Hæstiréttur íslands
Mál nr. 417/2012
Lykilorð
- Þjófnaður
- Gripdeild
- Fjársvik
- Skilasvik
- Hilming
- Skjalafals
- Eignaspjöll
- Nytjastuldur
- Fíkniefnalagabrot
- Umferðarlagabrot
- Tilraun
- Skilorðsrof
- Hegningarauki
- Vanaafbrotamaður
- Ökuréttarsvipting
- Hæfi dómara
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2012. |
|
Nr. 417/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Pálma Má Þórarinssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Gripdeild. Fjársvik. Skilasvik. Hilming. Skjalafals. Eignaspjöll. Nytjastuldur. Fíkniefnalagabrot. Umferðarlagabrot. Tilraun. Skilorðsrof. Hegningarauki. Vanaafbrotamaður. Ökuréttarsvipting. Hæfi dómara. Einkaréttarkrafa.
P var sakfelldur í héraði fyrir fjölmörg hegningarlagabrot, auk umferðarlagabrota og fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi og sviptur ökurétti í tvö ár. P krafðist aðallega ómerkingar héraðsdóms vegna vanhæfis dómara þar sem sá héraðsdómari sem kvað upp dóminn hafði degi áður úrskurðað hann í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með hliðsjón af forsendum umrædds gæsluvarðhaldsúrskurðar féllst Hæstiréttur ekki á með P að ástæða væri til að draga óhlutdrægni dómarans í efa með réttu og var kröfu hans því hafnað. Til vara krafðist P sýknu af því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Meðal annars með vísan til framburðar P hjá lögreglu sem staðfestur var fyrir dómi af þeim lögreglumönnum sem viðstaddir voru skýrslutökuna var P sakfelldur fyrir þetta brot. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um refsingu P en þó að teknu tilliti til gæsluvarðhaldsvistar sem honum hafði verið gert að sæta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en til vara sýknu af broti samkvæmt 34. lið ákæru 13. mars 2012 og að refsing hans fyrir önnur brot verði milduð. Þá krefst ákærði þess að gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt, komi til frádráttar refsingunni og að skaðabótakrafa L ehf. vegna brots samkvæmt 6. tölulið áðurnefndrar ákæru verði lækkuð úr 283.537 krónum í 94.512 krónur.
Q ehf. krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar skaðabætur félaginu til handa, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Aðrir kröfuhafar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að sá héraðsdómari, sem kvað upp dóminn, hafi degi áður úrskurðað hann í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hafi dómarinn því verið vanhæfur til að fara með málið þar sem ákærði hafi haft ástæðu til að draga óhlutdrægni hans í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Úrskurðir héraðsdómara á rannsóknarstigi valda almennt ekki vanhæfi hans til að leysa efnislega úr máli sakbornings nema hann hafi fallist á kröfu um gæsluvarðhald yfir honum samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Með hliðsjón af forsendum umrædds gæsluvarðhaldsúrskurðar verður ekki fallist á með ákærða að ástæða sé til þess að draga óhlutdrægni dómarans í efa með réttu og er kröfu hans um ómerkingu héraðsdóms því hafnað.
II
Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir sakargiftum á hendur ákærða. Á grundvelli skýlausrar játningar var hann sakfelldur fyrir flest brot sem honum voru gefin að sök í ákærum 13. og 29. mars 2012, ef frá eru taldar sakargiftir samkvæmt 34. lið fyrri ákærunnar. Voru brotin talin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunum. Þó hefur farist fyrir að heimfæra til viðeigandi refsiákvæðis þá háttsemi sem lýst er í 8. lið ákæru 13. mars 2012. Sá verknaður ákærða og tveggja meðákærðu í héraði varðar augljóslega við 244. gr. almennra hegningarlaga. Í 19. lið sömu ákæru er ákærða gefinn að sök þjófnaður með því að hafa „brotist inn í bifreiðaverkstæði S ... og stolið þaðan bifreiðinni [...] sem þar var í viðgerð, en ákærði skuldaði reikning vegna viðgerðar bifreiðarinnar“. Ákærði sagði hjá lögreglu að hann væri umráðamaður bifreiðarinnar, en ekki eigandi hennar. Í ljósi þess verður fyrrgreind háttsemi hans ekki felld undir 244. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn braut hann með þessu framferði gegn haldsrétti S ehf. í bifreiðinni og gerðist þar með sekur um brot á 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. laganna. Samkvæmt bókun í þinghaldi 27. apríl 2012 féll ákæruvaldið frá saksókn gegn ákærða á grundvelli 4. liðar ákæru 29. mars 2012 að því er varðaði innbrot í húsnæði T, en ekki Q. Með þessum athugasemdum og að virtri 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sakfella beri ákærða fyrir þau brot sem hann játaði fyrir dómi að hafa framið.
III
Samkvæmt 34. lið ákæru 13. mars 2012 er ákærða meðal annars gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna, óhæfur til að stjórna henni örugglega, við bensínstöð Olís við Tryggvagötu 1 á Akureyri. Í hinum áfrýjaða dómi eru rakin atvik, sem tengjast þessum ákærulið, þar á meðal er gerð grein fyrir matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi sem og vitnisburði fyrir dómi.
Tekin var formleg skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Í henni er tekið fram að honum hafi verið kynnt tilefni skýrslutökunnar og jafnframt að honum væri óskylt að svara spurningum er það varðaði. Þá hafi ákærða verið kynntur réttur til að fá verjanda, en hann ekki talið þess þörf. Samkvæmt skýrslunni kvaðst ákærði hafa komið akandi frá Reykjavík á leið til Egilsstaða með viðkomu á Akureyri. Spurður um hvort hann hafi neytt fíkniefna eftir að akstri lauk svaraði hann því til að hann hafi prófað „að dýfa fingri í fíkniefnaumbúðir sem innihélt leifar af amfetamíni“. Í lok skýrslutökunnar gerði ákærði ekki athugasemdir við hana og skrifaði að því búnu undir skýrsluna. Fyrir dómi kannaðist ákærði við undirskrift sína, en kvaðst ekki hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn. Þá bar vitnið C, [...] ákærða, fyrir dómi að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar, en hann farþegi. Heimir Heiðarsson lögreglumaður, sem stýrði fyrrgreindri skýrslutöku, staðfesti fyrir dómi að ákærði hafi játað að hafa ekið bifreiðinni, svo sem fram kemur í áður tilvitnaðri skýrslu hans. Sama gerði Ólafur Tryggvi Ólafsson lögreglumaður sem var vottur við skýrslutökuna. Þá bar Ragnar Kristjánsson lögreglumaður fyrir dómi að veski C hafi verið á gólfi bifreiðarinnar, farþegamegin. Því hafi hann dregið þá ályktun á vettvangi að hún hafi verið farþegi, en ákærði ökumaður.
Samkvæmt framansögðu játaði ákærði við formlega skýrslutöku hjá lögreglu að hafa ekið bifreiðinni í umrætt skipti og hefur hann ekki gefið haldbærar skýringar á breyttum framburði sínum fyrir héraðsdómi. Með hliðsjón af málsatvikum og tengslum vitnisins C við ákærða er sá framburður hennar að hún hafi verið ökumaður, en ekki ákærði, að engu hafandi. Að teknu tilliti til þess að gætt var fyrirmæla VIII. kafla laga nr. 88/2008 við skýrslutökuna af ákærða hjá lögreglu verður því að leggja til grundvallar játningu hans sem fram kemur í skýrslu hans, en hún var undirrituð af honum og framburðurinn síðan staðfestur fyrir dómi af þeim lögreglumönnum sem voru viðstaddir skýrslutökuna. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða í þessum þætti málsins og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Í samræmi við þá niðurstöðu verður ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða staðfest.
IV
Ákærði var 24. nóvember 2011 og 10. janúar 2012 dæmdur í skilorðsbundna refsingu. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ber að tiltaka refsingu fyrir hluta brotanna í þessu máli sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga, en jafnframt verður höfð hliðsjón af 60. gr. og 77. gr. sömu laga við ákvörðun refsingar. Samkvæmt 61. gr. laganna hafa fyrstnefndir dómar ekki ítrekunaráhrif. Hins vegar er ákærði síbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga, en hann var 29. júní 2012 dæmdur fyrir þrjú auðgunarbrot sem hann hafði framið fyrr á því ári. Að auki hafa ákvæði 2. mgr. 70. gr. og 255. gr. sömu laga áhrif til refsiþyngingar. Á móti kemur að ákærði játaði háttsemi sína greiðlega ef frá eru taldar sakargiftir samkvæmt 34. lið ákæru 13. mars 2012. Þegar allt þetta er virt verður ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest. Þá kemur gæsluvarðhaldsvist hans til frádráttar refsingunni eins og í dómsorði segir.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
V
Í yfirlýsingu ákærða um áfrýjun kom ekki fram að hann gerði kröfu um lækkun á skaðabótakröfu L ehf., eins og skylt er samkvæmt 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum og með skírskotun til 1. mgr. 208. gr. sömu laga verður þeirri kröfu hans vísað frá Hæstarétti.
Q ehf. hefur krafist þess í greinargerð fyrir Hæstarétti að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar dæmdar skaðabætur félaginu til handa. Að teknu tilliti til málsúrslita er rétt að brotaþolinn beri sjálfur kostnað af því að halda bótakröfu sinni fram hér fyrir dómi.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að gæsluvarðhaldsvist ákærða, Pálma Más Þórarinssonar, frá 3. maí 2012 kemur til frádráttar refsingu hans.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 397.690 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Málskostnaður vegna kröfu Q ehf. fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. apríl sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsettri 13. mars 2012, á hendur Pálma Má Þórarinssyni, kt.[...], [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], Y, kt.[...],[...],[...] og Z, kt.[...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2011 og 2012:
I.
Á hendur ákærðu Pálma Má og X fyrir tilraun til þjófnaðar og þjófnað í félagi með öðrum, með því að hafa:
1. Aðfaranótt fimmtudagsins 9. júní 2011 í félagi og í auðgunartilgangi reynt að brjótast inn í [...], með því að reyna að spenna upp hurð á versluninni með kúbeini og átt við glugga á versluninni, en horfið af vettvangi þegar vitni kom að þeim.
M. 020-2011-1282
2. Aðfaranótt föstudagsins 1. júlí 2011 í félagi brotist inn í verslunina [...] við [...] í [...], með því að brjóta glugga að versluninni og stolið þaðan matvöru og einnota grilli, samtals að andvirði kr. 5.799,- og peningum allt að fjárhæð kr. 16.000.
M. 032-2011-2324
3. Aðfaranótt mánudagsins 20. febrúar 2012, í félagi við A í auðgunartilgangi brotist inn í veitingastaðinn [...] [...] í Reykjavík, með því spenna upp hurð og reynt að stela þaðan peningaskáp, en þurft frá að hverfa þegar þjófavarnarkerfi fór í gang.
M. 007-2012-9181
4. Að morgni mánudagsins 20. febrúar 2012, í félagi við A brotist inn í söluturninn [...], [...] í Reykjavík, með því að brjóta upp lúgu á söluturninum og stolið þaðan stálkassa sem innihélt kr. 57.000,- þúsund í peningum, kvittanir fyrir sölu helgarinnar og skiptimynt sem var í afgreiðslukassa.
M. 007-2012-9188
5. Aðfaranótt miðvikudagsins 22. febrúar 2012 í félagi við B og C, við verslunina [...] í [...] stolið þaðan 6 gaskútum sem voru við gaskútageymsluna við verslunina.
M. 007-2012-9774
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 20. gr. sömu laga er varðar lið I.1. og 3.
II.
Á hendur ákærða Pálma Má, Y og Z fyrir tilraun til þjófnaðar og þjófnað í félagi, með því að hafa:
6. Aðfararnótt föstudagsins 28. október 2011 í auðgunartilgangi reynt að brjótast inn í söluturninn [...], að [...] í Reykjavík með því að fara heimildarlaust inn um ólæst hlið að starfsmanninngangi söluturnsins og reynt að spenna þar upp um hurð með kúbeini en ákærða höfðu sett á sig lambhúshettur, en orðið frá að hverfa þar sem hurðin var of rammgerð til inngöngu.
M. 007-2011-64497
7. Aðfararnótt þriðjudagsins 8. nóvember 2011 brotist inn inn í raftækjaverslunina [...] með því brjóta niður rennihurð við inngang verslunarinnar og spenna upp hurð í anddyri verslunarinnar og stolið þaðan 7 leikjatölvum af gerðinni Play station, 2 stafrænum myndavélum af gerðinni Nikon, 2 vefmyndavélum af gerðinni Panasonic, DVD spilara af gerðinni Denver og handfrjálsum búnaði af gerðinni Sony, samtals að verðmæti kr. 719.889,-.
M. 007-2011-66302
Er þetta talið varða við 244. gr. laga nr. 19/1940 og 20. gr. sömu laga er varðar lið I.6.
III.
Á hendur ákærða Pálma Má og Z fyrir þjófnað í félagi ásamt D:
8. Með því að hafa í tvígang á tímabilinu frá 26. október til 10. nóvember 2011 brotist inn í verslunina [...] í Reykjavík með því að spenna upp hurð á lager verslunarinnar og stolið þaðan allt að sex sjónvarpstækjum af gerðinni Denver að andvirði um kr. 500.000,- þúsund.
M. 007-2012-11938
IV.
Á hendur ákærða X:
9. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa hafa föstudaginn 27. maí 2011 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna, óhæfur til að stjórna henni örugglega (tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi) og sviptur ökuréttindum við Borgarbraut í Borgarnesi að bifreiðastæði N1 þar sem akstri lauk.
M. 013-2011-926
Er þetta talið varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
10. Fyrir húsbrot og til vara eignaspjöll, með því að hafa þriðjudaginn 21. júní 2011 farið heimildarlaust inn í sumarbústaðinn nr. [...], með því að spenna þar upp hurð með kúbeini og valda þar með skemmdum á hurð bústaðarins, en lögregla kom að ákærða sofandi í bústaðnum.
M. 013-2011-1149
Er þetta talið varða við 231. gr. og til vara 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
11. Fyrir þjófnað, nytjastuld, skjalabrot og umferðarlagabrot með því að hafa kvöldi þriðjudagsins 21. febrúar 2012 í félagi við B, brotist inn í bílasöluna [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga og stolið þaðan kveikjuáslyklum af bifreiðinni [...] og í framhaldi tekið heimildarlaust bifreiðina af bílaplaninu og ekið á brott sviptur ökurétti. Í framhaldinu stolið skráningarmerkjunum af bifreiðinni [...] við bifreiðastæði við [...] í Reykjavík og í blekkingarskyni og heimildarleysi fest það á bifreiðina [...] og ekið bifreiðinni ásamt B og ákærða Pálma norður í land sömu nótt.
M. 007-2012-9774
Er þetta talið varða við 244. gr., 259. og 157. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
V.
Á hendur ákærða Y:
12. Fyrir þjófnað, með því að hafa á tímabilinu frá byrjun júní 2011 til 15. ágúst 2011 á lager [...], [...] í Reykjavík, í nokkur skipti farið heimildarlaust inn á lagerinn og stolið þaðan allt að 80 dekkjum, samtals að heildarverðmæti kr. 1.375.290,- .
M. 007-2011-49480
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
VI.
Á hendur ákærða Pálma Má:
13. Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 14. apríl 2011 í versluninni [...] í félagi við C stolið Philips heyrnartólum að verðmæti kr. 19.300.
M. 020-2011-921
14. Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. október 2011 í versluninni [...] í Kópavogi stolið adidas peysu að verðmæti kr. 15.990.
M. 007-2011-66221
15. Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 23. október 2011 í versluninni [...] í Mosfellsbæ stolið einu kartoni af Bagatello vindlingum að verðmæti kr. 8.090,- með því að spenna þar upp hurð á tóbaksskáp og stungið kartoninu inn á sig.
M. 007-2011-66191
16. Tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 14. nóvember 2011 í auðgunarskyni brotist inn í söluturninn [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð á söluturninum og reynt að brjóta upp hurð af spilakassa og spenna upp peningaskúffu á afgreiðslukassa en horfið af vettvangi þegar þjófavarnakerfi fór í gang.
M. 007-2011-67489
17. Aðfaranótt mánudagsins 2. janúar 2012 í félagi við E, brotist inn í verslunina [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð og stolið þaðan járnskúffu sem innihélt kr. 15.000 þúsund í peningum.
M. 007-2012-185
18. Aðfaranótt mánudagsins 2. janúar 2012 í félagi við E, brotist inn í veitingarstaðinn [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð á veitingastaðnum og stolið þaðan sjóðsvél sem innihélt kr. 1.000 í peningum og vinningsmiða að fjárhæð kr. 18.050,- og kassa sem innihélt 120 gjafabréf frá [...].
M. 007-2012-191
19. Aðfaranótt sunnudagsins 29. janúar 2012 brotist inn í [...] í Reykjavík, með því að brjóta þar plastrúðu og opnað þar bílskúrshurð og stolið þaðan bifreiðinni [...], sem þar var í viðgerð, en kærði skuldaði reikning vegna viðgerðar bifreiðarinnar að fjárhæð kr. 628.000,-.
M. 007-2012-5009
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga og 20. gr. sömu laga er varðar lið IV. 16.
20. Fyrir tilraun til þjófnaðar og fjársvika, með því að hafa miðvikudaginn 23. nóvember 2011 í versluninni [...] í Garðabæ, reynt að stela skrifborðsstól, með því ganga með stólinn að sjóðsvél og framvísað tilhæfulausu blaði, sem reikning við starfsmann verslunarinnar og þannig reynt að beita blekkingum til að reyna komast yfir stólinn að andvirði kr. 16.950,- en þurft frá að hverfa.
M. 007-2011-73005
Er þetta talið varða við 244. gr. og til vara 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
21. Fyrir tilraun til þjófnaðar og fjársvika í félagi við D, með því að hafa sunnudaginn 4. desember 2011 í versluninni [...] í Garðabæ, reynt að stela skrifborðsstól, með því ganga með stólinn að sjóðsvél og framvísað tilhæfulausu blaði, sem reikning við starfsmann verslunarinnar og þannig reynt að beita blekkingum til að reyna komast yfir stólinn að andvirði kr. 16.950,- en þurft frá að hverfa.
M. 007-2011-73005
Er þetta talið varða við 244. gr. og til vara 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
22. Fyrir gripdeild og til vara tilraun til fjársvika, með því að hafa fimmtudaginn 11. ágúst 2011 í versluninni [...] í Reykjavík tekið heimildarlaust lambalæri að verðmæti kr. 5.030,- og sett það í Bónusplastpoka sem ákærði hafði með sér og reynt að fá lambalærið endurgreitt með blekkingum við starfsmann í versluninni en orðið frá að hverfa með lærið og gengið með það út úr versluninni án þess að greiða fyrir það.
M. 007-2011-49578
Er þetta talið varða við 245. gr. og til vara 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
23. Fyrir skjalafals og til vara tilraun til fjársvika, með því hafa föstudaginn 2. september 2011 á bensínstöð [...] framvísað falsaðri kassakvittun frá [...] dagsett 1. maí 2011 en ákærði hafði afmáð mínustölu á greiðslustrimlinum og reynt að svíkja út skilagjald fyrir tveimur gaskútum sem ákærði hafði stolið og þannig reynt að fá greiðslu að fjárhæð kr. 25.100,- greidda, en orðið frá að hverfa þegar afgreiðslumaður sá að um var að ræða falsaðan strimil.
M. 007-2011-53748
Er þetta talið varða við 155. gr. og til vara við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
24. Fyrir fjársvik og nytjastuld, með því að hafa mánudaginn 12. september 2011 tekið á leigu bifreiðina [...] hjá [...] á Akureyri, án þess að geta greitt fyrir afnotin, en ákærði framvísaði Visa plús kreditkorti til tryggingar greiðslu en ákærði vissi að engin innstæða var inn á kortinu, en ákærða bar að skila bifreiðinni þann 14. september, en ákærði notaði bifreiðina heimildarlaust fram til 15. september, þar sem hún fannst á bifreiðastæði við Icelandair hótel við Þingvallastræti 23.
M. 024-2011-4662
Er þetta talið varða við 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga.
25. Fyrir fjársvik með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 14. september 2011 á [...] við [...] á [...] pantað tvö herbergi, til tveggja nátta, hvítvínsflösku og 6 bjóra á hótelinu og neytt þessara drykkja og gist, án þess að geta greitt fyrir gistinguna og veitingarnar, en ákærði hafði framvísað Visa plús kreditkorti sem hann vissi að engin innistæða var á.
M. 024-2011-4663
Er þetta talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
26. Fyrir hilmingu, með því að hafa 31. ágúst 2011 keypt 4 dekk af ákærða Y vitandi um að þýfi væri að ræða, en dekkjunum hafði verið stolið frá [...] á tímabilinu júní til 15. ágúst 2011, sbr. ákæruliður nr. V. 12 og haldið því frá eiganda sínum, allt til 8. nóvember 2011.
M. 007-2011-49480
Er þetta talið varða við 254. gr. almennra hegningarlaga.
27. Fyrir eignaspjöll, með því að hafa að morgni sunnudagsins 13. nóvember 2011 við [...] í Mosfellsbæ brotið þar rúðu, en tjónið var kr. 102.508.
M. 007-2011-67426
Er þetta talið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
28. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. júlí 2011 ekið bifreiðinni [...] suður Vesturlandsveg við Árvelli á Kjalarnesi á 77 km á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km klst.
M. 014-2011-8433
29. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 17. ágúst 2011 ekið bifreiðinni [...] suður Vesturlandsveg í Hvalfjarðargöngum á 97 km á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km klst.
M. 014-2011-11583
30. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. ágúst 2011 ekið bifreiðinni [...] austur Miklubraut við Ártúnsbrekku á 108 km á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km klst. þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M. 007-2011-55097
31. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 31. ágúst 2011 ekið bifreiðinni [...] norður Vesturlandsveg við Suðurlandsveg á 99 km á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km klst. og án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M. 007-2011-53462
32. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 9. september 2011 ekið bifreiðinni [...] austur Miklubraut við Rauðagerði án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M. 007-2011-55850
33. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 11. febrúar 2012 ekið bifreiðinni [...] við gatnamót Vesturlands- og Suðurlandsvegar í Reykjavík, sviptur ökuréttindum, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M. 007-2012-7660
Er þetta talið varða við 1., sbr. 2. mgr., 37. gr. er varðar ákærulið V. 20 til 23 og 1. mgr. 48. gr., er varðar ákærulið V. 23, 24 og 25, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006.
34. Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 12. september 2011 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna óhæfur til að stjórna henni örugglega, (amfetamín í blóði 20 ng/ml) við bensínstöð [...] á Akureyri, þar sem akstri lauk og þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 5,60 g af amfetamíni, sem fannst í bifreið ákærða eftir leit lögreglu.
M. 024-2011-4617
Er þetta talið varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr., a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, greiðslu sakarkostnaðar og ákærðu Pálmi Már og X til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og einnig er krafist að ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu [...], kt. [...], f.h. F, kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 15.990,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 14. september 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2011-66221
Af hálfu [...], kt. [...], f.h. G hf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 8.090,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi 23. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2011-66191
Af hálfu [...], kt. [...], f.h. H hf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 5.030,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi 11. ágúst 2011 en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2011-49578
Af hálfu [...], f.h. I, kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 84.236,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. september 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
M. 024-2011-4662
Af hálfu [...] kt. [...], f.h. J ehf. kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 72.550,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. janúar 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
M. 024-2011-4663
Af hálfu [...], kt. [...] f.h. K [...], kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 102.508,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi 13. nóvember 2011 en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2011-67426
Af hálfu [...]. f.h. L ehf. kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu Pálma Más Þórarinssonar, Y og Z að fjárhæð kr. 283.537,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi 28. október 2011 en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2011-64497
Af hálfu [...] kt. [...] f.h. G hf. kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu Pálma Más Þórarinssonar og X að fjárhæð kr. 159.483,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi 1. júlí 2011 en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 032-2011-2324
Af hálfu [...], f.h. M hf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi úr hendi ákærða Y að fjárhæð kr. 1.148.108,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, sem var 15. ágúst 2011 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
M. 007-2011-49480
Af hálfu [...], f.h. N hf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar og Z að fjárhæð kr. 1.399.968,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá tjónsdegi, sem var 27. nóvember 2011 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags.
M. 007-2012-11938
Þá var ákæra dagsett 29. mars 2012 í máli nr. S-260/2012 sameinuð málinu en samkvæmt henni er ákærðu Pálma Má, X og Z gefin að sök eftirfarandi brot á árinu 2011 og 2012:
I.
Á hendur ákærðu Pálma Má og Z fyrir þjófnað í félagi, með því að hafa:
1. Fimmtudaginn 28. apríl 2011 í verslun [...] í [...] stolið [...] hrærivél að andvirði kr. 78.790.
M. 008-2011-4755
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Á hendur ákærðu Pálma Má og X fyrir þjófnað í félagi, með því að hafa:
2. Aðfaranótt föstudagsins 24. febrúar 2012 í versluninni [...] við [...] á [...], stolið 2 samlokum, 2 kókómjólk, pítusósuflösku og 1 pakka af Winston sígarettum, með því að ákærði X stakk inn á sig sígarettupakkanum en ákærði Pálmi Már annarri vöru, samtals að andvirði kr. 2.319,-.
M. 024-2012-832
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
III.
Á hendur ákærða Pálma Má fyrir þjófnað, með því að hafa:
3. Aðfaranótt þriðjudagsins 27. september 2011, brotist inn í verslun [...] og [...],[...], [...] í [...], með því að spenna upp útidyrahurð og stolið úr húsnæði [...] kr. 6.000, sem úr skúffu og úr húsnæði [...] uppgjörstösku með kr. 42.500,- þúsund í peningum og uppgjörsinnleggi að fjárhæð kr. 21.294,-, samtals kr. 63.794,-
M. 028-2011-2943
4. Aðfaranótt þriðjudagsins 27. september 2011, brotist inn í húsnæði [...] og [...] að [...],[...] í [...], með því að spenna upp útihurð með meitli og stolið þaðan kr. 10.000 í peningum úr sjóðskassa.
M. 028-2011-2945
5. Aðfaranótt þriðjudagsins 20. mars 2012, í félagi við A, brotist inn í verslun [...], [...] í Reykjavík, með því að brjóta glugga og opna síðan hurð að húsnæðinu og stolið þaðan 3 tölvum af gerðinni HP, samtals að verðmæti kr. 588.621,-
M. 007-2012-15358
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Á hendur ákærða X, fyrir eftirtalin brot:
6. Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 10. júní 2011 í versluninni [...], við [...] á [...], stolið HP fartölvu að andvirði kr. 169.900,-.
M. 021-2011-314
Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
7. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 4. júlí 2011 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti vestur Strandveg að Hótel Eyjum í Vestmannaeyjum, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.
M. 032-2011-2373
Er þetta talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
8. Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. júlí 2011 heimildarlaust tekið bifreiðina [...] á bifreiðastæði við [...], [...]og ekið henni sviptur ökuréttindum um götur Reykjavíkur og til Hellu og aftur til Reykjavíkur.
M. 007-2011-42657
Er þetta talið varða við 259. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
9. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 18. janúar 2012 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega (kókaín í blóði 65 ng/ml) og sviptur ökurétti vestur Ártúnsbrekku í Reykjavík, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.
M. 007-2012-2966
Er þetta talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, og 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
10. Fyrir húsbrot, með því að hafa þann aðfaranótt þriðjudagsins 28. febrúar 2012 farið heimildarlaust inn í sumarbústaðinn, að [...] nr. [...] í [...], en ákærði hafði komist yfir lykil að bústaðnum, en lögregla kom að ákærða í bústaðnum.
M. 013-2012-434
Er þetta talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga.
11. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 28. febrúar 2012 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, frá Akureyri til Reykjavíkur og síðan að sumarhúsi nr. [...] í landi [...] í [...], en ákærði hafði tekið bifreiðina heimildarlaust frá [...] á Akureyri sama dag, en lögregla kom að ákærða í bústaðnum, sbr. ákæruliður nr. IV. 10.
M. 013-2012-434
Er þetta talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og að ákærði X til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu Árna Pálssona hrl., f.h. O ehf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 42.407,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 27. september 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um lögmannskostnað við kröfugerð kr. 22.841.
M. 008-2011-2943
Af hálfu Ólafar Heiðar Guðmundsdóttur hdl., f.h. P hf. kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 63.794,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 27. september 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 028-2011-2943
Af hálfu Davíðs Inga Jónssonar hdl., f.h. Q ehf., kt. [...] er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Pálma Más Þórarinssonar að fjárhæð kr. 10.000,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 27. september 2011 til 14. nóvember 2011, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
M. 028-2011-2945
Af hálfu [...], verslunarstjóra [...], f.h. R, kt. [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærða X, að fjárhæð kr. 169.900,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá 21. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 021-2011-314
Loks var framhaldsákæra 29. mars 2012 á hendur ákærða Pálma Má sameinuð málinu en með henni krefst Einar Þór Sverrisson hrl., f.h. S ehf., kt. [...], sbr. 1. mgr. 153. gr. og 5. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði Pálmi Már Þórarinsson, kt. [...] greiði S ehf. skaðabætur, kr. 412.192,71 með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, frá eindaga, þann 21. desember 2011, til greiðsludags. Til vara er þess krafist að S ehf. verði afhent [...]bifreiðin [...] til vörslu á ný samkvæmt haldsrétti félagsins í bifreiðinni, sem styðst við almennar meginreglur samninga- og veðréttar um haldsrétt, og að viðurkenndur verður réttur S, til þess að selja bifreiðina á uppboði til fullnustu kröfu sinni samkvæmt 1. kröfulið, sbr. 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90, 1991 um nauðungarsölu. Auk þess er krafist að Pálmi Már Þórarinsson greiði S ehf., lögmanns- og innheimtukostnað, sem hlotist hefur af málinu að fjárhæð kr. 75.412,- samkvæmt gjaldskrá [...] lögmannsstofu hf.
Ákæruvald hefur að því er ákæru 13. mars varðar miðað við að fjöldi dekkja samkvæmt 12. tl. ákæru sé 40 dekk, að miðað sé við að háttsemi skv. 20. tl. ákæru sé einungis tilraun til þjófnaðar, að háttsemi skv. 24. tl. ákæru verði einungis felld undir fjársvik, að fallið verði frá háttsemi skv. 31. tl. og að því er ákæru 29. mars 2012 varðar sé fallið frá innbroti í húsnæði Q ehf.
Skaðabótakröfur I, J ehf., K og M hf. hafa verið felldar niður fyrir dóminum þar sem ekki var sótt dómþing fyrir hönd bótakrefjenda.
34. tl. ákæru 13. mars 2012.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 12. september 2011 kl. 04.00 voru lögreglumenn við eftirlit á Tryggvabraut á Akureyri er þeir veittu eftirtekt bifreið með skráningarnúmerið [...] sem var á bifreiðaplani við bensínstöð Olís. Fram kemur að eigandi bifreiðarinnar hafi verið ákærði, Pálmi Már, sem hafi verið þekktur vegna sakaferils síns. Lýst er að lögreglumenn hafi ekið inn á bifreiðaplan Olís og hafi verið ákveðið að hafa tal af ákærða. Hafi lögreglumenn rætt við ákærða en með honum hafi verið C. Hafi ákærði tjáð lögreglu að hann hafi verið að koma frá Reykjavík og hafi hann stöðvað við Olís um 15 mínútum áður. Hafi lögreglumenn leitað eftir heimild til að fá að leita í bifreiðinni og ákærði veitt slíkt leyfi. Í skýrslu lögreglu er rakið að eftir nokkra leit hafi hvítt efni fundist í bifreiðinni. Hafi ákærði og C verið handtekin og flutt á lögreglustöð. Er rætt hafi verið við ákærða á lögreglustöð hafi vaknað grunsemdir um að ákærði hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna. Hafi ákærði veitt þvagsýni sem sýnt hafi jákvæða niðurstöðu um fíkniefni. Í framhaldi hafi tvö blóðsýni verið tekin úr ákærða til rannsóknar á áfengisinnihaldi. Loks hafi annað þvagsýni verið tekið úr ákærða stuttu síðar. Framburðarskýrsla hafi verið tekin af ákærða eftir töku fyrra blóðsýnisins.
Tekin var framburðarskýrsla af ákærða þennan dag kl. 05.10. Er ákærði var inntur eftir því hvaðan hann hafi verið að koma svaraði ákærði því til að hann hafi verið að koma frá Reykjavík. Er ákærði var spurður að því hvort hann hafi fundið til áhrifa vímuefna við aksturinn kvaðst ákærði ekki hafa gert það. Hafi ákærði notað fíkniefni síðasta föstudag og aðfaranótt laugardagsins. Ekki hafi hann notað aðra vímugjafa fyrir aksturinn. Ákærði svaraði því neitandi er hann var spurður um hvort hann hafi gert sér grein fyrir því áður en hann lagði af stað að fíkniefni myndu hugsanlega mælast á prófi sem af honum yrði tekið.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 29. september 2011 mældist 20 ng/ml af amfetamíni í blóði ákærða greint sinn. Samkvæmt matsgerðinni teldist ákærði hafa verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði ekki hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn, heldur hafi [...] hans, C, ekið bifreiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Ákærði kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna er komið var til Akureyrar og því myndi hann lítið eða ekkert eftir samskiptum við lögreglu greint sinn eða hvað hann hafi sagt. Ákærði kvaðst staðfesta að undirritun hans væri undir framburðarskýrslu ákærða hjá lögreglu.
C kvaðst hafa verið samferða ákærða þennan dag. Hafi þau verið saman í bifreið frá Reykjavík til Akureyrar. Hafi C ekið bifreiðinni þar sem ákærði hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna. Á Akureyri hafi lögregla ekki verið að leita upplýsinga um hver hafi ekið bifreiðinni. C kvaðst ekki hafa verið með ökuréttindi á þessum tíma. Það hafi ákærði vitað.
Heimir Heiðarsson lögreglumaður staðfesti að lögregla hafi haft afskipti af ákærða greint sinn. Hafi Heimir ritað frumskýrslu lögreglu vegna málsins. Ekki hafi vaknað grunur um að ákærði hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna fyrr en eftir að á lögreglustöð var komið. Hafi ákærði greint frá því að hann hafi ekið bifreiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Heimir kvaðst ekki muna eftir því að C hafi verið innt eftir því hvort hún hafi ekið bifreiðinni. Ákærði hafi verið mjög samvinnuþýður. Ákærði hafi verið skýrmæltur og ekki reikull í spori. Engin ástæða hafi verið til að efast um að annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni.
Ragnar Kristjánsson lögreglumaður kvaðst hafa sinnt málinu ásamt Heimi Heiðarssyni. Ákærði hafi lýst því fyrir lögreglu á bensínstöð Olís að hann hafi ekið bifreiðinni frá Reykjavík. Er ákærði hafi lýst því yfir hafi ákærði og C setið inni á Olís og verið að bíða eftir mat. Hafi þau setið saman við borðið er þessar samræður hafi átt sér stað. Ekki hafi C gert grein fyrir því að hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar. Lögreglumenn hafi flutt bifreið ákærða á lögreglustöð. Ragnar kvaðst hafa veitt því athygli að taska og aðrir hlutir C hafi verið í gólfi bifreiðarinnar farþegamegin frammí. Hafi hún tekið það úr bifreiðinni er ákærði og hún hafi verið flutt á lögreglustöð. Ákærði hafi verið kurteis og skýrmæltur. Á lögreglustöð hafi fyrst vaknað grunur um að ákærði hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum lyfja.
Ólafur Ólafsson lögreglumaður kvaðst hafa verið viðstaddur skýrslutöku af ákærða á lögreglustöð. Hafi ákærði verið vel hæfur til skýrslutökunnar. Þar hafi hann játað að hafa ekið bifreiðinni greint sinn.
Kristín Magnúsdóttir deildarstjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti matsgerð sína frá 29. september 2011. Það magn amfetamíns er mælst hafi í ákærða hafi verið mjög lítið magn.
Niðurstaða:
Ákærði hefur, svo sem honum er gefið að sök í ákæru, viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum 5,60 g af amfetamíni mánudaginn 12. september 2011. Ákærða er í þessum þætti málsins að öðru leyti gefið að sök að hafa þennan dag ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna óhæfur til að stjórna henni örugglega við bensínstöð Olís við Tryggvabraut 1 á Akureyri. Ákærði neitar sök. Kveður hann [...] [...], C, hafa ekið bifreiðinni. Kveðst ákærði lítið sem ekkert muna eftir afskiptum lögreglu af sér þetta sinn þar sem ákærði hafi verið undir miklum áhrifum fíkniefna. C hefur lýst því að hún hafi ekið bifreiðinni þetta sinn frá Reykjavík til Akureyrar.
Í máli þessu liggur fyrir framburður tveggja lögreglumanna sem bera að ákærði hafi þennan dag viðurkennt fyrir þeim að hafa ekið bifreiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur. Þá er á meðal rannsóknargagna málsins framburðarskýrsla af ákærða. Kveðst hann í upphafi skýrslutökunnar ekki vilja tjá sig sjálfstætt um sakarefnið heldur óski hann eftir því að svara spurningum. Svör ákærða þennan dag verða ekki skilin á annan hátt en að hann hafi verið að viðurkenna akstur bifreiðarinnar. Framburður ákærða um að hann muni næsta lítið eftir samskiptum sínum við lögreglu þennan dag og ekkert eftir skýrslutökunni er einkar ósennilegur þegar litið er til þess að mjög lítið magn amfetamíns mældist í blóði ákærða þetta sinn. Þegar til þess er litið að lögreglumenn komu að ákærða við bensínstöð Olís á Akureyri þennan dag, að ákærði viðurkenndi fyrir þeim akstur og að ákærði viðurkenndi í framburðarskýrslu aksturinn þykir dóminum hafið yfir allan vafa að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar [...] greint sinn. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærur 13. mars og 29. mars 2012.
Ákærðu hafa allir játað sök samkvæmt framangreindum ákærum eftir að ákæruvald hefur fallið frá ákæruefnum með þeim hætti er að framan er lýst. Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 að því er þessi ákæruefni varðar og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu, er sækjanda, bótakrefjendum og verjendum ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærðu hafa skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærum.
Ákærði, Pálmi Már, er fæddur í [...] 1986. Hann gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra á árinu 2010 fyrir brot gegn umferðarlögum. Hann var í héraðsdómi 24. nóvember 2011 dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 3ja ára fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Loks var hann 10. janúar sl. dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað.
Ákærði, X, er fæddur í [...] 1991. Frá árinu 2008 hefur ákærði 3 sinnum gengist undir sáttir og 6 sinnum verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi. Að því er síðustu brotin varðar var ákærði 13. apríl 2011 dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum og þjófnaðar, gripdeildar og nytjastuldarákvæðum laga nr. 19/1940. Þá var hann 2. desember 2012 dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum, þjófnað, gripdeild og nytjastuld.
Ákærði, Y, er fæddur í [...] 1989. Ákærða var veitt ákærufrestun á árinu 2005 fyrir nytjastuld. Frá því ári hefur ákærði 4 sinnum gengist undir sáttir og viðurlagaákvörðun og 5 sinnum verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi. Síðasti dómurinn er frá 2. nóvember 2011 er ákærði var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, eignaspjöll og brot gegn lögreglusamþykkt.
Ákærði, Z, er fæddur í [...] 1990. Hann hefur gengist undir viðurlagaákvörðun og tvær sáttir vegna refsiverðrar háttsemi. Þá var hann dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi til 2ja ára 16. mars 2009 fyrir líkamsárás.
Ákærði, Pálmi Már, var með dómum 24. nóvember 2011 og 10. janúar 2012 dæmdur í skilorðsbundna refsingu. Hluti brota ákærða í þessu máli eru framin fyrir uppsögu framangreindra refsidóma. Að því leyti eru brotin hegningarauki og ber að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940. Önnur brot eru ítrekun, sbr. 77. gr. laganna og skilorðsrof. Verða refsidómarnir frá 24. nóvember og 10. janúar nú teknir saman og ný heildarrefsing ákveðin með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum á grundvelli 60. gr. laga nr. 19/1940. Brot þau er ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli eru mörg og koma til viðbótar þeim brotum er ákærði var dæmdur fyrir áður. Ákærði hefur játað háttsemi sína greiðlega, ef frá er talin háttsemi skv. 34. tl. ákæru 13. mars 2012. Með hliðsjón af öllu framangreindu er refsing ákærða, Pálma Más, ákveðin fangelsi í 2 ár. Með hliðsjón af sakaferli ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Ákærði, X, var dæmdur í 8 mánaða fangelsi í dómi 2. desember sl. Brot þau sem ákærði er nú sakfelldur fyrir eru að hluta til hegningarauki við þennan dóm og að hluta til ítrekun. Hefur hann játað háttsemi sína greiðlega. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Y, var í dómi 2. desember 2012 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Eru brot ákærða í þessu máli hegningarauki við dóminn. Með hliðsjón af því verður ákærða ákveðin ný refsing á grundvelli heimildar í 60. gr. laga nr. 19/1940. Er refsing ákærða, með hliðsjón af játningu hans, ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem bundið verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Ákærði, Z, hefur staðist skilorð refsidómsins frá 16. mars 2009. Með hliðsjón af sakarefni málsins og greiðlegri játningu ákærða er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 mánuði, sem bundið verður skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði, Pálmi Már, sviptur ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins að telja. Þá er ákærði, X, sviptur ökurétti ævilangt.
Í málinu liggja fyrir skaðabótakröfur. Af hálfu F er krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Pálma Más að fjárhæð 15.990 krónur auk vaxta. Kröfuna hefur sett fram starfsmaður í öryggisdeild. Til kröfunnar hefur ekki verið stofnað af hálfu bærs fyrirsvarsmanns lögaðilans eða lögmanns fyrir hans hönd. Verður skaðabótakröfunni vísað frá dómi á þeim grundvelli. Hið sama á við um stofnun skaðabótakrafna G hf., H hf. og N hf. Verður þeim einnig vísað frá dómi.
Af hálfu L ehf. hefur verið krafist skaðabóta að fjárhæð 283.537 króna auk vaxta og málskostnaðar úr hendi ákærðu, Pálma Má, Y og Z. Ákærði, Pálmi Már hefur samþykkt bótakröfuna. Ákærði, Y, hefur hafnað bótakröfunni. Krafan byggir á 6. tl. ákæru en ákærðu hafa allir viðurkennt háttsemi sína samkvæmt þeim ákærulið. Að baki kröfunni eru reikningar og viðhlítandi gögn. Verður krafan því tekin til greina, ásamt vöxtum og málskostnaði, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu O ehf. hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Pálma Más, að fjárhæð 42.407 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Hefur ákærði samþykkt kröfuna. Verður hún, ásamt vöxtum og málskostnaði, tekin til greina svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu P hf. hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Pálma Más, að fjárhæð 63.794 krónur, auk vaxta. Ákærði hefur viðurkennt háttsemi skv. 3 tl. ákæru 29. mars 2012, sem laut meðal annars að innbroti í verslun P, [...] í [...], en skaðabótakrafan á rót að tekja til þess verknaðar. Viðurkenndi ákærði þar þjófnað á fjármunum samtals að fjárhæð 63.794 krónum. Með því að hafa viðurkennt þjófnað á fjármunum þessarar fjárhæðar hefur ákærði viðurkennt að hafa bakað bótakrefjanda fjártjóni sömu fjárhæðar. Af þeim ástæðum verður krafan þegar af þeirri ástæðu tekin til greina. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Af hálfu Q ehf. hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Pálma Más, að fjárhæð 10.000 krónur auk vaxta. Byggir skaðabótakrafan á ákæruefni samkvæmt 4. tl. ákæru 29. mars 2012. Ákærði hefur játað sök samkvæmt þessum lið ákæru. Með því að viðurkenna þjófnað á fjármunum þessarar fjárhæðar hefur ákærði viðurkennt að hafa bakað bótakrefjanda fjártjóni samsvarandi fjárhæðar. Af þeim ástæðum verður krafan tekin til greina. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Af hálfu R hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða, X, að fjárhæð 169.900 krónur, auk vaxta. Hefur ákærði samþykkt skaðabótakröfuna og verður hún tekin til greina svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu S ehf. er krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Pálma Más, að fjárhæð 412.192 krónur ásamt vöxtum og málskostnaði. Byggir skaðabótakrafan á 19. tl. ákæru 13. mars 2012. Ákærði hefur viðurkennt sök samkvæmt þessum ákærulið, sem varðar innbrot í bifreiðaverkstæði S ehf. við [...] og að hafa stolið þaðan bifreið með skráningarnúmerið [...] krónur sem þar var í viðgerð. Samkvæmt ákæru á ákærði að hafa skuldað reikning vegna viðgerðarinnar að fjárhæð 628.000 krónur. Skaðabótakrafa þessi var sett fram af hálfu S ehf. með bréfi lögmanns félagsins 7. mars 2012. Ákæra varðandi þennan ákærulið var gefin út 13. mars 2012. Var skaðabótakröfunnar ekki getið í ákæru, en lögreglustjóri gaf út framhaldsákæru vegna skaðabótakröfunnar 29. mars 2012. Verknaður þessi á sér stað aðfaranótt 29. janúar 2012. Var málið tekið til rannsóknar í beinu framhaldi af innbrotinu. Ákærði mætti á lögreglustöð 14. febrúar 2012, að eigin frumkvæði, til að gangast við innbrotinu og að hafa tekið af verkstæðinu bifreiðina [...]. Lýsti ákærði því þannig fyrir lögreglu að hann hafi farið með bifreiðina þangað í viðgerð. Viðgerð á bifreiðinni hafi átt að kosta 628.000 krónur og ákærði ekki átt fyrir viðgerðinni. Af þeim ástæðum hafi hann ákveðið að brjótast inn og taka bifreiðina. Lýsti ákærði því að hann væri umráðamaður bifreiðarinnar en ekki eigandi. Eigandi væri [...] [...] ákærða. Samkvæmt skaðabótakröfu S ehf. byggir skaðabótakrafan á reikningi útgefnum 21. desember 2011. Liggur sá reikningur frammi í málinu. Er reikningurinn gefinn út á ákærða. Í reikningnum kemur fram verklýsing varðandi viðgerð á bifreiðinni. Að mati dómsins veitir krafa S ehf., afrit af reikningi og skýringar ákærða við skýrslugjöf hjá lögreglu viðhlítandi stoð fyrir því að ákærði hafi samið við S ehf. um viðgerð á bifreiðinni. Verður ákærði dæmdur til að greiða umkrafðar skaðabætur, ásamt vöxtum og málskostnaði, svo sem í dómsorði greinir.
Ákærðu greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirlitum og málsvarnarlaun og þóknun verjenda svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Pálmi Már Þórarinsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá 2. desember 2011, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Pálmi Már, er sviptur ökurétti í 2 ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði, X, er sviptur ökurétti ævilangt.
Skaðabótakröfum F, G hf., H hf. og N hf. er vísað frá dómi.
Ákærðu, Pálmi Már, Y og X, greiði sameiginlega L ehf. 283.537 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 28. október 2011 til 21. mars 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðu greiði L ehf. sameiginlega 120.000 krónur í málskostnað.
Ákærði, Pálmi Már, greiði O ehf. 42.407 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. september 2011 til 21. mars 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði O ehf. 22.841 krónu í málskostnað.
Ákærði, Pálmi Már, greiði P hf. 63.794 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. september 2011 til 21. mars 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Pálmi Már, greiði Q ehf. 10.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 27. september 2011 til 21. mars 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Pálmi Már, greiði S ehf. 412.192 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, frá 21. desember 2011 til greiðsludags. Ákærði greiði S ehf. 75.412 krónur í málskostnað.
Ákærði, X, greiði R 169.900 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. júní 2011 til 21. mars 2012, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Pálmi Már, greiði einn 204.787 krónur í sakarkostnað. Ákærði, X, greiði einn 164.098 krónur í sakarkostnað.
Ákærði, Pálmi Már, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 326.300 krónur, ákærði X málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns, 150.600 krónur, ákærði Y málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Braga Dórs Hafsteinssonar héraðsdómslögmanns, 150.600 krónur og ákærði, Z, málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Lárussonar héraðsdómslögmanns, 150.600 krónur.