Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-118
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Forsjársvipting
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 6. apríl 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. mars 2020 í málinu nr. 564/2019: A gegn B, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði sviptur forsjá tveggja barna sinna á grundvelli 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Héraðsdómur féllst á að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt og tók til greina fyrrnefnda kröfu gagnaðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.
Leyfisbeiðandi rökstyður beiðni sína með vísan til þess að málið hafi verulegt almennt gildi. Í þeim efnum skírskotar hann til mikilvægis þess að forsjársviptingamál séu rekin í samræmi við lagareglur um réttindi barna og könnun á afstöðu þeirra. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málsmeðferð í Landsrétti hafi verið verulega ábótavant enda hefði dómurinn ekki kannað afstöðu barnanna. Loks telur hann að málið varði sérstaklega mikilsverða hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Verður jafnframt að gæta að því að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda er svo einnig ástatt endranær í málum sem varða forsjá barna og skyld málefni þeirra, en ekki verður séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því hafnað.