Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2012
Lykilorð
- Frelsissvipting
- Hótanir
- Refsiákvörðun
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2012. |
|
Nr. 118/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Frelsissvipting. Hótanir. Refsiákvörðun. Aðfinnslur.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa svipt þáverandi sambýliskonu sína, A, frelsi sínu í allt að þrjár og hálfa klukkustund á heimili þeirra. X var hins vegar sýknaður af ákæru fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa hótað B lífláti með því að segjast ætla að drepa hana, en Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið fullnægt því skilyrði ákvæðisins að hótunin hefði verið til þess fallin að vekja hjá B ótta um líf, heilbrigði eða velferð hennar eða annarra. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X hefði ekki áður sætt refsingu, engin læknisfræðileg gögn lægju fyrir um að brotið hefði haft alvarlegar afleiðingar fyrir A og engir áverkar hefðu verið á henni eftir frelsisskerðinguna. Þá hefði brotið hefði verið kært til lögreglu nærfellt fjórtán mánuðum eftir að það var framið. Var X því ekki gerð refsing í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
I
Atvik þau, er mál þetta er sprottið af, urðu sunnudaginn 9. ágúst 2009 í íbúð ákærða í fjöleignarhúsinu nr. [...] við [...] á [...] og á bifreiðastæði við húsið. A, en sambúð hennar og ákærða mun hafa lokið framangreindan dag, mætti ásamt móður sinni á lögreglustöðina á [...] 1. október 2010 og kærðu þær þá háttsemi er í ákæru greinir. Voru þá liðnir nærfellt fjórtán mánuðir frá því að hin ætluðu brot voru framin. A upplýsti í skýrslu fyrir dómi að hún hefði farið til lögreglu þremur til fjórum vikum eftir atvik þau, sem ákært er fyrir, til að gefa skýrslu um atvikin, en lögreglan hefði gert það að skilyrði skýrslugjafar að háttsemin hefði verið kærð. Hún kvaðst þá ekki hafa verið reiðubúin til þess. Hún kvað lögmann, sem hún leitaði til um aðstoð, vegna kröfu ákærða um umgengni við dóttur þeirra, er fæddist [...], hafa hvatt sig til að kæra háttsemina. Ákærði mun 20. september sama ár hafa lagt fram hjá sýslumanninum á [...] drög að samningi, sem hann hafði undirritað, um umgengi við dótturina, en A hafnað þessum samningi 29. sama mánaðar.
II
Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi orðið þess valdandi að A komst ekki út úr íbúðinni, sem þau bjuggu þá í, til fundar við móður sína, svo sem þær höfðu sammælst um. Verður lagt til grundvallar að þessi hindrun ákærða hafi staðið frá því um klukkan 16 til um 19:30. Fellur háttsemi ákærða undir 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum lið ákæru því staðfest.
Þá þykir einnig sannað að ákærði hafi á bifreiðastæði við fjöleignarhúsið að [...] viðhaft þau ummæli að hann skyldi drepa B, móður A. Til þess að hótun, eins og ákært er fyrir, falli undir 233. gr. almennra hegningarlaga þarf hún að vera til þess fallin að vekja hjá þeim, sem hún beinist gegn, ótta um líf, heilbrigði eða velferð hans eða annarra. Þótt hótun ákærða hafi verið gróf og lotið að veigamiklum hagsmunum er ósannað að hún hafi vakið ótta B. Í skýrslu fyrir dómi greinir hún frá því að í kjölfar hótunarinnar ,,labbaði ég fram fyrir bílinn þá skaltu bara gera það, ljúka því af strax ef þú ert sá maður. En hann gerði ekki neitt.“ Er því er ekki fullnægt skilyrði 233. gr. almennra hegningarlaga um þau áhrif sem hótun verður að hafa svo ákvæðinu verði beitt. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið.
Samkvæmt framansögðu er ákærði sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Engin læknisfræðileg gögn liggja fyrir um að brotið hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir A. Verður ekki talið að viðtalsmeðferð sem hún sótti að ráði lögmanns síns í Kvennaathvarfi frá desember 2010, er liðnir voru um sextán mánuðir frá því að brotið var framið, hafi hér þýðingu. Engir áverkar voru á A eftir frelsisskerðinguna og greindi faðir hennar frá því í skýrslu fyrir dómi að þau hafi sérstaklega athugað það en ekki séð neitt. Brot ákærða var sem fyrr segir kært til lögreglu nærfellt fjórtán mánuðum eftir að það var framið. Með vísan til þessara atriða verður ákærða ekki gerð refsing í málinu.
Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 218. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraði, en samkvæmt yfirliti ákæruvalds nam hann 500.000 krónum. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Það athugast að í hinum áfrýjaða dómi er skýrlega gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dóminum. Í kafla dómsins um niðurstöðu er á ný rakin, að mestu samhljóða því sem áður er gerð grein fyrir, lýsing á framburði ákærða og vitna. Þessi tvítekning á reifun framburða samrýmist ekki 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 og er aðfinnsluverð.
Dómsorð:
Ákærða, X, verður ekki gerð refsing í máli þessu.
Ákærði greiði 250.000 krónur í sakarkostnað í héraði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 15. febrúar 2012.
Mál þetta, sem þingfest var þann 21. júní 2011 og dómtekið þann 14. nóvember sl. og dómtekið að nýju þann 10. febrúar sl. eftir endurtekinn málflutning, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. júní 2011, á hendur X, kt. [...], [...], [...].
„ fyrir eftirtalin brot framin sunnudaginn 9. ágúst 2009 að [...] á [...]:
1. Aðallega fyrir brot gegn frjálsræði manna og hótanir, til vara fyrir ólögmæta nauðung, með því að hafa svipt þáverandi sambýliskonu sína, A, kennitala [...], frelsi sínu í allt að þrjár og hálfa klukkustund á heimili þeirra, með því að meina henni að fara í burtu, fylgja henni eftir, taka af henni síma, læsa að þeim og halda henni fastri í sófa með því að sitja klofvega ofan á henni og halda utan um líkama hennar, háls og kverkar og neyða hana til að hlusta á sig, og þá jafnframt í samtali við hana hótað að drepa hana og föður hennar og bræður.
2. Hótanir, með því að haf verið ógnandi í framkomu á bifreiðastæði utan við [...] og hóta B, kennitala [...], lífláti, með því að segjast ætla að drepa hana.
Telst 1. ákæruliður aðallega varða við 226. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, en til vara við 225. gr. sömu laga. Telst 2. ákæruliður varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði skilaði greinargerð í málinu og var hún lögð fram 2. september sl. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af dómkröfum ákæruvaldsins en til vara er þess krafist að refsing ákærða verði felld niður. Til þrautavara er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu mögulegu refsingar sem lög leyfa og verði hann dæmdur til greiðslu sektar verði hún skilorðsbundin. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði í öllum tilvikum.
Við upphaf aðalmeðferðar var gengið á vettvang.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að þann 1. október 2010 sneri A sér til lögreglunnar á [...] í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna atburða sem gerst hefðu 9. ágúst 2009. Skýrði hún svo frá að hún og ákærði hefðu hafið samband í ágúst árið 2008 og fljótlega eftir það hafi ákærði viljað stjórna því við hverja hún talaði og hefði samskipti við. Eftir að hún hafi flutt inn til hans í desember 2008 hafi þessi afskipti hans aukist. Hafi hann bannað henni að eiga samskipti við karlkyns vini nema í viðurvist hans og alfarið bannað henni að eiga samskipti við einhleypa karlmenn, hann hafi bannað henni að fara til foreldra sinna og bannað þeim að hitta hana nema með leyfi hans. Hann hafi sagt að það truflaði samband þeirra og þá hafi hann sagt að einhleypir karlmenn myndu reyna að ná henni frá honum. Þetta hafi haldið áfram að þróast og hann hafi haft eftirlit með henni í vinnunni og hafi hún þurft að tilkynna honum hvar hún væri stödd og hvenær hún hafi verið búin að vinna. Þau hafi farið í ferðalag um landið sumarið 2009 og eftir það hafi farið að bera á líkamlegri valdbeitingu af hálfu ákærða. Um verslunarmannahelgina hafi þau farið í útilegu í Húsafell og þar hafi ákærði sýnt henni í tvo heimana og reynt að gera henni ljóst að hún ætti að hlýða honum í einu og öllu, annars hefði hún verra af. Þau hafi farið [...] á [...] til þess að vera viðstödd brúðkaup foreldra hennar og hafi ákærð ekki vikið frá henni allan tímann. Á bakaleiðinni hafi ákærði ákveðið að þau myndu heimsækja afa og ömmu A á [...] og þar hafi þau rekist á mann sem hafi þekkt hana alla ævi. Hafi þau setið í bifreið en maðurinn faðmað hana og kysst í gegnum gluggann. Hafi ákærði við það misst stjórn á sér, öskrað að svona kæmi enginn fram við konuna hans og bakkað af stað þannig að maðurinn hafi henst til og ákærði hafi næstum verið búinn að bakka yfir fætur mannsins. Næstu helgi hafi þau farið í útilegu að Fosstúni og í heitum potti þar hafi ákærði spurt hvað hún ætlaði að gera þegar þau kæmu heim. Hafi A þá sagt að hún ætlaði til mömmu sinnar en ákærði hafi misst stjórn á sér, gripið um háls hennar og hár og kaffært hana þar til henni hafi legið við drukknun. Hafi hann síðan kastað henni upp á bakkann, staðið yfir henni og hótað henni að ef hún gerði ekki eins og hann segði hefði hún verra af. Þau hafi ekið heim til sín um kaffileytið og skömmu eftir það hafi móðir hennar hringt og beðið hana að koma til sín. Hafi A sagst ætla að koma eftir 10 mínútur og sagt ákærða að hún hefði talað við mömmu sína þrátt fyrir að hann hefði ekki leyft það. Hann hafi brugðist reiður við, kastað henni á sófa í stofunni og sest klofvega ofan á hana. Hann hafi tilkynnt henni að sambandi þeirra væri ekki lokið fyrr en hann segði að svo væri og hótað henni að hann ætlaði sér að skera foreldra hana á háls og drepa svo systkini hennar fyrir framan hana og síðast sjálfan sig, ef hún færi til lögreglunnar. A kvað ákærða hafa haldið sér fastri í sófanum frá því um kl. 16:00 alveg fram til kl. 19:30 þegar móðir hennar hafi hringt í síma ákærða, en þá hafi hún heyrt í móður sinni utan við stofugluggann þar sem hún hafi kallað „slepptu dóttur minni.“ Ákærði hefði svarað í símann og hefði móðir hennar hótað að kalla á lögregluna ef hann sleppti henni ekki. Ákærði hafi þurft að sleppa annarri hendinni af hálsi A og hafi hún þá slegið hina hönd hans lausa og sparkað í klofið á honum. Hafi hún þá komist fram á stigaganginn og hálfa leið niður þegar hann hafi náð henni og sagt að hún færi ekki neitt. Hún hefði náð að slíta sig lausa og komast út á bifreiðastæðið. Hafi hún þá séð foreldra sína koma upp heimkeyrsluna að húsinu og hafi hún þá hlaupið í fang föður sínum. Hafi ákærði þá hlaupið inn í bifreið sína og ætlað að aka í burtu en móðir hennar hefði gengið að honum og sagt að hún tryði ekki að nokkur maður gæti komið svona fram. Hafi ákærði þá skrúfað niður rúðuna og öskrað að hann ætlaði að drepa móður hennar. Hafi móðir hennar þá gengið fram fyrir bifreið ákærða og kallað á hann að láta verða af því núna, en ákærði hefði ekkert gert.
Móðir A, B, gaf skýrslu hjá lögreglu sama dag og kvaðst hafa hringt í dóttur sína og beðið hana að koma og hitta sig. Hafi þetta verið á bilinu frá kl. 15:00 til kl. 16:00. Hafi A sagt að hún kæmi eftir 10 mínútur en þegar tíminn hafi liðið án þess að hún kæmi hafi hún farið að heimili ákærða og séð inn um gluggann á stofunni í íbúðinni að ákærði hafi setið klofvega ofan á A. Hafi hún þá tekið kíki sem hún hafi verið með í bifreiðinni og þá hafi hún séð að ákærði hafi setið ofan á A og haldið henni fastri í sófanum með því að halda um háls hennar. Hafi hún þá farið að húsinu og kallað á ákærða að sleppa dóttur hennar. Hún hafi þá náð símasambandi við ákærða og sagt honum að sleppa dóttur hennar, annars myndi hún hringja í lögregluna. Hafi hann þá hótað að drepa hana. A hafi skömmu síðar komið hlaupandi út úr húsinu og beint í fangið á föður sínum. Ákærði hafi komið á eftir A, hlaupið inn í bifreið sína, bakkað út úr stæði og ætlað að aka á brott en B hafi þá gengið fram fyrir bifreiðina en ákærði hafi þá skrúfað niður rúðu og öskrað á hana að hann ætlaði að drepa hana. Hafi hún þá stillt sér upp fyrir framan bifreiðina og sagt honum að gera það núna, en hann hafi ekkert gert, beðið eftir að hún færi og þá ekið á brott.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 1. nóvember 2010 og vísaði sakargiftum á bug. Hann kannaðist ekki við að hafa haldið A í sófanum og þá kvað hann alrangt að hann hefði hótað móður hennar á bifreiðastæðinu.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag hafi þau verið að koma úr ferðalagi um miðjan dag. Móðir A hafi beðið fyrir utan í bifreið sinni við næsta hús og skömmu síðar hafi hún fengið símtal frá móður sinni. Hún hafi farið til foreldra sinna, komið til baka og tilkynnt ákærða að sambandi þeirra væri lokið. Þau hafi farið að ræða málin, sambandið, sambandsslitin og ástæður þeirra. Hann neitaði því að A hefði verið meinað að fara út úr íbúðinni og þá kannaðist hann ekki við að hafa ýtt við henni. Hann kvað foreldra hennar hafa komið um sjöleytið, farið að djöflast á dyrabjöllunni en hann hafi ekki séð ástæðu til að hleypa þeim inn. Hann kvaðst hafa bannað A að hleypa þeim inn, þau hafi verið að tala saman um sín mál og viljað fá frið til þess. Hann kannaðist ekki við að hafa setið á A eða tekið utan um háls hennar. Þá kannaðist hann ekki við að hafa tekið símann af henni. Hann kvaðst hafa orðið sár vegna þeirrar ákvörðunar A að slíta sambandinu en hann hafi hvorki hótað A né öðrum í fjölskyldunni. A hafi gengið út og farið í bifreið foreldra sinna og ákærði hafi farið í sína bifreið. Hann kannaðist ekki við hafa átt nein orðaskipti við foreldra A en móðir hennar hafi gengið fram fyrir bifreið ákærða. Hann hafi síðan ekið brott án þess að eiga orðaskipti við hana. Hann kvað það alrangt að hann hafi hótað að drepa bræður hennar og foreldra og síðan sjálfan sig í þeim tilgangi að hún myndi sturlast og fara á geðdeild. Hann kvað þau hafa eignast dóttur í apríl 2010 og þegar hann hafi farið fram á umgengnisrétt hafi þessar ofsóknir á hendur honum byrjað. Hann taldi foreldra hennar eiga upptökin að þessum sakargiftum. Hann kvaðst ekki enn hafa fengið að sjá dóttur sína. Hann kvað samband sitt við foreldra A hafa farið að kólna vorið 2009 þegar þau hafi viljað kaupa skemmtibát en A hafi átt að ábyrgjast greiðslur, en þá hafi hann lent upp á kant við móður hennar þegar hann setti sig á móti þeirri ráðstöfun.
Vitnið A skýrði svo frá fyrir dómi að hún og ákærði hefðu verið í útilegu og hefðu þau farið í heitan pott í Fossatúni þar sem þau voru. Þar hefðu þau spjallað saman og hefði hann spurt hvað hún ætlaði að gera þegar þau kæmu heim. Hún hafi sagt að hún vildi hitta foreldra sína. Hann hefði þá brugðist þannig við að hann hefði rifið í hár hennar og ýtt henni niður í pottinn og upp aftur. Hann hefði sagt að hann ætlaði að drekkja henni og sagt að það væri ekki allt í lagi með hana. Hún væri drusla og foreldrasleikja og ætti ekkert að umgangast foreldra sína. Þau hafi haldið heim á leið og hafi hún þá farið að hugsa hvernig hún gæti komist í burtu frá ákærða en þetta atvik hafi fyllt mælinn, framkoma ákærða gagnvart henni fram að þessu hafi verið þannig. Þegar þau hafi verið komin heim hafi móðir hennar hringt og hafi hún spurt hvort hún mætti svara símanum. Ákærði hafi leyft það og hafi móðir hennar beðið hana að koma til þeirra og ætti hún að vera ein því hún þyrfti að tala við hana. Hún hafi sagt móður sinni að hún kæmi eftir 10 mínútur. Ákærði hafi þá spurt hvað móðir hennar hafi viljað og hafi hann þá sagt að hún færi ekki ein, hann yrði að koma með. Hann hafi margítrekað þetta og hafi hún þá vitað að hún kæmist ekki frá honum. Þá kvaðst hún hafa sagt honum að hún hygðist slíta samskiptum þeirra, þau væru hætt saman. Ákærði hafi þá tekið um hönd hennar og sagt að þau yrðu að tala saman, hann hafi sett hana í sófann í stofunni og beðið hana um húslyklana. Hún hafi látið hann hafa lyklana, hann hafi gengið fram og læst hurðinni. Hún hafi spurt hvort hún mætti ekki fara þar sem þau væru hætt saman en ákærði hafi neitað því og þyrftu þau að ræða saman áður. Hann hafi staðið yfir henni og byrjað að rakka hana niður, hún væri algjör drusla og hóra, foreldrar hennar væru öryrkjaaumingjar sem ættu bara heima á bótum. Hún hafi margspurt hann hvort hún mætti ekki fara en hann hafi alltaf neitað því. Þess á milli hafi hann talað um hversu mikið hann elskaði hana og hann vildi ekki missa hana. Hún kvaðst eftir þrjá tíma hafa beðið um að fara á salernið en hann hafi í fyrstu neitað því en síðan hafi hann fylgt henni þangað og hafi hún ekki fengið að vera þar ein. Þau hafi rætt um eignaskipti og hafi ákærði talað um að hún greiddi honum 300.000 krónur upp í leigu. Hún hafi samþykkt að leggja þessa fjárhæð inn á reikning ákærða og spurt hvort hún mætti ekki fara heim. Ákærði hafi neitað því og sagt að hann vildi hvorki sjá hana né foreldra hennar aftur. Hann hafi þá ýtt henni aftur sófann, sest klofvega yfir hana og haldið henni með höndum og haldið áfram að svívirða hana. Þá hafi hann sagt að færi hún til lögreglu myndi hún hafa verra af. Hann myndi myrða alla fjölskyldu hennar að henni ásjáandi þannig að hún myndi fara á Klepp. Hún kvaðst um þetta leyti hafa orðið vör við að foreldrar hennar voru að reyna að ná sambandi við hana með því að hringja dyrabjöllunni. Þegar ákærði hafi svarað í símann hafi hann tekið aðra höndina af hálsi hennar og hafi hún þá náð að sparka ákærða af sér og hlaupa út úr íbúðinni. Hafi ákærði hlaupið á eftir henni, gripið í hana og sagt að hún færi ekki neitt. Hún hafi náð að losa sig og þá séð foreldra sína koma og hafi hún hlaupið í fangið á föður sínum. Hafi ákærði þá verið kominn í bifreið sína fyrir framan blokkina og hafi móðir hennar þá sagt við ákærða að hún hefði aldrei trúað því að hann myndi koma svona fram. Hafi ákærði þá hótað að drepa móður hennar og þá hafi hún sagt honum að ljúka því strax. Hún hafi þá farið með foreldrum sínum heim til þeirra. Hún kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða eftir þetta. Hún kvaðst 3-4 vikum eftir þetta hafa talað við sýslufulltrúa og skýrt frá því sem gerðist. Henni hafi verið sagt að fara til lögreglu og gefa skýrslu og kvaðst hún hafa rætt við C lögreglufulltrúa og skýrt honum frá því sem gerðist. Hann hafi þá sagt að hann gæti ekki tekið skýrslu nema hún væri tilbúin til þess að leggja fram kæru. Hún kvaðst fyrir rúmu ári hafa hitt lögmann sinn sem hafi hvatt hana til þess að leggja fram kæru. Í framhaldi af því hafi hún lagt fram kæru. Hún kvaðst ekki hafa getað lagt fram kæru fyrr sökum hræðslu við ákærða og hún kvað kæruna ekki tengjast deilum um umgengnisrétt við dóttur hennar og ákærða.
Vitnið B, móðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að sennilega um hálffjögurleytið hafi hún hringt í dóttur sína og beðið hana að koma í heimsókn. Hún hafi sagst myndu koma eftir 10 mínútur en ekkert hafi bólað á henni. Klukkan hálfátta hafi þau ekið að heimili ákærða og dóttur þeirra og hringt á bjöllu en enginn hafi svarað, þau hafi síðan ekið að verslun beint á móti og þaðan hafi sést í glugga íbúðar ákærða. Hafi hún tekið kíki sem verið hafi í bifreiðinni og kíkt inn um glugga ákærða og þá séð að hann hafi setið klofvega ofan á A sem sat á sófa og fannst henni hann halda höndum um háls hennar eða a.m.k. yfir axlir hennar. Maðurinn hennar hafi tekið kíkinn og séð þetta. Hún hafi þá hringt í síma ákærða, hann hafi ekki svarað og því hafi hún lesið inn á símsvarann þau skilaboð til hans að ef hann ekki sleppti dóttur þeirra yrði hringt á lögregluna. Ákærði hafi svarað henni með ókvæðisorðum og m.a. hótað að drepa hana og börn hennar. Þegar þau hafi ekið upp að blokkinni hafi þau séð dóttur sína koma hlaupandi út og ákærði á eftir. Hafi A þá hlaupið í fangið á föður sínum og farið inn í bifreið þeirra. Ákærði hafi farið inn í bifreið sína, bakkað og þá kvaðst hún hafa gengið að honum og sagt að hún hefði aldrei trúað því að hann hefði hótað að drepa hana. Hefði ákærði þá öskrað á hana og tvívegis hótað að drepa hana og kvaðst hún þá hafa gengið fram fyrir bifreiðina og sagt við ákærða að ef hann væri sá maður sem hann teldi sig vera þá skyldi hann ljúka því af hér og nú. Hún hafi síðan gengið burt en ákærði hafi ekkert gert og ekið í burtu.
Vitnið D, faðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag um hálffjögur hafi B konan hans hringt í A dóttur þeirra og beðið hana að tala við sig. Hún hafi hins vegar ekki komið strax og hafi móður hennar farið að lengja eftir henni. Þau hafi þá farið að heimili ákærða og hamast þar á dyrabjöllu en enginn hafi svarað. Þá hafi þau reynt að hringja í A en slökkt hafi verið á síma hennar. Þau hafi ekið að versluninni [...] en þaðan blasi við stofuglugginn hjá ákærða. Þar hafi hann séð ákærða sitja framan við A. Hann hafi síðan tekið kíki og séð vel að ákærði sat klofvega ofan á henni og fannst honum hendur hans vera á herðum hennar en gat þó ekki fullyrt að svo hefði verið. Þá hafi B hringt og ákærði svarað og er þau hafi komið að blokkinni hafi A verið að koma út. Hún hafi stokkið í fang vitnisins, skjálfandi og nötrandi eins og hrísla en ákærði hafi komið á eftir henni og farið inn í bifreið sína og stöðvað hana rétt hjá þeim. Hafi B þá sagt við ákærða að hún hefði ekki trúað þessu upp á hann. Hafi ákærði þá sagt, „halt þú nú bara helvítis kjafti, ég drep þig nú bara.“ Hafi B þá gengið að bifreiðinni og sagt honum að ljúka því strax. Ákærði hafi ekki látið verða af því og hafi þau farið heim. Hafi þau B farið upp á lögreglustöð morguninn eftir og beðið um að húsi þeirra yrði gefið auga. Hafi þau þá ætlað að gefa skýrslu um atvikið en C lögreglufulltrúi hafi ekki viljað taka skýrslu nema kæra yrði lögð fram. A hafi hins vegar ekki viljað kæra. Vitnið kvað ekki hafa séð á hálsi A eftir þetta.
Vitnið C lögreglufulltrúi skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að A og foreldrar hennar hafi komið á lögreglustöðina, sennilega í ágúst 2009 og skýrt frá ótta sínum við ákærða. Þeim hafi verið gert ljóst að ekkert væri hægt að gera nema kæra yrði lögð fram. Hann taldi ekki um lögreglumál að ræða á þessum tíma. Hann kvað A hafa litið á sig sem mjög kúgaða manneskju af hálfu ákærða. Hann kvaðst ekki hafa gert lögregluskýrslu vegna þessa viðtals.
Vitnið E lögregluvarðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að A og móðir hennar hafi komið á lögreglustöðina og lagt fram kæru á hendur ákærða. Hann staðfesti skýrslu sem hann gerði um vettvang sem snerist um það hvort mögulegt væri að sjá inn um glugga íbúðar ákærða frá þeim stað sem foreldrar A sögðust hafa verið. Hann kvað hafa komið í ljós að mjög greinilega sæist inn í íbúðina.
Vitnið F, skýrði svo frá fyrir dómi að sama dag og daginn eftir umrædd atvik hafi A vinkona hennar sagt henni frá því að ákærði hefði haldið henni nauðugri inni í íbúðinni með líkamlegu ofbeldi, hann hefði tekið hana hálstaki, rifið í hár hennar og lamið hana og þvíumlíkt. Þá hafi hún sagt að ákærði hafi reynt að drekkja henni. Hún kvað sig og vinkonur sínar hafa orðið varar við að A hafi sætt andlegu ofbeldi af hálfu ákærða, þær hafi ekki mátt koma í heimsókn til hennar nema það hentaði ákærða. Hún kvað þetta eftir á ekki hafa komið á óvart. Hún kvaðst hafa séð roða á hálsi A.
Niðurstaða.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök annars vegar að hafa svipt þáverandi sambýliskonu sína frelsi sínu í allt að þrjár og hálfa klukkustund á heimili þeirra með því að meina henni að fara í burtu, fylgja henni eftir, taka af henni síma, læsa að þeim og halda henni fastri í sófa með því að sitja klofvega ofan á henni, halda um líkama hennar, háls og kverkar og neyða hana til að hlusta á sig. Þá er honum jafnframt gefið að sök að hafa hótað að drepa hana, föður hennar og bræður. Hins vegar er ákærða gefið að sök að hafa hótað móður þáverandi sambýliskonu sinnar lífláti með því að segjast ætla að drepa hana.
Ákærði neitar sök og kveður þau hafa verið að koma úr ferðalagi um miðjan dag. Móðir A hafi beðið fyrir utan í bifreið sinni við næsta hús og skömmu síðar hafi hún fengið símtal frá móður sinni. Hún hafi farið til foreldra sinna, komið til baka og tilkynnt ákærða að sambandi þeirra væri lokið. Ákærði neitaði því að A hefði verið meinað að fara út úr íbúðinni og þá kannaðist hann ekki við að hafa ýtt við henni. Hann kvað foreldra hennar hafa komið um sjöleytið, farið að djöflast á dyrabjöllunni en hann hafi ekki séð ástæðu til að hleypa þeim inn. Hann kannaðist ekki við að hafa setið á A eða tekið utan um háls hennar. Þá kannaðist hann ekki við að hafa tekið símann af henni. Hann kvaðst hafa orðið sár vegna þeirrar ákvörðunar A að slíta sambandinu en hann hafi hvorki hótað A né öðrum í fjölskyldunni. A hafi gengið út og farið í bifreið foreldra sinna og ákærði hafi farið í sína bifreið. Hann kannaðist ekki við hafa átt nein orðaskipti við foreldra A en móðir hennar hafi gengið fram fyrir bifreið ákærða. Hann hafi síðan ekið brott án þess að eiga orðaskipti við hana. Hann kvað það alrangt að hann hafi hótað að drepa bræður hennar og foreldra og síðan sjálfan sig í þeim tilgangi að hún myndi sturlast og fara á geðdeild. Hann kvað taldi mál þetta eiga rætur í kröfu hans um umgengni við dóttur þeirra og taldi hann foreldra hennar eiga upptökin að þessum sakargiftum.
A hefur lýst atvikum með allt öðrum hætti. Þau hafi verið í útilegu og hefðu þau farið í heitan pott. Ákærði hefði spurt hvað hún ætlaði að gera þegar þau kæmu heim. Hún hafi sagt að hún vildi hitta foreldra sína. Hann hefði þá brugðist þannig við að hann hefði rifið í hár hennar og ýtt henni niður í pottinn og upp aftur. Hann hefði sagt að hann ætlaði að drekkja henni og sagt að það væri ekki allt í lagi með hana. Hann hefði kallað hana öllum illum nöfnum og á heimleiðinni hefði hún farið að hugsa hvernig hún gæti komist í burtu frá ákærða en þetta atvik hafi fyllt mælinn, framkoma ákærða gagnvart henni fram að þessu hafi verið þannig. Þegar þau hafi verið komin heim hafi móðir hennar hringt og hafi hún spurt hvort hún mætti svara símanum. Ákærði hafi leyft það og hafi móðir hennar beðið hana að koma til þeirra og ætti hún að vera ein því hún þyrfti að tala við hana. Hún hafi sagt móður sinni að hún kæmi eftir 10 mínútur. Ákærði hafi þá spurt hvað móðir hennar hafi viljað og hafi hann þá sagt að hún færi ekki ein, hann yrði að koma með. Hann hafi margítrekað þetta og hafi hún þá vitað að hún kæmist ekki frá honum. Þá kvaðst hún hafa sagt honum að hún hygðist slíta samskiptum þeirra, þau væru hætt saman. Ákærði hafi þá tekið um hönd hennar og sagt að þau yrðu að tala saman, hann hafi sett hana í sófann í stofunni og beðið hana um húslyklana. Hún hafi látið hann hafa lyklana, hann hafi gengið fram og læst hurðinni. Hún hafi spurt hvort hún mætti ekki fara þar sem þau væru hætt saman en ákærði hafi neitað því og þyrftu þau að ræða saman áður. Hann hafi staðið yfir henni og byrjað að rakka hana niður. Hún hafi margspurt hann hvort hún mætti ekki fara en hann hafi alltaf neitað því. Þess á milli hafi hann talað um hversu mikið hann elskaði hana og hann vildi ekki missa hana. Hún kvaðst eftir þrjá tíma hafa beðið um að fara á salernið en hann hafi í fyrstu neitað því en síðan hafi hann fylgt henni þangað og hafi hún ekki fengið að vera þar ein. Þau hafi rætt um eignaskipti og hafi ákærði talað um að hún greiddi honum 300.000 krónur upp í leigu. Hún hafi samþykkt að leggja þessa fjárhæð inn á reikning ákærða og spurt hvort hún mætti ekki fara heim. Ákærði hafi neitað því og sagt að hann vildi hvorki sjá hana né foreldra hennar aftur. Hann hafi þá ýtt henni aftur sófann, sest klofvega yfir hana og haldið henni með höndum og haldið áfram að svívirða hana. Þá hafi hann sagt að færi hún til lögreglu myndi hún hafa verra af. Hann myndi myrða alla fjölskyldu hennar að henni ásjáandi þannig að hún myndi fara á Klepp. Hún kvaðst um þetta leyti hafa orðið vör við að foreldrar hennar voru að reyna að ná sambandi við hana með því að hringja dyrabjöllunni. Þegar ákærði hafi svarað í símann hafi hann tekið aðra höndina af hálsi hennar og hafi hún þá náð að sparka ákærða af sér og hlaupa út úr íbúðinni. Hafi ákærði hlaupið á eftir henni, gripið í hana og sagt að hún færi ekki neitt. Hún hafi náð að losa sig og þá séð foreldra sína koma og hafi hún hlaupið í fangið á föður sínum. Hafi ákærði þá verið kominn í bifreið sína fyrir framan blokkina og hafi móðir hennar þá sagt við ákærða að hún hefði aldrei trúað því að hann myndi koma svona fram. Hafi ákærði þá hótað að drepa móður hennar og þá hafi hún sagt honum að ljúka því strax. Hún hafi þá farið með foreldrum sínum heim til þeirra. Hún kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða eftir þetta. Hún kvaðst 3-4 vikum eftir þetta hafa talað við sýslufulltrúa og skýrt frá því sem gerðist. Henni hafi verið sagt að fara til lögreglu og gefa skýrslu og kvaðst hún hafa rætt við C lögreglufulltrúa og skýrt honum frá því sem gerðist. Hann hafi þá sagt að hann gæti ekki tekið skýrslu nema hún væri tilbúin til þess að leggja fram kæru. Hún kvaðst fyrir rúmu ári hafa hitt lögmann sinn sem hafi hvatt hana til þess að leggja fram kæru. Í framhaldi af því hafi hún lagt fram kæru. Hún kvaðst ekki hafa getað lagt fram kæru fyrr sökum hræðslu við ákærða og hún kvað kæruna ekki tengjast deilum um umgengnisrétt við dóttur hennar og ákærða.
Vitnið B, móðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að sennilega um hálffjögurleytið hafi hún hringt í dóttur sína og beðið hana að koma í heimsókn. Hún hafi sagst myndu koma eftir 10 mínútur en ekkert hafi bólað á henni. Klukkan hálfátta hafi þau ekið að heimili ákærða og dóttur þeirra og hringt á bjöllu en enginn hafi svarað, þau hafi síðan ekið að verslun beint á móti og þaðan hafi sést í glugga íbúðar ákærða. Hafi hún tekið kíki sem verið hafi í bifreiðinni og kíkt inn um glugga ákærða og þá séð að hann hafi setið klofvega ofan á A sem sat á sófa og fannst henni hann halda höndum um háls hennar eða a.m.k. yfir axlir hennar. Maðurinn hennar hafi tekið kíkinn og séð þetta. Hún hafi þá hringt í síma ákærða, hann hafi ekki svarað og því hafi hún lesið inn á símsvarann þau skilaboð til hans að ef hann ekki sleppti dóttur þeirra yrði hringt á lögregluna. Ákærði hafi svarað henni með ókvæðisorðum og m.a. hótað að drepa hana og börn hennar. Þegar þau hafi ekið upp að blokkinni hafi þau séð dóttur sína koma hlaupandi út og ákærði á eftir. Hafi A þá hlaupið í fangið á föður sínum og farið inn í bifreið þeirra. Ákærði hafi farið inn í bifreið sína, bakkað og þá kvaðst hún hafa gengið að honum og sagt að hún hefði aldrei trúað því að hann hefði hótað að drepa hana. Hefði ákærði þá öskrað á hana og tvívegis hótað að drepa hana og kvaðst hún þá hafa gengið fram fyrir bifreiðina og sagt við ákærða að ef hann væri sá maður sem hann teldi sig vera þá skyldi hann ljúka því af hér og nú. Hún hafi síðan gengið burt en ákærði hafi ekkert gert og ekið í burtu.
Vitnið D, faðir A, skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag um hálffjögur hafi B konan hans hringt í A dóttur þeirra og beðið hana að tala við sig. Hún hafi hins vegar ekki komið strax og hafi móður hennar farið að lengja eftir henni. Þau hafi þá farið að heimili ákærða og hamast þar á dyrabjöllu en enginn hafi svarað. Þá hafi þau reynt að hringja í A en slökkt hafi verið á síma hennar. Þau hafi ekið að versluninni [...] en þaðan blasi við stofuglugginn hjá ákærða. Þar hafi hann séð ákærða sitja framan við A. Hann hafi síðan tekið kíki og séð vel að ákærði sat klofvega ofan á henni og fannst honum hendur hans vera á herðum hennar en gat þó ekki fullyrt að svo hefði verið. Þá hafi B hringt og ákærði svarað og er þau hafi komið að blokkinni hafi A verið að koma út. Hún hafi stokkið í fang vitnisins, skjálfandi og nötrandi eins og hrísla en ákærði hafi komið á eftir henni og farið inn í bifreið sína og stöðvað hana rétt hjá þeim. Hafi B þá sagt við ákærða að hún hefði ekki trúað þessu upp á hann. Hafi ákærði þá sagt, „halt þú nú bara helvítis kjafti, ég drep þig nú bara.“ Hafi B þá gengið að bifreiðinni og sagt honum að ljúka því strax. Ákærði hafi ekki látið verða af því og hafi þau farið heim. Hafi þau B farið upp á lögreglustöð morguninn eftir og beðið um að húsi þeirra yrði gefið auga. Hafi þau þá ætlað að gefa skýrslu um atvikið en C lögreglufulltrúi hafi ekki viljað taka skýrslu nema kæra yrði lögð fram. A hafi hins vegar ekki viljað kæra. Vitnið kvað ekki hafa séð á hálsi A eftir þetta.
Vitnið C lögreglufulltrúi skýrði svo frá að A og foreldrar hennar hafi komið á lögreglustöðina, sennilega í ágúst 2009 og skýrt frá ótta sínum við ákærða. Þeim hafi verið gert ljóst að ekkert væri hægt að gera nema kæra yrði lögð fram. Hann taldi ekki um lögreglumál að ræða á þessum tíma. Hann kvað A hafa litið á sig sem mjög kúgaða manneskju af hálfu ákærða.
Vitnið E lögregluvarðstjóri skýrði svo frá að A og móðir hennar hafi komið á lögreglustöðina og lagt fram kæru á hendur ákærða. Hann staðfesti skýrslu sem hann gerði um vettvang sem snerist um það hvort mögulegt væri að sjá inn um glugga íbúðar ákærða frá þeim stað sem foreldrar A sögðust hafa verið. Hann kvað hafa komið í ljós að mjög greinilega sæist inn í íbúðina.
Vitnið F, skýrði svo frá fyrir dómi að sama dag og daginn eftir umrædd atvik hafi A vinkona hennar sagt henni frá því að ákærði hefði haldið henni nauðugri inni í íbúðinni með líkamlegu ofbeldi, hann hefði tekið hana hálstaki, rifið í hár hennar og lamið hana og þvíumlíkt. Þá hafi hún sagt að ákærði hafi reynt að drekkja henni. Hún kvað sig og vinkonur sínar hafa orðið varar við að A hafi sætt andlegu ofbeldi af hálfu ákærða, þær hafi ekki mátt koma í heimsókn til hennar nema það hentaði ákærða. Hún kvað þetta eftir á ekki hafa komið á óvart. Hún kvaðst hafa séð roða á hálsi A.
Ákærði og kærandi eru ein til frásagnar um samskipti þeirra í íbúðinni að því frátöldu að foreldrar kæranda segjast hafa séð með kíki inn um stofugluggann að ákærði sat klofvega ofan á kæranda. Framburður þeirra er þó ekki afdráttarlaus um það hvort ákærði hafi haldið um háls kæranda eða kverkar og verður gegn neitun ákærða að telja það ósannað. Með framburði kæranda og foreldra hennar er því sannað að ákærði hafi setið klofvega ofan á kæranda eins og honum er gefið að sök. Með hliðsjón af framburði kæranda og foreldra hennar ber að hafna þeim framburði ákærða að kærandi hafi farið til foreldra sinna eftir að hún fékk símtalið frá móður sinni. Verður við það miðað að hún hafi vegna aðgerða ákærða gagnvart henni ekki náð sambandi við þau fyrr en eftir u.þ.b. þrjár og hálfa klukkustund. Framburður kæranda er að mati dómsins einlægur og trúverðugur og fær hann stoð í framburði foreldra hennar og F vinkonu hennar. Telst því sannað að ákærði hafi svipt kæranda frelsi sínu í framangreindan tíma. Hins vegar er ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi hótað að drepa kæranda, föður hennar og bræður. Varðar háttsemi ákærða sem rakin er í 1. ákærulið og að því leyti sem hún er talin sönnuð við 226. gr. almennra hegningarlaga.
Að því er háttsemi ákærða á bifreiðastæðinu varðar og rakin er í 2. tölulið ákæru verður með hliðsjón af framburði kæranda og foreldra hennar að telja nægilega sannað að ákærði hafi hótað móður kæranda lífláti eins og honum er þar gefið að sök. Er sú háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu.
Ákærði hefur með framangreindri háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga að langur tími leið þar til lögð var fram kæra á hendur ákærða og nú eru liðin um tvö og hálft ár frá brotum hans. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði en fullnustu hennar skal fresta og skal hún niður falla að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal fresta og skal hún niður falla að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hrl., 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.