Hæstiréttur íslands
Mál nr. 785/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari víki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari hefur sent Hæstarétti athugasemdir sínar, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði byggir sóknaraðili kröfu sína um að héraðsdómarinn víki sæti á b. og g. liðum 5. gr. laga nr. 91/1991. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að í tölvubréfi því er héraðsdómarinn sendi 27. september 2016 hafi ekki falist ólögskyldar leiðbeiningar til varnaraðila í skilningi b. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að draga óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laganna. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Hlédís Sveinsdóttir, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2016.
Með beiðni, dags. 7. október 2015, sem barst dóminum sama dag, krafðist sóknaraðili, Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, þess að bú varnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, kt. [...], yrði tekið til gjaldþrotaskipta með vísan til 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar 5. nóvember 2015 var sótt þing af hálfu sóknaraðila og varnaraðila. Varnaraðili mótmælti kröfunni og var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Í þinghaldi í dag lagði varnaraðili fram kröfu um að dómari viki sæti. Er sú krafa varnaraðila til úrlausnar hér.
I.
Krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta er byggð á því að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila, hinn 1. október 2015. Í beiðni sóknaraðila segir jafnframt að lýst sé neðangreindi kröfu:
Höfuðstóll, gjaldfelldur 18.243.328
Samningsvextir til 1.10.2009 1.083.120
Dráttarvextir til 7.10.2015 15.391.082
Banka- og stimpilkostnaður 20.598
Innheimtuþóknun 953.121
Mót í héraðsdómi 6.800
Greiðsluáskorun 14.800
Birting greiðsluáskorunar 12.500
Fjárnámsbeiðni 23.000
Kostnaður vegna fjárnáms 139.132
Uppboðsbeiðni 6.800
Kostnaður vegna uppboðs 84.300
Kröfulýsing 6.800
Gjaldþrotaskiptabeiðni 23.000
Annar kostnaður 31.700
Vextir af kostnaði 79.070
Virðisaukaskattur 265.998
Innborgun -11.863.125
Samtals kr. 24.522.024
Sóknaraðili kveðst ábyrgjast greiðslu alls kostnaðar af meðferð þessarar kröfu og gjaldþrotaskiptum ef til kemur.
II.
Varnaraðili lagði fram greinargerð í þinghaldi 9. nóvember 2015, þar sem kröfu sóknaraðila var mótmælt og vísað til þess að ágreiningsmál væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um fjárnámsgerðina 1. október 2015. Málinu var frestað að beiðni sóknaraðila til að kynna sér framlögð gögn sóknaraðila og leggja fram frekari gögn, til 23. nóvember 2015. Í þinghaldi þann dag lagði sóknaraðili fram greinargerð og frekari gögn. Málinu var frestað að beiðni varnaraðila til 14. desember 2015 en í þinghaldi þann dag lagði varnaraðili fram bókun þar sem mótmælt var gagnaframlagningu sóknaraðila í þinghaldinu 23. nóvember 2015. Málinu var að ósk varnaraðila frestað til 6. janúar 2016 til að leggja fram frekari gögn. Þegar málið var tekið fyrir þann dag lagði varnaraðili fram ýmis gögn og fékk sóknaraðili frest til 27. janúar 2016 til að kynna sér þau. Í þinghaldi þann dag lögðu báðir málsaðilar fram gögn og var málinu frestað til 2. febrúar 2016. Við fyrirtöku málsins þann dag var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram í málinu 8. apríl 2016. Að beiðni varnaraðila var fyrirhuguðum málflutningi frestað utan réttar til 6. maí 2016, þar sem ekki lá fyrir niðurstaða í ágreiningsmáli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um fjárnám sýslumanns 1. október 2015, sbr. mál nr. Y-5/2015.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð 18. apríl 2016 í máli nr. Y-5/2015 þar sem aðfarargerð sú sem fram fór hjá sýslumanni 1. október 2015 og lauk með árangurslausu fjárnámi var felld úr gildi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar. Var því ákveðið að fresta máli því sem hér er til úrlausnar ótiltekið.
Með dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 356/2016 var hinn kærði úrskurður í máli nr. Y-5/2015 felldur úr gildi. Í kjölfarið var munnlegur málflutningur um kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila ákveðinn 22. ágúst 2016, en síðan var ákveðið að fresta málflutningi að ósk varnaraðila til 26. september 2016 til sáttaumleitana. Sættir tókust ekki og ekki varð af málflutningi 26. september en sóknaraðili samþykkti að ósk varnaraðila að málinu yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir vegna beiðni varnaraðila um endurupptöku á framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016. Með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 3/2016 frá 19. október 2016 var beiðni varnaraðila um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 hafnað. Með tölvupósti lögmanns sóknaraðila 24. október 2016 var upplýst að með úrskurði endurupptökunefndar 19. október 2016 hefði beiðni varnaraðila um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 verið hafnað og var þess óskað að dómari boðaði til aðalflutnings í máli þessu. Dómari boðaði málsaðila til aðalflutnings sem færi fram 9. nóvember 2016. Degi áður, 8. nóvember, óskaði varnaraðili eftir því að málinu yrði frestað þar sem lögmaður varnaraðila hefði sagt sig frá málinu. Dómari synjaði frestbeiðni varnaraðila og setti varnaraðili í kjölfarið fram kröfu um að dómari viki sæti. Krafa varnaraðila var tekin til úrskurðar í þinghaldi í dag, 9. nóvember.
III.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að dómari víki sæti á því að dómari hafi veitt aðila „ólögskyldar leiðbeiningar um málið“. Varnaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segir að dómari verði vanhæfur til að fara með mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Nánar tiltekið byggir varnaraðili á því að dómari hafi, með tölvupósti 27. september 2016 til eiginmanns varnaraðila, Gunnars Árnasonar, með afriti á lögmann sóknaraðila, Dóris Ósk Guðjónsdóttur hdl., gefið sóknaraðila leiðbeiningar umfram skyldu um hvernig ætti að haga málatilbúnaði sóknaraðila og hvernig standa ætti að málinu. Tölvupósturinn hafi falið í sér viðbrögð dómara við tölvupósti Gunnars, sem varnaraðila í máli nr. X-15/2015, þar sem farið hafi verið fram á að mál nr. X-15/2016 yrði sett á dagskrá dómsins með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands 6. september 2016 í máli nr. 520/2016, þar sem umþrætt fjárnámsgerð hafi verið felld úr gildi. Í tölvupósti dómara segi: „Máli nr. X-14/2015: Íslandsbanki gegn Hlédísi Sveinsdóttur, sem mun einnig vera hjá endurupptökunefnd, var frestað með hliðsjón af því að máli nr. X-15/2015 var frestað þar sem erindi væri til meðferðar hjá endurupptökunefnd. Sóknaraðili mun þá væntanlega óska eftir því að það mál verði líka sett á dagskrá dómara. Það væri þá hægt að taka það fyrir í framhaldi af máli nr. X-15/2015 þann 18. október.“
Varnaraðili kveður að mál nr. X-14/2015 og mál nr. X-15/2015 byggist á sömu málsástæðum og sömu málsgögnum og eigi bæði uppruna sinn í því að sóknaraðili telji sig vera eftirstæðan kröfuhafa að lokinni nauðungarsölu á fasteign, á grundvelli veðskuldabréfs í fasteign, sem varnaraðili og Gunnar, ásamt þriðja aðila, hafi gengist upphaflega í ábyrgð fyrir til viðbótar við fyrrgreinda veðtryggingu. Sóknaraðili leggi fjárnámsgerð til grundvallar í báðum málunum en ágreiningi um fjárnámsgerðirnar hafi verið vísað til héraðsdóms og úrskurðir héraðsdóms síðar kærðir til Hæstaréttar. Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm í máli Gunnars hinn 6. september 2016 þar sem umþrætt fjárnámsgerð hafi verið felld úr gildi og þar með hafi grundvöllur sóknaraðila í máli nr. X-15/2015 brostið. Í kjölfar þess hafi Gunnar farið fram á það við dómara að mál nr. X-15/2015 yrði sett á dagskrá dómsins án tafar. Dómari hafi ekki viljað verða við því fyrr en með fyrirtöku 18. október 2016. Sóknaraðili hafi í þinghaldi þann dag, 18. október, óskað eftir því að málinu yrði frestað en Gunnar hafnað því með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar. Í þinghaldinu hafi dómari þráspurt varnaraðila hvort hann hygðist ekki fallast á frest sóknaraðila, en því hafi Gunnar afdráttarlaust hafnað. Dómari hafi þá tekið málið til úrskurðar en hafi ekki enn kveðið upp úrskurð og ekki svarað tölvupósti og símaskilaboðum, þar sem leitað hafi verið skýringa á því hverju það sæti að ekki hafi ennþá verið kveðinn upp úrskurður í málinu. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi sent beiðni til endurupptökunefndar vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016 og farið þess á leit við Gunnar að hann hafi frumkvæði að því að krefjast þess að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili telur engin efni standa til þess að sóknaraðili fái samþykkta beiðni sína um endurupptöku. Þá segir varnaraðili að sóknaraðili hafi samtímis lýst sig reiðubúinn til að afturkalla gjaldþrotakröfu sína á hendur varnaraðila í máli nr. X-14/2015. Sóknaraðili og Gunnar hafi átt í djúpstæðum ágreiningi sem hafi komið til kasta Hæstaréttar í þrígang þar sem sóknaraðili hafi krafist þess að bú Gunnars yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili telur að skýrt hafi komið fram undir rekstri máls nr. X-15/2015 að um óvild dómara sé að ræða í garð eiginmanns varnaraðila, sem eigi aðild að hliðstæðu máli. Með vísan til þess telur varnaraðili að með réttu megi draga óhlutdrægni dómara í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Enn fremur byggir varnaraðili á því að dómari hafi tengsl við sóknaraðila sem séu til þess fallin að draga megi óhlutdrægni dómara með réttu í efa þar sem sóknaraðili eigi veðbönd á heimili dómara. Einnig byggir varnaraðili á því að eiginkona dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness, sem hafi úthlutað til dómara máli nr. X-14/2015, starfi sem yfirmaður hjá sóknaraðila. Um viðskiptasamband sé að ræða milli dómara og sóknaraðila og því megi með réttu draga óhlutdrægni dómara í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Að lokum byggir varnaraðili á því að dómari hafi synjað varnaraðila um að máli nr. X-14/2015 yrði frestað, án þess að fyrir því liggi viðhlítandi rök eða skýringar, en varnaraðili hafi óskað eftir frestun málsins með vísan til þess að lögmaður varnaraðila hefði sagt sig frá málinu með tilkynningu til dómara 8. nóvember 2016.
IV.
Í máli þessu krefst varnaraðili þess að dómari víki sæti með vísan til b-liðar 6. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem dómari hafi veitt sóknaraðila „ólögskyldar leiðbeiningar um málið“. Tölvupóstur sá sem varnaraðili byggir á var svar dómara við beiðni Gunnars Árnasonar, eiginmanns varnaraðila, um að mál nr. X-15/2015 yrði sett á dagskrá dómsins. Eins og fram kemur í málatilbúnaði varnaraðila sjálfs eru mál nr. X-15/2015 og X-14/2015 hliðstæð og hafa verið rekin samhliða. Síðarnefnda málinu hafði verið frestað eingöngu vegna þess að fyrrnefnda málinu hafði verið frestað. Dómari benti á þann möguleika að taka þessi mál fyrir sama daginn, 18. október 2016, ef sóknaraðili myndi óska eftir því. Í þessu felast ekki „ólögskyldar leiðbeiningar um málið“ sem leiða til vanhæfis dómara.
Einnig er því alfarið hafnað að um óvild dómara sé að ræða í garð eiginmanns varnaraðila. Eiginmaður varnaraðila óskaði eftir því við dómara í tölvupósti 27. september 2016 að mál nr. X-15/2015 yrði sett á dagskrá og varð dómari við því sama dag með því að ákveða fyrirtöku 18. október 2016. Eiginmaður varnaraðila krafðist þess að fyrirtaka yrði fyrr í málinu en dómari útskýrði í tölvupósti til varnaraðila að það væri ekki unnt vegna embættisanna dómara og var boðað til þinghalds innan eðlilegs tíma, 18. október. Í þinghaldi 18. október krafðist varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila yrði hafnað en sóknaraðili gerði kröfu um að málinu yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir hjá endurupptökunefnd um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 520/2016. Dómari innti eiginmann varnaraðila eftir afstöðu hans til frestbeiðni sóknaraðila og er það alrangt að dómari hafi þráspurt hvort varnaraðili hygðist ekki fallast á frestbeiðni sóknaraðila. Málið var tekið til úrskurðar um ágreining aðila, sem var tvíþættur, og hefur dómari lögum samkvæmt fjórar vikur til að kveða upp úrskurð. Í tölvupósti varnaraðila til dómara 26. október 2016 kemur fram að varnaraðila er vel kunnugt um að dómari hafi samkvæmt lögum fjórar vikur til að kveða upp úrskurð. Dómari þarf því ekki að veita varnaraðila útskýringar á því af hverju ekki er búið að kveða upp úrskurð í máli nr. X-15/2015 en embættisannir dómara eru miklar. Sérstaklega skal tekið fram að dómari hefur ekki fengið nein símaskilaboð frá eiginmanni varnaraðila. Samkvæmt öllu framansögðu er það fráleitt að dómari hafi sýnt eiginmanni varnaraðila óvild og að dómara beri því að víkja sæti í málinu, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Þá er það ekki rétt að dómari hafi fjárhagsleg tengsl við sóknaraðila. Dómari er ekki með lán hjá sóknaraðila og sóknaraðili á ekki veð í eign dómara. Skjal það sem varnaraðili hefur vísað til er vegna láns hjá Landsbankanum og hefur ranglega í skýringartexta á veðbókarvottorði verið tengt við Glitni, nú Íslandsbanka. Þá er því hafnað að starf eiginkonu dómstjóra Héraðsdóms Reykjaness hjá sóknaraðila leiði til vanhæfis dómara.
Einnig er því hafnað að dómara beri að víkja sæti þar sem dómari hafi synjað beiðni sem varnaraðili setti fram í tölvupósti til dómara í gær, 8. nóvember, um að fyrirhugðum málflutningi næsta dag, 9. nóvember, yrði frestað. Eins og útskýrt var í svari dómara í tölvupósti til varnaraðila 8. nóvember, og eins og rakið hefur verið hér að framan, hefur máli þessu verið frestað ítrekað vegna varnaraðila og málið dregist úr öllu hófi. Niðurstaða liggur fyrir vegna endurupptökubeiðni sóknaraðila hjá endurupptökunefnd og sóknaraðili hefur krafist þess að mál þetta verði til lykta leitt. Dómari hafnar því alfarið að synjun dómara um að veita varnaraðila nú frekari frest í málinu leiði til vanhæfis dómara, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt öllu framansögðu er kröfu varnaraðila um að dómari víki sæti hafnað. Krafa varnaraðila um að dómari víki sæti er með öllu að ófyrirsynju og að því er virðist sett fram með þeim ásetningi að valda drætti á málinu þar sem dómari hafði synjað varnaraðila um frekari frest.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, Hlédísar Sveinsdóttur, um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari víki sæti, er hafnað.