Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Tímabundin örorka
- Örorka
- Matsgerð
- Sakarefni
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2004. |
|
Nr. 331/2003. |
Finnur Hrafn Pálsson(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. og Rakel G. Sigurðardóttur (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Tímabundin örorka. Örorka. Matsgerðir. Sakarefni. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Tryggingarfélagið V greiddi F, sem slasast hafði í umferðarslysi, bætur á grundvelli matsgerðar. Annar matsmanna leiðrétti síðar matsgerðina og í framhaldi af því krafðist F bóta í samræmi við þá leiðréttingu. Nokkru áður en F setti fram þá kröfu voru, að beiðni V, dómkvaddir yfirmatsmenn sem komust að þeirri niðurstöðu að tjón F hefði verið minna en áætlað var í undirmatsgerð. Krafðist V sýknu af kröfum F með vísan til niðurstöðu yfirmatsmanna. Talið var að með fyrrnefndri greiðslu hefði V viðurkennt í verki tilteknar afleiðingar slyssins og ráðstafað sakarefninu með þeim afleiðingum að niðurstaða í málinu yrði ekki reist á yfirmatsgerðinni. Þá þóttu slíkir gallar á undirmatsgerð að hún yrði ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn um tímabundið atvinnutjón F. Krafa F um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón þótti samkvæmt þessu svo vanreifuð að ekki yrði hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi. Stóð þá eftir krafa F um frekari bætur vegna 10% varanlegrar örorku en V hafði áður greitt honum. Með hliðsjón af staðreyndum málsins, aldri F og aðstæðum hans var ekki fallist á með F að bætur vegna þessa bæri að reikna honum eftir 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Varð ákvörðun bótanna því að lúta reglum 3. mgr. 7. gr. laganna eins og V hafði miðað við í bótauppgjöri. V var því sýknaður af þessari kröfu F.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, og Pétur Kr. Hafstein.
Héraðsdómi var áfrýjað 22. ágúst 2003. Áfrýjandi krefst þess, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða sér 2.908.718 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.743.463 krónum frá 15. júní 2001 til 11. apríl 2002, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.165.255 krónum frá 25. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til 11. apríl 2002 en af 2.908.718 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir lenti áfrýjandi í umferðarslysi 28. desember 1999. Með bréfi til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 20. mars 2001 var óskað innborgunar vegna tímabundins tekjutaps hans, en félagið hafnaði því að svo stöddu, þar sem það taldi þörf frekari gagna. Eftir að áfrýjandi höfðaði mál þetta í héraði voru að beiðni hins stefnda félags dómkvaddir tveir læknar til að skoða og meta afleiðingar umferðarslyssins á heilsu hans. Í matsgerð þeirra 19. febrúar 2002 var komist að þeirri niðurstöðu, að tímabundin óvinnufærni áfrýjanda hefði verið 100% frá slysdegi til 3. janúar 2000 og frá 14. janúar til 9. mars 2001, er áfrýjandi dvaldist á Reykjalundi. Bæði varanleg örorka og varanlegur miski áfrýjanda voru metin 10%. Matsmenn töldu tímabil þjáninga í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 37/1999, hafa staðið í þrjá mánuði og heilsufar áfrýjanda í skilningi laganna hefði verið orðið stöðugt eftir sama tíma.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. greiddi áfrýjanda 14. mars 2002 bætur að fjárhæð 4.018.727 krónur á grundvelli þessarar matsgerðar, sem byggt var á að öðru leyti en því, að hafnað var kröfu vegna tímabundins tekjutjóns. Annar matsmanna leiðrétti niðurstöðu matsgerðarinnar með bréfi til lögmanns áfrýjanda 14. maí 2002 og mat nú tímabundna óvinnufærni áfrýjanda frá slysdegi 28. desember 1999 til 9. mars 2001 með þeim skýringum, sem í héraðsdómi greinir. Með framhaldsstefnu, sem birt var 25. nóvember 2002, krafði áfrýjandi stefndu um bætur vegna tímabundins tekjutaps og þjáninga í samræmi við þessa leiðréttingu auk greiðslu hærri bóta vegna varanlegrar örorku, sem miðaðar væru við meðalmánaðarlaun hans eftir útskrift frá Reykjalundi.
Að beiðni stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. voru dómkvaddir þrír yfirmatsmenn 27. september 2002, lögfræðingur og tveir læknar, til að meta, hvenær heilsufar áfrýjanda hafi verið orðið stöðugt eftir umferðarslysið 28. desember 1999 og hvert væri tímabundið atvinnutjón hans af völdum þess. Í yfirmatsgerð 9. desember 2002 var komist að þeirri niðurstöðu, að svonefndum stöðugleikapunkti hefði verið náð í lok mars 2000 og áfrýjandi hefði ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni vegna slyssins.
II.
Í framangreindri undirmatsgerð var komist að þeirri niðurstöðu, að áfrýjandi hefði í slysinu 28. desember 1999 hlotið tognunaráverka fremur en brotáverka á hrygg. Er það í samræmi við álit tveggja röntgensérfræðinga, sem matsmenn ræddu við, og niðurstöðu röntgenrannsóknar á áfrýjanda 30. ágúst 2000, en þar sagði meðal annars um lendhrygg hans: „Sjúklegar breytingar greinast ekki og beinastructur er alveg eðlilegur. ... Hæð á liðbolum er eðlileg. Að vísu er smávægileg fleyglögun á L1, sem er innan eðlilegra marka.“ Um varanlegan miska áfrýjanda og varanlega örorku, sem matsmenn mátu hvort um sig 10%, sagði í matsgerðinni: „Undirritaðir telja að umferðarslysið í desember 1999 hafi leitt til viss varanlegs miska vegna baktognunar og þeirra óþæginda sem fylgt hafa í kjölfarið, sem há matsþola enn bæði í starfi og leik. Um er að ræða þráláta mjóbaksverki sem versna við álag svo sem lyftur og bogur og langar stöður og jafnvel setur. Undirritaðir telja, að þessi þrálátu einkenni geti leitt til skertrar tekjuaflahæfni og geta einnig skert starfsval matsþola ekki síst þar sem hér er um að ræða ófaglærðan verkamann, sem hefur enga sérmenntun eða verkkunnáttu.“
Í yfirmatsgerð var tekið undir það sjónarmið undirmatsmanna, að áfrýjandi hefði tognað við slysið, en ekki hafi verið um hryggbrot að ræða, eins og getum var leitt að í vottorðum lækna, sem grein er gerð fyrir í héraðsdómi. Yfirmatsmenn töldu ekki unnt að fullyrða, að áfrýjandi hefði verið óvinnufær vegna afleiðinga tognunar í baki í kjölfar slyssins, enda hefði hann verið fær um að sinna störfum á dekkjaverkstæði í nokkra mánuði nánast strax eftir það og engin gögn lægju fyrir um það, að hann hefði leitað til læknis vegna veikinda í baki. Yfirmatsmenn bentu á, að áfrýjandi hefði á þessum tíma átt við vímuefnavanda að stríða og veitti sú meðferð, sem hann gekkst undir af þeim sökum í júní 2000, vísbendingu um, að sá vandi hefði að minnsta kosti að einhverju leyti átt þátt í því, að áfrýjandi lét af störfum um vorið 2000. Yfirmatsmenn töldu ennfremur, að hvorki yrði fullyrt á grundvelli þeirra læknisfræðilegu gagna, sem fyrir lægju í málinu, né sú ályktun dregin af þeim, að veikindi áfrýjanda í desember 2000 og eftirfarandi innlögn hans á Reykjalund í janúar 2001 yrði rakin til slyssins í desember 1999. Þeir töldu þannig, að tognunaráverkinn hlyti að hafa verið fremur vægur og yrði að ætla, að heilsufar áfrýjanda eftir slysið í desember 1999 hefði verið orðið stöðugt að liðnum þremur mánuðum eða í lok mars 2000. Þegar loks væri litið til þess, að ekki yrði af gögnum málsins séð, að áfrýjandi hefði orðið fyrir launatekjutapi vegna afleiðinga slyssins, væri það niðurstaða yfirmatsmanna, að um tímabundið atvinnutjón hans væri ekki að ræða.
Eins og áður greinir greiddi stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. áfrýjanda bætur á grundvelli undirmatsgerðar vegna þjáninga í 91 dag og vegna 10% varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku. Þannig hafði félagið viðurkennt í verki, að áfrýjandi hefði orðið fyrir slíkum tognunaráverka í slysinu, að afleiðingar hans væru bæði tímabundnar og varanlegar. Á hinn bóginn er niðurstaða yfirmatsmanna, sem hið stefnda félag reisir sýknukröfu sína á, grundvölluð á því, að engar varanlegar afleiðingar á heilsufar áfrýjanda hafi í raun hlotist af slysinu. Þetta fær ekki samrýmst þeirri ráðstöfun á sakarefni, sem fólst í framangreindri viðurkenningu félagsins, og verður niðurstaða í málinu um tímabundið atvinnutjón áfrýjanda og tímamark stöðugleika í heilsufari hans samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1999, ekki reist á yfirmatsgerðinni.
Að framan er því lýst, að annar undirmatsmanna leiðrétti niðurstöðu undirmatsgerðar með bréfi til lögmanns áfrýjanda 14. maí 2002, og er ítarlega um það fjallað í héraðsdómi. Með vísan til forsendna dómsins er fallist á það álit hans, að undirmatsgerðin verði ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn um tímabundið atvinnutjón áfrýjanda, hvorki í upphaflegri mynd né eftir umrædda breytingu.
Með hliðsjón af því, sem að framan greinir um þær tvær matsgerðir, sem fyrir liggja, og þar sem ekki nýtur annarra óyggjandi gagna um tímabundið atvinnutjón áfrýjanda er krafa hans um bætur vegna þess svo vanreifuð, að ekki verður hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi.
III.
Með áðurnefndri framhaldsstefnu krafði áfrýjandi stefndu um frekari bætur vegna 10% varanlegrar örorku en stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafði greitt honum með bótauppgjöri 14. mars 2002. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því, að bætur vegna þessa beri að reikna honum eftir 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 en ekki 3. mgr. sömu greinar, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999.
Áfrýjandi var liðlega 16 ára gamall, þegar hann lenti í því umferðarslysi 28. desember 1999, sem mál þetta er sprottið af. Hann hafði lokið grunnskólaprófi um vorið og síðan unnið almenna verkamannavinnu. Vinna áfrýjanda var stopul á árinu 2000, eins og nánar er sagt frá í héraðsdómi, en frá útskrift á Reykjalundi í mars 2001 vann hann verkamannastörf hjá PP verktökum ehf. þar til hann slasaðist að nýju 15. júní sama ár. Áfrýjandi telur þau laun, sem hann naut á þessum skamma tíma, raunhæfan mælikvarða á framtíðartekjutap sitt, en þau hafi verið í samræmi við meðallaun verkamanna samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Ekki hafi staðið til, að hann legði stund á frekara nám í framtíðinni.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1999, skal ákvarða bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. laganna. Eins og aldri og aðstæðum áfrýjanda var háttað á slysdegi fara bætur til hans vegna varanlegrar örorku eftir þessu ákvæði. Í niðurlagi þess segir, að bætur skuli ákveðnar eftir reglum 5. 7. gr. laganna. Áfrýjandi naut ekki atvinnutekna þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag og getur 1. mgr. 7. gr. ekki átt við um útreikning bóta til hans. Í 2. mgr. 7. gr. segir, að árslaun skuli metin sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola en 1. mgr. mælir fyrir um. Ekki er unnt að fallast á, að slíkar aðstæður séu fyrir hendi í tilviki áfrýjanda, sem hafði rétt hafið störf á almennum vinnumarkaði, þegar hann slasaðist fyrra skiptið, en óvissa hlýtur að ríkja um það vegna ungs aldurs áfrýjanda, hvort hann hefði staðnæmst við þau störf eða haslað sér völl á öðrum vettvangi, eftir atvikum að undangengnu frekara námi. Verður ákvörðun bóta til hans vegna varanlegrar örorku því að lúta reglum 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, eins og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. miðaði við í áðurnefndu bótauppgjöri og héraðsdómur staðfesti efnislega. Ber því að sýkna stefndu af þessari kröfu áfrýjanda.
IV.
Niðurstaða þessa dómsmáls er samkvæmt framansögðu sú, að kröfu áfrýjanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns verður vísað frá héraðsdómi. Að öðru leyti ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.
Rétt þykir, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, Finns Hrafns Pálssonar, um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, er vísað frá héraðsdómi. Að öðru leyti skal niðurstaða héraðsdóms vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 13. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Finni Hrafni Pálssyni, kt. 120683-5279, Fitjabraut 6A, Njarðvík, með stefnu og framhaldsstefnu, birtum 7. maí 2001 og 25. nóvember 2002, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, og Rakel G. Sigurðardóttur, kt. 151260-4709, Faxabraut 41d, Reykjanesbæ.
Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök og framhaldssök eru þær, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur, að fjárhæð kr. 3.159.307 með 4,5% ársvöxtum af kr. 1.743.463 frá 15. júní 2001 til 11. apríl 2002, en með dráttarvöxtum af kr. 1.415.844 frá 25. apríl 2001 til 11. apríl 2002, en með dráttarvöxtum af kr. 3.159.307 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 28. apríl 2003. Þess er krafizt, að við ákvörðun málskostnaðar verði höfð hliðsjón af gjaldskrá Landslaga ehf.-lögmannsstofu, og til þess litið, að stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
Dómkröfur stefndu í aðalsök og framhaldssök eru þær aðallega, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins, en til vara, að stefnukröfur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II.
Málavextir:
Málsatvik eru þau, að þriðjudaginn 28. desember 1999, laust fyrir kl. 1310, var stefnandi, Finnur Hrafn Pálsson, á leið til vinnu sinnar hjá dekkjaverkstæðinu Sólningu hf. í Njarðvík. Var hann farþegi í framsæti bifreiðarinnar TV 073, Daewoo Lanos. Ökumaður bifreiðarinnar var vinnufélagi stefnanda, Sigurður Þór Hlynsson, kt. 140379-4099, sonur stefndu, Rakelar G. Sigurðardóttur, sem var skráður eigandi bifreiðarinnar. Bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Var bifreiðinni ekið eftir Fitjabraut í Njarðvík á um 40 km/klst. að sögn. Snjór var og hálka, og þegar bifreiðinni var ekið yfir hraðahindrun á götunni, rann hún til og lenti á ljósastaur við götuna. Miklar skemmdir urðu á bifreiðinni, og ljósastaurinn skemmdist lítillega. Stefnandi var í öryggisbelti, og við áreksturinn blés loftpúði bifreiðarinnar út. Kvaðst stefnandi hafa setið álútur og hafi púðinn skotizt í andlit hans og þeytt honum afturábak. Hann hafi ekki fundið til strax, en síðar um daginn hafi hann leitað til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Segir í stefnu, að hann hafi leitað þangað vegna verkja í baki, en þó einkum í öxl. Í textablaði frá bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er eftirfarandi skráð af Konráði Lúðvíkssyni lækni:
“Ók á ljósastaur inn á Fitjabraut. Ráðlagt að koma hingað í skoðun. Finnur til í öxlinni og við skoðun þá sér maður excoriationir á yfirborðinu þar sem beltið hefur legið yfir hæ. öxl. Hann hreyfir sig óhindrað og ekkert annað athugavert að finna. Ekki fleira aðhafzt.”
Í stefnu er atvikum síðan lýst svo, að stefnandi hafi haldið áfram vinnu sinni hjá Sólningu hf., þrátt fyrir aukna verki í baki. Hann hafi átt í sífellt meiri erfiðleikum með að vinna líkamlega erfitt starf sitt á dekkjaverkstæðinu og hafi af og til verið frá vinnu vegna mikilla verkja í baki, sem stöðugt hafi farið vaxandi. Þá segir, að hann hafi verið orðinn algerlega óvinnufær í maímánuði og hafi þá fljótlega leitað til Jóns Gunnars Hannessonar læknis. Stefnandi hætti alveg störfum hjá Sólningu hf. í lok apríl 2000. Í gögnum málsins kemur fram, að hann hafi átt við vímuefnavanda að stríða frá því fyrir slysið, og allt frá 13 ára aldri. Fór hann í fíkniefnameðferð á vegum Götusmiðjunnar 13. - 21. júní 2000. Kveðst hann ekki hafa neytt fíkniefna síðan.
Engin læknisfræðileg gögn eru í málinu um verkjasögu eða meðferð stefnanda fyrst eftir slysið fyrir utan framangreint textablað frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Fyrsta gagn þar að lútandi er bréf Jóns Gunnars Hannessonar læknis, dags. 12. maí 2003, þar sem hann lýsir því yfir, að Ólafur Ólafsson læknir og staðgengill hans tímabilið desember-ágúst 2000 hafi skrifað út gigtarlyf fyrir stefnanda þann 15. maí 2000, auk þess sem Jón Gunnar hafi gefið stefnanda bólgueyðandi lyf og verkjalyf þann 23. ágúst 2000 og sent hann í röntgenmyndatöku vegna slyssins. Næst liggur fyrir í málinu beiðni sama læknis til Tryggingastofnunar ríkisins um þjálfun fyrir stefnanda, dags. 20.09.2000. Í þeirri beiðni segir m.a., að röntgenmynd sýni fleygbrot á L:1. Einnig liggur fyrir beiðni sama læknis um sjúkravist fyrir stefnanda á Reykjalundi, dags. 27. desember 2000. Þar segir m.a., að stefnandi hafi lent í bílslysi í desember 1999, og sé m.a. talinn hafa hlotið fleygbrot á L:1. Sama áverkagreining kemur fram í sjúkradagpeningavottorði frá Ólafi Ólafssyni lækni, dags. 17. janúar 2001. Í ýmsum öðrum gögnum málsins kemur fram, að tekin hafi verið röntgenmynd af brjóst- og lendarhrygg stefnanda í ágúst 2000, og mun það vera sú rannsókn, sem vísað er til í vottorði Jóns Gunnars Hannessonar læknis.
Röntgenrannsókn sú, sem hér er vitnað til, var lögð fram í málinu 13. maí sl., eða nokkru eftir aðalmeðferð þess og eftirfarandi dómtöku þann 5. sama mánaðar. Er niðurstaða rannsóknarlæknis, Þorkels Bjarnasonar, svohljóðandi:
“RTG. BRJÓSTHRYGGUR
Beinastructur eðlilegur og allt eðlilegt.
RTG. LENDHRYGGUR:
Sjúklegar breytingar greinast ekki og beinastructur er alveg eðlilegur.
Hryggur sveigist aðeins yfir til hægri, en þetta er vafalítið stöðubundið og er ekki óyggjandi um scoliosis að ræða hér. Hæð á liðbolum er eðlileg. Að vísu er smávægileg fleyglögun á L1, sem er innan eðlilegra marka. Ekki merki um spondylolysis eða spondylolisthesis. Diskbil eru eðlileg.”
Í læknisvottorði Magnúsar Ólasonar læknis á Reykjalundi, dags. 6. maí 2001, segir m.a., að röntgenmynd, sem tekin hafi verið tekin í lok ágústmánaðar af brjóst- og lendarhrygg, sýndi engar sjúklegar breytingar og hæð liðbola hafi verið eðlileg, að því frátöldu, að það hafi verið örlítil fleyglögun á L:1, sem hafi þó verið talin innan eðlilegra marka. Þetta hafi verið túlkað af einhverjum sem mögulegt brot, og m.a. hefði stefnandi sjálfur skilið hlutina svo. Þá segir í sama vottorði, að stefnanda hafi versnað verulega í kringum hátíðir eða í desember 2000, og hafi hann verið til verkjameðferðar á Reykjalundi tímabilið 14. janúar til 9. marz 2001. Við skoðun þar hafi ekki verið að sjá stöðuskekkju á hrygg, nema hvað bak hafi verið fremur flatt. Taugaskoðun hafi verið eðlileg og SLR neikvætt. Ísótópaskann í Dómus Medica 8. janúar 2001 hafi einnig verið eðlilegt.
Með bréfi, dags. 20. marz 2001, óskaði lögmaður stefnanda eftir því, að stefndi VÍS greiddi inn á meint tímabundið tjón stefnanda af völdum slyssins með því stefnandi hefði verið mikið frá vinnu síðan slysið varð og alveg frá maímánuði 2000, en frá 14. janúar 2001 hefði hann verið til endurhæfingar á Reykjalundi. Var beiðnin ítrekuð 24. apríl s.á. Stefndi VÍS hafði hins vegar efasemdir um, að stefnandi hefði orðið fyrir nokkru tímabundnu tjóni af völdum bifreiðaóhappsins 28. desember 1999, og náðist ekki samkomulag um það atriði.
Með stefnu birtri 7. maí 2001 höfðaði stefnandi aðalsök í máli þessu til greiðslu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón fyrir tímabilið 1. júní 2000 til 1. marz 2001.
Þann 28. september 2001 voru að beiðni stefnda dómkvaddir tveir matsmenn, þeir Brynjólfur Jónsson læknir, sérfræðingur í bæklunarlækningum, og Júlíus Valsson, sérfræðingur í gigtarlækningum og embættislækningum, til þess að skoða og meta afleiðingar umferðarslyssins þann 28. desember 1999 á heilsu stefnanda. Er matsgerð þeirra dags. 19. febrúar 2002. Er niðurstaða þeirra á þá lund, að stefnandi hafi hlotið tognunaráverka á bak í slysinu, en ljóst sé, að hann hafi verið hraustur í baki fyrir slysið. Þá hafi stefnandi hlotið maráverka á hægri öxl, sem ekki var talinn hafa haft varanlegar afleiðingar. Tímabundna óvinnufærni stefnanda sbr. 2. gr. skaðabótalaga telja matsmenn í lokakafla hafa verið 100% frá 28. desember 1999 til og með 3. janúar 2001 og 100% frá og með 14. janúar 2001 til og með 9. marz 2001. Varanleg örorka er metin 10% og varanlegur miski 10%. Þá meta þeir tímabil þjáninga matsþola þrjá mánuði. Heilsufar matsþola telja matsmenn hafa verið orðið stöðugt, þegar 3 mánuðir voru liðnir frá slysinu þann 28. desember 1999. Í umfjöllun matsmanna um tímabundna óvinnufærni stefnanda er tímabundin óvinnufærni hans talin hafa verið í eina viku fyrst eftir slysið, en síðan, eins og segir í niðurstöðukafla, frá 14. janúar 2001 til 9. marz 2001. Er þannig ljóst, að ritvilla er í niðurstöðukafla, þar sem tímabundin óvinnufærni er talin hafa verið frá slysdegi til 3. janúar 2001. Með bréfi Júlíusar Valssonar, dags. 4. marz 2002, er þessi villa leiðrétt. Þann 14. marz 2002 greiddi stefndi VÍS stefnanda tjón hans samkvæmt niðurstöðu matsmanna, en hafnaði tekjutjóni vegna tímabundinnar óvinnufærni. Þá voru bætur stefnanda fyrir ótímabundna örorku byggðar á lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Voru stefnanda þannig greiddar samtals í bætur kr. 4.018.727.
Með bréfi Júlíusar Valssonar til lögmanns stefnanda, dags. 14. maí 2002, leiðréttir matsmaðurinn niðurstöðu matsgerðarinnar enn á ný og metur tímabundna óvinnufærni vegna slyssins frá 28. desember 1999 til og með 9. marz 2001. Eru rök hans eftirfarandi:
“Matsmenn töldu á sínum tíma rétt að meta tímabundna óvinnufærni vegna slyssins þ. 28. desember 1999 eftirfarandi:
100% frá slysdegi þ. 28. desember 19999 til og með 3. janúar 2000.
Hann dvaldi á Reykjalundi til endurhæfingar beinlínis vegna afleiðinga slyssins frá 14. janúar til 9. marz 2001 og þótti matsmönnum rétt að taka þann tíma einnig með í mati á tímabundinni óvinnufærni. Matsmönnum þótti þó rétt, að stöðugleikapunktur yrði settur þegar þrír mánuðir voru liðnir frá slysinu, þar sem hann hafði eftir þann tíma farið í meðferð vegna vímuefnavanda. Í ljós hefur hins vegar komið, að sú vímuefnameðferð sem tjónþoli gekkst undir hjá Götusmiðjunni varaði einungis í 8 daga, sem bendir til þess að vímuefnavandi hans hafi ekki verið af mjög alvarlegum toga. Segja má því, að rétt sé að setja stöðugleikapunkt vegna slyssins þegar meðferð lauk á Reykjalundi þ.e. þ. 9. marz 2001. Með sömu rökum má í raun segja, að tímabundin óvinnufærni vegna slyssins hafi í raun verið 28. desember 1999 til og með 9. marz 2001 er meðferð lauk á Reykjalundi að frátöldum þeim tíma, sem Finnur var við störf, en það kemur fram í vottorði Magnúsar Ólasonar læknis á Reykjalundi, dags. 19. janúar 2001, að Finnur var enn óvinnufær er vottorðið var ritað.”
Með framhaldsstefnu, birtri 25. nóvember 2002, krafði stefnandi stefndu um bótagreiðslur í samræmi við framangreinda leiðréttingu á matinu vegna tímabundins tekjutaps og þjáningarbóta, auk greiðslu hærri bóta vegna varanlegrar örorku, sem miðuð væri við meðalmánaðarlaun stefnanda, eins og þau voru, eftir að stefnandi útskrifaðist af Reykjalundi.
Þann 27. september 2002 voru að beiðni stefnda dómkvaddir þrír yfirmatsmenn; þau Áslaug Björgvinsdóttir lögfræðingur, Bjarni Valtýsson læknir og Sigurður Thorlacius læknir, til að meta hvenær heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt eftir umferðarslysið 28. desember 1999 og hvert sé tímabundið atvinnutjón hans af völdum slyssins. Er matsgerð þeirra dags. 9. desember 2002 og er niðurstaða þeirra á þá lund, að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt í skilningi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga í lok marz 2002, en stefnandi hafi ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni af völdum slyssins.
Samkomulag hefur ekki tekizt um ágreining aðila.
III.
Málsástæður stefnanda:
Aðalsök:
Stefnandi kveður bótaskyldu stefndu vera viðurkennda, en stefnandi byggi kröfu sína um bætur fyrir líkamstjón á 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. l. mgr. 93. gr. og 95. gr. sömu laga. Krafan styðjist einnig við l. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en stefnandi hafi verið óvinnufær frá 1. júní 2000.
Óvinnufærni stefnanda af völdum umferðarslyssins 28. desember 1999 sé staðfest með vottorðum þriggja lækna, sem allir hafi haft stefnanda til skoðunar og meðferðar. Af vottorði Jóns Gunnars Hannessonar, dags. 27.12.2000, megi ráða, að stefnandi sé óvinnufær m.a. vegna hryggbrots, er hann hlaut í bílslysinu. Í vottorði Ólafs Ólafssonar læknis frá 17. janúar 2000 komi fram, að stefnandi sé alveg óvinnufær frá júní 2000 vegna fleygbrots í hrygg, sem rekja megi til umferðarslyssins í desember 1999. Vottorð Magnúsar Ólasonar læknis votti dvöl stefnanda í endurhæfingu frá 14. janúar 2001 og staðfesti óvinnufærni hans frá ágúst 2000.
Þannig sé óvinnufærni stefnanda vegna slyssins í desember 1999 fullsönnuð, og hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., raunar ekki leitazt við að hnekkja því mati með læknisfræðilegum rökum eða gögnum.
Samkvæmt yfirlýsingu frá vinnuveitanda hans hefðu mánaðarlaun stefnanda eftir maí 2000 numið kr. 157.316. Launtap hans í 9 mánuði frá l. júní 2000 til l. marz 2001 nemi því samtals kr. 1.415.844., sem sé stefnufjárhæðin í aðalsök. Þá fjárhæð sé stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., skylt að greiða Finni Hrafni Pálssyni.
Stefnandi hafi fengið greidd laun frá vinnuveitanda sínum í janúar, febrúar, marz og apríl 2000, þegar hann var af og til óvinnufær vegna afleiðinga umferðarslyssins, en frekari rétt til greiðslu launa frá vinnuveitandanum hafi hann ekki átt, enda starfsaldur hans stuttur, eða frá miðjum ágúst 1999.
Stefnandi hafi unnið fyrri hluta maímánaðar 2000 hjá Einari S. Svavarssyni, verktaka, en gefizt þá upp vegna bakverkja.
Stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi algerlega neitað að greiða jafnvel hluta af sönnuðu, tímabundnu atvinnutjóni stefnanda. Hafi félagið óskað eftir frekari gögnum til sönnunar á óvinnufærni hans af völdum slyssins og fjártjóni hans. Slíkt sé óþarfi, enda óvinnufærni og tekjumissir stefnanda frá l. júní 2000 til 1. marz 2001 hvort tveggja fullsannað með framlögðum gögnum.
Dráttarvaxtakrafa stefnanda styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Upphafstími dráttarvaxta miðist við 25. apríl 2001, en þann dag hafi stefndi hafnað réttmætum kröfum stefnanda.
Málskostnaðarkrafa stefnanda byggi á l. mgr. 129. og l. og 3. mgr. laga nr. 91/1991 (sic. í stefnu) um meðferð einkamála.
Framhaldssök:
Bótaútreikningur og bótafjárhæð.
Um útreikning skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda fari að skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þau voru í gildi á slysdegi. Til grundvallar bótaútreikningi liggi matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, dags. 19. febrúar 2002, sbr. leiðréttingu á matinu, dags. 14. maí 2002. Kröfugerð stefnanda í framhaldssök sundurliðist þannig:
1. Þjáningabætur kr. 294.810
2. Varanleg örorka kr. 1.448.653
Samtals kr. 1.743.463
Um 1. tölulið.
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 19. febrúar 2002, sbr. dskj. nr. 21, komi fram, að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í þrjá mánuði, og hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þegar greitt stefnanda bætur í samræmi við það. Stefnandi telji á hinn bóginn, að þar sem matsgerðin hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum, og þar sem matsmaðurinn, Júlíus Valsson, hafi leiðrétt matsgerðina þann 14. maí 2002, hvað varði tímabil tímabundinnar örorku, beri að miða tímabil þjáninga við sama tímabil og tímabil tímabundinnar örorku.
Stefnandi krefjist þess því, að honum verði greiddar þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1997 þann sama tíma og tímabundin örorka hans hafi verið metin af matsmönnum, eða frá 28. desember 1999 til 9. marz 2001, samtals í 408 daga. Krafa vegna þessa þáttar nemi því, m.t.t. vísitöluhækkunar samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga: 408 x kr. 930 = kr. 379.440. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi greitt stefnanda þjáningabætur í 91 dag, samtals kr. 84.630, og dragist sú fjárhæð frá kröfu stefnanda. Samtals hljóði því krafa stefnanda vegna þjáninga samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 upp á kr. 379.440 - kr. 84.630 = kr. 294.810.
Um 2. tölulið
Varanleg örorka stefnanda vegna umferðarslyssins þann 28. desember 1999 sé 10% að mati matsmanna. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi greitt stefnanda bætur vegna varanlegrar örorku, byggðar á lágmarkslaunum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Ekki verði fallizt á það af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi haft sæmilegar vinnutekjur fyrir slysið, þrátt fyrir mjög ungan aldur, en þá hafi hann verið rétt orðinn 16 ára, sbr. þær upplýsingar, sem komi fram í kafla um bætur fyrir tímabundið tekjutap stefnanda (1. tl.) hér að framan. Sama sé að segja um tímabilið frá janúar til maí 2000, þó að stefnandi væri þá nokkuð mikið frá vinnu vegna afleiðinga umferðarslyssins.
Skömmu eftir útskrift af Reykjalundi vorið 2001 hafi stefnandi hafið störf sem verkamaður hjá PP verktökum ehf. og unnið þar fram til 15. júní sama ár, er hann slasaðist mjög alvarlega. Full meðalmánaðarlaun hans þar hafi verið kr. 189.043, og árslaun, að viðbættu 6% framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð, séu því kr. 2.204.620. Þessi laun séu raunhæfur mælikvarði á framtíðartekjutap stefnanda og séu í samræmi við meðallaun verkamanna samkvæmt útreikningi Hagstofu. Krafa stefnanda vegna bóta fyrir varanlega örorku nemi því kr. 2.404.620 x 10% x 17,893 = kr. 4.302.586.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi þegar greitt stefnanda kr. 2.853.933 vegna varanlegrar örorku, og dragist sú fjárhæð frá fyrrnefndri kröfu. Viðbótarkrafa stefnanda vegna bóta fyrir varanlega örorku sé því kr. 4.302.586 - kr. 2.853.933 = kr. 1.448.653.
Í stefnu, sbr. dskj. nr. 1, séu stefndu krafin um greiðslu á kr. 1.415.844 vegna tímabundins tekjutaps stefnanda. Heildarkröfur stefnanda á hendur stefnda séu því samtals kr. 3.159.307 og sundurliðist þannig:
Tímabundið tekjutap kr. 1 .415.844
Þjáningabætur kr. 294.810
Bætur fyrir varanlega örorku kr. 1.448.653
kr. 3.159.307
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og IlI. kafla, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Vaxta sé krafizt frá slysdegi, en dráttarvaxta frá 11. apríl 2002, þ.e. er mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., bréflega um greiðslu skaðabóta, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn, sem stefndu hafi verið þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Um heimild til útgáfu framhaldsstefnu vísist til 29. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, enda séu kröfur í framhaldsstefnu samkynja kröfum í stefnu, þar sem þær sé að rekja til sama umferðarslyssins, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verði það metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki haldið fram kröfum, sem birtist í framhaldsstefnu, í stefnu, þar sem ekki hafi legið fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna um varanlegar afleiðingar umferðarslyssins á stefnanda, er stefna var gefin út.
Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður stefnda:
Aðalsök:
Sýknukrafa stefndu er á því byggð, að ekki sé sannað, að stefnandi, Finnur Hrafn Pálsson, hafi orðið fyrir nokkru tjóni af völdum bifreiðaóhappsins 28. desember 1999.
Sé ekki sannað, að stefnandi hafi hlotið nokkurt fleygbrot í hrygg við óhappið, eða að umstefnt, tímabundið atvinnutjón hans sé að rekja til þess. Séu ummæli um fleygbrot í læknisvottorðunum á dskj. nr. 5 og 7 bersýnilega röng og á misskilningi byggð, sbr. læknisvottorð Magnúsar Ólasonar læknis á dskj. nr. 17, en þar komi fram, að einu sjúklegu breytingarnar, sem greinzt hafi í baki stefnanda sé örlítil fleyglögun á L:1, sem þó sé innan eðlilegra marka. Sé þannig ósannað, að stefnandi hafi yfir höfuð hlotið nokkurt fleygbrot í hryggnum. Sé sömuleiðis ósannað, að sú örlitla fleyglögun, sem þar greindist, og bakverkir stefnanda séu af völdum bifreiðaóhappsins 28. desember 1999, en ekki af völdum sjúkdóms eða annarra óhappa. Verði hins vegar talið, að umstefnt tímabundið atvinnutjón sé að einhverju leyti að rekja til bifreiðaóhappsins 28. desember 1999, sé varakrafa byggð á því, að lækka beri stefnukröfur, en þeim sé mótmælt sem of háum. Sé t.a.m. ósannað, að stefnandi hafi hætt vinnu sinni hjá Sólningu hf. í apríllok 2000 vegna óvinnufærni af völdum bílslyssins en ekki af völdum misnotkunar vímuefna, en fyrir liggi að hann hafi farið í meðferð af þeim sökum í byrjun júní, sbr. dskj. nr. 17. Þá sé ósannað, að bakverkir stefnanda, sem voru tilefni þess, að hann fór á Reykjalund til endurhæfingar, séu afleiðing bílslyssins. Loks sé ósennilegt, að stefnandi hefði uppfyllt skilyrði um mætingabónus og afkastabónus, sem getið sé í vottorði vinnuveitanda á dskj. nr. 8. Beri að virða öll þessi atriði til lækkunar.
Kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Framhaldssök:
Sýknukrafa stefndu er á því byggð, að með bótauppgjörinu þann 13. marz 2002, sbr. dskj. nr. 28-29, hafi umstefnt líkamstjón stefnanda af völdum bílslyss hans þann 28. desember 1999 verið að fullu bætt, og eigi stefnandi engan rétt til frekari bóta úr hendi stefndu. Því til stuðnings sé bent á eftirfarandi:
Hugleiðingar Júlíusar Valssonar í bréfi hans frá 14 maí 2002 (dskj. 30) um lengd tímabundinnar óvinnufærni og þjáningatíma, sem stefnandi byggi á kröfur sínar um tímabundið atvinnutjón og þjáningabætur, séu órökstuddar og ósannaðar. Einnig hafi Júlíus með þeim kollvarpað sönnunargildi matsgerðarinnar. Ekki sé heldur að sjá, að hinn matsmaðurinn, Brynjólfur Jónsson læknir, sé sama sinnis og Júlíus. Hvað sem því líði, þá hafi hugleiðingum Júlíusar algerlega verið hnekkt með matsgerð dómkvaddra yfirmatsmanna á dskj. nr. 34. Sé því enginn grundvöllur undir kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón eða undir kröfu hans um þjáningabætur umfram það, sem bætt hafi verið.
Sé ósannað, að mati yfirmatsmanna, að stefnandi hafi verið tímabundið óvinnufær fyrstu mánuðina eftir slysið, eða að dvöl hans á Reykjalundi síðar sé af völdum þess. Segi m.a. í yfirmatsgerðinni, að hvorki verði fullyrt á grundvelli fyrirliggjandi læknisfræðilegra gagna né ályktað af þeim, að veikindi stefnanda í desember 2000 og eftirfarandi innlögn hans á Reykjalund í janúar 2001 verði rakin til slyssins. Þá verði ekki fullyrt, að stefnandi hafi verið óvinnufær fyrstu mánuði eftir slys í ljósi þess, að hann hafi verið fær um að sinna störfum á dekkjaverkstæði í nokkra mánuði, nánast strax eftir slysið, og engin gögn séu um, að hann hafi leitað læknis vegna bakveikinda. Jafnframt liggi fyrir, að hann hafi á þessum tíma, og þegar fyrir slysið, átt við vímuefnavanda að stríða og leitað aðstoðar Götusmiðjunnar af þeim sökum, sem gefi vísbendingu um, að sá vandi hafi a.m.k, að einhverju marki átt þátt í því, að stefnandi lét af störfum vorið 2000. Sé sýnt og sannað með yfirmatsgerðinni, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tímabundnu atvinnutjóni af völdum slyssins. Beri því að hafna öllum kröfum stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Einnig sé sýnt og sannað með yfirmatsgerðinni, að heilsufarslegur stöðugleikapunktur stefnanda eftir slysið sé í marzlok 2000, eða þremur mánuðum eftir slysið, en ekki 9. marz 2001, eins og stefnandi miði við. Beri því sömuleiðis að hafna kröfu hans um frekari þjáningabætur. Hafi matsgerð yfirmatsmanna ekki verið hnekkt.
Loks eigi krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku miðað við meðallaun verkamanna eða laun stefnanda sjálfs sem verkamanns hjá PP verktökum sumarið 2001 engan rétt á sér. Sé hið eina rétta í tilviki stefnanda að miða við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og stefndi hafi gert í bótauppgjörinu. Stefnandi hafi verið aðeins 16 ára að aldri á slyssdegi og því barn í skilningi skaðabótalaga, en í greinargerð með frumvarpinu að breytingarlögum nr. 37/1999 komi fram, að launaviðmiðun barna verði almennt lágmarkslaun, sem og námsmanna, heimavinnandi húsmæðra og annarra þeirra, sem afli engra eða lítilla vinnutekna og áður hafi fallið undir 8. gr. skaðabótalaga, en bætur til þessara hópa tjónþola hafi áður verið ákvarðaðar á grundvelli miskastigs. Þá sé meginregla skaðabótalaga að miða beri við aðstæður tjónþola á slysdegi, þegar bætur séu ákvarðaðar, en ekki við aðstæður hans einhvern tíma síðar. Eigi launaviðmiðun stefnanda sér þannig enga lagastoð og sé beinlínis andstæð fyrirmælum skaðabótalaga um bótaákvörðun til barna. Beri því alfarið að hafna kröfum stefnanda um frekari bætur fyrir varanlega örorku.
Kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Þá sé kröfu stefnanda um málskostnað sérstaklega andmælt, en stefndu telji mál þetta höfðað í ótíma og að ófyrirsynju og beri að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur vitnið, Eggert Sigurbergsson fósturfaðir stefnanda, og undirmatsmennirnir, Brynjólfur Jónsson læknir og Júlíus Valsson læknir, svo og yfirmatsmaðurinn, Bjarni Valtýsson læknir.
Ágreiningslaust er, að stefnandi varð fyrir bakáverka í umræddu slysi þann 28. desember 1999. Hins vegar er ágreiningur um, hvers eðlis sá áverki var, og hvort hann leiddi til tímabundinnar óvinnufærni stefnanda. Stefnandi byggir á því, að sannað sé með vottorðum þriggja lækna, að hann hafi hlotið fleygbrot í hrygg við slysið, sem hafi valdið óvinnufærni hans umrætt tímabil.
Það liggur fyrir, að stefnandi leitaði til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fyrst eftir slysið, þar sem hann kvartaði einungis um verk í öxl. Greindist hann með mar á öxl eftir öryggisbelti, en ekki var um varanlegt tjón að ræða af þeim áverka. Engin læknisfræðileg gögn liggja fyrir um það í málinu, hvenær hann fer að finna fyrir bakverk, en sjálfur skýrði hann svo frá fyrir dómi, að hann hefði farið að finna fyrir eymslum í baki hálfum mánuði til mánuði eftir slysið. Hann hafi fundið smávegis fyrir því u.þ.b. viku eftir slysið. Hann kvaðst ekki muna, hvenær hann leitaði fyrst til læknis vegna bakverkja. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að stefnandi lenti í bílslysi sumarið 2001, þar sem hann hlaut alvarlega fjöláverka og kom fram hjá honum, að sjúkraþjálfun og önnur meðferð vegna beggja slysanna blandaðist saman í huga hans.
Í vottorði Magnúsar Ólasonar læknis, dags. 6. maí 2001, er haft eftir stefnanda, að hann hafi farið smáversnandi í baki, einkum í janúar og febrúar 2000, og verið orðinn afleitur í marz/apríl, en þá hafi hann verið farinn að missa úr vinnu. Þá segir enn fremur, að stefnandi hafi farið í sjúkraþjálfun. Engin gögn er þó í málinu um, að hann hafi leitað til læknis á þessum tíma eða verið í sjúkraþjálfun. Í matsgerð Júlíusar Valssonar og Brynjólfs Jónssonar, dags. 19. febrúar 2002, er haft eftir stefnanda, að hann hafi verið lurkum laminn fyrst eftir slysið, og eftir að hann hóf störf, hafi hann verið í sæmilega góðu ástandi, en versnað síðan smám saman, og hafi hann farið að fá slæm bakverkjaköst neðarlega í bak. Í yfirmatsgerð á dskj. nr. 35 er haft eftir stefnanda, að hann hafi verið lerkaður eftir slysið og með óþægindi víða um líkamann. Bakverkir hafi orðið áberandi nokkrum dögum eftir slysið, sem hafi farið versnandi. Hafi hann fengið bólgueyðandi lyf og verkjatöflur hjá heimilislækni sínum, Jóni Gunnari Hannessyni. Segir enn fremur í yfirmatsgerð, að stefnandi hafi farið að missa úr vinnu vegna bakverkja um einum og hálfum mánuði eftir slysið. Engin læknagögn eru þó í málinu um verkjameðferð á þessum tíma.
Fram hefur komið, að læknarnir Jón Gunnar Hannesson og Ólafur Ólafsson greina stefnanda með fleygbrot í hrygg. Þessi greining byggir á túlkun þeirra á niðurstöðu röntgenmyndatöku af baki stefnanda í ágústlok 2000. Í matsgerð Júlíusar Valssonar og Brynjólfs Jónssonar kemur fram, að þeir höfðu samband við röntgendeildina í Domus Medica, þar sem röntgenmyndir höfðu verið teknar af stefnanda á vegum Jóns Gunnars Hannessonar læknis í ágúst 2000. Hafa þeir eftir Þorkeli Bjarnasyni sérfræðingi, að hæð liðbola hafi greinst eðlileg og engar sjúklegar breytingar að sjá á hryggnum, nema hvað örlítil fleyglögun greindist á fyrsta lendhryggjarliðsbol, L:1, sem sé talinn innan eðlilegra marka. Þá höfðu matsmenn samband við Guðmund J. Elíasson lækni og röntgensérfræðing, sem yfirfór myndirnar í tilefni matsgerðarinnar, og var niðurstaða hans sú, að um væri að ræða eðlilegt útlit á fyrsta lendarliðbol og fremur ólíklegt, að um hafi verið að ræða áverkamerki eftir slys.
Eins og fyrr er rakið voru niðurstöður röntgenrannsóknarinnar ekki lagðar fyrir dóminn fyrr en í þinghaldi nokkrum dögum eftir að aðalmeðferð lauk. Eru þær niðurstöður í samræmi við þær upplýsingar upplýsingar, sem matsmenn fengu hjá röntgensérfræðingum Domus Medica. Hafa þær ekki verið hraktar, og verður því að telja, að hverfandi líkur séu á því, að stefnandi hafi hlotið hryggbrot við slysið. Þessa niðurstöðu styður einnig vinnuferill stefnanda eftir slysið, en hann vann erfiðisvinnu í hálfan annan mánuð eftir slysið, þegar hann fór að missa úr vinnu, og virðist ekki hafa farið að kenna sér meins í baki fyrr en viku eða hálfum mánuði eftir slysið. Þá sýnist hann ekki hafa talið ástæðu að leita læknishjálpar fyrr en í sumarlok eða haustbyrjun 2000, ef undan er skilin ávísun fyrir hann á gigtarlyf um miðjan maí 2000, en engar upplýsingar eru um, af hvaða tilefni þau lyf voru gefin honum. Með framangreint í huga verður að telja ósannað, að bakvandi stefnanda hafi verið af þeim alvarlega toga, sem hann heldur fram, og fullyrðingar um fleygbrot í læknisvottorðum sýnast byggðar á misskilningi.
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að bakáverki sá, sem hann hlaut við slysið, hafi valdið tímabundinni óvinnufærni frá slysdegi til og með 9. marz 2001, eins og kemur fram í leiðréttingu Júlíusar Valssonar á matsgerð hans og Brynjólfs Jónssonar, dags. 14. maí 2002. Gerir stefnandi kröfu um bætur vegna tímabundinnar óvinnufærni tímabilið 1. júní 2000 til 1. marz 2001, auk þjáningabóta fyrir tímabilið 29. desember 1999 til 9. marz 2001. Einhver ruglingur kemur fram í útreikningi stefnanda á dagafjölda meints þjáningartímabils, en hann telur alls 408 daga, að frádregnum 91 degi, sem þegar hafi verið greiddir.
Svo sem að framan er rakið, leiðrétti matsmaðurinn Júlíus Valsson að því er virtist einhliða niðurstöðu matsgerðarinnar. Fyrir dómi staðfesti Brynjólfur Jónsson hins vegar, að leiðréttingin hefði verið gerð í samráði við hann. Hann hefði verið staddur erlendis, svo þeir hefðu þurft að vinna að leiðréttingunni símleiðis. Hann kvað leiðréttinguna byggða m.a. á vottorði Magnúsar Ólasonar og viðtali matsmanna við stefnanda. Fram kom, að hann hafði ekki haft tíma til að yfirfara gögnin fyrir skýrslutökuna og hafði atburðarrásina því ekki á hreinu. Hann kvaðst aðspurður ekki muna, hvort hann hefði séð vottorð Götusmiðjunnar og sérstaklega aðspurður kvaðst hann aldrei hafa séð gögn þau, sem breytingin á matsgerðinni var byggð á; þeir hefðu bara rætt það símleiðis.
Júlíus Valsson skýrði svo frá, að breytingin hefði komið til vegna viðbótargagna, sem matsmönnum bárust, eftir að matsgerð hafði verið afhent matsbeiðanda. Í upphaflegri matsgerð hefðu upplýsingar frá heimilislækni stefnanda um vímuefnanotkun hans haft áhrif á niðurstöðuna, en síðan hefði komið í ljós, að vímuefnameðferðin hefði ekki verið löng og þá hefðu þeir matsmennirnir talið sig geta dregið þá ályktun, að vímuefnavandamálið eða áfengisvandamálið hefði ekki verið af eins alvarlegum toga og þeir hefðu haldið við gerð matsins, þannig að þeir hefðu heldur dregið úr vægi þess við seinni niðurstöðuna. Hann kvaðst hafa haft fullt samráð um breytinguna við Brynjólf Jónsson. Hann kvað aðspurður, að upphaflegt mat þeirra á vímuefnanotkun stefnanda hefði ekki verið byggt á vottorði Magnúsar Ólasonar læknis, sem hafi sérstaklega tekið fram í vottorðinu, að meðferðin væri vegna umferðarslyss. Sérstaklega aðspurður, hvers vegna vímuefnanotkunin hefði haft slíkt vægi í upphaflegu mati þeirra, enda þótt þeir hefðu haft vottorð Magnúsar undir höndum þá, svaraði hann, að þetta hefði verið mjög erfitt, þeir hefðu fengið ábendingar frá öðrum aðilanum um þennan vanda, sem þeir hafi hreinlega ekki getað horft framhjá, auk þess sem sérstaklega hefði verið tekið fram í matsbeiðni að skoða þetta. Hann hefði því hringt í Jón Gunnar Hannesson, heimilislækni stefnanda, og rætt við hann, og hefði hinn síðarnefndi staðfest, að þessi vandi hefði verið til staðar, en síðan hafi upplýsingar um það, hversu stutt meðferðin var, orðið til þess, að þeim hafi ekki fundizt vandamálið eins alvarlegs eðlis og í fyrstu virtist.
Aðspurður kvað hann matsmennina ekki hafa kynnt sér, hvernig vandamálið hefði verið í raun, nema með nefndu vottorði Götusmiðjunnar og bætti við: “Reyndar fórum við ekki ofan í það nákvæmlega”. Einu upplýsingarnar, sem þeir hefðu haft um vímuefnavanda stefnanda, hefði verið símtal við heimilislækni stefnanda, en ekkert vottfest eða skriflegt. Hins vegar hefðu þeir rætt við stefnanda, sem hefði viðurkennt, að hann hefði átt við vímuefnavandamál að stríða og hefði farið í meðferð. Sérstaklega aðspurður, hvort það hefðu fyrst og fremst verið upplýsingar um lengd vímuefnameðferðarinnar, sem réð því, að þeir skiptu um skoðun, svaraði matsmaðurinn: “Já, ég verð að viðurkenna það, það var fyrst og fremst það.”
Aðspurður, hvort einhvers staðar væri hægt að lesa úr upphaflegri matsgerð, hvaða áhrif vímuefnanotkun stefnanda hefði haft á niðurstöðu þeirra upphaflega, svaraði matsmaðurinn því til, að það sé mjög erfitt að leggja mat á þetta, og hans álit sé, að það sé ekki mikið byggjandi á, hvorki sögu né meðferðarsögu í dag varðandi vímuefnanotkun.
Í niðurstöðukafla í upphaflegri matsgerð segir svo um vímuefnanotkun stefnanda: “Ljóst er því, að matsþoli var kominn til fullrar vinnu fljótlega eftir slysið. Hann mun hafa farið í áfengis- og vímuefnameðferð á svipuðum tíma, en mjög erfitt er að meta að hvað miklu leyti eða hvort vímuefnaneyzla hans hefur haft afgerandi áhrif á vinnuframlag hans, eða hvort einungis væri um að ræða skerta vinnugetu vegna umferðaslyssins í desember 1999. Undirritaðir matsmenn telja því rétt að meta tímabundna óvinnufærni 100% í eina viku ...” Af þessum texta verður ekkert um það ráðið, á hvern hátt upplýsingar um vímuefnanotkun stefnanda hafa mótað niðurstöðu matsmanna. Þeir viðurkenna fyrir dómi að hafa ekki kannað umfang hennar, hvorki við gerð matsgerðarinnar né við leiðréttingu hennar, heldur álykta þeir einungis út frá tímalengd meðferðarinnar. Ekki verður fallizt á, að matsmenn hafi beitt faglegum sjónarmiðum í niðurstöðum sínum að þessu leyti, og verður matsgerðin þegar af þeim sökum ekki lögð til grundvallar sem sönnunargagn, hvorki eins og hún var upphaflega gerð né eftir leiðréttinguna.
Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu, að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt í skilningi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga í lok marz 2000. Í samantekt í lok matsgerðarinnar er talað um marz 2002, en ljóst er, að þarna er um misritun að ræða, sem ekki er í samræmi við þá niðurstöðu, sem rökstudd er í kafla sem kallast “niðurstöður og forsendur matsmanna”. Þá telja þeir, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni af völdum slyssins, sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Niðurstöðu sína byggja þeir á eftirfarandi rökum:
Af fyrirliggjandi upplýsingum má draga þá ályktun, að matsþoli hafi verið hraustur í baki fyrir slysið þann 28. desember 1999, en þá tognað í baki. Ekki verður séð, að um hafi verið að ræða hryggbrot, eins og nefnt er í læknisvottorðum, sem getið var um hér að framan. Þegar horft er til þess, að matsþoli var fær um að sinna störfum á dekkjaverkstæði í nokkra mánuði nánast strax eftir slysið og enn fremur þess, að ekki liggja fyrir nein gögn um að hann hafi leitað til læknis vegna veikinda í baki, telja matsmenn að ekki verði fullyrt nú, að hann hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga tognunar í baki á þessum tíma. Jafnframt liggur fyrir, að á sama tímabili átti hann við vímuefnavanda að stríða og leitaði aðstoðar Götusmiðjunnar af þeim sökum, sem gefur vísbendingu um, að sá vandi hafi a.m.k. að einhverju marki átt þátt í því að matsþoli lét af störfum um vorið 2000. Fyrir liggja upplýsingar um, að vímuefnavandamál matsþola hafi verið til staðar þegar fyrir slysið, sbr. upplýsingar úr sjúkraskrá matsþola á Reykjalundi, sem Magnús Ólason læknir veitti matsmönnum þann 14. nóvember 2002. Matsmenn telja enn fremur, að hvorki verði fullyrt á grundvelli þeirra læknisfræðilegu gagna, sem liggja fyrir í málinu, né sú ályktun dregin af þeim, að veikindi matsþola í desember 2000 og eftirfarandi innlögn hans á Reykjalund, verði rakin til slyssins í desember 1999.
Með hliðsjón af því að matsþoli hóf störf á dekkjaverkstæði nokkrum dögum eftir slysið og var fær um að sinna því starfi í nokkra mánuði þar á eftir telja matsmenn að tognunaráverkinn, sem hann hlaut í slysinu hljóti að hafa verið fremur vægur. Samkvæmt því verður að ætla, að heilsufar matsþola hvað varðar afleiðingar slyssins þann 28. desember 1999, hafi verið orðið stöðugt þremur mánuðum eftir slysið eða í lok marz 2000.
Þegar loks er litið til þess, að af gögnum málsins verður ekki séð að matsþoli hafi orðið fyrir launatekjutapi vegna afleiðinga slyssins þann 28. desember 1999, er það niðurstaða matsmanna, að ekki sé um tímabundið atvinnutjón matsþola að ræða vegna afleiðinga slyssins.”
Einn yfirmatsmanna, Bjarni Valtýsson læknir, gaf skýrslu fyrir dóminum. Aðspurður skýrði hann svo frá, að hefði verið um hryggbrot að ræða hjá stefnanda, hefði það átt að koma miklu fyrr í ljós. Þá hefði verið undarlegt, að stefnandi hefði getað unnið í 3-4 mánuði á dekkjaverkstæði og tekið upp þunga hluti, hryggbrotinn eða með mjög slæma tognun í baki, eins og lýst sé í læknisvottorðum. Þá hafi engin læknisfræðileg gögn verið fyrir hendi fyrr en í ágústmánuði 2000, sem unnt hafi verið að styðjast við. Það hafi verið niðurstaða matsmanna, að eitthvað annað hefði komið þarna til, þó ekkert komi fram um það í gögnum. Hann kvað ekki ólíklegt, að bakverkir gætu stafað af meðfæddum bakgalla, þ.e. fleygmyndun, en um það gæti hann ekki fullyrt, hvort bakverkir stefnanda stöfuðu af því. Sama væri að segja um flatt bak, sem stefnandi var greindur með.
Yfirmatsgerð hefur ekki verið hnekkt. Engin læknisfræðileg gögn eru um meiðsli stefnanda fyrr en í ágúst 2000, fyrir utan vottorð frá komu hans á slysdegi, þar sem hann kvartar um eymsli í öxl. Yfirlýsing heimilislæknis um gigtarlyf til handa stefnanda í maí 2000 varpa ekki ljósi á meiðsli hans, enda kemur þar ekkert fram um ástæðu þeirrar lyfjagjafar. Stefnandi var í erfiðisvinnu í nokkra mánuði eftir slysið, án þess að séð verði að hann hafi á þeim tíma leitað læknis vegna bakverkja. Ekkert í framkomnum gögnum rennir stoðum undir það, að innlögn hans á Reykjalund u.þ.b. ári eftir slysið, verði rakin til slyssins í desember 1999, og er að öllu leyti fallizt á niðurstöðu yfirmatsmanna. Samkvæmt þessu er hafnað kröfum stefnanda um greiðslur vegna tímabundins atvinnutjóns sem og þjáningarbóta.
Stefnandi gerir einnig kröfu um, að örorkutjón hans verði miðað við launatekjur hans, eins og þær voru sumarið 2001. Þessum útreikningi hefur verið mótmælt af hálfu stefnda.
Engin heimild er til þess í lögum að beita útreikningi sem þessum, þegar um örorkutjón barna í skilningi skaðabótalaga er að ræða. Ber því þegar af þeim sökum að hafna þessum kröfulið.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda þykir hæfilega ákveðinn kr. 680.000, þar með talinn útlagður kostnaður, og greiðist úr ríkissjóði. Ekki hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Rakel Guðbjörg Sigurðardóttir, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 680.000, greiðist úr ríkissjóði.