Hæstiréttur íslands

Mál nr. 546/2016

Sjálfstæðisflokkurinn fyrir hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs (Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)
gegn
Páli Heimissyni (Björn L. Bergsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðildarhæfi
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Máli sem S höfðaði gegn P fyrir hönd hóps stjórnmálaflokka á grundvelli málsóknarumboða var vísað frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt málið væri höfðað fyrir hönd hópsins hefði verið tekið fram í stefnunni að hópurinn sem slíkur væri ekki sjálfstæð lögpersóna og hefði því ekki eigin kennitölu. Án tillits til þess hvort S gæti rekið mál vegna annarra á grundvelli umboða sem hann hefði lagt fram gengi hann sjálfur út frá því að hópurinn myndaði ekki persónu að lögum sem notið gæti aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 10. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt stefnu til héraðsdóms höfðaði sóknaraðili mál þetta „f.h. hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs“ á hendur varnaraðila. Þótt málið sé höfðað fyrir hönd hópsins var tekið fram í stefnunni að hópurinn sem slíkur væri ekki „sjálfstæð lögpersóna“ og hefði af þeim sökum ekki eigin kennitölu. Til að höfða málið hefur sóknaraðili aflað umboðs frá þessum erlendu stjórnmálaflokkum til málsóknar á hendur varnaraðila en hann höfðaði málið með fyrrgreindum hætti í stað þess að reka það í nafni flokkanna allra.

Án tillits til þess hvort sóknaraðili geti rekið mál vegna annarra á grundvelli umboða sem hann hefur lagt fram gengur hann sjálfur út frá því að hópurinn myndi ekki persónu að lögum sem notið getur aðildarhæfis samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sjálfstæðisflokkurinn, greiði varnaraðila, Páli Heimissyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2016

                                                                                           I

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 7. júlí sl., er höfðað með stefnu sem birt var í Lögbirtingablaði 29. janúar 2016, af Sjálfstæðisflokknum, Valhöll, Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, fyrir hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs, gegn Páli Heimissyni, Sirul livezii 2, 500051 Brazov í Rúmeníu.

         Í málinu gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda, f.h. hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs, skaðabætur að fjárhæð 19.412.025 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

         Af hálfu stefnda er að svo stöddu einungis gerð krafa um að málinu verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áskilur stefndi sér rétt til að leggja fram greinargerð um efnisvarnir verði ekki fallist á frávísunarkröfuna.

                                                                                           II

         Stefndi mun hafa tekið við starfi ritara hóps íhaldssamra stjórnamálaflokka innan Norðurlandaráðs (íhaldshópsins) árið 2008. Í upphafi var starfshlutfallið 30%, en var aukið í 70% þegar stefnandi, Sjálfstæðisflokkurinn, tók við formennsku íhaldshópsins árið 2009. Fram kemur í stefnu að stefndi hafi, vegna starfa sinna sem ritari eða framkvæmdastjóri íhaldshópsins, fengið til afnota American Express kreditkort íhaldshópsins í ársbyrjun 2009. Mun kortið í hagræðingarskyni hafa verið skráð á nafn og kennitölu stefnanda, eins og allir bankareikningar hópsins, enda hópurinn ekki „sjálfstæð lögpersóna“, eins og segir í stefnu. Mun starfsmaður stefnanda hafa greitt skuldbindingar vegna notkunar kortsins með fjármunum af tékkareikningi sem var sérstaklega merktur íhaldshópnum. Í stefnu kemur fram að þeir fjármunir hafi verið millifærðir af gjaldeyrisreikningi sem hafi geymt framlög Norðurlandaráðs til íhaldshópsins.

         Rannsókn mun hafa farið fram á bókhaldi íhaldshópsins þegar formennska hans fluttist frá Sjálfstæðisflokknum til finnsks íhaldsflokks. Í kjölfar þeirrar rannsóknar var gefin út ákæra á hendur stefnda 18. desember 2012 þar sem honum voru gefin að sök umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda stefnanda, Sjálfstæðisflokkinn, þegar hann notaði kreditkort flokksins í 321 skipti til úttekta á reiðufé og til kaupa á vörum og þjónustu fyrir samtals 19.412.025 krónur. Af hálfu stefnanda, Sjálfstæðisflokksins, var jafnframt gerð krafa um að stefndi yrði dæmdir til greiðslu skaðabóta að sömu fjárhæð.

         Stefndi var sakfelldur fyrir framangreint brot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2013. Jafnframt var hann dæmdur til að greiða stefnanda, Sjálfstæðisflokknum, umkrafðar skaðabætur. Í héraðsdómi var á því byggt að flokkurinn myndi bera það tjón sem hlotist hefði af brotum stefnda þó að fjármunirnir hafi komið úr sjóði íhaldshópsins. Þá var vísað til fundargerðar framkvæmdastjóra íhaldsflokkanna frá 11. desember 2012 þar sem fram hafi komið að Sjálfstæðisflokkurinn myndi krefjast bóta í málinu og endurgreiða íhaldshópnum fjármunina.

         Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Í dómi réttarins 5. febrúar 2015 var skaðabótakröfu Sjálfstæðisflokksins vísað frá héraðsdómi með þeim rökum að af gögnum málsins yrði „hvorki ráðið að bótakrefjandi hafi endurgreitt þá fjármuni, sem krafan tekur til, né að honum hafi verið falið málsóknarumboð til innheimtu þeirra“. Því væri aðild bótakrefjanda svo vanreifuð að vísa þyrfti kröfunni frá héraðsdómi.

         Stefnandi, Sjálfstæðisflokkurinn, lagði við þingfestingu þessa máls, 15. mars 2016, fram fjögur umboð, dags. 23. júní 2015, frá jafn mörgum stjórnmálaflokkum, sem tilheyra hópi íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs, ásamt Sjálfstæðisflokknum. Þessir flokkar eru Det Konservative Folkeparti frá Danmörku, Det Nationella Samlingspartiet (Kookomus) frá Finnlandi, Høyre frá Noregi og Nya Moderaterna frá Svíþjóð. Í umboðunum, sem eru samhljóða, segir að undirritaður, sem í þremur tilvikum eru framkvæmdastjórar viðkomandi flokka og í einu tilviki ritari flokksins, veiti Sjálfstæðisflokknum fullt og ótakmarkað umboð til að höfða einkamál gegn stefnda til að endurheimta umrædda fjármuni. Í niðurlagi allra umboðanna segir að samkvæmt umboðinu sé Sjálfstæðisflokknum heimilt að koma fram í dómi fyrir hönd viðkomandi stjórnamálaflokks.

                                                                                           III

         Af hálfu stefnda eru færð þau rök fyrir frávísun málsins að lög standi ekki til málsóknarumboðs af því tagi sem stefnandi byggi á til stuðnings því að höfða málið í eigin nafni. Stefndi bendir á að fjármununum sem um ræðir hafi verið ráðstafað af reikningi sem hafi tilheyrt hópi íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs. Þessi hópur sé ekki sjálfstæð lögpersóna samkvæmt því sem fram komi í stefnu. Því verði ráðið af málatilbúnaði stefnanda að stjórnmálaflokkarnir séu sameiginlegir eigendur ætlaðrar skaðabótakröfu sem höfð sé uppi í málinu. Því ættu þeir að standa sameiginlega að málshöfðuninni að mati stefnda, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Umboðin sem liggi fyrir veiti stefnanda ekki heimild til að höfða mál þetta í eigin nafni. Að auki sé enga heimild að finna í lögum fyrir eigendur ætlaðrar kröfu til að veita stefnanda umboð til þess að fara með málið fyrir þeirra hönd í eigin nafni. Slík málsóknarumboð helgist ekki af dómvenju. Því beri að vísa málinu frá. Jafnframt gerir stefndi athugasemd við opinbera birtingu stefnunnar, enda telur hann engar forsendur til annars en að stefnubirting hefði átt að takast. Því sé áhorfsmál hvort skilyrðum 89. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið fullnægt svo birta hafi mátt stefnuna í Lögbirtingablaði.

         Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar, auk þess sem hann krefst málskostnaðar. Stefnandi byggir á því að röksemd stefnda fyrir því að birtingu stefnu hafi verið áfátt sé haldlaus, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Þá hafi skilyrðum 89. gr. sömu laga verið fullnægt, enda hafi birting verið reynd án árangurs á því heimilisfangi sem stefndi hafði gefið upp sem heimilisfang sitt í Rúmeníu. Stefnandi mótmælir einnig röksemdum stefnda fyrir því að stefnanda skorti umboð til þess höfða málið í eigin nafni. Í því efni vísar stefnandi einkum til forsendna Hæstaréttar Íslands fyrir því að vísa skaðabótakröfunni frá dómi. Hafi rétturinn talið að stefnanda skorti málsóknarumboð til að gera kröfuna í eigin nafni, en úr því hafi nú verið bætt með þeim umboðum sem liggi fyrir. Þá vísar stefnandi til þess að fjöldi dæma séu um það í dómaframkvæmd að aðila hafi verið heimilað að reka mál í eigin nafni fyrir hönd annarra á grundvelli málsóknarumboða án sérstakrar lagaheimildar, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 1955, sem birtir eru á bls. 108 og 321 í dómasafni réttarins það ár, og í málum nr. 119/2004, nr. 560/2009 og nr. 338/2009.

                                                                                        IV

         Sæki stefndi þing við þingfestingu máls, eins og stefndi gerði við þingfestingu þessa máls, breytir engu þótt stefna hafi ekki verið birt eða komið á framfæri við hann, galli hafi verið á birtingu hennar eða að birt hafi verið með of skömmum fyrirvara, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Því kemur ekki til álita að vísa málinu frá á þeim grunni að skilyrðum hafi ekki verið fullnægt til að birta mætti stefnuna í Lögbirtingablaði.

         Stefnandi, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur höfðað mál þetta fyrir hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs. Þeir fjármunir sem sakamálið laut að tilheyrði íhaldshópnum, eins og stefnandi kallar hann, en hann kveður þennan hóp ekki vera sjálfstæðan lögaðila. Þar sem stefnandi höfðar málið fyrir hönd íhaldshópsins virðist hann þó ekki líta svo á að íhaldshópurinn njóti aðildarhæfis, en ágreiningslaust er að hann var rétthafi þeirra fjármuna sem málið lýtur að.

         Í málinu liggur fyrir staðfesting Britt Bohlin, framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, þess efnis að Det Konservative Folkeparti, Nationella Samlingspartiet, Høyre og Moderata samlingspartiet auk Sjálfstæðisflokksins myndi íhaldshópinn (Den Konservative Gruppe i Nordisk Råd). Nye Moderaterna í Svíþjóð er annað heiti á Moderata samlingspartiet. Fyrirsvarsmenn þessara norrænu flokka hafa veitt stefnanda, Sjálfstæðisflokknum, umboð til þess að koma fram fyrir hönd þeirra við málshöfðun þessa. Stefnandi hefur kosið á grundvelli umboðanna að höfða málið fyrir hönd íhaldshópsins, sem flokkarnir tilheyra, og var, eins og áður segir, rétthafi þeirra fjármuna sem málið lýtur að.

         Í dómi Hæstaréttar Íslands 5. febrúar 2015 var frávísun skaðabótakröfunnar rökstudd með því að bótakrefjandi hefði hvorki endurgreitt íhaldshópnum umrædda fjármuni né verið falið málsóknarumboð til innheimtu þeirra. Með málsóknarumboði er átt við umboð þar sem umboðsmaðurinn kemur fram í eigin nafni eða fyrir hönd umbjóðanda undir rekstri tiltekins máls, eins og stefnandi gerir í þessu máli. Verður heimild stefnanda til að höfða mál í skjóli slíks málsóknarumboðs að vera reist á ákvæðum settra laga eða eiga næga stoð í dómvenju, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 146/2008.

         Engin ákvæði eru í settum lögum er veita stoð fyrir því að stefnandi höfði málið í eigin nafni á grunni málsóknarumboðs frá öðrum stjórnmálaflokkum í íhaldshópnum innan Norðurlandaráðs.

         Dómvenja var fyrir því framan af 20. öld að lögmenn kæmu fram í dómsmálum hér á landi eins og þeir stæðu að málarekstrinum í eigin nafni en fyrir hönd erlendra aðila. Á síðustu áratugum hefur þessi háttur á málshöfðun erlendra aðila verið aflagður, enda rök til þess að líta svo á að í raun hafi lögmenn í þessum tilvikum komið fram í skjóli málflutnings- en ekki málsóknarumboðs. Fær málshöfðun stefnanda, Sjálfstæðisflokksins, fyrir hönd íhaldshópsins ekki stoð í þessari dómvenju.

         Í þessu máli leitar stefnandi dóms um greiðslu skaðabóta fyrir hönd hóps, sem stefnandi tilheyrir, á grundvelli málsóknarumboða annarra stjórnmálaflokka innan sama hóps. Aðstæður eru því aðrar en í þeim tilvikum þar sem dómstólar hafa heimilað að félög, sem er ætlað að gæta hagsmuna meðlima þess, höfði mál á grundvelli málsóknarumboða í þágu réttinda tiltekinna félagsmanna, þó að sá háttur á málshöfðun eigi sér ekki beina stoð í lögum. Verður málshöfðun stefnanda fyrir hönd íhaldshópsins ekki reist á slíkum fordæmum.

         Önnur dæmi úr dómaframkvæmd sem stefnandi hefur vísað til, m.a. frá miðri síðustu öld, geta að mati dómsins ekki heldur veitt stoð fyrir málshöfðun í þeim búningi sem hér um ræðir. Verður heimild stefnanda, Sjálfstæðisflokksins, til þess að höfða mál þetta á grundvelli málsóknarumboða stjórnmálaflokka í íhaldshópnum því hvorki reist á ákvæðum settra laga né dómvenju. Annmarki af þessum toga veldur frávísun málsins og ber því að fallast á þá kröfu stefnda.

         Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                               Ú R S K U R ÐA R O R Ð:

         Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

         Stefnandi, Sjálfstæðisflokkurinn fyrir hönd hóps íhaldssamra stjórnmálaflokka innan Norðurlandaráðs, greiði stefnda, Páli Heimissyni, 250.000 krónur í málskostnað.