræða kynferðislegt athæfi af hans hálfu né káf á brjóstum. Nánar aðspurður um þennan þátt ákærunnar við aðalmeðferð málsins kannaðist ákærði við lýsingu í ákæruskjali, en kvaðst muna illa eftir atvikinu, en um hefði verið að ræða dómgreindarleysi af sinni hálfu. Stúlkan hefði staðið fyrir framan hann og hann þá nuddað hana með svipuðum hætti og í fyrra skiptið. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa strokið síður hennar upp og niður. Ákærði kvaðst halda að hann hefði ekki farið inn fyrir föt stúlkunnar. Ítrekað aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa farið inn fyrir föt hennar. Þá neitaði ákærði því að hann hefði snert líkama stúlkunnar innan klæða og kvaðst vera næstum því öruggur um að það hefði hann ekki gert. Ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki vera alveg viss hvort svo hefði verið, en tók fram að ekkert kynferðislegt hefði vakað fyrir honum. Nánar aðspurður um tilganginn með því að nudda stúlkuna sagði ákærði að þetta hefði verið hugsunarleysi og ekkert annað. Ákærði kvað stúlkuna engin viðbrögð hafa sýnt.
Vitnið, Y, bar fyrir dómi í Barnahúsi hinn 30. desember sl., að hún hefði, um einum og hálfum mánuði eftir atvikið heima hjá ákærða, verið ásamt vinkonu sinni, að passa yngri systkini Þ þar sem hún og mamma hennar hefðu farið í bíó. Þá hefði ákærði komið þangað og þegar vinkona hennar hefði brugðið sér frá hefði ákærði tekið í axlir hennar og svo fært hendurnar frá mjöðmum upp eftir maga hennar innan klæða. Aðspurð hvort hann hefði komið við brjóst hennar sagði vitnið að hann hefði næstum því komið við þau og að hann hefði verið með hendurnar undir spöngunum á brjóstahaldara hennar, en hætt þegar vinkona hennar kom. Vitnið kvaðst umrætt sinn hafa verið í bol innan undir peysu og í brjóstahaldara. Eftir þetta kvaðst vitnið hafa farið til námsráðgjafans í skólanum ásamt vinkonu sinni og sagt frá þessu.
Í umfjöllun um háttsemi þá sem lýst er í fyrsta tölulið fyrsta kafla ákæru var rakinn framburður vitnisins A, móður vitnisins Y, fyrir dómi og framburður D, dóttur ákærða, hjá lögreglu. Þar sem greindur framburður varðar þennan þátt ákærunnar einnig vísast til hans.
Niðurstaða.
Ákærði neitar sök. Hann viðurkenndi að hafa nuddað Y með svipuðum hætti og lýst hefur verið í fyrri tölulið fyrsta kafla ákæru, en að ekkert kynferðislegt hefði vakað fyrir honum. Hann kvaðst hafa staðið fyrir aftan stúlkuna og strokið henni upp og niður síðurnar, en ekki muna eftir að hafa farið inn fyrir föt hennar og snert líkama stúlkunnar og kvaðst næstum því öruggur um að það hefði hann ekki gert. Um hefði verið að ræða hugsunarleysi af sinni hálfu.
Fyrir dómi kvað vitnið Y ákærða hafa tekið í axlir sínar og síðan fært hendurnar frá mjöðum upp eftir maga hennar innan klæða og hefði hann verið með hendurnar undir spöngunum á brjóstahaldara hennar þegar hann hætti í því að vinkonu hennar bar að.
Eins og rakið var í niðurstöðu fyrri töluliðs fyrsta kafla ákæru, bar vitnið A, móðir vitnisins Y, að Y hefði sagt sér frá því að ákærði hefði þuklað á og strokið henni.
Vitnið Y var í upphafi skýrslutöku fyrir dómi treg til að tjá sig. Eftir nokkurn tíma greindi hún frá atvikum og var framburður hennar í heild greinargóður og skýr. Þó var augljóst að stúlkan átti erfitt með að greina frá og að skýrslutakan tók verulega á hana. Útskýringar ákærða á hegðun sinni gagnvart stúlkunni eru hins vegar ótrúverðugar og á köflum fjarstæðukenndar. Þá er til þess að líta í þessu sambandi að ákærði hafði skömmu fyrir þennan atburð viðhaft líka háttsemi í garð stúlkunnar. Það er mat dómsins, sem skoðað hefur myndbandsupptöku af vitnisburði stúlkunnar, að framburður hennar sé trúverðugur og ekkert þykir hafa komið fram í málinu er dragi úr trúverðugleika hennar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og framburðar vitnisins Y, er sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann áreitti stúlkuna, sem þá var á fjórtánda aldursári, kynferðislega, eins og lýst er í fyrri tölulið fyrsta kafla ákæru, og braut þannig gegn ákvæði 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.
II. kafli ákæru
Móðir brotaþolans, Z, tilkynnti barnaverndarnefnd [...] 11. desember 2002 að ákærði í máli þessu, og ömmubróðir Z, hefði haft í frammi kynferðislegt athæfi við dóttur hennar fimmtudagskvöldið 5. desember sama ár, þegar barnið hefði dvalið á heimili dóttur ákærða. Ákærði hefði lagst ofan á barnið, kysst hana og þuklað hana alla og einnig kynfæri. Með bréfi, dags. 12. desember 2002 vísaði nefndin málinu til lögreglu. Z var yfirheyrð fyrir dómi í Barnahúsi 30. desember 2002. Í tilefni af framburði hennar voru vitnin E, F og G, dótturbörn ákærða, sem öll voru á heimili dóttur ákærða umrætt kvöld, yfirheyrð í Barnahúsi 28. janúar 2003. Framburður þeirra varpaði ekki ljósi á þennan þátt ákærunnar.
Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. desember 2002. Hann neitaði því alfarið að hafa beitt Z kynferðislegu ofbeldi umrætt kvöld. Ákærði kvaðst hafa komið á heimili dóttur sinnar að beiðni Þ, dótturdóttur sinnar, til að passa. Auk Z hefðu dótturbörn hans, E fjögurra ára og F sex ára, verið á heimilinu. Eftir að börnin fóru inn í rúm að sofa kvaðst hann hafa heyrt Z gráta og því farið inn í svefnherbergi til barnanna, lagst upp í rúmið og tekið stúlkuna í fangið og róað hana niður. Hann hefði klappað henni á bakið og á maga og kysst hana á kinnina. Ákærði hélt fast við þennan framburð sinn við skýrslutöku hjá lögreglu 17. febrúar 2003 þegar honum var kynntur framburður Z í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sök og sagðist hafa verið að hugga grátandi barnið, ekki hefði verið um kynferðislegar athafnir að ræða. Nánar aðspurður um þennan þátt ákærunnar við aðalmeðferð málsins kvað ákærði þetta vera lygi og uppspuna. Hann kvaðst hafa huggað stúlkuna og strokið henni aðeins um bakið og kysst hana á enni og kinn. Ákærði kvað dóttur sína, D, hafa beðið sig um að passa umrætt kvöld. Aðspurður hvort það hefði ekki verið Þ, dótturdóttir hans, sem verið hefði að passa sagði ákærði að Þ hefði hringt í sig og beðið hann að líta eftir börnunum á meðan hún væri í burtu. Nánar aðspurður um samskipti hans og Z sagði ákærði að hún hefði komið á heimilið eftir að hann kom þangað. Vitnið kvaðst þá hafa verið upp í rúmi með tveimur dótturbörnum sínum að reyna að svæfa þau. Þegar Z kom hefði þetta gengið illa og börnin vaknað upp. Þá kvaðst hann hafa sest fram í eldhús og börnin hefðu þá komið til sín. Síðan kvaðst hann hafa farið með þau aftur inn í rúm og þegar þau voru orðin róleg hefði hann farið fram. Stuttu síðar kvaðst hann hafa heyrt að Z var að gráta og þá kvaðst hann hafa farið inn til hennar. Stúlkan hefði sagt sér að hún saknaði mömmu sinnar og þá kvaðst hann hafa lesið fyrir hana og nuddað á henni bakið, kysst hana á enni og kinn og huggað hana. Ákærði kvað stúlkuna hafa verið fullklædda í rúminu, í síðbuxum, blússu og bol. Aðspurður hvort hann hefði farið inn fyrir föt hennar sagði ákærði að opið hefði verið milli buxna og bols. Ákærði kvaðst ekki hafa strokið brjóst hennar, aðeins hafa strokið henni og klórað á bakinu og kitlað á maganum. Ákærði neitaði því alfarið að hafa farið inn fyrir nærbuxur stúlkunnar og nuddað kynfæri hennar og tók fram að hann væri ekki sjúk persóna. Aðspurður kvaðst ákærði hafa sínar skýringar á framburði stúlkunnar. Nánar aðspurður um þetta sagði ákærði það vera fínt ráð til að ná sér í pening að kæra menn fyrir kynferðisbrot. Ákærði kvað það rangt hjá stúlkunni að hún hefði sagt Þ frá þessu strax á eftir. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að Þ hefði rætt um þennan atburð við sig þarna um kvöldið.
Vitnið Z, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi hinn 30. desember sl. Hún greindi hiklaust frá og í upphafi yfirheyrslunnar sagði hún að ákærði, sem væri bróðir ömmu sinnar, væri alltaf að káfa á börnum. Hann hefði gert það við öll barnabörnin sín, meira að segja stráka, og þá hefði hann einu sinni nuddað „pjölluna” á sér. Vitnið kvaðst hafa verið heima hjá barnabörnum ákærða og átt að passa F, E og G smá stund meðan Þ hefði farið út. Ákærði hefði leyft þeim að vera frammi smá stund, en svo sagt þeim F og E að fara inn í rúm að sofa. Þá kvaðst vitnið hafa verið eftir inni í stofu hjá ákærða og setið í sófanum. Vitnið kvaðst þá hafa verið í nærbol og nærbuxum, en ákærði verið í öllum fötunum. Ákærði hefði þá reynt að kitla sig og síðan farið að fikta í sér, líka í „pjöllunni” fyrir innan nærbuxurnar. Síðan hefði ákærði rekið sig inn í rúm og þá hefðu hin börnin vaknað. Þá hefði hann líka farið að fikta í þeim og skipst á og þá aftur komið einu sinni við „pjölluna” hennar. Fram kom hjá vitninu að hann hefði einnig kysst sig og F á munninn. Þá greindi hún frá því að hún hefði verið vakandi alla nóttina af því að henni hefði liðið svo illa, en nú væri hún að reyna að gleyma þessu. Vitnið kvaðst fyrst hafa sagt móður sinni frá þessu og síðan G sem hefði sagt sér að reyna alltaf að ýta ákærða frá sér. Sérstaklega aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa sagt Þ frá þessu þegar hún kom aftur heim um kvöldið, enda hefði hún ekki trúað henni, því Þ trúi því bara ef það sé gert við hana sjálfa, eins og vitnið orðaði það. Þá kom einnig fram hjá vitninu að ákærði hefði skammast sín, hann hefði alltaf verið að segja „af hverju var ég að gera þetta ”.
Vitnið, Þ, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 28. janúar 2003. Aðspurð sagðist vitnið ekki vera viss um hvort systkini hennar hefðu orðið fyrir áreiti af hálfu ákærða, en hún viti um að frænka sín, Z, hefði orðið fyrir því. Vitnið lýsti því að einu sinni hefði hún verið að passa heima hjá sér og þá hefði ákærði komið þar. Hún kvað ákærða hafa látið sig fá peninga til að kaupa eitthvað að borða og því farið út í búð. Þegar hún kom aftur heim hefði ákærði legið inn í herbergi hjá krökkunum. Þegar hún var að fara að sofa þetta kvöld hefði Z frænka hennar sagt sér að ákærði hefði farið inn á kynfæri sín. Vitnið kvaðst hafa sagt við stúlkuna að hún ætti að passa sig á ákærða og ef hann myndi reyna þetta aftur þá ætti hún að ýta honum frá sér og láta vita. Þá greindi vitnið frá því að sama kvöldið hefði ákærði farið að tala um þetta við sig og sagt að hann væri eitthvað veikur og ætti bara erfitt með þetta.
Vitnið C, móðir Z, kvaðst hafa farið út með D frænku sinni umrætt kvöld, en Z hefði verið í pössun hjá Þ. Vitnið greindi frá því að ákærði hefði hringt í D um kvöldið og spurt hvort hún væri heima, en D hefði sagt honum að hún væri í [...]. Eftir það hefði D strax hringt í Þ og sagt henni að ákærði væri kominn í land og ef hann kæmi ætti hún ekki að opna fyrir honum. Vitnið kvaðst hafa setið við hlið D og heyrt símtalið. Aðspurð um ástæðu þessara fyrirmæla sagði vitnið að D hefði vitað að ákærði hefði „átt við” Þ. Þá hefði D, fyrir þennan atburð, sagt sér frá því að ákærði hefði „fiktað” í Þ og kvaðst vitnið hafa skilið það svo að um væri að ræða kynferðislega háttsemi. Þá hefðu þær D rætt um það sín á milli, fyrir þennan atburð, að ákærði hefði tilhneigingu til að áreita börn.
Vitnið kvaðst hafa komið á heimili D eftir miðnætti umrædda nótt og þá hefði ákærði ekki verið þar og allt verið í lagi. Morguninn eftir hefði Z sagt sér að ákærði væri ógeðslegur karl. Hann hefði ekki leyft henni að fara að sofa og haldið henni einni vakandi. Þá hefði hann lagst ofan á hana í rúminu, kysst hana alla í framan og á brjóstum og kitlað á henni „pjölluna”. Vitnið kvað barnið hafa titrað í fangi sínu þegar hún sagði frá þessu. Vitnið kvaðst hafa tekið þetta mjög nærri sér og sagt D strax frá þessu. Þá hefði D sagt sér að Þ hefði sagt frá því að ákærði hefði verið að strjúka og káfa á Z. Aðspurð kvað vitnið ekkert hafa verið athugavert við samskipti ákærða við börn í fjölskyldunni þegar hún hefði séð til og kvaðst hún aldrei hafa séð hann strjúka eða koma við börn úr fjölskyldunni. Þá kvaðst vitnið aldrei hafa séð ákærða strjúka eða koma við Þ eða Z. Vitnið upplýsti að fyrst eftir atburðinn hefði Z neitað að fara í skóla og helst viljað vera heima og fara ekki út úr húsi. Hún hefði síðan fengið að fara til vinafólks í [...] milli jóla og nýárs og ekki viljað koma heim síðan. Þá hefði hún verið í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi í Barnahúsi og hjá skólasálfræðingi í [...].
D, móðir Þ og dóttir ákærða, kom fyrir dóm, en óskaði eftir að skorast undan að bera vitni í málinu. Hún staðfesti undirskrift sína undir skýrslu sem lögregla tók af henni 30. janúar 2003. Þar er haft eftir henni að fimmtudagskvöldið 5. desember 2002 hefði Þ verið að passa systkini sín og Z á [...] meðan hún og móðir Z voru í [...]. Móðir Z hefði komið á heimili hennar fljótlega eftir hádegi og þá hefði Z sagt móður sinni frá því að ákærði hefði lagst ofan á hana og sleikt andlit hennar og brjóst.
Vitnin, E, F og G, gáfu öll skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 28. janúar 2003. Þau könnuðust öll við að Z frænka þeirra hefði einhvern tíma gist hjá þeim. Þá kom fram hjá vitninu G að Z hefði fyrir jólin sagt sér frá því að afi, þ.e ákærði, hefði káfað á henni.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök. Hann kvaðst hafa farið inn í svefnherbergið þar sem Z svaf til að hugga hana og aðeins hafa strokið og nuddað á henni bakið, klórað henni og kitlað á maganum og kysst hana á enni og kinn. Stúlkan hefði verið fullklædd í rúminu, í síðbuxum, blússu og bol, en bert hefði verið á milli buxna og bols. Ákærði neitaði því alfarið að hafa farið inn fyrir nærbuxur stúlkunnar og nuddað kynfæri hennar. Þá sagði hann það rangt sem fram hefði komið hjá stúlkunni, að hún hefði sagt Þ frá atburðinum strax á eftir. Þá kannaðist ákærði ekki við að Þ hefði rætt við sig um frásögn vitnisins Z þá um kvöldið.
Fram kom hjá vitninu Z að hún hefði setið hjá ákærða inni í stofu, klædd nærbol og nærbuxum. Ákærði hefði þá reynt að kitla sig og síðan farið að fikta í sér, líka í „pjöllunni” fyrir innan nærbuxurnar, eins og vitnið orðaði það. Síðan hefði ákærði rekið sig inn í rúmið, en þá hefðu hin börnin vaknað. Þá hefði hann líka farið að fikta í þeim og skipst á og þá komið einu sinni við „pjölluna” hennar. Þá hefði hann einnig kysst sig og F á munninn. Vitnið kvaðst hafa verið vakandi alla nóttina og sagt móður sinni fyrst frá atvikinu og eftir það G, sem hefði sagt sér að reyna alltaf að ýta honum frá sér.
Vitnið Þ bar hins vegar fyrir dómi að frænka sín, Z, hefði sagt sér að ákærði hefði farið inn á kynfæri hennar kvöld eitt þegar ákærði hefði litið eftir Z og systkinum vitnisins. Umrætt kvöld hefði ákærði legið inn í herbergi hjá krökkunum þegar vitnið kom heim. Vitnið kvaðst hafa sagt við Z að hún ætti að passa sig á ákærða og ef hann myndi reyna þetta aftur þá að ýta honum frá sér og láta vita.
Vitnið C bar fyrir dómi að Z hefði strax daginn eftir sagt sér að ákærði hefði ekki leyft henni að fara að sofa og haldið henni einni vakandi og að hann hefði lagst ofan á hana í rúminu, kysst hana alla í framan og á brjóstum og kitlað á henni pjölluna. Fram kom hjá vitninu að barninu hefði verið mjög brugðið. Vitnið kvaðst hafa rætt við D þá um morguninn og hefði hún þá greint sér frá því að Þ hefði sagt henni frá því að ákærði hefði verið að strjúka og káfa á Z.
Fyrir liggur í málinu að ákærði var umrætt kvöld að gæta frænku sinnar, Z, og dótturbarna sinna á heimili dóttur sinnar. Ákærði hefur alfarið neitað að hafa káfað á líkama Z eins og lýst er í ákæruskjali. Hann kvaðst hafa strokið og nuddað á henni bakið, klórað henni og kitlað á maganum og kysst enni og kinn í þeim tilgangi að hugga hana. Það er mat dómsins, sem skoðað hefur myndbandsupptöku af vitnisburði stúlkunnar, að gott samræmi hafi verið í framburði Z fyrir dómi þegar hún lýsti hinu umrædda atviki og að frásögn hennar um atvikið hafi verið nákvæm og trúverðug. Þykir það ekki rýra trúverðugleika framburðar stúlkunnar að þessu leyti þótt hún hefði við yfirheyrsluna greint frá því að ákærði hefði einnig viðhaft líka háttsemi gagnvart börnunum E, F og G. Þá er fram komið í málinu að vitnið Z greindi móður sinni frá atvikinu strax morguninn eftir. Þá hefur vitnið Þ borið fyrir dómi að Z hafi, þá strax um kvöldið, sagt sér frá atvikinu. Í framburði Z kemur fram að hún hafi ekki sagt Þ frá atvikinu heldur systur hennar, G. Vitnið G bar fyrir dómi að Z hefði fyrir jólin sagt sér frá því að afi, þ.e ákærði, hefði káfað á henni. Þrátt fyrir misræmi í framburði vitnanna Þ og Z um þetta atriði, þykir rétt að leggja framburð Þ til grundvallar að þessu leyti, enda kom það fram fyrir dómi hjá vitninu C að vitnið Þ hafði skýrt móður sinni, D, frá því að ákærði hefði verið að strjúka og káfa á Z. Framburður vitnanna Þ, C og G þykir því renna traustum stoðum undir framburð vitnisins Z að þessu leyti. Þá þykja skýringar ákærða af afskiptum hans af barninu ótrúverðugar þegar litið er til þeirra aðferða sem ákærði kvaðst hafa viðhaft við að hugga grátandi barnið.
Þegar atvik málsins eru virt í heild þykir með framburði Z, sem fær stoð í framburði vitnanna Þ og C, þrátt fyrir neitun ákærða, vera framkomin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í öðrum kafla ákæru. Brot ákærða gagnvart Z varðar við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.
III. kafli ákæru
1. og 2. töluliður
Eins og áður var rakið var í framhaldi af skýrslutökum af brotaþolunum, Y og Z, tekin skýrsla fyrir dómi af dótturbörnum ákærða, systkinunum Þ, G, F og E, í Barnahúsi 28. janúar 2003. Í kjölfar þeirrar skýrslutöku beindist rannsókn lögreglu meðal annars að meintum kynferðisbrotum gegn dótturdóttur ákærða, Þ.
Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 17. febrúar 2003 um meint brot hans gegn Þ. Í lögregluskýrslu er haft eftir ákærða að hann hafi frá átta til tíu ára aldri stúlkunnar fíflast í henni og kitlað hana, en hætt ef henni hefði fundist það óþægilegt. Þá er haft eftir ákærða að vel geti verið að hann hafi strokið brjóst hennar þegar hann hafi verið fíflast í henni og þá kvaðst hann ekki getað neitað því að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar haldi hún því fram. Aðspurður af lögreglu um hvað hann eigi við með að hafa fíflast í stúlkunni er bókað orðrétt eftir ákærða að „að þegar hann eigi við að fíflast þá eigi hann við að hann sé að strjúka, klípa og káfa á börnum”. Þá er bókað eftir ákærða að hann kannist við að hafa káfað á kynfærum og brjóstum stúlkunnar, en teldi að hann hefði ekki káfað á henni innanklæða. Þá er bókað eftir ákærða að þegar Þ var lítil hefði hann kitlað hana á innanverðu læri og það geti vel verið að hann hafi komið við kynfæri hennar og rétt sé að núorðið poti hann í brjóst hennar. Ákærði neitaði því hins vegar að hafa neytt stúlkuna til að koma við kynfæri sín og að hafa farið með fingur í kynfæri hennar. Hann kannaðist við að hafa hneppt frá tölu á buxum hennar, en tók fram að hann hefði ekki klætt hana úr fötunum. Þá er haft eftir ákærða að hann geri sér grein fyrir því að það sé óheilbrigð hegðun að káfa á börnum og athæfi hans sé sjúklegt, en í dag finni hann ekki fyrir þörf til að káfa á börnum.
Við þingfestingu málsins kvað ákærði þennan kafla ákærunnar lýsa alvarlegri háttsemi en verið hefði um að ræða, en kvað þó eitthvað til í þessu. Ákærði viðurkenndi að hafa strokið stúlkunni, en tók fram að hann héldi að hann hefði aldrei komið nálægt kynfærum hennar. Þá tók ákærði fram að þetta hefði verið hálfgerð stríðni. Ákærði kvaðst ekki beinlínis neita þeirri háttsemi sem tilgreind er í síðari lið þriðja kafla, ef til vill hefði hann strokið yfir kynfæri hennar, en það hafi ekki verið alvarleg hugsun á bak við hegðun hans, frekar dómgreindarleysi. Nánar aðspurður um þennan þátt ákærunnar við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði oft hafa strokið stúlkunni um líkamann, en tók fram að hann hefði verið fíflast eða fljúgast á. Þetta hefði átt sér stað annað slagið á heimili stúlkunnar á [...] og í [...] og einnig á heimili ákærða á [...] og hefði þetta gerst hvort heldur þau voru ein eða aðrir nálægt. Ákærði kvaðst hvorki geta neitað né játað því að hafa komið við kynfæri stúlkunnar, það hefði getað gerst í fíflagangi. Þá kvað ákærði það geta verið að hann hafi strokið brjóst hennar þegar hann hafi verið að fíflast í henni eða stríða henni. Aðspurður sagðist ákærði reikna með að hafa strokið henni innan klæða eða farið upp undir hana. Aðspurður um tilganginn kvað ákærði það hafa verið dómgreindarleysi. Þá tók hann fram að það sé algengt meðal þeirra sem hann umgangist að nudda og strjúka hver öðrum og kvaðst hann hafa strokið stúlkunni eins og menn strjúki barnabörnum sínum almennt. Þannig hafi hann hagað sér gagnvart öllum barnabörnum sínum og hefði það engu breytt hvort aðrir hefðu verið viðstaddir eða ekki. Ákærði kvaðst hins vegar neita að hafa tekið í hönd stúlkunnar og látið hana snerta kynfæri sín. Aðspurður hvort hann hefði sett fingur í kynfæri stúlkunnar sagði ákærði að hann héldi að það stæðist ekki. Nánar aðspurður sagðist ákærði ekki hafa tekið eftir að hafa sett fingur í kynfæri hennar, en kvaðst ekki neita því að hafa strokið yfir kynfæri hennar, en líklega hefðu þau þá ekki verið nakin. Þó kvað hann vel geta verið að þegar hann hefði verið að stríða henni hefði hann nuddað kynfæri hennar, líklega þó ekki nakin. Í þessu sambandi greindi ákærði frá því að það sé algengt þar sem hann sé til sjós, að menn nuddi hvern annan í fíflagangi og stríðni. Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa reynt að færa stúlkuna úr fötunum til að komast að kynfærum hennar, en þó geti verið að hann hefði einhvern tíma verið að fíflast í tölu á buxum hennar en eingöngu í stríðni, eins og hann orðaði. Ákærði tók fram að hann hefði voðalega takmarkaðan áhuga á kynfærum barna. Ákærði kvaðst alltaf hafa strokið stúlkunni, en ekki vita hvenær henni hefði dottið í hug að þetta væri kynferðislegt, ef til vill hefði það verið þegar hún var 8-10 ára gömul. Ákærði kvaðst oft hafa sótt stúlkuna í skóla á bifreið og þá oft ekið um og síðan stöðvað bifreiðina. Þá hefði hann fíflast í henni, nuddað hana og klipið. Ákærði kvaðst stundum hafa orðið var við að stúlkunni þætti þetta óþægilegt. Þá hefði hún ýtt honum frá sér og hann þá hætt. Nánar aðspurður kvaðst ákærði alltaf hætta að nudda fólk ef hann yrði var við að fólki líki það ekki. Ákærði kannaðist ekki við þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði sótt í að káfa á börnum. Þá vísaði ákærði öllum ásökunum, sem fram komu við lögreglurannsókn um að hann hefði á árum áður áreitt börn, á bug.
Vitnið Þ, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 28. janúar 2003. Vitnið greindi frá því að móðurafi hennar, ákærði í máli þessu, hefði frá því hún myndi eftir sér misnotað sig kynferðislega og síðast stuttu fyrir síðustu jól. Háttsemi ákærða lýsti vitnið þannig að ákærði hefði haldið utan um sig og káfað á brjóstum sínum og kynfærum, bæði innan og utan klæða. Þá hefði hann reynt að klæða hana úr fötunum og stundum hefði honum tekist að hneppa frá buxunum. Þá hefði hann einnig káfað á sér þegar hún svaf á heimili hans, en þá hefði hún sofið í nærfötunum. Vitnið lýsti því að ákærði hefði káfað á sér og komið við kynfæri sín á heimili hennar, bæði á [...] og meðan hún bjó í [...], á heimili ákærða á [...] og í bifreið hans þegar hann kom að sækja hana úr skóla. Vitnið kvað ákærða oft hafa sótt hana úr skóla eftir að hún flutti til Íslands frá [...]. Þá hefði hann ekið út fyrir bæinn, stoppað úti í kanti og káfað á henni og reynt að komast að kynfærum hennar. Aðspurð sagði vitnið að ákærði hefði strokið kynfæri hennar með fingrunum og fjórum eða fimm sinnum hefði hann sett fingur sinn inn í kynfæri hennar. Vitnið lýsti því þannig að ákærði hefði gert þetta í hvert skipti sem þau voru ein og nefndi sem dæmi að hann hefði þuklað á henni á heimili sínu meðan amma hennar hefði farið á salerni og á heimili hennar í [...], þegar amma og ákærði voru að passa, og amma hennar hefði legið úti í sólbaði. Sérstaklega aðspurð hvort hún hefði meitt sig þegar ákærði káfaði í kynfærum hennar kvaðst vitnið ekki vera viss, því það sé svolítið síðan hann hafi gert það síðast, líklega síðast þegar hún var tólf ára gömul. Þá greindi vitnið frá því að meðan hún var yngri hefði ákærði tekið í hendi sína til að láta hana koma við kynfæri hans í nokkur skipti. Vitnið nefndi tiltekið skipti þegar hún var á heimili ákærða, amma hennar hefði verið í vinnunni og móðurbróðir hennar inni í herbergi. Vitnið kvaðst hafa reynt að streitast á móti en ákærði hefði verið miklu sterkari. Fram kom hjá vitninu að tippi ákærða hefði verið hart. Þá sagði vitnið að ákærði hefði, meðan hún var yngri, bannað henni að tala um þetta og sagt henni að þá myndu vondu karlarnir koma og taka afa. Þá greindi vitnið frá því að sama kvöldið og frænka hennar, Z, hefði orðið fyrir þessu sama af hendi ákærða, hefði ákærði farið að tala um þetta við sig og sagt henni að hann væri eitthvað veikur og ætti bara erfitt með þetta. Vitnið kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu og bestu vinkonum sínum. Mamma sín hefði sagt sér að hún ætti að passa sig á ákærða og ekki hleypa honum inn.
Vitnið Y, sagði í skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi 30. desember 2002 að Þ hefði sagt sér að ákærði hefði gert við hana svipað og ákærði gerði við vitnið. Nánar aðspurð sagði vitnið að Þ hefði sagt sér að ákærði hefði farið alveg inn á hana og gert það síðan Þ var fjögurra ára gömul.
Vitnið C frænka ákærða, greindi frá því að móðir Þ, D, hefði sagt sér frá því að ákærði hefði leitað á Þ. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt D segja við Þ í síma að opna ekki fyrir ákærða ef hann kæmi á heimili þeirra.
D, móðir Þ og dóttir ákærða, kom fyrir dóm, en óskaði eftir að skorast undan að bera vitni í málinu. Hún staðfesti undirskrift sína undir skýrslu sem lögregla tók af henni 30. janúar 2003. Þar er haft eftir henni að eftir tilvikið með Y hefði hún rætt við Þ dóttur sína um það tilvik og þá hefði Þ greint henni frá því að ákærði hafi byrjað að þukla á henni við sex ára aldur.
Niðurstaða
Ákærði neitar ekki sök afdráttarlaust. Hann hefur viðurkennt að hafa allt frá því Þ, dótturdóttir hans var 8 - 10 ára, bæði á heimili hennar og heimili sínu sem og í bifreið sinni, strokið stúlkunni um líkamann og kvaðst hann reikna með að hafa strokið henni innan klæða eða farið upp undir hana. Ákærði kvaðst hvorki geta neitað né játað því að hafa strokið brjóst hennar og komið við kynfæri stúlkunnar, en kvað það hafa gerst í fíflagangi eða stríðni. Ákærði neitaði því hins vegar alfarið að hafa tekið í hönd stúlkunnar og látið hana snerta kynfæri sín. Þá taldi hann það ekki geta staðist að hann hefði sett fingur í kynfæri stúlkunnar, en kvað það þó vel geta verið að hann hefði nuddað kynfæri hennar þegar hann hefði verið að stríða henni, en líklega þó ekki nakin.
Skýringar ákærða á háttsemi hans gagnvart stúlkunni voru þær helstar að slíkt tíðkist þar sem hann starfi og þannig komi hann fram við aðra, bæði þá sem hann starfi með sem og barnabörnin sín. Framkoma hans gagnvart stúlkunni hefði verið fíflagangur og stríðni. Þá tók ákærði fram að um dómgreindarleysi hefði verið að ræða að sinni hálfu.
Dómurinn hefur skoðað myndbandsupptöku af vitnisburði Þ fyrir dómi. Að mati dómsins var framburður Þ afar greinargóður og skýr. Hún skýrði á yfirvegaðan hátt frá kynferðislegu áreiti sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu ákærða, sem hefði átt sér stað svo lengi sem hún myndi eftir. Hún greindi á trúverðugan hátt frá því að hann hefði látið hana snerta kynfæri sín og að hann hefði í nokkur skipti sett fingur inn í kynfæri hennar. Frásögn hennar var með öllu öfgalaus en greina mátti að stúlkunni var að vissu leyti léttir að geta greint frá reynslu sinni. Hins vegar þykja skýringar ákærða á framkomu hans gagnvart stúlkunni fjarstæðukenndar og ótrúverðugar.
Vitnið Y bar fyrir dómi að Þ hefði sagt sér að ákærði hefði frá því Þ var fjögurra ára gömul farið alveg inn á hana eins og vitnið orðaði það. D, móðir Þ, greindi frá því við skýrslutöku hjá lögreglu að Þ hefði sagt henni frá því að ákærði hafi byrjað að þukla á henni við sex ára aldur. Þá greindi vitnið C frá því að móðir Þ, D, hefði sagt sér frá því að ákærði hefði leitað á Þ. Þá er fram komið að vitnið kvaðst hafa heyrt D segja við Þ í síma að opna ekki fyrir ákærða ef hann kæmi á heimili þeirra.
Þó svo ákærði hafi ekki ótvírætt viðurkennt þær sakir sem bornar eru á hann í þriðja kafla ákæru og neiti sök um alvarlegustu tilvikin, er framburður hans, svo langt sem hann nær, í samræmi við lýsingar stúlkunnar á atvikum. Verður framburður Þ um þau tilvik sem tilgreind eru í síðasta málslið fyrsta töluliðar ákærukaflans og síðari tölulið kaflans því lagður til grundvallar í máli þessu enda ekkert fram komið sem rýrir trúverðugleika vitnisins um þau atriði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið, þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í fyrsta og öðrum tölulið þriðja kafla ákæru og með því brotið gegn ákvæðum 1. mgr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/2002.
Refsing
Refsing ákærða er ákveðin með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða gegn dótturdóttur hans, Þ, stóðu yfir í langan tíma, voru alvarleg og beindust að veigamiklum hagsmunum. Með þeim braut ákærði freklega gegn friðhelgi stúlkunnar allt frá barnsaldri. Þá voru flest brotin framin inni á heimili stúlkunnar eða á heimili ákærða þegar stúlkan dvaldi í skjóli ákærða. Með því brást ákærði trausti stúlkunnar og móður hennar. Ákærði brást einnig trausti Z og móður hennar þegar hann gætti stúlkunnar og braut freklega gegn stúlkunni. Með brotum sínum gegn Y sýndi ákærði stúlkunni mjög óviðeigandi hegðun á viðkvæmum tíma í lífi stúlkunnar. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Ákærði á sér engar málsbætur og er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Bótakröfur
Óskar Sigurðsson héraðsdómslögmaður, réttargæslumaður Y, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hönd A og B, foreldra Y. Hann krefst miskabóta að fjárhæð 700.000 króna auk kostnaðar við að halda kröfunni fram og dráttarvaxta frá 1. júní 2002 til greiðsludags.
Lögmaðurinn vísar til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, til stuðnings miskabótakröfunni og til laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til stuðnings kröfu um þóknun réttargæslumanns. Þá krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi sem atburðurinn átti sér stað. Kröfu sinni til stuðnings bendir lögmaðurinn á að ákærði hafi framið bótaskylt brot gegn stúlkunni og ákærði beri því ábyrgð á ólögmætri meingerð gagnvart stúlkunni. Um sé að ræða alvarlegt brot þar sem ákærði hefði misnotað sér traust stúlkunnar, en ákærði sé afi bestu vinkonu hennar. Ákærði hafi með háttsemi sinni sært stúlkuna með óviðurkvæmilegri háttsemi. Atburðirnir hafi valdið stúlkunni miklu hugarangri og vanlíðan. Ljóst sé að atburðirnir munu hafa bæði andlegar og félagslegar afleiðingar fyrir stúlkuna sem sé á viðkvæmum aldri. Lögmaðurinn tekur fram að stúlkan hafi m.a. sótt sálfræðimeðferð vegna afleiðinga atburðanna og líkur sé á að hún þurfi á slíkri meðferð að halda í framtíðinni.
Bótakrafa f.h. Z
Óskar Sigurðsson héraðsdómslögmaður, réttargæslumaður Z, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hönd C, móður Z. Hann krefst miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna auk kostnaðar við að halda kröfu þessari fram og dráttarvaxta frá 5. desember 2002 til greiðsludags.
Lögmaðurinn vísar til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og til laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til stuðnings kröfu um þóknun réttargæslumanns. Þá krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi sem atburðurinn átti sér stað. Kröfu sinni til stuðnings bendir lögmaðurinn á að ákærði hafi framið bótaskylt brot gegn stúlkunni. Ákærði beri því ábyrgð á ólögmætri meingerð gagnvart stúlkunni. Um sé að ræða alvarlegt brot þar sem ákærði hefði misnotað sér traust stúlkunnar, en ákærði sé ömmubróðir hennar og atvikið hafi átt sér stað þegar hún var í umsjón ákærða þegar hann var að gæta hennar og frændsystkina hennar. Ljóst sé af öllu að stúlkan hafi orðið fyrir töluverðum miska vegna háttsemi ákærða og atburðurinn muni fylgja henni í gengum lífið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Lögmaðurinn tekur fram að stúlkan hafi m.a. sótt sálfræðimeðferð vegna afleiðinga atburðanna og líkur séu á að hún þurfi á slíkri meðferð að halda í framtíðinni.
Bótakrafa f.h. Þ
Óskar Sigurðsson héraðsdómslögmaður, réttargæslumaður Þ, hefur lagt fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hönd D, móður Þ. Krafist er miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna auk kostnaðar við að halda fram kröfu þessari og dráttarvaxta, frá 28. janúar 2003 til greiðsludags.
Lögmaðurinn vísar til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og til laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, til stuðnings kröfu um þóknun réttargæslumanns. Þá krefst hann dráttarvaxta frá þeim degi sem stúlkan gaf skýrslu fyrir dómi. Kröfu sinni til stuðnings bendir lögmaðurinn á að ákærði hafi framið mjög alvarlegt bótaskylt brot gegn stúlkunni. Ákærði beri því ábyrgð á ólögmætri meingerð gagnvart stúlkunni. Um sé að ræða mjög alvarlegt brot þar sem ákærði hafi misnotað sér traust stúlkunnar, en ákærði er afi hennar. Hann hafi á sex ára tímabili beitt hana kynferðislegu ofbeldi með ýmsum hætti og þannig sært hana mörgum sinnum og ítrekað með óviðurkvæmilegri háttsemi. Ljóst sé af öllu að stúlkan hafi orðið fyrir töluverðum miska vegna háttsemi ákærða og atvikið muni fyrirsjáanlega hafa alvarlegar afleiðingar fyrir stúlkuna bæði andlega og félagslega. Lögmaðurinn tekur fram að stúlkan hafi m.a. sótt sálfræðimeðferð vegna afleiðinga atburðanna og líkur séu á að hún þurfi á slíkri meðferð að halda í framtíðinni.
Móðir Y kom fyrir dóm og lýsti því að stúlkan ætti erfitt með að tala um atburðinn og lokaði á hann. Þá hefur stúlkan sótt viðtöl til sálfræðings í Barnahúsi.
Móðir Z kom fyrir dóm og lýsti líðan stúlkunnar morguninn eftir umræddan atburð þegar stúlkan greindi henni frá því sem fyrir hafði komið og er ljóst af því að barninu var verulega brugðið. Þá hefur móðir hennar greint frá erfiðleikum sem hún átti við að stríða eftir atburðinn, meðal annars því að stúlkan hefði ekki viljað fara í skóla. Þá upplýsti móðir hennar að stúlkan hefði notið aðstoðar bæði frá Barnahúsi og skólasálfræðingi.
Lýsingar Þ fyrir dómi á því langvarandi ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu ákærða bera með sér að stúlkan hefur um langan tíma búið við mikla ógn af hálfu ákærða sem vafalaust mun hafa áhrif á líf hennar með margvíslegum hætti. Fram er komið að stúlkan hefur sótt viðtöl til sálfræðings í Barnahúsi.
Brot þau gegn 202. gr. almennra hegningarlaga, sem sakfellt er fyrir í máli þessu, eru almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verða margvíslegum sálrænum erfiðleikum og eiga því stúlkurnar rétt á miskabótum úr hendi ákærða og verða bætur til þeirra ákveðnar með vísan til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Ákærða voru birtar bótakröfur við þingfestingu málsins 23. maí 2003.
Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja bætur til handa Y hæfilega ákveðnar 150.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags. Bætur til Z þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags. Þá þykja bætur til Þ hæfilega ákveðnar 600.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags.
Sakarkostnaður
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sigurðar Sveinssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 180.000 krónur.
Þá skal ákærði í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála greiða þóknun réttargæslumanns brotaþolanna, Y, Z og Þ, Óskars Sigurðssonar hdl., 120.000 krónur.
Ragnheiður Thorlacius settur héraðsdómari og dómsformaður, Valtýr Sigurðsson héraðsdómari og Ingveldur Einarsdóttir settur dómstjóri, kveða upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði Y, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z, 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði Þ, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Sigurðar Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur.
Ákærði greiði þóknun Óskars Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns Y, Z og Þ, 120.000 krónur.