Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2003
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Áminning
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 371/2003. |
Íslenska ríkið (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) gegn Birni Ó. Helgasyni (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Opinberir starfsmann. Áminning. Miskabætur. Sératkvæði.
Lögreglumanninum B var veitt áminning þar sem yfirmenn hans töldu að hann hefði mætt ölvaður til vinnu og freistaði hann þess að fá áminninguna fellda úr gildi og krafðist miskabóta. Talið var að þar sem yfirmenn B hefðu ekki aflað sér fullnægjandi sönnunar um ölvunarástand hans í umrætt sinn hefði áminningin verið óréttmæt og var hún því felld úr gildi. Taldist áminningin hafa verið til þess fallin að skaða æru B, sem starfað hafði sem lögreglumaður um áratuga skeið og var fallist á að hann ætti rétt til miskabóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. september 2003. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var talið, að formlegir annmarkar hefðu verið á áminningu þeirri, sem varalögreglustjórinn í Reykjavík veitti stefnda 24. maí 2002, þar sem varalögreglustjóra hafi skort vald til að veita áminninguna. Þessi málsástæða stefnda um formlega annmarka kom fyrst fram við munnlegan flutning í héraði og varð því ekki aflað gagna um hana. Áfrýjandi mótmælti henni sem of seint fram kominni og óhaldbærri. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt erindisbréf fyrir varalögreglustjórann í Reykjavík 23. nóvember 1998, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem fram kemur, að hann hafi umsjón með starfsmannastjórn embættisins í samráði við lögreglustjóra. Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögmanns 28. ágúst 2003, sem einnig hefur verið lagt fyrir Hæstarétt, segir að í umsjón varalögreglustjóra með starfsmannastjórn og starfsmannahaldi embættisins felist meðal annars, að varalögreglustjóri veiti starfsmönnum áminningar samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996. Hafi varalögreglustjóri frá því að hann hóf störf við embættið 1. október 1999 veitt áminningar, sem starfsmenn embættisins hefðu fengið, með samþykki lögreglustjórans. Áður en stefnda var veitt umrædd áminning, hafi varalögreglustjórinn borið málið undir lögreglustjóra, sem hafi kynnt sér málavexti og samþykkt að tilefni væri til þeirrar áminningar, sem stefnda var síðar veitt. Samkvæmt þessu hafði varalögreglustjórinn í Reykjavík vald til að veita umrædda áminningu og var hún ekki haldin formlegum annmarka, auk þess sem málsástæða stefnda þessu viðkomandi var of seint fram borin.
Eins og fram er tekið í héraðsdómi er áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og verður að gera ríkar kröfur til stjórnvalds um sönnun fyrir því, að embættismaður hafi gerst sekur um þær ávirðingar, sem áminning er reist á. Ljóst virðist, að ekki var í upphafi ætlunin að beita stefnda frekari agaviðurlögum en að senda hann heim úr vinnunni umræddan dag. Áfrýjandi tryggði sér ekki sönnun fyrir því, að stefndi væri undir áhrifum áfengis og braut þar með gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna héraðsdóms er fallist á það, að áfrýjendur hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti, að stefndi hafi verið undir áhrifum áfengis við störf sín 12. apríl 2002 og hafi því skort efnisleg skilyrði fyrir því að veita honum áminningu 24. maí 2002. Áminningin var til þess fallin að skaða æru stefnda, sem starfað hafði sem lögreglumaður í 32 ár, auk þess sem hann var færður í annað starf, sem honum þótti áhugaminna. Verður því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Birni Ó. Helgasyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi og eru þeir í megindráttum ágreiningslausir.
Aðilar deila um það hvort lögreglustjóranum í Reykjavík hafi verið rétt að veita stefnda skriflega áminningu 24. maí 2002 samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fyrir að hafa verið ölvaður við störf föstudaginn 12. apríl sama ár.
Með dómi héraðsdóms var áminningin felld úr gildi á þeim grundvelli að á henni væru bæði formlegir og efnislegir annmarkar og var áfrýjanda gert að greiða stefnda miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Ég er sammála meiri hluta dómenda um að áminningin hafi ekki verið haldin formlegum annmarka, enda var málsókn í héraði ekki á því reist.
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að efnisleg skilyrði hafi verið til þess að veita stefnda áminningu. Hann bendir í fyrsta lagi á að í hugtakinu ,,ölvaður“ í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 felist ekki krafa um að starfsmaður sé greinilega drukkinn þannig að þess sjáist merki í orðum hans eða athöfnum. Túlka verði orðið og ákvæðið svo, að það sé ósamrýmanlegt að vera við störf sjáanlega undir áhrifum áfengis, en áminningin hafi átt rót sína að rekja til þess að samstarfsmenn stefnda hafi séð á honum vín. Í öðru lagi bendir áfrýjandi á að sannað sé með framburði varðstjóra og lögreglufulltrúa fyrir héraðsdómi, að stefndi hafi sjáanlega verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, enda hafi framburður þessara reyndu lögreglumanna að mati héraðsdómara verið afdráttarlaus og trúverðugur.
Eins og kemur fram í héraðsdómi lýtur ágreiningur málsaðila einkum að því, hvor aðila hafi, við þær aðstæður sem skapast höfðu á lögreglustöðinni þegar stefndi neitaði því aðspurður að vera undir áhrifum áfengis, átt að hafa frumkvæðið að því að stefndi gengist undir áfengismælingu til þess að hreinsa sig af grun um ölvun. Í héraðsdómi er talið að yfirmenn hans hafi átt þess kost að skora á hann að gangast undir mælinguna. Yfirmaður hans, lögreglufulltrúinn, hefði og getað kallað á aðra yfirmenn til þess að fá fleiri til að meta meinta ölvun stefnda. Hvorugt hafi verið gert heldur hafi honum verið leyft að fara heim. Fullnægjandi sönnun um að stefndi hafi verið undir áhrifum áfengis við störf sín í þeim mæli að hann teldist hafa verið ölvaður í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996 væri því ekki fram færð af áfrýjanda.
Ekki er unnt að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að lögreglustjóra sem vinnuveitanda sé rétt eða heimilt að gera starfsmanni sínum að gangast undir áfengismælingu eða skora á hann að gangast undir slíka mælingu, til sönnunar ölvunarástands starfsmannsins. Stefnda var hins vegar í lófa lagið að biðja um slíka mælingu, t.d. með öndunarsýni, til þess að sýna fram á haldleysi staðhæfinga yfirmanna sinna um að hann væri undir áhrifum áfengis. Það gerði hann ekki en fór heim við svo búið. Þó kom fram, bæði í framburði hans sjálfs og hjá dóttur hans, sem ók honum heim af stöðinni, að hún hafi beðið hann fara aftur inn og óska þess að öndunarsýni yrði tekið, en hann hafi ekki viljað það.
Þegar þetta er virt verður að fallast á með áfrýjanda að nægilega sé sannað með framburði tveggja lögreglumanna að stefndi hafi í umrætt sinn verið sjáanlega undir áhrifum áfengis og að frekari sönnunar sé ekki þörf. Samkvæmt því var rétt og skylt samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 að veita honum áminningu fyrir að hafa verið ölvaður við störf þennan dag, eins og gert var með áminningarbréfi lögreglustjóra. Ber því að sýkna áfrýjanda af kröfum stefnda.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26.
júní 2003.
Mál þetta var höfðað 14. október 2002, þingfest 17. sama mánaðar og dómtekið 26. maí 2003.
Stefnandi er Björn Ó. Helgason, kt. 251139-3349, Stigahlíð 24
Stefndu eru lögreglustjórinn í Reykjavík og íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt til fyrirsvars fyrir það.
Stefnandi krefst þess að ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík, dagsett 24. maí 2002, um að áminna stefnanda, með vísan til 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, verði dæmd ógild og íslenska ríkið verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, frá 24. maí 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hans. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnanda var með bréfi, dagsettu 24. maí 2002, undirrituðu af Ingimundi Einarssyni varalögreglustjóra, veitt áminning með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Stefnandi var þá skipaður rannsóknarlögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Í framangreindu bréfi sagði meðal annars að ástæða áminningarinnar væri sú að stefnandi hefði verið ölvaður við störf að morgni föstudagsins 12. apríl 2002.
Tildrög áminningarinnar voru í megindráttum þau að föstudaginn 12. apríl 2002 mætti stefnandi til vinnu kl. 8:06 á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík. Hann starfaði þá í rannsóknardeild sem fer með rannsókn á meintum sérrefsilagabrotum. Fljótlega eftir að hann kom til vinnu ákvað hann að fara á kaffistofu og settist þar niður skamma stund en fór síðan inn í reykherbergi inn af kaffistofu þar sem hann dvaldi einnig skamma stund. Eftir það ákvað hann að hafa upp á sönnunargagni í máli sem hann var að rannsaka. Um kl. 10 fór hann af lögreglustöðinni í þeim erindagjörðum að aka eiginkonu sinni til læknis en yfirmaður hans, Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúi hafði veitt honum leyfi til þess.
Um klukkan 11 hringdi Arinbjörn Snorrason aðalvarðstjóri í fyrrnefndan Óskar og greindi honum frá því að hann hefði fengið tvær ábendingar um að áfengislykt væri af stefnanda. Óskar kallaði stefnanda til sín er hann kom til baka um hádegisbil. Aðspurður kvaðst stefnandi ekki vera undir áfengisáhrifum. Hann hefði fengið sér bjór kvöldinu áður en vegna magasjúkdóms væri hægt að villast á lykt frá vitum hans og áfengislykt. Óskar greindi stefnanda frá því að hann fyndi af honum áfengislykt og teldi hann undir áhrifum áfengis. Stefnandi kveðst þá hafa óskað eftir að fara heim. Óskar kveðst hins vegar hafa beðið stefnanda um að fara heim og boðist til að aka honum. Stefnandi kvaðst myndi láta dóttur sína aka sér heim. Var stefnandi skráður út í viðveruskrá að loknu samtali kl. 12:31 og skildi hann bifreið sína eftir í porti við lögreglustöðina. Dóttir stefnanda ók honum heim en hún vann þá á lögreglustöðinni. Ekki voru tekin öndunarsýni, blóðsýni eða þvagsýni af stefnanda.
Að morgni mánudagsins 15. apríl var málið kynnt varalögreglustjóra, sem þegar hafði samband við Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúa sem staðfesti að hann væri ekki í vafa um að stefnandi hefði verið ölvaður í umrætt sinn. Að fengnum þeim upplýsingum svo og staðfestingu frá Arinbirni Snorrasyni, settum aðalvarðstjóra var ákveðið að tilkynna stefnanda um að áminning væri fyrirhuguð út af þessu atviki. Var stefnanda með bréfi varalögreglustjóra, dagsettu 26. apríl 2002, tilkynnt að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði í hyggju að veita honum skriflega áminningu vegna ölvunar við störf. Var stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 7. maí 2002, var fyrirhugaðri áminningu mótmælt á þeim grundvelli að embættið hefði ekki getað lagt fram neinar sannanir um að stefnandi hefði verið undir áfengisáhrifum við vinnu sína. Með bréfinu var send greinargerð stefnanda um málsatvik auk yfirlýsingar dóttur hans, Kristínar Önnu Björnsdóttur og tveggja samstarfsmanna hans, þeirra Arnþórs Bjarnasonar rannsóknarlögreglumanns og Harðar Sigurjónssonar rannsóknarlögreglumanns. Í yfirlýsingunum kom fram að enginn þessara aðila hefði orðið var við að stefnandi væri undir áhrifum áfengis umræddan dag.
Í kjölfarið var stefnandi áminntur eins og að framan er rakið. Þá var hann fluttur úr rannsóknardeild í boðunardeild.
Stefnandi fellst ekki á réttmæti áminningarinnar og höfðar mál þetta til ógildingar hennar og greiðslu miskabóta.
Helstu málsástæður og lagarök aðila
Af hálfu stefnanda er byggt á því að áminning, sem veitt sé á grundvelli 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, sé sérstaklega íþyngjandi fyrir starfsmann og því verði að túlka þröngt heimild vinnuveitanda til að áminna starfsmann og gera ríkar kröfur til málsmeðferðar. Þá verði ástæða áminningar að vera veruleg.
Stefnandi telur embætti lögreglustjórans í Reykjavík ekki hafa getað lagt fram neinar sannanir um að stefnandi hefði verið undir áfengisáhrifum við vinnu sína og þrátt fyrir að hægt hefði verið um vik hafi ekki verið tekin öndunarsýni, blóðsýni eða þvagsýni af stefnanda áður en hann hafi verið sendur heim vegna meintrar ölvunar. Engin gögn, sem réttlæti áminninguna, liggi fyrir og sé hún því ólögmæt.
Stefnandi starfi áfram sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík og hafi því ríka hagsmuni af að fá áminninguna ógilta.
Á því er byggt að áminningin hafi valdið stefnanda álitshnekki og óþægindum og verið sérstaklega særandi þar sem hann hafði starfað í fjölda ára hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík við góðan orðstír. Þá hefði hann í kjölfar málshöfðunarinnar verið færður úr rannsóknardeild sérrefsilagabrota í boðunardeild en störf þar séu ekki eins áhugaverð og þau sem hann hafi áður haft með höndum. Stefnandi telur því að áminningin hafi verið mjög íþyngjandi fyrir hann og að æra hans hafi verið sködduð. Stefnandi krefst þess að íslenska ríkinu verði gert að greiða honum 500.000 krónur í miskabætur og styður þá kröfu við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Þá er því loks haldið fram að varalögreglustjóri hafi ekki haft heimild til að veita áminninguna þar sem slík heimild sé bundin við forstöðumann stofnunar samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga, eða í þessu tilviki lögreglustjórann sjálfan.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að framangreind áminning hafi í einu og öllu verið lögmæt og er kröfum stefnanda um ógildingu hennar og miskabætur eindregið vísað á bug.
Vísað er til þess að stefnandi hafi borið fyrir dómi að hafa fengið sér 3-4 litla bjóra fyrir kvöldmat að kvöldi 11. apríl 2002. Þá hafi stefnandi haldið því fram að lykt, sem hugsanlega hefði lagt frá vitum hans um morguninn, stafaði af magakvilla sem gæti framkallað lykt sem villast mætti á og áfengislykt. Stefnandi hafi ekki stutt þá málsástæðu sína neinum læknisfræðilegum gögnum að vegna meints magakvilla geti lagt frá vitum hans áfengislykt án þess að fyrir hendi séu áhrif áfengis í blóði.
Af hálfu stefndu er ennfremur byggt á því að framburður tveggja lögreglumanna, sem borið hefðu að þeir hefðu ekki fundið áfengislykt af stefnanda, veiti framburði hans ekki stuðning, enda hefðu þeir báðir hitt stefnanda milli 8 og 10 um morguninn. Stefnandi kunni að hafa neytt áfengis eftir það en þó áður en Óskar Þór Sigurðsson hafi kannað áfengislykt frá vitum stefnanda og áfengisáhrif hans er hann hafi komið aftur til vinnu eftir kl. 12.00. Athyglisvert sé í ljósi viðbáru stefnanda um að magasjúkdómur geti haft áhrif á lykt úr vitum hans, að enginn þeirra sem lýst hafi því yfir að enga áfengislykt hefði verið að finna af stefnanda, hafi sagst hafa fundið úr vitum stefnanda lykt er unnt væri að villast á og tengja við magakvilla.
Stefndu telja það benda til þess að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis að hann hafi sætt sig við þau orð lögreglufulltrúans Óskars Þórs Sigurðssonar að hann væri undir áhrifum áfengis og að hann æki ekki heim sjálfur. Fái ekki staðist að stefnandi hefði látið svo alvarlega ásökun viðgangast teldi hann lögreglufulltrúann hafa haft á röngu að standa. Þá hafi stefnandi engan reka gert að því að hreinsa sig af framangreindum áburði með því að óska eftir því að fá að afsanna þá fullyrðingu með öndunar- eða blóðsýni. Hvorki lögreglan né aðrir vinnuveitendur hafi að lögum heimild til að skikka menn í öndunar- þvag- eða blóðsýni til sönnunar á ölvun starfsmanns. Hins vegar hafi stefnanda sjálfum verið þau úrræði tiltæk en hann hafi ekki kosið að nýta sér þau.
Af hálfu stefndu er vísað til þess að samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga skuli veita starfsmanni skriflega áminningu ef hann hefur verið ölvaður að starfi. Arinbirni Snorrasyni settum aðalvarðstjóra hafi borist tvær ábendingar um að áfengislykt væri af stefnanda og þegar hringt til Óskars Þórs Sigurðssonar lögreglufulltrúa í sérrefsilagadeild og greint honum frá því. Er stefnandi hafi komið á fund lögreglufulltrúans í hádeginu hafi hann ekki verið í vafa um að stefnandi væri ölvaður. Hafi lögreglustjóranum í Reykjavík því verið rétt og skylt samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 að veita stefnanda áminningu fyrir að hafa verið ölvaður við störf í umrætt sinn. Beri þannig að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Því er eindregið vísað á bug að beiting lögreglustjórans í Reykjavík á lögmæltum heimildum sínum samkvæmt 21. gr. starfsmannalaga til að veita starfsmönnum áminningu geti skoðast sem ólögmæt meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Stefndu telja að ekkert í áminningarbréfinu geti skoðast sem meingerð í hans garð jafnvel þótt talið yrði að nægar ástæður hefðu ekki staðið til hennar og hún ógilt á þeim forsendum. Samkvæmt því beri að sýkna af miskabótakröfu stefnanda. Til vara er krafist stórkostlegrar lækkunar hennar og upphafstíma dráttarvaxta mótmælt þar sem stefnandi hafi ekki sett fram miskabótakröfuna fyrr en í stefnu í máli þessu.
Niðurstaða
Lögreglumenn teljast til embættismanna, samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1997. Stefnandi hefur fengið skipun til að gegna starfi lögreglumanns og er óumdeilt að 21. gr. framangreindra laga tekur til hans, en ákvæðið er svohljóðandi:
„Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt."
Orðið ölvaður í þessu samhengi verður að skýra þannig að starfsmaður sé undir áhrifum áfengis og að þess sjáist nokkur merki í orðum hans eða athöfnum. Það er einstaklingsbundið hversu mikils áfengis menn þurfa að neyta til þess að verða ölvaðir í þessum skilningi og getur það oltið meðal annars á þyngd manna, á hve löngum tíma áfengisins er neytt og hvað menn hafa borðað.
Stefnandi bar sjálfur fyrir dómi að hann hafi drukkið lítilsháttar af 5% sterku öli fyrir kvöldmat, að kvöldi 11. apríl 2002, eða nánar tiltekið þrá eða fjóra 33 cl bjóra. Eftir að hann hafi komið til vinnu um kl. 8 að morgni 12. apríl 2002 hafi hann farið á skrifstofu sína en síðan inn á kaffistofu þar sem hann hafi fengið sér samloku og mjólk. Hafi lögreglumennirnir Viðar Waage og Hörður Sigurðsson setið til borðs með honum. Síðan hafi hann farið í reykherbergi inn af kaffistofu og setið þar við hringborð með Arnþóri Bjarnasyni rannsóknarlögreglumanni. Eftir það hafi hann farið á skrifstofu sína og hafi Óskar Þór Sigurðsson komið þangað, beygt sig yfir hann og beðið hann um að taka að sér aðkallandi verkefni. Stefnandi hafi þá minnt Óskar á að hann hefði verið búinn að gefa sér frí til að fara með eiginkonuna til læknis.
Stefnandi hafi ákveðið að ná í sönnunargagn í bráðbirgðageymslu í vesturenda lögreglustöðvarinnar. Hafi hann farið að leita að varðstjóra með lyklavöld og farið í því skyni til Þórs Gunnlaugssonar upplýsingafulltrúa, án þess þó að koma nálægt honum. Hann hafi síðan farið með Sigursteini Steinþórssyni varðstjóra og þeir leitað að sönnunargagninu og hafi það tekið langan tíma í þröngu rými. Á leiðinni til baka hafi hann hitt Hörð Sigurjónsson rannsóknarlögreglumann og þeir tekið tal saman í dyragætt.
Eftir það hafi stefnandi farið með eiginkonu sína til læknis og beðið eftir henni. Konan hafi verið í rannsókn og niðurstaðan verið sláandi. Hafi hann verði niðurdreginn af þeim sökum. Þegar hann hafi komið til baka á lögreglustöðina hafi Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúi kallað hann til sín og sagst hafa fregnað að fundist hefði af honum áfengislykt. Óskar hafi beðið hann um að anda framan í sig og þóst finna áfengislykt. Stefnandi kvaðst sjálfur hafa óskað eftir að fá að fara heim þar sem þeim hjónum liði ekki vel. Óskar hafi þá óskað eftir að hann færi ekki á bílnum og hafi stefnandi talið rétt að verða við því úr því að kjaftasögur væru komnar á kreik á lögreglustöðinni. Óskar hafi boðist til að aka honum heim en hann kosið að biðja dóttur sína, sem þá hafi unnið á lögreglustöðinni, að aka sér heim. Hann hafi sagt dóttur sinni frá því sem gerst hafði og hún beðið hann um að anda hressilega framan í hana en hún ekki fundið neina áfengislykt. Hafi hún hvatt hann til að fara til baka og krefjast þess að ganga undir áfengispróf en hann ekki talið þess þörf.
Stefnandi kvaðst hafa haft ýmsa meltingarsjúkdóma og mjög háar magasýrur. Hann kvaðst hafa haft samband við meltingarsérfræðinga en þeir hafi ekki treyst sér til að fullyrða að áfengislykt fyndist lengur af einum en öðrum. Hann kvaðst þó hafa á tilfinningunni að einhver súrlykt geti verið af honum vegna þessara sjúkdóma.
Dóttir stefnanda. Kristín Björnsdóttir kom fyrir dóm og bar á svipaða lund og faðir hennar um samskipti þeirra 12. apríl 2002.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Arnþór Bjarnason bar fyrir dómi að þeir stefnandi hefðu hist í reykherbergi umræddan morgun milli 7.30 og 9.30 og rætt heilmikið saman. Hafi hann ekki orðið var við neina lykt af stefnanda, sem villast hefði mátt á og áfengislykt, þótt hann hefði setið í um eins metra fjarlægð frá stefnanda.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Hörður Sigurjónsson bar að þeir stefnandi hefðu hist í dyragætt á lögreglustöðinni umræddan morgun og tekið saman tal um daginn og veginn. Stefnandi hafi staðið andspænis honum í dyragættinni og hann verið alveg eins og hann átti að sér. Hafi vitnið enga áfengislykt fundið af stefnanda, ekki orðið vart við roða í augum eða önnur merki um áfengisáhrif.
Þór Gunnlaugsson varðstjóri og upplýsingafulltrúi bar fyrir dómi að stefnandi hafi komið inn á skrifstofuna til hans umræddan morgun milli kl. 8 og 10 til að sækja sér Morgunblaðið. Stefnandi hafi verið í hinum hluta herbergisins. Stefnandi hafi verið rauðþrútinn í framan, rauðeygður og skilið eftir sig sterka áfengislykt í herberginu þegar hann hafi farið inn á kaffistofuna. Vitnið kvað stefnanda greinilega hafa verið ölvaðan og ófæran til starfa. Stefnandi hafi ekki verið reikull í spori en borið þess greinileg merki að hafa verið á slarki um nóttina. Hann kvaðst hafa haft samband við Arinbjörn Snorrason aðalvarðstjóra vegna þessa.
Arinbjörn Snorrason aðalvarðstjóri bar fyrir dómi að Þór Gunnlaugsson og fleiri lögreglumenn hefðu umræddan morgun komið til hans upplýsingum um að áfengislykt væri af stefnanda og hefði hann komið þeim upplýsingum áfram til Óskars Þórs Sigurðssonar lögreglufulltrúa.
Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúi bar fyrir dómi að stefnandi hefði hringt til sín umræddan morgun og óskað eftir að fá að aka konum sinni til læknis og vitnið leyft stefnanda það. Arinbjörn Snorrason aðalvarðstjóri hefði síðan hringt til hans milli kl. 10 og 10.30 umræddan morgun og tjáð honum að starfsmaður í almennu deildinni hefði veitt því athygli að áfengislykt hefði verði af stefnanda. Vitnið hafi síðan tekið á móti stefnanda þegar hann hafi komið um kl. 12.30. Stefnandi hafi neitað að vera undir áhrifum áfengis. Þeir hafi fyrst setið inni á skrifstofu hans en síðan staðið augliti til auglitis. Vitnið hafi látið stefnanda anda framan í sig og hafi fundið sterka, ferska áfengislykt af stefnanda. Stefnandi hafi auk þess verið með rauð augu og andlitið verið fölt og rauðleitt. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í nokkrum vafa um að stefnandi væri undir áhrifum áfengis en hann hefði 25 ára reynslu úr lögreglunni af því að meta slíkt. Vitnið hafi þá beðið stefnanda um að fara heim og ekki á bílnum. Hann kvaðst ekki hafa staðreynt áfengisáhrif stefnanda frekar og ekki haft í huga frekari aðgerðir gagnvart stefnanda. Vitnið kvaðst hafa vitað að stefnandi hefði átt við áfengisvandamál að stríða og hefði stefnandi borið um það sjálfur. Ekki hefði þó komið fyrir áður að stefnandi væri undir áhrifum áfengis við störf undir hans stjórn.
Vitnið kvaðst hafa gengið inn í deild þá er stefnandi starfaði í fyrr um morguninn út af manni sem var í fangageymslu en mundi ekki eftir að hafa talað sérstaklega við stefnanda af því tilefni.
Þórdís Harðardóttir ritari í rannsóknardeild bar að hún hefði starfað á skrifstofu fyrir framan deild stefnanda. Hún kvaðst hafa komið inn á skrifstofupláss stefnanda umræddan morgun og fundið áfengislykt þar inni. Stefnandi hafi ekki verið þar og kvaðst hún ekki hafa nálgast hann eða talað við hann umræddan morgun.
Pétur Sveinsson rannsóknarlögreglumaður starfaði með stefnanda í deild á umræddum tíma. Hann kvaðst ekki hafa hitt stefnanda umræddan morgun og ekki geta borið um áfengislykt af honum. Hann kvað fyrrgreinda Þórdísi hins vegar hafa talað um að áfengislykt hefði verið í skrifstofurýminu í umrætt sinn. Hann kvað lengi hafa verið vitað að stefnandi ætti við áfengisvandamál að stríða.
Umrædd áminning var eingöngu byggð á því að stefnandi hefði verið ölvaður við störf í umrætt sinn. Þessi fullyrðing er ekki byggð á mælingu á áfengismagni í blóði eða á öðrum viðurkenndum aðferðum sem almennt er notast við til að meta áfengisáhrif. Eins og málið liggur fyrir dóminum styðst fullyrðingin nær eingöngu við framburði þeirra Þórs Gunnlaugssonar varðstjóra og Óskars Þórs Sigurðssonar lögreglufulltrúa fyrir dómi. Sú ályktun Þórs að stefnandi hefði verið ölvaður byggist fyrst og fremst á mati hans á útliti stefnanda og áfengislykt af honum. Ályktun Óskars er hins vegar studd athugun á stefnanda í kjölfar upplýsinga um meinta áfengislykt af honum. Óskar lét stefnanda meðal annars anda framan í sig og fullyrti fyrir dómi að ferska áfengislykt hefði lagt frá stefnanda auk þess sem stefnandi hefði borið önnur merki um áfengisneyslu. Framburður umræddra lögreglumanna var afdráttarlaus og trúverðugur en sem lögreglumenn hafa þeir umtalsverða þjálfun í að meta áfengisáhrif manna.
Samkvæmt framansögðu hefur stefnandi viðurkennt að hafa drukkið um einn lítra af bjór fyrir kvöldmat, að kvöldi 11. apríl 2002. Hann hefur hins vegar neitað að hafa verið undir áhrifum áfengis að morgni 12. apríl 2002.
Stefnandi leiddi sem vitni í málinu tvo samstarfsmenn sína sem kváðust hafa verið í nálægð við hann umræddan morgun og rætt við hann án þess að finna nokkra lykt sem villast mætti á og áfengislykt. Dóttir stefnanda bar fyrir dómi að hún hefði enga lykt fundið af föður sínum er hún hafi látið hann anda framan í sig, á heimleið frá lögreglustöðinni í umrætt sinn.
Umræddur framburður vitna fellur vart saman við málatilbúnað stefnanda um að vegna magasjúkdóms kunni að hafa lagt lykt frá vitum hans sem villast megi á og áfengislykt. Hvað varðar framburð þeirra lögreglumanna, sem báru stefnanda í hag, verður einnig að hafa í huga að þeir hittu stefnanda um morguninn áður en hann ók konu sinni til læknis en mögulegt er að stefnandi hafi neytt áfengis eftir það. Vitnið Þór Gunnlaugsson hitti stefnanda hins vegar á svipuðum tíma og umrædd vitni og hann taldi stefnanda þá hafa verið undir áhrifum áfengis og ófæran til starfa.
Samkvæmt framangreindu hafa verið leiddar nokkrar líkur að því að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis við lögreglustörf að morgni 12. apríl 2002. Við mat á því hvort stefndu hafi fært fullnægjandi rök að því að svo hafi verið verður að líta til þess að áminning er mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem getur verið undanfari þess að embættismanni verði vikið úr starfi um stundarsakir samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 eða að fullu og öllu. Með vísan til umræddra réttaráhrifa áminningar þarf að gera ríkar kröfur til stjórnvalds um sönnun fyrir því að embættismaður hafi gerst sekur um þær ávirðingar sem áminning er grundvölluð á.
Algengasta aðferðin við að sýna fram á að menn séu undir áhrifum áfengis er að mæla áfengismagn í blóði þeirra eða í lofti frá vitum þeirra. Þess er þó sjaldnast kostur þegar um að ræða grun um að starfsmaður sé undir áhrifum áfengis við störf. Við mat á því hversu strangar kröfur sé rétt að gera til sönnunar í einstökum tilvikum skiptir máli hversu auðvelt var að tryggja sönnur fyrir ölvunarástandi viðkomandi starfsmanns.
Í því tilviki sem hér um ræðir áttu yfirmenn stefnanda þess kost að skora á hann að gangast undir áfengismælingu til að hreinsa af sér grun um ölvun en ef stefnandi hefði neitað því hefði það veitt sterka vísbendingu um að hann hefði verið ölvaður. Þá hefði Óskar Þór Sigurðsson lögreglufulltrúi getað kallað á aðra yfirmenn til að fá mat fleiri á meintum áfengisáhrifum stefnanda. Hvorugt var gert heldur var stefnandi sendur heim eða fékk leyfi til að fara heim. Hér verður að hafa í huga að umræddur lögreglufulltrúi hafði ekki í huga að beita stefnanda frekari agaviðurlögum vegna þessa atviks. Því verður stefnandi ekki látinn bera hallann af því að hafa ekki gert tilraun til að hreinsa sig af grun um ölvun í umrætt sinn. Það að stefnandi fór ekki heim á eigin bifreið, heldur lét dóttur sína aka sér, verður ekki skýrt honum í óhag enda mælti yfirmaður hans fyrir um að hann skildi bifreiðina eftir.
Enda þótt framburður þeirra vitna, sem borið hafa um að áfengislykt hafi verið af stefnanda í umrætt sinn og að útlit hans hafi bent til áfengisáhrifa, sé til muna trúverðugri en framburður þeirra vitna sem kveðast enga lykt hafa fundið af stefnanda verður að hafa í huga að ekkert vitnanna bar um að orð stefnanda eða athafnir hefðu bent til þess að hann væri ölvaður.
Framburður vitna um áfengisvandamál stefnanda og grun um að hann hefði áður mætt til vinnu undir áhrifum áfengis hefur ekkert sönnunargildi í máli þessu, enda hefur því ekki verið haldið fram að stefnandi hafi áður verið áminntur eða mátt sæta öðrum agaviðurlögum vegna ölvunar í starfi.
Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið þykja stefndu ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að stefnandi hafi verðið undir áhrifum áfengis við störf sín 12. apríl 2002 í þeim mæli að hann teljist hafa verið ölvaður í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996. Verður því fallist á með stefnanda að efnisleg skilyrði hafi skort fyrir því að veita honum umrædda áminningu 24. maí 2002.
Í 21. gr. laga nr. 70/1996 kemur skýrt fram að forstöðumaður stofnunar veiti áminning ef skilyrði eru fyrir hendi. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi því sem varð að umræddum lögum segir meðal annars svo:
„Tekið er af skarið um það að það heyri undir forstöðumann stofnunar að veita starfsmanni áminningu, en skylt er að hafa áminningu í skriflegu formi, einkum til að tryggja sönnun fyrir tilvist og efni áminningar."
Lögreglustjórinn í Reykjavík er forstöðumaður þess lögregluembættis sem stefnandi vinnur hjá. Fyrir liggur að áminning sú sem fjallað er um í þessu máli var veitt af Ingimundi Einarssyni varalögreglustjóra. Í 1. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um að við embætti lögreglustjórans í Reykjavík skuli starfa varalögreglustjóri en ekki er í lögunum mælt frekar fyrir um störf hans. Af texta áminningarbréfsins eða öðrum framlögðum gögnum verður ekki ráðið að varalögreglustjórinn hafi farið með störf lögreglustjóra á þeim tíma sem áminningin var veitt, komið á annan hátt fram sem staðgengill lögreglustjóra eða veitt áminninguna samkvæmt almennu eða sérstöku umboði frá honum.
Samkvæmt skýrum orðum 21. gr. laga nr. 70/1996, sem fá stoð í framangreindri athugasemd í frumvarpi því sem varð að umræddum lögum og öðru framansögðu, þykir áminningin ekki hafa verið veitt af þar til bærum aðila.
Með vísan til framangreindra efnislegra og formlegra annmarka á umræddri áminningu ber að fella hana úr gildi.
Stefnandi telur sig eiga rétt á greiðslu miskabóta vegna ólögmætrar áminningar með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og telur að áminningin hafi valdið honum álitshnekki og óþægindum og verið sérstaklega særandi fyrir hann þannig að æra hans hafi verið sköðuð.
Við úrlausn þess hvort umrædd áminning teljist hafa verið meingerð gegn æru stefnanda ber að líta til þess að hún var samkvæmt framansögðu ólögmæt bæði að efni og formi. Þá er upplýst í málinu að stefnandi var í kjölfarið fluttur úr rannsóknardeild sérrefsilagabrota í boðunardeild sama embættis.
Stefnandi hefur starfað sem lögreglumaður í 32 ár og áminning þar sem honum er gefin að sök ölvun í starfi sérstaklega særandi og lítillækkandi. Má því fallast á með stefnanda að umrædd áminning hafi verið til þess fallin að skaða æru stefnanda og þykir rétt að íslenska ríkið bæti stefnanda miska hans af þessum sökum með 100.000 krónum. Krafa þessi var ekki formlega höfð uppi fyrr en með stefnu í máli þessu og þykir því rétta að fallast á með stefndu að dráttarvextir reiknist ekki af dæmdri miskabótafjárhæð fyrr en frá stefnubirtingardegi sem var 14. október 2002.
Eftir úrslitum málsins þykir rétt að stefndu greiði stefnanda málskostnað í máli þessu og þykir hann hæfilega ákveðinn 250.000 krónur og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþjónustu og þess að stefnandi getur ekki dregið hann frá sem innskatt.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Kristján B. Thorlacius hdl. en af hálfu stefndu Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.
Dóminn kveður upp Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari.
D ó m s o r ð
Felld er úr gildi skrifleg áminning sem stefnanda, Birni Ó. Helgasyni, var veitt 24. maí 2002.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 100.000 krónur, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, frá 14. október 2002 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.